Texti       

HULDUFÓLKSSÖGUR
18 BARNA FAÐIR Í ÁLFHEIMUM

(Þjsb./J.Á. I)

Það var á bæ einum um sumar, að fólk allt var á engjum nema húsfreyja; hún var heima og
gætti bæjar með syni sínum á þriðja eða fjórða árinu. Sveinn þessi hafði vaxið og vel
dafnað til þess tíma; altalandi var hann orðinn, skýr og efnisbarn eitthvert hið mesta.
En með því konan átti um ýms bæjarstörf að annast auk sveinsins, varð hún að víkja sér
frá honum litla hríð og fór út í læk, er var skammt frá bænum, að þvo mjólkurtrogin.
Skildi hún barnið eftir á meðan í bæjardyrunum, og segir ekki af því, fyrr en konan kom
aftur eftir drukklanga stund. Þegar hún yrðir á það, hrín það og æpir illilegar og
ámáttlegar en hún átti von á, því áður var barnið mesta spektarbarn, þýðlynt og þægt.
En nú fær hún ekki af því nema óhljóð ein og illhrinur.

Líður svo nokkuð hér frá, að barnið mælir ekki orð frá munni, en var ákaflega keipótt
og rellið, svo konan kunni ekkert lag á þessum háttaskiptum; það vex og ekki og lætur
fíflslega mjög. Konan varð mjög angruð af þessu og tekur það ráð, að hún fer að hitta
grannkonu sína, er þótti vera hyggin og margfróð, og segir henni frá hörmum þeim, sem
sig hafi hent. Konan innir hana grannt eftir, hvað langt sé síðan, að barnið hafi tekið
þessa fásinnu, og hvernig hún ætli það hafi atvikast. Móðir sveinsins segir henni allt
af létta, eins og gengið hafði. Þegar grannkonan hin fróða hafði heyrt alla málavöxtu,
segir hún: "Heldurðu ekki, góðin mín, að sveinninn sé umskiptingur? Því það er ætlun
mín, að um hann hafi skipt, meðan þú gekkst frá honum í bæjardyrunum." "Ég veit ekki,"
segir hún, "eða geturðu ekki kennt mér ráð til að komast eftir því?" "Það mun ég geta,"
segir konan; "skaltu einhverntíma skilja barnið eftir eitt saman og láta einhverja
nýlundu bera fyrir það, og mun það þá eitthvað mæla, er það sér engan í kring um sig.
En þú skalt hlera til og vita, hvað því verður að orði. Þyki þér þá orðtök sveinsins
undarleg og ískyggileg, skaltu strýkja hann vægðarlaust, unz eitthvað skipast um." Að
svo mæltu skildu þær talið, og þakkaði móðir sveinsins grannkonu sinni heilræðin og fór
heim síðan.

Þegar konan er heim komin, setur hún höldupott lítinn á mitt eldhúsgólf; síðan tekur
hún sköft mörg, bindur hvert við enda annars, svo að efri endinn tók allt upp í
eldhússtrompinn, en við hinn neðri batt hún þvöruna og lét hana standa í pottinum.
Þegar hún hafði veitt þennan umbúnað í eldhúsinu, sótti hún sveininn og lét hann þar
einan eftir verða; gekk hún þá úr eldhúsinu og stóð á hleri þar, sem hún sá gegnum
dyragættina inn í eldhúsið. Þegar hún var fyrir litlu burtu gengin, sér hún, að barnið
fer að vappa í kringum pottinn og virða hann fyrir sér með þvörunni í og segir síðan:
"Nú em eg svo gamall sem á grönum má sjá, átján barna faðir í álfheimum, og hef eg þó
aldrei séð svo langan gaur í svo lítilli grýtu." Fer þá konan aftur inn í eldhúsið með
vænan vönd, tekur umskiptinginn og afhýðir hann lengi og óvægilega. Æpir hann þá
ógurlega. Þegar konan hefur strýkt sveininn um hríð, sér hún, að ókunnug kona kemur inn
í eldhúsið með sveinbarn á handlegg sér, fagurt og frítt; lét hún vel að því og segir
við konuna: "Ójafnt höfumst við að; eg dilla barni þínu, en þú berð bónda minn." Að svo
mæltu setur hún af sér sveininn, son húsfreyju, og verður hann þar eftir, en hefur karl
sinn burtu með sér, og hurfu þau þegar. En sveinninn óx upp hjá móður sinni og varð
efnismaður.
ÁLFKONA Í BARNSNAUÐ

(J.Á. I)

Fyrir austan, - sagt er, að það hafi verið í Odda, - sótti stúlka þvotta á kirkjugarð
um kvöld; en þá hún var að taka þvottana, kom til hennar maður, er hún eigi þekkti.
Hann tekur í hönd hennar og biður hana að koma með sér, og segir hann, að hana skuli
ekkert saka; - "en viljirðu það eigi gjöra," segir hann, "þá muntu fá að reyna
umbreytingu á gæfu þinni." Stúlkan þorði ekki annað en gjöra eftir beiðni hans og
gengur með honum, þar til þau koma að húsbæ, að henni sýndist, þó það reyndar væri
hóll; síðan ganga þau að dyrum bæjarins; hann leiðir hana inn og eftir löngum göngum,
þangað til þau komu í baðstofu. Dimmt var að sjá fyrir hennar augum í öðrum enda
baðstofunnar, en ljós brann í hinum; þar sá hún, að kona lá á gólfi og hafði hljóð
nokkur og gat ei fætt barnið. Konu gamla sá hún hjá henni mjög angurbitna. Maðurinn, er
leiddi hana þangað, mælti til hennar: "Gakktu upp og hjálpaðu konu minni, svo hún fæði
barnið." Stúlkan gekk upp og þar að, er konan lá, en gamla konan fór á burt; en hin
aðkomna stúlka fór höndum um konuna, er á gólfi lá, eftir því er við átti og hún vissi,
að við þurfti; greiddist þá fljótt um fyrir konunni, svo að barnið fæddist þegar. En
þegar barnið var fætt, kom faðir barnsins með glas og sagði henni að bera úr því í augu
barnsins, en varast að láta það koma í sín augu. Hún gjörði svo, að hún bar úr glasinu
í augu barnsins; en þá það var búið, strauk hún fingrinum um annað auga sitt. Sá hún þá
með því auganu, að margt fólk var í hinum enda baðstofunnar. Maðurinn tók af henni
glasið og gekk með það á burt, kom síðan aftur og þakkaði henni fyrir hjálpina, og hið
sama gjörði konan; sögðu þau henni, að hún mundi vera gæfukvenmaður. Hann gefur henni
þá klæði í svuntu, er hún þóttist aldrei slíkt séð hafa; síðan tekur hann í hönd hennar
og leiðir hana á burt, þangað til hann kom með hana að kirkjugarðinum, þaðan sem hann
leiddi hana, og gengur síðan á burt, en hún fer heim til sín.

Á þessum komandi vetri andaðist kona prestsins, er þar var, en stúlka þessi varð aftur
kona hans. Oft sagðist hún sjá huldufólk; það var og, að þá hún sá það taka saman
heyflekki sína, lét hún taka saman hey hjá sér, enda var þá skammt til vætu, þótt bjart
loft væri.

Það var einu sinni, að hún fór í kaupstað með prestinum, manni sínum. Þá hún var í
búðinni, sá hún þar hinn fyrrnefnda álfamann, að hann bar varning út frá
huldukaupmanni, er þar var. Þá varð henni það á, að hún heilsaði honum og sagði: "Sæll
vertu, kunningi; ég þakka þér fyrir síðast." En hann gekk þá að henni, brá fingri í
munn sér og dró um auga hennar; en við það brá henni svo, að hún sá eigi þaðan í frá
huldufólk eða athafnir þess.
SAGNIR EIRÍKS FRÁ BRÚNUM

(J.Þork.)

Nokkrar munnmælasögur um huldufólk, bæði sem ég hef séð og heyrt sagðar.

Ég var uppalinn í Hlíð undir Eyjafjöllum í liðug tuttugu ár og heyrði mikið talað um
huldufólk þar fjær og nær, þó ég muni fátt af því að skrifa það greinilega. En það, sem
ég man og sá sjálfur með mínum eigin augum, vil ég hér tilfæra.

Þegar ég var á tólfta ári, var ég á gangi í góðu veðri skammt frá bænum, mig minnir á
góu, seint á degi. Sá ég þá, hvar drengur með lítinn sófl í hendinni rekur þrjár kýr og
skítugan vetrung að læk rétt fyrir ofan túnið. Kýrnar og vetrungurinn röðuðu sér að
læknum og drukku, og drengurinn stendur þar yfir með sófl í hendinni, liðuga hundrað
faðma frá mér.

Mér datt strax í hug, að þessar kýr væri huldufólkseign. Þær voru jafnstórar og okkar
kýr, rauðskjöldótt, gráhálsótt og svarthuppótt. Svo hættu kýrnar að drekka, og
drengurinn rak þær til baka dálítinn spotta þar að grjótgarði, og var þar lítið hlið á
honum, og voru tvær kýrnar komnar í gegnum hliðið. Þá var kallað til mín af bæjarmanni,
er sagði: "Hvað ertu að horfa á?" Og þá leit ég til hans.

En er ég leit við aftur að sjá, hvað varð af kúnum, sá ég ekkert, og sá ég þá mikið
eftir því, að ég leit af kúnum, því mig langaði að sjá, hvað af þeim yrði.

Þar skammt frá hliðinu eða garðinum var stór steinn grasi vaxinn og stór hola inn undir
hann. Okkur krökkunum var alvarlega bannað að fara inn undir steininn eða hafa þar
nokkur ólæti; við mundum hafa illt af því, því að þar væri huldufólk.

Í öðru sinni sá ég, hvar kvenmaður var að reka fjórar ær yfir um Húshamra, sem kallaðir
eru, fyrir ofan bæinn í Hlíð, og svo rak hún þær yfir annan klett og hvarf þar. Ég
þekkti hana ekki; hún átti ekki heima í Hlíð og ekki á bæjunum í kring, því það var
huldukona.

Í ungdæmi mínu man ég vel eftir, að ég og allt kirkjufólk og presturinn, séra Ólafur,
mig minnir Pálsson, var komið til (Steina) kirkju fyrir dag á hátíðum og byrjað að
hringja og embætta í dögun og byrjað á sálminum: Dagur, er dýrka ber o. s. frv.

Þá var ekkert úr né klukka. Þá var farið á fætur um miðnætti, gefið öllum skepnum,
lesinn jólanóttarlesturinn í Jónsbók, borðað og búið sig, allt fyrir dag, en ekki var
kaffið þá að vekja sig á.

Einn nýársmorgun fyrir dag man ég eftir því, að ég var orðinn kirkjubúinn og stend í
bæjardyrunum. Þá var heiðríkja og norðurljós, en ekki tungl. Sá ég þá, að fjöldi af
fólki gekk vestur túnið fyrir neðan bæinn. Ég fór inn í bæ og sagði fólkinu, að það
væri margt fólk að fara vestur túnið. Nokkuð af fólkinu kom út, og sá enginn neitt,
nema húsmóðir mín sá eins og ég, og sagði hún það allt vera huldufólk, er ætlaði til
sinnar kirkju; og fólkið var ekkert hlessa á þessu, því það var þá í almæli, að það
væri fjöldi til af því. Þetta voru að tölu 20-30 manns, karlar og konur og börn á öllum
aldri.

Í Drangshlíð við Eyjafjöll er stór drangur í túninu, því nær tuttugu mannhæðir, og
öðrum megin við hann eru hellar og stór ból inn undir hann, og hafa bændur þar allt
sitt hey og fjós.

Í fjósinu lifði ekkert ljós, hverninn sem reynt var að halda því lifandi. Aldrei þurfti
að vaka þar yfir kú um burð. Ef kýr bar á nóttu, sem oft var, þá var kálfurinn uppi í
básnum hjá henni á morgnana, og hankaðist þá kúnum aldrei á. En ef nýr bóndi kom á
bæinn og lét af vana vaka þar yfir kú, varð eitthvað að henni, og fólk hélst þar ekki
við á nóttunni í dimmunni fyrir ýmislegu, er það sá og heyrði.

Og einn maður í ungdæmi mínu hafði verið í Skarðshlíð, sem vantaði dögum saman, og var
hann hjá huldufólki í Drangnum og sagði, að huldustúlka væri að sækja eftir að eiga
sig. Og hann sagði þar í drangnum væri margt fólk og gott að vera hjá því; það væri
skikkanlegt og reglusamt og fullt svo fallegt fólk sem við. Hann sagði það ætti
kirkjusókn í Skóganúp; þar væri stór kirkja og þar væri önnur kirkja í dalnum, því þar
væri margt fólk til og frá.

Hann sagði það ætti fé, kýr og hesta og skip og reri karlmenn mjög oft og fiskuðu eins
og við og flytti heim á hestum og mjög lík væri öll hentisemi hjá þeim og okkur; það
hefði lampaljós og kerti.

Og svo þegar árið var liðið og hann losnaði úr vistinni, - því hann var vinnumaður, -
var alskrafað, að hann hafi horfið, og sást ekki meir. Ekki var leitað að honum, því
fólk vissi, hvert hann fór, þó hann segði ekki frá því.

Í Skógum var bóndi, er Ísleifur hét, afi Ólafs gullsmiðs í Reykjavík. Hann fór á fjöru
einu sinni sem oftar í tunglsljósi og góðu veðri, og er hann kom fram á kampinn, sá
hann, að skip var að lenda og að menn voru að bera upp í fjöruna, árar fyrst og svo
fisk og lúðu. Hann sagðist hafa farið af baki hestinum og horft á þetta stundarkorn og
hugsað með sér: þetta er huldumannaskip og huldumenn - og datt í hug að tala við
mennina og gekk niður fjöruna.

Og er hann kom niður að fiskakösinni, þá kippir hesturinn af honum taumunum, svo að
hann snýr við og nær hestinum aftur; og er hann lítur við, sá hann ekkert, hvorki
skipið, menn né fisk. Þetta hafði verið fram af Skóganúp, þar sem maðurinn sagði, að
stóra kirkjan huldufólksins væri. Þessi Ísleifur hafði verið stilltur og óskrafinn
maður.

Líka var það í almæli, að ýmsir menn hafi séð mörg skip á sjó einstöku sinnum fram af
Eyvindarhólum, þó ekki væri mennskir menn á sjó. En víst er um það, að allir menn sáu
þar stórt skarð í brimið alla tíð, eins og nokkurs konar höfn. En ef mennskir menn
fluttu þangað skip sín til róðra, skyldi alltaf verða eitthvað að, skipin fyllti af
sjó, brotnuðu stundum og lá við manntjóni. Frá þessari höfn sást, að menn fóru með
hesta í taumi klyfjaða af fiski upp undir Hrútafellsfjall og hurfu þar.

Undir Eyjafjöllum er hóll, sem kallaður er Hafurshóll, og háir klettar á. Í einum þeira
sást ljós alla vetra frá Nýjabæ. Ljósið kom upp í hálfdimmu og lifði til kl. 11-12 á
hverju kvöldi og gat ekki verið annað en huldumannaljós.
FAÐIR MINN ÁTTI FAGURT LAND

(Þjsb./Huld I)

Í Sultum í Kelduhverfi var eitt sinn drengur sem hafði þann starfa á hendi að reka kýr
þaðan og upp í Víkingavatn sem er næsti bær. Skammt þaðan eru hagar sem kýrnar ganga í.

Svo er háttað landslagi að meðfram veginum eru björg sem liggja næstum óslitin eins og
hlaðinn veggur milli bæjanna. Er það því álitlegur bústaður huldufólks enda segja
fornar sögur að það eigi þar heima. Á einum stað óx framundan bjarginu rauðaviðarrunnur
einn, mikill og fagur. Var það siður drengs að slíta hríslu úr runnanum hvert sinn er
hann fór þar hjá þegar hann vantaði keyri á kýrnar.

Líður nú fram sumarið og hefur strákur hinn sama sið og fer nú runnurinn að láta á sjá
uns hann eyðileggur hann með öllu. En um haustið fer að bera á undarlegum veikindum í
drengnum, visnaði fyrst höndin og hann hálfur og síðan veslast hann upp og deyr um
veturinn.

En skömmu síðar var Oddur nokkur, er um sjötíu ár var fjármaður á Víkingavatni, staddur
nærri björgum þessum, heyrir hann þá kveðið með raunalegri röddu inni í bjarginu:

"Faðir minn átti fagurt land
sem margur grætur.
Því ber ég hryggð í hjarta mér
um daga og nætur."

Var það ætlun manna að runnurinn sem strákur reif upp hafi verið skemmtilundur
huldufólksins og hafi það viljað launa honum lambið gráa og valdið vanheilindum
drengsins.
FLUTNINGUR ÁLFA OG HELGIHALD

(Þjsb./J.Á. I)

Sagnir Purkeyjar-Ólafs

Þá eg var á Arnarstapa plássbóndi, vildi svo til á nýársdagskvöldi einu, að þrennt eða
fernt af fólki mínu fór út, og sá það, sem út kom, hvar lest fór ofan plássið; ekki
taldi það hestana, hvað margir þeir voru, en víst höfðu þeir tíu verið, auk þeirra er á
var riðið. Þrjár konur höfðu riðið í söðlum; fóru konur þessar og lestin að hól einum,
er var þar úti á klettunum fyrir ofan gjá eina, er Pumpa er kölluð, og hvarf þetta
allt, að því sýndist inn í hólinn: Þetta var reyndar huldufólk, er flutti sig búferlum.

1819 var unglingspiltur á Stóru-Ökrum í Skagafirði, er Guðmundur hét og var kominn
undir tvítugt; hann var smali; hann lét út kindur fyrir dag morguninn eftir þrettánda;
og var þá gott veður. Rak hann kindurnar fram á dal, er á var beitt, þegar veður var
bærilegt.

Þegar hann kom með kindurnar á dalinn, sá hann, hvar lest fór; í lestinni voru bæði
karlmenn og kvenmenn; einnig voru þar börn, og sat kvenfólkið og börnin í kerrum, en
mikið farteski var á hestunum. Guðmundi kom ekki til hugar annað en að það væri hans
kyns menn, þótt honum þætti það ólíklegt, að menn um þann tíma væru þar með flutning á
ferð, og svo það, að það sat á kerrum.

Hann vildi finna fólkið og hljóp frá kindunum; en það herti sig að komast undan út með
klettum nokkrum. Komst hann þó á hlið við það; en ei gat hann við það talað, því svo
var langt á milli; líka fór að koma í hann efi, hvað þetta væri. Nú kemur það að hömrum
nokkrum; þar tekur það ofan.

Sýnast honum þar opnar húsdyr og ljós inni brenna og þó þrennar eða fernar dyr opnar;
sér hann, að fólk þetta gengur þar að; kvenfólkið gengur inn og börnin, en karlmenn
láta farteskið inn í hin húsin. Síðan heyrði hann hringingar og söng, en ekkert orð
skildi hann; þegar hann kom að klettunum, voru þá líka aftur luktir klettarnir, en
kerrurnar, sem honum sýndist; kvenfólk og börn vera í, voru fyrir hans augum steinar.
Sá hann nú, hvaða fólk þetta var, og vildi nú halda þaðan sem hraðast.

Seig þá að honum svefn svo dár, að hann gat ei gengið; honum fylgdi og magnleysi, svo
að hann lagði sig niður og sofnar; vaknar síðan aftur, og er þá kominn dagur. Hann
gengur nú magnlítill upp undir klettana; verður hann þá enn að leggja sig hjá klettunum
og sofnar í stað, en vaknar síðan við, að honum fannst kalt vatn drjúpa á kinnvanga
sér.

Var þá dagur kominn um allt loft; hann fann litla vætuna, þá hann strauk um vangann, en
þá var hann búinn að fá megn sitt og afl, en var þó nokkuð ringlaður; komst hann þó til
kinda sinna, er allar voru í hóp í dalnum.

Rak hann síðan kindurnar heim um kveldið og lætur þær inn í húsin mjög óreglulega; fer
hann svo heim. Þótti fólki hann mjög eyðilegur í nokkurn tíma þar á eftir, en það fór
þó smám saman af, og bar svo ei meira á honum.
HULDUKONUHEFNDIN


Innan til í N . . firði bjó ekkja ein, er Ketilríður hét; hún var mesti búforkur og
atorkukona, en nokkuð þótti hún einþykk og þétt í lund. Ketilríður þessi átti son einn,
Sæmund að nafni; hann var einbirni og kominn undir tvítugt, er saga þessi gerðist.
Nokkuð agasöm hafði Ketilríður þótt við Sæmund í uppeldinu, og kom það snemma fram í
fari hans; hann varð fáskiptinn og fálátur og fór jafnan einförum; ágerðist þetta
nokkuð með aldrinum.

Svo háttaði til þar, er Ketilríður bjó, að það var nærri sjó, og gengu dimmir drangar
út með lendingunni. Var það mál manna, að huldufólk byggi í dröngum þessum, og var það
ekki fjarri Ketilríði sjálfri að festa trúnað á það.

Nú lagði Sæmundur einmitt tíðast leið sína niður að dröngunum, og sáu menn það til
hans, að hann var oft að klifra þar í klettunum. En ofan til í dröngunum var skál í
hamrana, og þegar þar var komið, hvarf maður sjónum, því klettabogi lukti fyrir
landmegin. Þessi skál var uppáhalds áfangastaður Sæmundar; þar dvaldi hann löngum,
stundum daglangt, og ágerðist það svo, að heita mátti, að hann hefði alltaf annan
fótinn niðri í dröngum.

Ketilríði hugnaðist lítt, þegar á leið, atferli þetta, og einn góðan veðurdag tók hún
son sinn á eintal og gekk fast á hann, - bað hann segja sér, hvað hann hefðist þarna að
öllum stundum. Sæmundur sagði fátt af, en lét sem sér þætti skemmtilegt að sitja uppi í
skálinni; sæti hann þar ýmist í eigin hugleiðingum eða hann væri að "dunda" eitthvað í
höndunum, t. d. að tálga spýtu, eða hann sæti aðgerðarlaus og horfði út á fjörðinn.
Ketilríði leist þetta allótrúlegt, en fékk ekkert frekar upp úr honum og lét það því
gott heita.

Sæmundur fór sínu fram eftir sem áður, en hagaði því þó helst svo, að móðir sín vissi
ekki af, er hann færi frá bænum. Ketilríður hafði samt vakandi auga á honum, þótt lítið
bæri á, og einu sinni, er hún sá Sæmund hverfa upp í skálina, fór hún í humátt á eftir
honum, ef verða mætti, að hún yrði einhvers vísari. Hún læddist upp í skálina, en þar
var Sæmundur hvergi; heyrði hún þá mannamál úr berginu og þóttist þar kenna rödd sonar
síns; var hann venju fremur blíðróma, enda var það þýð stúlkurödd, er undir tók. Ekki
heyrði Ketilríður orðaskil, en þó þótti henni nú tekin af öll tvímæli um athæfi
Sæmundar.

Ketilríður fór nú leiðar sinnar heim; hún hafði ekki mörg orð í frammi við Sæmund, er
hann kom heim seinna um daginn, en morguninn eftir mannaði hún bát og sigldi alla leið
út eftir firði. Hún linnti ekki ferðinni, fyrr en hún kom að ysta bænum í firðinum.

Þar bjó röskur maður og velmegandi, er Björn hét, og átti hann eina dóttur barna, Helgu
að nafni. Þau Helga og Sæmundur voru fermingarsystkin og höfðu gengið saman til
prestsins.

Nú skiptir það engum togum, að þegar Ketilríður kemur að máli við Björn bónda, hefur
hún bónorðs og biður Helgu til handa syni sínum. Björn tekur því alllíklega og eins
dóttir hans, en það þykir mönnum kynlegt, að sjálfur biðillinn skuli ekki vera með í
förinni. Ketilríður hefur þar skjót svör um og segir, að hann sé nú ekki þesslegur,
hann sonur sinn, að hann hafi einurð á að biðja sér stúlku, en sjálfur skuli hann þó
sækja Helgu að hálfsmánaðarfresti, ef hún lofist honum og vilji koma í kynnisför til
tilvonandi tengdaforeldra sinna, Helga fái víst leyfi til að vera mánaðartíma eða svo
hjá sér og unnustanum.

Það er ekki að orðlengja það: Helga er þarna föstnuð Sæmundi og ákveðið, að hann skuli
sækja hana á tilteknum tíma. Síðan situr Ketilríður í góðu yfirlæti hjá Birni það, sem
eftir var dags, og fer heim að morgni.

