Texti      

FRÉTTIR
ÚR MORGUNBLAÐINU

Fréttatextar úr gagnasafni Morgunblaðsins; birtust upphaflega í blaðinu árið 1997.
Afgreiðslukerfi banka lamað í gær

Mikilvægur gagnagrunnur skemmdist

SKÖMMU fyrir hádegi í gær lamaðist tölvukerfi banka- og sparisjóða um allt land vegna bilunar,
með þeim afleiðingum meðal annars að þessar stofnanir höfðu hvorki aðgang að upplýsingum um
innstæður á reikningum viðskiptavina sinna né gátu sannreynt t.d. viðskipti með ávísanir, auk þess
sem hraðbankar voru óvirkir.

Ástæða bilunarinnar er rakin til forritunarvillu og þurfti af þeim sökum að loka kerfunum og ræsa
þau að nýju, en við það skemmdist mikilvægur gagnagrunnur sem inniheldur yfirlit yfir hreyfingar
eða viðskipti dagsins. Mörg kerfi Reiknistofu bankanna eru háð þessum gagnagrunni, að sögn
Helga Steingrímssonar, forstjóra fyrirtækisins. Viðgerð lauk klukkan 17.

Flóknar orsakir bilunar
"Flóknar og samverkandi orsakir ollu þessari bilun. Við settum nýlega upp erlendan hugbúnað sem
reyndist vera með galla, auk þess sem í afgreiðslukerfi hefur legið í leyni forritunarvilla sem kemur í
ljós undir ákveðnum kringumstæðum. Af þeim sökum þurfti að taka kerfið niður.

Undir eðlilegum kringumstæðum á ekki að taka langan tíma að ræsa kerfið að nýju, en það tók
hins vegar mun lengri tíma en búist var við, án þess að við vitum nákvæmlega afhverju, og
niðurstöður á rannsókn liggja varla fyrir fyrr en á morgun," segir Helgi.

Auk afgreiðslukerfa banka og sparisjóða datt út posaafgreiðsla krítarkortafyrirtækjanna einnig, en
þau hafa hins vegar yfir að ráða vinnslukerfum sem geta annað stórum hluta þjónustu þegar
atburðir sem þessir eiga sér stað. Þjónusta var þó hægari fyrir vikið.
Héraðsdómur Reykjaness fellir fyrsta dóminn um dreifingu á alnetinu

Dæmdur fyrir dreifingu kláms

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær 42 ára gamlan mann til greiðslu sektar fyrir að dreifa
klámefni á alnetinu. Þetta er í fyrsta skipti sem dreifing kláms með þessum hætti kemur til kasta
íslenskra dómstóla.

Heimasíða mannsins var heimsótt 1.422 sinnum á tímabilinu frá júní til október 1996. Maðurinn
sagði að þær 67 kyrrmyndir, sem hann var sakaður um að hafa dreift og sýndu nekt fólks og
kynfæri, væru ekki klámmyndir heldur erótískar myndir. Sams konar myndir væru allt í kring á
netinu og hann hefði því ekki talið þetta brotlegt. Þá teldist það ekki dreifing að hafa efni á
heimasíðu á netinu, því efnið yrði að sækja í ákveðið hólf eða geymslu. Sjálfur hafði hann nálgast
efnið á öðrum heimasíðum og safnað því saman á sinni.

Flókið aðgengi og falinn rofi
Maðurinn ítrekaði að hann hefði haft aðgengið að myndunum flókið. Hann hefði birt aðvörun á
skjánum og rofi til að halda áfram inn á síðuna hafi verið falinn. Fulltrúi fyrirtækisins, sem seldi
manninum aðgang að alnetinu, sagði hins vegar að í eitt skipti hefði verið svo mikil umferð inn á
efni mannsins að kerfið hefði nánast stöðvast. Fyrirtækið vísaði til kannana sem sýndu að um 90%
notenda á alnetinu hafi einhvern tíma leitað eftir klámfengnu efni og nær helmingur þeirra sem beiti
leitarforritum séu að fiska eftir klámi.

Dómarinn, Guðmundur L. Jóhannesson, sagði að það yrði ekki talið að allir sem tengt hefðu tölvur
sínar alnetinu hefðu haft aðgang að og getað séð myndirnar, vegna þess að töluverða tölvukunnáttu
þyrfti til að nálgast þær. Hins vegar hefði maðurinn sýnt og dreift myndunum til ótiltekins hóps
manna. "Það skiptir ekki máli hér þó að hlutaðeigandi verði að hafa frumkvæðið að því að sækja
efnið inn á heimasíðu ákærða og má jafna þessu við dreifingu klámmyndblaða í kjörbókabúðum,
þar sem kaupandinn verður að draga sig eftir þeim," sagði dómari.

Ekki vafi að myndirnar voru klám
Dómarinn taldi ekki orka tvímælis að myndirnar 67 væru klámmyndir í skilningi hegningarlaga.

Dómarinn tók tillit til þess að ekki yrði séð að maðurinn hafi hagnast á dreifingunni, en á móti
kæmi að ótiltekinn hópur barna og ungmenna hefði getað haft aðgang að efninu án þess að
maðurinn fengi nokkru um ráðið. Taldi dómarinn hæfilega refsingu 90 þúsund króna sekt og kemur
15 daga varðhald í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna. Maðurinn var
jafnframt dæmdur í 40 daga varðhald, skilorðsbundið í 2 ár. Þá var honum gert að greiða
málskostnað.
Eldsvoði í Vestmannaeyjum

Bjargað úr brennandi húsi

Vestmannaeyjum. Morgunblaðið.

ÍBÚA var bjargað naumlega út um lítinn glugga á efri hæð er eldur kom upp í íbúðarhúsinu Mjölni
við Skólaveg 18 í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Húsið er tvílyft steinhús, klætt timbri að innan, og
urðu á því miklar skemmdir.

Lögreglumennirnir Jón Bragi Arnarsson og Jóhannes Ólafsson björguðu íbúanum úr brennandi
húsinu. Jóhannes var á heimleið eftir næturvakt en Jón Bragi, sem var á frívakt, var á morgunskokki
er þeir urðu eldsins varir og komu að í sömu mund. Jón Bragi sagði að Jóhannes hefði þegar í stað
tilkynnt um eldinn með farsíma en sjálfur hefði hann farið að athuga hvort hægt væri að komast inn
í húsið. Hurð á því hafi verið opin en sökum mikils elds og reyks hafi innganga ekki verið möguleg.

Hann sagðist hafa verið á leið frá húsinu er hann heyrði einhver köll og kom þá auga á mann við
glugga á efri hæð hússins. Hann hafi fundið stiga liggjandi við húshliðina og farið upp í stigann með
tréplanka, sem hann fann, og náð að brjóta rúðu og pósta úr glugganum með honum. Maðurinn
sem inni var lagði sæng í gluggann áður en hann skreið út.

Hann sagði að maðurinn hefði verið orðinn talsvert þrekaður vegna reyksins og ekki haft afl til að
brjóta sér sjálfur leið út um gluggann. Hann hafi verið búinn að gera tilraunir til þess með járnstöng
úr rimlarúmi sem hann svaf í en án árangurs.

Vaknaði við reykskynjara
Að sögn Jóns Braga var maðurinn sofandi í herbergi sínu er hann vaknaði við reykskynjara sem var
við hurðina á herbergi hans. Hurðin á herberginu hafi verið lokuð og þegar maðurinn opnaði hana og
ætlaði að fara niður gekk hann nánast á vegg því honum mætti mikill reykur og hiti svo hann varð
að loka á ný og átti ekki möguleika á að komast úr herberginu aðra leið en út um gluggann.

Að sögn Elíasar Baldvinssonar, slökkviliðsstjóra var mikill eldur í húsinu þegar slökkviliðið kom á
vettvang. Elías sagði að greiðlega hefði gengið að slökkva eldinn og slökkvistarfi hafi verið lokið um
klukkan átta. Hann sagði að mjög miklar skemmdir hefðu orðið á húsinu og innanstokksmunum
bæði af eldi reyk.

Rannsókn á eldsupptökum hófst strax í gærmorgun. Tryggvi Kr. Ólafsson,
rannsóknarlögreglumaður, sagði flest benda til að eldurinn hefði kviknað út frá sjónvarpi.

Erfðabreytt matvæli óleyfileg hér á landi

STARFSMAÐUR verður ráðinn til Hollustuverndar ríkisins á næstunni til þess að hafa umsjón með
framkvæmd laga um erfðabreyttar lífverur sem samþykkt voru frá Alþingi í fyrra. Einnig verður
skipuð níu manna ráðgjafarnefnd sem m.a. mun taka afstöðu til leyfisveitinga, rannsókna og
starfsemi með erfðabreyttar lífverur.

Með erfðatækni er unnt að flytja erfðaeiginleika milli óskyldra lífvera; örvera, plantna og dýra.
Matvörur framleiddar með slíkri tækni eru komnar á markað m.a. í Bandaríkjunum og Evrópu.

Sala á erfðabreyttum matvælum hefur enn ekki verið leyfð hér á landi, að sögn Franklíns
Georgssonar, forstöðumanns á rannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins. "Íslensk stjórnvöld hafa
ekki tekið afstöðu til markaðssetningar og innflutnings þar sem staðið hefur á ákvörðunartöku um
framkvæmd slíks leyfis hjá löndum EFTA innan EES." Franklín telur þó ekki útilokað að hluti af
hráefni í samsettum matvælum sem hér eru seld hafi verið fenginn frá erfðabreyttum lífverum.

Evrópusambandið samþykkti nýlega reglugerð er tekur meðal annars til merkinga á erfðabreyttum
matvörum. Reglugerðin mun að fullu taka gildi í árslok 1998 en enn sem komið er hefur hún ekki
verið tekin til meðferðar hjá EES.
Fjöldi gáma úr Dísarfelli á siglingaleið norðan Færeyja

Færeyskur bátur sigldi á gám og sökk

FJALLTENGI, 29 feta fiskibátur frá Klakksvík í Færeyjum, fórst 19. apríl síðastliðinn um 2 sjómílur
norður af Færeyjum eftir að hafa siglt á hluta af gámi, sem talinn er vera úr flutningaskipinu
Dísarfelli. Tveir menn voru í bátnum og björguðust þeir báðir um borð í gúmbát og síðan í fiskibátinn
Sjávarfossur. Færeyska strandgæslan gefur út aðvaranir á hverjum degi um reköld í sjónum norður
af Færeyjum og segir Johann Simonsen hjá færeysku strandgæslunni að siglingaleiðin þarna sé
afar hættuleg.

Um borð í Fjalltengi voru bræðurnir Torvald og Simon Hansen frá Klakksvík. Að sögn Sámals Jákup
Hansen föður þeirra bræðra sem eru 25 og 35 ára héldu þeir í róður á svokölluðu tíu manna fari,
sem er plastbátur um 27 fet á lengd. Áður en þeir fóru var þeim bent á að koma fyrir myrkur, en
þeir héldu ekki af stað heimleiðis fyrr en kl. 21 þegar myrkur var skollið á. Settu þeir sjálfstýringuna
á og lagðist annar bræðranna síðan til svefns, þar sem siglingin var löng en hinn lá framá og
fylgdist með gámunum úr Dísarfelli, sem flutu um allan sjó.

En svo óheppilega vildi til að þeir sigldu á gám sem maraði í hálfu kafi án þess að taka eftir honum.
Við áreksturinn rifnaði nær allur botninn úr bátnum og sökk hann á innan við þremur mínútum.
Sagði Sámal að sem betur fer hefði verið gúmbátur um borð sem þeir gátu blásið upp. Þeir komu
síðan boðum um fjarskiptastöðina í Þórshöfn og var bjargað skömmu síðar. "Við töpuðum bátnum
en synirnir björguðust báðir og það ber að þakka," sagði Sámal.

Margir gámar í sjónum
Johann Simonsen segir að strandgæslan hafi orðið vör við marga gáma í sjónum og þeir séu allir úr
Dísarfelli, sem sökk SA af Íslandi í mars. Þetta hafi hins vegar verið fyrsta óhappið vegna þessa.

"Við fengum tvær tilkynningar frá sjófarendum í gær [fyrradag] um gáma í sjónum. Við höfum reynt
að ná gámunum upp en það gengur afar erfiðlega vegna þess að þarna er mikill straumur. Við
gefum út aðvaranir til sjófarenda á hverjum degi. Svo virðist sem það geti liðið langur tími þar til
gámarnir sökkva allir. Þarna fara margir fiskibátar og siglingaleiðin er afar hættuleg," sagði
Simonsen.
Samkeppnisráð setur margþætt skilyrði fyrir stofnun Flugfélags Íslands

Flugleiðir hætta við sameiningu að óbreyttu

EKKERT verður af sameiningu innanlandsflugs Flugleiða og Flugfélags Norðurlands undir merkjum
Flugfélags Íslands hf. að óbreyttu vegna strangra skilyrða Samkeppnisráðs fyrir sameiningunni.
Innanlandsflugið verður áfram hluti af Flugleiðum að óbreyttum skilyrðum og hefur félagið þegar
hafið undirbúning að nýjum rekstrar- og þjónustuáætlunum.

Samkeppnisráð ákvað á fundi sínum í síðustu viku að setja margþætt skilyrði fyrir sameiningunni í
þeim tilgangi að vernda virka samkeppni í áætlunarflugi innanlands. Í ákvörðun ráðsins er m.a.
kveðið á um að stjórnarmönnum og starfsmönnum Flugleiða og dótturfélaga þess ásamt
starfsmönnum fjölda annarra fyrirtækja í tengslum við félagið sé óheimilt að taka sæti í stjórn
Flugfélags Íslands. Skulu öll viðskipti milli Flugleiða og Flugfélags Íslands vera eins og um viðskipti
milli óskyldra aðila sé að ræða.

Þá eru sett ströng skilyrði varðandi samstarf Flugfélags Íslands og Flugleiða um svonefnt
vildarkerfi. Ef Flugleiðir heimila Flugfélagi Íslands að tengjast vildarkerfi sínu skal jafnframt heimila
keppinauti í innanlandsflugi að taka þátt í vildarkerfinu á sambærilegum kjörum, óski hann þess.

Skorður settar við frímiðahlunnindum
Flugleiðum er ennfremur óheimilt að veita starfsmönnum Flugfélags Íslands hlunnindi sem
starfsmenn Flugleiða njóta t.d. afsláttar- og frífarseðla nema keppinautum standi slík hlunnindi til
boða.

Ýmis skilyrði eru sett varðandi áætlunarleiðir, tíðni og aðstöðu á flugvöllum. Þann
Íslands t.d. óheimilt að auka ferðatíðni sína í áætlunarflugi fram til 1. júlí árið 2000, ef tilgangur
aukinnar ferðatíðni er að hamla samkeppni frá núverandi eða tilvonandi keppinautum.

Að mati Flugleiða er útilokað að sætta sig við þá stjórnunarlegu íhlutun sem felst í ákvörðun
Samkeppnisráðs. Fram kemur í frétt félagsins í gær að áætlaður rekstur Flugfélags Íslands nemi
tveimur milljörðum króna og fjárfesting í félaginu nemi rúmlega fjórum milljörðum. Flugleiðir beri
ábyrgð á þessum rekstri að tveimur þriðju hlutum gagnvart um 5 þúsund hluthöfum, en fái ekki að
stjórna félaginu. Það væri ábyrgðarleysi að sætta sig við þetta skilyrði og óverjandi gagnvart því
fólki sem lagt hefur fé í rekstur Flugleiða.

"Kemur úr hörðustu átt"
Mér finnst það koma úr hörðustu átt ef Samkeppnisstofnun gerir hvort tveggja með afskiptum
sínum að koma í veg fyrir hagræðingu í flugrekstri hér innanlands og takmarka frelsi manna til að
vinna að bættri þjónustu," sagði Halldór Blöndal samgönguráðherra í gær þegar leitað var álits hans
á ákvörðun Samkeppnisráðs.
Hryðja komin í heiminn

HREINDÝRSKÁLFUR kom í heiminn í Húsdýragarðinum í gærmorgun og var kálfinum, sem er
kvíga, gefið nafnið Hryðja vegna þess hríðarveðurs sem skall á höfuðborgarbúum um svipað leyti.

Foreldrar þeirrar stuttu heita Snotra og Draupnir, en hann er eini fullorðni tarfurinn í garðinum og
fæddur þar. Draupnir er einn um þrjár kýr sem báru allar kálfi í fyrra, en aðeins einn lifði. Óráðið er
hvað gera á við ungtarfinn næsta haust, þegar hann verður kynþroska, að sögn Margrétar Daggar
Halldórsdóttur í Húsdýragarðinum.

Fylgst vel með mæðgum
Burður gekk vel í gærmorgun að hennar sögn og urðu starfsmenn garðsins einskis varir fyrr en allt
var um garð gengið. Mæðgurnar voru teknar í hús í gær og heilsast með ágætum að sögn
Margrétar.

"Fyrsta skrefið er að sjá hvernig Hryðju reiðir af og við munum sérstaklega fylgjast vel með því hvort
hún tekur spena hjá móður sinni. Þeim verður þó eflaust sleppt út aftur í dag. Framhaldið er hins
vegar óráðið í ljósi ættartengsla hreindýranna í garðinum. Ekki kemur til greina að sleppa henni
lausri," segir Margrét.
Uppvíst um tilraun til að smygla 3.000 skömmtum af LSD til landsins

Stærsta sending af LSD sem hefur fundist

TÆPLEGA 3.000 skammtar af LSD fundust í bréfi sem sent var hingað til lands á tollstofu
pósthússins í Ármúla 2. maí síðastliðinn. "Þetta er mjög mikið magn og sennilega stærsta sending
af LSD sem fundist hefur, að minnsta kosti í mínu minni," segir Einar Karl Kristjánsson starfandi
fulltrúi í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík.

Bréfið var póstlagt í Belgíu og er að þakka árvekni tollvarða að fíkniefnin fundust. Hver skammtur af
efninu er talinn seldur neytendum á 1.000 til 1.800 krónur og er því áætlað verðmæti þess efnis
sem lagt var hald á þrjár til fimm og hálf milljón króna.

Árvekni tollvarða þakkarverð
Einar Karl staðfesti í samtali við Morgunblaðið að tollverðir hefðu fundið 2.998 skammta af LSD og
er málið í rannsókn hjá fíkniefnadeildinni.

Bréfið var stílað á viðtakanda í Reykjavík en einstakling með því nafni er ekki að finna á því
heimilisfangi sem fylgir, sem er algengt þegar um er að ræða tilraunir til að smygla fíkniefnum með
pósti. Að sögn Einars Karls er rannsókn á frumstigi og fer eftir hefðbundnum leiðum. Meðal annars
hafa verið gerðar fyrirspurnir ytra. "Þessi fundur var ekki samkvæmt ábendingum þannig að þakka
má tollvörðunum í tollpóststofunni fyrir árvekni þeirra. Þetta er mjög hættulegt efni og þeir eiga
heiður skilið," segir hann.

LSD er sett á arkir og eru mismargir skammtar á hverri örk. Efnið þykir eitt hættulegasta fíkniefni
sem í boði er í heiminum en það veldur sterkum ofskynjunaráhrifum. Fyrst fór að bera á því á 7.
áratugnum, upphaflega sem tilraunalyf í geðlækningum, og eru þekkt dæmi þess að það valdi
geðveiki og fósturskaða.

"Fyrir um þremur árum fór að bera á þessu efni að nýju, eftir talsvert langt hlé. LSD hefur verið
viðloðandi markaðinn með öðrum fíkniefnum en núna virðist neysla þess og framboð vera að aukast
verulega. Því miður er það svo að fá efni er auðveldara að fela og þar af leiðandi er auðvelt að flytja
það inn. Þó svo að fólk hafi þetta undir höndum þar sem við gerum húsleitir eða höfum önnur
afskipti, fer ekkert fyrir efninu og því erfitt að finna það," segir Einar Karl.

Þrefalt meira en seinustu ár
Þótt tölur um hversu mikið af fíkniefnum er lagt hald á séu ekki taldar gefa örugga vísbendingu um
neyslu eða hversu mikið af viðkomandi efni er í umferð hverju sinni, er þó ljóst að þetta magn LSD
gefur til kynna aukna eftirspurn. Á seinasta ári lagði lögregla hald á 261 skammt af LSD, en alls
hefur verið lagt hald á 812 skammta frá 1991 til 1996. Það sem fannst nú er því meira en þrefalt
meira magn en fundist hefur samtals seinustu fimm ár.
Forsætisráðherra um þátttöku í Evrópska myntbandalaginu

Ekki hagur af aðild

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra telur að Íslendingar hafi ekki hag af því að gerast aðilar að
Evrópska myntbandalaginu. Þetta kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Kristínar
Ástgeirsdóttur, þingmanns Kvennalista, á Alþingi í gær. Kristín fagnaði afstöðu forsætisráðherra og
tók undir hana. "Það yrði til þæginda fyrir okkur sem ferðamenn ef af myntbandalagi yrði í Evrópu,"
sagði Davíð. "Það gæti líka að mörgu leyti verið þægilegt fyrir okkur í viðskiptum, hins vegar gæti
verið að samkeppnin yrði erfiðari á einhverjum sviðum. Það blasir hins vegar við í mínum huga að
það er algerlega klárt að Ísland hefur ekki hagsmuni af því að gerast aðili að myntbandalaginu."
Davíð benti á að andstaða væri við myntbandalagið meðal almennings í Evrópu, til dæmis í
Þýskalandi og Svíþjóð, en útilokaði þó ekki að af því yrði. Hann sagði að EFTA-ríkin væru að hefja
könnun á áhrifum myntbandalags á EFTA sem heild, en einnig hefði Seðlabankinn þegar hafið
athugun á áhrifum þess fyrir Ísland sérstaklega.
13% nema í 10. bekk hafa prófað hass

81,1% UNGLINGA í 10. bekk grunnskóla hafa einhvern tímann neytt áfengis og 13% þeirra hafa
prófað hass. Árið 1995 kváðust 9,6% unglinganna hafa prófað hass, 7,2% árið 1992 og 4% árið
1989.

Þetta kom fram í könnun sem Rannsóknastofnun í uppeldis- og menntamálum gerði í mars og
apríl, en stofnunin hefur gert slíkar kannanir með reglulegu millibili. Fjögur þúsund unglingar
svöruðu spurningum um neyslu að þessu sinni. Helstu niðurstöður eru, að áfengisneysla hefur
aukist lítillega, en minnst mældist hún árið 1989, þegar 69,9% kváðust einhvern tímann hafa neytt
áfengis. Þegar unglingar eru spurðir hversu oft þeir hafa neytt áfengis kemur í ljós, að um 42%
þeirra hafa neytt þess 10 sinnum eða oftar, en um 20% aldrei. Um 30% unglinganna segjast hafa
orðið drukkin 10 sinnum eða oftar.

Hassreykingar unglinga hafa aukist hröðum skrefum. Árið 1984 höfðu 8,3% nemenda í 10. bekk
einhvern tímann prófað hass, þessi tala lækkaði svo á næstu árum, en frá 1989 hefur ávallt mælst
aukning. Nú segjast 83,4% piltna og 91% stúlkna aldrei hafa prófað hass, 6,9% piltna hafa prófað
það 1-2 sinnum og 4,2% stúlkna og 9,7% pilta hafa prófað það 3 sinnum eða oftar og 4,8%
stúlkna.

Reykingar aukast
Unglingarnir voru einnig spurðir um tóbaksreykingar og kom í ljós að þær hafa aukist, þótt ekki
jafnist á við árið 1984, þegar 27% nemenda í 10. bekk reyktu daglega. Nú segjast 21,2% gera það,
en sú tala fór lægst niður í 15,1% árið 1992.
Uppsetning ljósa á Reykjanesbraut

Mun færri umferðarslys

VERULEGA hefur dregið úr slysum á Reykjanesbraut eftir að götuljós voru sett upp við veginn.
Kristján Pálsson alþingismaður fékk samanburð frá Vegagerðinni á slysatíðni á veginum í fjóra
mánuði, desember til mars, þrjú ár aftur í tímann. Óhöpp alls urðu sjö frá desemberbyrjun 1996 til
marsloka 1997 en á sama tíma árið áður voru þau fimmtán. Óhöppin urðu 114% færri núna en í
fyrra, 29% færri en árið þar áður og 200% færri en á tímabilinu desember 1994 til marsloka 1995.

Kristján segir að þetta sé ekki mjög ábyggilegur samanburður þar sem aðeins er verið að bera
saman fjóra mánuði. Þó sé greinilegt að dregið hafi úr slysum og auk þess megi minna á að
síðastliðinn vetur hafi verið snjóþyngri og með meiri byljum en oft áður.

"Þar fyrir utan er brautin sjálf afar illa farin eftir veturinn og hjólförin mjög djúp. Sums staðar þurfa
menn að þræða milli skorninganna til þess að bíllinn fljóti ekki. En samanburðurinn sýnir að það er
greinilega minna um óhöpp og það styður þá niðurstöðu erlendis frá að lýsing eykur
umferðaröryggi," sagði Kristján.

Tvöföldun Reykjanesbrautar
Kristján segir að til standi að gera við veginn og í sumar verði lokið við að lýsa brautina alla leið til
Leifsstöðvar. Rætt er um að auka vatnshallann á veginum svo vatn eigi greiðari leið út af honum.

Kristján segir að leita verði annarra leiða til þess að tvöfalda Reykjanesbrautina náist sú
framkvæmd ekki inn á vegalög. Hann segir að með því að sleppa öllum fyrirhuguðum
framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll og tvöfalda frekar Reykjanesbrautina væri hægt að slá tvær
flugur í einu höggi.

"Annars vegar að losa Reykjavík undan því óöryggi að hafa flugvöllinn inni í miðri borg, spara ríkinu
mikil fjárútgjöld fyrir flugvöll sem verður lagður niður á næstu áratugum og hins vegar að breikka
Reykjanesbraut fyrir þá fjármuni sem ella færu í endurgerð flugvallarins. Það væri hægt að flýta
þessari framkvæmd með aðgerðum af þessu tagi. En ef ekki næst samkomulag um það gæti farið
svo að menn neyddust til þess að skoða betur hugmyndir um að innheimta lágan vegtoll, t.d.
liðlega 100 kr., til þess að ná inn fyrir framkvæmdakostnaði," sagði Kristján.
Svínabændur lækka verð um 18%

VERÐ á kjöti frá svínabændum lækkar í dag um 17-18% og að sögn Kristins Gylfa Jónssonar,
formanns Svínaræktarfélags Íslands, ætti verðlækkunin að skila sér í lækkuðu smásöluverði til
neytenda. Hann segir að ástæða lækkunarinnar sé sú að of margir gripir séu nú á svínabúunum og
því verði settir rúmlega þúsund grísir á markað.

Kristinn Gylfi sagði að mikil framleiðsla hefði verið hjá svínabændum upp á síðkastið og grísirnir
væru nú stærri en áður vegna kynbótastarfs.

"Þetta er liður í því að auka söluna að vera núna með tímabundinn afslátt. Við gerum hins vegar
ekki ráð fyrir því að það verði um sama óróa að ræða á markaðnum og var í fyrra, en á sama tíma
þá höfðu verið haldnar tvær útsölur frá áramótum. Við gerum því ráð fyrir meiri stöðugleika í verði
núna þrátt fyrir þessa verðlækkun sem verður í þessari viku," sagði Kristinn Gylfi.
Spáð hlýnandi veðri næstu daga

SPÁÐ er hlýnandi veðri um allt land næstu daga og undir helgina ættu að vera komnar austlægar
áttir með hækkandi hitastigi, að sögn Guðmundar Hafsteinssonar, veðurfræðings á Veðurstofu
Íslands.

Kuldakastinu upp á síðkastið hafa valdið norðlægar áttir vegna lægðar sem verið hefur yfir
Bretlandi. Að sögn Guðmundar er sú lægð að leysast upp og lægðasvæði að myndast sunnan af
Íslandi og hæð fyrir norðan landið sem valda mun austlægum áttum.

Ólafur R. Dýrmundsson, landnýtingarráðunautur Bændasamtakanna, segir að kuldarnir undanfarið
hafi ekki valdið miklum skaða á gróðri og hann segist ekki telja að ástæða sé til að örvænta mikið
að svo stöddu. Sauðburður væri hins vegar erfiðari þar sem menn væru vanir að láta lambfé út á tún
og í haga, og þar sem gefa þyrfti fénu úti fylgdi því meiri vinna og fyrirhöfn.

"Það leit mjög vel út með allan gróður á tímabili í aprílmánuði og undir sumarmál voru menn t.d.
farnir að plægja kornakra undir Eyjafjöllum. Það má reikna með því að það sé sumsstaðar
töluverður klaki í jörðu ennþá og gróðri hefur lítið eða ekkert farið fram um töluverðan tíma. Þetta er
hins vegar í sjálfu sér ekkert óvenjulegt, en borið saman við fyrri ár telst þetta vissulega kalt vor,"
sagði Ólafur.
Hafrannsóknastofnun leggur til 32.000 tonna aukningu þorskkvóta

Útflutningsverðmæti fjórir milljarðar króna

HAFRANNSÓKNASTOFNUN hefur lagt til að þorskkvóti fyrir næsta fiskveiðiár verði aukinn um
32.000 tonn og verði alls 218.000 tonn. Útflutningsverðmæti þessarar aukningar gætu verið um fjórir
milljarðar króna. Þá er lagt til að leyfilegur afli úthafsrækju verði 70.000 tonn en leyfilegur afli á
þessu ári er 60.000 tonn. Útflutningsverðmæti þessarar aukningar gæti verið 1,5 milljarðar eða
meira.

Stofnunin leggur hins vegar til umtalsverðan niðurskurð á afla af ufsa, ýsu og grálúðu og 250.000
tonnum minni upphafskvóta fyrir loðnu en á yfirstandandi ári eða 850.000 tonn. Þjóðhagsstofnun
hefur metið að verði afli í öllum tilfellum eins og þessar tillögur aukist útflutningsverðmæti afurðanna
aðeins um hálfan til einn milljarð króna.

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra segir að ekki megi reikna með jafnmikilli aukningu
aflaheimilda á næstu árum og í nýrri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Yngstu þorskárgangarnir séu
mjög veikir og því verði að fara varlega í frekari veiðar úr stofninum.

Guðjón A. Kristjánsson, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, segir það fagnaðarefni
að lagt sé til að þorskkvótinn verði aukinn, en sjómenn hefðu þó viljað fá meiri aukningu. "Við
teljum að ekki hefði verið tekin mikil áhætta þótt farið hefði verið með kvótann upp í 240.000 til
250.000 tonn."

Eigum að hlíta þessari ráðgjöf
"Mér finnst að í öllum meginatriðum sé þetta ráðgjöf, sem við eigum að hlíta. Það eru smá
vonbrigði en þau eru ekki þess eðlis að ég ætli að hafa uppi stór orð gegn þessum tillögum. Mér
kom ekki á óvart að minnka þyrfti kvóta fyrir ufsa, reynslan hefur sýnt okkur það. Vonbrigðin eru
hins vegar tillaga um minni ýsukvóta og við höfðum einnig gert okkur vonir um aukningu kvóta fyrir
Íslandssíld, en það er ekki lagt til. Loks er umtalsvert minni upphafskvóti í loðnuveiði lagður til og
það skiptir miklu máli," segir Kristján Ragnarsson, formaður og framkvæmdastjóri LÍÚ.
Ungur maður tældi ólögráða stúlku í gegnum alnetið

Um tvöfalt brot að ræða

UPPLÝST hefur verið um misnotkun á alnetinu, í tengslum við leit að 15 ára gamalli reykvískri
stúlku sem lýst var eftir um páskana. Stúlkan var gestkomandi á Ísafirði en hvarf þaðan á
laugardaginn seinasta og hófst víðtæk eftirgrennslan á páskadag.

Sú eftirgrennslan leiddi í ljós að stúlkan hafði verið í sambandi við aðila á alnetinu og bendir
ýmislegt til að þau samskipti hafi verið ný af nálinni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hafði sá
aðili meðal annars sent stúlkunni margvísleg skilaboð, þar á meðal klámfengin, meðan á
tölvusamskiptum þeirra stóð.

Hafði honum síðan tekist að telja hana á að heimsækja sig til Reykjavíkur. Flaug hún samdægurs
þangað án vitundar forráðamanna eða gestgjafa og sótti hann hana út á Reykjavíkurflugvöll.

Þegar átti að hafa upp á þeim aðila, uppgötvaðist að hann hafði tengst alnetinu með ólögmætum
hætti og á fölskum forsendum, og hafði sá sem eignuð var tengingin ekki neinn grun um að nafn
sitt væri misnotað með þessum hætti. Í kjölfarið var haft samband við eitt þeirra fyrirtækja sem
bjóða upp á nettengingu, þó svo að viðkomandi aðili væri í viðskiptum við annað fyrirtæki í sama
geira.

Voru forráðamenn fyrirtækisins fúsir til að veita aðstoð til að hægt væri að hafa uppi á viðkomandi
aðila og við nánari rannsókn tókst að rekja slóð mannsins í tiltekið hús í borginni.

Þar er 22 ára gamall maður búsettur, en hann hafði haft stúlkuna hjá sér í sólarhring eftir að
samskiptum þeirra á alnetinu lauk á laugardag. Aðstandendum stúlkunnar tókst að telja hana á að
snúa heim til sín.

Einstakt mál um margt
Mál þetta mun sæta frekari rannsókn hjá RLR. Faðir stúlkunnar fékk afhent gögn um hvað þeim fór
á milli á alnetinu og er, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, þess að vænta að hann leggi fram
kæru á hendur þeim sem um ræðir.

Einstakt mál um margt
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er ósk um rannsókn meðal annars byggð á grunsemdum
um að maðurinn hafi haft samræði við stúlku undir lögaldri og að vímuefni hafi verið höfð um hönd.
Ekki er vitað til þess að hann hafi komið áður við sögu lögreglu eða reynt að tæla aðrar stúlkur
með sama hætti.

"Mál þetta er um margt einstakt og á það bæði við um hvernig manninum tókst að tæla stúlkuna til
sín, og hvernig við höfðum upp á honum. Þegar við komumst á sporið gekk það ótrúlega vel að nýta
tæknina til að hafa upp á þeim manni sem um ræðir. Það hefur ekki verið rannsakað sérstaklega
enn hvort hann hafi reynt sama leik í fleiri tilfellum," segir Geir Jón Þórisson, aðalvarðstjóri hjá
lögreglunni í Reykjavík.
Stjórn Albaníu segir af sér eftir óeirðir

Tirana. Reuter.

STJÓRN Albaníu sagði af sér á laugardag að beiðni Salis Berisha forseta eftir mannskæðar óeirðir
í suðurhluta landsins.

Mótmælendur gengu berserksgang um bæinn Sarande á sunnudag og stálu byssum úr
höfðustöðvar lögreglunnar. Fólkið kveikti í lögreglustöðinni og fleiri byggingum og lét greipar sópa
um verslanir og banka.

Fólkið ók um á bílum og skaut upp í loftið með rifflum, sem stolið var úr lögreglustöðinni. "Yfirmenn
okkar hafa flúið. Við vitum ekki hvað við eigum að gera. Fólkið stal um 400 Kalashníkov-rifflum úr
höfuðstöðvum lögreglunnar," sagði herforingi í bænum.

Áður höfðu átök blossað upp milli mótmælenda og leynilögreglumanna í borginni Vlore á
föstudagskvöld. Allt að níu manns biðu bana í átökunum.

Háskólanemar hafa einnig hafið mótmæli gegn stjórnvöldum og efnt til mótmælasveltis í háskólum í
Vlore og Gjirokster, nálægt landamærunum að Grikklandi.

Óeirðirnar hófust vegna ávöxtunarsjóða, sem lofuðu fjárfestum skjótum gróða en urðu gjaldþrota og
reyndust svikamyllur. Margir Albanir töpuðu aleigunni á þessum fjárfestingum og telja að
ríkisstjórnin hafi borið ábyrgð á starfsemi sjóðanna.

Varað við borgarastyrjöld
Stjórn Aleksanders Meksis sagði af sér að beiðni forsetans og leiðtogar Lýðræðisvettvangs,
bandalags stjórnarandstöðuflokka, hvöttu hann til að efna til neyðarfundar um leiðir til að binda
enda á óeirðirnar. Þeir sögðu afsögn stjórnarinnar engu breyta og vöruðu við borgarastyrjöld í
landinu ef Berisha forseti féllist ekki á frekari tilslakanir.

Talsmaður Lýðræðisvettvangs í Tirana sagði að stjórnarandstaðan vildi að Berisha leysti upp
þingið, myndaði bráðabirgðastjórn tæknikrata og boðaði til þingkosninga sem allra fyrst.

Stjórnvöld á Ítalíu og í Grikklandi hertu eftirlitið við landamærin að Albaníu þar sem þau óttast að
þúsundir Albana flýi yfir landamærin vegna óeirðanna.
Sendiherra Íslands í Albaníu færði Sali Berisha trúnaðarbréf sitt

"Fólkið hefur engu að tapa"

HÖRÐUR H. Bjarnason sendiherra afhenti Sali Berisha, forseta Albaníu, trúnaðarbréf sitt sem
sendiherra Íslands í Albaníu með aðsetur í Stokkhólmi á þriðjudag í liðinni viku. Morgunblaðið hafði
samband við Hörð og bað hann að segja frá samtali sínu við forsetann og ástandinu í Albaníu.

"Þessi fundur okkar hafði verið skipulagður með löngum fyrirvara," segir Hörður. "Ég afhenti
trúnaðarbréfið þriðjudaginn 25. febrúar. Þá hitti ég forsetann og ræddi við hann í svo sem tíu
mínútur eftir athöfnina." Berisha var þá nýkominn úr ferðalagi um suðurhluta landsins, þar sem
hann hafði freistað þess að lægja óánægju íbúanna sem hefur kraumað þar vikum saman vegna
gjaldþrots fjárglæfrasjóða, sem margir höfðu fjárfest í, jafnvel aleiguna, í von um skjótfenginn gróða.
Vegna ferðalagsins hafði forsetinn þurft að fresta móttöku Harðar um átta klukkustundir.

"Við ræddum næstum einungis þetta mál með píramítasjóðina. Hann sagði málið vera
ríkisstjórninni afskaplega erfitt. Stjórnarandstaðan [sem samanstendur aðallega af fyrrverandi
valdhöfum, kommúnistum] færði sér þetta í nyt til að æsa upp borgara landsins. Ríkisstjórnin hefði
þó ákveðið að grípa ekki til harkalegra aðgerða og vildi forðast blóðsúthellingar í lengstu lög."

Aðspurður hvort hann hefði orðið var við uppreisnarstemmningu meðal almennings í heimsókn
sinni, sagði Hörður:

"Ég tók eftir því að daginn sem ég fór frá Tirana, 26. febrúar, var talsverður mannfjöldi þar á götum
og margir lögregluþjónar sjáanlegir, þannig að það var hugsanlega eitthvað í aðsigi, en í svona
stuttri heimsókn er erfitt að gera sér góða grein fyrir því hvað er á seyði. En það er augljóst, að það
er mikil örbirgð í þessu landi. Það er gífurleg fátækt ríkjandi, og mikið atvinnuleysi. Maður getur því
ímyndað sér, að þessar aðstæður hafi sitt að segja þegar sýður upp úr; fólkið hefur engu að tapa,"
sagði Hörður.
Stjórnarherinn hörfaði eftir bardaga við albanska uppreisnarmenn

Vestræn ríki reyna að stilla til friðar í Albaníu

HERSVEIT albanska stjórnarhersins hörfaði í gær undan liði uppreisnarmanna eftir meiriháttar átök
við borgina Sarande í suðurhluta Albaníu, skammt frá grísku landamærunum. Stjórnarandstæðingar
höfðu tekið skriðdreka og önnur hergögn úr vopnabúri hersins. Tveir stjórnarhermenn særðust en
eftir bardagann óku uppreisnarmenn skriðdreka sigri hrósandi um götur Sarande. Evrópsk
stjórnvöld og bandarísk hófu í gær tilraunir til þess að lægja öldur í landinu og koma í veg fyrir
flóttamannastraum til nágrannaríkja.

Evrópusambandið (ESB) og Evrópuráðið freistuðu þess í gær að senda fulltrúa til viðræðna við Sali
Berisha forseta og fulltrúa stjórnarandstöðunnar í þeirri von að koma í kring viðræðum um pólitíska
lausn. Lýðræðisvettvangurinn, samtök 11 stjórnarandstöðuflokka, hvatti til þess í gær, að erlend
ríki sæju til þess að neyðarlögum yrði aflétt í Albaníu og frekari efnahags- og fjárhagsaðstoð til
landsins yrði stöðvuð þar til stjórn Berisha féllist á að koma í kring umtalsverðum pólitískum
umbótum.

Bandarísk stjórnvöld fylgjast grannt með gangi mála í Albaníu en bandarískar hersveitir hafa enn
ekki verið settar í viðbragðsstöðu til að sækja þangað um eitt þúsund bandaríska borgara, að sögn
Williams Cohens varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Bandarísk herskip eru þó undan ströndum
landsins og hafa þau komið á stöðugu fjarskiptasambandi við bandaríska sendiherrann, Marisa
Lino, í Tirana.

Grannríki Albaníu óttast straum flóttamanna yfir landamærin vegna upplausnarástandsins í landinu.
Í gær stöðvaði ítölsk freigáta bát með 15 Albani á Adríahafi og sést hafði til annars úr flugvél.
Ítalska stjórnin kvaðst í gær reiðubúin að senda herlið til Albaníu til friðargæslustarfa. Lamberto
Dini, forsætisráðherra, hafði eftir hinum albanska starfsbróður sínum, Tritan Shehu, að þrjár borgir,
Vlore, Sarande og Delvine, væru "stjórnlausar með öllu".

Miranda Vickers, höfundur tveggja fræðibóka um Albaníu, sagði í grein í breska blaðinu Guardian í
gær, að það hefðu verið mistök Evrópuríkja að eiga samstarf við Berisha eins og hann væri tákn
stöðugleika og umbóta. Nær hefði verið að krefjast pólitískra breytinga og umbóta. Bandaríska
blaðið New York Times sagði að hætta bæri allri vestrænni aðstoð við Albaníu þar til Berisha hefði
hafið sáttaumleitanir í stað harðstjórnar og kúgunar.
Madeleine Albright reynir að draga úr andstöðu Rússa við stækkun Atlantshafsbandalagsins

Boðar aukið samstarf og sameiginlegar friðargæslusveitir

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins komu saman til fundar í Brussel í gær til að hitta
nýskipaðan utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright, og ræða fyrirhugaðra stækkun
bandalagsins til austurs. Þorsteinn Víglundsson, fréttaritari Morgunblaðsins í Brussel, kynnti sér
niðurstöður fundarins og ræddi við Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra.


MADELEINE Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, setti á fundi sínum með utanríkisráðherrum
aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Brussel í gær fram hugmynd um aukið samstarf milli
Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, meðal annars í formi sameiginlegs herafla til friðargæslu.
Þessari hugmynd, sem hlaut jákvæðar viðtökur hjá Javier Solana, framkvæmdastjóra
Atlantshafsbandalagsins, er ætlað að bæta samskipti NATO við Rússland, sem er eins og kunnugt
er mjög andvígt stækkunaráformum bandalagsins. Ákvörðun NATO um hvaða ríkjum verður boðin
aðild verður kynnt á fundi bandalagsins í Madríd í júlí á þessu ári.

Albright sagðist sjá fyrir sér samstarfsráð Atlantshafsbandalagsríkjanna og Rússlands, sem væri
grundvöllur reglulegra viðræðna um öryggismál og gæti gripið til sameiginlegra aðgerða. Hún sagði
að fulltrúar NATO og Rússlands myndu starfa saman í helstu herstöðvum bandalagsins og hægt
yrði að koma á fót sameiginlegum herafla NATO og Rússlands. Að hennar sögn hefði þegar náðst
nokkur árangur í þessa átt í viðræðum við Rússa og að mögulegt væri að ná frekari árangri fyrir
fundinn í Madríd. Hins vegar væri hér aðeins um hugmynd að ræða og engar tölur um stærð slíks
herafla hefðu verið settar fram.

Solana sagðist að fundinum loknum telja þessa hugmynd góðra gjalda verða. Hún væri góður
grundvöllur til að byggja á einhvers konar samstarf milli Rússlands og NATO.

Solana sagði að öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins væru staðráðin í að ná samkomulagi við
Rússland um samstarf sem næði mun lengra en raunin væri í dag. Hann sagði mikilvægt að slíkt
samkomulag næðist sem fyrst. Hann sagðist vonast til að frekari árangur næðist í viðræðum sínum
við Prímakov, utanríkisráðherra Rússlands, sem er væntanlegur til Brussel í næstu viku. Hann
sagði hins vegar ljóst að ekki yrði auðvelt að ná samkomulagi við Rússland. "Engu að síður er ég
sannfærður um að það sé í hag beggja aðila að geta rætt saman og, þar sem það er mögulegt,
gripið til sameiginlegra aðgerða líkt og þeirra sem við stöndum nú fyrir í Bosníu."

Í engu hvikað frá stækkun
Albright sagði að í engu yrði hvikað frá áformum Atlantshafsbandalagsins um stækkun til austurs,
þrátt fyrir andstöðu Rússlands. "Eftir fundinn í dag tel ég að allt Atlantshafsbandalagið sé samstíga
á leið sinni til Madrídar." Hún sagði að Atlantshafsbandalagið væri nú að nálgast ákvörðun um
hvaða ríkjum yrði boðin aðild að bandalaginu á leiðtogafundinum í Madríd. Hún sagði að einnig væri
unnið að því að tryggja að öll lýðræðisríki Evrópu, hvort sem þau væru aðilar að NATO eða ekki,
hefðu hlutverki að gegna í því að tryggja öryggi álfunnar. "Við erum að takast á við áhyggjur
Rússlands í formi samnings milli NATO og Rússlands, sem mun gera Rússland að fullgildum
þátttakanda í hinu nýja kerfi, þó án neitunarvalds."

Samráðsfundir allra aðildarríkja
Madeleine Albright varpaði einnig fram hugmynd um samráðsfundi aðildarríkjanna 16 og hvers og
eins af væntanlegum aðildarríkjum auk Rússlands. Hefur hugmyndin hlotið heitið 16+1 og er litið á
hana sem svar við hugmynd Frakka um fund fimm stærstu aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins
með Rússlandi til að reyna að liðka fyrir stækkun bandalagsins. Eins og fram hefur komið hefur
þessari hugmynd Frakka ekki verið tekið vel meðal nokkurra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.
Sagði Albright mikilvægt að þessir fundir færu fram fyrir leiðtogafundinn í Madríd í júlí.

Liðkar fyrir stækkun
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, segir að fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins
með Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi verið mjög gagnlegur og þær
hugmyndir sem þar hafi verið settar fram um aukið samstarf við Rússland geti hugsanlega flýtt fyrir
fyrirhugaðri stækkun Atlantshafsbandalagsins til austurs.

"Það er venja í Atlantshafsbandalaginu þegar nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna tekur við að
utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins komi saman til að ræða mál við hinn nýja ráðherra. Það
er sérstaklega mikilvægt nú því aldrei áður við slík skipti hafa mikilvægari mál verið á ferðinni. Það
er ánægjulegt til þess að vita að Albright lagði áherslu á samskiptin yfir hafið og samvinnu Evrópu
og Bandaríkjanna og hún er staðföst í því að halda áfram stækkunarferlinu og jafnframt að koma
samskiptum Atlantshafsbandalagsins við Rússland í gott horf."

Halldór sagði mikla samstöðu hafa verið ríkjandi á fundinum og að eining ríkti um stækkun
bandalagsins. Mismunandi sjónarmið væru uppi um hvernig það skyldi gerast en allt virtist stefna í
að af stækkun yrði. Hann sagði mikilvægt að þetta stækkunarferli héldi áfram eftir að fyrstu nýju
ríkin hefðu verið tekin inn og að öll þau ríki sem vildu ganga til þessa samstarfs hefðu jafna
möguleika á því.

Samstarf við Rússland einungis á jafnréttisgrundvelli
Halldór segir þær hugmyndir, sem Albright setti fram í dag, til þess fallnar að liðka fyrir fyrirhugaðri
stækkun en telur hins vegar ólíklegt að þær muni draga mikið úr andstöðu Rússlands við
stækkunina.

"Ég tel að það sé mikilvægt fyrir Rússa að taka þátt í friðargæslu með Atlantshafsbandalaginu með
formlegum hætti. Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður ekki gert gagnvart stórveldi eins og
Rússum nema á jafnréttisgrundvelli. Þessar hugmyndir hafa verið viðraðar og eru árangur viðræðna
sem hafa átt sér stað við Rússa og geta flýtt fyrir málum." Hann sagði hins vegar ljóst að Rússar
yrðu eftir sem áður andvígir stækkun bandalagsins, en sú andstaða myndi þó ekki koma í veg fyrir
hana.

