ORÐSTÖÐULYKILL PASSÍUSÁLMANNA

Hjálparskrá


Um orðstöðulykilinn

Orðstöðulykill er skrá yfir orðmyndir sem koma fyrir í tilteknum texta eða textum, ásamt upplýsingum um nánasta samhengi þeirra. Algengastir eru svonefndir KWIC-lyklar (e. Key Word In Context) þar sem hvert dæmi um lykilorðið stendur í miðri línu ásamt orðum sem standa næst á undan því og eftir í textanum. Jafnframt fylgir hverju dæmi tilvísun sem sýnir hvar í textanum það er að finna. Úr orðstöðulyklum má jafnan lesa margvíslegan fróðleik um viðkomandi texta, hvort sem áhuginn beinist að orðaforða, orðasamböndum, setningaskipan, stíl eða efnistökum.

Orðstöðulykillinn sem hér birtist nær yfir Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Þar eð hér er um að ræða bundið mál er samhengi hverrar orðmyndar einskorðað við ljóðlínuna þar sem hún kemur fyrir en einnig er hægt að fletta upp í meðfylgjandi texta og skoða þannig stærra samhengi. Þessi orðstöðulykill er ekki lemmaður, þ.e. mismunandi beygingarmyndir eru ekki sameinaðar undir einu uppflettiorði eins og gert er í orðabókum, heldur er hver orðmynd sjálfstæð færsla.

Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem orðstöðulykill er gerður að Passíusálmunum. Árið 1950 komu út í Reykjavík Passíusálmar Hallgríms Péturssonar með orðalykli eftir Björn Magnússon. Eins og nafnið bendir til fylgir þessari útgáfu orðstöðulykill; hann er lemmaður en nær aðeins yfir nafnorð, lýsingarorð, töluorð og sagnorð.


Notkun lykilsins

Gluggi vefsjárinnar skiptist í fjóra afmarkaða ramma. Hægt er að breyta stærð allra rammanna; ef bendillinn er færður á mörkin milli þeirra breytist útlit hans og þá er hægt að færa mörkin að vild með músinni.

Auðvelt er að nota leitarskipun vefsjárinnar (Ctrl+F) til að finna orðmyndir sem koma fyrir í textanum. Leitin verkar á þann ramma sem síðast var smellt á. Einfaldast er að velja „allur listinn“ í orðmyndalistanum og láta forritið leita þar, þaðan er síðan greið leið að orðstöðulyklinum og textanum.


Texti Passíusálmanna sem hér er notaður er fenginn frá Netútgáfunni og er tekinn eftir útgáfu Helga Skúla Kjartanssonar (Reykjavík 1977; endurpr.: Akranesi 1987, 1992, 1995, 1998).

Margvíslegan fróðleik um Passíusálmana og höfund þeirra er að finna á Passíusálmavef Ríkisútvarpsins.

Orðstöðulykill: © Orðabók Háskólans.
Ábendingar og athugasemdir má senda til Aðalsteins.


Smellið á orðmynd í listanum til vinstri til að fá orðstöðulykilinn aftur.