Þegar heim er komið, tekur hún enn son sinn á eintal og segir honum hið ljósasta af
ferðum sínum. Honum fellur þá allur ketill í eld og gengst nú við því, að hann sé í
þingum við huldumey þarna niðri í dröngunum og að hann hafi lofað að eiga hana; hann
vilji ekki fyrir nokkurn mun missa hana og geti því ekki lofast Helgu.

Ketilríður segir, að það loforð sé nú veitt, sig hafi lengi grunað þennan - eins og hún
tiltekur; hún les nú yfir honum ófögur orð, en lýkur svo ræðu sinni, að eins og hann
þekki, þá verði við það að standa, er hún hafi gert fyrir hans hönd; hún hafi gert
honum það til góðs eins - og hann eigi nú að sækja Helgu að hálfum mánuði liðnum. Svo
slíta þau talinu.

Sæmundi þykir nú súrt í brotið, en sér, að hann muni verða að láta síga undan ofríki
móður sinnar, og eitthvað kynni þó heldur að verða undanfærið síðar, hyggur hann, ef
hann sæki stúlkuna orðalaust og láti sem líklegast. Nánar gætur voru hafðar á því, að
Sæmundur kæmist ekki einsamall niður að dröngunum eftir það.

Nú kemur sá dagur, að Sæmundur á að sækja Helgu. Ketilríður mannar út bát og segir
formanni, að hann skuli reyna að sæta góðu veðri heim aftur og fara ekki af stað seinna
en um dagmálabil, svo að hann nái vel heim í björtu. Hún biður hann að muna sig vel um
þetta, og hann lofar því; síðan kveður hún son sinn og er þá venju fremur blíð í bragði
og klökknar við kveðjurnar.

Leggja þeir nú af stað að heiman, verða vel reiðfara og lenda heilu og höldnu hjá Birni
um kvöldið. Þar fá þeir góðan greiða og dvelja þar til morguns. Að morgni er gott veður
og stillt, og hyggja menn vel til ferðarinnar, en Helga verður síðbúin, og líður svo
fram að hádegi, að hún er ekki tilbúin. Formanni koma þá til hugar orð Ketilríðar og er
nú á báðum áttum, hvort hann eigi að leggja af stað, en það ríður baggamuninn, að
veðrið var alveg jafngott og um morguninn og að hann á hinn bóginn áleit þetta óþarfa
varúð úr Ketilríði, af því að illt var að lenda við drangana í dimmu.

Laust eftir hádegi er Helga albúin, svo að formaður leggur af stað með hana og Sæmund.
Segir ekki af ferðum þeirra, nema það fer að blása lítið eitt á móti; seinkaði það ekki
alllítið förinni, svo að auðsætt var, að síðlent mundi verða; þó heldur formaður áfram
öruggur.

Nú snýr sögunni heim á bæinn. Það var farið að dimma, og ekkert sást enn til bátsins;
þó þótti ekki alveg útséð um, að hann kæmi, vegna þess að hann var á móti þeim og
hvessti heldur, er að kvöldi leið. En þegar þeir voru enn ókomnir um náttmálaleytið og
niðamyrkur orðið, þá taldi Ketilríður það alveg frá, að þeir hefðu farið af stað um
morguninn, og skipaði hún hjúum sínum að ganga til svefns.

Sjálf fór hún inn í svefnloft sitt og háttaði. Ekki gat hún sofnað, en á hana sé
óviðkunnanlegur höfgi, svo að hún var rétt á milli svefns og vöku. Eftir nokkra stund
þykist hún sjá, að ung stúlka fölleit kemur á skjáinn yfir rúmi hennar og fer að
einblína á hana, þó heldur raunalega. Ketilríði verður svo við þetta, að henni finnst
sem hún sé hneppt í fjötra; hún getur hvorki hrært legg né lið og langar þó til að fara
á fætur; en ekki er um það að tala; augnaráð stúlkunnar hvílir á henni eins og
eitthvert heljarfarg, sem hún getur ekki undan risið.

Þegar stúlkan hefur horft svona á Ketilríði nokkra stund, mælir hún vísu þessa af munni
fram, dræmt og raunalega:

"Hér í vörum heyrist bárusnari,
höld ber kaldan ölduvald á faldi,
sveltupiltar söltum veltast byltum,
á sólarbóli róla í njólu gjólu;
öflgir tefla afl við skeflurefla,
sem að þeim voga - boga - toga - soga!
En sumir geyma svíma í draumarúmi,
sofa ofurdofa í stofukofa."

Þegar stúlkan hafði farið með vísu þessa, hvarf hún af glugganum, og þá gat Ketilríður
loksins risið á fætur. Þóttist hún af vísunni fara nærri um, hvað um væri að vera. Hún
fleygði sér í fötin í dauðans ofboði, kallaði á pilt, sem var heima fyrir, og sagði
honum að klæða sig hið allra bráðasta og koma niður að sjó. Sjálf fór hún út í mesta
flýti, og var þá komið aftakaveður.

Þegar hún kom niður að sjónum, fann hún bát sinn brotinn í spón í malarkampinum, og
rétt hjá, inn undir dranganum, kom hún auga á hrúku einhverja. Það var Helga, er sat á
hækjum sínum í fjöruborðinu; hún var orðin vitskert; en fyrir framan hana lá Sæmundur
rotaður, með heilann úti. Ekkert sást til hinna mannanna. Pilturinn, er Ketilríður
hafði vakið, var kominn niður eftir; skipaði hún honum nú að bera Helgu heim, en sjálf
tók hún lík Sæmundar í fang sér og bar til bæjar.

Ketilríði gömlu féllst svo mikið um þetta, að hún lagðist í rekkju og reis aldrei úr
henni síðan. Skömmu fyrir andlát sitt sagði hún frá því, sem fyrir hana hafði borið þá
um kvöldið og áður er greint. Einnig sagði hún frá því, að áður en hún sendi Sæmund til
að sækja Helgu, hafi sig dreymt konu eina mikla vexti, er sagðist vera huldukona úr
dröngunum; hún ætti dóttur þá, er Sæmundur hefði lofast, en Ketilríður ætlaði að fá
hann til að svíkja, og því væri hún nú komin til að segja henni, að það skyldi aldrei
lánast eða ella kosta líf Sæmundar. Út af þessum hótunum kvaðst Ketilríður hafa lagt
svo ríkt á við formanninn að gæta vel veðurs og fara árla á stað; en þetta hafi nú
brugðist sér og svo farið sem sagan tér; huldukonan hafi sent dóttur sína til að varna
sér vöku og koma í veg fyrir, að Sæmundi yrði bjargað. Þannig sagðist Ketilríði frá.

Hún dó upp úr þessu, en þegar frá leið, fór Helga að ná vitinu aftur, og sagði hún frá
því síðar á ævi sinni, hvernig báturinn fórst. Þau höfðu haft hann á móti allan daginn,
og svo hafði hann rokið á um kvöldið, er þau nálguðust land, en formaðurinn vildi ekki
láta þess ófreistað að lenda. Þegar þau komu inn undir drangana, sáu þau, hvar kona, há
og mikil vexti, stóð uppi á klettunum; hafði það þau áhrif á formanninn, að hann ærðist
og stökk frá stjórn. Kvað Helga konu þessa hafa þulið einhverjar bölbænir yfir þeim og
sérstaklega beint þeim að Sæmundi og sér, en í því bili hafi hún misst rænuna og ekki
vitað af sér framar.

Lýkur hér sögunni um huldukonuhefndina.
HILDUR ÁLFADROTTNING

(Þjsb./J.Á. I)

Einu sinni bjó bóndi á bæ nokkrum til fjalla, og er þess hvorki getið, hvað hann hét né
bærinn. Bóndi var ókvongaður, en bjó með bústýru, er Hildur hét, og vissu menn ógjörla
um ætt hennar. Hún hafði öll ráð innanstokks á heimilinu, og fóru henni flestir hlutir
vel úr hendi. Hún var geðþekk öllum heimamönnum og þar með bónda; en þó bar ekki á, að
hugir þeirra færu saman um of, enda var hún stillt kona og heldur fálát, en þó
viðmótsgóð.

Heimilishagur bónda stóð með blóma miklum, nema að því einu, að hann átti illt með að
fá smalamenn; en hann var sauðabóndi góður og þótti sem fóturinn færi undan búi sínu,
ef sauðamann brysti. Kom þetta hvorki af því, að bóndi væri harður við smala sinn, né
heldur af því, að bústýran léti þá vanta það, er hún átti til að leggja. Hitt var
heldur, sem á milli bar, að þeir urðu þar ekki gamlir og fundust jafnan dauðir í rúmi
sínu á jóladagsmorguninn.

Á þeim tímum var það lenska hér á landi, að messað var á jólanóttina, og þótti ekki
minna hátíðabrigði að því að fara þá til kirkju en á sjálfan jóladaginn. En af
fjallbæjum, þaðan sem langt var til kirkju, var það ekkert heimatak að fara til tíða og
vera kominn þar í tækan tíma fyrir þá, sem svo stóð á fyrir, að ekki gátu orðið fyrr
tilbúnir að heiman en stjarnan var komin jöfnu báðu hádegis og dagmála, eins og
gjarnast var, að sauðamenn kæmu ekki fyrr heim hjá bónda þessum.

Ekki þurftu þeir að vísu að gæta bæjarins, sem ávallt var venja, að einhver gerði
aðfanganætur jóla og nýárs, meðan annað bæjarfólk væri við tíðir, því frá því Hildur
kom til bónda, hafði hún ávallt orðið til þess sjálfboðin, um leið og hún annaðist það,
sem gera þurfti fyrir hátíðirnar, matseld og annað, sem þar að lýtur, og vakti hún yfir
því allajafna langt á nótt fram, svo að kirkjufólkið var oft komið aftur frá tíðum,
háttað og sofnað, áður en hún fór í rúmið.

Þegar svo hafði gengið langa hríð, að sauðamenn bónda höfðu allir orðið bráðkvaddir á
jólanóttina, fór þetta að verða héraðsfleygt, og gekk bónda af því alltreglega að ráða
menn til starfa þessa og því verr sem fleiri dóu. Lá þó alls enginn grunur á honum né
öðrum heimamönnum hans, að þeir væri valdir að dauða sauðamanna, sem allir höfðu dáið
áverkalaust. Loksins kvaðst bóndi ekki geta lagt það lengur á samvisku sína að ráða til
sín smala út í opinn dauðann og hljóti nú auðna að ráða, hversu fari um fjárhöld sín og
fjárhag.

Þegar bóndi hafði staðráðið þetta og hann var orðinn með öllu afhuga að vista nokkurn
til sín í því skyni, kemur eitt sinn til hans maður, vaskur og harðlegur, og býður
honum þjónustu sína.

Bóndi segir: "Ekki þarfnast ég þjónustu þinnar, svo að ég vilji við þér taka."

Komumaður mælti: "Hefur þú ráðið sauðamann til bús þíns næsta vetur?"

Bóndi kvað nei við og kvaðst ekki hafa ásett sér að gjöra það oftar, - "og muntu heyrt
hafa, fyrir hverjum ósköpum sauðamenn mínir hafa orðið til þessa."

"Heyrt hef ég það," segir komumaður; "en ekki munu forlög þeirra fæla mig frá
fjárgeymslu fyrir þig, ef þú vilt við mér taka."

Bóndi lét það þá eftir honum, með því hinn sótti fast á, að hann réð hann til sín fyrir
sauðamann. Eftir þetta líða tímar fram, svo að hvorum hugnar vel við annan, bónda og
sauðamanni, og eru allir vel til hans, því að hann var háttprýðismaður, ódeigur og
ötull til hvers, sem reyna skyldi.

Nú bar ekki til tíðinda fram að jólum; fer þá sem vant er, að bóndi fer með heimamönnum
sínum til kirkju á aðfangadagskvöldið, nema bústýra hans var ein eftir heima og
sauðamaður yfir fénu; fer svo bóndi og skilur þau eftir svona sitt í hvoru lagi.

Líður nú fram á kvöldið, til þess að sauðamaður kemur heim eftir venju; borðar hann þá
mat sinn og gengur að því búnu til náða og leggst út af. Kemur honum nú í hug, að
varlegra mundi sér vera að vaka en sofna, hvað sem í kynni að skerast, en var samt alls
óhræddur, og liggur hann því vakandi.

Þegar langt er liðið á nótt, heyrir hann, að kirkjufólkið kemur; tekur það sér bita og
fer síðan að sofa. Ekki verður hann enn neins vísari; en það finnur hann, þegar hann
ætlar alla sofnaða, að máttinn fer að draga úr sér, sem von var, daglúnum manni. Þykist
hann nú illa beygður, ef svefninn skal sigra sig, og neytir því allrar orku til að
hressa af sér.

Líður nú eftir það lítil stund, áður hann heyrir, að komið er að rúmi sínu, og þykist
hann skynja, að þar er Hildur bústýra á ferð. Læst hann þá sofa sem fastast og finnur,
að hún er að hnoða einhverju upp í sig. Skilur hann þá, að þetta muni vera
gandreiðarbeisli, og lofar henni að koma því við sig.

Þegar hún er búin að beisla hann, teymir hún hann út sem henni var hægast, fer á bak
honum og ríður slíkt sem af tekur, þangað til hún kemur þar að, sem honum virðist vera
gryfja nokkur eða jarðfall. Þar fer hún af baki við stein einn og tekur ofan taumana;
að því búnu hverfur hún honum sjónum ofan í jarðfallið.

Sauðamanni þótti illt og ófróðlegt að missa svo af Hildi, að hann vissi ekki, hvað af
henni yrði. En það fann hann, að ekki mátti hann langt komast með beislinu; svo fylgdi
því mikil forneskja. Hann tekur því það til bragðs, að hann nýr höfuð sitt við stein
þann, er fyrr er getið, þangað til hann kemur fram af sér beislinu, og lætur það þar
eftir verða.

Síðan steypir hann sér ofan í jarðfallið, þar sem Hildur hafði undan farið. Finnst
honum, að hann hafi ekki farið lengi eftir jarðfallinu, áður hann sér, hvar Hildur fer;
er hún þá komin á fagra velli og slétta, og ber hana nú fljótt yfir.

Af þessu öllu saman þykist hann nú skilja, að ekki sé einleikið með Hildi og að hún
muni hafa fleiri brögð undir stakki en á var að sjá í mannheimum eða ofan jarðar.

Það þykist hann og vita, að hún muni þegar sjá sig, ef hann gangi niður á vellina eftir
henni. Tekur hann þá hulinhjálmsstein, er hann bar á sér, og heldur honum í vinstri
lófa; síðan tekur hann á rás eftir henni, og fór hann sem hann má harðast.

Þegar hann sækir lengra fram á völluna, sér hann höll mikla og skrautlega, og heldur
Hildur þangað, sem leið liggur. Þá sér hann og, að múgur manns kemur frá höllinni og
fer út í móti henni. Á meðal þeirra er einn maður, er fremstur fer; hann var
langtígulegast búinn, og þykir sauðamanni sem hann heilsi konu sinni, er Hildur kemur,
og bjóði hana velkomna; en hinir, sem með hinum tigna manni voru, fögnuðu henni sem
drottningu sinni. Með tignarmanninum voru og tvö börn nokkuð stálpuð, er fóru með honum
í móti Hildi, og fögnuðu þau þar móður sinni fegins hugar.

Þegar lýður þessi hafði heilsað drottningu, fylgdu allir henni og konungi til
hallarinnar, og eru henni þar veittar hinar virðulegustu viðtökur, þar með er hún færð
í konunglegan skrúða og dregið gull á hönd henni.

Sauðamaður fylgdi múganum til hallarinnar, en var þó ætíð þar, er hann var minnst fyrir
umgangi, en gat þó séð allt, sem gjörðist í höllinni. Í höllinni sá hann svo mikinn og
dýrlegan umbúnað, að aldrei hafði hann slíkan fyrr augum litið; var þar sett borð og
matur á borinn, og undrar hann mjög öll sú viðhöfn. Eftir nokkra stund sér hann Hildi
koma í höllina, og var hún þá skrýdd skrúða þeim, sem fyrr er nefndur. Er þá skipað
mönnum í sæti, og sest Hildur drottning í hásæti hjá konungi, en hirðin öll til beggja
hliða, og matast menn nú um hríð.

Síðan voru borð upp tekin, og gengu þá hirðmenn og hirðmeyjar til dansleika, þeir sem
það vildu; en aðrir völdu sér aðra skemmtun, er það hugnaði betur, en þau konungur og
drottning tóku tal með sér, og virtist sauðamanni samtal þeirra bæði blítt og
angurblandið.

Meðan þau ræddust við, konungur og drottning, komu til þeirra þrjú börn yngri en þau,
sem áður er getið, og fögnuðu þau einnig móður sinni. Hildur drottning tók því og
blíðlega; tók hún yngsta barnið og setti í kné sér og lét að því alúðlega; en það
brekaði og var óvært. Setti þá drottning af sér barnið, dró hring einn af hendi sér og
fékk því að leika sér að. Barnið þagnaði þá og lék sér um hríð að gullinu; en missti
það loksins á gólfið.

Var sauðamaður þar nær staddur; varð hann fljótur til, náði hringnum, er hann féll á
gólfið, stakk honum á sig og geymdi vandlega, og varð enginn þessa var; en öllum þótti
kynlegt, er hringurinn fannst hvergi, þegar leitað var.

Þegar langt var liðið á nótt fram, fór Hildur drottning að hreyfa sér til ferðar; en
allir þeir, sem innan hallar voru, beiddu hana að dvelja lengur og voru mjög hryggir,
er þeir sáu ferðasnið á henni.

Sauðamaður hafði veitt því eftirtekt, að á einum stað í höllinni sat kona, öldruð mjög
og heldur illileg; hún var sú eina af öllum, sem þar voru inni, er hvorki fagnaði Hildi
drottningu, þegar hún kom, né latti hana burtfarar.

Þegar konungur sá ferðasnið á Hildi og hún vildi ekki kyrr vera, hvorki fyrir bænastað
hans né annarra, gekk hann til þessarar konu og mælti:

"Tak nú aftur ummæli þín, móðir mín, og virð til bænir mínar, að drottning mín þurfi
ekki lengur að vera fjarvistum og mér verði svo lítil og skammvinn unaðsbót að henni
sem verið hefur um hríð."

Hin aldraða kona svaraði honum heldur reiðuglega: "Öll mín ummæli skulu standa, og
enginn er þess kostur, að ég taki þau aftur."

Konungur hljóðnaði við og gekk harmþrunginn aftur til drottningar, lagði hendur um háls
henni og minntist við hana og bað hana enn með blíðum orðum að fara hvergi. Drottning
kvaðst ekki annað mega fyrir ummælum móður hans og taldi það líkast, að þau mundu ekki
oftar sjást sökum óskapa þeirra, er á sér lægju, og að manndráp þau, er af sér hefðu
staðið og svo mörg væru orðin, mundu nú ekki geta leynst og mundi hún því hreppa makleg
gjöld verka sinna, þótt hún hefði nauðug orðið að vinna þau.

Meðan hún taldi harmatölur þessar, fór sauðamaður að hafa sig til vegs út úr höllinni,
er hann sá, hvernig á stóð, og svo beina leið yfir völluna að jarðfallinu og þar upp
sem leið lá. Síðan stakk hann á sig hulinhjálmssteininum, lét á sig beislið og beið svo
þess, að Hildur kæmi.

Að lítilli stundu liðinni kemur Hildur drottning þar, ein og döpur í bragði; sest hún
þá enn á bak honum og ríður heim. Þegar hún kemur þar, leggur hún sauðamann í rúm hans
kirfilega og tekur þar fram af honum beislið, gengur síðan til rúms síns og leggst að
sofa.

Þó sauðamaður væri allan þennan tíma glaðvakandi, lét hann sem hann svæfi, svo að
Hildur yrði einskis vör annars. En er hún var gengin til rekkju, hefur hann engan
andvara á sér framar; sofnar hann þá fast og sefur fram á dag, sem von var.

Morguninn eftir fer bóndi fyrstur á fætur af öllum á bænum, því að honum var annt að
vitja um sauðamann sinn, en bjóst við þeim ófögnuði í staðinn fyrir jólagleði að finna
hann dauðan í rúmi sínu, eins og orðið hafði að undanförnu.

Um leið og bóndi klæðist, vaknar hitt heimilisfólkið og klæðist; en bóndi gengur að
rúmi sauðamanns og hefur höndur á honum. Finnur hann þá, að smalamaður er lífs; verður
bóndi af því alls hugar feginn og lofaði guð hástöfum fyrir þessa líkn.

Síðan vaknar sauðamaður heill og hress og klæðist. Meðan á því stendur, spyr bóndi
hann, hvort nokkur tíðindi hafi borið fyrir hann um nóttina.

Sauðamaður kvað nei við; - "en mikið undarlegan draum dreymdi mig."

"Hvernig var draumur sá?" segir bóndi.

Sauðamaður byrjar þar á sögunni, sem fyrr er sögð, er Hildur kom að rúmi hans og leggur
við hann beislið, og greinir síðan hvert orð og atvik, er hann man framast.

Þegar hann hefur lokið sögunni, setur alla hljóða nema Hildi; hún segir:

"Þú ert ósannindamaður að öllu því, sem nú hefur þú sagt, nema þú getir sannað með
skýrum jarteiknum, að svo hafi verið sem þú segir."

Sauðamaður varð ekki endurrjóða við það og þrífur til hringsins, er hann hafði náð um
nóttina á hallargólfinu í álfheimum, og segir: "Þó ég ætli mér óskylt að sanna
draumsögu með jarteiknum, þá vill þó svo vel til, að ég hef hér eigi óljósan vott þess,
að ég hafi með álfum verið í nótt, eða er þetta ekki fingurgull yðar, Hildur
drottning?"

Hildur mælti: "Svo er víst, og hafðu allra manna heppnastur og sælastur leyst mig úr
ánauð þeirri, er tengdamóðir mín hefur á mig lagt, og hef ég orðið nauðug að vinna öll
þau ódæmi, er hún á mig lagði." Hefur þá Hildur drottning sögu sína svolátandi:

"Ég var álfamey af ótignum ættum; en sá, sem nú er konungur yfir álfheimum, varð
ástfanginn í mér. Og þótt móður hans væri það allnauðugt, gekk hann að eiga mig. Varð
tengdamóðir mín þá svo æf, að hún hést við son sinn, að hann skyldi skamma unaðsbót af
mér hljóta, en þó skyldum við sjást mega endrum og sinnum. En á mig lagði hún það, að
ég skyldi verða ambátt í mannheimum, og fylgdu þar með þau ósköp, að ég skyldi verða
mannsbani hverja jólanótt á þann hátt, að ég skyldi leggja beisli mitt við þá sofandi
og ríða þeim sömu leið, er ég reið sauðamanni þessum í nótt, til að hitta konunginn, og
skyldi þessu svo fram fara, þangað til óhæfa þessi sannaðist á mig og ég yrði drepin,
nema ég hitti áður svo vaskan mann og hugaðan, að hann bæri traust til að fylgja mér í
álfheima og gæti eftir á sannað, að hann hefði þangað komið og séð þar athæfi manna.

Nú er það bert, að allir hinir fyrri sauðamenn bónda, síðan ég kom hér, hafa bana beðið
fyrir mínar sakir, og vænti ég, að mér verði þó ekki gefin sök á því, sem mér varð
ósjálfrátt, því enginn hefur fyrr til þess orðið að kanna hina neðri leið og forvitnast
um híbýli álfa en þessi fullhugi, sem nú hefur leyst mig úr ánauð minni og álögum, og
skal ég að vísu launa honum það, þó síðar verði.

Nú skal hér og eigi lengri viðdvöl eiga, og hafið þér góða þökk, er mér hafið vel
reynst; en mig fýsir nú til heimkynna minna." Að svo mæltu hvarf Hildur drottning, og
hefur hún aldrei síðan sést í mannheimum.

En það er frá sauðamanni að segja, að hann kvongaðist og reisti bú næsta vor eftir. Var
það hvort tveggja, að bóndi gerði vel við hann, er hann fór, enda setti hann ekki saman
af engu. Hann varð hinn nýtasti bóndi í héraðinu, og sóttu menn hann jafnan að ráðum og
liðsemd; en ástsæld hans og lán var svo mikið, að mönnum þótti líkindum meiri og sem
tvö höfuð væri á hverri skepnu, og kvaðst hann allan sinn uppgang eiga að þakka Hildi
álfadrottningu.

Þessa sögu segja ekki allir á einn veg, og má þar til nefna missagnir manna af því,
hvaða leið huldukonan fór til álfheima.