Of mikið gert úr hótunum Tyrkja
Aðspurður um þá hótun Tyrkja að beita neitunarvaldi gegn fyrirhugaðri stækkun NATO, hljóti
Tyrkland ekki náð fyrir augum Evrópusambandsins í fyrirhugaðri stækkun þess, sagði Halldór að
það mál hefði ekki komið til umræðu á fundinum. Hann sagðist hins vegar telja að úr því hefði verið
gert mun meira en Tyrkir hefðu ætlast til í upphafi og ekki væri líklegt að þeir gerðu alvöru úr þeirri
hótun. "Þegar menn eru að vinna að uppbyggingu lýðræðis í Evrópu og meira öryggi álfunnar í
heild, þá er tilgangslaust fyrir einstök ríki að hóta slíku og verður eingöngu til að skaða viðkomandi
ríki."
Amsterdam-sáttmálinn í höfn en mikilvægum ákvörðunum slegið á frest

Þrátt fyrir maraþonfund leiðtoga Evrópusambandsins aðfaranótt miðvikudags tókst þeim ekki að
ná þeim árangri sem vonast hefði verið eftir á leiðtogafundinum í Amsterdam. Þorsteinn
Víglundsson
kynnti sér niðurstöðu fundarins.


LEIÐTOGUM hinna 15 aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) mistókst í fyrrinótt að ná
samkomulagi um endurskipulagningu stofnanna og ákvörðunartökuferlis sambandsins á
leiðtogafundinum í Amsterdam. Þessari endurskipulagningu, sem talin er nauðsynleg forsenda
frekari stækkunar ESB, var slegið á frest um sinn og þurfa leiðtogarnir því að koma saman á nýjan
leik, áður en af stækkun getur orðið.

Þrátt yfir þetta lýstu leiðtogarnir því yfir að aðildarrviðræður við ný ríki myndu hefjast eftir u.þ.b. sex
mánuði, líkt og upphaflega var gert ráð fyrir. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun tilkynna
þann 16. júlí nk. hvaða ríkjum verði boðið til viðræðna, en sem stendur hafa 12 ríki sótt um aðild.

Deilt um aukið valdavægi stærri aðildarríkja
Endurskipulagning stofnana ESB var meðal helstu verkefna leiðtogafundarins að þessu sinni.
Núverandi fyrirkomulag hefur þótt óskilvirkt og engan vegin í stakk búið að eiga við fleiri aðildarríki
en nú er. Þá hafa stærri aðildarríkin krafist þess að atkvæðavægi þeirra endurspegli betur
íbúafjölda, en sem stendur hafa smærri aðildarríkin haft hlutfallslega meira atkvæðavægi en stærð
þeirra gefur til kynna.

Samkomulag hefur ríkt um nauðsyn þess að gera ákvörðunartökuferli ESB skilvirkara áður en af
stækkun geti orðið, en sem fyrr reyndist ekki mögulegt að brúa bilið milli stóru aðildarríkjanna, á
borð við Þýskaland, Frakkland, og Bretland, og þeirra smærri á borð við Danmörku, Belgíu og
Lúxemborg.

Eftir að umræður höfðu dregist langt fram á nótt varð niðurstaðan loks sú að fresta ákvörðunum um
endurskipulagningu fram til þess tíma er stækkun stæði frammi fyrir dyrum.

VES áfram utan ESB
Framtíð Vestur-Evrópusambandsins (VES) var sömuleiðis til umræðu í Amsterdam. Frakkar og
Þjóðverjar komu til fundarins með þá kröfu að VES yrði innlimað með einhverjum hætti inn í ESB,
svo sambandið gæti í framtíðinni haft á að skipa sameiginlegum herafla. Bretar voru fyrirfram mjög
andvígir slíku fyrirkomulagi og fylgdu Finnland, Svíþjóð, Danmörk, Írland og Austurríki þeim að máli.

Þrátt fyrir yfirlýsingar hollenskra og franskra embættismanna um eftirgjöf Breta á þessu sviði, má
segja að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafi farið með sigur af hólmi. Niðurstaðan varð sú
að inn í sáttmálann var sett ákvæði um mögulega innlimun VES í Evrópusambandið, en að
ákvörðun um slíka innlimun yrði að afgreiða með samhljóða atkvæði ráðherraráðsins. Bretar munu
því halda eftir þeim möguleika að beita neitunarvaldi gegn slíkum ákvörðunum í framtíðinni.

Blair lýsti eftir fundinn ánægju sinni með þessa niðurstöðu. "Við höfum náð samkomulagi sem er
mjög ásættanlegt fyrir okkur þar sem það kveður alveg skýrt á um að áfram verður litið eftir
hagsmunum okkar í varnarmálum innan Atlantshafsbandalagsins, NATO." Talsmaður hollensku
ríkisstjórnarinnar hafnaði því hins vegar að hægt væri að líta á þessa málamiðlun sem sigur bresku
ríkisstjórnarinnar, þar sem hún hefði í fyrsta sinn fengist til að sammþykkja að varnarmál yrðu með
einum eða öðrum hætti færð inn undir ESB.

Schengen inn undir stofnankerfi Evrópusambandsins
Eins og við hafði verið búist náðu leiðtogar aðildarríkjanna 15 samkomulagi um að færa Schengen
samstarfið inn undir 1. og 3. stoð Evrópusambandsins. Öll málefni er varða pólitískt hæli,
vegabréfaáritanir og fólksflutninga verða færð undir fyrstu stoð og munu framkvæmdastjórnin og
Evrópudómstóllinn því fá ákveðnu hlutverki að gegna í þessu samstarfi. Bretar tryggðu framgang
þessa máls með því að gefa eftir í andstöðu sinni gegn tryggingum þess efnis að þeim og Írum yrði
kleift að standa utan þessa samstarfs með fulla stjórn á landamæraeftirliti sínu.

Danir gátu hins vegar ekki fellt sig við að veita dómstólnum vald í umræddum málaflokkum og því
náðist samkomulag um að Danir gætu staðið utan þeirra ákvæða en yrði engu að síður gert kleyft
að taka þátt í vegabréfasamstarfinu. Danska ríkisstjórnin hefur einnig sem kunnugt er lýst því yfir
að hún hyggist efna til þjóðaratkvæðis um Amsterdam-samninginn.

Í yfirlýsingu leiðtogafundarins er ráðherraráði ESB falið að vinna nánar að útfærslunni á innlimun
Schengen samkomulagsins. Þessari yfirlýsingu fylgdi sú bókun að tryggt yrði að núverandi
fyrirkomulag á vegabréfasamstarfi Norðurlandanna gæti áfram rúmast innan "víðara evrópsks
samstarfs á sviði frjálsra fólksflutninga."

Baráttan gegn atvinnuleysi sett á oddinn
Ný ríkisstjórn vinstrimanna í Frakklandi, undir forystu Lionels Jospin, virðist ekki hafa náð miklum
árangri með helstu stefnumál sín í Amsterdam, ef frá er talin sameiginleg yfirlýsing leiðtoganna um
atvinnumál.

Jospin varð á endanum að gefa eftir eitt helsta kosningaloforð sitt um endurskoðun
stöðugleikasáttmála evrópska myntbandalagsins (EMU) í því skyni að gefa Frökkum meira svigrúm
til að auka ríkisútgjöld í baráttunni við atvinnuleysi. Þjóðverjar höfðu sigur í þeirri rimmu og var
stöðugleikasáttmálanum ekki breytt.

Hins vegar fengu Frakkar í gegn fyrrnefnda yfirlýsingu um atvinnumál, sem m.a. felur það í sér að
efnt verði til sérstakrar atvinnuráðstefnu í Lúxemborg í haust, auk þess sem evrópska
fjárfestingarbankanum var gefið aukið svigrúm til lánveitinga til atvinnulífsins.

Þessar yfirlýsingar þykja hins vegar heldur rýrar og lítt líklegar til árangurs. Hagfræðingar og
stjórnmálaskýrendur hafa litla trú á því að leiðtogar ESB geti ýtt undir atvinnusköpun með
fundarhöldum sínum og má segja að stjórnvöld í Lúxemborg hafi tekið undir þessa skoðun með því
að setja það sem skilyrði fyrir samþykki sínu að leiðtogar aðildarríkjanna myndu ekki ýta undir
vonir almennings með stórtækum yfirlýsingum í fjölmiðlum um gildi þessarar ráðstefnu.

Þá eru líka uppi efasemdir um hversu mikið evrópski fjárfestingarbankinn geti beitt sér í
atvinnusköpun án frekari fjárframlaga. Sérfræðingar hafa bent á að með aukinni áhættu í
útlánastarfsemi bankans, þurfi að styrkja varasjóði bankans svo hann muni ekki tapa AAA lánshæfi
sínu.

Hins vegar má segja að leiðtogunum hafi tekist að koma því til skila til almennings að baráttan
gegn atvinnuleysi væri þeim ofarlega í huga á tímum þar sem atvinnuleysi í Evrópu hefur mælst
tæp 11% undanfarin tvö ár.
Bjórdósabann Dana í hættu?

BANN danskra stjórnvalda við sölu á bjór og gosdrykkjum í áldósum kann að vera í hættu.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sent Dönum rökstutt álit um að dósabannið brjóti
gegn tilskipun ESB um umbúðir og sé í raun viðskiptahindrun. Danir telja hins vegar að um
umhverfisverndarmál sé að ræða og að auðveldara sé að endurvinna gler en ál, auk þess sem meiri
hætta sé á að áldósum sé ekki skilað til endurvinnslu, heldur fleygt á víðavangi.

Framleiðendur bjórs og gosdrykkja í öðrum ESB-ríkjum hafa lengi kvartað undan banni Dana.
Framkvæmdastjórnin segir í fréttatilkynningu að í umbúðatilskipuninni sé reynt að finna meðalveg á
milli frjálsra viðskipta og umhverfisverndar. Bann Dana gangi hins vegar of langt í átt til
umhverfissjónarmiða, á kostnað viðskiptahagsmuna.
Bonnie og Clyde loks í sömu gröf?

Dallas. Reuter.

ÚTLAGARNIR alræmdu, Bonnie Parker og Clyde Barrow, betur þekkt sem glæpahjúin Bonnie og
Clyde, áttu þá ósk heitasta að verða jörðuð í sömu gröf og nú kann svo að fara að það verði að
veruleika, 63 árum eftir blóðugan dauðdaga þeirra.

Marie Barrow, systir Clydes, ráðgerir að selja ýmsa persónulega muni hins fræga glæpamanns á
uppboði í San Francisco síðar í apríl. Ætlar hún að nota hluta teknanna til þess að flytja jarðneskar
leifar bróður síns í gröf Bonnie, heimili ættingjar hennar það á annað borð.

"Það var hinsta ósk þeirra, einkum og sér í lagi hennar, að þau yrðu jörðuð saman. Ég ætla að láta
óskina rætast, fáist fyrir því samþykki," sagði Marie Barrow um glæpahjúin. Móðir Bonnie kom á
sínum tíma í veg fyrir að þau Clyde yrðu jörðuð í sama kirkjugarði, hvað þá í sömu gröf. Liggja þau
hvort í sínum kirkjugarðinum í Dallas.

Bonnie og Clyde fóru ásamt samverkamönnum sínum með báli og brandi um suðvestur- og
miðvesturríki Bandaríkjanna í hálft þriðja ár áður en þau voru vegin í lögregluumsátri skammt frá
Gibsland í Louisiana-ríki í maí 1934. Höfðu þau þá rænt tugi banka, bensínstöðvar, smáverslanir og
myrt a.m.k. 12 lögreglumenn. Fyrir tilstilli kvikmynda og fjölda bóka er líf glæpahjúanna orðið að
rómantískri goðsögn. Kvikmyndin Bonnie og Clyde með Warren Beatty og Faye Dunaway í
hlutverkum illvirkjanna hlaut tvenn Óskarsverðlaun 1967. Hún hlaut hins vegar mikla gagnrýni fyrir
þann hluta sem sýnir aftöku þeirra. Þótti sú myndræna umfjöllun helst til ofbeldisfull.

Meðal muna sem Marie Barrow ætlar að selja eru vasaúr Clydes, leikfangariffill, myndir af þeim
Bonnie saman, belti og hálsmen. Skyrtan sem hann var í á dauðastundinni verður einnig seld en
hún er eins og gatasigti. Seldi Marie Barrow hana safnara í Dallas í fyrra og ætlar sá að bjóða hana
nú. Uppboðshaldari telur að hún verði seld á milli 35 og 45 þúsund dollara. Munir þeir sem systirin
ætlar að láta frá sér eru metnir á milli 21 og 31 þúsund dollara en búist er við að þeir seljist fyrir
mun hærri upphæð.

Marie Barrow segir að móðir hennar hafi ætíð neitað að selja persónulega muni bróður hennar og
hafi hún geymt þá í sedrusviðarkistu. Sjálf hefði hún lengst af haft þá ósk móður sinnar í heiðri. "En
nú er ég orðin gömul og þarf á peningum að halda," sagði Marie Barrow.
200 hindúar brenna til bana

Baripada. Reuter.

LÆKNAR reyndu í gær að bjarga lífi tuga manna er fengu alvarleg brunasár í eldi sem blossaði upp
í strákofaþyrpingu hindúa, sem voru á ráðstefnu í bænum Baripada í austurhluta Indlands á
sunnudag. Að minnsta kosti 200 hindúar brunnu til bana í eldsvoðanum.

"Rúmlega hundrað læknar eru að hlynna að sjúklingunum," sagði læknir á sjúkrahúsi Baripada.
Flestir hindúanna höfðu fengið sér blund eftir hádegisverð þegar eldurinn blossaði upp og 168 illa
brunnin lík lágu á víð og dreif um svæðið. Yfirvöld sögðu að aðeins hefði verið hægt að bera kennsl
á 49 líkanna á staðnum og hin yrðu öll brennd saman. Ekki hefur verið ákveðið hvenær bálförin
verður.

187 á sjúkrahús
Hindúarnir voru á árlegri ráðstefnu, sem er tileinkuð kenniföðurnum Nigamananda. 187 voru fluttir á
sjúkrahús með brunasár og þar af höfðu 32 dáið í gær. Tugir manna voru með brunasár á yfir 70-
80% líkamans á sjúkrahúsinu í Baripada og 24 til viðbótar voru illa haldnir á sjúkrahúsi í borginni
Cuttack, um 175 km suðvestur af bænum. Öll fórnarlömbin munu hafa verið karlar.

Blaðamaður, sem kom á staðinn 14 klukkustundum eftir eldsvoðann, sagði að kofar mannanna
hefðu allir brunnið til ösku. "Ættingjar grétu sáran og biðu upplýsinga frá lögreglunni."

Talið er að skammhlaup hafi valdið eldsvoðanum. Allmikill vindur var og þurrkur þegar eldurinn
kviknaði og hann breyddist því mjög hratt út. Flest fórnarlambanna sváfu í átta bambus- og
hampkofum, sem fuðruðu upp á þremur mínútum, og hampi hafði verið dreift um kofana til að sofa
á. Mikill troðningur skapaðist við einu útgönguleiðina frá kofaþyrpingunni, sem var á
knattspyrnuvelli.

Konur og börn, sem sóttu ráðstefnuna, voru í tíu kofum á öðrum stað á vellinum og eldurinn náði
ekki þangað.

H.D. Deve Gowda, forsætisráðherra Indlands, fór á staðinn og sagði að stjórnin myndi ræða við
leiðtoga hindúa um ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíka eldsvoða. Embættismenn sögðu
eldsvoðann sýna að eldvörnum væri mjög ábótavant á Indlandi.
Deilt um embætti yfirmanns CIA

Clinton dregur tilnefninguna til baka

Washington. Reuter.

BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, hefur samþykkt að draga til baka tilnefningu Anthonys Lake í
embætti yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Lake var öryggisráðgjafi forsetans á fyrra
kjörtímabilinu og hvatti Clinton til að falla frá tilnefningunni vegna óánægju með framgöngu
repúblikana, sem hann segir hafa ætlað að tefja staðfestingu hennar á Bandaríkjaþingi. Búist er við
að Clinton tilnefni annan mann í embættið mjög bráðlega.

Leyniþjónustunefnd öldungadeildar þingsins hafði þjarmað að Lake í þriggja daga yfirheyrslum í
vikunni sem leið og fulltrúar repúblikana létu þá í ljós efasemdir um heiðarleika hans,
stjórnunarhæfileika og hæfni til að gegna embættinu. Ákvörðun hans kom þó mörgum á óvart þar
sem flestir töldu að tilnefningin yrði staðfest að lokum þar sem hann hefði staðið sig vel í
yfirheyrslunum.

Ákvörðunin er einnig talsvert áfall fyrir Clinton, sem hafði lofsamað Lake fyrir þátt hans í að móta
stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum Bosníu og Haítí og að bæta samskiptin við Rússland.

"Pólitísk fjölleikasýning"
Lake ræddi ákvörðun sína við Clinton á fundi í Hvíta húsinu á mánudag og sendi honum síðan bréf
þar sem færði rök fyrir henni. Hann kvaðst þar telja að meirihluti væri fyrir því í nefndinni og
öldungadeildinni að staðfesta tilnefninguna en nokkrir repbúblikanar hygðust tefja afgreiðsluna eins
lengi og þeir mögulega gætu. Hann kvaðst ekki heldur hafa áhyggjur af frekari persónulegum
árásum þar sem engum spurningum væri ósvarað.

Lake var ómyrkur í máli í bréfinu og lýsti andstöðu repúblikana sem "pólitískum knattspyrnuleik"
þar sem stöðugt væri verið að færa mark andstæðinganna til. Hann kvaðst hafa heimildir fyrir því að
repúblikanar hygðust tefja yfirheyrslur þingnefndarinnar fram yfir páskahlé og seinka umræðunni
um málið í öldungadeildinni eins og nokkur kostur væri.

Lake kvað framgöngu repúblikana "illkvittnislega og ruddalega" og sagði þessa "pólitísku
fjölleikasýningu" skaða hagsmuni Bandaríkjanna. "Eftir rúmlega þriggja mánaða bið hef ég misst
þolinmæðina og þessar endalausu tafir hafa skaðað CIA og starfsmenn þjóðaröryggisráðsins
þannig að ég get ekki látið þetta viðgangast lengur."

"Óréttlát" málsmeðferð
"Þessi tilnefning hefur verið mjög umdeild frá upphafi," sagði formaður þingnefndarinnar,
repúblikaninn Richard Shelby. "Þótt ég telji Lake bæði gáfaðan og viðkunnanlegan hef ég enn
miklar efasemdir um hæfni hans til að stjórna leyniþjónustunni."

Áhrifamesti demókratinn í nefndinni, Bob Kerrey, kvaðst harma framgöngu repúblikana í málinu og
sagði málsmeðferðina "óréttláta".

Lake hefði orðið þriðji yfirmaður CIA frá því Clinton tók við forsetaembættinu og sá fimmti á sex
árum. Leyniþjónustan hefur átt undir högg að sækja vegna þessara tíðu mannaskipta og ýmissa
hneykslismála, sem hafa tröllriðið stofnuninni á síðustu árum.

Repúblikanar saumuðu að Lake með spurningum um hvers vegna starfsmenn hans hefðu ekki
skýrt honum frá skýrslu bandarísku alríkislögreglunnar um að Kínverjar kynnu að reyna að hafa
áhrif á kosningarnar í Bandaríkjunum og hvers vegna hann skýrði ekki þinginu frá þeirri ákvörðun
Bandaríkjastjórnar að leggjast ekki gegn vopnaflutningum Írana til múslima í Bosníu árið 1994.
Drottnari Kína fallinn frá

Að Deng Xiaoping, drottnara Kína, látnum er talið að lítið muni breytast í landinu þótt harðvítugt
uppgjör um völd fari í hönd. Hann var frumkvöðull efnahagsumbóta að vestrænum hætti, en lét berja
niður þá, sem kröfðust tjáningar- og athafnafrelsis. Ágúst Ásgeirsson rekur ævi Dengs.


DENG Xiaoping, drottnari Kína, sem lést í gær á 93. aldursári, átti sér mörg pólitísk líf og
áhrifamesti kommúnistaleiðtogi landsins í áratugi. Raunsæismaður sem reis þrisvar til valda á ný
eftir pólitíska útskúfun í hreinsunum vinstri harðlínumanna. Notaði tól og tæki kapitalista til þess að
treysta völd Kommúnistaflokksins sem hann trónaði yfir. Með því tókst honum að draga Kína út úr
hafti hugmyndafræði Maós formanns og stalínskrar miðstýringar. Með efnahagsumbótum sem
leiddu á tímabili til hraðasta hagvaxtar í heiminum hóf hann tugmilljónir Kínverja úr örbirgð og veitti
þeim tækifæri til þess að freista gæfunnar í markaðskerfi. Við fráfall Dengs vakna spurningar um
hvað við tekur í Kína og eru sjónarmiðin á tvo vegu.

Í samtali við Morgunblaðið 9. febrúar sl. um ástand og horfur í Kína sagðist norski prófessorinn og
Kínafræðingurinn Börge Bakken hallast að því að breytingarnar yrðu ekki miklar við fráfall hans.
"Það getur auðvitað allt gerst en umbæturnar munu halda áfram. Í mesta lagi verða átök í
kommúnistaflokknum milli fylkinga um hraða umbóta og ómögulegt að segja hverjir ná yfirhöndinni;
frjálslyndari öfl eða afturhald. Það eina sem örugglega gerist er að það verður heljarmikil útför þegar
hann deyr," sagði Bakken aðspurður um hvað gerðist eftir dauða Dengs.

Stjórnmálaskýrendur eru á því að í hönd fari valdastríð og margt höfuðið kunni að eiga eftir að fjúka.
Uppgjörið gæti kristallast í deilum um árangurinn af efnahagsstefnu Dengs, en út af fyrir sig sé
verðbólga, mikill ójöfnuður milli héraða, siðferðiskreppa og þverrandi miðstjórnarvald nægur efniviður
í pólitíska upplausn. Þá velta stjórnmálaskýrendur því fyrir sér hvort gífurleg spilling í röðum
embættismanna flokksins, ólga meðal borgara og pólitískt uppnám ríði umbótunum að fullu að
Deng látnum. Sjá menn fyrir sér ýmist nýtt ofurríki eða land sem klofnar upp vegna
svæðisbundinnar togstreitu og borgarastríðs. Sérfræðingar breska blaðsins Daily Telegraph halda
því fram, að við andlát Dengs sé djúpstæð kreppa með ófyrirsjáanlegum afleiðingum skollin á í
Kína.

Jiang sagður eiga öfluga keppinauta
Hinn útvaldi eftirmaður Dengs sem leiðtogi Kommúnistaflokksins, Jiang Zemin, erfir ríki þar sem
ekki er að finna innbyggt gangverk fyrir tilfærslu valds. Margir segja að þar hafi Deng gert
glappaskot. Í ljós hafi komið í uppgjöri hans við óskilvirkt skriffinnskukerfi 1992, er honum þótti
hægagangur kominn í umbætur, að honum hafði mistekist að fá nokkrum öðrum raunveruleg völd
þótt hann væri horfinn úr embættum. Á flokksþinginu það ár voru kapitalískar hagkenningar hans
hafnar í æðra veldi og jafnað við Guðspjöll. Jiang er sagður eiga sér öfluga keppinauta í
stjórnmálaráðinu og óvíst sé að honum hafi tekist á undanförnum tveimur til þremur árum að tryggja
sér æðstu völd að Deng frágengnum. Hann er sagður mun varfærnari en Deng og vilja fara sér
hægar í umbótum.

Meðal bandamanna og keppinauta Jiangs í valdataflinu eru nokkrir þeirra sem nú eru í fastanefnd
stjórnmálaráðsins, æðstu valdastofnunar Kommúnistaflokksins. Fremstur þeirra er Zhu Rongji.
Hann er maðurinn sem margir á Vesturlöndum vildu að kæmist til æðstu metorða. Hann er talinn
hreinskiptinn og fellur kaupsýslumönnum vel í geð. Einhverju sinni lét Deng þau orð falla að þar
væri kominn maður "sem hefði vit á efnahagsmálum". Li Peng forsætisráðherra er kostur
íhaldsmanna í kínverska stjórnkerfinu en þó er talið óvíst að hann vilji taka að sér forystuhlutverkið
sjálfur heldur vera áfram í öðru sæti.

Harðlínumenn komu forverum Jiangs, Zhao Ziyang og Hu Yaobang, frá eftir ólgu í þjóðfélaginu.
Deng neyddist til að fórna þeim til að halda sáttum milli fylkinga. Zhao var ýtt til hliðar nokkrum
dögum eftir blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar 1989 en Hu varð undir í valdabaráttu tveimur
árum áður.

Vegna aukinnar óvissu um heilsu Dengs fyrir tveimur árum varaði bandaríska varnarmálaráðuneytið
við óstöðugleika og jafnvel upplausn í Kína eftir fráfall hans. Í skjali um ástand og horfur í Kína í
náinni framtíð sagði, að helmings líkur væru á því, að ríkið liðaðist í sundur í valdabaráttu eftir fráfall
Dengs. "Það hefur hver sem er möguleika á að hreppa Kína eftir andlát Dengs," sagði í skjalinu.
"Það er ekkert valdajafnvægi milli pólitískra afla og fráfall Dengs mun skilja eftir sig tómarúm sem
bæði afturhaldsöflin og umbótasinnar munu reyna að færa sér í nyt."

Sérfræðingar bandaríska varnarmálaráðuneytisins sáu fyrir sér þrjá hugsanlega möguleika í Kína
þegar valdatíma Dengs lyki. Í fyrsta lagi, að nýr harðstjóri risi upp sem kynni að reyna að innlima
Tævan með hernaði og bæla niður andóf í Hong Kong. Í öðru lagi, að samþjöppun valds í Peking
hyrfi og völdin færðust til svæðisbundinna stjórna eða héraða. Í þriðja lagi, að algjört félagslegt og
pólitískt hrun ætti sér stað, bændur og verkalýður risu upp og erlendur gjaldeyrir streymdi úr landi.
Ólíklegasti möguleikinn, að mati sérfræðinga Pentagon, var að við taki lýðræðislegar umbætur í
Kína. Hins vegar þótti þeim aðeins 30% líkur á að valdakerfi kommúnista héldi velli eftir andlát
Dengs. Niðurstöður sérfræðinga ráðuneytisins endurspegla áhyggjur valdamanna á Vesturlöndum
um framtíð Kína.

Svartir kettir eða gráir
Deng er forgöngumaður efnahagsumbóta og markaðskerfis í Kína. Allt frá því hann varð óumdeildur
leiðtogi Kína 1978 barðist hann fyrir umbótum með það að leiðarljósi að "dýrðlegt væri að græða".
Losaði hann efnahagslífið úr spennitreyju kommúnismans og gaf atvinnurekstri lausan tauminn.
Deng lét sig litlu varða hvað stjórntækin hétu svo fremi þau tryggðu völd Kommúnistaflokksins.
Hvort hlutabréfamarkaður eða erlendar fjárfestingar væru tæki kapitalista eða kommúnista varðaði
hann engu. "Það skiptir ekki máli hvort kötturinn er svartur eða grár. Meðan hann veiðir mýs er
hann góður," sagði hann í einni rökræðunni um umbætur á stjórnarstefnunni. Það var sannfæring
Dengs, að hagsæld væri það eina sem komið gæti í veg fyrir að örlög kínverska
kommúnistaflokksins yrðu hin sömu og þess sovéska og afsprengja hans. Þess vegna leyfði hann
starfsemi einkafyrirtækja, stofnaði sérstök efnahagssvæði og opnaði hluta- og verðbréfamarkað,
sem lokað var áratugum áður af kommúnistum. Upprætti hann samyrkjubú sem voru hornsteinn
byltingarstefnu Maós og leyfði smábændum að njóta sín. Borgarbúar áttu þess einnig kost að
keppa að bættri afkomu án þess að hljóta pólitíska fordæmingu, ný atvinnustarfsemi og frjálsir
markaðir spruttu upp út um allt. Opnaði hann Kína fyrir vestrænum fyrirtækjum og erlendri
fjárfestingu.

Sendi herinn á lýðræðissinna
Hinsvegar leyfði hinn lágvaxni leiðtogi hvorki tjáningarfrelsi né annað athafnafrelsi sem losað gat um
taumhald flokksins. Félagslegar- og lýðræðisumbætur lét hann sömuleiðis bíða. Varðist hann
öllum vestrænum stjórnmálakennisetningum af krafti og sagði að Kínverjar myndu halda sig við
"sósíalisma með kínverskum formerkjum". Ófeiminn við hvaða afleiðingar það hefði í mannslífum
sendi Deng alþýðuherinn á endanum á umbótasinnaða stúdenta sem fengið höfðu allt að eina
milljón manns til þátttöku í aðgerðum sínum á Torgi hins himneska friðar í maí og júní 1989. Þeim
lauk með blóðbaði undir stálbeltum skriðdrekasveita.

Deng Xiaoping varð þrisvar sinnum fyrir barðinu á pólitískum hreinsunum og féll í ónáð. Hann varð
undir í deilum innan flokksins árið 1933 en tók þátt í göngunni miklu 1934-35 og komst til æðstu
valda á ný. Honum var steypt af stóli 1966 í upphafi menningarbyltingarinnar og knúinn til
sjálfsgagnrýni. Neyddist hann til að starfa í mötuneyti háskóla og einnig sem svínahirðir. Hann var
sendur í útlegð til Jiangxi- héraðs og fékk starf í dráttarvélaverksmiðju. Sonur hans Deng Pufang fór
ekki varhluta af ofsóknunum. Rauðir varðliðar þvinguðu hann til að kasta sér út um glugga í Peking-
háskóla með þeim afleiðingum að hann varð krypplingur fyrir lífstíð. Deng var endurreistur öðru sinni
1973 og töldu þá margir að hann yrði arftaki Zhou Enlais. Það var skammgóður vermir því
fjórmenningaklíkan, sem tók við völdum við andlát Maós 1976 undir forystu Jiang Quing, ekkju
hans, úthýsti honum á ný. Var hann endurreistur þriðja sinni árið eftir er fjórmenningaklíkan féll og
tók síðan völdin af Hua Guofeng, útvöldum eftirmanni Maós 1978, og varð það upphaf Deng-
tímabilsins.

Deng fæddist í héraðinu Sichuan í suðvesturhluta Kína 22. ágúst 1904, sonur stórbónda og
hjákonu hans. Sjálfur kvæntist Deng þrisvar, fyrsta konan dó og önnur skildi við hann. Með þeirri
þriðju eignaðist hann tvo syni og þrjár dætur.
Reuter

Sjaldgæf næturlending

GEIMFERJAN Discovery lenti undir stjörnubjörtum himni í Flórída klukkan 3.32 að staðartíma í
fyrrinótt og er það aðeins níunda ferð bandarískrar geimferju af 82, sem lýkur eftir sólsetur. Gert er
ráð fyrir að næturlendingar verði algengari í framtíðinni og í því skyni hafa öflug leiðarljós verið sett
upp í nágrenni Kennedy-geimstöðvarinnar á Canaveral-höfða. Discovery var 10 daga í geimnum að
þessu sinni til endurbóta á Hubble-sjónaukanum. Næsta ferð hennar verður í sumar og verður fyrsti
íslenski geimfarinn, Bjarni Tryggvason, með í þeim leiðangri.
Þjóðverjar og Frakkar

Staðráðnir í að uppfylla skilyrði EMU

Brussel. Morgunblaðið.

FJÁRMÁLARÁÐHERRAR Frakklands og Þýskalands kynntu á mánudag fjármálaráðherrum
annarra aðildarríkja ESB og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar hvernig þeir hygðust uppfylla
skilyrði Maastricht-sáttmálans fyrir þátttöku í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU), sem
stefnt er að að verði að veruleika þann 1. janúar 1999.

Miklar efasemdir hafa verið uppi innan Evrópusambandsins um það hvort ríkjunum tveimur muni
takast að uppfylla þessi skilyrði í tæka tíð, en myntbandalagið er sem kunnugt er talið standa og
falla með þátttöku þessara tveggja stærstu aðildarríkja ESB.

Á fundinum fullvissuðu ráðherrarnir starfsbræður sína og fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar um að
ríkisstjórnir landanna tveggja væru staðráðnar að uppfylla þessi skilyrði fyrir 1. janúar 1999 og
sögðust reiðubúnir að grípa til enn harðari aðhaldsaðgerða ef núverandi áætlanir skiluðu ekki
tilætluðum árangri.

Aðhaldsaðgerðir beggja landanna felast í verulegum niðurskurði á ríkisútgjöldum, sér í lagi á sviði
almannatrygginga, auk þess sem þeim er ætlað að reyna að örva hagvöxt og atvinnusköpun. Í
þeim tilgangi hyggjast Þjóðverjar einnig lækka skatta á sama tíma.

Gerrit Zalm, fjármálaráðherra Hollands, sem nú er í forsæti Evrópusambandsins, sagði að fundinum
loknum að áætlanir beggja ríkjanna væru raunhæfar og þær hefðu styrkt hann í þeirri staðföstu trú
sinni að EMU yrði að veruleika á tilsettum tíma.

Waigel ljær máls á frestun
Theo Waigel, fjármálaráðherra Þýskalands, lét hins vegar hafa eftir sér í Brussel í fyrradag að það
kynni að vera betra fyrir Evrópusambandið að fresta gildistöku myntbandalagsins, fremur en að slá
eitthvað af inntökuskilyrðunum. Sagði hann það mikilvægara fyrir traust myntbandalagsins að
inntökuskilyrðunum yrði fylgt út í ystu æsar, heldur en að myntbandalagið yrði að veruleika á
tilsettum tíma.

Aðspurður um þessa yfirlýsingu sagði fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar að slíkt væri hins vegar
aðeins hægt með því að breyta Maastricht-sáttmálanum og enginn hefði enn léð máls á því.
Áfram á móti samruna ESB og VES

París. Reuter.

RÍKISSTJÓRN Verkamannaflokksins er jafnhörð í andstöðu sinni við tillögur um sameiningu
Evrópusambandsins og Vestur- Evrópusambandsins (VES) og fyrrverandi ríkisstjórn
Íhaldsflokksins. Þetta kom fram á ráðherrafundi VES í París í gær, en þar sagði Robin Cook,
utanríkisráðherra Bretlands, að Atlantshafsbandalagið (NATO) ætti áfram að verða hornsteinn varna
Vesturlanda.

"Við sjáum ekki fyrir okkur að Evrópusambandið verði varnarbandalag. Slík þróun myndi grafa
undan NATO," sagði Cook við blaðamenn.

Cook og George Robertson, varnarmálaráðherra Bretlands, sögðu hins vegar að ESB og VES
gætu átt náið samstarf. "Við viljum samstarf, en ekki yfirtöku," sagði Cook og bætti við að nota
mætti VES til að sinna mannúðar- og friðargæzlustörfum..

Robertson sagði að VES hefði hlutverki að gegna sem tengiliður á milli ESB og NATO og samtökin
væru vettvangur til að nýta takmarkaðar bjargir Vesturlanda í þágu öryggis án þess að það fæli í
sér tvíverknað.

Hermálanefnd sett á fót
Ráðherrar aðildarríkja VES fjölluðu á fundinum um áform um að VES geti fengið hergögn og
herstjórnarkerfi NATO lánað til afmarkaðra verkefna. Aukaaðildarríkjum VES, Íslandi, Noregi og
Tyrklandi, verður tryggður réttur til þátttöku í undirbúningi slíkra aðgerða.

José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, sagði á fundinum að hann harmaði að hernaðaraðgerðir í
Albaníu hefðu ekki farið fram undir merkjum samtakanna, heldur hefðu þau Evrópuríki, sem
hagsmuna ættu að gæta, tekið sig saman um að setja saman friðargæzlulið.

Ráðherrafundurinn samþykkti að setja á fót hermálanefnd VES, með svipuðu sniði og hermálanefnd
Atlantshafsbandalagsins.
Ummæli Jeltsíns um ESB-aðild

Varkár viðbrögð í ESB

Brussel. Reuter.

VIÐBRÖGÐ ráðamanna í Evrópusambandinu við yfirlýsingu Borísar Jeltsín, Rússlandsforseta, um
að Rússar stefni að aðild að sambandinu, einkennast af varkárni. Greinilegt er að ríki ESB vilja ekki
móðga Rússa, en þau vilja heldur ekki vekja með þeim falskar vonir um skjóta aðild.

"Nú þegar er langur listi af ríkjum, sem vill ganga í sambandið," sagði Malcolm Rifkind,
utanríkisráðherra Bretlands, í Brussel í gær. "Kannski lengist sá listi. Hver veit?"

Jeltsín lýsti því yfir eftir fund með Martti Ahtisaari, forseta Finnlands, að Rússland stefndi að því að
verða viðurkennt sem fullgilt Evrópuríki og væri reiðubúið að ganga í ESB. Þetta er í fyrsta sinn sem
yfirlýsing þessa efnis kemur frá rússneskum stjórnvöldum og hafa Rússar ekki lagt fram formlega
aðildarumsókn.

Samstarfssamningur enn ekki staðfestur
Embættismenn ESB forðast að gefa opinberar yfirlýsingar um að Rússland sé ekki undir aðild
búið. Þeir tala um nauðsyn þess að efla tengsl ESB og Rússlands, en benda hins vegar á að
ákveðnum samstarfsverkefnum sé ólokið.

"Þetta er ekki nákvæmlega rétti tíminn til að tala um aðild," sagði Hans van den Broek, sem fer
með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, í samtali við Reuters-fréttastofuna. Hann bætti hins
vegar við að hann vildi ekki loka dyrunum á neitt ríki.

Van den Broek tók fram að samstarfssamningur ESB og Rússlands, sem var undirritaður árið
1994, hefði enn ekki hlotið staðfestingu rússneska þingsins eða sumra þjóðþinga aðildarríkja ESB.
Í samningnum er kveðið á um samningaviðræður um viðskiptamál í framtíðinni og til langs tíma er
stefnt að fríverzlunarsvæði. Klaus Kinkel, utanríkisráðherra Þýzkalands, sagði á sunnudag að
fullgilding samstarfssamningsins væri forsenda hvers konar viðræðna um nánari tengsl.

Í einkasamtölum útiloka embættismenn ESB aðild Rússlands að sambandinu í náinni framtíð. Á
meðal ástæðna, sem eru nefndar, er að Rússland teygir sig langt inn í Asíu, efnahagsgerðin sé
mörgum áratugum á eftir því, sem gerist í ESB og loks sé landið einfaldlega of stórt.
Framkvæmdastjórn ESB leggur fram fjárlagatillögur fyrir 1998

Aukið aðhald í anda EMU

Brussel.Morgunblaðið

FRAMKVÆMDASTJÓRN Evrópusambandsins (ESB) lagði í gær fram drög að fjárlögum fyrir næsta
ár. Þau fela í sér að heildarútgjöld framkvæmdastjórnarinnar verði rúmlega 91 milljarður ECU, eða
sem samsvarar tæplega 7.400 milljörðum íslenskra króna. Þetta samsvarar um 2,4% aukningu
miðað við yfirstandandi ár en er engu að síður talsvert undir því þaki sem sett var á útgjöld
framkvæmdastjórnarinnar á leiðtogafundinum í Edinborg árið 1992.

Áætlað er að heildarútgjöldin nú verði um 5,8 milljörðum ECU eða röskum 470 milljörðum íslenskra
króna undir þessu þaki. Hyggst framkvæmdastjórnin með þessum hætti leggja sitt af mörkum til
aðhalds aðildarríkjanna að ríkisútgjöldum vegna tilkomu Efnahags- og myntbandalags Evrópu
(EMU).

Erkki Liikanen, sem sem fer með fjármál framkvæmdastjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi í
Brussel í gær að samhliða þessum aðhaldsaðgerðum hyggðist framkvæmdastjórnin grípa til
endurskipulagningar í skrifstofuhaldi sínu til að gera það hagkvæmara. Hygðist hún m.a. færa
fjárráð út í einstakar deildir og verðleggja alla þjónustu innanhúss til að auka kostnaðarvitund
starfsmanna.

Útjöld til landbúnaðarmála nær helmingur heildarútgjalda

Sem fyrr er landbúnaðarstefna ESB fyrirferðarmest í tillögum framkvæmdastjórnarinnar.
Heildarútgöld til þessa málaflokks eru áætluð rösklega 3.300 milljarðar króna, eða sem samsvarar
um 45% af heildarútgjöldum framkvæmdastjórnarinnar. Útgjöld til þessa málaflokks munu þó
aukast hlutfallslega minna en til annara málaflokka, eða um 0,5%. Raunar dragast útgjöld til
markaðsaðgerða lítillega saman en önnur útgjöld aukast á móti.

Útgjöld til styrkjakerfis ESB aukast um 6,3% samkvæmt tillögunum og munu þau nema röskum
2.700 milljörðum króna. Útgjöld Fiskveiðasjóðs ESB verða hins vegar skorin niður um rúm 5%.

Þess má geta að stjórnunarkostnaður framkvæmdastjórnarinnar mun standa í stað og nema 4,7%
af heildarútgjöldum. Þetta er jafnframt eini hlu
meðferð Evrópuþingsins og ráðherraráðsins, en þessir tveir aðilar eiga lokaorðið um fjárlög
framkvæmdastjórnarinnar.
Sex ríki vilja sameiningu ESB og VES í áföngum

Bretar hóta að beita neitunarvaldi

SEX RÍKI Evrópusambandsins munu í dag leggja fram tillögu á fundi utanríkisráðherra sambandsins
í Róm, um að Vestur- Evrópusambandið verði sameinað ESB í áföngum. Tillagan, sem var boðuð
fyrir hálfum mánuði á fundi samningamanna á ríkjaráðstefnu ESB, nýtur stuðnings Frakklands,
Þýzkalands, Spánar, Ítalíu, Belgíu og Lúxemborgar. Bretar eru hins vegar mjög andsnúnir henni og
hóta að beita neitunarvaldi til að fella hana.

Lamberto Dini, utanríkisráðherra Ítalíu, og Herve de Charette, utanríkisráðherra Frakklands, skrifuðu
í gær grein í franska blaðið Le Monde og segja þar meðal annars að tilgangur tillögunnar sé að
sameiginlegar varnir ESB verði ekki lengur aðeins fræðilegt hugtak, heldur raunverulegur möguleiki.

Varnarskuldbindingar í stofnsáttmála ESB
Ráðherrarnir segja að með því að sameina VES og ESB verði fimmta grein Brussel-sáttmálans,
stofnsáttmála VES, felld inn í stofnsáttmála Evrópusambandsins. Greinin kveður á um
gagnkvæmar varnarskuldbindingar aðildarríkjanna.

Bretar segja að tillagan taki ekki mið af því að það séu alls ekki sömu ríkin, sem eiga aðild að VES
og ESB. Fimm af ríkjum ESB, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Írland, eiga aðeins
áheyrnaraðild að VES. Fjögur síðarnefndu ríkin framfylgja enn þeirri stefnu að standa utan
hernaðarbandalaga. Þá eru þrjú evrópsk NATO-ríki og aukaaðildarríki VES, sem ekki eiga aðild að
ESB.

Bretar eru jafnframt þeirrar skoðunar að Evrópusambandið sé ekki rétti vettvangurinn til að móta
sameiginlega varnarstefnu; Atlantshafsbandalagið (NATO) eigi áfram að gegna því hlutverki.

Auk Bretlands hafa þau fjögur ríki ESB, sem standa utan hernaðarbandalaga, miklar efasemdir um
tillöguna.

Þrír áfangar
Að sögn Financial Times er í fransk-þýzku tillögunni kveðið á um að á ríkjaráðstefnunni verði bókun
bætt við stofnsáttmála ESB, sem skuldbindi sambandið til þess að sameinast VES að fullu í
þremur áföngum.

Í fyrsta áfanga er lagt til að ESB geti nýtt VES til að sinna verkefnum á sviði friðargæzlu og
mannúðaraðgerða. Þetta er í raun í samræmi við áherzlur ríkjanna, sem standa utan
hernaðarbandalaga. Svipaða tillögu er að finna í samningsuppkastinu, sem Írland lagði fram í lok
síðasta árs.

Í öðrum áfanga er lagt til að ráðherraráð ESB geti sett fram markmið og skilgreint stefnu fyrir VES.

Þriðji áfanginn felst í því að VES renni inn í ESB.

Efasemdir í höfuðstöðvum VES
Háttsettur embættismaður VES segir í samtali við Morgunblaðið að takmörkuð hrifning ríki í
höfuðstöðvum samtakanna með þessar tillögur. Full sameining VES og ESB geti torveldað
samstarf VES og Atlantshafsbandalagsins, NATO. "Við höfum litið svo á að þessi möguleiki væri
út úr myndinni," segir embættismaðurinn.

Að undanförnu hefur mikil vinna verið lögð í að þróa VES sem "Evrópustoð" NATO og skilgreina
hvernig NATO geti lánað ríkjum VES hergögn, fjarskipta-og stjórnkerfi þannig að þau geti ráðizt í
t.d. friðargæzluaðgerðir án þátttöku Bandaríkjamanna.

Ísland, Noregur og Tyrkland eiga aðild að NATO en ekki að ESB. Þau eru hinsvegar aukaaðilar að
Vestur-Evrópusambandinu. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hefur sagt að sameinist VES
Evrópusambandinu sé ólíklegt að Ísland vilji halda aukaaðild sinni til streitu.
Varað við "öfgafullri tortryggni" í garð ESB

Frammámenn í bresku atvinnulífi láta í ljós áhyggjur af umræðunni

London. Reuter.

BRESKA dagblaðið The Financial Times birti í fyrradag bréf frá hópi frammámanna í bresku
atvinnulífi þar sem þeir láta í ljós áhyggjur af því að síaukinnar andúðar á Evrópusambandinu (ESB)
hafi gætt í stjórnmálaumræðunni fyrir þingkosningarnar sem búist er við að fari fram 1. maí.

Í bréfinu segjast 23 frammámenn í atvinnulífinu bera kvíðboga fyrir "útbreiðslu öfgafullrar tortryggni í
garð Evrópusambandsins" og vara við því að það myndi skaða efnahag Bretlands ef landið
fjarlægðist ESB frekar.

Einn þeirra sem undirrituðu bréfið, Sir Colin Marshall, forseti Samtaka breskra iðnrekenda (CBI) og
formaður British Airways, kvað hópinn hafa áhyggjur af því að umræðan um Evrópusambandið væri
farin að snúast um hvort Bretland ætti að vera aðili að sambandinu áfram.

"Bretland yrði fátækara"
Í bréfinu segir að tæp 60% viðskipta Breta séu við lönd í Evrópusambandinu og rúmlega 2.000
fyrirtæki á meginlandi Evrópu hafi fjárfest í Bretlandi. Þessir hagsmunir verði í hættu ef andúðin á
Evrópusambandinu haldi áfram að aukast og Bretar kjósi "einangrunarleiðina". "Bretland yrði
fátækara, með minni fjárfestingar og meira atvinnuleysi," segir í bréfinu.

Bréfritararnir segja að breska stjórnin þurfi að eyða allri óvissu um hvort Bretland verði áfram í
Evrópusambandinu. Geri hún það ekki verði stöðu Bretlands í ríkjaráðstefnu ESB "stefnt í alvarlega
hættu".

Niall Fitzgerald, formaður ensk- hollenska fyrirtækisins Unilever, er á meðal þeirra sem skrifuðu
undir bréfið. Hann varaði við því í liðnum mánuði að fjárfestingar fyrirtækis hans í Bretlandi yrðu
endurskoðaðar ef landið gengi ekki í Efnahags- og myntbandalag Evrópu, EMU. Áður hafði komið
fram hjá japanska bílafyrirtækinu Toyota svo kynni að fara að fjárfestingar í landinu yrðu
endurmetnar ef Bretar yrðu utan EMU.
Ærin Dolly gæti breytt framtíð mannsins

Einræktun stórra dýra veldur misjöfnum viðbrögðum

London. Reuter.

MÖGULEIKINN á að einrækta fólk út frá einni blóð- eða vöðvafrumu virðist nær sanni því breskir
vísindamenn hafa skýrt frá því að þeim hafi tekist að einrækta kind. Hingað til hefur ræktun af
þessu tagi verið bundin við örverur og smádýr en ekki fullvaxnar skepnur. Fréttinni hefur verið
misjafnlega tekið í Bretlandi.

Skýrt er frá hinni einræktuðu á í nýjasta hefti tímaritsins Nature. Hún var borin fyrir sjö mánuðum í
Roslin-stofnuninni skammt frá Edinborg í Skotlandi og fékk nafnið Dolly. Vísindamenn undir forystu
Ians Wilmuts náðu þessum árangri.

Vísindamenn sögðu að um væri að ræða merk þáttaskil sem gera ætti vísundunum kleift að
framleiða flokka nákvæmlega eins dýra til hvers kyns nota fyrir mannkynið.

Ekki eru þó allir á því að kraftaverk hafi verið unnið, heldur sé nú miklu fremur hætta á að óvandaðir
aðilar framleiði hvers kyns skrímsli vegna hinnar nýju þekkingar.

"Ég hefði fremur kosið að þetta hefði aldrei átt sér stað," sagði Richard Nicholson, ritstjóri
tímaritsins Siðferði læknisfræðinnar, í gær. "Vandinn er sá, að þegar hin nýja vísindatækni hefur
verið birt, er hún aðgengileg hvaða vísindamanni sem er og hversu gætilega hann fer með þá
þekkingu," sagði hann í samtali við BBC-útvarpið. "Við erum líklega tiltölulega lausir við
Frankenstein-eðlið í þessu landi en það á örugglega ekki við um öll lönd," bætti hann við.