Í sögunni af Snotru segir svo, að hún gekk fram á sjávarklappir og rakti þar í sundur
ljósleita blæju, en fleygði annarri í vinnumann. Kastaði hún sér svo í sjóinn. Liðu þau
svo líkt og í reyk eða móðu nokkurn tíma, uns þau komu að landi mjög fögru.

Í sögunni af Unu álfkonu segir, að hún tók úr kistu feld rauðan og hleypur síðan niður
völlinn, þangað til hún kom að dýi nokkuru; þar slær hún út feldinum og stígur á hann.
Vinnumaðurinn komst með naumindum upp á eitt hornið á feldinum. Liðu þau nú niður í
jörðina, og var það líkast reyk, er þau fóru um. Ekki sá Una manninn, og svo komust þau
á völlu nokkura græna.
KAUPAMAÐURINN

(Þjsb./J.Á. I)

Einu sinni fór maður sunnan af Suðurnesjum norður í land í kaupavinnu. Hann fékk
ákaflega mikla þoku, þegar hann kom norður á heiðarnar, svo hann villtist. Gjörði þá
hret og kulda.

Lagðist nú maðurinn fyrir og tjaldaði þar, sem hann var kominn. Tekur hann síðan upp
nesti sitt og fer að borða. En á meðan hann er að því, kemur inn rakki mórauður í
tjaldið og er mjög hrakinn og sultarlegur. Sunnlendingurinn undraðist, að þar skyldi
koma til hans hundur, er hann átti engra dýra von. Svo var rakkinn ljótur og
undarlegur, að honum stóð stuggur af; ekki að síður gaf hann honum þó svo mikið af
nesti sínu sem hann vildi. Át hvolpurinn gráðuglega og fór síðan burtu og hvarf út í
þokuna. Maðurinn skipti sér ekki af þessu, en fór að sofa, þegar hann var búinn að
borða, og hafði hnakkinn sinn undir höfðinu.

Þegar hann var sofnaður, dreymdi hann, að kona kom inn í tjaldið. Hún var mikil vexti
og hnigin á efra aldur.

Hún segir: "Ég þakka þér, maður minn, fyrir hana dóttur mína; en ekki get ég launað þér
fyrir hana sem skyldi. Þó vil ég þú þiggir af mér ljáspíkina þá arna, sem ég legg hérna
undir hnakkinn þinn. Ég vona hún verði þér að góðu gagni, og mun hún eins bíta, hvað
sem fyrir verður. Aldrei skaltu eldbera hana, því þá er hún ónýt, en brýna máttu hana,
ef þér þykir þess þurfa."

Síðan hvarf konan burt. Þegar maðurinn vaknaði, sá hann, að upp var létt þokunni og
albjart. Sól var hátt á lofti. Varð þá manninum fyrst fyrir að taka hesta sína og búast
á stað. Tekur hann þá saman tjaldið og leggur á hestana. En þegar hann tók upp hnakkinn
sinn, sá hann þar undir ljá, svo sem hálfsleginn og allliðlegan, en þó ryðgaðan. Man
hann þá eftir draumnum og hirðir spíkina. Fer hann svo á braut og gengur vel. Finnur
hann bráðum veginn og heldur hið skjótasta til byggða.

En þegar hann kom norður, vildi enginn taka hann, því allir voru þá búnir að fá sér nóg
kaupafólk, og líka var þá nærri því liðin vika af slættinum. Hann heyrði þá sagt, að
þar sé kona ein í sveitinni, sem engan kaupamann hafi tekið. Hún var auðug af fé, og
þótti hún margt kunna. Hún var ekki vön að taka kaupafólk og byrjaði aldrei sláttinn
fyrr en viku og hálfum mánuði á eftir öðrum, og þó var hún jafnan eins fljótt búin með
tún eins og aðrir. Þá sjaldan hún hafði tekið kaupamenn, hélt hún þá ekki nema eina
viku og galt engum kaup.

Sunnlendingnum var nú vísað til þessarar konu og sagt frá siðum hennar. Og af því hann
fékk hvergi vinnu, fór hann til hennar og bauðst að slá hjá henni. Hún tók því vel og
kvaðst mundi lofa honum að vera eina viku.

"En ei geld ég þér kaup," segir hún, "nema þú sláir svo mikið alla vikuna, að ég geti
ekki rakað ljána upp á laugardaginn."

Þetta þótti honum góður kostur og fór nú að slá. Tók hann þá spíkina álfkonunaut, og
fannst honum hún bíta vel. Aldrei þurfti hann að brýna, og svona sló hann í samfleytta
fimm daga. Þótti honum hér gott að vera, og var konan góð við hann. Einu sinni varð
honum gengið út í smiðju. Þar sá hann ógrynni af orfum og hrífum og ljáabunka stóran.
Furðaði hann sig á þessu og þótti konan ekki vera á hjarni með amboð.

Á föstudagskvöldið fór hann að sofa, eins og hann var vanur. Dreymdi hann þá um
nóttina, að álfkonan, sú sem gaf honum ljáinn, kom til hans og sagði:

"Mikil ljá er nú orðin hjá þér, en ei mun konan, húsmóðir þín, verða lengi að skara
henni saman, og þá rekur hún þig burt, ef hún getur náð þér á morgun. Þú skalt því
ganga í smiðjuna, ef þú heldur, að ljáin ætli að þrjóta, og taka svo mörg orf sem þér
líst og binda ljái í þau og bera þau út í teiginn hjá þér og reyna, hvernig þá fer."

Þegar álfkonan hafði þetta mælt, fór hún burt, en kaupamaðurinn vaknaði og reis á
fætur. Fór hann þá að slá. Um miðjan morgun kemur konan út, og hefur hún þá fimm hrífur
með sér.

Hún segir: "Mikil er ljáin orðin og meiri en ég hugsaði."

Lagði hún þá hrífurnar til og frá í teiginn og fór að raka. Það sá kaupamaður, að mikið
rakaði konan, en ei rökuðu hrífurnar minna, og sá hann þó engan.

Þegar leið fram að miðjum degi, sá hann, að ljáin ætlaði að þrjóta. Gekk hann þá í
smiðjuna, tók þar orf nokkur og batt í ljái. Síðan gekk hann út aftur á völlinn og
stráði orfunum til og frá með óslægjunni. Fóru þau þá öll að slá, og stækkaði þá
bletturinn óðum. Gekk þetta allan daginn til kvölds, og þraut ekki ljáin.

En þegar kvöld var komið, gekk konan heim og tók hrífur sínar. Bað hún þá kaupamanninn
að koma heim líka og bera með sér orfin. Sagði hún, að hann kynni meira en hún hefði
hugsað og skyldi hann njóta þess og vera hjá sér svo lengi sem hann vildi. Varð hann
svo hjá henni um sumarið, og kom þeim vel saman. Heyjuðu þau vel og fóru þó í hægðum
sínum. Um haustið galt hún honum kaup geysimikið, og fór hann suður með það.

Sumarið eftir var hann og hjá henni og svo mörg sumur, sem hann fór í kaupavinnu.
Seinna meir reisti hann bú á Suðurnesjum og þótti jafnan hinn besti drengur. Hann var
besti sjómaður og mesti dugandismaður til hvers, sem hann gekk. Hann gekk ætíð einn að
slætti og hafði aldrei annan ljá en spíkina álfkonunaut. Þó var hann jafnan eins
fljótur og aðrir að slá tún sitt, en ei hafði hann annað gras en túnið, eins og þar er
tíðast.

Eitt sumar bar svo við, að hann var róinn til fiskjar. Þá kom nábúi hans til konu hans
og bað hana að ljá sér ljá til að slá með, því hann sagðist hafa brotið spíkina sína og
vera ráðalaus.

Konan fór að leita hjá manni sínum og fann spíkina góðu, en engan ljá annan. Hún ljær
bóndanum spíkina, en tekur honum vara fyrir að eldbera hana, því það sagði hún, að
maður sinn gjörði aldrei. Hann lofaði því og fór heim. Batt hann spíkina í orfið og fór
að slá, en náði engu hári af með henni. Reiddist þá bóndi og brýndi spíkina, en það
dugði ekki. Fór hann þá í smiðju og ætlaði að dengja spíkina, því hann hugsaði, að ekki
væri mikið í húfi, þó hann eldbæri spík þessa. En undir eins og hún kom í eldinn, rann
hún niður sem vax og varð að gjalli einu.

Fór þá bóndi og sagði konunni, hvar komið var. Varð hún þá hrædd, því hún vissi, að
þetta mundi manni sínum líka stórilla, þegar hann vissi það. Það varð og. Þó er þess ei
getið, að hann léti það lengi á sig fá, en samt sló hann þá konu sína fyrir tiltækið,
og bar það ekki við, hvorki fyrr né síðar.
KIRKJUSMIÐURINN Á REYNI

(Þjsb./J.Á. I)

Einu sinni bjó maður nokkur á Reyni í Mýrdal. Átti hann að byggja þar kirkju en varð
naumt fyrir með timburaðdrætti til hennar. Var komið að slætti, en engir smiðir
fengnir, svo hann tók að ugga að sér að kirkjunni yrði komið upp fyrir veturinn.

Einn dag var hann að reika út um tún í þungu skapi. Þá kom maður til hans og bauð honum
að byggja kirkjuna fyrir hann. Skyldi bóndi segja honum nafn hans áður en smíðinni væri
lokið en að öðrum kosti skyldi bóndi láta af hendi við hann einkason sinn á sjötta ári.
Þessu keyptu þeir.

Tók aðkomumaðurinn til verka. Skipti hann sér af engu nema smíðum sínum og var fáorður
mjög enda vannst smíðin undarlega fljótt og sá bóndi að henni mundi lokið nálægt
sláttulokum. Tók bóndi þá að ógleðjast mjög, en gat eigi að gjört.

Um haustið, þegar kirkjan var nærri fullsmíðuð ráfaði bóndi út fyrir tún. Lagðist hann
þar fyrir utan í hól nokkurn. Heyrði hann þá kveðið í hólnum, sem móðir kvæði við barn
sitt, og var það þetta:

Senn kemur hann Finnur,
faðir þinn frá Reyn,
með þinn litla leiksvein.

Var þetta kveðið upp aftur og aftur. Bóndi hresstist nú mjög og gekk heim til kirkju.
Var smiðurinn þá búinn að telgja hina seinustu fjöl yfir altarinu og ætlaði að festa
hana.

Bóndi mælti: "Senn ertu búinn, Finnur minn." Við þessi orð varð smiðnum svo bilt að
hann felldi fjölina niður og hvarf. Hefur hann ekki sést síðan.
KÖTLUDRAUMUR

(Þjsb./J.Á. I)

Már hét maður; hann var höfðingi mikill og bjó á Reykhólum vestra. Hann átti konu þá,
er Katla hét; hún var af góðum ættum. Einhverju sinni reið Már sem oftar til alþingis,
en Katla var eftir heima.

Meðan Már er burtu, gengur Katla einn morgun til dyngju sinnar og sofnar þegar. Þangað
komu og aðrar konur síðar, og sefur hún sem áður. Þegar leið að miðdegi, vilja þær
vekja Kötlu, en þess var ekki kostur; hugðu þær Kötlu þá dauða og sögðu fóstra hennar
til. Þegar hann kom þar, sem Katla lá, sagði hann, að hún væri ekki dauð, því önd
bærðist fyrir brjósti hennar, en hann gæti ekki vakið hana; sat hann svo yfir henni
fjögur dægur föst og full. Á fimmta dægri vaknaði Katla og var þá harmfull mjög, en
enginn þorði að fregna hana, hvað því olli.

Eftir það kemur Már heim af þingi; þá hafði Katla brugðið háttum sínum, því hvorki gekk
hún í móti honum né hneigði honum, er hann kom. Hann leitar þá eftir hjá salkonum
hennar, hvað þessu valdi, en þær kváðust ekki vita neitt um það annað en að Katla hefði
sofið fjögur dægur, en ekki sagt neinum, hvað fyrir sig hefði borið. Már gekk þá á konu
sína um þetta í tómi og spurði, hvað orðið hefði um hana í svefnhöfga þessum, og kvað
henni ekki mundi verða mein að mælgi sinni. Katla sagði honum þá upp alla sögu.

"Mér þótti," segir hún, "kona koma til mín í dyngjuna, húsfreyjuleg og orðfögur. Hún
kvaðst eiga heima á Þverá skammt héðan og bað mig að fylgja sér á götu. Ég gjörði svo,
en hún lagði glófa sína þar, sem ég sat, og sagði, að þeir skyldu verja sætið. Við
gengum svo út og komum að vatni einu; þar flaut bátur fagur. Þakkaði hún mér þá
fylgdina, en ég bað hana vel fara.

Varð ég þess þá vísari, að hún hét Alvör; bað hún mig taka í hönd sér, og gjörði ég
svo. Vatt hún mér þá í bátinn og reri með mig að hólma einum; fann ég þá, að hún réði
ein öllu, en ég engu.

Hún gjörði sig þó blíða við mig og kvað sig nauðsyn hafa knúið til þessa, - "og skal
ég," segir hún, "fylgja þér heim aftur."

Við komum þá til híbýla hennar í hólmanum; voru þau svo fögur, að ég hef aldrei
bjartari bústað litið. Fylgdi hún mér í herbergi eitt, þar sem konur nokkrar voru
fyrir, og var þar kerlaug búin og rekkja vel tjölduð. Eftir það var mér borinn
víndrykkur, og lagðist ég svo til svefns.

Ég vaknaði við það aftur, að skikkja lá hjá mér, búin skíru gulli, og húsfreyja bar til
mín önnur föt gullsaumuð; síðan kastaði hún yfir mig kápu sinni; var hún af guðvef og
grátt skinn undir, búin brenndu gulli. Bað hún mig þá eiga þessar gersemar, ef ég
vildi; þar með var hringur af rauðagulli, höfuðgull og men, fjögur fingurgull og lindi
fagur.

Síðan bað hún mig ganga inn í skála sinn, og varð hún því öllu ein að ráða. Gengum vér
þar inn átta konur saman; var þar glæsilega fyrirbúið; skálaveggirnir voru skreyttir
gullofnum tjöldum, silfurker á borðum og gullbúin drykkjarhorn og skrautmanna lið mikið
fyrir í skálanum. Í öndvegi hinu æðra sá ég hvílu eina; þar lá í maður í silkiklæðum;
Alvör tók á honum, vakti hann og nefndi hann Kára.

Hann vaknaði og spurði, hví hún hefði vakið sig eða hvort hún bæri sér nokkur ný
tíðindi, - "eða er Katla komin hér í skálann?"

Sá hann á að svo var. Vorum við Kári sett síðan bæði á einn bekk, og bað Alvör menn
kalla Kára brúðguma; var svo gjört; tóku menn nú til drykkju, og var drukkið fast um
daginn. En er kvöld var komið, sagði Alvör, að ég skyldi hvíla hjá Kára, en ég kvað
þess enga von; miklu elskaði ég Már heitara en svo, að ég mætti yndis njóta með öðrum
manni. Alvör sagði ég mundi þess aldrei bætur bíða, ef ég yrði ekki við vilja Kára.

Mér varð ráðafátt við þessi orð, því ég þóttist sem einmana í vargaflokki. Þegar ég var
gengin til hvílu, kom þar maður til mín og bað mig eiga allt gull sitt og gersemar, en
ég gaf honum enga von blíðu minnar. Kári lét mig þá drekka af horni, er hann hafði áður
drukkið af, og kvaðst fyrr vildi bíða helstríð en sjá mig hrygga. Bað hann mig þá
huggast láta og hét, að mér skyldi verða bráðum fylgt heim aftur.

Var ég svo þar tvær nætur hrygg í huga; enginn vildi þar angra mig, heldur gleðja mig.
Segir þá Kári við mig, að við munum eiga son í vonum. Bað hann mig kalla hann Kára.
Hann tók þá belti ágætt og hníf og fékk mér; bað hann mig fá það syni okkar, að það
fylgdi nafni. Hann bað mig leggja skrúðklæði mín og gersemar allar í skjóðu, og kvaðst
hann unna mér þeirra best að njóta.

"Skaltu sýna það allt" segir hann, "Már manni þínum og inna honum satt frá öllu, þó þér
þyki það sárt og sviðamikið. Þið skuluð byggja ykkur nýjan bústað yfir á Þverá; muntu
finna þar fuglþúfur tvær við endann á skála mínum, og verða það féþúfur ykkar. Þar mun
lifna af ykkur mikill ættbogi, er frægur mun þykja. Nú mun ég verða að skiljast við þig
og aldrei líta þig augum framar, enda veit ég eigi, hvað langra lífdaga mér verður
auðið héðan af."

Síðan leiddi Alvör mig harmfull í huga út; heyrði ég þá brest mikinn í skálanum, er
Kári sprakk af harmi mín vegna."

Segja þá sumar sagnir, að hún flytti Kötlu á bátnum sama yfir vatnið og fylgdi henni
svo heim að hlaðgarði og tæki aftur glófa sína úr sætinu.

Sagði hún þá við Kötlu að skilnaði: "Farðu heil, Katla, þó ekki hafi ég af syni mínum
nema sorgir einar, og njóttu vel gersema þinna."

"Er nú draumur minn á enda," segir Katla, "og vænti ég, Már, þess af drengskap þínum,
að þú finnir mér vorkunn, er ég var alls ósjálfráð."

Már bað hana sýna sér gersemarnar, og gjörði hún svo.

Litlu fyrir sumar veturinn eftir fæddi Katla sveinbarn, einkar frítt, og þótti Már
sveinninn giftusamlegur.

Var hann kallaður Kári, sem faðir hans hafði fyrir mælt, og lét Már kalla sig föður
sveinsins; og reyndist hann honum í öllu betur en móðir hans, er jafnan var fá við
hann. Var nú fluttur bústaður þeirra Márs þangað, sem Katla sagði fyrir, og bjuggu þau
hjón þar saman og unnu hvort öðru mikið og áttu mikið auðnulag saman.
KROSSGÖTUR

(Þjsb./J.Á. I)

Sumir segja að krossgötur séu þar, t.d. á fjöllum eða hæðum, sem sér til fjögurra
kirkna. Elsta trúin er sú að menn skuli liggja úti jólanótt því þá er áraskipti og enn
í dag telja menn aldur sinn eftir jólanóttum og sá er t.d. kallaður 15 vetra sem hefur
lifað 15 jólanætur. Síðar færðu menn ársbyrjunina á nýársnótt.

Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja
hann að koma með sér en maður má engu gegna. Þá bera þeir að manni alls konar gersemar,
gull og silfur, klæði, mat og drykk, en maður má ekkert þiggja. Þar koma álfakonur í
líki móður og systur manns og biðja mann að koma og allra bragða er leitað.

En þegar dagur rennur þá á maður að standa upp og segja: "Guði sé lof, nú er dagur um
allt loft." Þá hverfa allir álfar en allur þessi álfaauður verður eftir og hann á þá
maðurinn. En svari maður eður þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola
og aldrei síðan mönnum sinnandi.

Því varð manni sem Fúsi hét og sat úti jólanótt og stóðst lengi, þangað til ein álfkona
kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem
síðan er að orðtaki haft: "Sjaldan hef ég flotinu neitað." Beit hann þá bita sinn úr
flotskildinum og trylltist og varð vitlaus.
LÓ, LÓ, MÍN LAPPA

(Þjsb./J.Á. I)

Það var á bæ einum fyrir vestan, að fjósamaðurinn fór um veturinn eftir vöku, eins og
hann var vanur, í fjós að gefa kúm ábæti, áður en stúlkan fór út, sem mjólkaði. Þegar
hann kom í fjósið, stóðu fjórar kýr á flórnum; hann hélt, að þetta væru kýrnar, er ættu
að vera í fjósinu, og mundu þær hafa slitið sig allar. Maður þessi var skapstyggur í
lund og gætir nú einskis, þar eð hann reiddist. Hann tekur nú með harðneskju í eyrað á
einni og vill koma henni á bás, en hún var treg, og í bráðæði bítur hann í hrygginn á
henni svo fast, að blóð sprakk út. En í þessum svifum kom stúlkan, sem átti að mjólka,
í fjósið með ljós og spyr, hvað á gangi, því að hún heyrði svæsin orð tiL mannsins og
umgang í fjósinu. Þegar ljósið skein í fjósinu, sá fjósamaður, að kýrnar voru í
básunum, eins og þær áttu að vera, en engin fleiri í fjósinu en áttu að vera nema sú,
er hann var að stíma við og sem hann hafði í reiði bitið í; henni var ofaukið. En hinar
þrjár voru á burtu farnar. Stúlkan spyr, hverju þetta gegni. Hann kvaðst ei vita það og
sagði henni frá, hvernig hefði staðið á, þegar hann hefði komið í fjósið, og hefði hann
haldið, að það væru sínar kýr, er á flórnum hefðu staðið, og væru allar orðnar lausar;
það hefði þá komið í sig gremja við þær, og hefði hann því gripið þessa, er hann nú
héldi í, og ætlað að koma henni á bás, en ei getað það; en í básana kvaðst hann ei hafa
gáð. "Þetta gjörðir þú illa," sagði stúlkan, "og er eg hrædd um, að þú hafir illt af
þessu." Fer hún síðan inn og segir húsbóndanum frá; en húsbændum þeirra þótti þetta
hafa mjög illa til tekist. Fer húsbóndinn nú í fjósið og ávítar fjósamann fyrir þetta.
Hann vildi láta kúna fara út úr fjósinu, en kom henni þaðan ekki; var hún síðan látin í
bás, sem auður var. Þessi kýr var með fullu júgri og stóru; sagði hann stúlkunni að
mjólka hana; en hún gat litlu náð úr henni. Síðan reyndi konan, og fór það á sömu leið,
þar eð kýrin ólmaðist; gekk þetta tvo daga, að litlu varð náð úr henni. En um kvöldið á
hinum örðum degi, er kýrin hafði þar verið, var konan sjálf í fjósi, eftir það að inn
var farið, og hafði ei ljós. Þegar hún hafði verið þar litla stund, heyrði hún, að
farið var um dyrnar og inn í fjósið og upp í básinn til kýrinnar og svo þaðan og út; en
konan fór inn; og þá mjólka átti, fór húsfreyja í fjós að mjólka; en þá hún fór að
mjólka þessa aðkomnu kú, lét hún eins og hún hafði áður látið. Þá heyrði hún sagt á
glugga fjóssins:

"Ló, ló, mín Lappa,
sára ber þú tappa,
það veldur því, að konurnar
kunna þér ekki að klappa."

Þá fór konan að klappa kúnni og nefna hana nafni sínu, sem hún heyrði, að hún var nefnd
í vísunni af álfkonunni á fjósglugganum. Gat hún þá mjólkað hana, þar eð hún stóð þá
kyrr, og mjólkaði mikið. Ei er þess getið, að hjónin hafi sakað; en fjósamaðurinn varð
lánlítill. Margar kýr höfðu komið af þessari kú, og var svo að orði kveðið, að þær væru
af Löppukyni.
LEGG Í LÓFA KARLS, KARLS

(J.Á. I)

Það var á einum bæ, að börn voru úti hjá hól nokkrum að leika sér; var það eitt
stúlkubarn ungt og tvö piltbörn eldri. Þau sáu holu í hólnum. Þá átti þessi stúlka, sem
yngst var af þeim, að hafa rétt inn í holuna hendina og sagt að gamni sínu, eins og
barna er háttur til: "Legg í lófa karls, karls; karl skal ekki sjá." Þá átti að hafa
verið lagður stór svuntuhnappur gylltur í lófa barnsins. Þegar hin börnin sáu þetta,
öfunduðu þau þetta barn; þá hafði hið elsta rétt inn hönd sína og sagt hið sama sem hið
yngsta sagði og ímyndaði sér, að það mundi hljóta eigi minna hnoss en hið yngsta hefði
hlotið. En það lánaðist eigi, því þetta barn fékk ekkert nema visnaða hönd sína, þá það
tók hana út úr holunni, og varð svo, meðan það lifði.
MÖÐRUDALSPRESTURINN

(J.Á. III)

Á fyrri dögum var prestur nokkur á Möðrudal á fjalli, er bróður átt hafði í sveitum
niðri, hver umboð haft hafði yfir jörð prestsins, honum nálægri, og fært svo prestinum
á hverju hausti afgjald af jörðunni.

Eitt haust, eftir vana, kemur hann með þetta afgjald til bróður síns að Möðrudal; var
þá prestur ei nema einn eftir orðinn, því allt heimilisfólk hans var þá í strá niður
fallið (kann ske af stóru plágunni eður svarta dauða).