Vísindamaðurinn Patrick Dixon, sem ritað hefur um erfðafræði, segir í samtali við Times í gær, að
nýlega hafi hringt í hann kona sem vildi einrækta frumur úr látnum föður sínum. "Hún vill endurlífga
hann með þessum hætti, jafnvel ganga sjálf með hann," bætti hann við. "Eftir að hafa heyrt um
árangur Wilmuts og félaga sendi ég henni í dag orðsendingu og sagði að draumur hennar gæti
ræst fyrr en hún teldi," sagði Dixon.

Dixon segir að fólk með alvarlega sjúkdóma gæti látið einrækta varahluti í sjálft sig, einræðisherrar
gætu látið einrækta alveg eins einstaklinga og endurreisa mætti látnar kvikmyndastjörnur með
einræktun.

Aðrir vísindamenn létu í ljós efasemdir um gagnsemi einræktunar og sögðu mörg afkvæma slíkra
tilrauna í Roslin-stofnuninni hafa drepist vegna líffræðilegra galla. "Áhættan á afbrigðilegheitum er
mikil," sagði Lewis Wolpert við University College í London í samtali við Guardian. Einræktun
fullorðinna einstaklinga endurgerir allar stökkbreytingar eða arfgengar breytingar á genum, smáar
sem stórar, sem átt hafa sér stað á ævi viðkomandi af völdum daglegrar geislunar, eiturefna í
umhverfinu eða smámistaka sem eiga sér stað þegar fruma skiptir sér.

Ian Wilmut varði bæði vísindin og siðferði það sem fælist í einræktun fullorðinna dýra. Hann sagði
nauðsynlegt að menn áttuðu sig á hugsanlegri misnotkun þekkingarinnar og lög yrðu sett til þess
að útiloka slíka misnotkun. Við stofnun hans eru á lokastigi rannsóknir á kind sem framleiðir mjólk
er inniheldur mannlega kjarnsýru er hjálpað getur við að lækna slímseigjusjúkdóm (cystic fibrosis),
arfgengan sjúkdóm sem lýsir sér einkum í alvarlegri truflun á starfsemi lungna og meltingarfæra.
Sífellt fleiri ólöglegir innflytjendur handteknir í Andalúsíu

Eiturlyfjamafíur smygla flóttafólki til Spánar

Glæpamannahópar í Marokkó hafa fært út kvíarnar og taka nú að sér að smygla fólki frá Afríku
til Spánar. Ásgeir Sverrisson, fréttaritari Morgunblaðsins á Spáni, segir frá þessari starfsemi sem
er ábatasamari en fíkniefnasmyglið.


ÓLÖGLEGUM innflytjendum frá Afríku hefur fjölgað mjög á Spáni á síðustu tveimur árum. Á þessu
tímabili hefur fjöldi þeirra sem handteknir hafa verið í Andalúsíu á Suður-Spáni næstum því
tvöfaldast. Skýringin er sú að glæpamannahópar í Marokkó sem fram til þessa hafa smyglað
fíkniefnum og tóbaki til Spánar hafa nú fært út kvíarnar og tekið til við að flytja flóttafólk frá
Afríkuríkjum með ólöglegum hætti til landsins. Er þetta vaxandi og ábatasöm atvinnugrein.

Árið 1994 handtóku lögregluyfirvöld í Andalúsíu alls 4.189 ólöglega innflytjendur frá Afríkuríkjum. Í
fyrra voru hins vegar 7.740 Afríkumenn handteknir í þessu syðsta héraði Spánar, sem er 85%
aukning. Embættismenn í spænska innanríkisráðuneytinu segja nú að skýringin á þessari miklu
aukningu sé fundin.

Þaulskipulögð starfsemi
Gífurlegu magni af fíkniefnum, einkum hassi, og tóbaki hefur löngum verið smyglað frá Marokkó yfir
Gíbraltarsund til Spánar. Þar eru að verki þaulskipulagðir hópar atvinnuglæpamanna, sem oftar en
ekki vinna með starfsbræðrum sínum í öðrum ríkjum Evrópu. Nú liggur fyrir að þessir hópar eru
teknir að nýta sér sambönd sín og reynslu til að smygla Afríkubúum til Spánar sem þangað leita í
von um betra líf, atvinnu og öryggi.

Í flestum tilfellum er fólkið flutt með bátum frá Ceuta, Melilla eða Tanger í Marakkó að ströndum
Andalúsíu. Þar lýkur afskiptum glæpamannanna frá Marokkó og við innflytjendunum taka evrópskir
starfsbræður þeirra sem sjá um að dreifa fólkinu um allan Íberíuskaga. Fiskimenn, bílstjórar og
spænskir athafnamenn tengjast því einnig þessu glæpsamlega athæfi.

Dýrt og hættulegt
Fyrir ferðina yfir sundið þurfa Afríkubúarnir að greiða 50­75.000 krónur. Þar með er kostnaðurinn
ekki upp talinn því áður hafa þeir þurft að greiða fyrir fölsuð skjöl, leyfi til að fara yfir landamæri
Marokkó og aðra aðstoð svo eitthvað sé talið. Vel fölsuð persónuskilríki munu kosta um 80.000
krónur og segja talsmenn lögreglu að sífellt færist í vöxt að innflytjendur hafi þau undir höndum. Oft
hefur þetta fólk einnig keypt fölsuð dvalar- og atvinnuleyfi.

Mikill fjöldi milliliða einkennir þessa starfsemi. Ákveðnir menn hafa það hlutverk með höndum að
komast í samband við þá sem gerast vilja ólöglegir innflytjendur. Þeir koma fólkinu í hendurnar á
mönnum sem annast flutningana og skipuleggja aðgerðina. Síðan tekur við einhver sem á lítinn bát
og sér um að ferja fólkið yfir sundið. Jafnan er farið í skjóli nætur og oft eru fleyin ekki merkileg,
smákænur með utanborðsmótor. Sú regla gildir að því öruggari sem ferðamátinn er því dýrari er
þjónustan.

Vitað er að aðrar aðferðir eru notaðar til að smygla fólki til Spánar. Dæmi eru um að gámar fullir af
fólki hafi verið stöðvaðir og nýverið fórust 11 flóttamenn frá Norður-Afríku í bílslysi nærri Figueres.
Þá er fólk einnig flutt í gámum um borð í spænskum eða erlendum skipum til Spánar.

Það er vitanlega ágóðavonin sem fengið hefur eitursmyglarana til að færa út kvíarnar með þessum
hætti. Að auki er hættan minni en þegar um er að ræða smygl á fíkniefnum. Þá eru dæmi þess að
fíkniefnasmyglararnir nýti sér tækifærið og neyði innflytjendurna ólöglegu til að bera með sér
eiturlyf til Spánar.

Langt og erfitt ferðalag
Það er einkum fólk frá löndum sunnan Sahara sem leitar aðstoðar glæpmanna í Marokkó í því
skyni að gerast ólöglegir innflytjendur og oftar en ekki er ferðalagið bæði langt og strangt. Tvær
leiðir eru einkum notaðar til að komast til Marokkó, annars vegar um Kamerún og hins vegar
Senegal.

Þeir sem fara um Kamerún eru einkum frá Zaire, Rúanda, Kongó, Nígeríu, Ghana, og
Fílabeinsströndinni. Í Kamerún virðist fólkið auðveldlega komast yfir vegabréf frá því sama landi.
Þaðan er haldið yfir Chad og til Líbýu þar sem fólkið kemst fyrst í samband við mafíurnar frá
Marokkó. Glæpamennirnir sjá um að flytja Afríkumennina til Alsír. Á landamærum Alsír og Líbýu er
að finna að minnsta kosti tvær umtalsverðar tjaldbúðir þar sem fólkið heldur til áður en það er flutt
til Ceuta eða Melilla. Greiða þarf mafíunni um 12.000 krónur fyrir skjöl sem veita innflytjendunum
leyfi til að fara um Marokkó auk þess sem fólkið þarf að láta af hendi vegabréf sín sem
glæpamennirnir selja síðan öðrum flóttamönnum.

Slakt eftirlit
Stjórnvöld á Spáni og í Marokkó hafa tekið upp samstarf til að berjast gegn starfsemi þessari.
Þetta samstarf hefur á hinn bóginn ekki gengið sem skyldi og spænskir sérfræðingar segja að
eftirlit sé mjög slakt í Marokkó auk þess sem löggæslumenn þar þiggi mútur. Hins vegar segjast
spænskir embættismenn merkja viðhorfsbreytingu í þessum efnum í Marokkó á síðustu mánuðum
og þakka það fundi embættismanna frá löndunum tveimur í október í fyrra.

En það eru ekki einvörðungu glæpamenn í Marokkó sem hagnast á þessum viðskiptum. Spánverjar
sem starfa sjálfstætt í tilteknum atvinnugreinum hagnast einnig á því að fá mjög ódýrt vinnuafl með
þessum hætti. Þannig hefur það vakið athygli lögregluyfirvalda á Spáni að sífellt fjölgar mjög ungum
ólöglegum innflytjendum.

Spænskir leigubílstjórar hagnast einnig á þessari starfsemi sem og eigendur báta í nágrenni
Gíbraltar. Dæmi eru um að leigubílstjórar og eigendur báta hafi sloppið við varðhald eða sektir þar
sem þeim hafi verið ókunnugt um að farþegarnir væru ólöglegir innflytjendur.

Þeirra sem handteknir eru bíður aðeins að vera sendir úr landi. Oft lýkur því þessari viðleitni
Afríkumannanna til að lifa betra og öruggara lífi fjarri fósturjörðinni með miklum harmleik. En neyðin
og skelfingin, stríð og óáran í löndunum sunnan Sahara, mun áfram reynast glæpamönnum í
Marokkó drjúg tekjulind.
Fegurðin og evróið

Brussel. Reuter.

MEÐ ÞVÍ að flytja ræðu um ágæti hinnar sameiginlegu Evrópumyntar, evrósins, vann hin nítján ára
gamla Sandrine Durant sér um helgina inn titilinn "Ungfrú Brabant Wallon". Frá þessu sagði
belgíska dagblaðið Vers L'Avenir í gær. Með sigrinum ávann Sandrine sér réttinn til að taka þátt í
keppninni "Ungfrú Belgía 1997".

Kaldrifjuð skipaútgerð Scandinavian Star

Brask og von um skattafrádrátt réðu því að ferjan Scandinavian Star var notuð til siglinga milli
Noregs og Danmerkur 1990. Þegar brennuvargur kveikti í skipinu máttu 158 manns gjalda fyrir með
lífi sínu, eins og Sigrún Davíðsdóttir rekur hér á eftir.


ÁBLAÐAMANNAFUNDINUM, sem haldinn var strax eftir brunann í Scandinavian Star 7. apríl 1990
sagði Ole B. Hansen, framkvæmdastjóri ferjuútgerðarinnar, að eigendur ferjunnar væru bandaríska
fyrirtækið SeaEscape og að útgerðin ætti ekki að taka við skipinu fyrr en eftir nokkra daga.
Andrúmsloftið á fundinum varð ekki betra þegar það rann upp fyrir viðstöddum að Ole B. Hansen
hafði áður verið dæmdur fyrir að trassa öryggismál í skiparekstri. Sá sem var á leiðinni að verða
eigandi Scandinavian Star var Henrik Johansen, sem rekið hafði önnur ferjufyrirtæki. En þessar
upplýsingar um eiganda skipsins gleymdust og dönsku rekstraraðilarnir gerðu síðan ekkert til að
benda á þær. Heldur ekki þegar málið kom fyrir dóm og Ole B. Hansen og Johansen voru dæmdir í
sex mánaða fangelsi, auk þess sem Johansen missti leyfi upp á lífstíð til að stunda skipaútgerð.
Spurningin, sem tveir blaðamenn við Jyllands- Posten og Bergens Tidende, þeir Erik Eisenberg og
Tron Strand, spurðu í upphafi var af hverju aldrei var grennslast fyrir um eignarhald skipsins og
hvaða afleiðingar það hefði haft. Þeir hafa síðan skrifað greinaflokk um málið.

Leitin að skattafrádrætti
Það var að því er virðist ósk um að sleppa við skatt af 250 milljónum króna, sem leiddi Henrik
Johansen á fund bandríska skipafyrirtækisins SeaEscape. Johansen hafði rekið ferjufyrirtækið
Vognmandsruten í Danmörku og þegar hann seldi fyrirtækið 1989 var hagnaður hans 250 milljónir
danskra króna eða um 2,75 milljarðar íslenskra króna. Til að sleppa við skatt ákvað hann að
fjárfesta peningana í nýjum ferjurekstri.

Eftir að hafa skoðað skip hingað og þangað um heiminn ákveður hann að kaupa skipið
Scandinavian Star af SeaEscape og hefja ferjurekstur milli Noregs og Danmerkur og leggja sem
mest upp úr skemmtun um borð með skemmtisiglingastæl. SeaEscape hafði tengsl við
Norðurlöndin, því á síðasta áratug reyndu norræn skipafélög fyrir sér með útgerð
skemmtiferðaskipa í Kyrrahafinu og þar komu við sögu bæði hið danska DFDS í eigu Lauritzen-
samsteypunnar og stærsta ferjuútgerð í heimi, hin sænska Stena og þá var SeaEscape stofnað.
Ætlunin mistókst, en bæði norrænu félögin áttu áfram hlut í bandaríska fyrirtækinu.

Samningur SeaEscape og Johansen var þannig að allir fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Johansen sá
fram á skattafrádrátt og fyrir SeaEscape lá ágóðinn í hagstæðum kaupleigusamningi. Scandinavian
Star hafði verið í kaupleigu hjá Stena og átti nú að fara til Johansens. SeaEscape sá fram á
þægileg viðskipti, þar sem þeir keyptu skipið ódýrt og seldu Johansen dýrt nokkrum mínútum
síðar. Vandinn var bara sá að Johansen átti frá byrjun erfitt með að greiða sinn hlut, 21,7 milljónir
Bandaríkjadala.

Það hindraði þó ekki að Johansen gerði allt klárt til að stunda ferjureksturinn og ná frádrættinum.
Hann keypti skipið tómt, leigði það svo grískum útgerðarmanni, sem mannaði skipið portúgalskri
áhöfn og leigði það svo ferjuútgerð Johansens. Þessi viðskipti tryggðu bæði skattafrádráttinn og
ódýrt, en ekki að sama skapi þjálfað og öruggt vinnuafl.

En til að fá skattafrádráttinn þurfti salan að vera gengin í gegn 1. apríl 1990, en það gekk ekki eftir,
svo SeaEscape fór fram á að vera skráður eigandi þar til þeir hefðu peningana í höndunum. Daninn
Niels Erik Lund, sem á sínum tíma fór frá DFDS til að starfa í Kyrrahafsrekstrinum, var enn tengdur
SeaEscape og stundaði eigin útgerð. Hann var þarna um mánaðamótin skráður í Bahama sem
managing owner" fyrir Scandinavian Star, því skipið er skráð í Bahama eins og fleiri skipafyrirtæki,
sem kjósa hentifána. Þegar brennuvargur kveikti í skipinu 7. apríl voru peningarnir enn ekki komnir
og Lund skráður sem rekstraraðili skipsins. Því var það að Ole B. Hansen framkvæmdastjóri Da-
No-útgerðarinnar gat sagt strax eftir brunann að eigendurnir væru SeaEscape.

Voru hinir réttu dæmdir?
En bruninn sýndi einnig fram á öryggisbresti. Fyrst kom nefnilega upp bruni um kvöldið, en áhöfnin
réð niðurlögum hans. Þótt ljóst væri að brennuvargur væri um borð gerði Hugo Larsen skipstjóri
engar frekari ráðstafanir og þegar vargurinn kveikti aftur í síðar um nóttina var enginn viðbúnaður,
áhöfnin réð ekki neitt við neitt og 158 manns létu lífið.

Danska lögreglan hófst handa við að grafast fyrir um orsakir, en nú benti Johansen og Ole B.
Hansen ekki lengur á SeaEscape og Niels Erik Lund og lögreglan gerði ekkert til að fylgja því
spori. Álit lögfræðinga er að þótt erfitt sé að sækja mál í Bandaríkjunum þá hefði bara hótunin um
að málið yrði sótt þar líklega verið gott vopn í baráttunni við að fá sómasamlegar skaðabætur til
þeirra, sem komust af, og ættingja hinna látnu.

Að mati blaðamannanna tveggja hafði lögreglan engin tök á að greiða úr þeirri flækju margþjóða
skipasölu og -leigu og sjóréttar, sem Scandinavian Star bar með sér, né hafði hún neitt í þann her
sérfróðra lögfræðinga, sem rekstraraðildar og tryggingafélög höfðu í bakhöndinni. Lögreglan gafst
einfaldlega upp og valdi auðveldu leiðina með að sækja bara til saka þá Johansen og Hansen og
skipstjórann, sem auk þess fékk mildan dóm svo hann gæti aðstoðað við að koma lögum yfir hina
tvo. Sú aðferð þekkist annars ekki í dönsku réttarkerfi, þótt hún tíðkist í mafíuréttarhöldum í
Bandaríkjunum.

Í dómi í Sjó- og verslunarréttinum 1992 var skipstjórinn dæmdur í sextíu daga fangelsi og Hansen
og Johansen í fjörutíu daga fangelsi. Sekt skipstjórans var meiri samkvæmt þágildandi lögum, því
hann átti að bera ábyrgð á að öryggis væri gætt um borð, en þeir Hansen og Johansen báru ekki
þá ábyrgð. Þegar kom að dómi Hæstaréttar 1993 var litið öðruvísi á málið. ¨Ollum á óvart hlutu
tvímenningarnir sex mánaða fangelsisdóm, auk þess sem Johansen var dæmdur frá rétti til að
stunda skipaútgerð. Hansen kom sér til Spánar og afplánaði aldrei dóminn, en það gerði Johansen,
sem enn stundar viðskipti og býr bæði í Danmörku og á Spáni.

Dómurinn kom á óvart, því samkvæmt lögum, sem giltu þegar slysið varð báru þeir Hansen og
Johansen ekki þá ábyrgð, sem þeir voru síðan dæmdir í Hæstarétti fyrir að hafa ekki sinnt.
Lögunum hafði verið breytt eftir slysið og ýmsir lögfræðingar álíta að dómurinn hafi því ekki verið
eðlilegur og beri fremur merki um hefndarhug. En spurningin er hvort ekki hefði átt að dæma fleiri
og af hverju hlut Niels Erik Lunds hafa aldrei verið gerð skil, fyrst hann stóð á pappírnum sem
framkvæmdaaðili skipsins. Lund hefur aldrei verið yfirheyrður og segir sjálfur að nafn hans hafi bara
verið notað.

Ljósfælin tengsl og hentifánar
En spurningin er líka af hverju Johansen gerði engar tilraunir til að draga athygli dómara að
bandarísku tengslunum. Í greinum blaðamannanna tveggja kemur fram Johansen hélt áfram að
stunda viðskipti við SeaEscape. Niels Erik Lund kom áfram við sögu og viðskiptin náðu alls til fimm
skipa, svo Scandinavian Star var ekki einasti tengiliðurinn. Eftir slysið átti Johansen Scandinavian
Star og lét gera það upp. Málað var yfir hluta af nafninu, skipið hét nú Candi og það skip keypti
SeaEscape og seldi áfram sem Regal Voyager. Tryggingarféð gekk til SeaEscape, ekki
Johansens. Viðskipti Johansens með öll skipin fimm eru hluti af stóru skattadæmi, sem gekk út á
að skjóta 250 milljónum undan fyrir fullt og allt. En Johansen ætlaði ekki að bíða þess að salan
gengi í gegn, heldur í raun að fá skattafrádráttinn áður en salan var gengin í gegn og þess vegna lá
svo mikið á að koma skipinu í rekstur 1990 að enginn mátti vera að því að sinna öryggi skipsins og
þjálfa áhöfnina, enda hentifáni notaður. Líklega greiddi Johansen ekki 1990 af því hann hafði
peningana ekki handbæra og gat hann vísast heldur ekki fengið lán.

Þegar bruninn varð 1990 átti Johansen um tvo kosti að velja. Annar var að upplýsa allt um
bandarísku viðskiptin og missa þá væntanlega allan skattafrádráttinn og kannski meira til. Hitt var
að taka skellinn og dóm, sem engum datt í hug að yrði jafnharður og raun varð á í Hæstarétti og
engum datt heldur í hug að leiddi til þess að hann missti rétt til að stunda útgerð.

Fyrir aðstandendur og þá sem komust af er sárt að sjá að málið hefur aldrei verið almennilega
upplýst. Frank Jensen, dómsmálaráðherra Dana, sagði í janúar að málið væri afgreitt, en hefur nú
ljáð máls að hugsanlega þurfi að athuga fleiri atriði. Og í Noregi hafa vaknað vantraustsraddir á
dönsku rannsókn málsins. Skrif Eisenbergs og Strands sýna að sagan um Scandinavian Star er
tæpast á enda.
Grænlendingar og Danir semja vegna Thulemálsins

Grænlendingar fá flugbraut, en enga afsökun

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. Í KJÖLFAR skýrslu dönsku utanríkisstofnunarinnar um Thule-málið
eru Grænlendingar gramir dönsku stjórninni fyrir að hafa veitt Bandaríkjamönnum aðstöðu á
Grænlandi, án samráðs við Grænlendinga. Raddir voru uppi á Grænlandi um að nota málið til að
krefja Dani greiðslna, en eftir fund Lars Emil Johansens formanns grænlensku landsstjórnarinnar
og Poul Nyrup Rasmussens forsætisráðherra Dana fyrir helgi er ljóst að Grænlendingar komast
ekki langt í kröfugerð sinni. Þeir fá reyndar flugvöll í sárabætur eins og þeir höfðu vonast eftir, en
ekki með þeim kjörum, sem þeir höfðu farið fram á og danska afsökunarbeiðni fá þeir ekki.

Tvískinnungur dönsku stjórnarinnar í kjarnorkumálum
Stefna Dana eftir stríð var að kjarnorkuvopn
ættu ekki að vera á dönsku landi eða í flugvélum, sem flygju yfir danskt land. Í varnarsamningi
Dana og Bandaríkjamanna frá 1951 eru kjarnorkuvopn ekki nefnd, en hann má túlka sem samþykki
Dana við slíkum vopnum á Grænlandi. Árið 1957 vildu Bandaríkjamenn fá úr því skorið hvort þeir
mættu hafa kjarnorkuvopn á Grænlandi eða ekki, en þá vísaði H.C. Hansen forsætisráðherra til
samningsins frá 1951 og gerði Bandaríkjamönnum ljóst að stjórnin vildi ekki vera beðin um frekara
samþykki. Þá gat danska stjórnin bæði haldið stefnu sinni og góðu sambandi við Bandaríkjastjórn.
Þessi tvískinnungur var aðeins á mjög fárra vitorði.

Þegar B-52 sprengjuflugvél með kjarnorkuvopn hrapaði 1968 á Grænlandi var enn lögð áhersla á
dönsku stefnuna, en skömmu síðar gerði danska stjórnin samning við Bandaríkjastjórn um bann við
kjarnorkuvopnum á Grænlandi og eftir því sem best er vitað hafa slík vopn ekki verið þar síðan.
Vegna breyttra aðstæðna og tækni skipti ekki lengur máli fyrir Bandaríkjastjórn að hafa þar
kjarnorkuvopn og hún var upptekin af andstöðu almennings við kjarnorkuvopn.

Umsvif Bandaríkjamanna hefta þróun ferðamannaþjónustu
Grænlendingar brugðust reiðir við
skýrslu utanríkisstofnunarinnar, því hún sýndi glögglega að Grænlendingar voru aldrei með í ráðum
og máttu auk þess þola nauðungarflutninga milli byggðarlaga 1953 til að liðka fyrir bandarískum
umsvifum. Í sárabætur fóru þeir bæði fram á greiðslur og opinbera afsökun.

Johansen og Nyrup Rasmussen komust að samkomulagi, sem bindur enda á frekari kröfur
Grænlendinga vegna málsins. Danir skuldbinda sig nú til að leggja flugbraut í Qaanaaq, um 100
kílómetra norðan Thulestöðvarinnar, miðstöð Bandaríkjamanna á Grænlandi. Danir leggja þó ekki
fram aukafjárveitingu til framkvæmdarinnar, heldur verður tekið af fé, sem þegar hafði verið
samþykkt til framkvæmda við flugvöllinn í Dundas, sem er á þessu svæði, en þær framkvæmdir
gufuðu upp vegna andstöðu Bandaríkjamanna við farþegaflug þar. Danir leggja 47 milljónir danskra
króna til brautarinnar, en Grænlendingar verða sjálfir að greiða 30 milljónir. Rekstur brautarinnar er
ódýrari en í Dundas, svo þar sparar landsstjórnin. Andstaða Bandaríkjamanna við almennar
samgöngur á þessum slóðum hefur að mati landsstjórnarinnar heft mjög þróun þessa svæðis og
torveldað móttöku ferðamanna þar.

Grænlendingar höfðu farið fram á rannsókn á umsvifum Bandaríkjamanna á Grænlandi eftir 1968,
en því hafnaði Nyrup Rasmussen. Þess í stað vonast Grænlendingar eftir að endurskoðun
varnarsamningsins frá 1951 taki af öll tvímæli um umsvif Bandaríkjamanna á Grænlandi framvegis
og krefjast þess um leið að verða aðilar að endurskoðuninni. Grænlendingar hafa einnig farið fram á
að Danir biðjist afsökunar á nauðungarflutningunum 1953, en Nyrup Rasmussen vildi ekki teygja
sig lengra en að segja að hann harmaði þá.
"Blóðuga sunnudagsins" minnst í Londonderry

Vilja alþjóðlega rannsókn á atburðinum

Londonderry. Reuter. ÞÚSUNDIR kaþólikka gengu á eftir 14 hvítum krossum í Londonderry í
fyrradag þegar þess var minnst, að 25 ár eru liðin frá "Blóðuga sunnudeginum", sem sumir líta á
sem upphaf óaldarinnar á Norður- Írlandi. Þá skutu breskir hermenn á fólk á útifundi og lágu 13 eftir
í valnum og sá 14. lést síðar af sárum sínum. Í göngunni í gær var hvatt til alþjóðlegrar rannsóknar
á atburðinum.

"Ég hvet til alþjóðlegrar rannsóknar á atburðum þessa dags fyrir 25 árum," sagði Martin
McGuinness, frammámaður í Sinn Fein, pólitískum armi Írska lýðveldishersins, IRA. Var hann
meðal göngumanna 1972. "Þennan blóðuga sunnudag komu breskir hermenn til borgarinnar, myrtu
14 manns og voru síðan heiðraðir af drottningu."

Nýjar upplýsingar Gangan í gær var hápunktur minningarathafna, sem staðið hafa í viku, og
jafnframt tilrauna af hálfu írskra þjóðernissinna og írsku ríkisstjórnarinnar til að fá bresku stjórnina til
að taka mannfallið í Londonderry til rannsóknar á ný.

Gangan fyrir 25 árum var farin til að mótmæla því, að fólk væri haft í gæsluvarðhaldi án
dómsúrskurðar en rannsóknarnefnd á vegum bresku stjórnarinnar komst að þeirri niðurstöðu, að
bresku hermennirnir hefðu talið sig vera að svara skothríð þegar þeir skutu á óvopnað fólkið. Voru
þeir sýknaðir af allri sök. Að undanförnu hafa verið að koma fram nýjar upplýsingar í þessu máli og
er því meðal annars haldið fram, að breskar leyniskyttur hafi skotið á fólkið ofan af húsum.

Írska stjórnin hefur einnig verið að safna saman nýjum upplýsingum um þetta mál og ætlar að
leggja þær fyrir bresku stjórnina. Hún hefur hingað til neitað að taka málið upp nema eitthvað nýtt
komi til.
Kumar Gujral tekur við sem forsætisráðherra Indlands

Nýtur virðingar og trausts

Nýju Dehli, Islamabad.

KUMAR Gujral sór í gær embættiseið forsætisráðherra landsins, sá fjórði sem það gerir á einu ári.
Var skipan hans víðast hvar fagnað, m.a. í nágrannaríkinu Pakistan en ríkin tvö hafa háð þrjú stríð
frá því að þau fengu sjálfstæði frá Bretum fyrir hálfri öld. Spáðu dagblöð þar í landi að skipan hans
yrði til þess að það slaknaði á spennunni á milli landanna.

Hörð valdabarátta hefur staðið um stól forsætisráðherra vegna stjórnarkreppunnar sem skapaðist
eftir að stjórn H.D. Gowda forsætisráðherra, beið lægri hlut er vantrauststillaga var borin upp á hana
um miðjan mánuðinn. Tókust margir stjórnmálamenn á um stöðu forsætisráðherra en að endingu
náðist sátt um Gujral, sem nýtur virðingar og trausts í indverskum stjórnmálum.

Gujral er 77 ára og hefur tvívegis gegnt embætti utanríkisráðherra. Hann fylgdi kommúnistum áður
að málum en þykir nú miðjumaður. Hann er þekktur að heiðarleika og sáttfýsi og hefur lítinn áhuga
á því að blanda sér í pólitíska valdabaráttu. Gujral á sér fáa óvini á vettvangi stjórnmálanna og voru
flokkarnir fimmtán, sem eiga aðild að Einingarsamtökunum sem mynda ríkisstjórn, fullsáttir við
valið á Gujral.

"Ég er lítillátur maður en ég hef verið í stjórnmálavafstri frá dögum frelsisbaráttunnar," sagði hann
við blaðamenn er hann hafði verið skipaður forsætisráðherra. Gujral hefur verið utanríkisráðherra í
tvígang, fyrst 1989-1990 og svo í síðustu ríkisstjórn, sem sat í tíu mánuði. Á þeim tíma tókst
honum að bæta mjög samskiptin við Suður-Afríku sem hafa verið stirð og í desember var endir
bundinn á deilur Indlands og Bangladesh, sem hafa snúist um aðgang að vatni. Í sama mánuði var
undirritaður samningur Inddverja og Kínverja, um að fækka hermönnum á landamærunum í
Himalaya-fjöllum.

Samstarfsmaður Indiru Gandhi
Gujral er fæddur í Jhelum, sem er nú í Pakistan, árið 1919 en fluttist til Indlands árið 1947 er landið
fékk sjálfstæði frá Bretum. Hann varð þingmaður Kongressflokksins árið 1964 og gengdi ýmsum
ráðherraembættum frá 1967-1964, auk þess sem hann var einn nánasti samstarfsmaður Indiru
Gandhi.

Frá 1976-1980 var hann sendiherra Indlands í Moskvu. Gujral yfirgaf síðar sinn gamla flokk og gekk
til liðs við sósíalistaflokkinn Janata Dal, sem er stærsti flokkurinn í Einingarsamtökunum.

Gujral er kvæntur Shielu, sem er þekkt ljóðskáld og rithöfundur í heimalandi sínu.
Gömul og óvenjuleg venja í fjalllendi Albaníu

Eiðsvarnar jómfrúr í hlutverki karla

Norðurhluta Albaníu. The Daily Telegraph.

Í FJALLLENDI norðurhluta Albaníu, þar sem karlar ráða enn lögum og lofum, hafa konur, sem vilja
komast til vegs og virðingar, um aldir gripið til þess ráðs að sverja skírlífisheit. Verða þær
"eiðsvarnar jómfrúr" og ganga þar með inn í hóp karla, njóta sömu réttinda og hafa sömu skyldur og
þeir.

Jómfrúrnar ganga með stutt hár, í buxum og drekka rótsterkt heimabruggað brandí með körlunum á
krám sem konur sækja annars ekki. Í héraðinu, sem er eitt hið einangraðasta á öllum
Balkanskaga, ræður ættarveldið ríkjum. Karlmaðurinn er höfuð ættarinnar og sá sem öllu ræður en
jómfrúrnar njóta einnig mikillar virðingar. Þær koma hins vegar fram við aðrar konur líkt og karlar,
sem lægra settar.

Ævagömul lög, svokölluð Lek, segja fyrir um stöðu jómfrúnna. Lögin voru sett á 15. öld en ekki
færð í letur fyrr en fyrir 80 árum. Samkvæmt þeim njóta jómfrúrnar sömu stöðu og karlar og líf
þeirra er metið til jafns á við líf karla, 12 uxa virði. Hins vegar er líf kvenna að jafnaði metið á 6 uxa.

Ill nauðsyn
Ástæða þess að konur fóru að sverja skírlífisheit, voru aðstæður í hinu hrjóstruga héraði, þar sem
stríð og ættarátök og geysileg fátækt hafa einkennt lífsbaráttuna. Fjölmörg dæmi voru um að allir
karlmenn í fjölskyldum létu lífið í átökum og þá komu eiðsvörnu jómfrúrnar til skjalanna. Þær
gerðust höfuð fjölskyldnanna, sömdu fyrir hönd hennar, unnu erfiðisvinnu sem karlar unnu að
jafnaði en þær máttu ekki giftast og ekki eignast börn.

Annað sem rak ungar konur til þess að sverja skírlífisheit, var óttinn við að missa eignir
fjölskyldunnar. Félli karlmaður, höfuð fjölskyldunnar, frá, runnu eigur hans og fjölskyldunnar til
nánasta karlkyns ættingja. Væri jómfrú höfuð fjölskyldunnar, hélt fjölskyldan eigum sínum.

Og fleira kom til. Í upphafi aldarinnar háðu íbúar héraðsins stríð við Tyrki og síðar Serba og
Svartfellinga, sem bjuggu hinum megin landamæranna í Svartfjallalandi. Jómfrúrnar sinntu þá starfi
karla og skyldum á meðan þeir börðust fjarri heimahögum.

"Virðum hana eins og væri hún karlmaður"
Ein þessara kvenna er Drane Popaj. Hún átti tvær systur og einn bróður og var ekki nema tólf ára
þegar hún ákvað að verða eiðsvarin jómfrú. Hún er nú orðin gömul kona, veit reyndar ekki upp á hár
hversu gömul. "Þetta var á þeim tíma sem við áttum í stríði við Serba. Ég ákvað að styðja bróður
minn en staða fjölskyldu með aðeins einn son var ákaflega viðkvæm." Frænka hennar, File,
minnist þess er Drane var ung kona, gekk í síðbuxum, með höfuðklút og fylgdi frænku sinni til
kirkju, þar sem ekki var til siðs að konur færu þangað einar. "Við brúðkaup [þar sem karlar og
konur sitja hvor í sínu herberginu] sat hún með körlunum og þegar hún söng hélt hún fingri í öðru
eyra eins og karlar gera. Það er aga hennar og dómgreind að þakka að fjölskyldan er orðin eins
stór og vel stæð og hún er nú."

Lule Ivanaj, 42 ára, er einnig eiðsvarin jómfrú. Þegar hún var fimmtán ára bað móðir hennar hana að
gerast höfuð fjölskyldunnar þar sem bróðir hennar var ekki talinn nógu heilsuhraustur til að sjá fyrir
foreldrum og tíu systrum. Lule er jafningi karlanna í þorpinu Velipoje. "Hún hegðar sér eins og
karlmaður, reykir og drekkur eins og karl og við virðum hana eins og væri hún karlmaður," sagði
einn karlanna á þorpskránni og félagar hans kinka kolli til samþykkis.

Þegar kommúnistar voru við völd ók Lule dráttarvél en nú er hún í lausamennsku við logsuðu.
Fyrirmynd Lule er vígadrottningin Nora af Kelmendi, sem var uppi á 17. öld. Sagan segir að Tyrkir
hafi rænt henni og þeir hafi ætlað að neyða hana til að giftast leiðtoga þeirra. Hún drap hann, flýði
til fjalla og stýrði heimamönnum í baráttunni gegn Tyrkjum. Lule segir söguna af Noru og fleirum
hafa ýtt undir ákvörðun sína og að hún sjái ekki eftir henni. "Ég verð karlmaður það sem eftir er. En
ég mæli ekki með þessu við frænkur mínar. Þetta er erfitt líf."
Játningar á banabeði um morðið á Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar

Sjúklegt hatur á sænsku samfélagi og yfirvöldum

Christer Pettersson sagður einn af fjórum mönnum, sem stóðu að morðinu

LARS Tingström, kunnur afbrotamaður í Svíþjóð, kallaður "Sprengjumaðurinn", skýrði lögfræðingi
sínum frá því á banabeði fyrir fjórum árum hver hefði myrt Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar,
og nokkurn veginn hvar morðvopnið væri að finna. Sagði lögfræðingurinn, Pelle Svensson, að
Christer Pettersson, sem var sakaður um morðið á Palme en sýknaður, hefði verið einn af fjórum
mönnum, sem stóðu að morðinu, en Tingström hefði lagt á ráðin um það. Ástæðan var hatur á
yfirvöldunum og sænsku samfélagi og meðal annars vegna þess, að fyrrverandi unnusta hans hafði
tekið saman við saksóknara, sem rannsakað hafði mál hans.

Svensson segist viss um, að þessi gögn, sem hann hefur nú afhent Palme-nefndinni, muni verða til
að upplýsa málið. "Það var Lars Tingström, sem skipaði fyrir um morðið, en að því komu fjórir
menn. Tveir þeirra eru enn á lífi," sagði Svensson. Sagði hann, að Tingström hefði lagt svo fyrir áður
en hann dó, að "morðinginn fengi 10 ár eftir morðið til að koma skikkan á sitt líf" en ef hann gerði
það ekki, skyldi lögreglan upplýst um málið.

Notuðu dulmál
Svensson vildi ekki segja það hreint út, að Pettersson væri morðinginn, aðeins, að hann hefði verið
einn af fjórum, sem að því stóðu. Hann kvaðst hins vegar hafa afhent lögreglunni nokkurs konar
dulmál eða lykilorð, sem Tingström hefði notað í samskiptum sínum við morðingjann. Fyndust
þessi lykilorð eða væru kannski fundin, þá myndi það verða til að styrkja frásögn Tingströms, sem
hann kvaðst vera viss um, að væri rétt.

Nafni Lars Tingströms hefur áður skotið upp í rannsókninni á Palme-morðinu en ljóst er, að hann
framdi það ekki sjálfur þar sem í febrúar 1986 var hann farinn að afplána lífstíðardóm í fangelsi í
Nörrköping. Var hann dæmdur fyrir að hafa sprengt upp einbýlishús í Nacka 1982 og orðið 18 ára
gömlum manni að bana. Var hann einnig grunaður um að hafa staðið fyrir sprengingu á skattstofu í
Söder í Stokkhólmi 1983, sem varð 63 ára gamalli konu að bana, og fyrir tilraun til að sprengja hjá
sýsluembættinu í Nacka sama ár.

Tók saman við unnustu Tingströms
Ekki tókst að sanna þessi tvö síðastnefndu mál á Tingström en áður hafði hann verið dæmdur fyrir
að hafa sent bréfsprengju til fyrrverandi félaga síns. Ákærandinn í því máli var Sigurd Dencker,
eigandi einbýlishússins, sem Tingström sprengdi í Nacka 1982. Tingström hataði hann, ekki vegna
málareksturins, heldur vegna þess, að meðan á honum stóð tók Dencker saman við fyrrverandi
unnustu Tingströms, fertuga ljósmyndafyrirsætu.

Tingström og ljósmyndafyrirsætan höfðu búið saman í sjö ár en voru nýskilin þegar þetta gerðist.
Fylltist hann sjúklegri afbrýðisemi og hatri á Dencker og sænskum yfirvöldum og fannst sem
samband þeirra saksóknarans og unnustunnar fyrrverandi væri svik og niðurlæging, sem hann gæti
ekki sætt sig við. Lagði hann sérstakt hatur á Olof Palme sem persónugerving samfélagsins.

Tingström afplánaði dóminn fyrir bréfsprengjuna í Kumla, rammgerasta fangelsi í Svíþjóð, og þar
sagði hann nokkrum samföngum sínum, meðal annarra Christer Pettersson, frá því hvernig
Dencker hefði leikið sig. Í augum fanga hafði Dencker gerst sekur um mesta glæp, sem hugsast
gat - að samrekkja konu fanga.

Ætlaði að myrða konunginn
Tingström og Pettersson urðu vinir, jafnt innan fangelsismúranna sem utan, og þegar Tingström
losnaði sprengdi hann upp einbýlishús Denckers með fyrrnefndum afleiðingum. Fyrir það var hann
svo dæmdur í lífstíðarfangelsi 1985 og lést úr krabbameini 1993.

Áður en Tingström fór í fangelsi í síðasta sinn var Pettersson lífvörður hans og lærði að fara með
skotvopn í kjallaranum á heimil Tingströms. Þar lagði hann á ráðin um að hefna sín á samfélaginu
og upphaflega átti að myrða Karl Gústaf Svíakonung fyrst með sprengju. Tingström sagði
Svensson, að Pettersson hefði hafnað því þar sem það væri "of sóðalegt". Betra væri að gera það
augliti til auglitis.

Af þessu varð þó ekki því að fyrir tilviljun gekk morðinginn fram á Olof Palme þegar þau hjónin voru
að koma úr kvikmyndahúsi. Eftir það var konungshjónanna gætt svo vel, að þar komst enginn
nærri. Fjórmenningarnir gengu þó svo langt að fylgja eftir og njósna um konunginn á ferðum hans
erlendis.

Heimildir: Dagens Nyheter, Aftenposten, Reuter.Þekktir Katalóníubúar leggja fram áskorun á þingi

Katalónska verði eina opinbera tungumálið

Malaga. Morgunblaðið.

350 þekktir menningarvitar, stjórnmálamenn, rektorar háskóla og kirkjunnar menn í Katalóníu á
Norðaustur-Spáni hafa lagt fram áskorun þar sem hvatt er til þess að lögum sjálfstjórnarhéraðsins
verði breytt á þann veg að katalónska verði eina opinbera málið þar.

Rektorar einna fimm háskóla í Katalóníu hafa undirritað áskorun þessa sem og nokkrir biskupar,
rithöfundar og önnur katalónsk menningarblys. Þá nýtur áskorunin stuðnings þingmanna úr öllum
flokkum Katalóníu nema Þjóðarflokksins, sem nú heldur um valdataumana á Spáni. Áskorunin
hefur verið afhent pólitískum leiðtogum á þingi Katalóníu og er hún sögð vera innlegg í umræðu um
stöðu hinnar katalónsku tungu. Yrðu hugmyndir þessar að veruleika yrði spænska með öðrum
orðum ekki lengur viðurkennd sem opinbert tungumál í Katalóníu.

Yfirburðastaða spænsku
Í áskoruninni segir m.a. að spænska njóti yfirburðastöðu sem tungumál í Katalóníu og geri þetta að
verkum að allt eðlilegt og æskilegt jafnvægi raskist í samfélagi Katalóníubúa. Núgildandi lög kveði í
raun á um að spænska sé eina tungumálið sem nauðsynlegt megi teljast að menn hafi á valdi sínu
til að geta lifað í Katalóníu. Þessu beri að snúa gjörsamlega við til að stuðla að því að
Katalóníubúar geti lifað eðlilegu lífi í landi sínu. Lagt er til að settar verði reglur um notkun
katalónsku í fjölmiðlum og látið að því liggja að refsa beri þeim fjölmiðlum sem ekki virði lög í þá
veru.

Ríkir og valdamiklir
Katalónía er eitt 17 sjálfstjórnarhéraða Spánar og þjóðernishyggja er þar mikil og almenn. Tekjur
eru þar vel yfir landsmeðaltalinu og ekkert héraðanna býr yfir viðlíka pólitískum styrk enda verja
katalónskir þjóðernissinnar stjórn Jose Maria Aznar, forsætisráðherra Spánar, falli og forðum
studdu þeir minnihlutastjórn Sósíalistaflokksins. Katalónar eru flestir tvítyngdir þ.e. allir tala þeir
spænsku og flestir katalónsku en á undanförnum árum hefur hlutur katalónsku verið aukinn mjög í
Katalóníu með löggjöf af ýmsum toga. Hins vegar deila menn í Katalóníu um hversu langt skuli
ganga í þessum efnum og eru þeir sem undirritað hafa áskorunina í hópi róttækustu
þjóðernissinnanna.

Fjögur tungumál
Fjögur mál njóta opinberrar viðurkenningar á Spáni samkvæmt stjórnarskránni frá árinu 1978 þ.e.
spænska, katalónska, baskneska, sem töluð er í Baskalandi og galisíska, sem töluð er í Galicíu á
Norðvestur-Spáni. Um þrjú síðastnefndu málin gildir að þau njóta sömu stöðu og spænska í þeim
héruðum þar sem þau eru töluð.
Vel menntaður tæknikrati við stjórnvölinn í Kína

Li Peng og fleiri valdamenn gætu reynst honum hættulegir

Peking. Reuter, The Daily Telegraph.

JIANG Zemin, manninum sem var valinn til að feta í fótspor Maós formanns og Dengs Xiaopings og
stjórna Kína næstu árin, er lýst sem vingjarnlegum menntamanni, sem vitni oft í Abraham Lincoln,
fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hann er fyrsti háskólamenntaði maðurinn sem kemst til æðstu
metorða í Kína.

Deng valdi Jiang sem arftaka sinn árið 1989 og hann er þegar orðinn forseti landsins, leiðtogi
flokksins og æðsti yfirmaður hersins. Jiang er sjötugur og þykir mjög ólíkur Maó og Deng, sem
voru komnir af bændum og gengu ekki menntaveginn. Jiang er hins vegar stórborgarbúi,
háskólamenntaður tæknikrati, og var að hluta til valinn vegna þess að öldungarnir í forystusveit
kommúnistaflokksins hrifust af gáfum hans, lærdómi og kunnáttu í erlendum tungumálum.

Kínverskir embættismenn segja að Jiang sé traustur í sessi sem æðsti leiðtogi Kína en orðrómur
hefur verið á kreiki um að valdabarátta hafi geisað í Peking um skeið. Andstæðingar Jiangs eru
sagðir hafa gagnrýnt hann fyrir að safna að sér fleiri titlum en hann eigi skilið og þeim gæti tekist
að víkja honum frá.

Virðist óttast valdarán hersins
Jiang hefur lagt mikla áherslu að rækta tengslin við kínverska hershöfðingja og þykir það til marks
um pólitíska kænsku en endurspegla um leið veikleika hans og áhyggjur vegna hugsanlegs
valdaráns hersins.

Erfitt er að meta hver stefna Jiangs verður þar sem hann hefur verið uppnefndur "vindhaninn" og er
sagður haga seglum eftir vindi. Hann er þekktari fyrir varkárni en framsækna stefnumótun og hann
er fyrsti leiðtoginn sem hefur enga reynslu af hermennsku. Hann nýtur því mun minni virðingar
innan hersins en Deng.

Í öðrum Asíuríkjum hafa valdaskipti stundum leitt til valdaráns þegar nýr leiðtogi nýtur minni
stuðnings innan hersins en fyrirrennarinn og Jiang virðist óttast þennan möguleika. Hann er sagður
hafa fyrirskipað fræðimönnum að semja ritgerð um valdarán í öðrum löndum og eitt sinn þegar hann
ávarpaði kínverska lögreglumenn gerði hann það á bak við skothelda hlíf.

Hann hefur því lagt mikla áherslu á að styrkja stöðu sína innan hersins og honum hefur gengið
betur að fá hershöfðingjana á sitt band en flestir höfðu búist við. Margir telja að hann hafi verið
vanmetinn allan stjórnmálaferilinn og reynst betri og þrautseigari stjórnmálamaður síðustu árin en
andstæðingar hans áttu von á.

Hlynntur ríkisafskiptum
Jiang nam verkfræði í rússneskum skóla og talar rússnesku reiprennandi. Hann er einnig nokkuð
fær í ensku og rúmensku, sem hann lærði þegar hann starfaði í verksmiðju í Rúmeníu. Hann á það
til að heilsa japönskum gestum með nokkrum orðum á japönsku og vitnar í rúmenska skáldið
Mihai Eminescu þegar hann hittir Rúmena. Ennfremur vitnar hann stundum í ávarp Lincolns í
Gettysburg 1863 þar sem bandaríski forsetinn lagði áherslu á jafnrétti og frelsi og hugmyndir sínar
um lýðræðislega stjórn í þágu fólksins.

Jiang þykir ekki eins hvatvís og Maó og Deng, sem voru báðir miklir hugsjónamenn. Hann er
hlynntur auknu frjálsræði í efnahagsmálum en leggur áherslu á að farið verði hægt í sakirnar og
virðist þeirrar skoðunar að ríkisvaldið þurfi að gegna veigamiklu hlutverki í efnahagslífinu.

Deng var stoltastur af þróuninni í borgum eins og Shenzhen í suðurhluta landsins, þar sem
efnahagurinn blómstraði vegna einkafyrirtækja og samstarfs við erlend fyrirtæki. Lífskjörin hafa
stórbatnað í þessum borgum en áhrif kommúnistaflokksins minnkað.

Jiang virðist hins vegar ánægðari með gang mála í Shanghai, þar sem afskipti ríkisvaldsins af
efnahagnum eru meiri. Hann virðist tregur til að einkavæða ríkisfyrirtæki, en ekki af
hugsjónaástæðum, heldur vegna þess að hann óttast götumótmæli verkamanna sem gætu misst
vinnuna vegna einkavæðingarinnar.

Ekki flekkaður af blóðbaðinu
Jiang er ekki talinn eins valdboðsgjarn og forverar hans. Hann ræddi við lýðræðissinna sem tóku
þátt í námsmannamótmælunum árið 1987 og hvatti þá til að snúa sér aftur að náminu. Hann er
ekki talinn hafa verið með í ráðum þegar ákveðið var að beita hernum til að kveða niður mótmælin
og var í Shanghai á þeim tíma.