Prestur fagnar vel bróður sínum og býður honum til kirkju um kvöldið, og sitja þeir þar
langt fram á kvöld; fylgir hann honum síðan til baðstofu og skipar honum þar sæti. Þá
heyrði hann í myrkrinu, að fjölgar fólk í baðstofunni; mælti þá prestur, að það skyldi
skemmta eftir vana; tekur það þá til að fremja dansleika og kvæðendisskap, og er nú
komumanni lítið um þetta gaman, þar hann skelfur og titrar af ótta og hræðslu í
bekknum.

Þegar þetta fólk hafði lengi eftir sinni vild dansað, þá býður prestur því ljós að
kveikja og hætta þessum dansleikum. Svo var það gert sem hann skipar, ljós á borð borið
og fæða fram reidd, en hann sér þó engan mann. Neytir hann með presti mjög lítils, en
drekkur þó hálfu minna.

Eftir máltíð var ljós eftir þeim til hvílu borið; vísar þá prestur honum til rúms; fann
þá komumaður af sér dregna sokka og skó. Prestur fer þá líka að hvílast.

Eftir þetta koma tvær ungar og leikfullar stelpur að rúmi hans (hvað honum þó fyrst var
dulið) og vildu leika sér við hann; tóku til að kyssa og klappa honum, en honum varð
mjög felmt við. Síðan tóku þær að rífa ofan af honum fötin, svo nú tekur að versna
gamanið. Þá varð prestsbróðir svo hræddur, að hann vissi varla, hvar hann var, og
kallaði, að einhver veitti sér ónæði, hann hefði hvorki frið né ró í rúminu. Þá hrópaði
prestur af mesta megni, sagði þær örmu dubbur og hrakstelpur skyldu sjá manninn í friði
og leyfa honum að hafa hvíld og náðir. Heyrði hann þá, að fólk kallaði í hverju rúmi.

Ekki vildi honum svefnsamt verða um nóttina, því strax sem dagaði, pakkar hann sig á
fætur með mesta flýti og út að kirkjudyrunum; gengur hann þar um gólf, þar til prestur
kemur til hans og segir hann muni litlar náðir í nótt haft hafa þar sem hann sé svo
árla á fótum. Hinn kvað það satt vera og segir sér þyki nokkuð kynlegt og óeiginlegt
hér að vera, og býður hann þá klerki með sér í byggð að fara, hvað hann ei þekkjast
vill; segir sér þyki þar nógu skemmtilegt og gott að vera.

Hinn þakkaði guði gæfuna, að hann slapp og komst lífs af; skildi svo við bróður sinn og
reið sinn veg, sem hraðast kunni, heim til síns heimilis.

Eftir það, þegar til Möðrudals var aftur vitjað, var bærinn í eyði, og sást enginn
maður. Þá var og klerkur líka horfinn, og hefur ei síðar til hans spurst.
SAGNIR FRÁ PÉTURSEY

(J.Þork./J.Á. III)

Maður hefur heitið Runólfur. Hann bjó fyrir og eftir 1800 á þeim bæ, er Pétursey
heitir, í Mýrdal í Dyrhólahreppi í Skaftafellssýslu.

Hann átti mörg börn, þó ekki séu þau nefnd. Son átti hann þann, er Ólafur hét. Hann var
kallaður ófyrirleitinn og fullur með ýmislega kerskni. Í Pétursey er og hefur verið
margbýli. Ólafur þessi var við smalamennsku með öðrum börnum, og var það stundum háttur
hans, að þegar hann gekk fram hjá þar, sem var ból, brík eða hellir á vegi hans, að
pikka þar inn í með staf sínum með ýmislegri orðamælgi og kersknis-orðum. En það var
almennt trúað, að í Pétursey væri mikið til af huldufólki, og höfðu menn fyrir satt, að
bæði væri þar illt og gott fólk til af því tagi.

Það bar til einn morgun síðari part vetrar, að Ólafur var venju fremur fálátur,
dauflegur í viðmóti og með nokkurs konar hryggðarsvip, og kom það upp síðar, að menn
ætluðu, að hann mundi hafa dreymt óþægilega um nóttina.

Þennan dag var sjóveður, og þar eð þá var vertíðin yfirstandandi, var almennt róið á
sjó, bæði frá Pétursey og öðrum bæjum í sveitinni.

Þennan morgun var Ólafur sendur til að hleypa út lömbum úr lambhúsi, sem var skammt frá
bænum, og kom hann ekki heim í tækan tíma. Var hans þá leitað, og fannst hann hvergi;
en sumir sögðu, að hundar, er honum fylgdu, hefðu verið að ærast og gelta við bóldyr
þær, er Ólafur hafði látið einna lakast við, og því var haft fyrir satt, að hundarnir
hefðu séð hann þangað fluttan, þó ekki sæju það neinir menn.

Það er almennt siður í Mýrdal að senda unglinga og kvenfólk með áburðarhesta til
sjávar, þegar róið er, til að flytja aflann heim til bæja að kvöldi, sem víða er langur
vegur; er þetta kallað "að fara í sand" og fólkið, sem fer, kallað "sandfólk".

Nú þegar sandfólkið frá Pétursey kom á sandinn, sagði það þau tíðindi, að maður væri
horfinn í Pétursey, sem hvergi fyndist. Þegar Runólfur bóndi heyrði það, sagði hann
strax, að það mundi vera Ólafur sonur sinn og væri þó seinna en von væri. Þessu var
játað, sem von var, og féll það svo niður að því sinni.

Það leið nú svo fram um hríð, að þó leitað væri, fannst Ólafur ekki, en þó er svo sagt,
að öðru hverju fyndist eitt og annað af fötum, sem Ólafur hefði verið í, þegar hann
hvarf, og skyldi þó hafa liðið langur tími á milli og fötin verið rifin og illa
útleikin, þegar þau fundust. Það var einnig sagt, að enginn fyndi þau annar en Runólfur
faðir hans, þó hann gengi einungis í spor annarra.

Næsta jóladagskvöld eftir hvarf Ólafs sat Runólfur bóndi, faðir hans, að mat ásamt
heimilisfólki sínu úti á fjóspalli, því að þá var alsiða að sitja á palli í fjósum, en
sofa þó í baðstofunni hjá sumum, en sumir höfðu fjóspallinn fyrir svefnherbergi líka.
Sýndist honum Ólafur þá koma inn í einn fjósbásinn, þó í þeim stað, sem ljósið skein
óglöggt á, og þótti hann vera mjög dapurlegur og enda magur og illa útlítandi; skyldi
Runólfur þá skera ketbita og ætla að bjóða Ólafi, en undir eins skyldi mönnum þá sýnast
eins og kippt væri í festi, er bundin þótti um Ólaf, og var hann þá jafnskjótt horfinn.
Hafa sumir sagt svo frá, að í festinni hafi skrölt, líkt og hún væri samsett af
járnhlekkjum.

Það var almennt sagt, að menn hefðu heyrt hljóð mikil eitt- hvert sinn úti eða jafnvel
uppi í fjallinu (Pétursey, sem bærinn tekur nafn sitt af), þvílíkt sem manneskja með
fullu fjöri væri ógurlega kvalin. Hafa sumir sagt, að það hafi oft verið, en maður, sem
þá var kominn til vits og ára og var í Pétursey, þegar Ólafur hvarf, hefur sagt mér, að
það hafi ekki fyrir víst heyrst utan í eitt skipti. Samt varð það trú, að Ólafur lifði,
en væri í höndum eða réttara sagt í varðhaldi og geymslu einhverrar ósýnilegrar veru og
væri í hinum hræðilegustu kvölum, enda grunaði suma, að faðir hans mundi hafa séð hann
oftar en eitt sinn, þó hann gerði ekki orð á því, sem líka var eðlilegt, að hann væri
ekki daglega að tala um slíkt.

Um þessar mundir var Oddur Jónsson prestur á Felli og sóknarprestur Péturseyjarmanna,
því það er í Sólheimasókn. Hann var hinn mesti gáfu- og merkismaður, þótt hann væri
sagður í frekara lagi drykkfelldur.

Hann hafði stundum átt að koma að Pétursey, sem líka er trúlegt, að sóknarpresturinn
ætti oft leið þar um. Einhverju sinni er svo sagt, að hann hafi sagt við Runólf, að
hann treysti sér til að ná Ólafi, en þó svo, að hvorugur þeirra yrði jafngóður, og
hafði Runólfur ekki viljað þiggja það, því hann hafi óttast fyrir því, að það yrði sér
enn meiri hjartasorg.

Eitthvert sinn hafði prestur sagt við Runólf: "Lifir Ólafur sonur þinn enn, þó aumt líf
sé."

En þegar liðið var hátt á annað ár, frá því Ólafur hvarf, fór Oddur prestur austur að
Reyni til að veita presti þar altarissakrament, eins og árlega tíðkast. Þá kom hann að
Pétursey á heimleiðinni nokkuð kenndur.

Þá sagði hann við Runólf: "Nú er hann Ólafur sonur þinn dáinn, og þakkaðu nú guði fyrir
lausn hans."

Og eftir þann tíma bar aldrei neitt það til, sem gefið gæti tilefni til að ætla Ólaf á
lífi.

Nú er það eins og vant er að vera, að sumir segja, að það, sem prestur sagði um Ólaf,
sé ekki annað en drykkjumælgi, en hinir aðrir segja, að þó prestur talaði ekki um
slíkt, þegar hann var með öllu ódrukkinn, þá hafi hann þó verið merkari maður en svo,
að hann talaði það lítið drukkinn, sem ekki ætti sér fullan stað, og þessir síðarnefndu
fullyrtu það, að prestur hefði vitað margt, sem aðrir óbreyttir menn ekki vissu eða
gátu vitað, og því trúa þeir víst, að hann hafi haft rétt að mæla.

Það hafa flestir fyrir satt, að eftir það að Ólafur var sagður dáinn, hafi Runólfur
faðir hans fundið bein hans niður af dyrum á skúta þeim, sem hundarnir hefðu síðast
skilið við hann og sem hann hafði haft einna mest ólæti við.
RAUÐHÖFÐI

(Þjsb./J.Á. I)

Í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja
þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar, og varð að sæta til þeirra
góðu veðri, því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.

Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir
fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt, svo að þeir urðu að fara
burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið,
allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu, því hann hafði farið lengst og
hugsað, að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar,
sem bjó að Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á besta aldri.

Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu, þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við
skerið, að honum varð ekki náð út í skipið, hversu mjög sem þar var leitað lags við.
Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið, og töldu þeir manninn af með öllu, nema
hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu, hvar komið var, og átti nú
að fara í skerin og vitja mannsins, hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð
aldrei framar komist út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með
öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug, að hann mundi nokkurn tíma
sjást lifandi framar.

Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker,
eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið, urðu þeir hissa,
þegar þeir sáu þar mann á gangi, þar sem þeir áttu sér hér engra manna von.

Maðurinn gekk til þeirra, og þekktu þeir þar Melabergsmanninn, sem eftir hafði orðið
sumarið áður í skerinu. Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá, að þetta væri ekki
einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita, hvernig á þessu öllu stæði. En
maðurinn sagði þeim óljóst frá því, sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf
hafa verið og ekki hefði væst um sig.

Samt bað hann þá að flytja sig á land, og gjörðu þeir það fúslega. Var
Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom, varð þar
hinn mesti fagnaðarfundur, og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga
glögga grein vildi maðurinn gera um veru sína í skerinu.

Nú leið enn og beið, og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn
góðan veðurdag, þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður, sem alla kynjaði á.

Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út
úr kirkjunni, stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar, og lá ungbarn í vöggunni. Ofan á
vöggunni lá dýrindis ábreiða, sem enginn þekkti, hvað í var. Á þetta varð öllum
starsýnt mjög, og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu, og enginn lést þar vita
nein deili á.

Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu
ekki síður en aðra. Spyr hann þá, hvort nokkur viti deili á vöggunni og barninu eða
hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji, að hann skíri barnið. En enginn lést
vita neitt um þetta, og enginn þóttist hirða um, að hann skírði barnið.

En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur, spurði hann hann
ýtarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita
um vögguna né barnið, enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt. En í því bili,
sem maðurinn sagði þetta, stóð þar kvenmaður hjá þeim, fríð sýnum og fönguleg, en æði
svipmikil.

Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir: "Ekki skal
kirkjan gjalda."

Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega: "En þú skalt
verða að hinu versta illhveli í sjó."

Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. Presturinn
tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið
þar til skamms tíma og þótti hin mesta gersemi.

Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu, að
hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur
æddi sem vitstola norður eftir, þangað til hann kom fram á Hólmsberg, sem er fyrir
vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt.

Þegar hann kom fram á bergsbrúnina, staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo
stór og þrútinn, að bergið sprakk undir fótum honum, og hljóp fram klettur mikill úr
hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega
stórum hvalfiski með rauðan haus, því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á
höfðinu, þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En
kletturinn, sem fram hljóp með hann í sjóinn, stendur enn fram í sjónum austarlega
undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.

Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins, að
hann hefði sagst hafa dvalið um veturinn í skerinu í álfabæ einum í góðu yfirlæti.
(Sumir segja, að maðurinn hafi heitið Helgi, og því er skerið síðan nefnt Helgasker.)
Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki getað fest þar yndi.

Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu, hefði hann gengið um
skerið í eins konar örvílnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér
til að stytta hörmungar sínar. En þá sagði hann, að til sín hefði komið stúlka, fríð og
falleg, og boðið sér veturvist og sagt, að hún væri ein af álfafólki því, sem ætti
heima í Geirfuglaskeri.

Þetta þá hann; en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann,
að álfastúlkan hefði sagst ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta
skíra það, ef hún kæmi því til kirkju, þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði
það ekki, mundi hann gjalda þess grimmilega.

Sumir segja, að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um
sumarið; sumir segja, að hann hafi gjört það, um leið og hann gekk um á Melabergi frá
kirkjunni seinast, en sumir segja, að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum
öðrum. En ekki er þess getið, hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með
barnsskírnina.

En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur á Faxaflóa og grandaði
þar mönnum og skipum, svo engum var óhætt á sjó milli Reykjaness og Akraness. Var það
fjarskinn allur, sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat
að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans
völdum, þó ekki séu þeir nafngreindir neinir, sem hann drap, eða tölu hafi verið á þá
komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness,
og er sá fjörður síðan kallaður Hvalfjörður.

Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru
leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll upp komin, þegar hér
var komið sögunni, og hin efnilegustu, og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn
í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til
fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða, og drekkti hann þeim báðum.

Presturinn faðir þeirra heyrði, að synir sínir væru drukknaðir, og svo, af hvers
völdum. Féllst honum mikið til um sonamissinn. Litlu síðar, einn góðan veðurdag, biður
hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum, sem er þaðan ekki alllangt frá
bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með hjálp
dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst
svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína, hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera
spegilfagran og sléttan.

Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur, hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir, að
utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák, líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og
þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau, biður prestur hana að leiða sig
inn með fjörunni, og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau, og gekk það, uns
komið var inn í fjarðarbotn, En þegar grynna fór, sá stúlkan, að röstin stóð af
ákaflega stórum hval, sem synti beint inn eftir firðinum, eins og hann væri rekinn eða
teymdur.

Þegar fjörðinn þraut og þar kom að, sem Botnsá kemur í hann, bað klerkurinn dóttur sína
að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það, og staulaðist karlinn upp
fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir
ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis.

En þegar inn kom í gljúfrið, sem áin rennur um fram af Botnsheiði, þá urðu þrengslin
svo mikil, að allt skalf við, þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp
fossinn, hristist jörðin umhverfis eins og í mesta landskjálfta. Af því dregur fossinn
nafn og heitir síðan Glymur, og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar
Skjálfandahæðir.

En ekki hætti prestur, fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það, sem Botnsá
kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn. Fell eitt er hjá vatninu, og dregur það einnig
nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell.

Þegar Rauðhöfði kom í vatnið, sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað, og hefur
síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stórkostleg við vatnið,
og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. En þegar prestur var búinn að koma
hvalnum fyrir í vatninu, staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni, og þökkuðu honum
allir vel fyrir viðvikið.
ÁLFAKÓNGURINN Í SELEY

(J.Á. I)

Það var eitt sumar sem oftar, að menn lágu til vers í Seley á Reyðarfirði. Þá bar það
til, þegar menn fluttu skreiðina í land, að mikið varð eftir af skreið Hólmaprestsins í
verskálanum. Gekk þá í ótíð, svo að skreiðinni varð ekki náð fyrr en um haustið, því þá
kom gott sjóveður. Var þá farið að sækja hana; fóru menn svo að bera úr skálanum ofan
til skips. Kváðu þá skipverjar gaman að ganga á utanverða eyjuna og vita, ef nokkuð
hefði borið þar að landi. Bauðst þá einn til að fara, á meðan hinir bæru ofan
skreiðina. Hann fór svo, en hinir bera til skips.

En allt í einu ýfist sjórinn svo, að þeir fá naumast komið skreiðinni á skipið. Fóru
allir út á skip og bíða eftir manninum, og þegar hann kom, var orðið ófært að ná honum
á skip fyrir brimi; kölluðu þeir þá til hans og sögðu, að hann yrði að bíða og skyldu
þeir sækja hann daginn eftir, ef fært yrði. Sáu þeir fyrir bestu að forða lífi sínu og
héldu til lands, en hann stóð eftir bjargarlaus.

Gekk þá í mollu-drífu. Gengur þá maðurinn í ráðleysu heim í skálann og var þar, þar til
kvöld var komið. Fer hann þá að örvinglast og hugsar, að sér sé nær að taka af sér
lífið en svelta þar í hel, og hljóp út úr skálanum. Sér hann þá glaða stjörnu; þá
hugsar hann, að þetta muni ei vera himinstjarna í kafþykku veðrinu, og virðist honum,
þegar hann fer að gæta sín, það vera líkast ljósi í glugga. Hleypur hann þá litla
stund, þar til hann er kominn undir hús, sem voru svo skrautleg, að þau líktust
kóngshöll.

Heyrir hann þá, að sagt er inni: "Já, stúlkur, ekki nema aumingja maðurinn, sem varð
eftir á eyjunni í dag, er kominn hér undir húsin; farið og sækið hann, því ég vil ekki,
að hann deyi fyrir dyrum mínum."

Að vörmu spori kemur til hans stúlka, leiðir hann inn og segir, að hann skuli kasta af
sér sjóklæðunum. Hann gjörir svo. Síðan leiðir hún hann upp afar háan stiga og inn í
fagurt herbergi, allt sett gulli og gimsteinum. Þar sá hann konur margar, og bar ein
langt af hinum. Hann kvaddi þær kurteislega, en þær taka vel kveðju hans.

Þá stendur hin fagra mey upp og leiðir hann inn í lítið, en fagurt herbergi og setti
þar fyrir hann vín og vistir og gekk síðan burt. Ei er getið um, hvar honum var vísað
til rúms um kvöldið. Leið svo af nóttin, en um morguninn kemur hún til hans, og kvaðst
hún ei mega vera þar hjá honum til skemmtunar, en fær honum allt, er honum mátti
skemmtun í vera. Leið svo veturinn til jóla.

Á jólanóttina kemur hin fagra mær til hans og segir við hann, að ef honum finnist, að
hún hafi gjört honum nokkuð gott, þá skuli hann veita sér eina bæn, sem hann megi ekki
neita sér um, en hún sé sú, að á morgun yrði haldinn dans og þá léti faðir sinn kalla
sig út til að horfa á leikinn. Skyldi hann þá ekki hafa neina forvitni né horfa út, því
hann gæti fengið sér nóg til skemmtunar inni.

Hann lofar henni, að hann skuli um ekkert forvitnast. Jóladagsmorguninn kemur hún til
hans með vín og vistir og allt, er til skemmtunar mátti vera, kveður hann og gengur
burt; en að lítilli stundu liðinni heyrði hann söng og hljóðfæraslátt. Hann hugsar með
sér, hvaða ógnar gleði þetta muni vera og það muni sér óhætt að líta snöggvast út, því
það þurfi enginn að sjá. Fer hann þá að klifrast, svo hann sæi dansinn. Lítur hann þá
út og sér mikinn mannaflokk, sem er að dansa og leika á alls konar hljóðfæri. En í
miðri mannþyrpingunni sér hann sitja konunglegan mann með kórónu á höfði sér og sinn
kvenmann til hvorrar handar honum. Virðist honum, að það muni vera drottning kóngs og
dóttir; hana þekkti hann.

Þorir hann nú ekki lengur að horfa út og fer frá glugganum. Gekk dansinn til kvölds. En
þegar hún kom inn til hans um kvöldið, var hún þegjandaleg fremur venju, en segir við
hann, að illa hafi hann efnt það, sem hann lofaði sér, að horfa ekki út, en svo muni
hún hafa getað til séð, að faðir sinn hafi ekki séð það í þetta sinn. Líður svo fram að
nýári, að ekkert bar til tíðinda.

Á nýársnótt kom hún til hans og segir við hann, að á morgun fari hún með föður sínum að
horfa á dansinn og skuli hann þá reynast sér trúrri en um jólin með að hafa enga
forvitni. Lofar hann því til halds og trausts, að hann skuli nú ekki horfa út. Ber hún
þá til hans mat og vín og margs konar skemmtun og fór síðan burt.

En er morgnaði, heyrði hann enn meiri glaum og gleði úti en um jólin. Segir hann þá við
sjálfan sig, að ekki skuli hann nú horfa út, því það sé hið sama og um jólin, og líður
svo langt fram á dag, að hann situr kyrr. Fer þá forvitnin að kvelja hann að vita ekki
um þá miklu gleði, og lítur hann út og sér, að dansinn er miklu skemmtilegri en hið
fyrra sinn, því margir glæsilegir riddarar leika fyrir kóngi og drottningu. Kippir hann
sér þá frá glugganum, en það sá hann, að enginn leit upp í gluggann til hans, og leið
svo til kvölds.

En er hún kom inn um kvöldið, var hún mjög stygg og átaldi hann fyrir það, að hann
hefði svikið sig. Þó spillti þetta ekkert milli þeirra, því hún var honum jafngóð eftir
sem áður: Líður svo veturinn til páska.

Á laugardaginn fyrir páska kemur hún til hans og lætur vel að honum og biður hann nú að
vera ekki forvitinn á morgun, þó honum finnist mikið um gleðina, því ef faðir sinn
verði þess var, að hún hafi þar karlmann hjá sér, þá liggi líf sitt við. Á
páskadagsmorguninn kemur hún til hans og færði honum allt, er hann hefði getað kosið,
kveður hann og gengur burt.

Kemur þá upp glaumur sem fyrr. Líður svo fram eftir deginum; fer honum þá að leiðast
einveran, og gengur hann burt úr herbergi sínu og í næsta herbergi, því hann hélt, að
hún mundi ei verða vör við, þó hann liti þar út. Lítur hann þá snöggvast út og sér hið
sama og um nýárið. Því næst fór hann inn í herbergi sitt, þar til hún kom inn um
kvöldið.

Var hún þá stygg við hann og segir, að hann hafi svikið sig í dag sem fyrri, en ekki
viti hún, hvort faðir sinn hafi orðið nokkuð áskynja um hann, en styggari hafi hann
verið við sig en vant hafi verið, - "og ekki ætlaði ég," segir hún, "að þú mundir
reynast mér eins illa og þú hefur gjört, og mun svo fleira á eftir fara fyrir þér."
Leið svo fram til sumarmála.

Á vetrardagskvöldið síðasta kom hún til hans og segir við hann, að það sé sumardagurinn
fyrsti á morgun og þá komi menn úr landi að sækja hann og skuli hann fara snemma til
skálans; en einnar bónar ætli hún að biðja hann, ef honum þyki nokkuð til koma, að hún
hafi haldið í honum lífinu í vetur, en það sé að gangast við barninu, sem hún gangi með
eftir hann, því það standi á lífi sínu, ef hún geti ekki feðrað það, þá láti faðir sinn
drepa sig. En ef hún gæti feðrað barnið, þá mundi hann ekki drepa sig, og hún beiðist
ekki annars af honum, ef hann reynist sér trúr í þessu.

Hann lofar henni því og segir, að sér skuli aldrei verða það að gangast ekki við því,
því að sér sé það útlátalaust, þegar hann þurfi ekki að hafa meira fyrir því. Kveður
hann hana þá og þakkar henni fyrir allar velgjörðir við sig um veturinn og býr sig
árdegis á stað morguninn eftir, og er hann er ei langt kominn, fer hann að líta aftur
til hallarinnar, og sér hann þá ekki annað en urðir og steina suður á eyjunni; fer hann
þá til skálans.

Veður var blítt og sjóveður gott, og er ei langt liðið á daginn, er hann sér skip koma
frá landi. En þegar skipverjar komu að eyjunni, gengur hann á móti þeim. En þegar þeir
sjá hann, verða þeir hræddir, því hann var mjög feitur og digur, og héldu þeir, að hann
væri afturgenginn, því þeir gjörðu ráð fyrir, að hann hefði eflaust dáið um veturinn,
og þorði enginn að tala til hans auk heldur að koma á land til hans.

Þó varð það um síðir, að formaðurinn fór á land og spyr, hvort hann sé lifandi maður
eða afturganga eða sá hinn sami, sem hafi orðið eftir í eyjunni um haustið. Hann kvaðst
vera sami maður og í haust, þegar þeir hefðu skilið sig eftir. Hinn sagðist ekki skilja
í því, hvernig hann hefði lifað þar svo lengi matarlaus. Eyjarmaðurinn sagði, að
þönglarnir í Seley mundu ekki vera kostverri en vatnsgrauturinn á Hólmum.

Ekki vildi hann segja þeim neitt meira; fór hann þá á skip til þeirra, og reru þeir svo
inn að Hólmum. Flesta furðaði á því að sjá hann lifandi aftur kominn, og var hann
spurður að því á marga vegu, hvernig hann hefði lifað um veturinn, en enginn fékk meira
hjá honum en þeir úti í eyjunni.

Að áliðnu sumri var það einn sunnudag, að veður var gott og margt fólk kom til kirkju,
og ætlaði vinnumaðurinn að vera í kirkju um daginn. En þegar presturinn er kominn í
kirkjuna og svo allur söfnuðurinn, vita menn ei fyrri til en barnsvagga er komin inn að
altarinu, og var gullsaumaður hökull breiddur yfir barnið, en enginn sást maðurinn,
nema menn sáu, að fögur kvenmannshönd var á vöggustokknum; allir urðu hissa, og horfir
hver á annan, en prestur tekur til máls og segir, að barn þetta vilji fá skírn og sé
sjálfsagt einhver í kirkjunni við það riðinn, og ýtir því helst að vinnumanni sínum og
segist halda, að hann hafi skilið þetta eftir í Seley í vor; en vinnumaðurinn afsalaði
sér því. Prestur kvaðst þá vilja skíra það undir hans nafn, en vinnumaður þverneitaði
og sagðist ekkert vilja hafa með það. En prestur sagði, að hann hefði ekki lifað í
eyjunni, nema hann hefði notið mannahjálpar; en vinnumaður kvaðst aldrei við barninu
gangast og bannaði presti að skíra það undir sínu nafni.

Var þá vöggunni kippt burt, og hvarf hún samstundis, og í því kom upp grátur mikill, og
heyrðu menn hann fara út úr kirkjunni. Fór þá prestur út á eftir og menn með honum.
Heyrðu menn þá grátinn og ekkann líða ofan til sjávar, en á kirkjugarðinum lá
hökullinn, og var hann brúkaður á Hólmum lengi eftir það.

Alla undraði þetta, en þó féll prestinum mest um atburð þenna. En seinna kom fásinna á
vinnumanninn. Prestur spurði hann, hvað til þess kæmi, en hann sagði þá upp alla söguna
og það hefði verið kóngur og dóttir hans, er hann dvaldi hjá um veturinn, og iðraði sig
þess alla daga, að hann hefði ekki gengist við barninu. Eftir þetta varð vinnumaður
aldrei samur alla ævi, og lýkur hér svo sögunni af huldufólkskónginum í Seleynni.
SELMATSELJAN

(Þjsb./J.Á. I)

Prestur var eitt sinn fyrir norðan sem hafði upp alið stúlkubarn. Frá prestssetrinu var
selstaða langt á fjöllum uppi og hafði prestur þar jafnan fé og kýr á sumrum, ráðskonu
og smala.

Þegar fósturdóttir hans varð eldri varð hún selráðskona og fór henni það sem annað vel
úr hendi því hún var ráðdeildarkvenmaður, fríð sýnum og vel að sér um marga hluti. Urðu
því margir efnismenn til að biðja hennar, því hún þótti hinn besti kvenkostur norður
þar. En hún hafnaði öllum ráðahag við sig.

Einu sinni kom prestur að máli við uppeldisdóttur sína og hvatti hana mikillega að
giftast og taldi það til að ekki yrði hann ætíð til að sjá henni farborða þar sem hann
væri maður gamall. Hún tók því allfjarri og kvaðst engan hug leggja á slíkt og sér
þætti vel sem væri og ekki sæktu allir gæfu með gjaforðinu. Skildu þau að svo mæltu um
hríð.

Þegar leið á veturinn þótti mönnum selráðskonan þykkna undir belti og fór þykktinni því
meir fram sem lengur leið á. Um vorið kom fóstri hennar aftur að máli við hana og bað
hana segja sér frá högum hennar og sagði hún mundi víst vera barnshafandi og að hún
mundi ekki í selið fara það sumar.

Hún neitaði þverlega að hún væri eigi einsömul og kvað sér ekki til meina og selstörf
skyldu hún annast eins það sumar og áður.

Þegar klerkur sá að hann kom engu áleiðis við hana lét hann hana ráða en bað menn þá er
voru í selinu að ganga eigi nokkru sinni frá henni einni og hétu þeir honum góðu um
það. Síðan var flutt í selið og var ráðskonan hin kátasta. Leið svo fram um hríð að
ekki bar til tíðinda. Selmenn höfðu sterkar gætur á ráðskonunni og létu hana aldrei
eina.

Eitt kvöld bar svo við að smalamanni var vant alls fjárins og kúnna. Fór þá hvert
mannsbarn úr selinu nema selráðskonan var ein eftir. Sóttist leitarmönnum seint leitin
og fundu eigi féð fyrr en undir morgun með því niðþoka var á.

Þegar leitarmenn komu heim var matseljan á fótum og venju fremur fljót á fæti og létt á
sér. Það sáu menn og þegar frá leið, að þykkt hennar hafði minnkað en ekki vissu menn
með hverju móti og þótti mönnum að þykktin hefði verið annars kyns þykkt en barnsþykkt.

Var svo flutt úr selinu um haustið heim, bæði menn, fénaður og söfnuður. Sá prestur það
að matseljan var mjóslegnari um mittið en hún hafði verið veturinn áður.

Gekk hann þá á hina selmennina og spurði þá hvort þeir hefðu brugðið af boði sínu og
gengið allir frá selmatseljunni. En þeir sögðu honum svo sem var að þeir hefðu alls
einu sinni frá henni farið að leita því alla málnytuna hefði vantað.

Klerkur reiddist og bað þá aldrei þrífast sem breytt hefðu boði sínu og kvað sig hafa
grunað þetta þegar selmatseljan fór í selið um vorið.

Veturinn eftir kom maður að biðja fósturdóttur prestsins og tók hún því allfjarri. En
prestur sagði hún skyldi ekki undan komast að eiga hann því hann hafði almenningslof á
sér og var góðra manna. Hann hafði tekið við búi eftir föður sinn um vorið og var móðir
hans fyrir framan hjá honum. Varð svo þessum ráðahag framgengt hvort konunni var það
ljúft eða leitt.

Um vorið var brullaup þeirra hjá presti. En áður konan klæddist brúðarfötum sínum sagði
hún við mannsefnið: "Það skil ég til við þig fyrst þú átt að ná ráðahag við mig að mér
nauðugri að þú takir aldrei vetursetumann svo að þú látir mig ekki vita áður því ella
mun þér ekki hlýða," og hét bóndi henni því.

Leið svo af veislan og fór hún heim með bónda sínum og tók til búsforráða en þó með
hangandi hendi því aldrei var hún glöð eða með hýrri há þótt bóndi hennar léki við hana
á alla vegu og vildi ekki láta hana taka hendi í kalt vatn. Hvert sumar sat hún inni
þegar aðrir voru að heyvinnu og tengdamóðir hennar hjá henni til að skemmta henni og
annast um matseld með henni. Þess á millum sátu þær og prjónuðu eða spunnu og sagði
eldri konan tengdadóttur sinni sögur henni til skemmtunar.

Eitt sinn þegar gamla konan hafði lokið sögum sínum sagði hún við tengdadóttur sína að
nú skyldi hún segja sér sögu. En hún kvaðst engar kunna. Hin gekk því fastar að henni
svo hin hét þá að segja henni þá einu sögu sem hún kynni og hóf þannig frásögn sína:

"Einu sinni var stúlka á bæ. Hún var selmatselja. Skammt frá selinu voru hamrar stórir
og gekk hún oft hjá hömrunum. Huldumaður var í hömrunum, fríður og fallegur, og
kynntust þau brátt við og varð þeim allkært saman. Hann var svo góður og eftirlátur við
stúlkuna að hann synjaði henni einskis hlutar og var henni til vilja í hvívetna. Fóru
þá svo leikar þegar fram liðu stundir að selmatseljan var eigi einsömul og gekk
húsbóndi hennar á hana með það þegar hún átti að fara í selið sumarið eftir en stúlkan
neitaði áburði þessum og fór í selið sem hún var vön.

En húsbóndinn bað þá er í selinu voru að fara aldrei svo frá henni að hún væri ein
eftir og hétu þeir honum góðu um það. Eigi að síður fóru allir frá henni að leita
fjárins og þá tók hún léttasóttina. Kom þá maður sá til hennar er hún hafði haft
samræði við og sat yfir henni og skildi á milli, laugaði barnið og reifaði. En áður
hann fór burtu með sveininn gaf hann henni að drekka af glasi og það var sá sætasti
drykkur sem ég hef. . .," í því datt hnoðað úr hendinni á henni, sem hún var að prjóna
af, svo hún laut eftir hnoðanu og leiðrétti, -- "sem hún hafði smakkað, vildi ég sagt
hafa, svo hún varð á samri stundu alheil allra meina.

Upp frá þeirri stundu sáust þau ekki, stúlkan og huldumaðurinn, en hún giftist öðrum
manni sárnauðug því hún þráði svo mjög hinn fyrri ástmann sinn og sá aldrei upp frá því
glaðan dag. Og lýkur hér þessari sögu."

Tengdamóðir hennar þakkaði henni söguna og setti hana vel á sig.

Fór svo fram um hríð að ekki bar til tíðinda og konan hélt teknum hætti um ógleði sína
en var þó góð við mann sinn.

Eitt sumar þegar mjög var liðið á slátt komu tveir menn, annar stærri en annar, í
teiginn til bónda. Báðir höfðu þeir síða hetti á höfði svo óglöggt sást í andlit þeim.
Hinn meiri hattmaður tók til orða og bað bónda veturvistar. Bóndi kvaðst ekki taka
nokkurn mann á laun við konu sína og kvaðst hann mundi hitta hana að máli áður en hann
héti þeim vistinni.

Hinn meiri maður bað hann ekki mæla svo óvirðulega að slíkur höfðingi ætti það konuríki
að hann væri ekki einráður í slíkum smámunum sem að gefa tveimur mönnum mat einn
vetrartíma. Svo það verður að ráði með þeim að bóndi hét mönnum þessum veturvist að
konu sinni fornspurðri.

Um kvöldið fara komumenn heim til bónda og lét hann þá fara í hús nokkurt frammi í
bænum og bað þá þar vera. Bóndi gengur til húsfreyju og segir henni hversu nú var
komið. Húsfreyja snerist illa við og sagði þetta hina fyrstu bæn sína og að líkindum þá
seinustu. En fyrir því að hann hefði einn við mönnunum tekið þá skyldi hann og einn
fyrir sjá hvað hlytist af veturvist þeirra og skildu svo talið.

Var nú allt kyrrt þangað til húsfreyja og húsbóndi ætluðu til altaris um haustið. Það
var venja þá, sem enn er sums staðar á Íslandi, að þeir sem ætla sér að vera til
altaris ganga fyrir hvern mann á bænum, kyssa þá og biðja þá fyrirgefningar á því sem
þeir hafi þá styggða. Húsfreyja hafði allt til þessa forðast vetursetumennina og aldrei
látið þá sjá sig og svo var og að þessu sinni að hún kvaddi þá ekki.

Svo fóru hjónin af stað. En þegar þau voru komin út fyrir túngarðinn sagði bóndi við
húsfreyju: "Þú hefur sjálfsagt kvatt vetursetumennina." Hún kvað nei við.

Hann bað hana ekki gjöra þá óhæfu að fara svo hún kveddi þá ekki.

"Í flestu sýnir þú að þú metur mig lítils, fyrst í því að þú tókst við mönnum þessum að
mér fornspurðri, og nú aftur þar sem þú vilt þröngva mér til að minnast við þá. En ekki
fyrir það, ég skal hlýða, en þú skalt fyrir sjá því þar á ríður líf mitt og þitt með að
líkindum."

Hún snýr nú heim og seinkar henni mjög heima. Bóndi fer þá heim og kemur þangað sem
hann átti von á vetursetumönnum og finnur þá í herbergi þeirra. Hann sér hvar
veturvistarmaður hinn meiri og húsfreyja liggja bæði dauð í faðmlögum á gólfinu og
höfðu þau sprungið af harmi. En hinn veturvistarmaðurinn stóð grátandi yfir þeim þegar
bóndi kom inn en hvarf í burt litlu síðar svo enginn vissi hvert hann fór.

Þóttust nú allir vita af sögu þeirri er húsfreyja hafði sagt tengdamóður sinni að hinn
meiri komumaður hefði verið huldumaður sá sem húsfreyja hafði kynnst við í selinu og
hinn minni sonur þeirra sem á burt hvarf.SVEINNINN SEM UNDI EKKI MEÐ ÁLFUM

(Þjsb./J.Á. I)

Norður í Þingeyjarsýslu hvarf eitt sinn drengur á fjórða árinu. En að viku liðinni
fannst hann undir háum klettum er voru í nánd við bæinn. Voru þá þrjú fingraför á kinn
hans.

En er hann var spurður hvar hann hefði dvalið sagðist hann hafa verið á bænum þarna og
benti þeim þar á er þeim virtust vera klettar einir. Sagði hann að þar byggi álfafólk
og hefði það viljað heilla sig en hann sagðist ekki hafa getað borðað hjá því því allur
matur hefði sér sýnst maðkaður. Hefði það þá séð að ekki hefði orðið um sig tætt og
hefði því gömul kona leitt sig brott og sagt að hann skyldi þó bera þess menjar að hann
hefði dvalið hjá álfafólki, slegið sig kinnhest og gengið síðan burt.

Eftir þetta ólst drengurinn upp, mannaðist vel og varð merkisbóndi. Eitt sinn reið
hann, er hann var orðinn gamall maður, fram hjá klettum þeim er hann fannst undir og
kvað hann þá vísu þessa:

Þessar klappir þekkti ég fyrr,
þegar ég var ungur.
Átti ég víða á þeim dyr,
eru þar skápar fallegir.
SÝSLUMANNSKONAN Á BURSTARFELLI

(Þjsb./J.Á. I)

Að Burstarfelli í Vopnafirði var einu sinni sýslumaður, ríkur og stórættaður. Hann var
kvongaður og átti rausnarbú mikið.

Sá var siður á Burstarfelli að fólk lagðist til svefns á vetrum áður en ljós var kveikt
í baðstofu og réð konan sýslumannsins því allténd hvað lengi var sofið. Kveikti hún
sjálf ljós og vakti fólkið.

Það var einhverju sinni að konan vaknar ekki sem hún var vön og fer vinnufólkið á fætur
og kveikir. Vill ekki sýslumaður láta vekja hana. Segir hann að hana muni dreyma og
skuli hún njóta draumsins.

Og er langt er liðið á nótt vaknar hún loksins og varpar allmæðulega öndinni. Segir hún
þá draum sinn að henni þyki maður hafa komið að sér og beðið sig upp standa og fara með
sér. Hún gjörir það og fer hann með hana nokkuð frá bænum og að steini einum stórum sem
stóð í landeign Burstarfells og hún þekkti.

Maðurinn gengur þrisvar réttsælis í kringum steininn og sýnist þá konunni hann verða að
litlu en skrautlegu húsi. Leiðir hann svo konuna inn í húsið og er þar allt fagurlega
umbúið. Þar sér hún, að kona liggur á gólfi og er mjög þunglega haldin. Kerling ein var
og í húsinu og ekki fleira manna.

Maðurinn bar þá upp erindið við konu sýslumannsins og biður hana bjarga konu sinni sem
liggi á gólfi og muni deyja nema hún njóti að fulltingis mennskra manna.
Sýslumannskonan gengur þá að sængurkonunni og segir: "Jesús góður hjálpi þér." Við
þessi orð brá svo að konan verður bráðum léttari og aflar það þeim öllum hinnar mestu
gleði.

Það sér sýslumannskonan að eftir það hún nefndi Jesúnafn, skreiðist kerlingin ofan og
sópar sem vandlegast innan allt eldhúsið og ímyndar sýslumannskonan sér að kerlingu
hafi lítið þótt hreinkast híbýlin við það nafn. Nú er tekið til að lauga barnið og skal
sýslumannskonan vera fyrir þeim starfa. Fær sængurkonan henni bauk með smyrslum í sem
hún á að bera í augu barnsins um leið og hún laugar. Þetta gjörir sýslumannskonan og
ætlar að smyrsl þessi muni heilnæm.

Dettur henni í hug að bera þau í augu sér en þorir það þó ekki fyrir fólkinu. Þó getur
hún með lagi og svo enginn sá brugðið fingurgómnum í hægra auga sitt. Er svo lokið
lauganinni og býst sýslumannskonan til heimferðar. En að skilnaði gefur sængurkonan
henni dúk mjög dýran. Var hann úr guðvef og allur gullofinn.

Gengur svo maðurinn með sýslumannskonunni út úr húsinu og er þau koma út gengur hann
þrisvar rangsælis í kringum húsið og verður það þá aftur að steini. Fylgir hann konunni
síðan aftur heim að Burstarfelli og skilur þar við hana.

Tekur nú sýslumannskonan dúkinn undan höfði sér og sýnir til jarteikna um sögu sína.
Þóttist enginn slíkan grip séð hafa af samri tegund og er svo sagt að dúkur þessi sé
enn hafður að altarisklæði við kirkju þá sem Burstarfell á kirkjusókn að.

En frá sýslumannskonunni er það að segja að hún fann þá breytingu á hægra auga sínu,
sem hún hafði borið smyrslin í, að nú sá hún með því allt sem skeði bæði í jörðu og á.

Er svo sagt að nálægt Burstarfelli séu klappir miklar og björg stór. Sá nú
sýslumannskonan að þetta var raunar öðruvísi en sýndist og að þetta var allt bæir, hús
og þorp stór. Var það allt fullt af fólki sem hafði allt atferli sem annað fólk, sló og
rakaði og yrkti tún og engjar. Það átti naut, sauði og hesta, sem allt gekk innan um
annan búsmala, og eins fólkið, það gekk með öðru fólki og vann það sem því sýndist. En
enginn sá það nema sýslumannskonan.

Tók hún eftir því að þetta fólk var miklu verkhyggnara og veðurgleggra en annað fólk.
Breiddi það oft hey þegar ekki var þerrir og stundum breiddi það ekki þó á væri
brakandi þerrir. Tók sýslumannskonan eftir því að þá kom ætíð þerrir þegar það breiddi
en rigning ef það breiddi ekki en aðrir breiddu og svo var um annan verknað.

Tók sýslumannskonan mjög eftir því búnað og verklag og þótti henni sér það allt að góðu
verða. Liðu svo fram nokkrir tímar.

Það var einhverju sinni að sýslumannskonan kemur í kaupstað. Og er hún kemur í krambúð
sér hún að kona sú er hún sat yfir forðum er fyrir innan búðarborðið. Hefur hún tínt
saman og hlaðið í fang sér ýmislegu sem fágætast var af kramvöru hjá kaupmönnum. Það
sér sýslumannskonan að enginn verður var við konu þessa nema hún. Hún gengur því að
borðinu og segir mjög vingjarnlega: "Og við sjáumst þá hérna aftur." Huldukonan snýr
sér við mjög reiðilega og hrækir í hægra augað á sýslumannskonunni án þess að segja
nokkuð. En svo brá við að sýslumannskonan sá ekki huldukonuna upp frá því og ekkert
framar en hún hafði séð áður en hún bar smyrsl í hægra augað á sér.
ÞÓRÐUR Á ÞRASTASTÖÐUM

(Þjsb./J.Á. I)

Þórður hét maður; hann bjó á Þrastastöðum á Höfðaströnd í Skagafirði. Hann þótti nokkuð
undarlegur í skapi. Það var einn vetur, að hann fór að heiman og ætlaði í kaupstað, en
drífa var svo mikil, að mönnum þótti óratandi. Hann bar vörupoka og gengur nú ofan
mýrar, því ekki er langt þaðan í Hofsós.

Þegar hann er skammt kominn, villist hann, heldur þó áfram til kvölds; þá þykist hann
sjá búðir svo háar, að furðu gegndi; gengur hann þangað; er þar ljós í gluggum. Hann
gengur að einum, sér þar fólk inni og heyrir hljóðfærasöng og sér dansað.

Hann gengur nú að dyrum og klappar upp á. Strax kemur fram í dyrnar maður á frakka og
spyr hann, hvað hann vilji. Þórður sagði sem var um villu sína, og kveðst hann vilja fá
sér húsaskjól, ef þess væri kostur. Hinn kvað það til reiðu, - "og fylg þú mér inn með
vörupoka þinn. Skal ég á morgun versla við þig, og mun þér ekki verra þykja en í
Hofsós."

Þórður trúði varla sjálfum sér, og hélt hann sig væri að dreyma. Nú leiðir
frakkamaðurinn Þórð í stofu, þó hann væri ekki tígulega búinn; var þar margt fólk,
kona, börn og hjú; var það allt skrautlega búið, sat við söng og gleði.

Frakkamaðurinn eða húsráðandinn mælti til konu sinnar lágt, en þó svo Þórður heyrði:
"Hér er kominn maður, lúinn og villtur, og þarf hressingar við. Gjörðu honum eitthvað
gott, heillin mín."

Hún kvað hann bágt eiga, stóð upp brátt og sækir honum mat, bæði mikinn og góðan. En
húsráðandinn kemur með flösku og staup tvö, skenkir á, drekkur annað sjálfur, en biður
Þórð drekka hitt. Hann gjörir það. Þykist hann ei smakkað hafa jafngott vín á ævi
sinni. Þar var skemmtan hin mesta, og leiddist Þórði ekki, en kynlegt þótti honum
ævintýri sitt. Fær hann nú hvert staupið að öðru; tekur hann að verða drukkinn. Síðan
fékk hann gott rúm og svaf af um nóttina.

Um morguninn fékk hann líka mat og vín enn betra en um kvöldið. Síðan gengur húsráðandi
með honum út og býður honum að höndla við sig. Þórður þiggur það. Ganga þeir í búðina;
er þar alls konar varningur. Þórður leggur inn vörur sínar; tók kaupmaður (réttast
nefndur) þær góðum helmingi betur en vani var til í Hofsós.

Þórður tók nú korn í poka sinn og léreft og ýmislegt kram, sem hann þurfti; var það
allt með helmingi betra verði en hann hafði vanist, og er hann var búinn, gaf kaupmaður
honum sjal handa konunni og brauð handa börnunum, - sagði, að hann skyldi njóta þess,
að hann hefði hjálpað syni sínum úr lífsháska. Þórður hélt það ekki verið hafa.
Kaupmaður sagði það þó verið hafa.

"Þú varst einu sinni staddur undir Þórðarhöfða. með fleiri mönnum ungum. Þið láguð
eftir byr og ætluðuð fram í Drangey. Þeir fóru að leika sér að steinkasti og hæfa þar í
klett, en sólskin var heitt; hafði sonur minn lagst til hvíldar undir klettinn, því
hann var lúinn og hafði vakað um nóttina. Þú bannaðir mönnunum steinkastið og kvaðst
það óþarfa gaman. Þeir hættu að vísu, en höfðu þig í skimpi fyrir tiktúrur þínar og
kváðu þig jafnan undarlegan verið hafa. En hefðir þú ekki þetta bannað, mundu þeir hafa
drepið son minn."

Að svo mæltu fór Þórður að búa sig á stað; var þá bjart veður. Kvaddi nú Þórður fólkið
allt, en kaupmaður gekk með honum á veg og bað hann síðan vel fara og snýr heim síðan.
Þórður heldur nú leiðar sinnar. En er hann leit við til kaupstaðarins, sá hann ekkert
nema Þórðarhöfðann skammt frá sér; furðaði hann sig mjög og gekk nú heim, fann konu
sína, sagði henni frá og sýndi henni varninginn og fær henni sjalið. Hún gladdist við
allt þetta og þakkaði manni sínum gjöfina.