Hann hefur þó tekið hart á andófi gegn kommúnistaflokknum. Hann bannaði dagblað í Shanghai
árið 1989 vegna gagnrýni þess á flokkinn og fyrirskipaði aftökur nokkurra lýðræðissinna eftir
blóðsúthellingarnar í Peking. Flokkurinn hefur hert tök sín undir stjórn Jiangs á síðustu árum,
þannig að því sem næst allir andófsmenn landsins eru annaðhvort í útlegð eða fangelsi.

Tvíræð stefna
Jiang tók þátt í menningarbyltingunni en það hafði þó ekki áhrif á frama hans eftir að henni lauk árið
1976. Hann var skipaður aðstoðarráðherra í iðnaðarráðuneytinu árið 1982 og borgarstjóri Shanghai
1986.

Litið var á Jiang sem hæfan og umbótasinnaðan borgarstjóra en hæfileikar hans sem gestgjafa eru
taldir hafa ráðið úrslitum um að hann komst til æðstu metorða í kommúnistaflokknum. Deng og
helsti keppinautur hans, Chen Yun, voru tíðir gestir í Shanghai og Jiang lagði sig í framkróka við að
sýna þeim fyllstu virðingu.

Öldungarnir hrifust af þessum vel menntaða manni og þótt þeir deildu um flest voru þeir sammála
um að Jiang væri best til þess fallinn að taka við leiðtogahlutverkinu. Þeir völdu hann að hluta til
vegna þess að hann var óflekkaður af blóðbaðinu í Peking en tvíræð stefna hans var honum einnig
til framdráttar. Deng leit á hann sem umbótasinna en Chen áleit hann harðan kommúnista, sem
hægt væri að treysta til að standa vörð um flokkinn og draga ekki um of úr ríkisafskiptunum í
efnahagnum.

Li á marga óvildarmenn
Margir telja að enginn stjórnmálamaður í Kína verði jafn öflugur og valdamikill og Deng á næstu
árum og að hópur áhrifamanna í stjórnmálaráði flokksins geri út um málin og taki stærstu
ákvarðanirnar. Fari svo gæti Li Peng gegnt miklu hlutverki, en hann hefur verið forsætisráðherra frá
árinu 1987 og deilt völdunum með Jiang frá blóðsúthellingunum í Peking.

Li, sem er 68 ára, hefur oft virst öflugri stjórnmálamaður en Jiang og er sagður metnaðargjarn og
mikill málafylgjumaður. Hann á einnig fleiri óvini en keppinauturinn.

Li átti stóran þátt í þeirri ákvörðun að beita hervaldi á Torgi hins himneska friðar og hefur aldrei
losnað við smánarblettinn sem fylgdi blóðbaðinu. Hann hefur þó lagt mikið kapp á að bæta ímynd
sína, ferðast um Kína, kysst börn og þeir eru orðnir ótalmargir sem hann hefur heilsað með
handabandi.

Forsætisráðherrann er verkfræðingur og menntaður í Sovétríkjunum eins og Jiang og var eitt af
mörgum börnum sem Chou En-lai, fyrrverandi forsætisráðherra, og kona hans ólu upp. Li átti frama
vísan innan kommúnistaflokksins þegar á æskuárunum og aðrir embættismenn hafa sakað hann
um hroka.

Vegna skapferlis Lis og harðlínustefnu hefur alltaf staðið styr um hann. Jafnvel móðir hans
fordæmdi hann sem umhyggjulausan son þegar hún lá banaleguna á sjúkrahúsi í Peking árið 1985.

Menntamenn hafa stundum haft Li að spotti og segja hann ekki mjög greindan. Hann hefur þó
reynst slyngur og þrautseigur stjórnmálamaður og haldið lengur velli en margir bjuggust við.

Helsti vandi Lis felst í því að samkvæmt stjórnarskránni getur hann ekki gegnt
forsætisráðherraembættinu lengur en fram á næsta ár. Framtíð hans kann því að ráðast á þingi
kommúnistaflokksins í október.

Þingforsetinn valdamikill
Á meðal annarra áhrifamanna í Kína er Qiao Shi, forseti þingsins, sem er 73 ára og hefur beitt sér
fyrir auknum áhrifum löggjafarsamkundunnar. Hann var eitt sinn talinn líklegur til að taka við
embætti flokksleiðtoga, enda náinn bandamaður Dengs, en hefur virst sætta sig við að standa í
skugga Jiangs og Lis. Hann stjórnaði áður öryggislögreglunni og hefur mikil völd og áhrif, að mati
fréttaskýrenda.

"Hann er alvörugefinn og fámáll maður og almennt álitinn áreiðanlegur, hæfur og framsýnn
stjórnmálamaður," segir í ævisögu hans.

"Gorbatsjov Kína"
Zhu Rongji, sem er 69 ára, er varaforsætisráðherra og oft nefndur "Gorbatsjov Kína" vegna baráttu
sinnar fyrir efnahagsumbótum, en sjálfur hefur hann óbeit á því auknefni. Hann er þekktur sem
sáttasemjari í erfiðum deilum og þarf oft að takast á við ýmis vandamál sem fylgja
efnahagsumbótunum, t.a.m. verðbólgu, gjaldþrot ríkisfyrirtækja, reiða bændur og spillta
embættismenn.

Zhu var áður borgarstjóri Shanghai og framtíð hans í stjórninni ræðst af því hvernig honum gengur
að leysa þau fjölmörgu vandamál sem eru á hans könnu.

Áhrifamiklir öldungar
Yang Shangkun, sem er níræður og fyrrverandi forseti landsins, reyndi að notfæra sér stuðning
sinn innan hersins og náin tengsl við Deng til að verða æðsti leiðtogi landsins. Í byrjun áratugarins
var hann álitinn næstæðsti embættismaður Kína og líklegastur til að verða valdamestur eftir fráfall
Dengs. Metnaður hans og framapot innan hersins færðu honum hins vegar marga óvildarmenn og
Deng lagðist að lokum gegn honum og knúði hann til að draga sig í hlé árið 1993 eftir að hafa
gegnt forsetaembættinu í fimm ár.

Yang gegndi mikilvægu hlutverki í aðgerðunum gegn námsmönnunum í Peking 1989.

Peng Zhen, sem er 95 ára, var náinn bandamaður Dengs og hefur haft mikil áhrif á bak við tjöldin
þótt hann hafi látið af öllum embættum sínum. Hann var borgarstjóri Peking í 15 ár og var áður
forseti þingsins. Hann kemur stundum fram opinberlega í hjólastól og virðist við góða heilsu miðað
við aldur.

Zhao Ziyang er 78 ára og hafði yfirumsjón með róttækum efnahagsumbótum en féll í ónáð. Hann
var eitt sinn álitinn líklegur arftaki Dengs og varð leiðtogi kommúnistaflokksins í nóvember 1987,
þegar margir af gömlu byltingarmönnunum drógu sig í hlé. Átján mánuðum síðar komu öldungarnir
aftur fram á sjónarsviðið og studdu kröfu harðlínumanna um að honum yrði vikið frá vegna
félagslegs umróts sem umbótastefna hans olli.

Áður en mótmælin á Torgi hins himneska friðar voru kveðin niður ræddi Zhao við leiðtoga
námsmannanna og bað þá með tárin í augunum að láta af mótmælunum.
Hugsanlegt að 18 ára valdatíð breska Íhaldsflokksins ljúki í dag

Kannanir benda til stórsigurs Verkamannaflokksins

London. Morgunblaðið.

EINNI lengstu kosningabaráttu þessarar aldar er lokið á Bretlandi og leiðtogar flokkanna hafa sagt
sitt síðasta orð áður en breskir kjósendur ganga að kjörborðinu eftir linnulitla kosningafundi í sex
vikur. Notuðu John Major forsætisráherra og Tony Blair, leiðtogi Verkamannaflokksins, tækifærið í
gærkvöldi til að höfða til óákveðinna kjósenda. Þeir sögðu, að úrslitin væru ekki ráðin en
skoðanakannanir benda hins vegar til þess gangstæða. Samkvæmt þeim er útilokað, að
íhaldsmönnum takist að vinna upp forskot Verkamannaflokksins og voru fréttaskýrendur þeirrar
skoðunar, að eini óvissuþátturinn væri hversu stóran meirihluta Blair fengi í neðri deild breska
þingsins.

Stórsigur blasir við Blair þótt skoðanakönnun dagblaðsins The Daily Telegraph, sem birtist í dag,
bendi til þess, að forskot Verkamannaflokksins á Íhaldsflokkinn hafi minnkað. Blair skoraði í gær á
stuðningsmenn sína að slaka hvergi á.

Hvatningar leiðtoganna
John Major sagði í gær, að örlög Bretlands myndu ráðast í dag og biðlaði til kjósenda: "Ekki kasta
því sem við höfum afrekað á glæ í augnablikskæruleysi," sagði forsætisráðherrann og bætti við, að
kosningabarátta Verkamannaflokksins væri eitt blekkingarbragð.

Major neitaði í gær að horfast í augu við það, að sennilega væri 18 ára valdatíð Íhaldsflokksins á
enda en Robin Oakley, fréttamaður BBC, breska ríkisútvarpsins, sagði í samtali við Morgunblaðið,
að á undanförnum tveimur sólarhringum hefði íhaldsleiðtoginn gert sér grein fyrir því að úrslitin væru
ráðin og allt hans fas bæri því vitni. Blair varaði sína stuðningsmenn enn einu sinni við því að sofna
á verðinum en á blaðamannafundi sínum í gærmorgun gat hann ekki varist brosi þegar spurt var um
væntingar hans. "Það væri ekki of djúpt í árinni tekið að segja að ég fyndi ekki til eftirvæntingar."
Þetta er það næsta sem hann hefur komist því að hrósa sigri.

Paddy Ashdown, leiðtogi frjálslyndra demókrata, var kokhraustur í gær og sagði, að í vændum væri
tímamótasigur flokks síns. Hann neitaði þó að segja hvað hann gerði sér vonir um að vinna mörg
sæti en flestir eru sammála um að færri en 30 megi túlka sem ósigur fyrir hann.

Munur 10 til 20 stig
Samkvæmt skoðanakönnunum í Daily Telegraph nýtur Verkamannaflokkurinn fylgis 46% og
Íhaldsflokkurinn 33% og er munurinn sýnu minni en skoðanakönnun í sama blaði í gær.
Samkvæmt skoðanakönnun, sem Guardian birti í dag er munurinn aðeins 10 prósentustig. Sá
munur myndi hins vegar nægja Verkamannaflokknum til að ná 50 sæta meirihluta.
Skoðanakannanir, sem greint var frá í gærkvöldi sýna allt frá 10 til 20 prósentustiga munar. Verði
munurinn 12 prósentustig er Verkamannaflokknum spáð 150 sæta meirihluta og standist sú
könnun, sem sýnir 20 prósentustiga mun, mun Verkamannaflokkurinn ná 285 sæta meirhluta
samkvæmt útreikningum BBC.
Leiðtogafundinum í Helsinki seinkað um einn dag

Jeltsín gagnrýnir NATO og Bandaríkin

Moskvu, Helsinki. Morgunblaðið, Reuter.

BORÍS Jeltsín Rússlandsforseti gagnrýndi í gær utanríkisstefnu Bandaríkjanna og gerði sér mat úr
meiðslum Bills Clintons Bandaríkjaforseta, sem hann sagði verða "sjúklinginn" á leiðtogafundi
þeirra í Helsinki í vikunni, öfugt við það sem búist hafi verið við. Jeltsín gerir sér far um að sýna að
hann hafi nægan styrk til að stýra landinu og gefa hvergi eftir á fundinum með Clinton en honum
verður seinkað um einn dag, fram á föstudag, vegna meiðsla Bandaríkjaforseta, sem sleit liðbönd í
hné aðfararnótt föstudags.

"Ég vil ekki snúa aftur til daga kalda stríðsins og það vill þjóðin ekki heldur. En til þess að svo verði
ekki, verða skilyrðin að vera hin sömu," sagði Jeltsín og vísaði til leiðtogafundarins með Clinton.

Geysilegur þrýstingur er á Jeltsín heimafyrir vegna stækkunar Atlantshafsbandalagsins, sem
fastlega er búist við að verði aðalumræðuefni fundarins.

Á blaðamannafundi með rússneskum, bandarískum og finnskum blaðamönnum í gær sagðist
Jeltsín Rússa ekki óttast árás NATO-ríkjanna, slíkri árás yrði einfaldlega svarað. Helsta
áhyggjuefnið væri hernaðarleg og efnahagsleg einangrun. Spurði forsetinn m.a. hvers vegna
hernaðarbandalagið hygði á æfingar á Svartahafi, gegn óskum Rússa. Um er að ræða
sameiginlega heræfingu Úkraínumanna og nokkurra NATO-ríkja á Krímskaga og Svartahafi.
Rússum var boðið að taka þátt í æfingunni, sem verður í sumar, en þeir neituðu og kváðust líta á
hana sem ögrun við sig.

Þá fór Jeltsín hörðum orðum um efnahagsmál, sem þykir benda til þess að hann muni reyna að
nýta sér NATO-umræðuna til að ná fram aukinni efnahagsaðstoð frá Bandaríkjunum og raunar fleiri
ríkjum. Minnti Jeltsín á að margar minni þjóðir en Bandaríkjamenn hefðu fjárfest meira í Rússlandi
en þeir og ítrekaði að um erfiðan fund yrði að ræða.

Heilsa forsetanna kom til tals og sagðist Jeltsín við ágæta heilsu. Hann teldi sig betur undir það
búinn að stjórna Rússlandi og í betra líkamlegu ástandi nú en áður en hann hefði veikst. "Já ég var
veikur en hvað með það? Enginn er öruggur þegar veikindi eru annars vegar. Bill Clinton veiktist
einnig skyndilega," sagði Jeltsín.

Samþykkja aldrei NATO-aðild Finna
Jeltsín lýsti því yfir í samtali við finnska dagblaðið Helsingin Sanomat á sunnudag að Rússar
myndu aldrei geta fallist á NATO-aðild Finna, ekki kæmi til greina að bandalagið ætti með þeim
hætti landamæri að Rússlandi. Noregur er eina NATO-ríkið sem á landamæri að Rússlandi.

Yfirlýsing Rússlandsforseta kom mörgum Finnum í opna skjöldu en æðstu ráðamenn landsins hafa
þó ekki brugðist við ummælum Jeltsíns, að öðru leyti en því að í þeim sé ekkert nýtt að finna,
afstaða Rússa í málinu hafi verið ljós.

Í umræðum á þingi í gær benti Paavo Lipponen forsætisráðherra á að Jeltsín hefði ekki átt
frumkvæði að yfirlýsingunni, hún hefði verið svar við spurningu blaðamanns. Ítrekaði Lipponen að
stefna Finna væri að halda frumkvæði í eigin varnar- og öryggismálum.
Skilja ekki eðli ljóss

London. The Daily Telegraph.

ÞRÁTT fyrir gríðarlegar framfarir á sviði vísinda, hafa vísindamenn viðurkennt að þrátt fyrir miklar
rannsóknir á eðli ljóss, séu þeir litlu nær um það. Á ráðstefnunni "Ljóseind '97" sem haldin er í
Hollandi í vikunni, munu breskir vísindamenn viðurkenna að þeir skilji ekki til fulls eðli
ljóseindarinnar, sem er jafnframt algengasta eind alheimsins.

Vísindamennirnir, sem starfa við University College í London segja ljóseind hegða sér "vel" þegar
hún streymi t.d. úr ljósaperu. Þegar gríðarleg orka hafi myndast, svo sem þegar alheimurinn
myndaðist, breytist eðli hennar og verði illútskýranlegt. Því nánar sem menn skoði ljóseindina, því
flóknari virðist hún.

Það var Albert Einstein sem setti fram þá kenningu um ljós árið 1905 að það væri bylgjuhreyfing.
Vísindamenn hafa nú komist að því að þegar óvenjumikil orka myndast, breytist ljóseindin um
stundarsakir, og virðist ein flækja öreinda og andeinda. Þegar betur er að gáð virðist ljóseindin
minna á kvarka og andkvarka, sem eru grunneindir alls, sem haldið er saman af límeindum, sem
taldar eru halda kvörkum saman. Hefur vísindamönnum ekki tekist að útskýra breytinguna sem
verður á ljóseindinni með neinu þekktu stærðfræðimódeli.
Björgun með afli að ofan

Santa Sindone, líkklæði Krists, bjargaðist úr miklum bruna í dómkirkju Tórínó á dögunum. Nú
hefur sá sem á heiðurinn af þessu gefið sig fram og kardináli í borginni lýst yfir kraftaverki. Þórunn
Þórsdóttir
komst að því að málið er um margt dularfullt, myrkraöflum kennt um brunann,
halastjörnu eða bilun í rafmagni.


"HEILAGUR andi innblés mér kraft, og einhvernveginn, ég mun aldrei skilja hvernig, tókst mér að
ná kistunni með líkklæðinu." Ítalski slökkviliðsmaðurinn Mario Trematore er nú hetja í Tórínó. Hann
bjargaði einsamall líkklæði krists, dýrgripnum úr dómkirkjukapellu borgarinnar, en gaf sig ekki fram
við blaðamenn fyrr en nokkru síðar. Trematore var búinn á vakt föstudagskvöldið 11. apríl og kominn
heim til sín, á hæð yfir borginni, þegar sonur hans sá reykjarský útum gluggann. Trematore skildi
strax að alvarlegur bruni væri í miðbænum. Hann hringdi í vinnuna og fékk þau svör að höllin brynni
og kapellan með. "Ég fann að ég varð að fara," segir Trematore. Hann hljóp umsvifalaust út, flýtti
sér sem mest hann mátti niður í bæ og æddi inn í reykinn í kirkjunni.

Þar var hann aleinn því allir hinir höfðu forðað sér. Brunaliðsmenn og öryggisverðir biðu þess úti
sem verða vildi, stolt Tórínó hafði orðið eldi að bráð. Skelfdir borgarbúar hópuðust á torgið framan
við kirkjuna. Hallarkapellan tók að brenna klukkan ellefu um kvöldið, ómetanlegt verk arkitektsins
Guarino Guarini. Þarna hefur líkklæðið, Santa Sindone, verið varðveitt í 303 ár. Þetta er helgur
gripur, sem sjaldan er tekinn úr rammgerðri kistu og sýndur almenningi. Katólikkar láta ekki á sig
fá þær niðurstöður vísindamanna að klæðið hafi ekki hjúpað líkama Krists, gerð efnisins og liturinn
sem notaður er bendi til að þetta sé 13. aldar verk. "Ég bjargaði tákni kristninnar," hrópaði
Trematore þegar hann kom út úr kirkjunni klukkan hálftvö um nóttina með silfurkistuna sem geymir
klæðið. Hann er trúaður maður, ættaður frá Suður-Ítalíu en hefur starfað í Tórínó í fimmtán ár. Þar
hefur hann bunað úr slöngum og vaðið reyk, en aldrei, hvorki fyrr né síðar, þolað annað eins.

Raunar á hann sér fyrirrennara, ekki síður hugrakkan. Árið 1532 náði Vilhjálmur af Chamberry
klæðinu úr ljósum logum, á nótt heilagrar Barböru. Frásagnir herma að Vilhjálmur hafi brotið upp
fjórlæstan skáp og náð brennheitri kistunni. Þegar hann hafi gengið til svefns hafi engill komið og
grætt brunasár á höndum hans. Þannig hafi Vilhjálmur hlotið þá gáfu að geta læknað sjúka og
annálar segja holdsveika hafa leitað til hans úr gervöllu Savoie- héraði.

Trematore segir að síðustu daga hafi veikt fólk hringt mikið til sín: "Krabbameinssjúkur maður sagði
mér að hann hefði endurheimt vonina." Fleiri sögur um trú og hjátrú tengjast brunanum. Tórínó er
ein þriggja borga í svarta þríhyrningnum svokallaða í Evrópu. Hún er þekkt fyrir svartagaldur og
sértrúarh**
bruna 13. febrúar fyrir 15 árum, sem olli dauða 64 manna í kvikmyndahúsi í borginni. Þar var sýnd
myndin "La chevre", saga manns sem flutti með sér ógæfuna. Og fyrir 60 árum brann konunglega
leikhúsið, við hliðina á dómkirkjunni.

En hvað kapellubrunann um daginn varðar mun vinsælt að kenna um áhrifum halastjörnunnar Hale-
Bopp, sem sést hefur greinilega á himni undanfarið.

Arkitektinn Guarino Guarini (1624-1683) var maður seinheppinn því flest verk hans eyðilögðust í
sprengingum eða eldsvoðum ef þau voru ekki rifin. Guarini var fæddur í Modena en starfaði við hirð
hertogans Carlo Emanuele II, sem gekkst fyrir endurbótum á höfuðborg svæðisins, Tórínó. Þar hóf
Guarini aðalverk sitt árið 1667, kapelluna Santa Sindone í dómkirkjunni. Hún er álitin perla
síðbarokks á Ítalíu og sýnishorn af tæknitilraunum í lok 17. aldar.

Af verkinu spruttu skólastefnur í heimspeki og stærðfræði, lausnir Guarinis þóttu fráleitar og
frábærar í senn: Þyngdarlögmálið var léttvægt fundið í undnum formum þar sem segja mætti að
tóm og fylling skiptist á. Innviðir kapellunnar sem kennd var við Santa Sindone eru ónýtir. Kapellan
var nýuppgerð, þriggja ára vinnu 60 verkamanna lokið. Þetta kostaði kostaði 2 milljarða líra og til
stóð að fagna endurbótunum á næstu dögum. Ljóst er að vinnupallar úr tré, sem enn stóðu uppi,
ollu mestum skaða. Marmaraklæðning sprakk og brotnaði, gifsskreytingar molnuðu. Kirkjan er eins
og beinagrind í miðborginni. Í bili segja byggingaryrirvöld í Piemonte að tjónið nemi mörgum tugum
milljarða líra og ómögulegt sé að ná fyrra horfi. Ríkisstjórnin hefur þó nú þegar látið 12 milljarða til
endurgerðar kapellunnar. Logarnir í henni sáust ekki utan frá og ekki náðist að slökkva þá fyrr en
klukkan fjögur um nóttina, sex stundum frá upphafinu. En klæðið helga er óhult og nú á enga
áhættu að taka lengur. Ríkisfyrirtækið Italgas hefur gefið milljarð líra til gerðar kistu úr styrktum
kristal og steini þar utan um, með rafeindabúnað til að gæta rakajafnvægis og öryggis. Klæðið,
sem nú er í ónefndri geymslu í borginni, verður ekki lengur vafið á stranga heldur lagt flatt á líndúk,
yfir fjögurra metra langan og tveggja metra breiðan. Hægt verður að ná því úr kistunni með skjótum
hætti. Fyrirhugað var að sýna klæðið á næsta ári og kardínálinn í Tórínó, Giovanni Saldarini, segir
björgun þess kraftaverk. Hann staðfestir að klæðið verði afhjúpað eins og ætlað var. Skrifað stendur
að engill hafi borið klæðið til Tórínó, en aðalsættin í Savoie, sem seinna varð konungsfjölskylda
Ítalíu, eignaðist það árið 1578 og lét reisa um kapelluna um dýrgripinn. Ástæður brunans eru ennþá
óþekktar, en talið er að upptök hafi verið á þaki hallarinnar, sem liggur að dómkirkjunni. Höllin sjálf
skemmdist lítið, aðeins þakið er ónýtt og minniháttar málverk, á ítalskan mælikvarða, urðu að
ösku. Eldsvoðinn er í rannsókn og búist er við að henni ljúki eftir hálfan annan mánuð. Þá verður ef
til vill vitað hvort kviknað hafi í út frá rafmagni eða hvort kveikt hafi verið í. Fjölmiðlar minna á að fyrr
um kvöldið hafi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, verið í veislu í höllinni. En allir
hafi verið farnir klukkustundu áður en brunaboðar fóru í gang.
Lúxusvandi Norðmanna


Kosningabaráttan í Noregi er spennandi og um margt einkennileg, því tekist er hart á um
velferðina í einu ríkasta landi heims. Urður Gunnarsdóttir ræddi við fræðingana og kjósendurna í
Ósló fyrir kosningarnar sem fram fara nk. mánudag.


VIÐ eigum við lúxusvandamál að stríða, segja kjósendurnir. Svo að segja allt gengur Norðmönnum í
haginn, þeir dæla olíu og gasi upp úr sjónum, eru búnir að greiða niður erlendar skuldir og eiga ekki
í basli við atvinnuleysisdrauginn. Vandamálin krefjast ekki tafarlausra lausna og hættan er sú að
áhuginn á kosningunum dofni. En sú virðist ekki ætla að verða raunin, því þrátt fyrir að
kosningabaráttan sé ekki sýnileg á götum úti, er hún háð af miklum krafti og niðurstaðan er síður
en svo ljós. Raunar svo óljós að hún skýrist kannski ekki fyrr en dögum og vikum eftir kosningar.

Kosningabaráttan er ekki síst spennandi vegna þess að jafnvel þótt Verkamannaflokkurinn nái því
marki sem Thorbjörn Jagland forsætisráðherra setti sér í síðasta mánuði, að fá ekki færri atkvæði
en síðast, er framtíð hans ekki trygg. Fylgi þeirra flokka sem stutt hafa hann á þingi, Miðflokksins
og Sósíalíska vinstriflokksins, hefur dregist svo saman að margir spá því að stjórnin falli á einhverju
umdeildu máli, löngu áður en kjörtímabilið er úti. "Þetta hefur verið spennandi kosningabarátta,
kosningarnar verða það án efa og ég á von á viðburðaríku kjörtímabili, ólíkt því sem verið hefur
síðustu fjögur árin," segir Henrik Width, sem skrifar um stjórnmál í Aftenposten. Bert Aardal,
yfirmaður rannsókna við Samfélagsrannsóknastofnunina norsku, er ekki sannfærður um að Jagland
falli, en hann er sammála Width að baráttan sé spennandi og ólík því sem áður hefur verið.

Heilbrigðismálin í öndvegi
Stóru málin í kosningabaráttunni eru heilbrigðismál og málefni aldraðra, um það virðast allir
sammála. Skömmu fyrir þinglok í vor var lögð fram tillaga um að hækka lægstu lífeyrisgreiðslurnar
um 1.000 kr. norskar, um 10.000 íslenskar, og greiddu flestir stjórnarandstöðuflokkarnir atkvæði
með henni. Jagland tók hins vegar illa í tillöguna, sem hann sagði dæmi um tækifærismennsku og
var hún felld. Það ýtti hins vegar undir reiði margra, sem telja ekki nógu vel búið að öldruðum í
Noregi þrátt fyrir ríkidæmi þjóðarinnar. Og þessa reiði nýtti Carl I. Hagen, formaður
Framfaraflokksins, sér. Þegar í upphafi kosningabaráttunnar í ágúst, reyndist Framfaraflokkurinn
hafa aukið fylgi sitt umtalsvert. "Hagen sogaði hreinlega að sér óánægjufylgið. Það skal engan
undra að fólki þyki skömm að því að um 10.000 manns séu á biðlistum eftir aðgerðum á
sjúkrahúsum, að sjúklingar liggi á göngum og að 4-5 gamalmenni séu saman í herbergi á
elliheimilunum," segir Width.

Að sögn Aardals hefur ekki verið um mikinn niðurskurð í heilbrigðiskerfinu að ræða, heldur fjölgun
sjúklinga, sem ekki hefur verið mætt. T.d. er mikill skortur á læknum og hjúkrunarfólki og hefur
starfsfólk frá hinum Norðurlöndunum streymt til Noregs. Þrátt fyrir að Framfaraflokkurinn hafi verið
fyrstur til að taka málið upp, hafa hinir flokkarnir fylgt ófeimnir á eftir, enda erfitt að vera mótfallinn
betra heilbrigðiskerfi, auk þess sem hver könnunin á fætur annarri hefur leitt í ljós að heilbrigðismál
eru eitt af því sem brennur heitast á fólki, þrátt fyrir að þau hafi oftlega fallið í skuggann af öðrum
málum.

Innflytjendamálin sem voru áberandi árið 1995 voru það ekki í upphafi kosningabaráttunnar en hafa
æ oftar verið nefnd, að frumkvæði Framfaraflokksins sem Width segir hafa verið gert til að hressa
upp á fylgið, sem dregið hefur úr eftir óskabyrjun. Hagen viti sem er að margir séu sammála honum
um innflytjendamál, þótt þeir fari ef til vill ekki hátt með það. Þá hefur umræðan um strangari
refsingar skotið upp kollinum á síðustu dögum og virðast flokkarnir nær allir sammála um að þeirra
sé þörf.

Flokkseigandinn Hagen
Hagen hefur oft verið líkt við hægriöfgamennina Jörgen Haider í Austurríki og Jean Marie Le Pen í
Frakklandi, að ósekju að mati Aardal og Width. Sá síðarnefndi telur skoðanir Hagens reyndar
enduróm af málflutningi tvímenninganna þótt hann gangi ekki eins langt, en Aardal telur það rangt,
t.d. bendi ekkert til þess að andúð á innflytjendum sé að aukast í Noregi. Báðir eru þeirrar
skoðunar að Hagen sé kannski fyrst og fremst tækifærissinni, dæmi um það séu yfirlýsingar hans
um skattamál en hann hafi slegið mjög af kröfum sínum um lægri skatta, þegar honum þótti
einsýnt að það væri vænlegra til árangurs. Þá hafi innflytjendamálin ekki verið á stefnuskrá
flokksins í upphafi, heldur hafi hann tekið þau upp á sína arma þegar hann varð þess áskynja að
margir Norðmenn voru lítt hrifnir af innflytjendum.

Hagen er þrautþjálfaður stjórnmálamaður sem veit hvað hann segir og hvað ekki. Width segir hann
hafa nýtt sér þessa kunnáttu til hins ýtrasta þegar hann ræði viðkvæm mál á borð við
innflytjendamál; allir viti hvað við sé átt þótt orðin í sjálfu sér segi lítið. Hann sé áberandi maður
sem minni frekar á flokkseiganda en leiðtoga, og að svo virðist sem margir kjósendur hugsi ekki út
í það að fleiri séu í Framfaraflokknum en hann, þeir þekki lítið sem ekkert til annarra frambjóðenda,
sem séu afar tryggir flokki sínum og leiðtoga.

"Hagen býður upp á einfaldar lausnir, sem hann tyggur ofan í fólk. Hann er vanur því að vera í
sífelldri sókn og því hefur það reynst honum snúið að þurfa að verjast þegar Jagland tók upp á því
að beina spjótum sínum að Framfaraflokknum, í stað hins hefðbundna andstæðings,
Hægriflokksins," segir Aardal.

Verkamannaflokkurinn stóð illa í skoðanakönnunum, var kominn niður fyrir 30%, og ljóst að margir
kjósenda hans voru hrifnir af málflutningi Hagens, sem til að bæta gráu ofan á svart lýsti því yfir að
hann væri sáttur við að Verkamannnaflokkurinn yrði áfram í stjórn. "Þá varð Jagland nóg boðið,
eitthvað varð að gera. Hann réðst á Framfaraflokkinn og varaði kjósendur sína ennfremur við því að
fengi Verkamannaflokkurinn ekki sama hlutfall atkvæða og í síðustu kosningum, myndi hann hætta
í stjórn. Ég held að flestir séu sammála um að þetta hafi verið heimskuleg yfirlýsing, þó hún kunni
að hafa hreyft við mörgum kjósendum. Mér finnst hins vegar fulllangt gengið að tala um hótun eins
og sumir hafa gert." Bendir Aardal á þá skringilegu staðreynd að jafnvel þótt Verkamannaflokknum
takist ekki að ná þeim 36,9% sem Jagland hefur heitið, kunni hann að fá fleiri þingsæti en nú,
vegna atkvæðadreifingar.

Ástæðu slaks gengis Verkamannaflokksins telur Aardal m.a. leiðtogaskiptin, er Jagland tók við af
Gro Harlem Brundtland og erfiðleika hans með ýmsa ráðherra sína. "Stríðinu um Evrópumálin var
lokið í bili, atvinnuástandið tryggt og efnahagurinn í blóma. Flokknum hefur hins vegar gengið illa að
nýta sér þetta en nú er kosningavél hans komin í gang og flokkurinn þokast hægt upp á við."

Evrópumálin
Evrópumálin hafa ekki verið til umræðu, þrátt fyrir tilraunir Miðflokksins til þess. En þau krauma
undir og áhrifa þeirra gætir svo sannarlega í kosningabaráttunni, að mati Aardals. "Í kosningunum
um aðild að Evrópusambandinu klofnuðu margir flokkar í afstöðu sinni til ESB og bilið á milli
flokkanna ýmist mjókkaði eða breikkaði. Og línurnar, sem dregnar voru í norska flokkapólitík, eru
enn til staðar. Eftir hrun kommúnismans hefur munurinn á hægri- og vinstriflokkum minnkað þótt
flokkarnir séu enn til. En með hinni hatrömmu ESB-umræðu breikkaði t.d. bilið á milli
Hægriflokksins og Miðflokksins svo mikið að þeir aftaka nú með öllu að vinna saman. Sósíalíski
vinstriflokkurinn er klofinn m.a. vegna þess að hluti flokksmanna hans er búinn að fá nóg af
samvinnu við Verkamannaflokkinn og vill frekar vinna með Miðflokkunum, sem þeir nálguðust svo
mjög í nei-baráttunni. Það er ekki enn fullreynt hvaða varanlegu áhrif Evrópuumræðan hefur en árið
1972 varð hún til að kljúfa flokka og flýta fyrir því að t.d. umhverfismál voru tekin á dagskrá mun fyrr
en ella."

Einn angi Evrópuumræðunnar kom þó upp á yfirborðið í vor, en það voru harðar deilur um
Schengen-samkomulagið, sem miðjuflokkarnir, Miðflokkurinn, Kristilegi þjóðarflokkurinn og
Venstre, eru andvígir. En Schengen- og Evrópuumræðan virðist dáin drottni sinum, þó vera kunni
að henni skjóti síðar upp á yfirborðið.

Klæðlítill Hægriflokkur
Hægriflokkurinn, sem var lengi næststærsti flokkurinn og hefur hlotið yfir 30% fylgi, sér nú fram á
algert hrun. Honum er spáð um 10% atkvæða og nafn Jans Petersens, leiðtoga flokksins, er nær
aldrei nefnt þegar rætt er um líkleg forsætisráðherraefni. Width telur hluta skýringarinnar þá að
Hægriflokkurinn hafi ekki gert nógu skýran greinarmun á sér og Framfaraflokknum. Aardal tekur
undir þetta, segir marga hægrimenn hafa horfið til Framfaraflokksins, m.a. vegna frjálslyndrar stefnu
hans. "Hins vegar vilja margir hægrimenn ekki sjá stefnu Framfaraflokksins í innflytjendamálum og
það setur Hægriflokkinn í vanda, hann vill hvorugan hópinn styggja. Þá líður Hægriflokkurinn enn
fyrir afstöðu sína til ESB, leiðtogann sem margir eru ósáttir við og það hversu lítill munur er orðinn á
Hægriflokknum og Verkamannaflokknum.

Jan P. Syse, fyrrverandi forsætisráðherra hægrimanna, sagði fyrir nokkrum árum að
Verkamannaflokkurinn hefði stolið fötum hægrimanna á meðan þeir böðuðu sig og átti við að þeir
hefðu stolið málefnunum. Hægriflokknum hefur ekki alveg tekist að finna sér ný baráttumál."

Hinir flokkarnir tveir sem tapa miklu fylgi eru Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn. Aardal
segir þá báða vera að missa fylgi sem þeir fengu vegna Evrópuandstöðu sinnar, sérstaklega
Miðflokkurinn. Sósíalíski vinstriflokkurinn sé einnig klassískur vinstriflokkur sem hafi átt erfitt
uppdráttar vegna hruns kommúnismans, leiðtogaskipta og deilna um hvaða stefnu skuli taka.

Ekki dregið úr áhuga almennings
Það er lítið um veggspjöld á götum úti og auglýsingar stjórnmálamanna eru bannaðar í
ljósvakamiðlum. Hins vegar ganga margir stjórnmálmenn á milli húsa og ræða við kjósendur beint.
Svo virðist sem Norðmenn hafi heilmikinn áhuga á stjórnmálum, þrátt fyrir alla velferðina, sem
menn kynnu að ætla óvin stjórnmálaáhugans. Stjórnmálaþátttaka er um 80% að jafnaði og fór í
89% í kosningum um Evrópusambandið. Fyrir nokkrum vikum virtust fjölmargir ætla að sitja heima,
en hitinn í kosningabaráttunni hefur orðið til þess að allt bendir til þess að jafnmargir greiði atkvæði
og í síðustu kosningum. "Þetta er óneitanlega skrýtin barátta, að tekist skuli á um alla þessa
peninga. Erlendar skuldir hafa verið greiddar upp, olíuiðnaður skilar afgangi og iðnaður í landi er á
uppleið. En á móti kemur að margir eru hræddir um að fara of geyst og óttast verðbólgudrauginn,
svo það er tekist á."

Flókið púsluspil
Málefnin eru ekki það eina sem kosningarnar snúast um, þær snúast ekki síður um það hverjir séu
hæfustu leiðtogarnir. Jagland nýtur mests fylgis en Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi leiðtogi
Kristilega þjóðarflokksins, kemur fast á hæla honum. Width og Aardal segja flokk Bondeviks
hagnast á löngun margra eftir breytingum og andúð á Framfaraflokknum, hann lendi þarna á milli
og Bondevik sé reyndur stjórnmálamaður og frambærilegur.

En þar sem ekki er kosið um forsætisráðherra, vandast málið. Mið- og borgaraflokkarnir eru margir
og smáir, og það er meiri hreyfing á kjósendum en nokkru sinni enda erfitt að gera upp á milli allra
flokkanna, sem eru alls 21, þar af bjóða átta fram á landsvísu. Miðflokkarnir hafa sýnt áhuga á því
að mynda ríkisstjórn, nokkuð sem ekki hefur gerst fyrr, að sögn Aardal. Ástæðan er m.a. sú
samvinna sem komst á vegna andstöðu flokkanna við ESB en hún hefur einnig orðið til þess að
Miðflokkurinn og Hægriflokkurinn, sem studdi ESB-aðild eindregið, þvertaka báðir fyrir samstarf sín
í milli. "Svo er að sjá hvað gerist þegar á hólminn er komið, hvort flokkarnir grafa stríðsöxina til
þess að mynda stjórn borgara- og miðflokka, opnist möguleiki á slíku," segir Aardal. "Þeirra bíður
flókið púsluspil nái Verkamannaflokkurinn ekki markmiði sínu. En takist það, tel ég ólíklegt annað
en að hann haldi velli, svo sterk er staða flokksins þrátt fyrir allt."
Seinkun EMU útheimtir breytingu á Maastricht

MAASTRICHT-sáttmálinn veitir ekkert svigrúm til að fresta gildistöku Efnahags- og myntbandalags
Evrópu (EMU) frekar en orðið er, að sögn embættismanna, sem Morgunblaðið ræddi við í Brussel.
Viðmælendur blaðsins segja að vilji menn seinka gildistöku EMU, til dæmis vegna
efnahagsvandans í Þýzkalandi, verði að breyta sáttmálanum, en slíkt sé nánast útilokað vegna
þess tíma og fyrirhafnar, sem það hefði í för með sér, burtséð frá pólitískum afleiðingum.

Fylgismenn frestunar á gildistöku EMU hafa vitnað í grein 109j í Maastricht-sáttmálanum, en þar
segir að hafi dagsetning gildistöku EMU ekki verið ákveðin fyrir árslok 1997, skuli myntbandalagið
ganga í gildi 1. janúar 1999. Viðmælendur Morgunblaðsins segja að það hafi aldrei verið ætlunin að
hægt yrði að lesa út úr þessari grein að gildistakan gæti orðið síðar en 1999, heldur hafi hún þvert
á móti átt að gefa kost á að flýta gildistöku EMU.

Hafa ekki lesið sáttmálann
"Seinkun gildistöku er óframkvæmanleg. Hún hefði í för með sér að taka yrði samninginn upp að
nýju og síðan yrðu fimmtán þjóðþing að staðfesta breytinguna. Þetta gæti seinkað EMU um tíu ár,"
segir hátt settur embættismaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. "Umræður í Þýzkalandi
um að seinka gildistöku EMU fara eingöngu fram á meðal þeirra, sem hafa ekki lesið Maastricht-
sáttmálann."

Það viðhorf er ríkjandi á meðal sérfræðinga í peningamálum að þýzka stjórnin muni reyna sitt
ýtrasta til að standa við skilyrði Maastricht-sáttmálans um fjárlagahalla og opinberar skuldir hvað
sem það kostar, jafnvel með "bókhaldsbrögðum", en Þjóðverjar hafa gagnrýnt slíka talnaleiki hjá
öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Svigrúm til pólitískrar túlkunar
Sérfræðingar benda jafnframt á að Maastricht-sáttmálinn gefi nokkurt svigrúm til pólitískrar túlkunar
á því, hvort markmiðunum hafi verið náð -fjárlagahalli upp á 3% af landsframleiðslu og skuldahlutfall
upp á 60% séu ekki heilagar tölur. Það nægi til dæmis að ríki "nálgist" markmiðið um 3%
fjárlagahalla "umtalsvert og samfellt", eða þá að halli umfram 3% sé aðeins "tímabundin
undantekning."

"Kostnaðurinn af sameiningu Þýzkalands er tímabundin undantekning," segir einn þeirra
embættismanna, sem við var rætt.

EMU sem "tóm skel"?
Að sögn Reuters-fréttastofunnar hafa hugmyndaríkir lögfræðingar varpað því fram að takist
nægilega mörgum aðildarríkjum ekki að uppfylla skilyrðin í Maastricht sé hægt að hleypa EMU af
stokkunum sem "tómri skel" - þ.e. að myntbandalagið taki gildi samkvæmt samningnum en hafi
engin aðildarríki.
Bandaríkin og Kína deila um mannréttindi

Líkar ekki umvandanir alræðisstjórnar

Washington. Reuter.

BANDARÍKIN eru í fylkingarbrjósti í mannréttindabaráttunni og kunna lítt að meta umvandanir
"alræðisstjórna, sem troða á grundvallarréttindum manna". Kom þetta fram hjá talsmanni
bandaríska utanríkisráðuneytisins í fyrradag en tilefnið var viðbrögð kínverskra stjórnvalda við
gagnrýni Bandaríkjastjórnar á ástand mannréttindamála í Kína.

Kínastjórn brást mjög hart við aðfinnslum í sinn garð í árlegri skýrslu Bandaríkjastjórnar um
mannréttindamál og svaraði meðal annars með því að lýsa Bandaríkjunum sem landi byssunnar,
hryðjuverka og kynþáttamismununar. Þar sagði einnig, að bandarískt lýðræði væri aðeins fyrir hina
ríku.

Harðorð ályktun
Nicholas Burns, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði í svari sínu, að Bandaríkin
hefðu ávallt verið lýðræðisríki enda vildu milljónir manna um allan heim fá að setjast þar að öfugt við
það, sem væri í alræðisríkjunum. Straumurinn lægi ekki til þeirra, heldur frá þeim.

Bandaríkin og Evrópuríkin ætla að standa saman að harðorðri ályktun um mannréttindamál í Kína á
fundi mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en hún kemur saman til fundar í Genf síðar í
þessum mánuði.
Meirihluti sænskra kjósenda hlynntur EMU-aðild

MEIRIHLUTI Svía er hlynntur aðild lands síns að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU),
samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar, sem sænska blaðið Expressen birti á mánudag. Hins
vegar er talið ólíklegt að ríkisstjórn Görans Persson ákveði að stefna á stofnaðild að bandalaginu
strax árið 1999, þótt sænski seðlabankinn þrýsti nú á um slíka ákvörðun.

Í könnun Expressen sögðust 26% hlynnt EMU-aðild strax árið 1999 og 26% sögðust hlynnt aðild,
en ekki strax við stofnun EMU. Andstæðingar EMU-aðildar eru 37%. Úrtak könnunarinnar var 1.000
manns.

Monica Björklund, stjórnmálaskýrandi Svenska Dagbladet, segir að þessar tölur komi á óvart, enda
hafi meirihluti Svía hingað til verið andvígur EMU-aðild. Hins vegar sé til í dæminu að almenningur
hafi nú áttað sig á því að EMU muni verða að raunveruleika og óttist áhrif þess fyrir Svía að standa
utan myntbandalagsins.

Seðlabankinn vill stofnaðild
Seðlabanki Svíþjóðar þrýstir nú í auknum mæli á ríkisstjórn Görans Persson að stefna á stofnaðild
að EMU, samkvæmt fréttum sænskra blaða. Bankinn mótmælti á sínum tíma þeirri niðurstöðu
Calmfors- nefndarinnar að Svíþjóð ætti að bíða með aðild að myntbandalaginu. Að mati
seðlabankans er ljóst að evróið verður notað í Svíþjóð, hvað sem stjórnmálamennirnir segja.
Fyrirtæki munu sækjast eftir að taka lán í evró og heimilin einnig, þegar fram líða stundir. Þá kann
sparnaður Svía að leita yfir í evró. Bankinn telur því að fjármálageirinn og efnahagslífið í heild muni
líða fyrir seinkun á aðild.

Stefan Ingves, aðstoðarseðlabankastjóri, sagði í erindi í síðustu viku að ef Svíþjóð yrði með í EMU
frá upphafi mætti forðast ónauðsynlegar og dýrar lausnir, bæði fyrir fyrirtækin og samfélagið.

Búizt við að aðild seinki
Göran Persson, sem var hlynntur EMU sem fjármálaráðherra, hefur ekki viljað taka af skarið
varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar eftir að hann varð forsætisráðherra. Hann hefur lofað að segja hug
sinn í næsta mánuði og búast margir við að hann muni nota frídag verkalýðsins til að gefa
yfirlýsingu. Flestir búast við að hann muni lýsa því yfir að beðið verði með aðild að EMU í nokkur
ár.

Stjórnmálaskýrendur telja að Persson hafi ekki tekizt að sannfæra nægilega stóran hluta
Jafnaðarmannaflokksins um ágæti EMU- aðildar og jafnframt hafi hann áhyggjur af afstöðu
Miðflokksins, sem hefur veitt stjórninni stuðning í ýmsum mikilvægum málum.

Að sögn Reuters-fréttastofunnar sagði formaður Miðflokksins, Olof Johansson, á fundi á mánudag
að ef stjórn Jafnaðarmannaflokksins reyndi að koma Svíþjóð inn í EMU, myndi flokkur hans hætta
stuðningi við hana. Jafnaðarmenn þyrftu þó ekki á stuðningi Miðflokksins að halda til að taka
ákvörðun um EMU-aðild, þar sem næststærsti flokkurinn á þingi, Hægriflokkurinn, styður inngöngu
í EMU eindregið.
Eitt ár liðið frá upphafi kúariðufársins

Neytendavernd bætt

Brussel. Reuter.

ÁR VAR liðið í gær frá því Stephen Dorrell, heilbrigðisráðherra Bretlands, viðurkenndi í þingræðu að
tengsl kynnu að vera á milli kúariðu og Creutzfeldt-Jakob-sjúkdóms í mönnum. Sú yfirlýsing hleypti
af stað miklu fári í Evrópu og varð Evrópusambandinu tilefni til að banna allan útflutning brezks
nautakjöts.

Á þessum tímamótum reyndi Emma Bonino, framkvæmdastjórnarmaður ESB, sem nú hefur verið
falið að hafa yfirumsjón með heilbrigði matvæla, að sannfæra Evrópuþingið um að
framkvæmdastjórnin ætlaði að grípa til raunhæfra aðgerða til að hindra að sagan endurtæki sig og
að neytendum gæti stafað hætta af matvöru.

Bonino lofaði meðal annars að setja á stofn sérstaka vísindanefnd til að kanna áhrif
erfðaefnisbreyttra matvæla á menn. Hún sagðist jafnframt hafa orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðun
landbúnaðarráðherra ESB-ríkja fyrr í vikunni, en þeir ákváðu að skjóta upprunamerkingum á
nautakjöti á frest fram til ársins 2000.

Bonino lofaði skýrslu um heilbrigði matvæla í næsta mánuði og ráðstefnu um sömu mál í
september.

Kostnaðurinn 420 milljarðar
Síðastliðinn áratug hafa komið upp 178.000 tilfelli af kúariðu í Evrópusambandinu og Sviss. Þar af
voru 172.000 í Bretlandi. Næstflest tilfelli voru í Sviss, 230, og 185 tilfelli uppgötvuðust á Írlandi.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við aðgerðir ESB til að berjast gegn sjúkdómnum og bætur til bænda
fyrir nautgripi, sem þeir hafa orðið að slátra, nemi um 420 milljörðum króna á þremur árum. Bretar
hafa þegar slátrað 1,3 milljónum fullorðinna nautgripa og í þessari viku var byrjað að slátra 100.000
í viðbót.
Neyðarástand í Arkansas, Ohio og Kentucky

Gífurlegt tjón af völdum skýstróka og flóða

Arkadelphia. Reuter.