Varningur Þórðar gekk víða til sýnis, og hafði slíkur aldrei sést hér á landi og þó
víðar væri leitað. Aldrei sá Þórður kaupmanninn né nokkuð af því fólki síðan. En af
varningnum átti hann til sýnis alla sína ævi.
TÖKUM Á, TÖKUM Á

(Þjsb./J.Á. I)

Tvær álfkonur fóru einu sinni heim á bæ einn til að skipta um barn. Þær koma þar að sem
barnið er sem þær ætluðu að taka. Það lá í vöggu. Enginn maður var þar nærri nema annað
barn tvævett. Yngri álfkonan og ógætnari gengur þegar að vöggunni og segir:

"Tökum á, tökum á"

Þá segir hin eldri:

"Ekki má því mein er á,
kross er undir og ofan á,
tvævetlingur situr hjá
og segir frá."

Við það fóru þær burtu og fengu ekki að gjört, bæði sökum krossmarksins sem gjört hafði
verið yfir vögguna og undir barnið áður en það var lagt út af svo og vegna hins er hjá
vöggunni sat og síðan sagði frá þessum atburði.
TUNGUSTAPI

(Þjsb./J.Á. I)

Í Eyrbyggju, seinasta kapítula, er sagt frá, að kirkja hafi verið flutt í
Sælingsdalstungu, kirkjugarður grafinn og bein manna upp tekin, t. d. Snorra goða og
Barkar digra; var það á dögum Guðnýjar húsfreyju í Hvammi, móður þeirra Sturlusona, því
söguritarinn segir, að hún hafi verið við, og hefur eftir henni það, sem greint er um
stærð beinanna. Sagan talar ekkert um, hvers vegna kirkjan var flutt úr stað, en á
Vesturlandi gengur þessi saga um tilefni til flutningsins.

Í gamla daga, fyrir mörgum hundruð árum, bjó mjög ríkur bóndi í Sælingsdalstungu; hann
átti nokkur börn, og eru til nefndir tveir synir. Ekki vita menn, hvað þeir hétu, og
köllum vér þá því Arnór og Svein. Þeir voru báðir efnilegir menn, en þó ólíkir. Arnór
var hreystimaður og mikill fyrir sér. Sveinn var hægur og spakur og enginn
hreystimaður. Eftir því voru þeir mjög ólíkir í lund; Arnór var gleðimaður og gaf sig
að leikjum með sveinum þar úr dalnum, og mæltu þeir oft mót með sér við stapa þann, er
stendur niður við ána, andspænis bænum í Tungu, og sem kallaður er Tungustapi. Var það
skemmtun þeirra á vetrum að renna sér eftir harðfenni niður af stapanum, því hann er
hár mjög, og niður á eyrarnar í kring; gekk oft mikið á með kall og háreysti kringum
Tungustapa í rökkrunum, og var Arnór þar oftast fremstur í flokki.

Sjaldan var Sveinn þar með. Gekk hann þá oftast í kirkju, er aðrir piltar fóru til
leika; oft fór hann líka einförum og dvaldi þá tíðum niður við Tungustapa. Var það mál,
að hann hefði mök við álfafólk, sem bjó í stapanum, og nokkuð var það, að hverja
nýársnótt hvarf hann, svo enginn vissi, hvað af honum varð. Oft kom Sveinn að máli við
bróður sinn, að hann eigi skyldi gjöra svo mikla háreysti þar á stapanum, en Arnór
gjörði gabb að og kvaðst eigi mundi vorkenna álfunum, þó hátt væri haft. Hélt hann
uppteknum hætti; en Sveinn varaði hann við því oftar og sagði, að hann skyldi
ábyrgjast, hvað af slíku hlytist.

Það bar til eitt nýárskvöld, að Sveinn hvarf að vanda. Lengdist mönnum venju fremur
eftir honum. Kvaðst Arnór mundi leita hans og sagði hann mundi dvelja hjá álfum niður í
Stapa. Gengur Arnór af stað, allt til þess hann kemur að stapanum. Veður var dimmt
mjög. Veit hann ekki fyrri til en hann sér stapann opnast á þá hlið, sem að bænum snýr,
og ljóma þar ótal ljósaraðir; heyrir hann kveða við indælan söng, og skilur hann af
þessu, að á messu muni standa hjá álfum í stapanum. Kemur hann nú nær og sér, hvað fram
fer. Sér hann þá fyrir framan sig eins og opnar kirkjudyr og fjölda manns inni. Er
prestur fagurlega skrýddur fyrir altari, og eru margsettar ljósaraðir til beggja hliða.
Gengur hann þá inn í dyrnar og sér, hvar Sveinn bróðir hans krýpur fyrir gráðunni, og
er klerkur að leggja hendur í höfuð honum með einhverjum ummælum. Það hyggur Arnór, að
verið sé að vígja hann einhverri vígslu, því margir skrýddir menn stóðu umhverfis.

Kallar hann þá og segir: "Sveinn, kom þú, líf þitt liggur við."

Hrekkur Sveinn þá við, stendur upp og lítur utar eftir; vill hann þá hlaupa móti bróður
sínum.

En í því kallar sá, er við altarið var, og segir: "Læsið kirkjudyrunum, og hegnið hinum
mennska manni, er raskar friði vorum. En þú, Sveinn, hlýtur við oss að skilja, og er
bróðir þinn sök í því. En fyrir það, að þú stóðst upp í því skyni að ganga til bróður
þíns og mattir hans ósvífna kall meira en heilaga vígslu, skalt þú niður hníga, og það
örendur, næsta sinn, er þú sér mig hér í þessum skrúða."

Sá Arnór þá, að hinir skrýddu menn hófu Svein á loft, og hvarf hann upp um
steinhvelfing þá, er yfir var kirkjunni. Kveður þá við dynjandi klukknahljóð, og í því
heyrist þys mikill inni. Hleypur hver um annan þveran til dyra. Arnór hleypur þá sem
hann mátti út í myrkrið heim á leið og heyrir álfareiðina, þysið og hófasparkið á eftir
sér; heyrir hann, að einn í flokki þeirra, er fremstir ríða, kveður við raust og segir:

"Ríðum, og ríðum.
Það rökkvar í hlíðum;
ærum, og færum
hinn arma af vegi,
svo að hann eigi
sjái sól á degi,
sól á næsta degi."

Þusti þá flokkurinn milli hans og bæjarins, svo hann varð að hörfa undan. Þegar hann
var kominn í brekkur nokkrar suður frá bænum og austur frá stapanum, gafst hann upp og
hneig máttvana niður; reið þá allur flokkurinn á hann ofan, og lá hann þar eftir nær
dauða en lífi.

Það er frá Sveini að segja, að hann kom heim eftir vökulok. Var hann daufur mjög og
vildi engum segja um burtuveru sína, en kvað nauðsyn að leita Arnórs. Var hans leitað
alla nóttina, og fannst hann eigi, fyrr en bóndi frá Laugum, er kom til óttusöngs að
Tungu, gekk fram á hann þar í brekkunum, sem hann lá.

Var Arnór með rænu, en mjög aðframkominn; sagði hann bónda, hvernig farið hafði um
nóttina, eins og áður er frá sagt. Ekki kvað hann tjá að flytja sig til bæjar, því hann
yrði eigi lífgaður. Andaðist hann þar í brekkunum, og heita það síðan Banabrekkur.

Aldrei varð Sveinn samur eftir þenna viðburð; hneigðist skap hans enn meir til alvöru
og þunglyndis, en aldrei vissu menn hann koma nærri Álfastapa eftir þetta, og aldrei
sást hann nokkru sinni horfa í þá átt, sem stapinn er. Gaf hann sig frá öllum veraldar-
umsvifum, gjörðist munkur og gekk í klaustur á Helgafelli. Varð hann svo lærður maður,
að enginn bræðra komst til jafns við hann, og svo söng hann fagurlega messu, að enginn
þóttist jafnfagurt heyrt hafa.

Faðir hans bjó í Tungu til elli. Þegar hann var gamall orðinn, tók hann sótt þunga. Það
var nærri dymbildögum. Þá er hann fann, hvað sér leið, lét hann senda eftir Sveini út
til Helgafells og bað hann koma á sinn fund. Sveinn brá við skjótt, en gat þess, að
skeð gæti hann kæmi eigi lífs aftur. Kom hann að Tungu laugardag fyrir páska. Var þá
svo dregið af föður hans, að hann mátti trauðlega mæla. Beiddi hann Svein son sinn að
syngja messu á páskadag sjálfan og skipaði að bera sig þá í kirkju; kvaðst hann þar
vilja andast. Sveinn var tregur til þessa, en gjörði það samt, þó með því skilyrði, að
enginn opnaði kirkjuna, meðan á messu stæði, og sagði þar á riði líf sitt.

Þótti mönnum þetta kynlegt; þó gátu sumir þess til, að hann enn sem fyrri ekki vildi
sjá í þá átt, sem stapinn var, því kirkjan stóð þá á hólbarði einu hátt uppi í túninu,
austur frá bænum, og blasti stapinn við kirkjudyrum.

Er nú bóndi borinn í kirkju, eins og hann hafði fyrir mælt, en Sveinn skrýddist fyrir
altari og hefur upp messusöng. Sögðu það allir, er við voru, að þeir aldrei hefðu heyrt
eins sætlega sungið eða meistaralega tónað, og voru allir því nær höggdofa. En er
klerkur að lyktum sneri sér fram fyrir altari og hóf upp blessunarorðin yfir
söfnuðinum, brast á í einni svipan stormbylur af vestri, og hrukku við það upp dyr
kirkjunnar.

Varð mönnum hverft við og litið utar eftir kirkju; blöstu þá við eins og opnar dyr á
stapanum, og lagði þaðan út ljóma af ótal ljósaröðum; en þegar mönnum aftur var litið á
prest, var hann hniginn niður og var þegar örendur. Féllst mönnum mikið um þetta og þar
með, að bóndi hafði einnig á sömu stundu fallið liðinn fram af bekk þeim, er hann lá á,
gagnvart altari. Logn var fyrir og eftir viðburð þenna, svo öllum var augljóst, að með
stormbyl þann, er frá stapanum kom, var eigi sjálfrátt.

Var þá viðstaddur bóndi sá frá Laugum, er fundið hafði Arnór í brekkunum fyrri, og
sagði hann þá upp alla sögu. Skildu menn af því, að það hefði komið fram, er
álfabiskupinn hafði um mælt, að Sveinn skyldi dauður hníga, er hann sæi sig næst. Nú,
þegar opinn var stapinn og hurð kirkjunnar hrökk upp, blöstu dyrnar hvorar móti öðrum,
svo álfabiskupinn og Sveinn horfðust í augu er þeir tónuðu blessunarorðin, því dyr á
kirkjum álfa snúa gagnstætt dyrum á kirkjum mennskra manna (nl. til austurs).

Áttu menn héraðsfund um mál þetta, og var það afráðið, að flytja skyldi kirkjuna niður
af hólbarðinu, nær bænum, í kvos hjá læk nokkrum. Með því var bærinn milli stapans og
kirkjudyra, svo aldrei síðan hefur presti þar verið unnt að sjá frá altari gegnum
kirkjudyr vestur í Álfastapa, enda hafa slík býsn eigi orðið síðan þetta var.
ÚLFHILDUR ÁLFKONA

(J.Á. I)

Einu sinni var bóndi á bæ; hann bjó norður við Mývatn. Það vatn er svo stórt að ekki er
minni vegur utan um það en þingmannaleið.

Það bar til einu sinni í byrjun túnasláttar þegar fólk var allt að heyvinnu úti á
túninu að kona kemur frá vatninu og stefnir að bænum. Hún gengur til bónda og biður
hann að lofa sér að vera í nótt. Bóndi lofar henni það. Hann spyr hana að nafni, en hún
kvaðst heita Úlfhildur. Bóndi spyr hana hvaðan hún sé, en hún eyddi því.

Um kvöldið er tekið saman hey hjá bónda og biður Úlfhildur þá um hrífu. Rakar Úlfhildur
þá ei minna en [á] við tvo meðalkvenmenn og þó í gildara lagi væru. Næsta morgun vill
Úlfhildur raka með hinum vinnukonunum, en bóndi kveðst ekki þurfa þess með og lætur á
sér heyra að hann helzt vilji að hún fari burt. Þá fer Úlfhildur að gráta. Lofar þá
bóndi henni að vera þennan dag.

Næsta morgun segir bóndi að nú verði hún að fara, en þá fer hún að gráta; kennir þá
bóndi í brjósti um hana og leyfir henni að vera viku. Þegar vikan er liðin kveðst bóndi
nú ekki lengur geta haldið hana, en það fer eins og fyrr að þá fer Úlfhildur að gráta.
Verður það þá úr að hann lofar henni að vera sumarið út og verður hún því mjög fegin.

Öllum á heimilinu líkaði vel við Úlfhildi því enginn þóttist hafa þekkt duglegri,
þrifnari eða siðferðisbetri kvenmann. Þegar líður undir haustið er það ráðgjört að
Úlfhildur skuli vera árið út og litlu seinna er hún föluð til að vera næsta ár.

Þegar líður að jólum fram þann næsta vetur fær húsfreyja henni skæði til að gjöra úr
skó til jólanna handa sér og vinnumönnum þeim tveimur sem hún þjónaði. Hún gjörir
skæðin handa vinnumönnunum, en sín skæði lætur hún vera ógjörð. Á jóladaginn fara allir
til kirkju nema Úlfhildur er ein heima.

Er nú ekkert til frásagnar þangað til að líður fram að næstu jólum. Húsfreyja fær
Úlfhildi skæði eins og fyrra árið til jólanna, en hún gjörir skæði vinnumannanna, en
ekki sín skæði.

Á jóladaginn fara allir til kirkju nema Úlfhildur er ein heima. En á jólanóttina
þóttist annar vinnumaðurinn hafa orðið þess var að Úlfhildur hefði eitthvað á burt
farið og hugsaði sér ef hann yrði henni samtíða næstu jólanótt að gæta betur að hvað
henni liði.

Líða nú jólin og veturinn og kemur Úlfhildur sér einkar vel, og þóttust menn ekki vita
hennar jafningja fyrir margra hluta sakir. Er ekkert til frásagnar þar til líður að
þriðju jólunum. Húsfreyja fær Úlfhildi skæði í jólaskó að vanda og gjörir hún skóna
handa vinnumönnunum eins og fyrr, en ekki sína. Húsfreyja mælti við Úlfhildi að nú yrði
hún að fara til kirkju á jóladaginn því hún kvaðst hafa mætt álasi af presti fyrir það
að hún færi aldrei til kirkju. Úlfhildur talaði fátt um og eyddi því.

Þegar allir eru háttaðir á jólanóttina, en vinnumaður sá vakandi sem áður er um getið,
þá fer Úlfhildur á fætur hægt svo enginn heyrir og laumast út úr bænum, en vinnumaður
fer á eftir. Hún gengur að vatninu og þegar hún kemur þar tekur hún upp glófa og gnýr
þá; verður þegar brú yfir vatnið; gengur hún brúna og vinnumaður á eftir.

Þegar hún er komin yfir vatnið gnýr hún glófana aftur svo brúin hverfur. Úlfhildur
heldur áfram ferðinni og sýnist vinnumanni sem hún nú haldi niður í jörðina, og verður
dimmt mjög þar sem hún fer. Getur þó vinnumaður séð til hennar og heldur alltaf á
eftir.

Þau halda nú lengi áfram ferðinni þangað til smátt og smátt fer leiðin að verða
bjartari. Loksins koma þau á slétta og fagra völlu; voru þeir svo fagrir og blómlegir
að vinnumaður hafði aldrei séð svo fallegan stað. Beggja megin vegarins var alþakið af
fögrum blómum og voru grundirnar ljósbleikar á að líta þegar sólin skein á fíflana og
aldinin. Sauðahjörðin lék sér á flatlendinu, en stundum reif hún í sig blómin með
áfergju.

Náttúran var yfirhöfuð íklædd hinum fegursta búningi. Á þessu graslendi miðju stóð
fögur höll og virtist vinnumanni það vera konungshöll, svo var hún skrautleg til að
sjá. Þangað gekk Úlfhildur og inn í höllina. En vinnumaður stóð í afkima fyrir utan.

Hjá höllinni stóð kirkja og var það fögur bygging. Þegar lítil stund er liðin kemur
Úlfhildur út úr höllinni íklædd drottningarskrúða og hefur gullhring á hverjum fingri.

Hún ber barn á handlegg sér, en við hina hlið hennar gengur maður með kórónu á höfði og
klæddur konungsskrúða; ímyndar vinnumaður sér að þetta sé kóngur og drottning. Þau
gengu í kirkjuna og fylgdi þeim mikill fjöldi fólks sem allt var einkar vel búið og var
gleðisvipur á öllum.

Vinnumaður gekk nú að kirkjudyrunum og sá hann enginn, og Úlfhildur vissi heldur ekkert
af honum. Í þessu bili var tekið til messu og mátti heyra fallegar hörpur og fallegan
söng. Barnið sem Úlfhildur hélt á varð óspakt um messuna og hljóðaði; léði hún því þó
einn gullhring af hendi sinni, en barnið fleygði honum fram eftir kirkjugólfinu svo
vinnumaður gat náð hringnum.

Þegar messan var úti gengu allir úr kirkju og Úlfhildur með hinum velklædda manni inn í
höllina, og sýnist þá vinnumanni vera sorgarsvipur á öllum. Að stundarkorni liðnu kemur
Úlfhildur í sínum fyrra búningi, gengur frá höllinni og flýtir sér.

Hún fer veginn sama sem hún kom og vinnumaður á eftir. Er ekkert frá sagt fyrr en þau
koma að vatninu og leit vegurinn eins út að vatninu eins og fyrr er frá sagt. Við
vatnið gnýr hún glófana og þá kemur brúin og ganga þau hana yfir vatnið. Þá gnýr hún
glófana aftur og brúin hverfur.

Í þessum svifum flýtir vinnumaður sér á undan Úlfhildi heim og háttar, en hún kemur á
eftir og háttar líka, og er þá rétt komið undir dag.

Nú dagar og fer fólk á fætur. Þá mælti húsfreyja við Úlfhildi að nú yrði hún að fara
til kirkju í dag. Þá gegnir vinnumaður og segir að hún þurfi víst ekki að fara til
kirkju í dag því hún hafi verið við kirkju í nótt.

"Mæltu manna heppnastur ef þú getur sannað," mælti Úlfhildur.

Segir þá vinnumaður alla sögu hvernig til hafi gengið um nóttina og sýnir gullhringinn
til merkis. Nú verður Úlfhildur glöð mjög og segir frá hvernig á standi fyrir sér.

Hún kveðst vera kóngsdrottning úr álfheimum, segist hún hafa yrzt við kerlingu, en hún
hafi lagt það á sig að hún skyldi alltaf mega vera hjá mönnum (eða í mannheimum) þaðan
í frá nema því aðeins að mennskur maður kæmist með henni til álfheima á jólanótt,
þeirri fyrstu, annarri eða þriðju eftir það á hana var lagt.

Það eina leyfði kerlingin að hún skyldi mega finna mann sinn í þrjár jólanætur. En
Úlfhildur kvaðst aftur hafa lagt það á kerlingu að hún skyldi deyja ef hún kæmist úr
álögunum.

Úlfhildur mælti við vinnumanninn: "Það mæli ég um að þú verðir hinn mesti gæfumaður
héðan í frá, og á morgun skaltu ganga ofan að vatninu; muntu þá finna sjóði tvo; skaltu
eiga þann minni, en húsbændur þínir þann stærri."

Síðan bjóst Úlfhildur til ferðar og kvaddi alla með vinsamlegum orðum. Hún flýtti sér
og hélt ofan að vatninu og hvarf svo enginn hefur séð hana síðan, en allt
heimilisfólkið saknaði hennar.

Daginn eftir gekk vinnumaður ofan að vatninu og fann þar tvo sjóði og voru báðir
stórir. Í minni sjóðnum voru gullpeningar en silfurpeningar í hinum stærri. Er sagt að
vinnumaður yrði frá þessum tíma gæfumaður alla ævi og endar svo saga þessi.
ÁLFAR Á ÁSMUNDARNESI

(J.Á. III)

Árið 1855 bar það til á Ásmundarnesi seint um sumarið að rekið var fé af stöðli sem venja
er til eftir mjöltun. Eru oftast brúkaðir til þessa verks stálpuð börn eða unglingar ef
til eru, enda var þar þannin ástatt að unglingur á níunda árinu var vanur að reka og eins
var þetta umtalaða kvöld að drengur þessi rak sem hann var vanur, en var vorðið í seinna
lagi og mjög dimmt loft.

Voru hjónin óttablendin að láta drenginn vera so seint á ferð einan, sérdeilis konan sem
var hjartagóð og gjarnt til að undrast um unglinga eða fólk ef á ferð var seint á kvöldum
eða væri það lengur burt en henni þókti til standa, beiddi þess vegna bónda sinn vera á
flakki með sér um kvöldið til að gá að ef sjá kynnu hvað drengnum liði, en þó til einkis
því myrkt var vorðið.

Drengurinn rak kindurnar þangað er honum var sagt, sneri síðan heimleiðis og leit hvurki
til hægri né vinstri þar til hann kom heim undir túnið. Liggur þar gatan hjá steini
hvurja hann gekk og er alfaravegur. Verður honum þá litið til hægri handar upp að
steininum og sér þar standa tvo menn; annar studdi sig upp við steininn, en hinn var að
binda á sig skóinn hálflotinn og studdi bakhlutanum að steininum, og sýndist þeir votir í
fæturnar og rauðamýrugir.

Drengurinn varð hræddur að sjá menn þessa og það sona snögglega er hann átti öngra manna
von, hljóp því sem hann mátti mest þar til kom heim og fann hjónin, foreldra sína, er
biðu hans. Var hann þá mjög móður og grátandi. Spurðu þau hann hvað að honum gengi. Sagði
hann þá söguna eins og hún kemur fyrir sjónir. Þetta skyldu verið hafa álfamenn af engjum
heim farandi.

Það var líka nokkrum árum síðar á sama bæ að unglingsstúlka fór þar skammt frá bænum, þó
svo að bærinn sást ekki, til að gæta eftir kindum. Sá hún þá karlmann og kvenmann; var
hann að slá, en hún að raka, og glampaði á orfið og hrífuna því sólskin var glatt, en
fólkið á heimilinu var heima að þurrka hey, og þókti þetta sjálfsagt að hafa verið
álfafólk.

Sama stúlkan fór líka öðru sinni eftir hrísbyrði skammt upp frá bænum. Sá hún þá kvenmann
bláklæddan með bláan klút yfir höfðinu er menn kalla kollhettu, líka með bláa vettlinga.
Ei talaði hún neitt til hennar og ei heyrði hún fótatak hennar en þó fáir faðmar væri
millum þeirra. Varð þá stúlkunni með byrðina litið heim til bæjarins og þá hvarf
bláklædda stúlkan er var næstum komin að stórum steini er þar stendur á sléttum mel
einstakur og er kallaður Dvergsteinn.

Það var ogsvo einhvurju sinni að bóndinn hafði fengið slægjur á öðrum bæ hinum megin
árinnar er þar rennur eftir dalnum að hann sá fjárhóp rekinn eftir fjárgötunum fram í
dalinn og sagði við það sem hjá honum var að heyvinnunni: "Þar kemur Gísli með kindurnar
fram fyrir bergið," - skeytti so ei um það framar, en var að vinnu sinni.

Leið þá lítil stund þar til hann fór aftur að gæta eftir þessu og var það þá horfið, sá
þá enn Gísla koma (so hét smalinn) með kindurnar og var þá allt eðlilegt og hvarf þá
hvurugt, maðurinn eða kindurnar. Þókti mönnum þetta skrýtið.
GUÐMUNDUR Á AÐALBÓLI

(J.Á. III)

Guðmundur hét maður er fyrstur byggði að nýju Aðalból í Hrafnkelsdal. Fyrsta morguninn sem
hann var í dalnum leit hann út úr tjaldinu og sér að huldumaður er að vigta við hné sér
hvern bagga sem þeir komu með kvöldið áður.

Guðmundur sagðist hafa þekkt hann áður og kvað hann hafa búið árinu áður í svonefndu
Votabergi í fjallinu út og upp af Kleif í Fljótsdal.

Eina nótt um vorið á sauðburði dreymir Guðmund að þessi sami maður koma til sín og biðja sig
um mórautt hrútlamb er hann átti. Guðmundur lofar honum lambinu, en kveðst ei vita hvar hann
eigi heima. Huldumaðurinn segir honum að binda lambið við stóran viðarrunna sem hann til
tekur að sé þar í nesinu. Bóndi gjörir þetta daginn eftir.