MIKLIR skýstrókar ollu gífurlegu tjóni í Arkansas í Bandaríkjunum sl. laugardag og á sunnudag var
víða eins og yfir vígvöll að líta. Heilu hverfin í sumum bæjum voru í rúst og að minnsta kosti 24
manns týndu lífi. Í Ohio, Kentucky, Mississippi og Tennessee hafa nítján manns látist af völdum
skýstróka og mikilla flóða í kjölfar þeirra. Þrumuveður varð tveimur Texas-búum að bana á
sunnudag.

Meira en 20 skýstrókar fóru yfir Arkansas á laugardag og skildu þeir eftir sig eyðileggingu á 400
km löngu svæði frá suðurhluta ríkisins að landamærunum við Missouri. Var búist við, að Bill
Clinton, forseti Bandaríkjanna, lýsti svæðið sérstakt hamfarasvæði og kæmi sjálfur á vettvang í
þessu heimaríki sínu í dag.

Bærinn Arkadelphia varð einna verst úti en þar fórust sex og um 80 manns slösuðust. Hundruð
íbúðarhúsa og annarra bygginga eyðilögðust. Mike Huckabee, ríkisstjóri í Arkansas, kom þangað í
gær og honum ofbauð eyðileggingin. Sagði hann, að ástandið væri eins og eftir ragnarök og bætti
við, að á laugardag hefðu verið fleiri skýstrókar í Arkansas en allt sl. ár.

Hverfið þurrkaðist út
Yfirleitt snerta skýstrókar jörðu í stutta stund og hverfa síðan en nú fóru þeir eftir meira en hálfu
ríkinu. Eitt íbúðarhverfið í Arkadelphia þurrkaðist alveg út en þar voru hjólhýsi, timburhús og nokkur
múrsteinshús. Höfðu flestir íbúanna leitað skjóls annars staðar.

Í fyrradag var byrjað á að fjarlægja brak úr húsum, fallin tré og sundurtættar leiðslur en mikið úrfelli
hamlaði verkinu og einnig haglél en stærstu höglin voru á við hænuegg.

Gífurlegar rigningar ollu því, að ár flæddu yfir bakka sína í Ohiodalnum og hefur verið lýst yfir
neyðarástandi á sumum svæðum í Ohio, Kentucky og í Vestur- Virginíu. Í Kentucky drukknuðu sjö
manns og tveir í Ohio en átta er enn saknað. Heita má, að bæirnir Falmouth og Butler í Kentucky
séu á kafi.

24 sm úrkoma á sólarhring
Frá því seint á föstudegi og fram eftir sunnudegi hafði rignt sem svarar til 30 sm í borginni Louisville
í Kentucky og þar af 24 sm á einum sólarhring. Hefur aldrei mælst þar önnur eins úrkoma enda
hækkaði vatnsborð Ohio-fljótsins um 5,8 metra á einum sólarhring. Búist var við, að vatnið í fljótinu
héldi áfram að aukast fram á morgundaginn.
Áhrif ósongatsins yfir Suðurskautslandinu

Fábrotin dýr afmyndast vegna geislunar

Palmer-stöðinni, suðurskautinu. Reuter.

ÁHRIFA útfjólublárrar geislunar virðist farið að gæta hjá dýralífi á suðurskautssvæðinu þar sem
geislun er óvenjumikil vegna ósongatsins í fjóra mánuði á ári hverju. Fóstur krossfiska bera
einkenni afmyndunar og drepast áður en eggin klekjast út. Ígulker hætta hrygningu og dæmi er um
jurtir sem myndað hafa sérstaka vörn gegn útfjólublárri geislun.

Vísindamenn velta því fyrir sér hvort afmyndun plantna og fábrotinna dýra af völdum ósongatsins sé
aðeins forsmekkurinn og síðar komi að sjálfri mannskepnunni.

Rannsóknir bandarískra vísindamanna í Palmer-stöðinni á Anvereyju við Suðurskautslandið hafa
leitt í ljós, að einfaldar dýrategundir sýna einkenni afmyndunar af völdum útfjólublárrar geislunar. Á
það við um svifdýr og lindýr, sem dýr ofar í fæðukeðjunni nærast á. Enginn þorir að segja til um
áhrif þessa, svo sem á hvali sem lifa á svifdýrum og sjófugla sem lifa á skelfiski.

Líffræðingar hafa komist að því, að fóstur sæsnigla og annarra hryggleysingja vaxa óeðlilega og
afmyndast er þau lenda í "steypibaði" útfjólublárra geisla á vorin. Svífa lirfur í yfirborðslagi hafsins í
milljónatali þar sem þær eru auðveld bráð dýra ­ og geislunar. Fullvaxin virðast dýrin ekki verða fyrir
áhrifum útfjólubláa ljóssins þar sem þau lifa á miklu meira dýpi.

Búa til eigin varnir
Sumar lífverur á suðurskautssvæðinu hafa brugðist við geisluninni af eigin rammleik og jafnvel
myndað varnir gegn henni. Dæmi þess efnis er svonefnd perlujurt sem byrjað hefur á því að
framleiða sérstakt litarefni til að verja sig, og komið hefur í ljós, að nokkur lindýr framleiða nú
kjarnsýru sem drekkur í sig útfjólubláa geisla og virðist verja dýrin með sama hætti og sólkrem.
Múslimabandalagið vinnur stórsigur í kosningunum í Pakistan

Namaz Sharif stafar lítil hætta af flokki Bhutto

Ætti að standa vel að vígi reyni hann að skerða völd forsetans

Íslamabad. Reuter, The Daily Telegraph.

FRÉTTASKÝRENDUR sögðu í gær að stórsigur Múslimabandalags Namaz Sharifs í
þingkosningunum í Pakistan á mánudag þýddi að hann gæti myndað sterka stjórn, sem stafaði
ekki mikil hætta af Þjóðarflokki Benazir Bhutto, er galt mikið afhroð í kosningunum. Sharif ætti
einnig að standa vel að vígi ef togstreita skapaðist á ný milli stjórnarinnar og forsetaembættisins,
sem hefur vikið fjórum síðustu ríkisstjórnum landsins frá.

Bhutto sakaði yfirvöld um stórfelld kosningasvik en erlendir eftirlitsmenn frá Evrópusambandinu og
Breska samveldinu voru sammála um að úrslitin endurspegluðu vilja pakistönsku þjóðarinnar þrátt
fyrir minniháttar galla á framkvæmd kosninganna. "Eftirlitsmennirnir fundu engar vísbendingar um
stórfelld kosningasvik," sagði í yfirlýsingu frá eftirlitsnefnd Evrópusambandsins.

Bhutto neitaði að viðurkenna úrslitin en sagðist vilja að Þjóðarflokkurinn og stjórn Sharifs ynnu
saman að því að koma á "pólitískum stöðugleika til að styrkja lýðræðið og efnahag landsins".

Þegar úrslit lágu fyrir í 194 kjördæmum af 217 hafði Þjóðarflokkurinn aðeins fengið 17 þingsæti, en
flokkur Sharifs, Múslimabandalagið, 132. Líklegt var að Múslimabandalagið og samstarfsflokkur
þess fengi tvo þriðju þingsætanna, sem nægir til að breyta stjórnarskránni.

Þjóðarflokkurinn fékk 86 þingsæti í síðustu kosningum í október 1993 og myndaði meirihlutastjórn
með stuðningi smærri flokka og óháðra þingmanna. Forsetinn, Farooq Leghari, leysti þingið upp og
vék Bhutto úr embætti forsætisráðherra 5. nóvember vegna ásakana um spillingu og óstjórn.

Þarf að gæta sín á hernum
Heimildarmenn í Þjóðarflokknum sögðu að Bhutto hefði hugleitt þann möguleika að flokkurinn
sniðgengi þingið til að mótmæla meintum kosningasvikum. Fréttaskýrendur sögðu að slíkt hefði
ekki skipt nokkru máli fyrir stjórn Sharifs vegna ófara Þjóðarflokksins í kosningunum.

"Þótt Þjóðarflokkurinn vildi spilla fyrir, þá gæti hann það ekki," sagði Shirin Mazari, sérfræðingur í
stjórnmálum Pakistans.

Mazari bætti við að þótt Sharif stafaði ekki mikil hætta af Þjóðarflokknum þyrfti hann að gæta sín á
forsetanum og yfirmönnum hersins, sem hafa haft mikil áhrif í landinu. Pakistan hefur verið undir
stjórn hersins í 24 ár af 50 frá því landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi. Forsetinn hefur vikið fjórum
síðustu ríkisstjórnum Pakistans frá, þar af tveimur stjórnum Bhutto og einni sem Sharif fór fyrir.

Sartaj Aziz, framkvæmdastjóri Múslimabandalagsins, sagði að tryggja þyrfti pólitískan stöðugleika
í landinu og því væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir frekari togstreitu milli forseta landsins og
forsætisráðherrans.

Aziz gaf til kynna að Múslimabandalagið hygðist ekki afnema svokallað Varnarmála- og
þjóðaröryggisráð, sem Leghari forseti stofnaði í síðasta mánuði. Ráðið er skipað nokkrum
háttsettum ráðherrum og hershöfðingjum og tryggir hernum formleg áhrif á stjórn landsins þótt það
eigi aðeins að gegna ráðgjafarhlutverki. Aziz sagði að nýja þingið myndi láta á það reyna hvernig
ráðið starfaði áður en ákveðið yrði um framtíð þess.

Fyrir kosningarnar höfðu andstæðingar Sharifs sakað hann upp að hafa gert leynilegan samning við
Leghari um að Múslimabandalagið gæti komist til valda að því tilskildu að það féllist á "ráðgjöf"
öryggisráðsins. Báðir sögðu þeir ekkert hæft í þeim ásökunum.

Þarf að minnka völd forsetans
Fréttaskýrendur sögðu að Sharif þyrfti að nota sterka stöðu sína á þinginu til að afnema
öryggisráðið og stjórnarskrárákvæði, sem heimilar forsetanum að leysa upp þingið og víkja
ríkisstjórnum frá.

Mazari sagði að Sharif þyrfti að leggja megináherslu á að tryggja raunverulegt þingræði í landinu og
auka völd forsætisráðherrans á kostnað forsetans. Slíkt gæti leitt til togstreitu milli stjórnarinnar og
Legharis, en forsætisráðherrann ætti að vera sterkur að vígi vegna hins mikla stuðnings sem
flokkur hans fékk í kosningunum.

"Pakistan er eins og hálfkarað hús," sagði Mazari. "Við segjumst búa við þingræði, en reyndin er
sú að völd forsetans hafa aukist og við getum ekki haldið áfram á sömu braut."

Ekki var greint frá því í gær hversu mikil kjörsóknin var en pakistanskir embættismenn sögðu að
hún hefði verið innan við 20%. Þessi litla kjörsókn er talin áfall fyrir Leghari, sem boðaði til
kosninganna þrátt fyrir kröfur almennings um að spilltir stjórnmálamenn yrðu sóttir til saka og
hreinsað yrði til í stjórnkerfinu áður en gengið yrði til kosninga.

Búist við viðræðum við Indverja
Sharif var forsætisráðherra á árunum 1990-93 og ræddi þá nokkrum sinnum við P.V. Narisimha
Rao, forsætisráðherra Indlands, en viðræður ríkjanna hafa legið niðri í þrjú ár. Ríkin hafa hafa háð
þrjú stríð, þar af tvö um Kasmír, frá því þau fengu sjálfstæði frá Bretlandi fyrir hálfri öld.

Robin Raphel, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fer með málefni Suður-Asíu, kvaðst
telja að Sharif myndi standa við orð sín um að hefja viðræður við Indverja að nýju.

Pakistanar vilja að Kasmírbúar fái að ákveða framtíð landsvæðisins í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Indverjar, sem stjórna tveimur þriðju svæðisins, hafa hafnað þessu og saka Pakistani um að hafa
veitt aðskilnaðarsinnum í Kasmír hernaðaraðstoð. Pakistanir segjast hins vegar aðeins hafa veitt
þeim pólitískan stuðning.
Þúsundir íbúa í Winnipeg flýja vegna leka í flóðvarnargarði

Vatnshæð að ná hámarki

Winnipeg í Manitoba og Grand Forks í Norður-Dakóta. Reuter.

ÞÚSUNDIR íbúa Winnipeg-borgar í Manitoba-fylki í Kanada flúðu heimili sín í gær þegar flóðvatn
Rauðár tók að leka í gegn um fimm metra háan varnargarð, sem byggður hafði verið í skyndi á
síðustu dögum við suðvesturenda borgarinnar.

Átta þúsund manns í St.Norbert- úthverfinu þurftu að rýma hús sín. Fljótlega gekk að þétta lekann.
Sérfræðingar yfirvalda höfðu spáð að flóðið næði hámarki í Winnipeg 5. maí, en hafa nú flýtt þeirri
dagsetningu og segja borgarbúum, sem eru um 650.000, að búast við hámarksvatnshæð 2. eða 3.
maí. Það þýðir þó ekki að eftir það sé öll hætta liðin hjá, því vatnið rennur mjög hægt vegna þess
hve flatlent er á þessum slóðum. Gert er ráð fyrir að það taki vatnið allt að fjórar vikur að sjatna.

Alls hafa 28.000 Kanadamenn fram að þessu verið knúnir til að yfirgefa heimili sín vegna flóðsins í
Rauðá, og áður en flóðið færðist norður fyrir landamæri Norður- Dakóta og Manitoba höfðu 50.000
Bandaríkjamenn þurft að gera hið sama. Tveggja kanadískra drengja og eins manns hefur verið
saknað frá í liðinni viku, og er talið að þeir hafi drukknað í flóðinu.

Íslenzk fjölskylda flýði flóðið
Frétzt hefur af einni íslenzkri fjölskyldu, sem neyðzt hefur til að yfirgefa heimili sitt vegna
flóðahættu. Drífa Úlfarsdóttir þurfti ásamt þremur börnum sínum að yfirgefa heimili sitt fyrir síðustu
helgi, þar sem hverfið sem húsið er í stendur mjög lágt við bakka Rauðár inni í borginni. Hún hefur
nú leitað skjóls hjá vinafólki.

"Borgaryfirvöld voru að segja fólki, sem býr næst við Rauðá og Assiniboine-ána [sem rennur saman
við Rauðá í miðborg Winnipeg], 3.000 heimilum eða 10.000 manns, að vera reiðubúið að yfirgefa
húsin," sagði Drífa í samtali við Morgunblaðið.

"Ég bý líka við Rauðána og fer alltaf þangað niðureftir á hverjum degi að skoða," sagði Ingibjörg
Torfadóttir, móðir Drífu, í samtali við Morgunblaðið, en hún hefur búið í Winnipeg í 17 ár.
"Vatnsborðið hækkar og hækkar og ég er orðin mjög uggandi um að það fari allt á kaf hjá okkur
líka."

Flestir þeir sem ættir eiga að rekja til Íslands búa í Winnipeg eða norðan við borgina, í Selkirk og
milli stöðuvatnanna þar sem heitir "Nýja Ísland".

Vonazt er til að flóðvarnargarðar og ekki sízt flóðbrautin svokallaða, sem byggð var 1968 til að veita
flóðvatni fram hjá borginni, bjargi mestum hluta hennar frá tjóni, jafnvel þótt vatnsmagnið sé nú
þegar orðið meira en árið 1950, þegar 100.000 manns þurftu að flýja heimili sín vegna Rauðárflóðs.

Ótti borgarbúa snýr nú mest að því að hætta er á að flæði upp úr skólp- og veitulögnum.
Borgarbúum hefur verið ráðlagt að fjarlægja öll verðmæti úr kjöllurum.
40 ár liðin frá undirritun Rómarsáttmálans

Friður merkasti árangurinn

Brussel. Reuter.

UTANRÍKISRÁÐHERRAR Evrópusambandsins koma í dag saman í Róm til að halda upp á
fertugsafmæli stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, sem nú heitir Evrópusambandið.
Rómarsáttmálinn, sem enn er undirstaðan í stofnsáttmála ESB, var undirritaður 25. marz 1957 og
tók gildi í ársbyrjun 1958.

Sennilega verður ráðherrunum tíðrætt um að merkasti árangur Evrópusambandsins sé að nú ríki
friður á meðal fornra fjenda. Fulltrúar Evrópuríkjanna sex, sem komu saman í Róm fyrir fjórum
áratugum, undirrituðu sáttmála um að draga úr viðskiptahindrunum, taka upp sameiginlega
landbúnaðarstefnu og tryggja frjálsa för fólks, fjármagns, vöru og þjónustu á milli ríkjanna.

Markmiðin voru hins vegar fleiri. Af ríkjunum sex höfðu Ítalía og Þýzkaland beðið ósigur í mesta
hildarleik mannkynssögunnar. Lúxemborg, Frakkland, Holland og Belgía höfðu lotið í lægra haldi
og verið hernumin í upphafi styrjaldarinnar.

Öll höfðu þessi ríki verið lögð í rúst að meira eða minna leyti og ekkert þeirra fýsti að grípa til vopna
gegn hinum á ný. Meginröksemd leiðtoganna var sú að ef ríkin yrðu bundin sterkum
efnahagslegum böndum gætu þau ekki framar ráðizt hvert gegn öðru.

Tvö stríð og nú sameiginlegur gjaldmiðill á sömu öld
Evrópusambandið teygir sig nú allt frá heimskautahéruðum Finnlands og Svíþjóðar og suður til
Spánar. Orrusturnar eru nú háðar í Evrópuþinginu eða ráðherraráði ESB, ekki á vígvöllunum. "Á 40
árum hafa lönd okkar lært að vinna saman," segir Jacques Santer, forseti framkvæmdastjórnar
sambandsins. "Sá tími er löngu liðinn þegar diplómatísk deila ... gat komið af stað stríði á milli
tveggja Evrópuríkja."

Santer segir að merkasti áfanginn í 40 ára þróun ESB sé samkomulagið um Efnahags- og
myntbandalag, sem á að ganga í gildi 1. janúar árið 1999. Ríkin, sem hafi borizt á banaspjótum
tvisvar sinnum á tuttugustu öldinni, muni nú nota sameiginlegan gjaldmiðil áður en öldin sé á enda.

Vilja umbætur á skólakerfinu í Singapore

Áhersla á raungreinar sögð á kostnað sköpunargáfu

MENNTAKERFIÐ í Singapore hefur verið til mikillar umræðu eftir að nemendur þar í landi voru
hæstir í heiminum á prófi í stærðfræði og vísindum. En þótt ánægju gæti með útkomuna frá því í
nóvember heima fyrir eru ekki allir ánægðir með menntakerfið sjálft og þegar Goh Chok Tong
forsætisráðherra vann stórsigur í kosningunum 2. janúar lýsti hann yfir því að hann hygðist leggja
höfuðáherslu á umbætur í menntamálum.

Lee Yock Suan var færður úr menntamálaráðuneytinu og arftaka hans, Teo Chee Hean
flotaforingja, sem er á uppleið í stjórnmálum í Singapore, falið það verkefni að gera umbætur í
skólum, sem hafa hlotið þá viðurkenningu að vera bestir í heimi.

Ástæðan fyrir því að talið er að gera þurfi breytingar á skólakerfinu er sú að farið er að draga úr
hagvexti og það hefur styrkt þær raddir, sem halda því fram að í Singapore sé lögð áhersla á að
steypa alla í sama mót með þeim afleiðingum að frumleika til að standast alþjóðlega samkeppni sé
ábótavant.

Óljóst hvaða umbætur verða gerðar Teo hefur ekki sagt hvað hann ætlast nákvæmlega fyrir, en þó
er talið víst að hann hafi ekki í hyggju að knýja nemendur til að sýna sínar listrænu hliðar. Í
Singapore hefur reyndar verið reynt að auka "jafnvægi" í þjóðfélaginu með því að veita opinberu fé til
leikhúsa og listasafna, en áherslan er engu að síður á tæknihliðina.

Árangurinn á samanburðarprófinu náðist fram með mikilli vinnu, rannsóknarstofum með fullkomnum
tækjum og góðum tölvukosti fyrir nemendur. En nú vilja ráðamenn í Singapore ekki láta sér nægja
að þar sé framleiddur vélabúnaður, heldur einnig hugbúnaður.

Ýmsir segja að þar sé markið ekki sett nógu hátt og í tímaritinu Newsweek var nýverið haft eftir
Soh Yew Peng, kennara í Singapore, að þótt þar væru bestu tæknikratar í heimi menntaðir héldu
"margir því fram að þetta land hefði enga sál".

Minni áhersla á utanbókarlærdóm Skólar í Singapore hafa reyndar verið að færast frá þeim járnaga
og utanbókarlærdómi, sem einkennt hefur menntun í Austur- Asíu. Skólastjórar mæla almennt
gegn líkamlegri refsingu. Nemendur segja að nú þegar sé minni áhersla lögð á utanbókarlærdóm
og meiri á sköpunargleði. Verið sé að bæta við námskeiðum í teikningu, ljósmyndun og útivist í
skólum. Sagt er að skólar, sem undirbúi nemendur fyrir inntökupróf í háskóla, séu heldur ekki jafn
strangir og erfiðir og í Suður- Kóreu og Japan.

Íbúar Singapore hafa ekki aðeins áhyggjur af því að áherslan á raungreinar hafi verið á kostnað
sköpunargleðinnar. Undanfarið hafa stjórnmálaleiðtogar haldið því fram að æska Singapore sé á
niðurleið. Nemendur kunni ef til vill að reikna en þeir viti ekkert um söguna eða þá erfiðleika, sem
vinna varð á, þegar Singapore ruddi sér til rúms með hættur á hverju leiti. Unglingar skilji ekki hvað
það kostaði að berjast við fátækt og sameina íbúa af kínverskum, indverskum og malasískum
uppruna.

Þeir embættismenn, sem þetta segja, gefa einnig til kynna að ungt fólk mundi ekki kvarta undan
hækkandi framfærslukostnaði og höftum á málfrelsi ef það gerði sér grein fyrir þrengingum
fortíðarinnar.
Albright ræðir við Jeltsín í Kreml

Kveðst ánægð með árangurinn

Moskvu, Brussel. Reuter.

MADELEINE Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við Borís Jeltsín í Kreml í gær og
sagði að rússneski forsetinn hefði "alla þræði í hendi sér" og tæki virkan þátt í umræðunni um
stækkun Atlantshafsbandalagsins. Hún sagði að "mjög mikilvægur árangur" hefði náðst í
viðræðunum við Rússa um stækkun NATO en ýmis erfið vandamál væru enn óleyst.

Albright er í fyrstu ferð sinni til erlendra ríkja frá því hún varð utanríkisráðherra í liðnum mánuði og er
fyrsti bandaríski embættismaðurinn sem ræðir við Jeltsín frá því hann gekkst undir
hjartaskurðaðgerð í nóvember og fékk lungnabólgu í janúar.

Pólverjar tortryggnir
Albright hitti einnig Jevgení Prímakov, utanríkisráðherra Rússlands, og þau ræddu m.a. hvernig
skilgreina bæri tengsl Rússa og NATO þegar bandalagið stækkar í austur. "Ég hygg að við höfum
náð mikilvægum árangri í þessu máli," sagði Albright á sameiginlegum blaðamannafundi
ráðherranna.

Hún sagði þó að ýmis flókin vandamál væru enn óleyst. Ráðherrana greindi á um hvort NATO ætti
að gera lagalega bindandi samning við Rússa, sem að mati Bandaríkjastjórnar gæti veitt þeim
neitunarvald þegar ákvarðanir væru teknar um þróun bandalagsins.

Wlodzimierz Cimoszewicz, forsætisráðherra Póllands, sem var í Brussel til að ræða hugsanlega
aðild landsins að NATO, kvaðst hlynntur því að bandalagið gerði samning við Rússa. Hann sagðist
hins vegar vona að NATO léði ekki máls á "leynilegum samningi stórvelda" um skiptingu Evrópu í
áhrifasvæði.
Forseti Frakklands rýfur þing og boðar til kosninga

Vill fá umboð fyrir EMU og niðurskurð

Talinn taka mikla áhættu en stjórninni spáð meirihluta áfram

París. Reuter.

JACQUES Chirac, forseti Frakklands, leysti í gær upp þingið og boðaði til kosninga 25. maí og 1.
júní. Sagði hann, að nauðsynlegt hefði verið að flýta kosningunum til að franskur almenningur fengi
tækifæri til að taka afstöðu til þeirra miklu breytinga, sem vænta mætti á næstu fimm árum, ekki
síst myntbandalagsins, EMU, og nánari samvinnu Evrópusambandsríkjanna. Skoðanakönnun, sem
birt var í gær, bendir til, að stjórnin muni tapa allmiklu fylgi en hafa samt áfram öruggan meirihluta.

Chirac sagði í 10 mínútna langri ræðu, sem var sjónvarpað beint, að hann hefði talið nauðsynlegt
að rjúfa þing og boða til kosninga til að fá samþykki þjóðarinnar við þeim verkum, sem framundan
eru, "að smíða nýja Evrópu, sem metur að verðleikum framlag allra aðildarríkjanna og getur staðið
jafnfætis öðrum stórveldum". Hvatti hann líka til mikilla umbóta í ríkiskerfinu og sagði, að lækkun
ríkisútgjalda væri forsenda skattalækkana. Eins og nú væri komið væru velferðarútgjöldin að sliga
þjóðina alla og lömuðu framtak og nýsköpun.

Mikil áhætta
Að loknu ávarpinu ræddi Chirac við Helmut Kohl, kanslara Þýskalands, í síma og þótti það
táknrænt fyrir nána samvinnu þeirra en þeir hafa gengið harðast fram í því að Evrópusambandsríkin
taki upp sameiginlegan gjaldmiðil.

Stjórnmálaskýrendur segja, að ákvörðun Chiracs sé skiljanleg, hann vilji koma kosningum frá til að
geta tekist á við þær óvinsælu aðgerðir, sem óhjákvæmilegar séu. Hann taki hins vegar mikla
áhættu með henni, ekki síst vegna þess, að hann sé um leið að biðja kjósendur að taka afstöðu til
Evrópumálanna.

Það er hins vegar haft eftir ónefndum heimildamönnum en nánum forsetanum, að hann ætli sér
ekki að segja af sér þótt vinstriflokkarnir vinni, heldur reyna að deila völdum með þeim. Segja
þessar sömu heimildir, að Chirac hafi flýtt kosningum til að koma í veg fyrir, að ýmsum
þrýstihópum gæfist ráðrúm til að gera aðhaldsaðgerðir stjórnarinnar að engu.

"Engilsaxneskur kapitalismi"
Lionel Jospin, leiðtogi jafnaðarmanna, sakaði Chirac um að stefna að "harðneskjulegum,
engilsaxneskum kapitalisma" og sagði, að hann vildi hafa kosningabaráttuna stutta til að fela
mistök stjórnarinnar.

Samsteypustjórn mið- og hægriflokkanna í Frakklandi hefur nú 464 sæti af 577 á þingi en
samkvæmt skoðanakönnun, sem dagblaðið Le Figaro birti í gær, munu stjórnarflokkarnir tapa 150
þingsætum en hafa meirihluta áfram.

Ýmsir frammámenn í frönsku efnahagslífi lýstu nokkrum áhyggjum með ákvörðun Chiracs í gær og
kváðust óttast, að tapaði stjórnin kosningum, gæti það haft alvarleg áhrif á þátttöku Frakka í EMU.
Deng Xiaoping, leiðtogi Kína, andast af völdum Parkinsons-veiki og lungnasýkingar

Vona að valdaskiptin við fráfall Dengs verði friðsamleg

Deng lofsamaður fyrir þátt sinn í miklum umskiptum í Kína

Peking, Washington, London. Reuter.

DENG Xiaoping, æðsti leiðtogi Kína, lést af völdum fylgikvilla Parkinsons-veiki og lungnasýkingar í
gær, á 93. aldursári. Leiðtogar erlendra ríkja fóru lofsamlegum orðum um Deng og þátt hans í að
koma á róttækum efnahagsumbótum í landinu og nánari tengslum við Vesturlönd. Þeir létu
ennfremur í ljós þá von að andlát hans leiddi ekki til mannskæðrar valdabaráttu.

Sérfræðingar í stjórnmálum Kína töldu að forystumenn kommúnistaflokksins myndu þjappa sér
saman fyrstu vikurnar eftir andlát Dengs og spáðu því að lítil breyting yrði á stefnu stjórnarinnar í
innanríkis- og utanríkismálum næstu mánuðina. Þeir sögðu þó líklegt að leiðtogarnir tækjust á um
völdin síðar þar sem þeir stæðu frammi fyrir mjög erfiðum ákvörðunum vegna hinna miklu umskipta
sem ættu sér stað í landinu.

Bandarískir embættismenn töldu ekki ástæðu til að óttast harða valdabaráttu í Kína þar sem Deng
hefði ekki tekið virkan þátt í stjórn landsins síðustu árin. Eftirmaður hans, Jiang Zemin, væri þegar
orðinn leiðtogi kommúnistaflokksins, forseti landsins og æðsti yfirmaður hersins og valdaskiptin
væru því þegar afstaðin.

"Mikill byltingarmaður og stjórnskörungur"

Fréttastofan Xinhua birti langa minningargrein þar sem farið var fögrum orðum um manninn sem
stjórnaði Kína frá árinu 1978 þar til hann lét af síðasta embættinu árið 1990 og hafði mikil áhrif á
stefnu stjórnarinnar til dauðadags.

"Félagi Deng Xiaoping var afburðaleiðtogi sem naut mikillar virðingar innan flokksins og hersins og
meðal fólks af öllum þjóðflokkum í Kína," sagði fréttastofan. "Hann var mikill marxisti, mikill
byltingarmaður, stjórnskörungur, herstjórnarsnillingur og lipur samningamaður, þrautreyndur
baráttumaður fyrir málstað kommúnismans, aðalhöfundur sósíalísku umbótanna í Kína og
frumhöfundur kenningarinnar um uppbyggingu sósíalisma með kínverskum sérkennum."

Útfararnefnd skipuð
Tilkynnt var að skipuð hefði verið 459 manna nefnd til að annast útför Dengs og Jiang Zemin forseti
verður formaður hennar. Allt stjórnmálaráðið, sem er skipað 18 mönnum, verður í nefndinni, svo og
tveir menn sem tóku þátt í byltingu kommúnista, Yang Shangkun, 89 ára fyrrverandi forseti, og
Peng Zhen, 95 ára fyrrverandi forseti þingsins. Öldungarnir tveir voru nánir bandamenn Dengs og
eru taldir geta haft veruleg áhrif á þróunina í kínverskum stjórnmálum á bak við tjöldin.

Útfararnefndin tilkynnti í gærkvöldi að samkvæmt kínverskri hefð yrði engum erlendum gestum
boðið í útförina.

"Einstakur stjórnmálamaður"
Erlendir leiðtogar fóru lofsamlegum orðum um Deng. Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, lýsti honum
sem "einstökum stjórnmálamanni" sem hefði sett mark sitt á heimsmálin í tvo áratugi. "Ævi Dengs
náði yfir öld umróts, örðugleika og einstakra breytinga í Kína," sagði forsetinn. "Hann ýtti úr vör
sögulegri umbótaáætlun, sem stórbætti lífskjör Kínverja og færði stóran hluta landsins í nútímalegt
horf."

Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að það væri Kínverjum og öðrum
þjóðum heims fyrir bestu ef andlát Dengs leiddi ekki til valdabaráttu í Peking.

George Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagði að Deng hefði gegnt "mikilvægu hlutverki í að
koma á sterkum tengslum milli Bandaríkjanna og Kína". Bush var sendiherra Bandaríkjanna í
Peking á árunum 1974-76 og átti fund með Deng í Kína skömmu eftir að hann varð forseti árið
1989.

John Major, forsætisráðherra Bretlands, lýsti Deng sem "spámanni" sem hefði átt stóran þátt í
efnahagsuppganginum í Kína. Hann bætti við að sú stefna Dengs að innleiða markaðshagkerfi í
Kína hefði greitt fyrir yfirlýsingu Breta og Kínverja frá árinu 1984, sem tryggði að kapítalíska
hagkerfinu í Hong Kong yrði haldið í hálfa öld eftir að breska nýlendan verður aftur hluti af Kína síðar
á árinu.

Hátt settur embættismaður í Tævan hvatti íbúa eyjunnar til að taka fréttinni um andlát Dengs með
ró og sagði hana ekki hafa áhrif á afstöðu tævönsku stjórnarinnar til Kína. "Stjórnin hefur þegar
mótað stefnu sem samræmist aðstæðum eftir andlát Dengs."

Reyndu barkaskurð
Allt var með kyrrum kjörum á götum Peking eftir að tilkynnt var um andlát Dengs um miðja nótt að
staðartíma. Lögreglan var þó með óvenju mikinn viðbúnað við skrifstofur stjórnarinnar í miðborginni
og helstu gatnamót. Tveir lögreglumenn, vopnaðir rifflum, voru á varðbergi á götu við hús Dengs í
miðborginni og yfirheyrðu erlenda fréttamenn sem námu þar staðar á bílum sínum.

Andlát Dengs var tilkynnt í bréfi til Kommúnistaflokksins, hersins og forystumanna ýmissa
þjóðflokka í Kína, að sögn Xinhua, sem sagði að hann hefði andast klukkan 13.08 að íslenskum
tíma. Fréttastofan sagði að öndunarfærin hefðu hætt að starfa og læknum hefði ekki tekist að
bjarga lífi hans.

Kínverskir heimildarmenn sögðu að læknarnir hefðu gert barkaskurð til að freista þess að bjarga lífi
Dengs en það hefði ekki borið tilætlaðan árangur. Hann mun hafa andast í höfuðstöðvum
stjórnarinnar nálægt Torgi hins himneska friðar.

Undanfarna daga höfðu átt sér stað miklar vangaveltur um að Deng lægi banaleguna.
Einbeiting pilta varir skemur

DRENGIR hafa dregist aftur úr stúlkum í skólanáminu vegna þess að þeir geta ekki einbeitt sér
lengur en í fimm mínútur í einu, að því er fram kom á árlegri ráðstefnu breskra skólastjóra á
föstudag. Peter Downes, fyrrverandi forseti samtaka breskra skólastjóra, sagði að 13 og 14 ára
stúlkur gætu einbeitt sér í 13 mínútur að meðaltali en drengirnir í fjórar eða fimm mínútur.

Nýleg rannsókn, sem kynnt var á ráðstefnunni, benti til þess að kennarar þyrftu að taka harðar á
drengjum, sem trufluðu kennsluna. Downes sagði að kennararnir þyrftu að sinna drengjunum meira
en stúlkunum og nauðsynlegt væri að aðskilja kynin í ýmsum námsgreinum til að hægt væri að
beita mismunandi kennsluaðferðum.
Eiturlyfjabarón sleppur

HUMBERTO Garcia Abrego, einn umsvifamesti eiturlyfjabarón Mexíkó, slapp úr greipum
lögreglunnar seint á föstudag, nokkrum klukkustundum eftir að Bandaríkjastjórn hafði ákveðið að
veita Mexíkó "vottun" sína sem lands sem sýnir fullnægjandi samstarfsvilja í baráttunni við
eiturlyfjaframleiðslu og -smygl. Garcia er bróðir Juan Garcia Abrego, sem stýrir stærsta
eiturlyfjasmyglhring Mexíkóflóans. Hann situr nú inni, en verið var að yfirheyra bróðurinn vegna
peningaþvættis og annarra sakargifta tengdum smyglstarfseminni.

Mikill pólitískur þrýstingur var á stjórnina að veita Mexíkó ekki þessa "vottun" vegna útbreiddrar
spillingar í mexíkóska embættismannakerfinu. Þau lönd, sem ekki hljóta hina árlegu "vottun" og
lenda á svörtum lista sæta viðskiptaþvingunum af hálfu Bandaríkjanna.
Forstjóri Fílharmóníunnar í Vín

Konur fá ekki aðgang

Vín. Reuter.

FORSTJÓRI Fílharmóníunnar í Vín sagði í gær, að heldur myndi hann leysa upp þessa frægustu
hljómsveit í Austurríki en hleypa konum að hljóðfærunum.

"Þetta er einkaklúbbur og ef það á að neyða okkur til einhvers munum við heldur leysa hann upp,"
sagði Werner Resel, forstjóri hljómsveitarinnar, í viðtali við austurríska ríkisútvarpið. Sagði hann, að
hljómsveitinni hefðu borist mörg hótunarbréf, einkum frá Bandaríkjunum.

Fílharmónían í Vín er raunar einkaklúbbur að forminu til og ber félögum hennar engin skylda til að
greiða um það atkvæði hvort konur fái aðgang. Austurrískir stjórnmálamenn, þar á meðal Viktor
Klima kanslari, hafa hins vegar hvatt til, að hljómsveitin nýti sér "hæfileika hins helmings
mannkynsins".

Meðal þeirra raka, sem Resel nefndi fyrir afstöðu sinni, var að yrði konum hleypt að gæti svo farið,
að hljómsveitin yrði stundum ófær um að leika. Átti hann þá við, að konurnar forfölluðust margar í
senn vegna þungunar.
Yasser Arafat í Bandaríkjunum

Friðarumleitanir eini kosturinn

Washington, Jerúsalem. Reuter.

YASSER Arafat, leiðtogi sjálfstjórnarsvæða Palestínumanna, sagði í gær að hann ætti "einskis
annars úrkosti" en að halda áfram friðarviðræðum við Ísraelsstjórn þrátt fyrir þá ákvörðun hennar að
reisa nýtt hverfi fyrir gyðinga við Austur-Jerúsalem.

"Það er skylda okkar og stefna að halda friðarferlinu áfram," sagði Arafat. Þrátt fyrir alla erfiðleikana
sem við stöndum frammi fyrir eigum við einn kost: að starfa áfram í þágu friðar." Hann ræddi málið
við Bill Clinton Bandaríkjaforseta og lýsti viðræðunum sem "mjög jákvæðum og hlýjum".

Arafat var spurður hvort hann liti á Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sem "félaga"
sinn, eins og forvera hans í embættinu, eða "andstæðing". "Sem félaga," svaraði Arafat. "Ég verð
að virða val Ísraela...Við erum að friðmælast við ísraelsku þjóðina."

Í gær fyrirskipaði Netanyahu að fjórum skrifstofum palestínskra stjórnvalda í Austur-Jerúsalem
skyldi lokað í dag. Fullvíst er að þessi ákvörðun mun ýta enn frekar undir reiði Palestínumanna.

Frakkar hafa gagnrýnt áform Ísraelsstjórnar en Hervé de Charette, utanríkisráðherra Ísraels, sagði
eftir fund með David Levy, starfsbróður sínum í Ísrael, að deilan myndi ekki skaða samskipti
ríkjanna. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna átti að ræða deiluna í gær en umræðunni var frestað þar
til í dag að beiðni Bandaríkjamanna.
Reuter

Ímynd Jeltsíns batnar

RÚSSNESKIR embættismenn hafa mánuðum saman reynt að bæta ímynd Borís Jeltsíns og
sannfæra menn um að hann sé nógu hraustur til að stjórna Rússlandi en þeir gátu brosað breitt yfir
myndunum sem voru teknar á flugvellinum í Helsinki í gær. Þar sést forseti fluttur úr flugvélinni á
hjólastól í veitingagámi og brosa kindarlega meðan annar fóturinn skagaði stífur fram.

Þetta var þó ekki forsetinn með veika hjartað, heldur Bill Clinton, sem er orðlagður skokkari.

Jeltsín virtist á hinn bóginn fóthvatur og léttur í lund þegar hann gekk út úr spánnýrri flugvél sinni
þremur klukkustundum síðar. Hann brosti breitt þegar Martti Ahtisaari, forseti Finnlands, tók á móti
honum og stóð berhöfðaður í hráslagakuldanum meðan þjóðsöngvar Finnlands og Rússlands voru
leiknir.

Tónlistinni var sleppt við komu Clintons. "Ég býst við að það sé vegna þess að hann er í hjólastól
og það hefði ekki verið viðeigandi að leika þjóðsöngvana þar sem hann getur ekki staðið upp,"
sagði embættismaður í finnska utanríkisráðuneytinu.

Clinton var skorinn upp á föstudag eftir að liðbönd í hné rifnuðu þegar hann missteig sig. "Menn
sögðu að Jeltsín hinn veiki og Clinton hinn heilbrigði myndu koma til Helsinki en þetta reyndist hafa
snúist við," sagði Jeltsín á mánudag.
Írar geta loks sótt um lögskilnað

Dyflinni. Reuter.

ÍRSK hjón gátu í gær sótt um lögskilnað í fyrsta sinn frá því Írland fékk sín fyrstu stjórnlög árið
1920, en alla tíð síðan hefur hinum kaþólsku íbúum Írlands verið meinað að slíta hjónabandi. Lög
sem heimiluðu hjónaskilnaði voru samþykkt með naumum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu árið
1995, en lögin gengu ekki strax í gildi.

Gert er ráð fyrir, að um 1/4 þeirra 45.000 hjóna, sem skilin eru að borði og sæng, muni sækja um
lögskilnað. Í gær nýttu sér þó aðeins nokkur hundruð þeirra sér þennan nýfengna rétt.

Það kann þó að taka langan tíma áður en hjónaböndum þessa fólks verður slitið. Tafir á afgreiðslu
skilnaðarumsóknanna eru fyrirsjáanlegar vegna vandkvæða í dómskerfinu, sem tengjast öflugum
þrýstingi sem andstæðingar hjónaskilnaða beita dómstólana, en vandamálið er ekki sízt
takmarkað framboð á dómsölum, sem setja því hömlur hve mörg skilnaðarmál er unnt að leiða til
lykta á þann veg sem lög gera ráð fyrir.
Málstöðvar kvenna stærri

London. The Daily Telegraph.

KARLMENN hafa löngum haft á orði að konur séu mun málgefnari en karlar og nú hafa ástralskir
vísindamenn tekið undir þetta og gert tilraun til að skýra ástæðuna. Hún sé sú að málstöðvar í
heila kvenna séu stærri en í körlum.

Áður hafa verið birtar rannsóknir sem renna stoðum undir þá fullyrðingu að konur eigi auðveldara
með að tjá sig og eiga samskipti við aðra en karlar. Áströlsku vísindamennirnir komust að því að
svæðin tvö þar sem málstöðvar eru í heilanum, svokölluð Broca- og Wernicke-svæði, eru um 20%
stærri í konum en körlum.

Telja þeir að þessi stærðarmunur sé skýringin á samskiptahæfileikum kvenna. Sögðu
vísindamennirnir, sem starfa við háskólann í Sydney, að mestur munur væri á heilum kynjanna á
áðurnefndum svæðum.
Hugmynd um leiðtogafund um NATO í París fellur víða í grýttan jarðveg

Ólíklegt talið að af fundinum verði

Bandaríkjamenn mótfallnir og smærri þjóðum finnst fram hjá sér gengið

London, Moskvu, París, Brussel. Reuter.

ÁGREININGUR er innan Atlantshafsbandalagsins og
víðar um þá hugmynd Frakka að boðað verði til leiðtogafundar fimmveldanna svokölluðu til að liðka
fyrir stækkun bandalagsins og eru ýmis aðildarríki þess lítt hrifin. Bandaríkjamenn hafa tekið
tillögunni fálega, smærri aðildarríki NATO eru ósátt við að vera ekki höfð með í ráðum og Austur-
Evrópuþjóðirnar eru uggandi vegna þessara frétta, telja hugmyndina óheppilega og hafa líkt
fyrirhuguðum fundi við Yalta-fundinn árið 1945 þar sem bandamenn skiptu Evrópu í lok
heimsstyrjaldarinnar síðari. Rússar hafa hins vegar tekið vel í hugmynd Chiracs og segja
stjórnmálaskýrendur þá sjá sér leik á borði að reka fleyg á milli NATO-þjóðanna, en þeir eru
algerlega mótfallnir stækkun NATO.

Jacques Chirac Frakklandsforseti reifaði hugmyndina um fund Rússa og fjögurra NATO-ríkja,
Frakklands, Þýskalands, Bandaríkjanna og Bretlands, á fundi með Borís Jeltsín Rússlandsforseta
um síðustu helgi. Lagði Chirac til að þjóðirnar hittust í París í apríl. Hugmyndin hefur verið rædd
óformlega innan NATO en viðbrögðin hafa verið svo neikvæð að óvíst er nú talið að af fundinum
verði.

Segja fundinn gagnslausan
Ítalir brugðust illa við hugmyndinni, sögðu leiðtogafund "gagnslausan".
Öryggismál vörðuðu öll NATO- ríkin og ekki væri hægt að skipta þeirri umræðu á milli ríkja.
Andstaða margra NATO-landanna ræðst af því að þau hafa ekki enn fyrirgefið að fimmveldin skyldu
eiga frumkvæðið að því að finna lausn á stríðinu í Bosníu og útiloka smærri ríki.

Þá sagði Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, að hann teldi "ekki áríðandi" að halda slíkan
leiðtogafund.

Rússar kætast
Vestrænn stjórnarerindreki sagði að tillaga Frakka hefði komið illa við margar þjóðir
en ljóst væri að Rússar væru ánægðir. "Þeir núa eflaust saman höndum í kæti sinni vegna þessa
vandræðagangs. Þetta kemur þeim til góða í samningaviðræðum." Haft var eftir
stjórnmálaskýrendum að þeir óttuðust að Rússar teldu sig geta hagnast á óeiningu NATO-ríkjanna
um stækkun.

Talsmaður pólska utanríkisráðuneytisins sagði í gær að hugmyndir um leiðtogafund með Rússum
vera "óheppilegar". Þá lýstu sendiherrar nokkurra Austur-Evrópuríkja í Brussel áhyggjum sínum
vegna málsins, ekki síst vegna þess að leiðtogafundurinn kynni að draga úr trúverðugleika Solana,
sem hefði fengið fullt umboð NATO-ríkjanna til að eiga viðræður við Rússa.
Ofurlax eftir 10 ár?

Ósló. Morgunblaðið. PRÓFESSOR við dýralæknaháskólann í Ósló uppskar litla hrifningu í gær er hann kynnti
hugmyndir sínar um erfðabreyttan lax, sem á að vera ónæmur fyrir flestum sjúkdómum sem herjað
hafa á norska laxastofninn. Segir hann þennan "ofurlax" geta litið dagsins ljós eftir áratug.

Nú þegar hefur verið átt við erfðaefni í gullfiskum en stefnt er að því að hefja tilraunir með lax og
annan eldisfisk fljótlega. Auk sjúkdómaónæmisins vonast vísindamenn til að laxinn vaxi hraðar og
verði stærri en "venjulegur" lax.
Benazir Bhutto talin bíða ósigur í þingkosningum í Pakistan

Nawaz Sharif segir flokk sinn stefna í stórsigur

Íslamabad. Reuter.

NAWAZ Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, sagði í gærkvöldi að flokkur sinn stefndi í
stórsigur í þingkosningunum sem fóru fram í gær. Leiðtogar Þjóðarflokks Pakistans, flokks Benazir
Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra, sökuðu yfirvöld um stórfelld kosningasvik, en formaður
alþjóðlegrar eftirlitsnefndar sagði að kosningarnar hefðu verið frjálsar og lýðræðislegar.

56,5 milljónir manna voru á kjörskrá en margir mættu ekki á kjörstað, sumir vegna þess að nú er
föstumánuður múslima, ramadan, og aðrir af því að þeir treysta ekki leiðtogum
stjórnmálaflokkanna.

Sharif kvaðst "mjög ánægð**
við höfum fengið góðan meirihluta," sagði hann, en vildi ekki lýsa yfir sigri fyrr en úrslitin lægju fyrir í
dag.

Farooq Leghari forseti boðaði til þingkosninganna eftir að hafa vikið Bhutto frá 5. nóvember. Hann
sakaði stjórn hennar um spillingu, frændhygli og aftökur án dóms og laga í Karachi og hæstiréttur
landsins úrskurðaði í vikunni sem leið að brottvikningin hefði verið réttmæt.

Kvartað yfir kosningasvikum
Þingmaðurinn Iqbal Haider, einn af forystumönnum flokks Bhutto,
ræddi við formann yfirkjörstjórnar og kvartaði yfir stórfelldum kosningasvikum af hálfu yfirvalda. Sir
Malcolm Fraser, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu og formaður alþjóðlegrar eftirlitsnefndar, sagði
hins vegar að kosningarnar hefðu farið lýðræðislega og tiltölulega friðsamlega fram. "Við erum
ánægð með að þeir sem vildu kjósa gátu gert það og kosið það sem þeir vildu án nokkurrar
kúgunar eða þvingunar," sagði hann.

Sjö manns biðu bana í átökum í tengslum við kosningarnar. Um 250.000 hermenn voru á varðbergi
vegna kosninganna, sem voru haldnar undir eftirliti fulltrúa frá Bandaríkjunum, Evrópusambandinu,
Breska samveldinu og Suður-Asíuríkjum.

Sharif lofaði að reyna ekki að hefna sín á Bhutto vegna meintra ofsókna á hendur flokki hans,
Pakistanska múslimabandalaginu, þegar hún var við völd. Hann kvaðst ekki ætla að láta leiða hana
fyrir rétt og boðaði samstarf við hana og aðra stjórnarandstöðuleiðtoga.
Reuter

Rúmkapphlaup

LITHÁÍSKIR háskólanemar tóku þátt í óvenjulegu kapphlaupi um miðborg Vilníus í gær en þá
kepptu tuttugu lið í því hverjir kæmust fyrstir í mark með rúm með manni í. Vegalengdin var um 300
metrar og fylgir ekki sögunni hversu hratt námsmennirnir fóru með rúmin en af myndinni af dæma
máttu þeir, sem í rúmunum voru, hafa sig alla við að falla ekki úr þeim í látunum.
Clinton fagnar samkomulagi um samstarfssamning Rússa og NATO

"Sögulegt skref í átt að friðsamlegri Evrópu"

Moskvu, Washington, Bonn, París. Reuter.