Næstu nótt dreymir hann enn sama manninn og þakkar hann honum fyrir lambið og kveðst litlu
geta launað nema það að hann skuli ekki þurfa að smala ánum í sumar. Enda lét bóndi reka
ærnar á degi hverjum, en á kvöldin komu þær með tölu heim á túnið allt sumarið.
ÆR FÁ VIÐ ÁLFAHRÚTUM

(J.Á. III)

Á einum bæ í Hrútafirði utarlega bar so til litlu fyrir jólin að þrjár ær vöntuðu eitt kvöld
hjá smalamanni og varð ei leitað, því dimmt var vorðið er þeirra var saknað. En snemma
daginn eftir vóru þær hjá fénu og var ei fremur um þetta sýslað.

En um fengitímann bar ei neitt á þessum ám að þær sæjust blæsma. Vóru menn þá hræddir um þær
mundu hafa fengið hrút af öðrum bæ. Var þess vegna gjörð fyrirspurn hvurt ei hefði vorðið
vart við þær á bæjunum þar í kring eða hrútar úti með fé þann dag, og var það hvurugt.

Allt fyrir það fundust ærnar með lömbum á sínum tíma og báru um vorið litlu fyrir venjulegan
sauðburð tvær og áttu hvítar gimbrar; ein var lamblaus og fékk ekki lamb upp frá því. Önnur
þessi gimbur hvarf um vorið, en hin lifði og var væn, einkum ullarmikil fremur öðrum
gemlingum sem bóndinn átti, að um vorið var reyfið þurrt og þvegið tvö og hálft pund; þókti
mönnum slíkt óvenja og eftir öllum líkindum ærnar mundu fengið hafa við álfahrútum.
ÁLFUR OG ALVÖR

(J.Á. III)

Margar eru munnsögur um uppruna álfa.

Þessar eru almennastar sem nefndar eru:

Í Árnaskjali um höfuðþvott barna Evu; önnur um það nær englarnir óhlýðnuðust drottni sínum
steypti hann þeim af himnum ofan, féllu sumir í undirdjúpin, en sumir í loftið milli himins
og jarðar, sumir í vötnin og þá sumir á jörðina, og eru þeir misjafnir. Sumir vilja sem
minnst mönnunum til miska gjöra, aðrir fremur, og er það á misjafnri tröppu. Því heita þeir:
loftandar, jarðandar og vatnaandar eða vatnaskrattar. Sýna þeir sig í ýmsum myndum sem bágt
er upp að tína enda gjöra sögurnar sjálfar það best.

Hin þriðja frásaga um uppruna trölla og álfa er þessi:

Í öndverðu skapaði guð manninn af moldu og konu handa honum einnig af moldu. Þessi kona hans
var svo ókyr hjá honum og stygg að Adam gat engu tauti við hana komið og er guð vildi
leiðrétta hana tjáði það ekki. Því skapaði guð henni mann eftir hennar eðli og nefndi hann
Álf, en hana Alvöru, og af þeim eru öll tröll og álfar komnir.
FJALGERÐUR

(J.Á. III)

Það var á bæ þeim sem Kleif heitir austur í Fljótsdal að fólk fór til kirkju á jólanótt, en
ein stúlka var heima sem átti að gæta bæjarins.

Þegar fólkið var farið fyrir tímakorni á stað, við það að vera komið til kirkjunnar, sér
stúlkan að framan úr dalsbotninum kemur mikill fjöldi fólks ríðandi, en bær þessi var
fremstur bæja í dalnum, svo þaðan vóru öngvar mannavonir því land þetta lá til öræfa, sem
fólkið kom að úr.

Ríður svo fólk þetta með mikilli fart og stefnir heim að bænum. Stúlka stendur úti og horfir
á þetta og þykir undarlegt; svo ríður þetta og heim. Hún sér að á undan ríður kona heldur
stórmannleg að sjá.

Þegar fólk þetta er komið heim stígur konan af baki og heilsar heimastúlku; hún tekur kveðju
hennar. Biður konan svo stúlkuna að gefa sér að drekka; stúlkan fer inn og kemur út aftur
með mjólk í könnu og réttir konunni. Hún tekur við og drekkur, en um leið réttir hún hendina
inn í barm sinn eins og hún sé að taka eitthvað til sem hún ætli að gefa stúlkunni fyrir
drukkinn, en stúlkan spyr hana ákaft eftir hvað hún heiti, meðan hún er að drekka þangað til
hún er búin.

Réttir hún könnuna aftur að stúlkunni og segir alvarleg og lítur framan í hana um leið:
"Fjalgerður heiti ég, forvitna mín," og stingur því inn aftur sem hún var að taka til handa
henni og sýndist stúlku eins og hún sjá á eitthvað rautt út úr barmi konunnar.

Stígur svo konan á bak aftur, því hitt sat allt á hestbökum á meðan á þessu stóð, og reið
svo fólk þetta út eftir dalnum og vissi hún ekkert um það meira og enginn. Og endar svo
þessi tilburður.
HÆTTIR HULDUFÓLKS

(J.Á. III)

Frá uppruna, híbýlum, háttalagi og sammökum þessa álfakyns við menn er svo snoturlega sagt
og undireins svo samkvæmt hjátrú þeirri er hér vestra loðir ennþá við meðal gamals fólks að
ég leyfi mér að vísa um téð efni til kirkjusögu Finns biskups Jónssonar. Þó vil ég bæta þar
við nokkrum athugasemdum:

Valdstjórn þess og kirkjusiðir eiga að vera áþekkir því er hér tíðkaðist um næstliðnar
aldir, og víða er tilgreint hvar kirkjur þess séu; þykjast menn hafa komið að kirkjudyrum og
heyrt grallarasönginn gamla og predikanir því samboðnar.

Kauptorg á það; eitt þeirra er tilgreint að sé hér um sveitir, hamar mikill Snasi nefndur
sem liggur í sjó fram á nesi því er liggur milli Berufjarðar og Króksfjarðar í
Reykhólasveit. Þó kvað ei vera trútt um að það fari í sölubúðir kaupmanna vorra og hirði þar
það er því þykir eigulegt.

Ekki hefi ég heyrt getið með jafnaði annars fénaðar hjá því en hesta og kúa; sérílagi kvað
þær vera merkis mjólkurskepnur og eftir því kostgóðar. Hafa þær komið í eigur manna með því
að þær hafa við eitthvört tækifæri verið blóðgaðar af mennskum mönnum því þá vill
huldufólkið þær ekki.

Gjarnt er það á að taka ungbörn óskírð, en láta í staðinn afgamlar kallhrotur í ungbarnslíki
er nefnast umskiptingar. Þess vegna má aldrei yfirgefa börnin og allra síst nema krossuð. En
til að fá komið huldufólki til að skipta um aftur er eina ráðið að flengja barnið
vægðarlaust.

Þar hjá er því títt að heilla unglinga. Elta þeir það og sýnist það vera mæður sínar eða
fóstrur, inn í hamra, upp á fjöll og svo framvegis, og finnast þeir þar hálftruflaðir. Eru
þessa mörg dæmi.

Ekki eru heldur færri sögur af því að álfakonur hafi sést þar og þar eða álfamenn, að
strokkhljóð, lyklahringl og fleira hafi heyrst, ljós hafi sést o.s.fr. í hömrum og klettum,
og þetta á að vera sá óyggjandi sannleiki staðfestur af mörgum sjónar- og heyrnarvitnum að
valla er nema til verra eins að hrinda hegóma þessum með skynsamlegum ástæðum.

Maður á þá að gjöra svo marga heiðvirða menn og ráðsvinna, forfeður sína og ættingja að
lygi- og minni mönnum. Maður á að efast um almætti skaparans og vísdóm, sem, eftir
orðatiltæki gömlu klerkanna er þeir höfðu brúkað við þvílík tækifæri, á svo margt í búrinu
sínu blessaður.

Og þegar nú til jarteikna eru dauðu hlutirnir - sem ljúga ekki - kistlarnir, klútarnir,
hringirnir, lyklasylgjurnar, reifalindarnir, kaleikarnir með svarta blettinn í botninum,
klæðisfötin grænu og kessufötin rauðu - er hún amma mín sá hjá henni langömmu sinni eða hjá
prestkonunni, eða sem hún móður mín heyrði hana ömmu sína segja frá að hún fóstra hennar
hefði séð örmulinn eftir af - þá má sá heita með öllu trúarleysingi er neitar slíku.

Þá kvað húsakynnin ekki vera ósnotur innan; hafa yfirsetukonur komið þangað því svo kvað
stundum til bera að ekki fái huldufólk fætt nema mennskir fari höndum um það. Þá er
huldufólkið líka dálítið upp á heiminn sem menn kalla; að því varð honum Álfa-Árna og
fleirum. Hið versta er að flest mök við álfa hafa illan enda.

Engir nema skyggnir sjá álfa nema þegar þeir sjálfir vilja einhvörra sérlegra orsaka vegna,
en að vera skyggn kemur af því að skírnarvatnið rennur ekki í augu barnsins þegar það er
skírt.

Fardagar þess eru á gamlaársnótt; þá gengu lestaferðirnar, þá tóku húsfreyjur frá ket og
krásadiska handa því og stundum gengu þær í hóla með þá þegar þær áttu þar vinkonur.

Þá gengu þær líka kringum bæi sína með þessum ummælum: "Komi þeir sem koma vilja, fari þeir
sem fara vilja, mér og mínum að skaðlausu."

Þá átti að liggja á krossgötunum og horfa í egg á hárbeittri exi og mæla ekki orð hvað sem
við mann var mælt, því svaraði maður varð hann vitlaus, en haldi maður þögnina út verður
hann hinn margfróðasti.

Að álfasjónir eru orðnar svo fágætar nú um stundir leiðir af því að síðan uppfræðingin vóx
kvað þeir hafa flutt sig til Finnmerkur.

Að rita allar þær álfasögur sem til eru og menn gætu til tínt væri bæði óþarfi og óvinnanda
verk því mér er til efs að bók sú yrði orðfærri en ritningin sjálf. Fáeinum sögukornum vil
eg þó hnýta hér aftan við.

Iðuglegastar gengu sögur um huldufólk sem menn þóktust oft sjá færa lestar á kaupstaðaferðum
á sumrum, fara með líkfylgdir og ekkjupersónan aftast; syngja sálma og byrja á endir, en
syngja svo fram eftir; valda því að sköku- eða strokkahljóð heyrðist í hólum og klettum;
bera ljós frá einum stað til annars; ókunnir drengir og menn hjálpa mennskum til
smalamennsku, þó ekki tala orð og hverfa þegar að skyldi gætt eða hlé fékkst á önnum.

Jái, ömmur mæðra þeirra er nú lifa kváðust hafa setið yfir huldufólkskonum á fæðingatímum
þeirra, enda látið mjólk á hvorju kvöldi í könnur sem ósýnilega kæmu þá í vissan stað og
hvarf svo jafnótt. En auk annars hamingjuauka sem þessi viðkynning átti að valda þurfi
þessar búkonur ekki í snjóbyljum að hafa meir fyrir að ná kúneytum þegar kýr þeirra riðu en
leiða þær út í fjúkið, en vanatímatali þar frá ól kýrin kálf rófulausan.

Þetta huldufólk átti líka oft að hafa gefið svöngum mat sem varð að etast upp; en væri
nokkru leift eða maturinn ekki þáður átti það að valda ófarsæld. Eins og þá síra Einar í
Eydölum hafi verið drengur, kvaðst að hann hafi viljað fara með vinnumanni þar sem hvorfið
hafi á hvorjum jólum og hafi þeir farið þangað sem fyrir þeim var hóll eða þeim sýndist bær
hvar allt var ásjálegt og þar tveir kvenmenn, önnur samt aldurlegri, og hjá henni átti
vinnumaðurinn að hafa háttað, en drengurinn vildi ekki sænga hjá hinni. Þá áttu þær að hafa
reiðst, en af vináttu vinnumanns við eldri konuna mátti drengur velja um tvenn
hamingjuókjör: búólán eða barnaólán, en hann átti heldur að hafa kjörið búólán.

En að upprunafræði þessa fólks hefur ekki verið hægt að fá rök því mjög fáir af alþýðu hafa
komist svo langt í því sem Gyðingar á 17. öld. Sjá: Basth. Judiska sögu.

Margar sagnagreinir þessu líkar gengu fram að þessum tímum sem innrættust unglingum, so sem
krankleikar, limlestingar og gæfutjón þeirra sem ruglað hafi nokkru við kletta og hóla.
HULDUFÓLK Í HJÖRTSEY

(J.Á. III)

Sannorð og ráðvönd stúlka er nú í Hjörtsey (sem heitir Rannveig Pétursdóttir); hún hefir
lengi verið þar smali.

En fyrir nokkrum árum var hún að smala í glaðasólskini og góðu veðri. Þá sér hún að móti
henni koma þrír kvenmenn; verður henni þá hverft við. Þær halda áfram og nálgast hana. Þá
hagaði svo til að hóll einn var á leiðinni. Þær halda þá neðan til undir hólinn, en hún fer
ofan til við hann.

En þá er hún er komin yfir fyrir hólinn sér hún þær hvörgi nokkurs staðar. Hún sagði að þær
hefði allar verið svartklæddar með hvítt um hálsinn og hvíta vettlinga, lágar vexti, en
gildar og mjög álappalegar í göngulagi og ólíkar venjulegu kvenfólki.

Kunnugir menn telja það með öllu óyggjandi að sögusögn þessarar stúlku sé sönn að því leyti
að henni hafi vissulega sýnst þetta eins og hún segir frá, hvörnin sem á því hefir staðið
eða hvað sem það hefir verið.

Sannsögull maður og áreiðanlegur sem nú býr í Lambhústúni í Hjörtsey segir svo frá að hann
hafi eitt sinn í glaðasólskini séð mann á gangi í hvítum nærbuxum austur á eyjunni sem ekki
gat verið neinn heimilismaður þar á eyjunni og ekki heldur neinn aðkomandi maður af landi,
því þá var flóð.

Sagt er og að fyrrum hafi bóndi einn verið í Hjörtsey. Eitthvört sinn bar svo til er hann
var ekki sjálfur heima við bæinn, en sá þó gjörla hvað leið heima við bæinn, sér hann þá að
kýr fara heim í tún - það var um vorið. Hann ætlar þá að fara heim að reka þær, en í sama
bili sér hann að kona hans kemur og rekur þær eða einhvör kvenmaður áþekkur henni.

Litlu seinna fer hann heim og segir við konu sína: "Þú varst að reka kýrnar," en hún neitaði
og kvaðst ekki hafa farið út síðan hann fór heiman að. Og heimilismenn sögðu allir að hvörki
hún né aðrir hefði rekið þær þann dag, það þeir til vissu.
FÓÐRUÐ KÝR FYRIR HULDUFÓLK

(J.Á. III)

Á Minnibrekku í Fljótum bjó kona ein; ekki er getið um nafn hennar. Eitt haust var það að
hana dreymdi að til hennar kom huldukona og bað hana að fóðra fyrir sig kú í vetur. Lofaði
Minnibrekkukonan þessu, því hún var vel birg af heyi. Það bað huldukonan hana fyrir að
skipta sér ekkert af kálfburði né mjöltum kýrinnar.

Um morguninn er ókunnug kýr komin í fjósið og gefur konan henni á hverju máli. Nú sér konan
að kýrin býst til burðar og skiptir hún sér ekkert af því, en vinnukona ein var þar hnýsin
og fór hún út í fjós að vita hvað kúnni liði með burðinn. Þegar hún lýkur upp fjósdyrunum
koma hildirnar á nasir henni og snýr hún aftur við svo búið.

Þegar konan kom næsta mál í fjósið sér hún að kýrin er borin og alheil orðin, einnig er
kálfurinn horfinn. Er nú kýrin þarna um veturinn á fóðri. Heyrði konan oft að verið var að
mjólka kúna, en engan sá hún. Á sumardagsmorguninn fyrsta var kýrin horfin, en í básnum lá
kostulegur kvenbúningur og hirti konan hann og átti síðan.
HVER Á HÉRNA HÖNDUR?

(J.Á. III)

Þegar ég var hér um bil átta eða níu ára sat ég upp í rúmi hjá móður minni, hliðsmeð fyrir
framan knén á henni, um vökuna. Valgerður Guðbrandsdóttir bræðrunga mín var að prjóna peysu
sem hún átti, móti móður minni.

Þá seildist móður mín aftur fyrir sig eftir hnykli sem lá við bakið á henni við gaflhlaðið.
Þar öðrumegin bitans var gat niður við loftsendann móti bæjardyrunum.

Þegar móðir mín atlaði að taka hnykilinn koma höndur í hönd henni.

Þá segir móður mín glaðlega: "Hver á hérna höndur?" því hún hélt fyrst það mundi vera Jakob
Magnússon, siðferðisgóður en rælnisfullur uppvaxandi unglingur hér á bæ, og rétta hendurnar
upp af glettum.

Gægist ég þá baka til við móður mína er hún hallaði sér til svo að ljósið skein á hendurnar;
sáum við þær bæði, heldur litlar, feitar, þriflegar og hvítar.

Föður mínum datt í hug það mundi vera fáráðlingsstúlka hér á bæ sem kynnt var að því að
rjáska sér því sem hún kunni, en mundi hafa leynst inn í bænum í þess háttar snatti, greip
því ljósið og fór með það ofan. En er hann var að fara ofan stigann drógust höndurnar úr
höndum móður minnar eins og þær færu átakalaust, jafnvel þó hún atlaði að halda.

Faðir minn lýsti innan um bæinn og fann ekkert; var hann þá læstur. Þau töluðu þá um hvað
þetta mundi vera. Gátu þau þá þess til að gömul kerling sem var hér í næstu sókn og víst
unni móður minni eins og flestir góðir gamlir menn gera þeim sem veita þeim einhvern
góðvilja, og mundi það svipur hennar eður systur móður minnar; mundu dánar. En það var
hverigt.
HULDUMAÐUR MEÐ POKA

(J.Á. III)

Á einum bæ var landslagi svo háttað að stór grashóll með klettum á einn veg var rétt hjá
fjárhúsunum og lá sá orðrómur á að eitthvað mundi búa í hólnum.

Einu sinni bar svo undir að greind og sannorð kona ætlaði að finna heimamenn sem vóru
staddir við fjárhúsin, en í því hún gengur frá bænum sér hún ókunnugan mann bláklæddan með
hvítan poka bundinn yfir öxlina standa þar hjá heimamönnum, og studdist hann fram á
göngustaf og var tilsýndar sem hann væri að tala við heimamenn.

Henni stóð einhvern veginn stuggur af þessum manni og hætti við ferðina. Þegar heimamenn
síðan komu heim spyr hún þá strax eftir hinum ókunna manni, en þeir brugðust ókunnuglega við
og kváðu engan til sín komið hafa.

Grunaði hana þá hver verið hefði, því bæði hafði henni áður sýnst stundum fólk, bæði karlar,
konur og börn, vera hjá hólnum sem hún vissi ekki hvernig á stóð og líka hafði henni stundum
heyrst mannamál inn í hólnum, en meira gat hún aldrei orðið áskynja um.
HULDUKAUPSTAÐUR HJÁ HALLLANDSKLETTI

(J.Á. III)

Það er almæli að huldufólk hafi búið í hólum og klettum hingað og þangað um allt land og það
svo margt að skip hafi komið af hafi með vörubirgðir handa því.

Á vorin þegar fyrstu skip komu á Akureyri sáust skip fyrir framan Halllandsklett andspænis
Akureyri hinumegin (austan megin) á höfninni. Þar lágu huldufólksskipin jafnhliða skipum
landsmanna og átti huldufólk að hafa verslað þar við klettinn. En aðeins skyggnir menn sáu
skipin eins og líka huldufólkið sjálft.

Sú saga gjörðist fyrir réttri öld (um 1760) að einvirki bjó á Vöglum í Hrafnagilssókn í
Eyjafirði skammt frá Akureyri.

Á vortíma var konan að nafni Ingibjörg að hreinsa á túni; það var á laugardagsnótt; veður
var gott. Hún hreinsaði alla nóttina til sólaruppkomu, en sól rann þar snemma á morgnana því
bærinn stendur hátt. Þá gekk hún inn og vildi taka á sig náðir og hafði þegar klæðst úr
öllum ytri fötum. Þá þurfti hún út til að reka fé úr túni og fer fram á nærfötunum.

Þegar hún kemur í bæjardyrnar sér hún hvar koma fjórir menn að utan og neðan, alfaraveg, með
allmarga hesta, alla klyfjaða með kaupstaðarvarning, kornvöru og trjávið og fleira.

Hún aðgáði og mundi hestalit og hestatölu, en sögumaður (dóttursonur hennar) mundi það ekki.
Hún skýldi sér bak við bæjarstaf því hún var fáklædd. Þeir riðu um hlaðið sem leið lá, en
mæltu ekki orð frá munni. Úr hlaðinu sér hún þeir ríða ekki fram sveitarveginn, heldur fara
suður og upp til fjalls fjárstíg einn mjög ógreiðfæran eftir brekkum tveim, Beislabrekku og
Fögrubrekku, í þeirri átt voru fjarska miklar klappir og klungur, og fjærri öllum mannavegi.
Hún fylgdi þeim með augunum þangað til þeir hurfu fyrir eina klöppina og sáust þeir eigi
síðan.

En Ingibjörg þessi var hið mesta dánukvendi og hin sannsöglasta. Lagði hún eið út á að þetta
hefði hún séð með eigin augum sínum sem nú var frá sagt.

Það liggur svo sem í augum uppi að þetta átti að vera kaupstaðarlest frá Halllandskletti.
ÁLFARNIR Í KALDBAKSVÍK

(J.Á. III)

Það bar til hér um bil fyrir sjö árum á Kleifum í Kaldbaksvík að tveir menn gengu þaðan yfir
að Kaldbak á þrettándadagskvöld jóla og liggur þá leiðin yfir ós er fellur úr vatni sem þar
er neðst í dalnum og ekki er nema rif (þó breitt nokkuð) milli vatns og sjávar og fellur um
stórstrauma fram í vatnið; leggur því ósana seint þegar frost eru lítil, og tíðast er rifa
úr ósnum fram í vatnið og so var í þetta skipti.

Mennirnir fóru nú þessara orsaka vegna fram á vatnið til að komast fyrir rifuna, en er þeir
voru skammt komnir út á ísinn sáu þeir hóp manna koma móti sér af rifinu út á ísinn og sögðu
þeir hvur við annan: "Þar koma þeir með nautið," því það var von á tveimur mönnum þessa leið
með naut sama kvöldið.

En er þeir nálguðust meir sáu þeir glöggt að ei var þannin, heldur fjórir eða fimm karlmenn,
að þeir héldu, en gátu ei glögglega séð tölu á þeim vegna þess hvað þeir gengu þétt saman.
Það var að sönnu tunglskin við og við eða sem menn kalla það vóð í skýjum.

Samt sýndust þeim þessir allir bláklæddir; virtist þeim tveimur hinir vilja bægja sér af
stefnu sinni og í eða sem næst rifunni, hvöttu þess vegna sporið til að verða fyrri yfir það
sem veikast var fram undan þessari rifu, hvað og þeim líka tókst, en sveigðu þá undireins af
leið og fóru svo hvurjir hjá öðrum; þó var spottakorn millum þeirra.

Ekki heyrðu þeir þá tala neitt, en höfðu stefnu fram og yfir vatnið. Hinir tveir héldu ferð
sinni áfram, sem þeir ætluðu, heim að Kaldbak og spurðu hvurt ei hefðu þessir menn þangað
komið eða til þeirra séðst og var það hvurugt og ei spurðist til að menn hefðu verið á ferð
þar í kring þetta kvöld; varð því ályktað þetta hefðu verið huldufólk. Mennirnir vóru ekki
so aðgætnir að líta eftir förum þessara manna vegna þess að heldur var felmtur í þeim.
KARLSSTAÐAHVAMMUR

(J.Á. III)

Á Rafnseyrarhlíð í Ísafjarðarsýslu er hvammur nokkur sem kallaður er Kallstaðahvammur og er
hann kenndur við bæinn Kallstaði sem er kirkjujörð frá Rafnseyri. Í hvammi þessum er stór
steinn sem sagt er að huldufólk sé í.

Eitt vor þegar smalinn á Kallstöðum - sem var kvenmaður - fór að smala lofaði hún
unglingsstúlku með sér. Svo stóð á að smalinn þurfti að fara upp í fjallið að sækja lambá,
en sagði stúlkunni að bíða sín í Kallstaðahvammi.