RÚSSAR og Atlantshafsbandalagið (NATO) náðu í gær samkomulagi um nýjan samstarfssamning
sem miðar að því að tryggja friðsamleg samskipti andstæðinganna fyrrverandi í kalda stríðinu. Bill
Clinton, forseti Bandaríkjanna, fagnaði samkomulaginu sem "sögulegu skrefi í átt að friðsamlegri,
óskiptri og lýðræðislegri Evrópu". Fjölmiðlar fengu þó ekki upplýsingar um texta samningsins og
óvissa ríkti um eðli hans.

Javier Solana, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Jevgení Prímakov, utanríkisráðherra
Rússlands, skýrðu frá samkomulaginu eftir tveggja daga viðræður í Moskvu. "Þetta er stór sigur
fyrir skynsemina og þjóðir heims, stór sigur fyrir Rússa og allar ríkisstjórnir í heiminum sem vilja
tryggja frið og samvinnu," sagði Prímakov.

Solana sagði að samkomulagið myndi greiða fyrir því að samningurinn yrði undirritaður á fundi
Borís Jeltsíns Rússlandsforseta og leiðtoga NATO-ríkjanna í París 27. maí.

Samningnum er ætlað að sefa Rússa vegna fyrirhugaðrar stækkunar NATO í austur. Borís Jeltsín
sagði í sjónvarpsviðtali að hann hefði hringt í leiðtoga NATO-ríkjanna fyrr í vikunni og tryggt stuðning
þeirra við samkomulagið.

Ekki var vitað í gær hvenær skýrt yrði frá efni samningsins. Solana og Prímakov sögðu aðeins í
sameiginlegri yfirlýsingu að NATO og Rússar hefðu náð "afgerandi árangri" í mikilvægum málum,
meðal annars í deilunni um hernaðaruppbyggingu í nýjum aðildarríkjum NATO, sem var helsta
fyrirstaða samkomulags.

Jeltsín segir samninginn bindandi
Jeltsín sagði að samningurinn myndi draga eins og hægt er úr þeirri hættu sem Rússum stafaði af
stækkun NATO í austur. "Við erum andvígir stækkuninni," sagði hann. "En með hliðsjón af
raunveruleikanum... hefur verið gengið of langt og við verðum að takast á við málið og halda
hættunni fyrir Rússland í lágmarki."

Jeltsín virtist vilja gera sem mest úr árangri rússneskra stjórnvalda í samningaviðræðunum og gaf til
kynna að þeim hefði tekist að knýja fram skuldbindingar af hálfu NATO um að bandalagið færði
ekki herafla sinn nær landamærum Rússlands og að Rússar gætu hindrað ákvarðanir
bandalagsins.

"Bindandi eðli samningsins er augljóst," sagði forsetinn. "Ef Rússar eru andvígir einhverri ákvörðun
merkir það að hún nær ekki fram að ganga."

Clinton lagði hins vegar áherslu á að svo væri ekki. "Rússar munu starfa í nánum tengslum við
bandalagið en ekki innan þess, sem veitir Rússum áhrif en ekki neitunarvald."

Solana fór til Brussel til að skýra sendiherrum NATO-ríkjanna frá samkomulaginu og gert er ráð
fyrir að ráðamenn ríkjanna samþykki það formlega í dag.

Stjórnvöld í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi fögnuðu samkomulaginu. Dariusz Rosati,
utanríkisráðherra Póllands, sagði að Rússar hefðu ekki getað hindrað áformin um stækkun NATO
en bætti við að samkomulagið myndi draga úr spennu í Evrópu. Gert er ráð fyrir að samþykkt verði
á leiðtogafundi NATO í Madrid í júlí að veita Pólverjum, Ungverjum og Tékkum aðild að bandalaginu.

Kommúnistar og þjóðernissinnar á rússneska þinginu fordæmdu samkomulagið, eins og búist var
við, en viðbrögð frjálslyndra þingmanna voru varfærnisleg.
Þrúgandi boðskiptaflaumur

SAMSKIPTAÓHÓF er afurð þessa áratugar netpóstsins, talhólfanna, faxins og alnetsins og er farið
að standa fyrirtækjum fyrir þrifum og starfsfólki liggur við sturlun, samkvæmt skýrslu sem birt var í
gær.

Ný samskiptatækni hefur fráleitt leyst eldri aðferðir af hólmi heldur einungis bæst ofan á. Þannig er
tilvera margra stjórnenda orðin þrúguð af boðskiptaflaumi sem þeim finnst þeir vera að kikna undan.

Könnunin var gerð að undirlagi bandaríska skrifstofuvörufyrirtækisins Pitney Bowes, og í
niðurstöðum hennar kemur fram að 71 af hundraði þeirra sem þátt tóku finnst þeir ofurliði bornir af
þeim fjölda skilaboða sem þeim berast. Þetta gífurlega magn kemur niður á starfsanda, vandvirkni,
heimilislífi, og framleiðni fyrirtækjanna.

"Þetta fyrirbæri er farið að hafa grundvallaráhrif á störf fólks og einkalíf þess," segir Meredith
Fischer, aðstoðarframkvæmdastjóri samskipta- markaðs-og framtíðaráherslusviðs Pitney Bowes.
"Tæknin er ekki það sem vandanum veldur, heldur það hvernig við notum hana og stýrum henni."

Samkvæmt könnuninni fá stjórnendur og senda að meðaltali 178 boð á dag. Í flestum tilvikum
berast þau um síma, en um 40 af hundraði allra boða berast á pappír, og fer þar fyrir lítið
draumsýnin um að ný tækni myndi leiða af sér pappírslausa skrifstofu.
Bæli skrímslisins fundið?

Inverness. Reuter.

SKOZKUR strandvörður sagði í gær frá því, að hann hefði fundið það sem hann telur vera leynilegt
bæli Loch-Ness-skrímslisins víðfræga. Segist strandvörðurinn, George Edwards, hafa uppgötvað
með sónartækinu í báti sínum níu metra breitt hellisop á botni vatnsins. Segir hann fundinn marka
þáttaskil í leitinni að skrímslinu leyndardómsfulla. "Loksins höfum við vísbendingu um hvar "Nessie"
heldur sig, og getur því takmarkað leitarsvæðið og aukið líkurnar á að koma auga á hana eða
einhvern úr fjölskyldunni," segir Edwards.
Skæruliðar hafna vopnahlésáskorun

Mobutu ætlar heim fyrir helgi

Kinshasa, Nairobi. Reuter.

TALSMENN uppreisnarmanna í Zaire létu sér í gær fátt finnast um aukinn alþjóðlegan þrýsting í þá
átt að vopnahléi verði nú þegar komið á í borgarastríðinu í landinu. Leiðtogar Afríkuríkja, sem komið
höfðu saman í Kenýa til að ræða ástandið í þriðja stærsta landi álfunnar, endurnýjuðu í gær
áskorun um vopnahlé, svo að reyna mætti til þrautar að koma á samningum milli stríðandi fylkinga
með það að markmiði að binda enda á ófriðinn. Uppreisnarmenn sögðu að fundir, þar sem fulltrúar
þeirra sætu ekki við samningaborðið, væru þýðingarlausir.

Mobutu fer af sjúkrahúsi
Hinn 66 ára gamli forseti Zaires, Mobutu Sese Seko, sem hefur drottnað yfir landinu í 32 ár, hefur
dvalið að undanförnu í Frakklandi til að fá þar framhaldsmeðferð vegna krabbameins í
blöðruhálskirtli. Hann yfirgaf sjúkrahúsið í Mónakó í gærkvöldi. Einkaflugvél forsetans stendur
tilbúin til flugtaks á flugvellinum í Nizza og talsmenn hans tilkynntu að hann myndi snúa aftur til
heimalandsins fyrir lok vikunnar, til að freista þess að stappa stálinu í stjórnarhermenn í
viðureigninni við uppreisnarmenn.

Tilraun stjórnarandstöðunnar í Zaire til að velta forsætisráðherranum Kengo Wa Dondo úr embætti
bætti enn á upplausnarástandið í landinu. Pólitískir andstæðingar Kengos samþykktu á þingi í gær
að hann bæri að svipta völdum, en talsmenn stjórnarinnar sögðu atkvæðagreiðsluna ólögmæta.
Talsmenn stjórnarandstöðunnar sögðu leiðtoga hennar, Etienne Tshikeshedi, myndu hefja viðræður
við uppreisnarmenn um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Bandaríkjamenn lýstu því yfir í gær, að þeir viðurkenndu eftir sem áður ríkisstjórn Kengos. Ýmis
vestræn ríki hófu í gær að kanna, hvort ástandið í Zaire kalli á að ríkisborgurum þeirra verði hjálpað
til að yfirgefa landið. Um 8.000 Evrópubúar og 300 Bandaríkjamenn dvelja nú í Zaire.
Móðir Teresa lögð til hinstu hvílu

Kalkútta. Reuter.

MÓÐIR Teresa, dýrlingur göturæsanna, eins og hún var nefnd vegna líknarstarfa sinna í þágu þeirra
snauðustu, var borin til grafar í fábrotnum húsakynnum líknarsamtaka sem hún stofnaði í Kalkútta í
lok sex stunda opinberrar útfarar. Með því lauk vikulangri þjóðarsorg í Indlandi. Við lok
útfararþjónustunnar hét systir Nirmala, arftaki móður Teresu, að halda merki hennar á lofti með því
að líkna fátækum og hinum verst settu um heimsbyggðina alla.

Mörg hundruð þúsund manns röðuðu sér upp meðfram leiðinni sem kistu móður Teresu var ekið að
greftrunarstað. Milljónir manna víða um heim fylgdust með í beinni sjónvarpsútsendingu.
Drottningar, forsetar og forsætisráðherrar og fulltrúar tuga ríkja voru viðstaddir útfararþjónustu í
12.000 sæta íþróttahöll í Kalkútta sem fulltrúi páfa, Angelo Sodano kardínáll, stjórnaði. Meðal
þeirra voru Hillary Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna, Sofía Spánardrottning, Oscar Luigi Scalfaro
Ítalíuforseti, Noor Jórdaníudrottning og K.R. Narayanan Indlandsforseti.

Hápunkti náði athöfninn er munaðarleysingi, glæpakvendi sem bætt hefur ráð sitt, holdsveikur
maður og fatlaður piltur færðu móður Teresu heilagar fórnargjafir. Í lok athafnarinnar gengu tugir
fyrirmenna að kistu hennar og lögðu að henni hvíta blómsveiga.

Frá íþróttahöllinni var ekið með kistu móður Teresu um götur Kalkútta til höfuðstöðva líknarsamtaka
hennar. Þegar greftrun var lokið innandyra skutu gúrkha-hermenn af riflum til himins. Móðir Teresa
lést úr hjartaslagi 5. september á 88. aldursári. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels 1979 fyrir störf sín;
fyrir að gefa milljónum manna von og reisn.
Rannsóknir á 18. aldar fræðum

Átjánda öldin ­ átök tveggja heimsmynda

NÆSTKOMANDI laugardag verður í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu klukkan 13 haldin ráðstefna um
stöðu rannsókna í 18. aldar fræðum hér á landi. Fyrirlesarar verða Guðmundur Hálfdanarson, sem
tala um sagnfræði, Vésteinn Ólason talar um bókmenntir, Gísli Sigurðsson ræðir um þjóðfræði,
Svavar Sigurmundsson fjallar um málfræði og Inga Huld Hákonardóttir um kvennafræði. Að loknum
erindum verða pallborðsumræður sem fyrirlesarar taka þátt í auk Gunnars Harðarsonar, lektors í
heimspeki. Ráðstefnan er öllum opin, fundarstjóri er Sveinn Ingvi Egilsson. Ráðstefnunni lýkur
klukkan 16.30. Í fyrirlestrunum verður gerð grein fyrir rannsóknum á 18. aldar efni, hvað hefur verið
tekið fyrir og hvernig til hefur tekist. Vésteinn Ólason tekur t.d. fyrir bókmenntir í víðu" samhengi.

­Mér er ætlað að gefa þarna yfirlit yfir rannsóknir á bókmenntasögu," sagði Vésteinn. Ég skal taka
það fram að ég er ekki sérfræðingur í bókmenntum 18. aldar en hef samt starfs míns vegna fylgst
með því sem þar hefur verið að gerast. Það er nokkuð sérstakt margt með 18. öldina,
bókmenntasaga og almenn menningarsaga eru þar mjög samfléttaðar. Á þessari öld fara nýjar
hugmyndir að takast á við eldri heimsmynd.

Hver er munurinn á hinni eldri og yngri heimsmynd?

­Eldri heimsmyndin er umfram allt heimsmynd hins svokallaða lútherska rétttrúnaðar, það eru
lífsskoðanir og trúarhugmyndir sem við getum kynnst t.d. í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar
og Vídalínspostillu. Samkvæmt þessari heimsmynd er allt ráð mannsins og náttúran í hendi Guðs.
Jafnframt fléttast inn í þetta bæði lærðar og alþýðlegar hugmyndir um samhengi yfirnáttúrlegra og
náttúrlegra fyrirbæra og margs konar dulúð sem er okkur býsna framandi nú á dögum. Upplýsingin
á sér rætur í athugun á náttúrunni, í skynsemishyggju og trú á það að menn geti bætt líf sitt fyrir
tilstilli upplýsingar, það er að segja vitneskju um heiminn og náttúruna og skilnings á
náttúrulögmálum. Þess vegna má segja að Upplýsingarbókmenntirnar séu að mjög miklu leyti
uppeldis-og kennslubókmenntir, svo sem Búnaðarbálkur Eggerts Ólafssonar, Atli eftir Björn í
Sauðlauksdal eða rit þeirra Hannesar Finnssonar og Magnúsar Stephensen.

Hvað er meginefni þíns fyrirlesturs?

­Það er að vekja athygli á þeim miklu rannsóknum á þessu tímabili, sem hafa birst á undanförnum
árum. Raunar mætti telja upp margt af sviðum sem skarast við bókmenntasöguna, eins og t.d.
rannsóknir Lofts Guttormssonar á fræðslumálum og alþýðumenningu, rannsóknir Hjalta Hugasonar
á guðfræði og trúarlífi, Sveins Einarssonar á leiklistarsögunni og síðast en ekki síst rannsóknir Inga
Sigurðssonar. Mitt efni er auðvitað bókmenntirnar um fram allt og þar fer mest fyrir því sem
Matthías Viðar Sæmundsson hefur verð að gera. Reyndar hafa mjög margir af nemendum hans
skrifað prófritgerðir um efni frá þessum tíma. Ég gæti nefnt sem dæmi ritgerð Maríu Önnu
Þorsteinsdóttur, Tveggja heima sýn, um sögu Ólafs Þórhallasonar. Það er að mínum dómi mjög
merkileg rannsókn á stórmerkilegu bókmenntaverki sem nánast ekkert hefur verið rannsakað til
þessa og leiðir í ljós sérstæða samtengingu hugmynda Upplýsingarinnar og hefðbundins íslensks
sagnaarfs. Sagan er eftir Eirík Laxdal og hana má telja fyrstu íslensku skáldsöguna.

Hvað er það helst sem Matthías Viðar hefur leitt í ljós með rannsóknum sínum?

­Matthías hefur glímt mikið við einmitt átök þessara tveggja heimsmynda sem ég gat um áðan.
Annars vegar í því sem hann hefur skrifað um galdra og hugmyndaheim fyrri tíðar og síðan um verk
Upplýsingarmanna í mjög rækilegum kafla í þriðja bindi Íslenskrar bókmenntasögu, sem kom út
núna fyrir stuttu. Matthías reynir að sýna fram á hvernig hugmyndir einstaklinganna um sjálfa sig
eru að breytast í þeim bókmenntum sem samdar eru á þessu tímabili, ekki síst í
sjálfsævisögulegum bókmenntum og draga fram sérstakar mótsagnir sem eru áberandi hjá
íslenskum höfundum. Upplýsngin barst hingað seint og átti nokkuð erfitt uppdráttar sem eðlilegt var
vegna þess að hún barst hér inn í nánast örbjarga samfélag. Vitanlega mun ég reyna að koma að
fleiri efnum en þessum tveimur verkum sem ég er búinn að nefna því margt fleira um þennan tíma
verðskuldar að því sé gaumur gefinn.

Vésteinn Ólason er fæddur á Hornafirði árið 1939. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á
Laugarvatni árið 1959 og meistaraprófi í íslenskum fræðum árið 1968. Doktorsprófi lauk hann árið
1983, hvoru tveggja frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað við háskólakennslu og fræðistörf
síðustu 30 árin. Nú er hann prófessor í íslenskum bókmenntum við HÍ. Hann er kvæntur Unni A.
Jónsdóttur kennara. Þau eiga tvö börn.

Ársrit Kvenréttindafélags Íslands

Ung ritstjórn með karlmann innanborðs

Blað Kvenréttindafélags Íslands, 19. júní, er með óvenjulegu sniði á nítugasta afmælisári félagsins.
Efnisval og efnistök bera þess glögg merki að þar er á ferð ung ritstjórn, sú yngsta sem hefur séð
um blaðið frá upphafi. Þá á karlmaður í fyrsta sinn sæti í ritstjórninni. Ritsjóri þessa 47. árgangs
19. júní er Brynhildur Þórarinsdóttir.

"Það var tekin ákvörðun um það í fyrra að reyna að höfða meira til unga fólksins og stigið fyrsta
skrefið það árið. Í ár var hins vegar ákveðið að ganga alla leið bæði hvað efnistök og útlit varðar og
því er eingöngu ungt fólk í ritnefndinni. Svo og einn karlmaður, en það er í fyrsta sinn sem það
gerist."

Breytir það einhverju?

"Þetta er liður í því að auka fjölbreytnina og stækka lesendahópinn. Mér fannst nauðsynlegt að fá
fram sem flest sjónarhorn í blaðinu og með því að fá karlmann í ritstjórnina sýnum við að jafnrétti er
ekki aðeins fyrir okkur konur."

Heldur þú að þetta eigi eftir að standa í einhverjum félagskonum?

"Ég vona ekki. Það er auðvitað áherslumunur á þessu blaði og því sem verið hefur. Við höfum reynt
að rata meðalveginn, koma með nýjar áherslur og horfa til framtíðar en reyna jafnframt að draga
lærdóm af þeim eldri."

Sjálfsagt hefur ungum konum ekki alltaf þótt Kvenréttindafélagið í takt við þann veruleika sem þær
lifa og hrærast í. Er ung ritstjórn tilraun til að takast á við þetta?


"Já, ég hugsa það. Mér finnst líklegt að félaginu hafi ekki alltaf tekist að höfða nægilega til ungra
kvenna, en með því að breyta blaðinu og fá inn nýjar og ferskar áherslur, held ég að við getum
breytt ímynd félagsins og umræðunni í heild, sem skiptir mestu máli. Þetta snýst ekki aðeins um
blaðið eða félagið, heldur umræðuna, ungt fólk hefur ekki getað tengt sig umræðunni og ekki fundið
nægilegan hljómgrunn fyrir sínar hugmyndir. Þetta er að breytast og því þarf að fylgja eftir, fólk úr
öllum áttum hefur bæst í hópinn sem vill berjast fyrir jafnrétti."

Hverju þakkar þú það?

"Til dæmis því að konur eru að losna við fórnarlambsímyndina og um leið eru karlar að verða
jákvæðari í garð baráttunnar. Bæði vegna breyttra áherslna hjá konunum og svo eru þeir að vakna
til vitundar um að jafnréttisbaráttan snertir þá ekki síður en konur. Til dæmis hvað varðar jafnrétti til
fæðingarorlofs, rétt karla til að umgangast börnin sín og rétt fólks til að fá mannsæmandi laun fyrir
dagvinnu, svo að það geti lifað eðlilegu fjölskyldulífi. Við erum farin að sjá árangur af hinni löngu
jafnréttisbaráttu, heilmikið hefur áunnist. Bara það, að ekki er lengur efast um nauðsyn jafnréttis og
jafnréttisbaráttunnar, er mikill áfangi. Framhaldið þarf að vinna vel. Ég vil leggja áherslu á að
jafnrétti er félagslegt viðfangsefni, við breytum því ekki hvert fyrir sig, heldur með almennri
stefnumörkun, með því að vinna að því alls staðar í þjóðfélaginu."

Um hvað fjallar blað ungu ritstjórnarinnar?

"Við reyndum að gera það líflegt og fjölbreytt, þar mætast gaman og alvara. Við fjöllum um
launamisrétti á vinnumarkaði, vinnu stjórnmálaflokkanna að jafnréttismálum, stefnuskrá
stjórnmálaflokkanna og hvernig þeir hafa unnið úr henni. Þá er léttara efni, svo sem um konur í
kvikmyndum, sem virðast annaðhvort mannætur eða fórnarlömb, svo og konur í hryllingsbókum,
íþróttum, vísindum og kirkjunni."

Hefur þú lengi haft áhuga á jafnréttismálum?

"Já, og sá áhugi hefur aukist jafnt og þétt. Ég var í Stúdentaráði Háskólans þegar
jafnréttisumræðan var að vakna innan skólans, m.a. var komið á fót stöðu kvennafulltrúa við ráðið.
Nú er ég að vinna hjá Alþýðusambandinu, þar sem ég vinn við blaðið Vinnuna, sem er málgagn
sambandsins. 19. júní ber þess nokkur merki, en í umfjöllun minni fyrir Vinnuna hef ég rekið mig á
hversu mikið misréttið er á vinnumarkaðnum, t.d. hvað varðar laun, tækifæri og áhrif. Staða kvenna
er lakari á nær öllum sviðum og t.a.m. birtast skertir möguleikar karla til að sinna fjölskyldunni í því
að konur standa veikar gagnvart atvinnurekendum.

Ég er alin upp við jafnrétti, eins og ég vona að flestir af minni kynslóð séu. Við erum í það yngsta til
að muna eftir hinni hörðu baráttu Rauðsokkanna og því erum við að reyna að beina umræðunni inn
á brautir sem fleiri geta tekið þátt í."

BRYNHILDUR Þórarinsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1970. Hún lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum í Reykjavík árið 1990 og BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1995.
Brynhildur var framkvæmdastjóri Stúdentaráðs veturinn 1994-1995 og var fulltrúi Röskvu í
Háskólaráði 1993-1995. Hún hefur starfað sem lausamaður á ýmsum fjölmiðlum, blöðum,
tímaritum og útvarpi, en frá 1995 hefur hún starfað sem blaðamaður við Vinnuna, blað
Alþýðusambands Íslands.
Fundur borgarstjóra með íbúum í Austurbænum

Hljóðmengun vaxandi áhyggjuefni

Vaxandi óánægja er meðal íbúa höfuðborgarinnar vegna hljóðmengunar frá fjölförnustu
umferðargötum í borginni. Þetta kom fram á hverfafundi borgarstjóra sem Hildur Einarsdóttir fylgdist
með.


Á hverfafundi borgarstjóra, Ingibjörgar Sólrúnar Gísladóttur, með íbúum Háaleitis-, Smáíbúða-,
Fossvogs-, Bústaða- og Múlahverfis varð fólki tíðrætt um hljóðmengun, gatna- og skólamál og
auglýst var eftir sundlaug í hverfinu.

Eins og venja er á hverfafundum með borgarstjóra, sem að þessu sinni var í Réttarholtsskóla, hóf
Ingibjörg Sólrún mál sitt á því að ræða fjármál og fjárhagsstöðu borgarinnar svo og stefnumörkun í
ýmsum málum. Því næst vék hún að helstu framkvæmdum á svæðinu á síðasta ári og þær sem
fyrirhugaðar eru á þessu ári.

Í framhaldi af því sagði Ingibjörg Sólrún frá hugmyndum sem hafa komið upp hjá Kringlumönnum
um stækkun Kringlunnar. Væri önnur hugmyndin í athugun hjá borgaryfirvöldum um þessar mundir.
Kjarni hennar væri sá að breyta Kringlutorginu og tengja saman með byggingu Kringluna og
Borgarkringluna sem nú væri farið að nefna Suður- Kringlu. Jafnframt væri hugmynd um að auka
fjölbreytni þjónustu við Kringlutorg og bæta bílastæði í suðausturhorni Kringlunnar og fjölga þeim
lítillega. Hin hugmyndin gengi út á að stækka norðurenda Kringlunnar næst Miklubraut og gera
bílaumferð að Kringlu frá Miklubraut auðveldari.

"Þessi áhugi á að styrkja Kringluna sem aðalverslunarmiðstöð höfuðborgarsvæðisins næst á eftir
sjálfum miðbænum er vafalítið tilkominn vegna harðrar samkeppni á verslunarsviðinu meðal annars
frá fyrirhuguðum stórmörkuðum í nágrannasveitarfélögunum, "sagði hún.

Íbúar við Hvassaleiti gerðu mál aflagðs gæsluvallar á svæðinu að umtalsefni og í framhaldi af því
færðu þeir borgarstjóra bréf þar að lútandi. Sögðu þeir að gæsluvöllurinn væri í mikilli niðurníðslu. Í
fyrrasumar hefði að frumkvæði íbúa verið starfræktur þar smíðavöllur og hefði hann notið mikilla
vinsælda. Kom fram að íbúum nærliggjandi húsa væri mikið í mun að svæðið yrði fegrað og hannað
sem opið leiksvæði og garður sem þjóni öllum íbúum hverfisins.

Ingibjörg Sólrún sagði að ekki væri gert ráð fyrir fjármunum til framkvæmda í þessa veru á árinu en
hugmyndin væri athyglisverð.

Hvar á að staðnæmast í hljóðvarnarmálum?
Spurt var hvort ekki borgaði sig frekar að taka húsin á móts við Miklatún eignarnámi í stað þess að
grafa veggöng undir Miklubrautina.

Ingibjörg sagði svipaðan hljóðmengunarvanda að finna víðar í borginni og tók sem dæmi íbúðarhúsin
á móts við Þjóðminjasafnið og hús við Hlemm og Hverfisgötu. "Hvar eigum við að staðnæmast?
spurði hún og bætti við að í fyrsta skipti væru sérstakir fjármunir ætlaðir til hljóðmengunarmála og
væri verið að skoða hvernig þau mál yrðu útfærð.

Fundarmönnum varð nokkuð tíðrætt um hávaða frá fjölförnum umferðargötum í hverfunum. Íbúi við
Seljugerði kvartaði undan hávaða frá Bústaðavegi og spurði hvað hægt væri að gera í þeim málum.

Kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar að verið væri að gera kort yfir hávaðamengun í borginni.
Réðust aðgerðir borgarinnar af því hvernig ástandið væri á hverjum stað. Borgaryfirvöld vissu af
hávaða í kringum Seljugerði og verið væri að athuga hvort koma ætti við hljóðmön þar.

Íbúi í Blesugróf spurðu hvort hægt væri að hækka og lengja hljóðmön sem er við Reykjanesbraut.
Sagði borgarstjóri að ákvörðun yrði tekin um það þegar séð væri hvernig ætti að forgangsraða
þessum verkefnum.

Íbúar í nágrenni Réttarholtsvegar höfðu einnig áhyggjur af umferðarþunga þar og kölluðu eftir
hraðahindrunum.

Í svari borgarstjóra kom fram að venjan væri sú að ef íbúðabyggð væri báðum megin við götuna þá
væri orðið við óskum íbúa um hraðahindranir.

Ingibjörg Sólrún sagði að verst væri þegar götur skæru í sundur gönguleið í skólann eins og
Réttarholtsvegurinn gerði. Enn hefði þó ekki verið rætt um þrengingu á götunni en málið væru í
athugun.

Íbúar í nágrenni Sogavegar kvörtuðu yfir mikilli umferð þar. Var bent á að menn ækju hratt frá
Grensásvegi að Réttarholtsvegi og spurt var hvort ekki væri æskilegt að setja upp hraðahindranir á
þeim kafla.

Aðgengi að íþróttasvæði Fram var gert að umtalsefni. Þá einkum með tilliti til barna sem búa í
Háaleitishverfi og þurfa að fara yfir Miklubraut.

Sagði Ingibjörg Sólrún að ekki væri gert ráð fyrir göngubraut á móts við svæðið en börnin ættu að
geta farið í undirgöng sem eru á móts við Kringluna. Setja mætti grindverk á miðeyjuna á
Miklubrautinni til að koma í veg fyrir að börnin fari stystu leið.

Sagði þá einn íbúinn að ekki væri hægt að beina gangandi umferð í undirgöngin eins og
göngustígum væri háttað þar nú.

Áhugi kom fram á að að bæta aðstöðu bókasafnsins í Bústaðahverfi sem nú er til húsa í kjallara
Bústaðakirkju. Sagði Ingibjörg það ekki á dagskrá á næstunni. Nú væri unnið að því að koma
aðalsafninu sem byggi við þröngan kost í nýtt húsnæði að Tryggvagötu 15.

Einsetning fimm grunnskóla
Um skólamál hverfanna sagði borgarstjóri bera hæst einsetningu þeirra fimm grunnskóla sem þar
eru, Álftamýrarskóla, Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla, Réttarholtsskóla og Hvassaleitisskóla en
henni fylgdu umtalsverðar byggingaframkvæmdir. Kom fram að Breiðagerðisskóli sem er einsetinn
byggi við nokkur þrengsli og til að bæta úr þeim væri hugsanlegt að taka í notkun lítinn leikskóla,
Staðarborg, sem er austan við skólann og stutt á milli. Einnig væri inni í myndinni að byggja við
skólann. Þá sagði hún að ástandið í Álftamýrarskóla væri það slæmt að tímasetningar varðandi
byggingaframkvæmdir við skólann væru í sérstakri athugun með flýtingu í huga.

Að sögn Ingibjargar Sólrúnar er verið að vinna að ýmsum nýjum verkefnum í grunnskólum
borgarinnar á þessu fyrsta ári eftir yfirfærslu grunnskólans til borgarinnar. Nefndi hún í því sambandi
lengingu skóladags sex til níu ára nemenda og að fjölga ætti námsráðgjöfum á unglingastigi.

Af leikskólamálum væri það að segja, að með tilkomu fjögurra deilda leikskóla við Hæðargarð í
sumar mætti segja að biðlistar eftir leikskólaplássum væru úr sögunni í þessum hverfum.

Því næst vék Ingibjörg að íþrótta- og tómstundamálum og gat sérstaklega ánægjulegs og jákvæðs
samstarfs milli Réttarholtsskóla og Bústaða í málefnum barna- og unglinga og væri það til
eftirbreytni.

Tvö íþróttafélög væru starfandi á svæðinu, Víkingur og Fram. Sagði hún að enn væri ólokið
samningsgerð milli borgarinnar, Víkings og Kópavogskaupstaðar vegna svæðis fyrir nýjan völl í
Stjörnugróf en nú sæi fyrir endann á þeirri vinnu og vonaðist hún til að innan tíðar yrði hægt að
ganga frá samningum við Víking um fjármögnun framkvæmda.

Af málefnum aldraðra væri það helst að frétta að í Hæðargarði 31 þar sem rekin hefur verið lítil
félagsmiðstöð í tengslum við sjálfseignaríbúðir aldraðra, hefði verið unnið að tilraunaverkefni þar
sem reynt hefði verið að samþætta alla heimaþjónustu við aldraða bæði félagslega þjónustu og
heimahjúkrun og aðra þjónustu svo sem heimsendan mat.

Borgarstjóri ræddi almennt um hverfin og sagði meðal annars að þó að svæðið væri að stærstum
hluta íbúðahverfi væri á útmörkum þess til vesturs og norðurs að Skeifunni meðtalinni, annað
stærsta atvinnusvæði borgarinnar, mælt í ársverkum. Væri það lítillega minna en miðbærinn vestan
Snorrabrautar.

Endurskoðun Aðalskipulags sagði Ingibjörg Sólrún að væri nú á lokastigi. Mestu breytingarnar
væru þær að lagt væri til að Fossvogsbraut og Hlíðarfótur verði felld út úr Aðalskipulagi. Hins vegar
væri haldið frá belti fyrir samgöngutengsl af einhverju tagi í framtíðinni og væru menn þá með í huga
nýja samgöngutækni, til dæmis vagna á spori af einhverju tagi. "Þótt þessar hugmyndir séu ójósar
þykir rétt að halda slíkum framtíðarmöguleiknum opnum," sagði hún.

Meira mun mæða á Miklubraut
Ingibjörg sagði jafnframt að með niðurfellingu Fossvogsbrautar mæddi meira á Miklubraut í
framtíðinni. Hefði að undanförnu verið lögð vinna í að meta alla þá kosti sem til greina kæmu. Hún
sagði að bornir hefðu verið saman valkostir með eða án mislægra gatnamóta við Skeiðarvog,
Grensásveg, Háaleitisbraut og Kringlumýrarbraut auk vegganga í mismunandi útfærslum við
Miklatún. Í aðalskipulagsvinnunni hefði niðurstaðan orðið sú að miða við mislæg gatnamót við
Skeiðarvog en ekki á hinum stöðunum svo og að gatan verði í stokk við Miklatún. Auk þess verði
lokið við að breikka götuna og koma upp fjögurra fasa umferðarljósum til að auka umferðaröryggið.
Þá væri miðað við að bæta aðstæður gangandi með göngubrúm eða undirgöngum, við Breiðagerði,
undir Kringlumýrarbraut við Miklubraut og yfir Miklubraut við Stakkahlíð. Auk þes verði í vor lokið við
göngubrú við Rauðagerði. Á þessu ári væri einnig fyrirhugað að taka í notkun aðra göngubraut yfir
Kringlumýrarbraut norðanverða á móts við nýbyggingahverfi, sem nefnt hefði verið Sóltún.

Í umræðum sem spunnust eftir framsöguerindi borgarstjóra komu meðal annars fram áhyggjur
foreldra og starfsfólks vegna óvissrar framtíðar Staðarborgar.

Borgarstjóri ítrekaði að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hvort leikskólinn yrði lagður niður og
börnin flutt í leikskólann við Hæðargarð. Verið væri að kanna áhuga fólks á vistun yngstu barnanna
á leikskólum borgarinnar. Fjögur hundruð foreldrar sem ættu börn á þessum aldri hefðu verið
spurðir að því hvort þeir myndu nýta sér þessa þjónustu núna. Verið væri að vinna úr könnuninni en
síðan yrði tekin ákvörðun.

Erfitt að staðsetja sundlaug
Spurt var hvort von væri á sundlaug í hverfið. Ingibjörg Sólrún sagði að æskilegt væri að sundlaug
kæmi á svæðið. Vandamálið væri að staðsetja slíkt mannvirki.

Snjómokstur á götum og gangstéttum kom til umræðu. Sagði einn íbúinn að börn sem ættu langt
að fara í skólann þyrftu stundum að ganga á götunni því snjónum væri rutt upp á gangstéttirnar.

Sagði Ingibjörg Sólrún að þau tæki sem notuð væru til hreinsunar gatna væru mun stórvirkari en
þau sem notuð væru til að hreinsa gangstéttir, þær sætu því stundum eftir. Menn hefðu þó reynt að
gera sitt besta við erfiðar aðstæður. Snjómoksturstæki borgarinnar miðuðust ekki við jafn erfiðan
vetur og hefði verið að undanförnu.

Á fundinum kom fram áhugi á hverfislöggæslu. Sagði Ingibjörg Sólrún að löggæsla í íbúðahverfum
borgarinnar eins og í Breiðholti og Árbæjarhverfi hefði reynst vel og vildi því sjá hana í sem flestum
hverfum borgarinnar en það væri á valdi ríkisins að taka ákvarðanir þar að lútandi.
Rithöfundar lesa fyrir leikskólabörn

Sögustund í Skerjafirði

Barnabókavika Félags íslenskra bókaútgefenda stendur nú yfir undir yfirskriftinni Bók er barna
gaman. Af þessu tilefni munu barnabókahöfundar lesa fyrir börn í tugum leikskóla í vikunni og
meðal þeirra sem fengið hafa heimsókn eru krakkarnir í Skerjakoti.


UPPI er fótur og fit á leikskólanum Skerjakoti ­ það er kominn gestur. Börnin í Fíladeildinni hreiðra
um sig á gólfinu og fylgjast grannt með hverri hreyfingu hans, þegar hann seilist ofan í
skjalatöskuna sína og raðar stafla af bókum á borðið fyrir framan sig. "Hvað heitirðu?" spyr einhver
og litlu andlitin eru ein augu. "Rúnar Ármann Arthúrsson," svarar gesturinn góðlátlega um hæl.

Því næst fær gesturinn sér sæti og gerir nánari grein fyrir sér. Hann skrifar bækur. "Hvernig
bækur?" er þá spurt og svarið lætur ekki á sér standa. Hann skrifar bækur fyrir krakka. "Aðallega
þó fyrir aðeins stærri krakka en ykkur sem þið getið lesið seinna," útskýrir hann. Þá skrifar hann
líka bækur fyrir fullorðna krakka!

En gesturinn er einnig með bækur eftir aðra en sjálfan sig í farteskinu, meðal annars mann sem
hann sýnir Fíladeildinni mynd af. "Jónas Árnason," gellur þá í einum í hópnum, sem reynist heita
Aron. "Jæja, þú getur lesið nafnið," segir gesturinn svolítið undrandi. "Já, Aron lærði að lesa af
mjólkurfernum," útskýrir Díana Sigurðardóttir leikskólastjóri. Mjólk er góð!, eins og þar stendur.

Þá er komið að lestrinum en í því skyni er gesturinn fyrst og fremst kominn. Þar sem hann hefur
lítið skrifað fyrir krakka á leikskólaaldri velur hann bók sem "annar maður skrifaði fyrst á dönsku en
hann skrifaði svo aftur á íslensku, þar sem íslensk börn lesa ekki dönsku". Bókin heitir Ingilín úr
borginni og er með myndum en bækur með myndum eru bestar, er það ekki? "Júúúúú," lýkur
Fíladeildin sundur einum munni.

Friðrik kóngur
Þegar krakkarnir hafa hlýtt á gestinn segja frá Ingilín, Sveini Eiríki, Friðriki kóngi, Kúti og öllum
hinum hefjast líflegar umræður. Gesturinn skýrir eitt og annað út fyrir áheyrendum sínum, svo sem
að klár sé annað nafn yfir hest og að hesturinn, Friðrik kóngur, sé nefndur í höfuðið á manni sem
var einu sinni kóngur í Danmörku. Það þykir krökkunum nokkur tíðindi.

Síðan er orðið laust. "Við erum líka búin að skrifa sögu," segir þá einhver. "Nú," segir gesturinn,
"um hvað er hún?" "Hún er um Gústa kúst sem festist í tyggjói og brennir sig á sígarettu," er
svarað. "Gústi kústur er alltaf að sópa og gera hreint en við erum að læra að hugsa um landið,"
bætir Díana leikskólastjóri við en krakkarnir eru nýkomnir úr heimsókn í Sorpu, þar sem þeim var
sýnt hvernig flokka á rusl.

Upp frá þessu líður samverustundin hins vegar undir lok enda er eirðarleysi eitt helsta einkenni
lítilla sála ­ þær vilja fara að leika sér. Gesturinn þakkar fyrir ágætar undirtektir og hefur á orði að
krakkarnir hafi verið áhugasamir, miðað við þyngd textans sem var lesinn. Áður en hann hverfur á
braut syngur Fíladeildin síðan fyrir hann um krummann í hlíðinni ­ vísu sem hún er nýbúin að læra.

Þegar gesturinn er farinn gefa fjórir krakkar, þau Aron, Díana Rut og Magnús sex ára og Bryndís
fimm ára, sér tíma til að spjalla við blaðamann sem fylgst hefur með úr fjarska. Þykir þeim gaman
að skoða bækur? "Já," segir Aron sem verður fyrstur fyrir svörum, "en mér finnst samt
skemmtilegra að lita." Hin þrjú segjast líka hafa gaman af að skoða bækur.

Díana leikskólastjóri skýtur því inní að í Skerjakoti sé lögð áhersla á að halda tryggð við bókina og
tvær sögustundir séu á degi hverjum. En skyldi vera lesið fyrir krakkana heima? "Já, mamma les
stundum fyrir mig á nóttunni," segir Magnús og ljómar í framan. Díana leikskólastjóri telur á hinn
bóginn líklegra að hann eigi við kvöldin. Hin þrjú staðfesta einnig að lesið sé fyrir þau heima.

Turtles og Alladín
En hvað er lesið? "Turtles," svarar Aron röggsamlega. "Það er uppáhaldsbókin mín." Bryndís er
hrifnust af Pocahontas en Alladín er í mestum metum hjá Díönu Rut og Magnúsi. "Jæja," hugsar
blaðamaður, "hvað varð um Hjalta litla og Árna í Hraunkoti?"

Díana leikskólastjóri segir reyndar að líkast til séu það karakterarnir, frekar en bækurnar sjálfar,
sem heilli unga fólkið í þessu tilfelli en erlendar teiknimyndahetjur eru, svo sem flestum er kunnugt,
mun betur markaðssettar en persónur í íslenskum barnabókum. Máli sínu til stuðnings bendir
Díana á, að bækurnar sem njóti mestrar hylli í Skerjakoti séu flestar íslenskar. Er nafn Sigrúnar
Eldjárn þar efst á blaði og nefnir leikskólastjórinn bækur á borð við Langafi drullumallar, Bé tveir og
Axlabönd og bláberjasaft. Þá standi Einar Áskell alltaf fyrir sínu, auk þess sem bók Bubba
Morthens, Rúmið hans Árna, hafi slegið í gegn í fyrra.

Að svo mæltu eru fjórmenningarnir ungu þotnir enda hafa þeir í mörg horn að líta. Samkeppnin um
athygli ungviðisins harðnar líka stöðugt ­ tæknin hefur rutt sér til rúms í þeirra veröld, eins og okkar
sem eldri eru. Af þessari heimsókn verður hins vegar ekki ráðið að bókin eigi undir högg að sækja ­
þvert á móti virðist hún, sem fyrr, lifa góðu lífi.
Bensín til á sjálfsölum til 5­7 daga

DREIFING á eldsneyti til bensínstöðva hefur stöðvast með öllu í Reykjavík og einnig dreifing á
hráolíu til skipa og flugvélaeldsneyti. Strætisvagnar Reykjavíkur eiga dísilolíuforða til einnar viku og
er í undirbúningi að draga úr tíðni ferðanna. Afgreitt verður af sjálfsölum á bensínstöðvum í
Reykjavík að öllu óbreyttu meðan birgðir endast. Talið er að þær birgðir dugi í 5-7 daga. Búast má
við að eldsneytisbirgðir endist lengur á svæðum sem eru þjónustuð frá Akranesi þar sem olíufélögin
hafa fyllt birgðatanka sína. Ekki verður þó fyllt á þá aftur meðan á verkfalli stendur. Bifreiðaeigendur
á höfuðborgarsvæðinu ættu því að geta nálgast bensín í Hvalfirði, Borgarnesi eða á Akranesi þegar
allt um þrýtur.

Olíufélögin telja sig vera í fullum rétti með að hafa sjálfsalana opna. Í flestum tilfellum eru
bensínstöðvar orðnar verslanir og voru flestar opnar í gær sem slíkar. VR-menn eru þar við störf og
almenna reglan er sú að einn VR-maður sé á hverri stöð. Þeir eiga ekki að dæla bensíni og heldur
ekki að taka við greiðslu fyrir bensínið heldur á bensínafgreiðslan að vera eins og að nóttu í gegnum
sjálfsalana.

Kristinn Björnsson, forstjóri Skeljungs, segir að nóg bensín sé til alls staðar eins og er. Hver
einasta bensínstöð á höfuðborgarsvæðinu væri með sjálfsala og í neðanjarðartönkum væru 40-60
þúsund lítrar á hverri stöð.

"Hvað sem öðru líður ætlum við okkur ekki að fara í stríð við Dagsbrún. Það er líka til nóg bensín
hérna rétt utan við bæjarmörkin, t.d. á Selfossi og Akranesi. Við erum búnir að haga málum þannig
að allir birgðatankar úti á landi eru fullir núna svo við eigum ekki von á því að það þverri í einhverjar
vikur," sagði Kristinn.

Kristinn telur bensín á höfuðborgarsvæðinu duga í um eina viku.

Brögð að verkfallsbrotum
Að sögn verkfallsvarða hjá Dagsbrún voru brögð að því að verkfallsbrot væru unnin á bensínstöðvum
í borginni í gær en engin dæmi voru um að slegið hefði í brýnu milli manna. Bensínstöðvarnar hefðu
haft 2-3 VR-menn á sumum stöðvum, aðallega hjá Skeljungi. Dagsbrúnarmenn hefðu séð um að
tæma sjálfsalana sem stöðvuðust því af sjálfu sér þegar þeir fylltust. Dagsbrúnarmenn höfðu fregnir
af því að olíufélögin ætluðu að senda skrifstofumenn til þessara verka en ekki hafði verið ákveðið í
gær hvernig yrði brugðist við því.

Knútur G. Hauksson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar ehf., segir að birgðastöðvar séu úti um allt
land og starfsmenn sem ekki eru í Dagsbrún annist dreifingu á olíu þar. Gasolíu- og bensíndreifing
er t.d. frá birgðastöð á Akranesi til Hvalfjarðar og Borgarfjarðar. Hins vegar verður ekki hægt að fylla
á birgðatankana. Olíu er skipað á land í Reykjavík, Hafnarfirði og Hvalfirði en bensíni er eingöngu
skipað á land í Reykjavík. Birgðir til eins mánaðar eru yfirleitt í birgðatönkunum.

Flugvélaeldsneyti til nokkurra daga
Olíudreifing ehf. dreifir flugvélaeldsneyti út þessa viku til Keflavíkurflugvallar frá Hafnarfirði og birgðir
eru taldar endast í nokkra daga þar. Hætt er að dreifa flugvélaeldsneyti til innanlandsflugsins á
Reykjavíkurflugvelli en birgðir eru taldar endast út þessa viku. Dreifing hefur einnig stöðvast á
skipaolíu á höfuðborgarsvæðinu.

Allra handa hf. langferðabílar hefur komið sér upp olíubirgðum til eins mánaðar reksturs. Þórir
Garðarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að í samningi sem fyrirtækið gerði við sitt
olíufélag sé kveðið á um að alltaf sé til næg olía til rekstursins í a.m.k. einn mánuð. Fyrirtækið er
nú með 15 þúsund lítra af dísilolíu í tönkum á athafnasvæði sínu.

Jóhannes Ellertsson, hjá Vestfjarðaleið, segir að fyrirtækið sé vel birgt af olíu og fyllt hafi verið á
alla tanka í fyrrakvöld. Vestfjarðaleið rekur 24 bíla en alla jafnan er ekki nema um helmingur þeirra í
daglegri notkun. Allt frá 200 upp í 600 lítrar af olíu eru á hverjum bíl. Einnig er fyrirtækið með aðrar
birgðir þannig að reksturinn er tryggður í einn mánuð.

SVR með birgðir í eina viku
Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri SVR, segir að fullir tankar séu á öllum vögnum en birgðir eigi að
duga í rúma eina viku. "Það er hugsanlegt að dregið verði úr tíðni ferða ef við sjáum fram á að
verkfallið ætli að dragast á langinn. Þó er ansi hart að þurfa að gera það þegar almenningur er að
leggja einkabílunum. Ef til kæmi drægjum við úr tíðni ferða utan álagstíma," sagði Lilja.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fékk fyrirspurn fyrir síðustu helgi um viðhorf þess til þess að
sérleyfishafar fengju stóra olíutanka hjá olíufélögunum og geymdu á athafnasvæðum sínum. Tryggvi
Þórðarson, Heilbrigðiseftirliti, sagði að það væri flokkað með mengandi starfsemi að hafa svona
tanka og þyrfti starfsleyfi til.

"Hins vegar höfum við ekki mótað kröfur sem þarf að gera til þessa og erum því ekki í stakk búnir til
þess að taka á þessum málum," sagði Tryggvi.

Gunnar Ólafsson, hjá Eldvarnaeftirliti Reykjavíkur, segir að það sé ómögulegt að koma í veg fyrir að
almenningur hamstri bensín og geymi á alls kyns ílátum. Erfitt sé að fylgjast með þessu eftir að
sjálfsalarnir komu til sögunnar. Hann segir að til séu brúsar sérstaklega til þess gerðir að geyma í
bensín.

"Hættan er sú að fólk láti bensín á venjulega plastbrúsa og að það hlaðist upp rafmagn við núning
bensínsins við brúsann. Hugsanlega gæti það gerst að neisti hlaupi í bílinn og það gæti verið nóg til
þess að valda íkveikju," segir Gunnar. Hann segir að slöngur á dælum bensínstöðvanna séu
sérstaklega jarðtengdar til þess að koma í veg fyrir að stöðurafmagn hlaðist upp.
Bensíni fyrir 180 þús. stolið

BENSÍNKORT virðast í auknum mæli freista þeirra sem brjótast inn í bifreiðar samkvæmt
upplýsingum frá lögreglu og eru nokkur dæmi um að óprúttnum aðilum hafi tekist að misnota slík
kort. Í nýlegu tilviki tókst handhafa stolins bensínkorts að taka út bensín fyrir 180 þúsund krónur á
kortið, áður en þjófnaðurinn uppgötvaðist.

Lögreglan bendir fólki á að geyma ekki slík kort í bifreiðum og sé öruggara að bera þau í veskjum
eða á öðrum stöðum sem erfiðara er fyrir óheiðarlega einstaklinga að nálgast.
Framtíð Flugfélags Íslands í kjölfar ákvörðunar Samkeppnisráðs

Biðstaða og óvissa í málinu fram í næstu viku

Forráðamenn Flugfélags Íslands íhuga nú næsta skref varðandi fyrirkomulag innanlandsflugsins,
en þeim þykja sum skilyrði Samkeppnisráðs hörð. Jóhannes Tómasson kynnti sér stöðu mála.


"ÚRSKURÐUR Samkeppnisráðs kom okkur algjörlega í opna skjöldu, í það minnsta það sem
snertir skipan í stjórn og takmörkun á áætlun en við erum að skoða málið og tökum ákvörðun um
framhald í næstu viku."

Þetta sagði Páll Halldórsson forstöðumaður Flugleiða innanlands aðspurður um framtíð Flugfélags
Íslands í kjölfar ákvörðunar Samkeppnisráðs síðasta föstudag en ráðgert var að FÍ tæki til starfa 1.
júní næstkomandi.

Búið er að ráða nokkra starfsmenn til Flugfélags Íslands, m.a. flugmenn og ýmsa lykilstjórnendur
sem m.a. hafa losað sig úr störfum hjá öðrum félögum. Var fundur með starfsmönnum FÍ í gær þar
sem staðan var rædd. Þá hafa forráðamenn hins væntanlega nýja félags unnið að samningum um
verkefni, m.a. leiguflugsverkefnum sem Flugfélag Norðurlands hefur sinnt fyrir Grænlandsflug og eru
allumfangsmikil. Gangi undirbúningurinn til baka er óvíst hvort þessi verkefni lenda aftur hjá FN, þau
gætu einnig hafnað á borði Flugleiða. Fari svo er framtíð FN óljós þar sem afkoma félagsins hefur
að verulegu leyti byggst á tekjum af leiguflugsverkefnum. Ljóst er að starfsemin yrði allt önnur og
mun umfangsminni en hún er í dag en félagið hefur verið með sex flugvélar í rekstri. Má því segja að
gangi stofnun FÍ til baka muni það hafa mun hastarlegri áhrif á FN þar sem öll starfsemi félagsins
átti að fara undir hatt FÍ en aðeins hluti af starfsemi Flugleiða.

Páll Halldórsson sagði ekki afráðið hvað yrði með flugmenn sem búið var að ráða. Í byrjun febrúar,
fljótlega eftir að kynnt voru áform um stofnun FÍ, voru ráðnir 16 flugmenn. Þeir sóttu strax
námskeið, 12 til að öðlast réttindi á Metró, vél sem FN hefur verið með í rekstri og 4 voru á
námskeiði til flugs á Fokker vélum. Er þessum námskeiðum nýlega lokið.

Við ætlum að halda áfram innanlandsflugi svo það verða verkefni fyrir þessa flugmenn, spurning
hvernig vinna, en þessir 16 flugmenn voru ráðnir á þeim kjörum sem gilt hafa milli FÍA og Flugfélags
Norðurlands." Páll sagði of snemmt að segja hvort flugmennirnir, sem nú hafa að mestu lokið
námskeiðunum, hverfi til starfa hjá Flugleiðum eða FN verði ekki af stofnun FÍ.

Það er hins vegar afar slæmt að lenda í þessari biðstöðu, við erum búnir að vinna að málinu í góðri
trú. Óvissan er slæm fyrir félagið og starfsfólkið en við vonum að línur skýrist fljótlega í næstu viku,"
sagði Páll.

Reglur til að gæta jafnræðis
Guðmundur Sigurðsson forstöðumaður samkeppnissviðs sagði aðspurður í gær, að vegna þeirra
breytinga sem verða í sumar, að innanlandsflug verður gefið frjálst, myndi stofnunin líklega hafa
reynt að setja svipaðar reglur og koma fram í ákvörðun Samkeppnisráðs um FÍ. Hugsanlega hefði
orðið að setja Flugleiðum innanlands svipaðar reglur til að gæta jafnræðis, form þeirra hefði verið
annað en slíkt hefði trúlega átt sér stað vegna stöðu Flugleiða.

Guðmundur sagði aðspurður um ummæli samgönguráðherra í Mbl. í gær um að Samkeppnisráði
hlyti að hafa verið kunnugt um væntanlegan samruna, að stofnunin hefði ekki það hlutverk að
blanda sér í viðræður fyrirtækja um samruna eða hlutabréfakaup. Hins vegar er sérstaklega gert ráð
fyrir því í samkeppnislögum," segir Guðmundur, að fyrirtæki geti leitað álits Samkeppnisráðs áður
en gengið er frá samningum um samruna eða yfirtöku, en það kusu aðilar máls FÍ hins vegar ekki
að gera."

Guðmundur minntist einnig á ummæli ráðherra varðandi hagræðingu og virka samkeppni:
Samkeppnisráð er með ákvörðun sinni að aðstoða samgönguráðuneytið í því að skapa grundvöll
fyrir virka samkeppni í innanlandsfluginu. Ráðuneytið hefur ákveðið að fella niður öll sérleyfi í
innanlandsflugi frá 1. júlí næstkomandi og með því er opnað fyrir samkeppni í þessari grein. Hins
vegar er það nánast náttúrulögmál að þar sem fyrirtæki hefur 90% markaðshlutdeild og fær að leika
lausum hala getur aldrei ríkt virk samkeppni. Það að setja leikreglur, sem stuðla að því að jafnræði
ríki með þeim fyrirtækjum sem á markaðnum starfa og gera nýjum keppinautum kleift á ná fótfestu,
dregur ekki úr þjónustu við þá sem á henni þurfa að halda né hagræðingu. Þvert á móti má ætla að
virk samkeppni leiði til betri þjónustu og lægra verðs."

Flugmenn bíða átekta
Ólafur S. Guðmundsson, einn þeirra flugmanna sem hafði sagt upp starfi sínu, kvaðst vera alveg
rólegur og sagði flugmenn myndu bíða átekta, taldi að FÍ myndi hefja starfsemi með vorinu þrátt
fyrir skilyrði Samkeppnisráðs. Ólafur starfaði hjá Leiguflugi Ísleifs Ottesen og sagðist Ísleifur
aðspurður ekki óvanur því að ala upp flugmenn fyrir stærri flugfélögin. Hann kvaðst finna til með
þeim flugmönnum sem ráðnir hefðu verið til FÍ, ljóst væri að meiri tíma hefði þurfti til undirbúnings
fyrir flugrekstur félagsins.

Þrír fastráðnir flugmenn hjá Íslandsflugi og einn flugvirki höfðu einnig ráðið sig til FÍ og sagði Gunnar
Þorvaldsson stjórnarformaður Íslandsflugs að þeim hefði verið gefinn eftir uppsagnarfrestur þar sem
þeirra var óskað á námskeið strax. Hefur Íslandsflug þegar ráðið menn í stað þeirra og sagði
Gunnar því með öllu óljóst hvort þeir ættu afturkvæmt til Íslandsflugs yrði ekki af stofnun FÍ.

Þetta álit Samkeppnisráðs hefur í sjálfu sér ekki áhrif hjá okkur en við vorum reyndar hissa á hve
skeleggir þeir eru í skoðunum," sagði Gunnar er hann var spurður um skoðun Íslandsflugs á
skilyrðum sem Samkeppnisráð setur fyrir tilurð Flugfélags Íslands.

Jafna þarf aðstöðu á flugvöllum
Gunnar sagðist líta á þetta sem framtíðarálit Samkeppnisráðs, burtséð frá því hvort af stofnun
Flugfélags Íslands yrði eða ekki og að kappsmál Íslandsflugs væri að geta búið við jafnar leikreglur.
Við höfum lagt mest upp úr því að hið opinbera sjái til þess að við fáum jafna aðstöðu í öllum
flugafgreiðslubyggingum. Við höfum þurft að berjast fyrir hverjum fermetra, erum komnir með
aðstöðu á Egilsstöðum, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði en höfum enga aðstöðu á Akureyri, sem er
okkur kappsmál. Það er ekki nóg að veita frelsi í fluginu sjálfu ef ekki er hægt að fá jafna aðstöðu á
flugvöllunum," segir Gunnar ennfremur.
Björgunarsveitaæfing við Langjökul

Samhæfa leit á sleðum og bílum

Næsta laugardag verða Björgunarsveitir á suðvesturlandi með æfingu í leit á vélsleðum og snjóbílum
við Langjökul. Það eru sveitir frá Hellu í austri til og með Borgarnesi í vestri sem eiga snjóbíla,
vélsleða og menn á þessari æfingu. Á þessu svæði eru 27 sveitir Slysavarnarfélagsins og 12 frá
Landsbjörgu. Alls taka þátt í kringum 200 einstaklinga á 11 snjóbílum og 80 vélsleðum.

"Þetta er í fimmta sinn sem svipuð æfing er haldin og hafa þær verið í umsjón Björgunarsveitar
Slysavarnarfélagsins í Mosfellsbæ og á Selfossi."

­Hvernig fer æfingin fram?

"Allir aðilar æfingarinnar hittast við Geysi í Haukadal á föstudagskvöld. Þá verður strax sest niður
og farið yfir helstu atriði æfingarinnar á fundi. Leitarsvæðinu verður skipt niður í nokkra hluta á
nokkra hópa. Í hverjum hópi verður einn snjóbíll og átta vélsleðar. Hver hópur á að leita að
"sjúklingum" sem komið hefur verið fyrir uppi áleitarsvæðunum og skila þeim til stjórnstöðvar.

Þetta er svokölluð breiðleit þar sem tækjunum verður stillt upp í línu og þau keyrð hægt og rólega
yfir leitarsvæðið. Veðrið verður síðan að ráða því hversu mikið bil er haft á milli tækja. Í verstu
veðrum þarf að hafa þau hvert upp við annað. Notað er GPS-staðsetningarkerfi til þess að miða sig
út og staðsetja önnur tæki á svæðinu. Einnig er komið inn á ýmsar hættur sem menn þurfa að
varast. Þessi leit stendur væntanlega fram eftir degi og að henni lokinni koma allir saman á ný í
stjórnstöð og bera saman bækur sínar."

­Hver er tilgangurinn?

"Tilgangurinn er að samhæfa björgunaraðgerðir hjá sveitum og þá sérstaklega með notkun snjóbíla
og vélsleða í huga. Þessi æfing er mjög nauðsynlega þar sem þessar sveitir vinna mikið saman.
Því er mikilvægt að sveitarmenn hittist með sín tæki og stilli saman strengina og miðli af reynslu
sinni.

­Eru þetta einu reglubundnu æfingarnar hjá sveitunum?

"Svo er ekki. Það er haldnar sameiginlegar æfingar hjá sveitum á þessum svæðum. Þessi æfing
tekur aðeins til hluta þess starfs sem þessar sveitir eru í, það er leit með snjóbílum og vélsleðum.
Séræfingar eru fyrir aðra hópa sveitanna. Ákvörðun var hins vegar tekin um að taka bara einn þátt
út núna og æfa hann sérstaklega."

­Hafa þessar æfingar sannað gildi sitt?

"Þær hafa tvímælalaust gert það. Nýlega lentum við í leit þar sem nær eingöngu var notaður sá
mannskapur og þau tæki sem við höfum verið að nota á sameiginlegu æfingunum. Við teljum að
æfingarnar hafi tvímælalaust sannað sig og menn séu betur undir það búnir að mæta erfiðleikum.

Aukinn áhugi almennings fyrir ferðum um hálendið kallar einnig á það að björgunarsveitir um land
allt séu í stakk búnar að aðstoða fólk er það lendir í vanda."

­Er mikið um að menn sérhæfi sig í ákveðnum verkefnum hjá Björgunarsveitunum?

"Hjá Kyndli í Mosfellsbæ þar sem ég er félagi höfum við sérhæft okkur í leit með snjóbílum og
vélsleðum, en að sjálfsögðu er sveitin tilbúin í alla leit. Við erum að reyna að sérhæfa sveitirnar til
að menn verði góðir á sinu sviði. Einnig á sérhæfingin við þau svæði sem sveitirnar búa á. Við erum
til dæmis með menn sem geta hlaupið upp Esjuna hvenær sem er, hvernig sem aðstæður eru."

­Hver er kostnaðurinn við æfinguna?

"Kostnaðurinn er mjög mikill en hver sveit sér um að greiða útlagðan kostnað við mannskap og
tæki. Þess má geta að svona æfing kostar um 30 til 40 þúsund á hvern snjóbíl."

­Í margbreytilegu starfi björgunarsveitanna, er þetta ekki nema brot af því, ekki satt?

"Það er rétt, þetta er ekki nema lítill hluti af því starfi sem fram fer hjá sveitunum til þess að vera í
sem bestri æfingu þegar beiðni um aðstoð berst, en við erum ævinlega reiðbúnir að fara til leitar.
Þá verða öll tæki að vera í lagi og kunnátta fyrir hendi að nota þau. Það tekur mikinn tíma að halda
öllum tækjum í lagi fyrir utan annað starf."

­Reka ekki margar sveitir öflugt unglingastarf?

"Með öflugu unglingastarfi skjótum við styrkari stoðum undir framtíð sveitanna. Nú eru þrjátíu og sjö
unglingadeildir um allt land og þær eru með æfingum búnar undir björgunar- og slysavarnastarf.
Þarna læra unglingarnir undirstöðuatriði svo sem notkun áttavita, skyndihjálp, ferðamennsku svo
fátt eitt sé nefnd. Á þessari æfingu um helgina kemur nokkur hópur unglinga til með að leika
"sjúklinga". Um leið kynnast þau hvernig það er að starfa í björgunarsveit."

Davíð Rúnar Gunnarsson er 24 ára gamall félagsmaður Björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ.
Hann og félagar hans í sveitunum á SV-landi verða með sameiginlega æfingu á Langjökli á
föstudag og laugardag. Hann er í æfingastjórn þessarar æfingar. Davíð er einnig í stjórn
Slysavarnafélags Íslands fyrir unglingadeildir og jafnframt í stjórn Björgunarsveitarinnar Kyndils og
umsjónarmaður unglingadeildar. Hann hefur verið í Slysavarnafélaginu í 8 ár. Þá er hann með
leiðbeinenda réttindi í snjóflóðaleit, rústabjörgun og á GPS staðsetningarkerfi.
Hverfafundur borgarstjóra með íbúum í Efra-Breiðholti

Einsetning skóla stærsta verkefni borgarinnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði á hverfafundi með íbúum í Efra-Breiðholti að
stærsta verkefnið á næstu árum yrði að einsetja grunnskólana. Fram kom að samtals vantaði 17
kennslustofur í Fella- og Hólabrekkuskóla til að einsetja þá. Þórmundur Jónatansson hlýddi á
umræður sem snerust um allt milli himins og jarðar ­ bókstaflega.


ENGIN átök urðu um eitt málefni fremur en annað á hverfafundinum. Á hinn bóginn komu fram
margar fyrirspurnir og ýmsar athugasemdir gerðar við eitt og annað sem betur mætti fara í hverfinu.
Skólamál voru ótvírætt í brennidepli bæði í máli borgarstjóra og fundargesta. Einnig ræddu íbúar
mikið um stígagerð á opnum svæðum og viðhald stíga inni í hverfinu. Þá var sérstökum áhyggjum
lýst varðandi mikla umferð og umferðarhraða við Austurberg, einkum að vetrarlagi þegar börn
neyddust til vegna snjóruðninga að ganga á götunni til að komast til skóla.

Fundurinn í Gerðubergi var þriðji hverfafundur borgarstjóra af átta en næsti fundur verður haldinn 10.
mars í Ölduselsskóla með íbúum Bakka-, Stekkja-, Skóga- og Seljahverfis.

Eftir að hafa rætt almennt um stöðu og stefnu í borgarmálum vék borgarstjóri að málefnum er
vörðuðu hverfið sjálft. Ingibjörg Sólrún sagði að borgaryfirvöldum væri allmikill vandi á höndum vegna
einsetningar Fella- og Hólabrekkuskóla. Þessir skólar teldu nú 1.250 nemendur en búist er við að
þeir verði 170­180 fleiri skólaárið 2001­2002. Sagði hún að samtals vantaði 17 kennslustofur til að
einsetja skólana.

Áform um viðbyggingar
Borgarstjóri greindi frá því að gerð hafi verið fimm ára áætlun sem miði að því að ljúka einsetningu
allra grunnskóla borgarinnar. Samkvæmt áætluninni, sem enn hefur ekki verið samþykkt, er
áformað að hefjast handa við 700 fermetra viðbyggingu við Fellaskóla á næsta ári og ljúka henni
árið 1999. Jafnframt var greint frá því að gert væri ráð fyrir að hefja byggingarframkvæmdir á þessu
ári vegna Hólabrekkuskóla en þar vantar 10 kennslustofur.

Aðspurð hvers vegna gengi svo seint að einsetja skólana sagði borgarstjóri að lítið hafi verið farið
að huga að einsetningu fyrr en árið 1993. Þegar væri þó búið að einsetja 14 skóla af 30 sem væru í
umsjón borgar eftir yfirfærslu þeirra frá ríkinu. Taldi hún einsýnt að þetta yrði stærsta verkefni
borgarinnar á komandi árum og að einum milljarði yrði veitt í verkefnið samhliða byggingu nýrra
skóla.

Tveimur gæsluvöllum lokað
Í umfjöllun borgarstjóra um leikskólamál kom fram að stuttir biðlistar væru um leikskólapláss í
hverfinu og að þess vegna væru engar nýframkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári. Þá var greint frá því
að tveimur gæsluvöllum, við Suðurhóla og Iðufell, hafi verið lokað vegna lítillar aðsóknar.

Borgarstjóri sagði að tekist hefði að ná fram nokkurri hagræðingu með sameiningu rekstrar og
starfsmannahalds Breiðholtslaugar og Íþróttahússins við Austurberg í Íþróttamiðstöðina Austurberg.
Greint var frá því að á síðasta ári hafi um 230 þúsund manns komið í Breiðholtslaug.

Ingibjörg Sólrún sagði í umfjöllun um öldrunarmál að borgarstjórn hafi samþykkt að gerð verði
tilraun til eins árs um að opna félagsstarf aldraðra í Gerðubergi fyrir stærri hóp. "Með þessari tilraun
er leitað eftir svari við þeirri spurningu hvort það verði e.t.v. framtíðin að bækistöðvar félagsstarfs
aldraðra, sem eru víða um borgina, breytist í almennar menningarmiðstöðvar eða einskonar
hverfisfélagsheimili opin öllum þeim sem þau vilja nýta," sagði borgarstjóri.

Fram kom einnig að í Gerðuberg koma 5­700 manns á degi hverjum að vetri til en í gær, 4. mars,
voru 14 ár liðin frá því að menningarmiðstöðin var opnuð.

Frágangi gatna lokið
Ingibjörg Sólrún sagði að hverfið væri ekki lengur íbúðarhverfi barnmargra fjölskyldna og að
hlutfallslegur fjöldi barna og unglinga í hverfinu væri nærri meðaltali. Nú búa þar tæplega 10 þúsund
manns og hefur þeim fækkað um 1.300 á síðasta áratug.

Frágangi gatna og gönguleiða í Breiðholtshverfum er í meginatriðum lokið enda teljast hverfin
fullbyggð. Borgarstjóri sagði að í skipulagsmálum og gatnagerð væri víða tilefni til lagfæringa og
endurbóta og væru flestar framkvæmdir þessa árs og hins síðasta þess eðlis.

Ingibjörg Sólrún sagði að í skipulagi Breiðholtshverfa væri víða gert ráð fyrir að draga úr gangandi
umferð inn á göngustíga sem liggja í gegnum miðju viðkomandi hverfis en sleppa jafnvel gangstétt
meðfram umferðargötum. Sagði hún þó óhjákvæmilegt að bæta við gangstéttum og þannig verði
m.a. haldið áfram lagningu gangstéttar við Vesturberg.

Í ár verður einnig haldið áfram að bæta aðgengi að gönguleiðakerfi borgarinnar, m.a. til að gera
fötluðum betur kleift að nýta sér gönguleiðirnar.

Vill ekki fórna næturhimni
Borgarstjóri var spurður hvort til greina kæmi að "ljósvæða" göngustíga, m.a. í Elliðaárdal, í ljósi
góðs árangurs við að bekkjavæða stígana. Sagði hún að mjög umdeilt væri hversu mikil lýsing ætti
að vera á opnum svæðum. Taldi hún að þeirri skoðun yxi fylgi að takmarka mjög lýsingu vegna
hættu á ljósmengun. "Mikil lýsing dregur einnig úr líkum á að hægt sé að njóta stjörnubjarts
himins," sagði hún. "Að missa næturhimininn er eins og að missa Esjuna."

Engu að síður taldi hún koma til greina að hafa lýsingu við jörðu en nánast útilokaði ljósastaura við
þessar aðstæður.

Einn fundargesta taldi mjög mikilvægt að gerðar yrðu úrbætur vegna mikillar umferðar við
Austurberg og fullyrti hann að börn kæmust við illan leik í skóla. Borgarstjóri sagði að erfitt væri að
minnka umferð en nærtækara væri að reyna að halda umferðarhraða niðri. Þetta hafi verið gert en
ekki væri fleira á dagskrá í þessu efni. Annar gestur óskaði eftir því að lögð yrði gangbraut meðfram
Suðurhólum til að tengja saman Þrastarhóla og barnaheimilið Hólaborg. Kvaðst borgarstjóri mundu
vekja máls á hugmyndinni við borgarverkfræðing.

Á fundinum var kvartað yfir slakri póstþjónustu í hverfinu eftir að pósthús hverfisins var lagt niður
fyrir skömmu. Borgarstjóri tók undir gagnrýnisraddir á fundinum og lýsti þeirri skoðun sinni að
þjónusta Pósts og síma hf. væri takmörkuð í hverfum borgarinnar.

Tveir fundarmenn lýstu loks þeirri skoðun sinni að með leiðakerfisbreytingum SVR hafi orðið afturför
í almenningssamgöngum í hverfinu. Farið var fram á að ferðum yrði fjölgað og að vagnar gengju
lengur á hverjum degi um hverfið. Borgarstjóri sagði að þessar athugasemdir yrðu teknar til
athugunar líkt og margar fleiri við endurskoðun leiðakerfisins sem eigi að ljúka fyrir sumarbyrjun.
Feðgin sluppu naumlega úr brennandi húsi

Bolungarvík-

Feðgin sluppu naumlega úr brennandi húsi að morgni páskadags, húsið sem er
einbýlishús og stendur við Heiðarbrún 6 í Bolungarvík, brann til grunna á innan við klukkustund.

Vart varð við eldinn rétt fyrir klukkan sex en þá hafði húsráðanda, Ólafi Benediktssyni, og 17 ára
dóttur hans, Mögnu Björk, tekist að brjóta sér leið út um glugga, örfáum mínútum síðar varð húsið
alelda. Fleiri voru ekki í húsinu þessa nótt þar sem eiginkona Ólafs var á næturvakt á Sjúkrahúsi
Bolungarvíkur.

Ólafur sagði í samtali við fréttaritara að hann hefði vaknað við einhvern hávaða og væl í
reykskynjaranum, þá hefði húsið verið orðið fullt af reyk og hann hefði vakið dóttur sína. Á þeirri
stundu var enginn tími til annars en að reyna að komast út. Útgönguleið út um útidyrnar var ekki
fær og því hefði hann tekið lítið borð sem var inni í herbergi dótturinnar og notað það til að brjóta
glerið í glugga herbergisins og þau komið sér þar út. Fáklædd fóru þau í næsta hús og vöktu þar
upp til að sækja aðstoð.

Slökkvilið Bolungarvíkur var kallað út klukkan 5.55, um hálftíma seinna kemur svo slökkvilið
Ísafjarðar jafnframt til aðstoðar. Slökkviliðsmenn lögðu í fyrstu höfuðáherslu á að verja húsin hvort
sínu megin við hið brennandi hús, en ekki mátti miklu muna að eldurinn bærist í þau einnig.

Slökkvistarfi var lokið um klukkan sjö og var þá nánast allt brunnið sem brunnið gat.

Eldurinn mun upphaflega hafa komið upp í stofunni sem er í norðurenda hússins, og talið er að
kviknað hafi í út frá sjónvarpstæki.

Einbýlishúsið að Heiðarbrún 6, sem er steinsteypt einingarhús, var byggt 1978.

Í samtali við fréttaritara vildi Ólafur fyrst og fremst koma á framfæri þakklæti sínu og fjölskyldu
sinnar til allra þeirra er sýnt hafa þeim hlýhug í kjölfar þess atburðar, það hefði í raun haldið þeim
gangandi eftir þessar hörmungar. Aðstoð nágrannanna, Benedikts Kristjánssonar og hans
fjölskyldu, á meðan á atburðinum stóð og eftir væri ómetanleg, sem og fjölda annarra. Einnig vill
Ólafur þakka slökkviliðsmönnum og lögreglu þeirra starf sem var þrekvirki miðað við aðstæður.
Götuheiti í Bryggjuhverfi

BORGARRÁÐ hefur samþykkt tillögu að nafngiftum í Bryggjuhverfi.

Lagt er til að götuheitin verði Básbryggja, en Bás er örnefni skammt frá þeim stað þar sem gert er
ráð fyrir bátastæði, Naustabryggja, sem sótt er í örnefnið Naustatanga á norðurströnd Grafarvogs
og Tangabryggja, sem skírskotar til Naustatanga og Litlatanga á suðurströnd Grafarvogs. Þá er
lagt til að höfnin verði nefnd Bryggjuhöfn, hafnargarðurinn Bryggjugarður og torgið Bryggjutorg.
Bæjarstjóri fær vaxtalaust lán til bifreiðakaupa

Þátttaka bæjarins í rekstri bifreiðar

AKUREYRARBÆR veitti Jakobi Björnssyni bæjarstjóra vaxtalaust lán til bifreiðakaupa þegar hann
tók við störfum í upphafi þessa kjörtímabils. Í ráðingarsamningi við bæjarstjóra kemur fram að
bærinn veiti bæjarstjóra lán til bifreiðakaupa, lánsupphæð fari eftir samkomulagi, lánið sé
vaxtalaust og skuli endurgreitt á fjórum árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Þetta kom
m.a. fr**
Norðurlandi.

Jakob Björnsson bæjarstjóri sagði ekkert óeðlilegt við þetta ákvæði ráðingarsamningsins, en
vitanlega hefði mátt haga hlutunum með öðrum hætti. "Þetta er aðferð Akureyrarbæjar til að taka
þátt í kostnaði við rekstur bíls, fyrir utan beinar greiðslur vegna aksturs. Hér hefur sú leið ekki verið
farin að kaupa sérstakan bíl fyrir bæjarstjórann eins og sums staðar tíðkast," sagði Jakob.

Beint upp úr fyrri samningum

Hann sagði að þetta ákvæði samningsins hefði verið tekið beint upp úr samningum við fyrri
bæjarstjóra. Vissi hann til þess að síðasti bæjarstjóri hefði einnig nýtt sér vaxtalaust lán til
bifreiðakaupa en lengra aftur þekkti hann ekki söguna.

"Ég hefði ekkert á móti því að ráðningarsamningar við bæjarstjóra væru einfaldari, kveðið á um
ákveðna launatölu sem ekki yrði endilega lægri þegar í heildina er litið en núverandi laun. Næst
þegar ég geri samning sem bæjarstjóri mun ég beita mér fyrir lagfæringum, gera hlutina einfaldari,"
sagði Jakob. "Aðalatriði þessa máls er að það er ekkert óeðlilegt við þetta, það er ekki verið að
skjóta neinu undan."

Umdeilanleg ákvörðun
Sigurður J. Sigurðsson oddviti Sjálfstæðisflokks sagði það umdeilanlega ákvörðun að veita
vaxtalaus bifreiðalán og sér þætti merkilegt að þessu ákvæði hefði ekki verið breytt í tímans rás,
við gerð nýrra samninga. Eðlilegast væri að menn greiddu fjármagnskostnað af svona lánum og
víða væri hægt að fá lán til bílakaupa, en af þeim væru greiddir vextir. Sigurður sagði það sína
skoðun að full ástæða hefði verið að endurskoða samninga sem gerðir voru við framkvæmdastjóra
sveitarfélaga sem ráðnir voru til skemmri tíma þegar pólitískur bæjarfulltrúi væri gerður að
bæjarstjóra eins og nú. Þeir hefðu til að mynda ekki fengið bæjarfulltrúalaun.
Skipt um vatnshjól í hverflum Búrfellsstöðvar

Afl stöðvarinnar eykst um nærri þriðjung

FYRSTA vél Búrfellsstöðvar hefur verið gangsett eftir að skipt hefur verið um vatnshjól í hverfli
hennar. Við skiptin hefur afl vélarinnar aukist úr 35 megavöttum í 46 MW. Það þýðir að þegar búið
verður að skipta um vatnshjól í öllum sex hverflum virkjunarinnar mun heildarafl hennar aukast um
66 megavött, úr 210 MW í 276, eða nærri þriðjung. Samsvarar það hálfu því afli sem gert er ráð fyrir
að Sultartangavirkjun skili.

Fyrir rúmum fjórum árum þurfti að skipta um vindinga í rafölum Búrfellsstöðvar. Þá var vitað um
stækkunarmöguleika vegna nýrrar tækni við smíði vatnshjóla og var þá ákveðið að auka afköst
rafalanna, að sögn Árna Benediktssonar, stöðvarstjóra Búrfellsvirkjunar. Í desember síðastliðnum
hófst vinna við að skipta um vatnshjól hverflanna. Búið er að skipta um vatnshjól í fyrstu vélinni, það
er vél númer sex, og varð útkoman eins góð og menn vonuðust eftir, aflið jókst um nærri þriðjung.
Vinna við aðra vélina stendur nú yfir.

Hægt að leiða inn meira vatn Fyrstu vélarnar í Búrfellsstöð voru gangsettar árið 1969. Frá þeim
tíma hefur orðið mikil tækniþróun við smíði véla. Að sögn Árna er farið að hanna vatnshjólin í tölvu.
Það er nánast hægt að reynslukeyra hjólin í tölvunni til þess að fá sem besta útkomu. Afar
hagkvæmt er að auka raforkuframleiðsluna með þessum hætti, þessi 66 MW viðbót kostar aðeins
768 milljónir kr. á meðan samsvarandi afl í nýjum virkjunum kostar milljarða. Árni segir hins vegar
ekki mögulegt að gera þetta í öllum gömlu virkjununum. Búrfellsvirkjun var þannig útbúin í upphafi
að hægt er að leiða inn í stöðina mun meira vatn en virkjunin hefur notað, nóg vatn fyrir þessa
stækkun. Hún fær hluta af vatninu sem kemur frá Kvíslaveitum. Auk þess batnar vatnsnýtingin um
2-3% með nýju vatnshjólunum. Árni segir að vinnan við endurnýjun vélanna gangi samkvæmt
áætlun. Tvö fyrirtæki á Selfossi, Vélsmiðja KÁ og Árvirkinn, annast vélaniðursetningu. Vatnshjólin
koma frá svissnesk-þýsku fyrirtæki, Sulzer. Í haust verður búið að skipta um vatnshjól í fjórum
vélum. Árni segir hugsanlegt að beðið verði með að endurnýja tvær þær síðustu þar til
Sultartangastöð kemst í gagnið, það fari eftir stöðunni í haust. Búfellsstöð er grunnaflsstöð í
raforkukerfinu sem þýðir að hún er keyrð á fullu allt árið og hefur svo verið frá upphafi. Hún er því sú
virkjun landsins sem framleiðir mest rafmagn. Uppsett afl Hrauneyjafossstöðvar er það sama en
hún er ekki keyrð á fullu nema á álagstímum.
CNN í hvalaskoðun frá Húsavík

ÞÁTTAGERÐARMENN ásamt tökuliði frá bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN eru væntanlegir í
hvalaskoðun til Húsavíkur í lok mánaðarins.

Að sögn Páls Þórs Jónssonar hótelstjóra á Hótel Húsavík, hefur hvalaskoðun frá Húsavík og sú
vinna sem lögð hefur verið í ýmis umhverfismál í bænum verið kynnt fyrir þáttagerðarmönnum CNN
og hafa þeir sýnt þessum málum mikinn áhuga. "Rétt undir vikulokin bókuðu þeir hjá okkur í lok
mánaðarins þannig að við vitum ekki betur en að þeir séu á leiðinni til Húsavíkur," sagði Páll. "Þeir
munu dvelja hér í nokkra daga þannig að það stefnir allt í að við verðum á CNN og þá líklega í
þætti, sem heitir Earth Matters, en þetta er allt á byrjunar- og vinnslustigi ennþá."

Farið verður í hvalaskoðunarferð og sagði Páll að þrír hnúfubakar og nokkrar hrefnur ásamt öðrum
tegundum væru inni á flóanum þessa dagana. Í hvalaskoðun, sem farin var undir síðustu
mánaðamót sáust fimm hvalategundir í einni ferð. Allt frá hnísum upp í steypireyð.
Sannkölluð náttúruparadís

COSTA RICA

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í Costa Rica, þriðja minnsta ríki Mið Ameríku. Sesselja
Bjarnadóttir
líffræðingur og Eyrún Einarsdóttir hafa báðar dvalið í Costa Rica sem þær segja
sannkallaða náttúruparadís sem laði að ferðamenn úr öllum heimshornum.


ÍBÚAR Costa Rica eru um þrjár og hálf milljón, þar af býr ein milljón í höfuðborginni San José.
Ástæður fyrir vinsældum landsins til náttúruskoðunar eru margar, lífríki er einstaklega fjölbreytt og
fallegt og þjóðgarðar og friðlönd landsins með sín fjölbreyttu búsvæði bjóða upp á fjölbreyttar
tegundir lífvera, s.s. plantna, fugla, spendýra, skriðdýra og skordýra. Þá er þjónusta við ferðamenn
víða mjög góð, landið er öruggt að ferðast um miðað við mörg lönd í þessum heimshluta og
hreinlæti á hótelum og veitingastöðum áberandi gott. Matseld heimamanna kemur á óvart fyrir
fjölbreytni og gott ferskt hráefni og úrval ávaxta og grænmetis er nær óendanlegt. Heimamönnum
þykir upphefð af því að fá ferðamenn í heimsókn og hlýlegt, kurteislegt, brosandi viðmót lætur ekki
á sér standa.

Tvær árstíðir eru í landinu, "vetur" og "sumar". Veturinn eða regntíminn stendur frá maí fram í
nóvember en sumarið eða þurrkatíminn frá desember fram í apríl. Meðan á regntímabilinu stendur
skín sólin yfirleitt fram að hádegi en þá kemur úrhellisregn sem varir fram að kvöldmat. Hitastig er
nokkuð jafnt allt árið frá 24 C upp í 31 C þegar heitast er.

Lýðræðislegir stjórnarhættir
Um 90% íbúa landsins eru kaþólskir en ekki er þó hægt að kalla Costa Rica strangkaþólskt land.
Frá 1889 hafa lýðræðislegir stjórnarhættir verið að mestu viðhafðir í landinu. Árið 1948 markaði
þáttaskil í sögu landsins en í kjölfar stjórnaruppþots og óeirða er þá áttu sér stað, var sett ný
stjórnarskrá og herinn lagður niður. Árið 1949 markar því innreið friðar í landinu og jafnvægis í
stjórnarháttum sem einkennt hefur Costa Rica og skapað landinu sérstöðu meðal nágrannaríkja. Í
stað hersins var sett á stofn þjóðarlögregla sem hefur því mikilvæga hlutverki að gegna að viðhalda
lögum og reglu og vernda lýðræðið.

Costa Rica hefur oft gleymst í umræðunni um Mið Ameríku og er það sennilega vegna þess hve
lengi friður hefur ríkt í landinu. Mun meiri athygli hefur beinst að nágranna landsins í norðri,
Nigaragúa. Það er algengt að fólk flýi frá Nigaragúa til Costa Rica í leit að betri kjörum.

Þótt efnahagur Costa Rica sé bágborinn um þessar mundir og kjör alþýðunnar verri en oft áður,
hefur landið jafnan verið nefnt Sviss Mið Ameríku. Ástæður þess eru m.a. langvarandi friðsæld og
lýðræði og mun betri kjör fólks en annars staðar þekkist í Mið Ameríku. Miðstéttin er stærsta stétt
landsins, menntun er almenn, almannatryggingar og heilbrigðiskerfi gott og atvinnuleysi um 6%.
Fátækt er vissulega til staðar en í litlum mæli miðað við nágrannaríki og lítið er um betlara á götum
úti.

Glæpir eru fátíðari en annars staðar í þessum heimshluta, en í San José höfuðborg landsins er
vissara að vera á verði gagnvart vasaþjófum og ákveðnum unglingagengjum svo kölluðum
Chapulínes. Los Chapulínes ræna aðallega eigum ferðamanna og beita yfirleitt ekki ofbeldi nema
fólk reyni að verja eigur sínar. Ef peningarnir eru afhentir án nokkurs múðurs sleppur fólk yfirleitt við
meiðsl. Að undanförnu hefur verið að harðna á dalnum hjá þeim vegna aukinnar löggæslu og hafa
þeir því í mun meira mæli snúið sér að heimamönnum. Þrátt fyrir vandamál sem skapast vegna Los
Chapulínes er San José með öruggari stórborgum heims.

Höfuðborgin San José
Ekki er hægt að dvelja á Costa Rica án þess að staldra við í San José. Viðbrögðin við fyrstu kynni
af borginni eru: "hrikaleg umferð", "brjálaðir bílstjórar", "mengun", "rusl á víð og dreifð",
"mannþröng", "húsin hafa engin númer" og "ómerktar strætóstöðvar", "gjörsamlega ómögulegt að
rata." En það líður ekki á löngu þar til viðhorfið breytist. Loftið er áfram mengað en borgin sjálf hefur
öðlast heillandi yfirbragð. Fólkið, eða Ticos eins og Costa Rica búar kalla sig, er vinalegt, stolt og
gestrisið og það eru örugglega fáar borgir sem geta státað af jafn vinalegu viðmóti.

Fjölbreytileikinn er ótrúlegur. Og því meira sem maður fer að ná áttum þeim mun skemmtilegri
verður borgin. Amerískra áhrifa gætir víða og í San José má finna McDonalds og Pizza Hut ásamt
fleiri stöðum sem njóta vinsælda þrátt fyrir óánægja margra Ticos. Ef litið er framhjá
auglýsingaskiltunum, má víða sjá evrópskt yfirbragð á borginni. Margar gamlar byggingar bera keim
af evrópskum byggingarstíl og ber Þjóðleikhúsið af þeim en það er staðsett í hjarta borgarinnar við
Plaza de la Cultura. Þar halda götusalar til og oft má sjá látbragðsleikara bregða á leik. Mannlífið
er litríkt og úr öllum áttum heyrast köll og hróp götusalanna sem eru að bjóða alls kyns varning,
ávexti og grænmeti til sölu.

Regnskógar hitabeltisins
Það er einstök upplifun að koma inn í regnskóg. Hvarvetna blasa við tré og aftur tré af þeirri
stærðargráðu sem ekki er beinlínis útbreidd hér á Fróni. Litfögur blóm og fjölbreyttur gróður af öllum
stærðum og gerðum prýða skóginn og í skógarbotninum rekst maður stundum á kunnugleg blóm,
enda mörg stofublóma okkar upprunnin í hitabeltinu.

Hljóð fylla loftið, hljóð frá fuglum og skordýrum sem lítt sést til við fyrstu könnun. Loftið er
rakamettað og angar af gróðri. Regnskógar hitabeltisins munu vera tegundaauðugustu vistkerfi
jarðar og að kynnast þeim af eigin raun er svo áhugavert og spennandi að þeir sem það hafa reynt
gleyma því aldrei.

Þjóðgarðurinn Tortuguero er staður þar sem sírakur hitabeltisskógur þrífst. Mikill fjöldi vatnasíkja
einkennir staðinn og garðurinn liggur þar að auki að sjó, en þetta tvennt veldur því að Tortuguero er
mjög tegundaauðugur garður með gríðarlega náttúrufegurð. Enginn sem ferðast um landið ætti því
að sleppa heimsókn í þennan einstaka þjóðgarð. Þar má sjá fjölbreyttan gróður, vatnafugla,
sjófugla og ránfugla, páfagauka, túkana, pelíkana og freigátufugla. Af spendýrum má nefna apa,
letidýr, mauraætur og kattardýr. Skriðdýr eins og sæskjaldbökur, ferskvatnsskjaldbökur eru
algengar, stórar og hættulausar eðlur og snákar sem flestir gera allt sem þeir geta til að forðast
það að verða á vegi manna. Falleg skordýr og töluvert af moskítóflugum tilheyra regnskóginum og
vissara að bera vel á sig af flugnafæluáburði áður en farið er í skógargöngu.

Misturskógur Monte Verde
Misturskógar myndast í mikilli hæð yfir sjávarmáli. Einkennandi fyrir slíka skóga eru skýjahulur
sem ná stundum að teygja sig inn í skóginn að hluta. Í þessum skógum lifir mikið af mosa, fléttum
og ásætum sem hanga niður úr trjánum og ásamt þokuhulunni gerir það yfirbragð skógarins
dulúðugt. Loftslagið er sérstaklega þæglegt.

Í misturskógi Monte Verde friðlandsins er fuglalíf mjög auðugt og þar er aðalheimkynni Quetzal
fuglsins sem margir ferðamenn koma sérstaklega til að sjá. Fuglinn er af ætt Trogonidae,
litskrúðugur með skrautlegar stélfjaðrir sem geta náð allt að 1,5 m lengd. Quetzalar finnast aðeins í
Mið Ameríku, frá Suður Mexíkó til Panama. Astekat og Maja Indíánar tignuðu fuglinn og notuðu
fjaðrir hans til skrauts fyrir höfðingja og konunga.

Í Monte Verde finnst annar mjög sérkennilegur fugl, Klukkufuglinn, sem gefur frá sér mjög sérstök
hljóð, sem heyrast um langa vegu og líkjast einna helst þokulúðrum. Í kringum gogginn hanga þrír
skeggþræðir sem gefa fuglinum sérkennilegt útlit.

Samfélagið í Monte Verde einkennist af kyrrð og ró og fyrst og fremst öryggi og eru
náttúruskoðarar einu ferðamennirnir sem þangað koma. Þjónusta við ferðamenn er öll af
menningarlegum toga og oft boðið upp á tónlistarviðburði, listdanssýningar og aðra skemmtan. Í
Monte Verde er margt að skoða utan misturskógarins, m.a. Kólibríufuglasafn og fiðrildagarður.

Þurrir hitabeltisskógar
Í vesturhluta landsins eru skógar þar sem árstíðabreytinga gætir og eru þeir kallaðir þurrir
hitabeltisskógar. Þeir eru ekki alveg eins þurrir og nafnið bendir til því þar skiptast á regluleg
þurrkatímabil og regntímabil. Dýrin sem lifa í slíku vistkerfi eru aðlöguð breytilegu umhverfi. Það
reynist oft auðvelt að sjá dýrin á þurrkatímabilinu sem stendur frá desember fram í júní vegna þess
að trén fella laufin mörg hver og oft safnast dýrin í kringum vatsbólin í skóginum. Í heildina eru færri
tegundir í þurrum skógum en auðveldara að koma auga á þær. Á þurrkatímabilinu eru skordýr eins
og moskítóflugur í minna mæli sem telst þó nokkur kostur fyrir ferðamenn.

Paradís fuglaskoðara
Það er sérstök ástæða fyrir fuglaskoðara að gleðjast þegar þeir heimsækja Costa Rica. Alls hafa
um 850 tegundir fugla greinst í landinu en það er um 10% allra fuglategunda í heimi. Piparfuglar
eða Túkanar (ætt Ramphastidae) setja mikinn svip á fuglafánu Costa Rica og auðvelt er að koma
auga á þá. Ætla mætti að hinir ofvöxnu goggar fuglsins sliguðu hann en þeir eru í raun fisléttir
vegna innri gerðar, en goggurinn að innan er ekki samfelldur massi heldur gerður úr þráðkenndum
efnum.

Kólibríufuglar eru algengir alls staðar, pínulitlir en ótrúlega fallegir með glitrandi áferð á fjaðraham
sínum og mikilvægir frjóberar. Páfagaukar af mörgum stærðum og gerðum skreyta trén, en
stærstur allra tegunda er Arnarpáfagaukurinn sem er til í tveimur litaafbrigðum í Costa Rica. Þeir
hárauðu eru einkar glæsilegir og hávaðasamir, sérstaklega þegar allt upp í 100 fuglar safnast
saman í einu tré í ætisleit. Græna afbrigðið er mun sjaldgæfara og erfiðara að koma auga á þar
sem liturinn fellur meira inn í umhverfið. Þá sjást spörfuglar í Costa Rica í miklum fjölbreytileik,
m.a. Dansarar (Pipridae), fallegir algengir fuglar í Mið Ameríku sem hafa verið rannsakaðir vegna
sérstaks atferlis í tilhugalífinu. Karlfuglarnir gera sér leikvang í skógarrjóðri, hópast þar saman og
"dansa" og kvenfuglinn situr á grein, fylgist með og að sýningu lokinni velur hún svo besta
"dansarann" sem föður unga sinna.

Spendýrafána
Spendýrafána landsins er fjölbreytt og telur um 100 tegundir dýra. Um helmingur eru leðurblökur af
öllum stærðum og gerðum. Um þessi náttdýr ríkir töluverð fáfræði og margir halda að leðurblökur
séu allar einhvers konar drakúlur skógarins. Af um 50 tegundum leðurblaka eru 2 sem nærast á
blóði annarra dýra, hinar 48 eru flestar ávaxtaætur og nokkrar flinkar við fiskveiðar. Í návígi eru þetta
falleg dýr, atferli þeirra um margt sérstakt og félagsgerð þróuð.

Apar eru dýr sem allir sem koma til Costa Rica sjá og heyra í. Stundum sjást heilu fjölskyldurnar
saman í trjánum að snyrta sig, kúra sig saman eða á fleygiferð í ætisleit í skóginum. Fjórar
tegundir apa finnast í landinu og eru þrjár þeirra algengar nánast um allt landið.

Kattardýr eru á ferli en stærst þeirra er hinn glæsti jagúar sem talsverða heppni þarf til að koma
auga á. Tapírar eru ekki óalgengir sem og beltisdýr, dádýr, mauraætur og letidýr.

Margar tegundir af ættkvísl hálfbjarna finnast í Costa Rica og eru þetta flest frekar lítil rándýr, mörg
mjög falleg og sum nokkuð sérkennileg. Þetta eru algeng dýr sem flestir ferðamenn sem koma til
landsins sjá.

Ástæða fjölbreytninnar
Ástæðan fyrir svo mikilli fjölbreytni í Costa Rica er m.a. lega landsins. Mikið af fuglum sem ferðast
á milli vetrarstöðva í Suður Ameríku og varpstöðva í Norður Ameríku koma við í Mið Ameríku í
ætisleit. Önnur ástæða er hve ólíkt landið er frá einum hluta til annars. Loftslag er breytilegt eftir
landshlutum og í landinu eru skógar á láglendi, aðrir í meiri hæð yfir sjávarmáli og enn aðrir í
fjalllendi. Mikil fjölbreytni finnst því í gróðri og dýralífi á tiltölulega litlu svæði. Hæsti tindur landsins
er innan þjóðgarðs og er hann tæplega 4000 m hár.

Sæskjaldbökutegundir munu vera um átta talsins í heiminum öllum og sex þeirra verpa eggjum við
strendur Costa Rica. Skjaldbökukjöt og egg hafa um langan aldur verið eftirsótt fæða alls staðar í
Karabískahafinu, úr skelinni hafa verið unnir listmunir og eru allar tegundirnar því í útrýmingahættu
vegna ofnytja. Víða hafa heimamenn nú atvinnu af því að sýna þær ferðamönnum þegar þær koma
á ströndina til að verpa í stað þess að drepa þær og selja kjötið og skelina. Slík breyting er og
nauðsynleg til að koma í veg fyrir algjöra útrýmingu stofnanna. Á þennan hátt hafa heimamenn líka
tekjur af ferðamönnum. Á öðrum mikilvægum varpstöðvum skjaldbakanna hafa heilu strendurnar
verið stranglega friðaðar fyrir ferðamönnum og aðeins vísindamenn hafa aðgang að dýrunum til
athugunar og merkingar á þeim.

Önnur neikvæð þróun sem átt hefur sér stað í Costa Rica er þegar stór fyrirtæki og auðugir
kaupsýslumenn hafa keypt land af heimamönnum til að reisa hótel á ströndinni. Skógurinn er
ruddur og búnar til grasflatir, gistinætur seldar dýru verði og heimamenn fá í sinn hlut mengaða
strönd og átroðning ferðamanna. Slíkir staðir eru þó enn sem betur fer fáséðir á Costa Rica.
Manndrápsmál í Hafnarfirði

Munnvatn á sígarettum vísaði á hinn grunaða

DNA-GREINING á munnvatni, sem tæknideild lögreglunnar fann á sígarettustubbum, var á meðal
þeirra þátta sem bendluðu 24 ára gamlan mann í Hafnarfirði við dauða Hlöðvers Aðalsteinssonar,
sem fannst látinn við Krýsuvíkurveg 29. desember síðastliðinn.