Stúlkan beið nú þarna og var að leika sér; verður henni þá litið upp að steininum og sýnist
henni hann standa opinn. Sá hún þar sitja kvenmann inni og var hann að kemba barni með
glóbjart hár. Sýndist henni hún svo standa upp, láta barnið fara innar í steininn. Síðan
sýndist henni hún taka styttuband og fara að stytta sig. Þá varð stúlkan hrædd og tók til
fótanna og hljóp á stað heim og sýndist henni kvenmaðurinn alltaf vera á eftir sér.

Nokkru eftir þetta var þessi sama stúlka á ferð með annarri stúlku á þessari sömu hlíð skammt
frá Kallstaðahvammi; vóru þær þá að fara út að Rafnseyri. Vegurinn liggur þar fram með sjó.

Þegar þær koma út í svonefndan Húsahvamm sáu þær þar í sandbót einni við sjóinn kjölfar
eftir eitt skip sem nýlega hafði verið sett, og slorugan vettling blautan og brýni þar á
steini. Þær skoða þetta hvort tveggja því þær vissu að það gat ekki verið af mennskum
mönnum, því bæði var þaðan ekkert útræði og allir menn við sjó út í Arnarfjarðardölum.

Þær láta vettlinginn og brýnið á sama steininn og ætla nú að taka eftir hvert þetta verði
þarna þegar þær koma aftur og setja nú vel á sig steininn. En þegar þær koma aftur var
hvorutveggja horfið.
KÚASMALINN

(J.Á. III)

Einu sinni var kerling nokkur á Ísafirði. Hún sagði frá því að þegar hún var í föðurgarði
höfðu foreldrar hennar pening sinn í seli. En svo var sagt að í hömrum nokkrum sem voru í
kringum selið væri huldufólk því smalarnir höfðu oft orðið varir við það.

Kerling þessi sagði að þegar hún hefði verið að smala í selinu hefði hún oft séð unglega
stúlku, rjóða og fríða í andliti, með glóbjart slegið hár sem tók í beltisstað, dökkklædda
með ljósleita léreftsvuntu, og rann með henni lítill rakki.

Í sautjándu eða átjándu viku sumars flutti fólkið sig að venju heim úr selinu. En svo hafði
borið við í mörg ár að á bæ þeim sem foreldrar kerlingar þessarar bjuggu á, að nokkrum dögum
eftir að komið var úr selinu hurfu kýrnar í burtu eina nótt og fundust ekki þó leitað væri,
en komu sjálfar morguninn eftir. Var því kennt um að huldufólk mundi heilla þær til að nytka
þær.

Svo bar við þetta sumar að nokkrum dögum eftir að kerling var komin heim úr selinu og hafði
tekið við kúageymslu voru kýrnar horfnar þegar fara átti að mjólka um kveldið. Þegar kerling
kom heim kúalaus fékk hún ákúrur hjá móður sinni fyrir að hún hefði ekki gætt betur að
kúnum.

Kerlingu þykir þetta illt og fer á stað aftur að leita og leitar nú alstaðar sem henni
dettur í hug og kemur fyrir ekki. Loks dettur henni í hug að leita þeirra til selsins ef ske
kynni að þær hefðu farið þangað. Nú var komið fram á nótt þegar hún leggur á stað þangað, en
mjög langt var til selsins og lá leiðin með sjó fram og voru háir klettar fyrir ofan.

Þegar hún er komin á móts við kletta þessa heyrir hún skruðning mikinn og hraðar hún sér þá
mjög því hún varð ákaflega hrædd og þorir ekki að gá í kringum sig, en eftir því sem hún
heldur betur áfram fara skruðningarnir vaxandi og verða um síðir svo miklir að hún stendur
agndofa af hræðslu og gáir í kringum sig, en sá þó ekkert.

Detta henni þá í hug þrjú særingarvess sem móðir hennar hafði kennt henni og fer hún með þau
hátt og snjallt. Veit hún þá ekki fyrri til en hún sér eldstykki stórt koma fram undan
klettunum og hrökk það í ótal stykkjum fram á sjóinn.

Heldur kerling nú áfram til selsins og heyrir nú enga skruðninga meir. Þegar hún kemur í
seltúnið heyrist henni hóað í selinu og var hún þá bæði reið og hrædd; kallar þá kerling upp
og segir: "Hver dósinn hóar í seli móður minnar?"

Þá heyrist henni sagt í selinu: "Dáfögur mær er það."

Nú kemur hún heim að selinu og fer þar inn í fjósið og sér þar kýr þær er hún leitar að,
bundnar á klafa. Kerling rekur þær út og leggur á stað heim og var fólkið þá komið á fætur.
Varð móðir hennar henni fegin því hún var orðin hrædd um hana.

Var hún þá spurð að hvað hefði dvalið hana. En hún segir að það komi engum við og sagði hún
ekki frá þessu fyrr en hún var orðin gömul.
LÁTRASELIÐ

(J.Á. III)

Einhverju sinni bar svo við á Látrum í Rauðasandshrepp í Barðastrandarsýslu að smalana þar,
sem voru unglingspiltur og unglingsstúlka, vöntuðu nokkrar kindur og leituðu þeirra út á
Látrabjarg. Mikil þoka var á um daginn; þau fundu brátt nokkuð af kindunum og héldu með þær
heim á leið, en töluðu um að koma við um leið í selinu frá Látrum sem er þar á bjarginu ef
ske kynni að nokkuð af kindunum hefði slangrað þar inn.

Þegar þau koma að selinu sjá þau að hurð er í hálfa gátt. Gengur þá pilturinn inn, en
stúlkan beið hans á meðan í dyrunum. Gáir hann fyrst í eldhús, síðan í búr og seinast í
baðstofu.

Veit þá ekki stúlkan fyrri til en pilturinn kemur fram og gengur aftur á bak. Stúlkan verður
þá mjög hrædd og spyr því hann láti svona. Segir hann henni þá að engar kindur sé í selinu,
en stúlku hafi hann séð og sofi hún í rúmi þar í selinu.

Hún segir hann sé að skrökva þessu til að hræða sig. Hann segir nei og segir henni að koma
inn með sér, en biður hana að hafa ekki hátt.

Nú ganga þau inn hljóðlega og sjá þau þá hvar stúlka lítil vexti og fríð í andliti með bjart
hár sefur í rúmi í selinu; klút hafði hún breitt ofan á kinnina á sér. Hún var á bláum
vaðmálsfötum með röndótta vefjarsvuntu, í dökkum sokkum, með nýja óbrydda sauðskinnsskó með
hvítum þvengjum. Ekki vissu þau hvert hún var sofandi, en heyrðu léttan andardrátt til
hennar.

Biðu þau ekki boðanna og stukku út og heim og sögðu frá sögu þessari.
AÐ HVERJUM ANDSKOTANUM ERTU AÐ LEITA?

(J.Á. III)

Þegar ég var á 17. árinu (ca. 1838) átti ég heima í Hvammi í Möðruvallasókn. Bóndinn þar hét
Þórður Þórðarson.

Þá var það eina nýársnótt að við stúlkurnar tvær vöktum æði lengi fram eftir; þar vakti og
sonur hjónanna, Þorsteinn að nafni, og var að skrifa. Var hann vakandi þegar við sofnuðum.

Eftir það fór hann að hátta og slökkti ljósið, en sofnaði ekki strax, heldur lá vakandi í
rúmi sínu. Þegar lítil stund er liðin sér hann hvar ljósgeislar koma inn með hurðinni, og
síðan er lokið upp. Kemur þar þá inn ókunnug kona prúðbúin með fléttað hárið.

Var hún svo fríð að hann sagði það hefði verið fallegasti kvenmaður sem hann hefði séð. Kona
þessi hafði stórt og skært logandi kerti í hendi; gekk hún beint inn að hjónarúminu. Þar var
himinn uppi yfir og ýmislegt á. Fer hún nú að lýsa og leita á himninum.

Var þá drengur hræddur um hún ætlaði að taka eitthvað og segir: "Að hverjum andskotanum ertu
að leita?"

Gekk þá konan fremur snúðugt út.

Um morguninn sagði drengur frá þessu. Hélt hann þetta hefði verið prestkonan huldufólksins
og iðraðist eftir bráðræði sínu, enda fundu og foreldrar hans að því við hann.
ENDURGOLDIN MJÓLK

(J.Á. III)

Á einum bæ í Eyjafirði bjuggu hjón ein rík. Þar var einu sinni byggt búr og varð nokkur
partur af stórum steini jarðföstum innan veggjar í búrinu.

Það var eitt kvöld snemma um veturinn að konan fór fram að skammta. Sér hún að þá er á
steininum fjögra marka askur sem hún þekkir ekki. Spur hún líka vinnukonuna um askinn, en
hún veit ekkert hver hann á. Lætur þá konan nýmjólk í askinn og setur á steininn, tók svo
burtu lykilinn og ber inn með sér.

Um morguninn kemur konan í búrið og skoðar askinn; er hann þá tómur. Svona lét konan allan
veturinn nýmjólk í askinn á hverju kvöldi (eða hverju máli) og hvarf alltaf úr askinum.

Líður nú til sumarmála. Á sumardagsnóttina fyrstu dreymir konuna að til hennar kemur ókunnug
kona og segir: "Vel hefir þú nú gert að gefa mér nýmjólkina í allan vetur þar sem ég hefi þó
engu vikið þér. Nú skaltu eiga í staðinn það sem verður í fjósinu hjá þér þegar þú kemur í
það í fyrramálið."

Með það hvarf hún. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom konan í fjósið; er þá komin ljómandi
falleg gráhöttótt kvíga ókunnug í fjósið. Þykist nú konan viss um að huldukonan hefði gefið
sér kvígu þessa fyrir mjólkina. Hélst kvíga þessi þar við og varð afbragðs kýr.
ÁLFARNIR Í SNARTARTUNGU

(J.Á. III)

Það var einhvurju sinni þá er Eggert Jónsson bjó í Skálholtsvík að hann sendi vinnukonu sína
er Kristín heitir ásamt öðru fólki vestur á Snartartunguheiði til að afla sér fjallagrasa
(er mjög hefur tíðkað verið á Íslandi).

Lá þá leið þess um í Snartartungu og sagði konan þar er hét Sigríður það skyldi ekki
bregðast ókunnuglega við þó eitthvað týndist eða hvyrfi hjá því ef það lægi í Presthólunum
sem eru norðanhallt á heiðinni og kunnugir menn þekkja deili á, því það hefði oftast
eitthvað horfið hjá grasafólki sem þar hefði legið, enda þar heima á bænum hvyrfi oftast
eitthvað á hvurju ári.

Og einu sinni er börnin þar voru að leika sér í kringum fjárhúsin á sléttu hólunum sem þar
eru bar svo við að konuna dreymdi eina nótt: Henni þókti koma til sín kona sem beiddi hana
láta ekki börnin vera með sona miklum hávaða í kringum bæinn sinn að börnin sín hefðu ekki
næði.

Og litlu þar á eftir er þau á sömu leikvöllum sínum voru að ýmsri skemmtan sáu þau mann koma
til sín er þau ekki þekktu og urðu þess vegna hrædd, einkanlega eitt þeirra (sem Jón heitir
og er nú bóndi á Ballará á Skarðsströnd) sem hann elti lítið eitt. Þau lögðu samt af að
dansa mikið á þessum hólum eða kringum húsin.

Þessi sami Jón varð tvívegis var við stúlku sem vildi fá hann til sín og í seinna sinn er
þau fundust kvaðst hún mundi skilja öðruvísi við hann í þriðja sinni en þau hefðu skilið
hingað til, en ei vita menn þau hafi síðan fundist.

Enda var þetta orð og að sönnu, grasafólkið missti úr tjaldstaðnum nýtt hrosshársreipi er þó
ásamt öðrum farangri var látið inn í tjaldið. Þessi Kristín er nú kona á Klúku við
Bjarnarfjörð.
ÆRNAR FRÁ STAÐARHÓLI

(J.Á. III)

So bar við einu sinni á Staðarhóli í Saurbæ að á jólaföstunni vantaði tvær ær frá fénu þegar
inn var látið, en var þó um daginn skammt frá bænum. Var þá farið til kotanna sem þar eru
skammt frá og spurt eftir ám þessum og vóru þær þar ekki og ei þóktust smalar þar hafa séð
neinar kindur aðrar en þær er heim komu. Var ei skeytt um það fremur um kvöldið.

Veðrið var stillt, logn og þykkt loft, en þessa sömu nótt brast á norðan-stórbylur með
sortahríð. Leist nú bónda illa á og taldi ær sínar tapaðar því ei mundi fé ófennt í slíku
stórkafaldi sem ogso hélst næsta dag eftir. Létti þá nokkuð hríðinni.

Vóru þá strax fengnir tveir menn kunnugir að leita þar eð líkast þókti þær mundu hafa vorðið
til í sköflum og víðar, líka einnin upp um fjall er þar er skammt frá. Var þó ei gott vegna
þess alltaf hélst kafaldið nokkuð, enda þó leitað væri. Birti ei verulega upp fyrr en að
viku liðinni.

Var þá enn sent lengra burt bæði að leita og spyrja eftir ánum, jafnvel þó allir, bæði
bóndinn og aðrir, teldu þær tapaðar, en þó var þetta allt árangurslaust. En þetta hið sama
kvöld lét bóndi inn kindur sínar sem hann var vanur, batt aftur hús og þrýsti að dyrunum
snjó eins og venja er á vetrum.

Hefur bóndinn sjálfur sagt so frá að hann að þessu afloknu hafi snúið sér frá húsdyrunum er
hann seinast þrýsti að, gengið fáein spor og farið að kasta af sér vatni. Verður honum þá
litið um öxl sér til húsdyranna. Sér hann þá ærnar er hann hafði vantað, við dyrnar,
hreinar, þurar og þokkalegar eins og þær hefðu þá komið út úr húsinu, og fullar eins og þær
hefðu komið af nógri jörð eða frá gjöf.

Virtist mönnum mjög kynleg saga þessi er bóndi sagði frá aðburði þessum og vóru allir
sammála um að þær mundu af einhvurjum ósýnilegum mönnum geymdar verið, so sem álfa- eða
huldufólki.
HULDUFÓLK Í STEINAHELLI

(J.Á. III)

Steinahellir er nú þingstaður Eyjafjallasveitar síðan nokkru eftir aldamótin, en áður var
þinghúsið í Holti. Hann hafði að fornu fari verið hafður fyrir fjárhellir Steinamanna,
einkum þegar slæmt var veður. Litlar sögur hafa af honum farið, en allt um það er hann
talinn bústaður álfa og er sú saga þar til meðal annarra:

Þegar síra Páll Jónsson skáldi prestur í Vestmannaeyjum var einu sinni á ferð á kvöldtíma
með Solveigu dóttur sinni, nú yfirsetukonu í Eyjunum, þá getur hún um það við hann hvílíkur
mannfjöldi þar væri saman kominn við hellirinn svo hún hafi aldrei meiri séð, en síra Páll
sá ekkert því hann var ekki skyggn.

Allt fordyrið í hellinum er alþakið með burkna, en vandhæfi mikið er á að slíta hann ekki
því þeim verður eitthvað sem hann slíta; enda hvar sem hann er.

Einu sinni kom Skúli hreppstjóri á Grund Þorvarðsson prests, nú að Prestsbakka á Síðu, þá
verandi í Holti hjá föður sínum, austan fyrir ósinn ríðandi í tunglsljósi, hjarni og
léttangri, og reið hann léttan.

En er hann kom á móts við steininn fyrir framan hellisdyrnar stendur hesturinn allt í einu
kyr svo hann kemur honum ekki feti framar. En er hann fer að knýja hann stendur hann upp á
afturfótunum með frýsi og ólátum; en Skúli sem er einhuga og kappsfullur vildi víst ekki
láta undan, en allt kom það fyrir eitt.

Svo gekk hann vestreftir götunni, skoðaði og skimaði í allar áttir, en sá ekkert; sneri
síðan austur og upp fyrir hellirinn og fór fyrir ofan hann. - Frá þessu heyrði ég hann segja
sjálfan.
STEINARNIR Á ÁLFTANESI

(J.Á. III)

Það vita allir að flestir hólar eða steinar sem nokkuð kveður að eru byggðir af fólki því
sem álfar heita.

Nú eru álfar misjafnir, sumir góðir, en sumir illir. Þeir góðu gjöra engum mein nema þeir sé
áreittir af mönnum að fyrra bragði; hinir þar á móti vinna mörgum manni tjón.

Góðu álfarnir eru margir ef ei allir kristnir og halda vel trú sína. Mega þeir sín mikils og
er það heill mikil að hjálpa álfum og koma sér vel við þá því þeir eru nokkurs konar andar
eða verur. Flestir álfar eru alvarlegir og hafa óbeit á öllum gáska og gapaskap. Skyldi
maður því forðast allt ósiðsamlegt nálægt bústöðum þeirra því annars getur hlotist illt af
því, því álfar reiðast illa.

Þetta hefur og Álfa-Árni tekið fram. Hann varar menn við að ganga í steininn mikla sem
stendur fyrir utan Hvamm í Hvítársíðu; þar búa illir álfar og alheiðnir.

Svo er t.a.m. um steina tvo á grandanum milli Brekku og Lambhúsa á Álftanesi. Þeir standa
sunnanvert við götuna skammt fyrir neðan Grástein. Þessir steinar eru sjálfsagt álfabæir því
ef maður hleypur af ásetningi á milli þeirra með gáska og hlátri eða ósiðsemi þá hlekkist
þeim eitthvað á sem það gjörði eða hann deyr jafnvel áður en langt um líður. Viti maður ei
af þessum álögum á steinunum þá sakar ei þó milli þeirra sé gengið. Ei sakar heldur þó milli
þeirra sé gengið með siðsemi og hæversku.

Þegar Steindór Stefánsson heyrði sögu þessa þókti honum hún ótrúleg og gjörði hlátur að
henni. Bar þá svo vel við að hann gekk frá kirkju þegar hann heyrði hana og hljóp hann þá
milli steinanna með öllum illum látum. En álfar láta ei að sér hæða, Steindór drukknaði á
Skerjafirði stuttu eftir. Við þetta minnkaði nú ekki trúin á steinunum því hefði Steindór
ekki hlaupið á milli þeirra, þá hefði hann ekki drukknað.

Veturinn 1844 tóku tveir piltar sig saman og ætluðu að reyna steinana; það vóru þeir Magnús
Grímsson og Páll Jónsson. Þeir hlupu nú milli þeirra og gjörðu allt sitt til, en ekki hefur
það á þeim séð; þeir lifa enn góðu lífi.
TILORÐNING HULDUFÓLKS

(J.Á. III)

Það var eitt sinn að guð kallaði til Evu aldamóður og sagði henni á ákveðnum degi og tíma að
sýna sér öll börn sín á tilteknum stað og láta þau vera kembd og þvegin og svo vel búin sem
föng væri á.

Eva gerði sem henni var boðið, en af því börnin voru mörg nennti hún ekki að hafa fyrir að
búa þau öll svo vel sem skyldi. Tók hún þá nokkur frá af hvoru kyni er henni þóktu ósélegust
og fal þau í helli einum og bjó svo um dyrnar að þau kæmist ekki á braut þaðan, en öll hin
lét hún koma fram fyri auglit drottins á tilteknum stað og tíma.

En er guð kom að sjá yfir börn hennar þá spyr hann Evu hvert hún hafi ekki fleiri börn, en
hún neitti því.

Þá mælti guð til hennar: "Það sem þú nú hefur viljað hylja og dylja fyri guði þínum, það
veri héðan í frá hulið og dulið fyri þér og bónda þínum og öllum niðum ykkar nema þeim einum
er ég vil það veita, og engar nytjar né skemmtun skuluð þið af þeim hafa héðan af."
HULDUFÓLK Í VÖKUHÓL

(J.Á. III)

Á öndverðri 16. öld var sá prestur í Hvammi í Laxárdal er Einar hét og var Úlfsson. Þá bjó
sá bóndi á Hafragili er Þorsteinn er nefndur Þórðarson; með honum var á vist griðkona ein
Sigþrúður að nafni. Í túninu á Hafragili er sá hóll er Vökuhóll heitir. Milli hóls þessa og
bæjarins fellur brunnlækur lítill.

Svo er sagt að eitt kvöld um vetur væri Sigþrúður að vatna kúm; kemur þar þá maður ókunnur
til hennar að læknum og biður hana ganga með sér. Hún gerir sem hann biður og ganga þau í
hólinn. Þar sér hún konu liggja á gólfi, og getur eigi fætt. Sigþrúður fer síðan höndum um
hana og verður þá konan brátt léttari.

Þau huldumaður þakka Sigþrúði vel þetta liðsinni og gefur konan henni að launum linda,
svuntu og klút, allt fáséna gripi og góða, en huldumaður tekur upp hjá sér bauk einn og
rýður úr honum á annað auga henni og kveður hana síðan munu sjá nokkuru fleira en alþýðu
manna, en biður hana þar þó eigi orð á gjöra. Sigþrúður heitir því. Síðan fylgir hann henni
aftur til lækjarins, og skilur þar með þeim.

Nokkuru síðar er Sigþrúður þessi stödd vestur í Höfðakaupstað; var þar þá kaupstefna sem
mest. Þar kennir hún aftur huldumanninn kunningja sinn og er hann að taka út ýmsan varning í
búð kaupmanns og er svo sem engi sjái hann. Sigþrúði varð hverft við og mælti til hans:
"Vara þig maður."

Hann leit við henni og brá þegar fingri sínum á auga henni, það er hann hafði fyrr roðið á
úr bauknum, enda var hann henni þá horfinn og sá hún hann aldrei síðan né heldur fleira en
aðrir menn.
ÁLFKONA REIDD YFIR Á

(Þjsb./J.Á. III)

Í Bárðardal fyrir hér um 20-30 árum bar það til er hér skal sagt: Frá bæ fyrir vestan
fljótið fór kvenmaður til grasa austur yfir fljót og upp þar á heiði, því þar var þá allgóð
grasaheiði, en fjallagrös fengust ei þar vestan fljóts, en nálægt þeim tíma sem von var til
að kona þessi kæmi til baka sást kvenmaður koma á fljótsbakkann móts við Halldórsstaði, sem
kallaði svo heyrðist heim að bæ; en svo hafði verið ráð fyrir gert að grasastúlkan kæmi
máske að fljótinu og kallaði og þá skyldi sækja hana á hesti.

Nú þegar þessi stúlka sást við fljótið kenndust þeir er sáu við hver hún væri og þóktust
þekkja þar komna stúlkuna úr grasaheiðinni og var kvenmaður sem fljótið þorði að ríða send
að sækja hana ríðandi með hest í taumi. Síðan fór nú þessi sendistúlka leiðar sinnar að
vaðinu á fljótinu og sá alltaf hina stúlkuna á bakkanum móts við sig og þóktist kenna.

Nú ríður hún yfir fljótið og horfir á stúlkuna á bakkanum, en þegar hún var komin nærri yfir
fljótið leit hún snöggvast af stúlkunni, en þegar hún leit aftur við var hún með öllu horfin
hvað hinni sendu stúlku kom næsta óvart, en þó hún leitaði starandi í allar áttir kom fyrir
ekki, og er hún gat einkis orðið vör reið hún heim að Lundarbrekku að spyrjast fyrir hvert
grasastúlkan hefði þar ekki komið því þar átti hún að koma þegar heim færi, og frétti hún þá
að hún væri kyr við grösin upp á heiðinni.

Þegar hinni sendu stúlku þannig varð öll leit sín og ómak að engu sneri hún heim aftur full
undrunar yfir þessari missýning.

En um nóttina þegar hún var sofnuð dreymir hana að til hennar kemur kvenmaður og þakkar
henni auðmjúkt fyrir það sem hún hafi flutt sig yfir fljótið og segist hafa farið á bak
hestinum sem hún teymdi, strax og hún hafi komið austur yfir fljótið, og hafi hún teymt
undir sér meðan hún leitaði stúlkunnar og svo vestur fyrir fljótið og biður hana forláta sér
þó hún hefði þetta ómak fyrir sér, en sér hafi legið mikið á að komast vestur yfir, og segir
ennfremur að hún hafi átt heima í einu af huldufólkskotum þeim sem séu í Lundarbrekkulandi,
en hún hafi átt barn í lausaleik og hafi faðir sinn reiðst svo mikið og orðið svo vondur við
sig að sér hafi valla verið vært og hafi því tekið það ráð að flýja vestur yfir til
frændfólks síns sem búi á Sexhólagili; það er fyrir framan Stóruvelli.

Gert með Concordance