Í upplýsingum frá Rannsóknarlögreglunni kemur fram að grunurinn hafi fljótt beinzt að unga
manninum. Þegar Hlöðver fannst var hann með áverka á handlegg eftir haglaskot. Í handlegg hans
fannst mikið af höglum og forhlað úr haglaskoti. Forhlað er plata, sem aðskilur púður og högl í
skothylkinu. Lögreglan hafði strax í upphafi rannsóknar sinnar lagt hald á skotvopn og skotfæri í
eigu hins grunaða.

Viðamikil og nákvæm rannsókn tæknideildar RLR leiddi síðan í ljós að för á forhlaðinu komu heim
og saman við för sem sama haglabyssa skilur eftir sig. Lögreglan telur því fullvíst að forhlaðið, sem
fannst í handlegg Hlöðvers, sé úr haglabyssu hins grunaða.

DNA í munnvatni bar saman við blóðsýni
Lögreglan rannsakaði jafnframt bifreið Hlöðvers og fundust meðal annars í henni sígarettustubbar.
Með rannsókn var unnt að finna munnvatn á stubbunum. Eftir DNA-rannsókn, þar sem borin voru
saman munnvatnssýnin og blóð úr hinum grunaða, telur RLR að fullvíst sé að hann hafi reykt
sígaretturnar.

Þegar niðurstöður úr rannsókn tæknideildarinnar og DNA-rannsókninni lágu fyrir var hinn grunaði
handtekinn. Hann hefur játað fyrir dómi að hafa skotið einu skoti að Hlöðveri úr haglabyssu.
Dómurinn í Danmörku yfir tvítugri íslenskri stúlku

Harður dómur til viðvörunar

Í síðustu viku var ung íslensk stúlka dæmd í átta ára fangelsi fyrir kókaínsmygl og er einnig
gerð brottræk fyrir lífstíð. Sigrún Davíðsdóttir reifar dóminn og ýmislegt sem fram kom í
réttarhöldunum.


DÓMUR í Eystri landsrétti í Kaupmannahöfn upp á átta ár í máli Valdísar Óskar Hauksdóttur vegna
kókaínsmygls er venjuleg refsing í sambærilegum málum.

Sören Arntoft, verjandi stúlkunnar, segir dóminn þó átakanlega harðan því búast hefði mátt við að
tekið væri tillit til hve ung hin dæmda sé. Bæði hann og aðrir er komið hafa að málinu álíta að
dómurinn sé víti til varnaðar fyrir önnur ungmenni að láta ekki glepjast til vafasamra viðvika fyrir
reiðufé. Erik Björn lögregluforingi, sem stjórnaði rannsókn málsins, segir málið lýsandi dæmi um
að gylliboð um ferðalög sé yfirvarp því enginn gefi neitt án þess að ætlast til einhvers í staðinn.

Sú saga, sem komið hefur í ljós við réttarhöldin, veitir óhugnanlega innsýn í undirheima
Kaupmannahafnar þar sem ungar stúlkur eru leiksoppar kaldrifjaðra glæpamanna.

Hjónaband til að tryggja landvistarleyfi
Stúlkan kom til Kaupmannahafnar ásamt vinkonu sinni um mitt ár 1995 án þess að hafa vísa
atvinnu né húsnæði. Þær fengu vinnu við hótelræstingar og kynntust fljótlega hópi ungra
Nígeríumanna sem buðu þeim að búa hjá sér. Flestir þeirra eru flóttamenn. Þær þáðu boðið og bjó
Valdís Ósk í þessum hópi en ekki alltaf á sama stað.

Við réttarhöldin kom einnig fram að hún lét telja sig á að giftast Nigeríumanni sem tryggði sér með
þessum hætti landvistarleyfi. Fyrir viðvikið fékk hún tíu þúsund danskar krónur, um 110 þúsund
íslenskar krónur. Valdís Ósk segir að eiginmaðurinn komi hvergi við sögu smyglmálsins. Þau
bjuggu á sama stað, en með fleira fólki. Þau skildu meðan Valdís sat í gæsluvarðhaldi.

Að sögn þeirra sem þekkja til er hjónabandið dæmi um sorglega misnotkun sem á sér margar
hliðstæður. Vafasamt er hvort hann heldur landvistarleyfi sínu úr því stofnað er til hjónabandsins
með þessum hætti. Danska útlendingaeftirlitið heldur uppi eftirliti með slíkum hjónaböndum og
tekur hart á þegar upp kemst að hjónaböndin eru aðeins yfirvarp til að næla í landvistarleyfi.

Handtekin við reglubundna athugun
Dómurinn á föstudaginn tók til þriggja atriða. Íslenska stúlkan er dæmd fyrir að hafa smyglað
tveimur kílóum af kókaíni frá Brasilíu og fyrir að hafa talið íslenska stúlku á að fara þangað í sömu
erindagjörðum eftir fjórum kílóum. Báðum þessum sakargiftum neitar Valdís Ósk en hún var dæmd
á framburði vitna. Þriðju sakargiftinni játar hún, en það var smygl á tveimur kílóum af kókaíni frá
Uruguay, sem hún var handtekin með á Kastrupflugvelli 22. febrúar síðastliðinn. Með henni var
dæmdur nígerískur flóttamaður, kunningi hennar, sem hefur búið á sama stað og hún og unnið við
hreingerningar.

Brasilíuferðina fór Valdís Ósk í nóvember 1995. Sjálf segist hún hafa farið þangað með peninga að
beiðni manns. Þegar þangað kom hafi farmiðinn verið hafður af sér, en henni tekist að komast heim
eftir sex vikur í Brasilíu.

Við rannsóknina kom í ljós að flugmiðinn virðist hafa verið notaður í ferð til Amsterdam þar sem
eiturlyfjum var smyglað. Vinkona Valdísar Óskar segir að Valdís Ósk hafi sjálf sagst hafa farið til
Amsterdam og að hún hafi komið aftur til Kaupmannahafnar frá Brasilíu með tvö kíló af kókaíni.
Það er á grundvelli þessa sem Valdís Ósk var dæmd fyrir þetta atriði.

Hvað ferð vinkonunnar viðvíkur er því haldið fram að Valdís Ósk hafi fengið hana til að fara til Brasilíu
eftir fjórum kílóum af kókaíni. Þegar þangað kom var farmiðinn tekinn af henni. Það runnu á hana
tvær grímur og hún komst aftur til Hafnar af eigin rammleik og án kókaínsins. Í þessu atriði er
Nígeríumaðurinn dæmdur fyrir aðild.

Einnig er Nígeríumaðurinn dæmdur fyrir aðild að smygltilraun Valdísar Óskar, þegar hún var tekið
með tvö kíló af kókaíni á Kastrupflugvelli. Þar báðu tollþjónar hana að koma afsíðis vegna
reglubundinnar athugunar. Hún var með næstum tóma handtösku, sem tollvörðunum þótti
grunsamlega þung. Við nánari athugun kom í ljós að í töskunni var kókaín falið.

Leiksoppur kaldrifjaðra glæpamanna
Heimildarmönnum Morgunblaðsins ber saman um að dómurinn yfir Valdísi Ósk sé harður. Af 27
kviðdómendum voru þó aðeins tveir, sem vildu mildari refsingu og þá sjö ár. Ástæðurnar fyrir
dómnum eru meðal annars taldar vera að Valdís Ósk kaus að starfa ekki með lögreglunni að
rannsókn málsins og lét mjög lítið uppi. Þá er dómurinn talinn viðvörun til annarra um að gína ekki
við gylliboðum um ferðir og fé.

Einnig hefur verið mikil umræða í Danmörku undanfarið um glæpi og refsingar og sú skoðun uppi
að nota beri lögin til hins ýtrasta og dæma í harðar refsingar öðrum til varnaðar, frekar en að grípa
til nýrra lagasetninga.

Í vikunni var sýnd á einni sjónvarpsstöðinni mynd um danska stúlku sem, líkt og íslenska stúlkan,
féllst á að smygla fimm kílóum af kókaíni að beiðni Afríkumanns og afplánar nú fimm ára dóm fyrir
brotið. Það er erfitt að alhæfa um hvað lokki ungar stúlkur til að taka svona viðvik að sér, en oftast
virðist það vera spenna og peningar, sem ýta undir.

Misjafn sauður í mörgu fé
Einnig er bent á að það eru stúlkur, sem Afríkubúarnir tæla til þessara verka, kannski vegna þess
að kvenfólk kann að vera lítilþægara en karlmenn. En Afríkubúarnir eru einnig næmir á hvaða
stúlkur eru tilkippilegar og sjálfir koma þeir vel fyrir og eru vel klæddir. Afríkubúarnir sem koma við
sögu í máli Valdísar Óskar eru auk þess vel að sér um formsatriði og vita til dæmis að Íslendingar
þurfa ekki vegabréfsáritun til að heimsækja lönd eins og Brasilíu og Uruguay.

Þó Kaupmannahöfn sé vinaleg borg leynist þar misjafn sauður í mörgu fé. Beint á móti Tívolí er
verslana- og veitingahúsamiðstöðin Scala, þar sem vitað er að margir af þeim sem lögreglan hefur
áhuga á halda til. Á ýmsa veitinga- og skemmtistaði á Vesturbrú setja velklæddir Afríkubúar svip
sinn.

Erik Björn lögregluforingi sagðist gjarnan vilja koma þeirri ábendingu á framfæri við íslenska foreldra
að það væri að bjóða freistingum heim þegar ungmenni héldu til Kaupmannahafnar án þess að hafa
tryggingu fyrir húsnæði og atvinnu. Og ungt fólk skyldi ætíð hafa í huga að það gæfi enginn lystitúr
og vasapeninga án þess að ætlast til neins í staðinn. Það væri hrikaleg borgun að greiða fyrir slíkt
með margra ára fangelsisvist á unga aldri.
Gert að sæta umsjón og neyta ekki áfengis eða fíkniefna

Dæmdur fyrir árás með hamri og rán úr verslun

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær 17 ára pilt í 18 mánaða fangelsi fyrir að ráðast að
afgreiðslustúlku með hamri, slá hana tvívegis í höfuðið og ræna úr kassa verslunarinnar. Þá var
hann dæmdur til að greiða stúlkunni 400 þúsund krónur í bætur. Fimmtán mánuðir af refsingunni
eru skilorðsbundnir í fimm ár. Frestun refsingar er bundin því skilyrði, að pilturinn sæti umsjón og
neyti ekki áfengis eða fíkniefna á skilorðstímanum.

Pilturinn réðst grímuklæddur með hamar að vopni inn um bakdyr söluturns við Hraunberg í júlí í
fyrra. Hann kvaðst hafa séð að enginn viðskiptavinur var inni í versluninni og barið á bakdyr. Þegar
afgreiðslustúlkan kom til dyra sló hann til hennar með hamrinum. Náði hún að bera hönd fyrir höfuð
sér og fékk þungt högg á úlnlið, en næsta högg lenti ofarlega á enni hennar miðju, svo hún féll við.
Stúlkan sagði að pilturinn hefði hótað að drepa hana ef hún hreyfði sig. Pilturinn opnaði síðan
afgreiðslukassa og tók peninga og greiðsluseðla.

Þegar piltur hafði látið greipar sópa sagði hann afgreiðslustúlkunni að standa upp og ganga á
undan sér inn eftir gangi. Þar sló hann hana þriðja höggið, í hnakkann. Um svipað leyti kom maður
inn í verslunina, hrópaði að árásarmanninum sem tók til fótanna og elti maðurinn hann þar til hann
sá hann hverfa inn um svaladyr á húsi í nágrenninu.

Pilturinn sagði að hann hefði ekki ætlað sér að slá stúlkuna, heldur hefði hamarinn lent í henni
þegar hann teygði höndina inn til að þvinga hurðina upp.

Í framburði geðlæknis kom fram að erfiðleikar hefðu verið í fjölskyldu piltsins, hann hefði
geðlægðareinkenni og hefði neytt vímuefna, en verið í meðferð frá því í október 1996. Vegna
undanfarandi neyslu hefði hann líklega verið raunveruleikafirrtur, sem lýsti sér í ranghugmyndum og
hömluleysi. Þegar hann hafi komið í meðferð hafi hann haft sjúkleg einkenni, svo sem minnisleysi
og verið í geðlægð.

Fólskuleg árás
Dómarinn, Hjördís Hákonardóttir, segir í niðurstöðu sinni að við refsimat verði að líta til þess að
verknaðurinn var fólskulegur, hamar sé hættulegt vopn og sú aðferð sem hann beitti, að slá til
höfuðs stúlkunnar, lífshættuleg. Íhuga verði alvarlega þá skoðun læknisins að hann hafi verið
raunveruleikafirrtur að einhverju marki, en slíkt ástand hins vegar verið afleiðing vímuefnaneyslu sem
hann sjálfur bar ábyrgð á og virkaði því ekki til lækkunar refsingar.

Dómarinn virti hins vegar ungan aldur piltsins, sem var nýorðinn 17 ára þegar hann framdi brotið, að
hann átti við depurð að stríða og erfiðleikar voru í fjölskyldu hans, hann hafi farið í meðferð og
stundað vinnu síðan. Átján mánaða fangelsi væri hæfileg refsing, en miðað við þessar forsendur
væri rétt að skilorðsbinda hluta refsingarinnar, gegn því að hann sætti umsjón og neytti ekki
áfengis og fíkniefna.
Sterk og góð viðbrögð við laginu

PÁLL Óskar Hjálmtýsson, fulltrúi Íslendinga í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Dublin,
segir að Íslendingar hafi vakið mikla athygli með lagi sínu og sviðsframkomu í Dublin.

"Ég hef fengið það sterk og góð viðbrögð við laginu að mér er eiginlega hætt að standa á sama.
Aðallega hefur hópast í kringum mig fólk frá Spáni, Frakklandi, Þýskalandi, Möltu, Englandi og
Danmörku. Danirnir vonast hreint og beint til þess að ég vinni keppnina. Mér þykir samt vænt um
að ég finn ekki fyrir neinum sleikjuhætti, fólkið kemur til mín og segir að því finnist lagið og
sviðsframkoman frábær og það rökstyður alltaf af hverju."

Páll sagði að einna markverðast hefði honum þó fundist að blaðamaður enska slúðurblaðsins The
Star sá ástæðu til að taka við hann viðtal. "Þetta var sérstakur heiður. Núna líður mér fyrst eins og
alvöru stjörnu. Viðtalið og myndirnar birtast í heilsíðu í blaðinu."

Páll segir að slík athygli gæti jafnvel haft áhrif á úrslitin, því Bretar og fleiri þjóðir munu nú í fyrsta
sinn hafa almenna atkvæðagreiðslu í gegnum síma um það hvaða stig eigi að gefa öðrum
þátttökuþjóðum. "Ég er að vonast til að ég eigi að græða á því, því lagið mitt er síðast í keppninni.
Þegar það er búið hafa kjósendur heima í stofu tíu mínútur til að velja besta lagið."

Íslenska lagið stingur í stúf
Páll segir að lagið þyki stinga í stúf við önnur lög og það sem tíðkast í söngvakeppninni, enda sé
það mjög öðruvísi. Hann segist ekki geta ímyndað sér hvar lagið eigi eftir að lenda í keppninni. "Ég
held ég sé manna forvitnastur að sjá það. Fólkið sem er hér er fyrst og fremst
Eurovisionkeppendur, aðdáendur og fjölmiðlafulltrúar þeirra. Fólkið sem skiptir mestu máli í þessu
sambandi er þeir sem sitja heima í stofu og horfa á keppnina. Ég hef sagt það áður og segi það
enn; spyrjum að leikslokum. Það er aldrei að vita nema ég lendi í tuttugasta sæti."

Veisla á villtasta næturklúbbi í Dublin
Þátttökuþjóðirnar skiptast á að halda veislur hver fyrir aðra og í gærkvöldi var komið að
Íslendingum. Páll sagði að ætlunin væri að skera sig úr þar, rétt eins og á sviðinu.

"Hinar þjóðirnar hafa haldið veislurnar á hótelunum og eða svipuðum stöðum. Við ætlum að halda
okkar veislu á Rumors, villtasta næturklúbbi í Dublin. Þar ætlum við að troða upp, vera með
dragshow, taka gamlar Eurovisionlummur og enda á því að ég tek Eurovisionlagið mitt og ýmis
önnur lög sem ég á í handraðanum."
Baráttan við Everest, hæsta fjall í heimi, heldur áfram

Í snjókomu og 20 stiga frosti í 5.300 metra hæð

Sérstætt mannlíf þrífst við rætur Everestfjalls. Það er blanda gamals og nýs tíma. Ein
mikilvægasta atvinnugrein fólksins við fjallið er þjónusta við fjallgöngumenn, sem sækjast mjög eftir
því að fá að ganga á Everest. Íslensku Everestfararnir eru núna í 5.300 metra hæð og eiga enn
ófarna rúmlega 3.500 metra áður en þeir standa á toppi hæsta fjalls heims.


EVERESTFARARNIR notuðu helgina í að koma sér fyrir í grunnbúðunum í hlíðum Everest. Talsverð
snjómugga hefur verið í fjallinu síðustu daga og á nóttunni er 20 stiga frost. Leiðangursmenn bera
sig vel, en eftir u.þ.b. einn mánuð vonast þeir til að standa á tindi Everest.

Leiðangursmenn urðu fyrir því óhappi fyrir helgi að straumbreytar, sem þeir nota til að knýja
fjarskiptabúnað sinn, brunnu yfir. Þeir verða því eingöngu að treysta á sólarorkuspjöld. Nýir
straumbreytar eru hins vegar á leið til þeirra og verða komnir í þeirra hendur um miðjan apríl.

Einar Stefánsson, Hallgrímur Magnússon og Björn Ólafsson fóru á laugardag upp að Khumbu
skriðjöklinum, en til að komast yfir hann þurfa þeir að nota stiga. Skriðjökullinn skríður fram um
einn metra á dag og því ganga sprungurnar sundur og saman. Félagarnir gátu ekki komist upp á
jökulinn því að hluti leiðarinnar sem búið var að leggja hrundi saman og ekki var búið að brúa
sprungurnar að nýju. Þetta er atvik sem leiðangursmenn reiknuðu með og er hluti af baráttunni við
að sigra tindinn.

Grunnbúðirnar eru í 5.300 metra hæð og hafa leiðangursmenn fundið fyrir því að þeir eru í loftslagi
og hæð sem þeir eru ekki vanir dags daglega. Þeir fundu t.d. allir fyrir höfuðverk fyrst eftir að þeir
komu í grunnbúðirnar. Einn mikilvægasti þáttur leiðangursins er að venja líkamann við
hæðarbreytinguna og þunna loftið og það verkefni þurfa þremenningarnir að glíma við næsta
mánuðinn.

Hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar um leiðangurinn á heimasíðu Everestfaranna á alnetinu.
Slóðin er http://www.mbl.is/everest. Fjölmargir hafa nýtt sér þennan möguleika og m.a. skilið eftir
góðar kveðjur til leiðangursmanna. Kveðjurnar koma frá Íslendingum víða að úr heiminum.

Dagbókarbrot frá Everest
Það er óneitanlega merkilegt fyrir okkur drengina ofan af Íslandi, vana fullkomnum samgöngum og
fjarskiptum, að upplifa hverning þessum málum er háttað hér í Himalayahéruðum Nepals. Hér er
enginn sími, engir vegir eða flutningabílar og raun fátt af því sem við teljum nauðsynlegt til að geta
flutt fréttir, fólk og varning á milli staða. Samt sem áður þrífst hér blómlegt mannlíf og menning. Hér
er sums staðar í dölunum hægt að kaupa ótrúlega margt, þrátt fyrir að hvergi sjáist vélknúið
ökutæki og hafi aldrei sést.

Gönguleiðin frá Jiri til Namche er nær 100 km og er um fjöll og dali að fara. Samtals þarf að ganga
á brattann um 8 km ef allar brekkur er taldar. Þessi slóði er orðinn greinilegur og auðrataður eftir
aldalanga umferð um hann. Steinhleðslur eru þar sem bratti er mikill og stuðnings er þörf. Allar ár
eru brúaðar, flestar með hengibrúm, sumar eru fornfálegar og glæfralegar, en aðrar háar og
nýtískulegar byggðar með vestrænni aðstoð til lyfta brúnum upp í hæð þar sem flóðavatn getur ekki
náð til þeirra.

Bera þunga byrði
Það er byggð alla þessa leið nema í hæstu fjallaskörðum og stutt á milli þorpa. Í þeim hefur í gegn
um aldanna rás byggst upp þjónusta við flutningana, gistiheimili, matsölustaðir og annað sem til
þarf. Þessi þjónusta hefur tekið stakkaskiptum til batnaðar og aukist mikið á undanförnum 30 árum
með auknum fjölda ferðamanna sem uppgötvuðu á 7. og 8. áratugnum hversu mikla lífsfyllingu það
gefur að ferðast á hestum postulanna vikum saman í framandi landslagi og heillandi mannlífi.

Aðstaðan í þessum gistiheimilum og veitingastöðum (sem eru kölluð teahouse á þessum slóðum á
öllum tungumálum) er samt langt frá því að vera á því stigi sem við könnumst við frá Evrópu. Hér er
óvíða rafmagn, salernisaðstaða er oftar en ekki kamar, svefnaðstaða er ókynt og borða allir saman
við ofninn sem er á neðri hæðinni.

Það er mikil umferð um stíginn. Burðarkarlarnir eru gjarnan í 5-10 manna hópum. Lausavöru flytja
þeir í stórum körfum en stærri hluti reyra þeir saman. Allt er svo borið á bakinu en þunginn er allur
á breiðu bandi sem er yfir höfuðið. Þunginn á byrðunum er yfirleitt frá 30-60 kg en fyrir þyngri
byrðarnar er borgað tvöfalt. Við prófuðum að bera byrði af timbri á leiðinni og það var varla að við
stæðum undir þunganum og höfuðið virtist vera að þrýstast ofan í hálsinn. Við giskuðum á að
þyngstu byrðar sem við sáum væru allt að 80 kg.

Burðarmennirnir eru grannir, snaggaralegir karlar. Þeir ganga fremur hratt með byrðarnar en hvíla
sig oft. Þeir eru með litla stafi sem þeir geta brugðið undir hlassið til að taka þungann af. Einnig eru
bekkir úr tré eða steinhleðslu fyrir utan öll tehúsinn. Hæðin er miðuð við að byrðin fari þar á en ekki
að setið sé á þeim. Þarna hvíla karlarnir sig í nokkrar mínútur og segja brandara og gera grín að
okkur láglendisbúunum sem göngum fram hjá með litlar byrðar en másandi af súrefnisskorti.

Tapaði giftingarhringnum
Hér gilda lögmál markaðarins eins og annars staðar. Verðlag hækkar eftir því sem meiri kostnaður
er við að koma vörunni til neytanda. Hér má segja að verð á munaðarvöru eins og súkkulaði,
gosdrykkjum, bjór og klósettpappír af sæmilegum gæðum hækki jafnvel á milli þorpa. Verð á
þessum vörum er orðið allt að helmingi hærra hér efst í Himalayafjöllum en það er niður í Lukla þar
sem við hófum gönguna. Þessir hlutir eru í raun orðnir allt of dýrir fyrir almening og ekki á færi
nema "vellauðugra" Vesturlandabúa að kaupa þá. Til dæmis kostar stór bjórflaska hér efst í
dölunum um 300 kr. en það eru daglaun burðarmanns sem ber 30 kg. Verð á heimaframleiðslu og
hefðbundnum mat hækkar hinsvegar ekki svona stórkostlega.

Fréttir og skilaboð berast með sömu boðleið og vörurnar, það er með burðarmönnum. Alvarlegasta
áfallið sem við höfum enn orðið fyrir í ferðinni var þegar Einar uppgvötaði í Namche að hann hafði
tapað giftingarhringnum sínum. Einar gifti sig í febrúar og var að vonum miður sín. Við félagarnir og
aðrir leiðangursmenn fundum mjög til með Einari og þótti þetta slæmur fyrirboði. Það var leitað
dyrum og dyngjum og öllu snúið við í leit að hringnum en ekkert fannst. Þá var bara ein von eftir og
hún var veik. Að Einar hefði tapað hringnum kvöldið áður í þorpinu Phakdingma þar sem við áttum
náttstað. Babu, einn af sherpunum okkar, var bjartsýnn og lét senda skilaboð niður til Phakdingma
með burðarmanni sem var á leið niður eftir dalnum.

Næsta dag birtust svo 5 eða 6 tíu ára snáðar heldur niðurlútir og feimnir með umslag í höndunum
og væfluðust í kring um okkur þar sem við vorum í óða önn að senda fréttir heim. Þegar við gengum
á þá, réttu þeir okkur umslagið. Í því var lítill miði með skilaboðum frá húsfreyjunni í Phakdingma -
og hringurinn. Hann hafði leynst í rúmfötunum í herbergi Einars þar og húsfreyja sendi strákana
með hann strax og hún frétti hvar eigandann var að finna. Strákarnir hlupu svo með hann 10 km leið
og upp um 700 m til okkar.

Einar stökk hæð sína í öllum herklæðum af gleði og við hinir sáum lukkudísirnar brosa við okkur.
Það er ljóst að Einar á húsfreyju skuld að gjalda þegar við göngum niður eftir sjö vikur. Og nú er
hringurinn í traustu bandi um háls Einars. Það er því ljóst að svona vandamál er hægt að leysa þótt
enginn sé síminn, vegurinn eða bílinn.
Aðlögun Everestfaranna að ljúka

BJÖRN Ólafsson dvaldi í fyrrinótt í fjórðu búðum í fyrsta skiptið, en þær eru í 7.400 metra hæð. Í
gær gekk hann í átt að Suðurskarði þar sem fimmtu búðir verða, en þaðan verður gert áhlaup á
tindinn í næsta mánuði.

Félagar Björns, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon, hafa verið kvefaðir undanfarna daga
og því ekki í formi til að klífa erfið fjöll. Hallgrímur er orðinn nokkuð góður og ætlar í dag að klífa upp
í þriðju búðir og síðan áfram upp í fjórðu búðir. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann
væri orðinn leiður á að bíða og vildi endilega komast af stað aftur. Heilsan væri orðin ágæt og ekki
eftir neinu að bíða. Það hefði að vísu snjóað talsvert og það gæti tafið sig eitthvað.

Einar er mjög kvefaður og þarf lengri tíma til að jafna sig. Hugsanlegt er að hann fari niður í
Dingboche, sem er í um 4.300 metra hæð, til að hvíla sig.

Erfið ganga í fjórðu búðir
Gangan úr þriðju búðum í fjórðu búðir er nokkuð erfið, að sögn Björns, enda er hæðarmunurinn um
1.000 metrar. Hann sagðist hafa verið á göngu í 8-9 klukkutíma og hefði verið orðinn þreyttur þegar
henni lauk. Sem dæmi um hvað menn eru að leggja á sig má nefna að félagi Björns, Chris Brown,
var liðlega 50 metrum á eftir Birni þegar hann kom upp í fjórðu búðir, en hann var samt einum
klukkutíma lengur á göngunni.

Hörður Magnússon, aðstoðarmaður þremenninganna, sagðist efast um að Björn færi alla leið upp í
fimmtu búðir í þessum áfanga. Það færi eftir veðri og heilsu. Það skipti ekki öllu máli hvað hann
færi langt að sinni. Aðlögunin yrði svipuð. Hörður sagði að þegar Björn og Hallgrímur hefðu lokið
þessum áfanga myndu þeir hvíla sig í nokkra daga og síðan gerðu þeir atlögu að sjálfum tindinum.
Einar hefði einnig lokið aðlögun, en aðalatriði fyrir hann væri að ná heilsu á ný.

Fjallgöngumennirnir eru í sambandi við Ísland á hverjum degi. Greinilegt er að þeir hafa fengið fréttir
af atriði spaugstofumanna, en þeir gerðu sl. laugardag grín að stöðugu "búðarápi" þeirra félaga. Í
pistli félaganna á heimasíðu sinni segja þeir að Björn ætli að dvelja nokkra daga í fjórðu búðum og
bæta við: "Enda þykir verðlagið þar mjög gott."

Margir hafa lýst áhuga á að heyra um þann mikla tækjabúnað sem gerir þeim félögum kleift að vera
í síma- og tölvusambandi við umheiminn. Hörður sendi í gær ítarlegan pistil um þessi tæknimál inn
á heimasíðu Everestfaranna.

Sjá Everestsíðu Morgunblaðsins:

http://www.mbl.is/everest/
Evrópusambandið og umræða á Íslandi


Norðmenn tóku af okkur ómakið að ræða ESB

VALGERÐUR Bjarnadóttir, forstöðumaður hjá Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), flytur í dag
fyrirlestur á opnum fundi á vegum Félags íslenskra háskólakvenna og hyggst þar draga fram
einkenni þeirrar umræðu, sem átt hefur sér stað hér á landi um Evrópusambandið (ESB). Valgerður
tekur fram að á fundinum muni hún ekki tala sem forstöðumaður hjá EFTA. Fundurinn verður
haldinn klukkan fimm síðdegis í stofu 101 í Lögbergi í Háskóla Íslands og er öllum opinn. Félag
íslenskra háskólakvenna var stofnað 7. apríl 1928 og var meginmarkmiðið að hvetja konur til náms.

­Hvernig mundir þú lýsa umræðunni um Evrópusambandið hér á landi?

Umræða um Evrópusambandið hefur verið mjög lítil hér á landi frá því að samið var um Evrópska
efnahagssvæðið og ég ætla að tala um það, sem mér finnst hafa einkennt hana. Hún hefur
einkennst af slagorðum. ESB hefur verið afgreitt með því að segja að sambandið sé bákn, sem gefi
út ótal reglugerðir. Þær séu búnar til af andlitslausum embættismönnum í Brussel og allt taki þetta
mjög langan tíma og sé þungt í vöfum.

Ég hafði hugsað mér að útskýra hvernig Evrópusambandið virkar. Það er alrangt að embættismenn
taki ákvarðanir, aðildarríkin gera það. Það tekur langan tíma að taka ákvarðanir enda um að ræða
samstarf margra ríkja. Það á að taka langan tíma því annars er ekki aðeins verið að valta yfir fólk
heldur heilar þjóðir.

­Að þinni hyggju er sem sé verið að ala á ákveðnum þjóðsögum um Evrópusambandið?

Það þarf að afhjúpa ákveðin atriði. Í mínum huga eru þetta svo mikil grundvallaratriði, en á hinn
bóginn er ljóst að þetta skiptir einnig fólk, sem ekki vinnur í þessu dags daglega, miklu máli. Hér er
um að ræða grundvallaratriði, sem ég ætla að taka á.

­Munt þú einnig fjalla um hlut kvenna í umræðunni um ESB?

Það var nefnt við mig að ræða um það í ljósi þess að konur hefðu ekki tekið afstöðu. Ég mun
aðeins koma inn á það, en mín skoðun er að líkt sé með þessi mál og þjóðmál almennt. Konur
virðast hafa minni áhuga á almennum þjóðmálum, nema þegar um er að ræða ákveðin sérmál, sem
þær telja að snerti sig sérstaklega. Annars halda konur sig meira til hlés en karlar.

­Hvers vegna hefur umræðan um Evrópusambandið farið svona lágt hér á landi?

Það horfir þannig við mér að Norðmenn hafi tekið af okkur ómakið að ræða ESB með því að fella
aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það nýttu sér þeir aðilar hér, sem ekki vilja tala um þessa hluti. Þeir
hljóta að vera ánægðir með ástandið eins og það er. Þau rök hafa líka verið notuð að það væri ekki
tímabært að ræða fyrr en eftir ríkjaráðstefnuna, sem lýkur í vor. Raunin verður hins vegar sú að fátt
verður skýrara eftir en var fyrir. Það er ekki vitað hver verða næstu aðildarríkin, eða hvenær. Það er
aðeins vitað að samningaviðræður muni hefjast eftir hálft ár og þau vandamál, sem kunna að koma
upp við að taka inn ný ríki í Evrópusambandið, verði leyst þegar þau gera vart við sig. Þú leysir
aldrei öll vandamál fyrirfram. Menn sögðu að nýju aðildarríkin þrjú gerðu ESB óstarfhæft, en
sambandið er ekki frekar óstarfhæft nú en það var fyrir fimm árum. ESB er í kreppu og óstarfhæft
vegna Breta og þeirra vandræða, sem þeir eru í heima fyrir.

­Þú segir að það hafi verið notað sem rök að bíða eftir niðurstöðum ríkjaráðstefnunnar. Er ekki
alveg eins hægt að segja að það sé glatað tækifæri að geta ekki haft áhrif á niðurstöðu
ríkjaráðstefnunnar?


Það er ljóst að EES-samningurinn var mjög góður viðskiptalegur samningur. En menn hafa
misjafnar skoðanir á því hvað hann var góður pólitískur samningur. Því má þó ekki gleyma að í máli
þar sem stórir og veigamiklir hagsmunir væru í húfi höfum við möguleika á að fá sératkvæði. Þannig
væri til dæmis hægt að fá eins eða tveggja ára biðtíma. En það hefði engin áhrif á ákvörðunina
sjálfa. Ef til dæmis er ákveðið bíða eftir að ríkjaráðstefnu ljúki höfum við engin áhrif á hvað gerist á
henni. En það er hætt við því að ætli maður alltaf að bíða þannig að framtíðin verði örugg verður lítið
um að tekin verði ný og stór skref.

Valgerður Bjarnadóttir er Fædd 13. janúar 1950 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum í Reykjavík 1969, lærði latínu og grísku í Manchester á Englandi, hélt þaðan í
viðskiptadeild Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1975. Hún vann hjá Flugleiðum frá 1975 til
1986 og var einnig eitt og hálft ár í sjávarútvegsráðuneytinu, frá 1979 til 1981. Hún flutti til Brussel
árið 1986 og hóf störf hjá Evrópusamtökum flugfélaga (AEA). Frá 1991 til 1993 starfaði hún
sjálfstætt. Þá fór hún til starfa hjá EFTA og hefur verið forstöðumaður þar frá 1995.

Maður hennar er Kristófer Már Kristinsson. Hún á tvö börn, Guðrúnu Vilmundardóttur 23 ára og
Baldur Hrafn Vilmundarson 15 ára.
Ræða borgarstjóra Reykjavíkur á Evrópuþingi Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Atvinnulausar einstæðar mæður verst settar

Í OPNUNARRÆÐU Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra, við upphaf Evrópuþings Rauða
krossins og Rauða hálfmánans, sem haldið var í Kaupmannahöfn, kom fram að í
velferðarsamfélögum Vesturlanda væru ungar, menntunarlausar, einstæðar mæður án atvinnu sá
hópur sem verst væri settur. Jafnframt að í öllum þjóðfélögum væri aðgangur kvenna að
efnahagslegum gæðum og völdum minni en karla, en ábyrgð þeirra á umönnun barna, sjúkra og
aldraða meiri. Um 200 þátttakendur sátu þingið, þar á meðal dönsku konungshjónin og
Hollandsdrottning.

Borgarstjóri fjallaði um þá sem minnst mega sín í hverju þjóðfélagi og sagði meðal annars að í
þriðja sinn á þessari öld gengi Evrópa í gegnum breytingar, sem ekki sæi fyrir endann á. Að hennar
mati væru það verðmæti á sviði menningar, siðferðis og stjórnmála sem réðu úrslitum um velferð
fólks og farsæld. Þess vegna bæri að skoða fátækt, jafnt efnahagslega sem aðra, út frá
mælikvarða menningar og siðferðis.

Borgarstjóri sagði að vandamál íbúa á Norðurlöndum væru fáfengileg í samanburði við vanda íbúa á
átakasvæðum sunnar í álfunni. Engu að síður væri ekki hægt að leiða vandann hjá sér með
skírskotun til þess að fólk í öðrum löndum hefði það miklu verra.

Tilfærsla milli hópa
Borgarstjóri sagði að í velferðarríkjum Evrópu beindist velferðarþjónustan ekki síst að hópum, sem
mönnum fyndist allt að því eðlilegt að ættu undir högg að sækja bæði heima fyrir og annars staðar
en það væru aldraðir, fatlaðir, sjúkir, atvinnulausir og menntunarlausir. "Það hljómar nöturlega
þegar ég segi að okkur finnist þetta eðlilegt ástand en þó held ég að það sé sannara en við viljum
vera láta," sagði hún. "Þannig virðist mér sem samviska heimsins sé ekkert vel vakandi þegar þetta
fólk á í hlut. Hún vaknar hins vegar upp við vondan draum þegar fregnir berast af vel menntuðu fólki
sem líður skort í öðrum löndum eða sparifjáreigendum sem hafa verið rændir ævisparnaði og lifa á
bónbjörgum."

Konur í minnihluta
"Í öllum valdastofnunum þjóðfélagsins hafa konur verið í hverfandi minnihluta og þó að þetta hafi
víða breyst á undanförnum árum er enn langur vegur frá því að áhrifa kvenna gæti til jafns við karla,"
sagði Ingibjörg. "Mikil vanþekking á stöðu og hlutverki kvenna var ríkjandi til skamms tíma á
ýmsum stofnunum þar sem málum er ráðið til lykta þar á meðal hjálparstofnunum og mikilvægum
frjálsum félagasamtökum. Má fullyrða að þetta hafi oft haft afdrifaríkar afleiðingar og leitt til þess að
neyðar- og þróunaraðstoð nýttist ekki sem skyldi. Sem betur fer virðist þetta vera að breytast, ekki
síst fyrir tilstilli kvennasamtaka svo sem UNIFEM."

Borgarstjóri vitnaði í ársskýrslu Alþjóðabankans fyrir árið 1995, þar sem fullyrt er að ekki muni nást
frekari árangur á sviði þróunarmála án virkni kvenna.
Ferðalán í formi 12 til 36 mánaða raðgreiðslna gagnrýnd af Neytendasamtökunum

Raðgreiðslur í árum ótíðar

Í AUGLÝSINGUM ferðaskrifstofa um komandi sumarleyfisferðir er viðskiptavinum bent á allt að
24­36 mánaða raðgreiðslur með krítarkortum. Samvinnuferðir-Landsýn bjóða til dæmis
sumarleyfisferð fyrir fjögurra manna fjölskyldu fyrir 4.700 krónur á mánuði með 36 mánaða
greiðslum, og Flugleiðir 24 mánaða greiðslu án þess að borgað sé inn á ferðina.

Neytendasamtökunum hefur þótt ástæða til að benda væntanlegum ferðamönnum á að hér sé ekki
um hagstæð lánakjör að ræða. "Fjölskylda sem kaupir 190 þúsund króna sólarlandaferð á 36
mánaða raðgreiðslum," segir Jóhannes Gunnarsson, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna,
"þarf einnig að greiða 50 þúsund krónur í kostnað vegna lántökunnar". Hér eru því um gylliboð að
ræða að mati Jóhannesar og gildrur lagðar fyrir efnalitla.

Ferðaauglýsingar um "flugléttar" og "fisléttar" greiðslur geta villt um fyrir fjölskyldum og þær fallið
fyrir freistingunni að fara í ferð sem engir peningar eru til fyrir, að sögn Jóhannesar. "Við teljum
þessa nýbreytni algerlega á skjön við umræðurnar í þjóðfélaginu um að taka á fjárhagsvanda
heimilinna, en ódýrast er að spara og safna."

Goði Sveinsson hjá Úrvali-Útsýni segir ekki um gylliboð að ræða. "Kostnaðurinn við að fara ferð á
raðgreiðslum er gefinn upp í okkar bæklingum og ferðamaðurinn veit nákvæmlega að hverju hann
gengur. Fólk er ekki svo vitlaust," segir hann, "og orðið "flugléttar" greiðslur merkir einfaldlega litla
greiðslu á mánuði."

Ástæðan fyrir raðgreiðslum í 12, 24 eða 36 mánuði hjá Úrvali-Útsýn er að gera fjölskyldum, sem
myndu að öðrum kosti ekki aldrei komast í sumarleyfisferð, kleift að fara til útlanda. "Hér er um
aukaþjónustu að ræða," segir Goði, "sem fáir nota, en markaðurinn ræður för."

Hólmfríður Júlíusdóttir, þjónustufulltrúi Flugleiða í Kringlunni, segir 24 mánaða raðgreiðslur vegna
ferða hugsaðar sem valkost en á hinn bóginn lítið notaðan. "Fæstir vilja taka meira en 6­7 mánuði á
raðgreiðslum," segir hún.
Ferðamálastjóri um samstarf Ferðamálaráðs og Flugleiða sem er í uppnámi

Uppsögn samnings alvarleg tíðindi fyrir ferðaþjónustuna

MAGNÚS Oddsson ferðamálastjóri segir það alvarleg tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu ef
Flugleiðir segja upp samstarfssamningum sínum við Ferðamálaráð nema til kæmi stóraukið
fjármagn frá stjórnvöldum til að opna kynningarskrifstofur á þeim stöðum þar sem Flugleiðir hafa
verið umboðsaðilar ráðsins. Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Flugleiða, sagði á
fundi Sambands veitinga- og gistihúsa í gær að félagið hefði ákveðið að segja samningnum upp.

"Ég vona að vegna ferðaþjónustunnar í landinu verði álit Samkeppnisstofnunar, sem ég hef að vísu
ekki séð, ekki til þess að Flugleiðir dragi sig úr öllu samstarfi sem þeir eiga við Ferðamálaráð. Það
væri ekki aðeins eitt heldur mörg skref aftur á bak fyrir alla aðila í ferðaþjónustu sem hafa notið
þessarar auknu kynningar í þau tólf ár sem liðin eru frá því að fyrsti samstarfssamningurinn var
gerður," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.

Hverjir skaðast í raun?
"Ég velti því fyrir mér hverjir það eru í raun og veru sem skaðast verði þetta niðurstaðan. Fjöldi aðila,
ekki síst á landsbyggðinni, hefur ekki fjárhagslega getu til þess að standa í dýru kynningarstarfi til
þess að koma sér á framfæri erlendis. Með samstarfi Flugleiða og Ferðamálaráðs er auðvitað verið
að tryggja það að hægt sé að koma upplýsingum á framfæri á stöðum sem við hefðum ekki ráð á
að gera með öðru móti með núverandi fjármuni í höndum," sagði Magnús.

Hann spyr hvort það leiði til aukinnar samkeppni innanlands ef Flugleiðir segja t.d. upp
samstarfssamningnum í Bretlandi. Með því hættu Flugleiðir að dreifa almennum kynningarbæklingi
um Ísland í tugþúsundum eintaka þar sem er að finna upplýsingar um hótel og aðra ferðaþjónustu á
landsbyggðinni. Flugleiðir dreifðu í staðinn eingöngu sínu eigin efni.

Magnús segir að samkvæmt samningnum standi Flugleiðir að almennri upplýsingagjöf og dreifingu
efnis um Ísland frá sex skrifstofum sínum erlendis án nokkurs endurgjalds og auk þess komi um
30 milljónir kr. á ári frá Flugleiðum í samstarfsverkefni með Ferðamálaráði.

Magnús segir að verði það niðurstaðan að Flugleiðir segi upp samningunum verði annaðhvort að
koma meiri fjármunir frá opinberum aðilum til þess að sinna þessu starfi með opnun
kynningarskrifstofa eða að draga verði úr þessu mikilvæga kynningarstarfi að einhverju eða verulegu
leyti. Slíkt má ekki gerast þegar aukin samkeppni í heiminum krefst aukins kynningarstarfs af
Íslands hálfu. Það starf þarf að stórauka en ekki minnka og því verður að leita leiða til enn frekari
kynningarstarfs sem skilar öllum auknum viðskiptum og arði.

Magnús segir að fullyrðingar Helga Jóhannssonar, forstjóra Samvinnuferða-Landsýnar, um að
Ferðamálaráð hafi skráð sig sem þátttakanda á ferðamálasýningu á Írlandi í janúar 1995, séu ekki
réttar. Það hafi því ekki verið við Ferðamálaráð að sakast að Samvinnuferðum-Landsýn var meinuð
þátttaka á sýningunni á bás Flugleiða. Í umræddu tilviki hafi Flugleiðir ákveðið að taka þátt í
sýningunni og greitt af því allan kostnað.
Albanskar mæðgur bíða milla vonar og ótta á Neskaupstað

Feðgarnir innlyksa í Albaníu

"Ég er að sjálfsögðu mjög áhyggjufull og bið þess og vona að eiginmaður minn og sonur komist
sem fyrst frá Albaníu og hingað til Íslands," segir Qeríme Vokrrí, albönsk kona, sem býr á
Neskaupstað ásamt tveimur dætrum sínum, en albanskur eiginmaður hennar og sextán ára sonur
áttu að leggja af stað til Íslands síðastliðinn föstudag frá höfuðborginni Tirana í Albaníu, en urðu frá
að hverfa vegna þess að flugvellinum var lokað deginum áður sökum stjórnleysis í borginni.

Þeir feðgar Báshkím og Enkelió eru búnir að fá dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi og hafði Queríme
safnað fyrir fargjaldi þeirra með aðstoð vina á Neskaupstað. Það urðu því mikil vonbrigði þegar þeir
komust ekki á föstudag eins og til stóð. "Við heyrðum síðast frá þeim á laugardagsmorgun en þá
ætluðu þeir að reyna að komast úr landi eftir öðrum leiðum, ef flugvöllurinn yrði ekki opnaður í
vikunni," segir Lazarela, önnur dætra Queríme.

Queríme hefur búið á Íslandi undanfarna fimm mánuði ásamt dætrunum Lazarelu 14 ára og
Marinelu 12 ára og vinnur nú hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað. Mæðgurnar komu upphaflega
hingað til lands fyrir tilstilli systur Queríme, Lingita Óttarsson, sem hefur búið hér í tæp fjögur ár
ásamt íslenskum eiginmanni sínum.

Misstu aleiguna í píramítafyrirtækjunum
Í Albaníu ráku Queríme og eiginmaður hennar Báshkím sitt eigið fyrirtæki í um tuttugu ár, en seldu
aleigu sína á síðasta ári og lögðu peningana í hin svokölluðu píramítafyrirtæki, sem nú eru orðin
gjaldþrota. "En það var ekki síst þess vegna sem þau ákváðu að flytjast af landi brott," segir
Lingita. Hún segir ennfremur að þeir feðgar hafi sagt upp húsnæði sínu og vinnu skömmu áður en
þeir hafi ætlað að leggja af stað til Íslands, en kunningjar þeirra hafi þó skotið yfir þá skjólshúsi
síðustu daga.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er verið að kanna með hvaða hætti hægt sé að
koma þeim feðgum til aðstoðar þannig að þeir komist klakklaust til fjölskyldu sinnar á Íslandi.
Fjölskyldumiðstöð vegna barna í vímuefnavanda opnuð

OPNUÐ hefur verið fjölskyldumiðstöð vegna barna í vímuefnavanda í húsakynnum
Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í Reykjavík.

Fjölskyldumiðstöðin býður foreldrum ráðgjöf og stuðning þeim að kostnaðarlausu. Starfsemin er
tvíþætt; fyrir foreldra annars vegar og fyrir börn þeirra hins vegar. Annars vegar er boðið upp á
einkaviðtöl hjá ráðgjöfum en hins vegar þátttöku í hópstarfi. Ráðgjafarnir hafa mikla reynslu af
áfengis- og vímuefnameðferð og koma frá stofnunum á því sviði.

Starfræksla Fjölskyldumiðstöðvarinnar er liður í verkefninu Vímulaus grunnskóli sem hófst fyrir
nokkrum vikum og nær til grunnskólabarna í Reykjavík. Verkefnið er samstarfsverkefni
Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og
Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands.

Markmiðið með starfrækslu miðstöðvarinnar er að aðstoða og styðja reykvíska foreldra sem eiga
börn í vímuefnavanda. Foreldrar eru hvattir til þess að leita sér aðstoðar og ráðgjafar ef þeir telja að
börn þeirra séu farin að neyta áfengis eða annarra vímuefna og þeir treysta sér ekki til þess að taka
á málum hjálparlaust. Mikilvægt er að foreldrar fresti því ekki um of að bregðast við áfengis- og
vímuefnaneyslu barna sinna. Tíminn sem glatast meðan beðið er eftir að koma börnunum til
aðstoðar er dýrmætur og getur oft ráðið úrslitum um það hvort og hve fljótt tekst að ná þeim út úr
neyslu, segir í frétt frá Fjölskyldumiðstöðinni.

Fjölskyldumiðstöðin er opin mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 14­18. Foreldrar geta á þeim
tíma hringt í síma miðstöðvarinnar og pantað viðtal. Sími Fjölskyldumiðstöðvarinnar er 511-1599.
Flak flugvélarinnar fannst á 30 m dýpi

FLAK flugvélarinnar TF-CCP, sem fórst síðastliðinn laugardag, fannst á rúmlega 30 metra dýpi um
tvo km norður af álverinu í Straumsvík í gærkvöldi. Vélarinnar hafði þá verið leitað frá því um klukkan
14 á laugardag. Lík mannanna sem fórust með vélinni voru í flaki hennar.

Unnið var að því í gærkvöldi að setja festingar á flakið og var ráðgert að reyna að hífa það upp í nótt.

Flugmálastjórn fór með yfirumsjón leitarinnar og var henni stýrt frá varðskipinu Ægi sem var við
slysstað frá því síðdegis á laugardag, samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Fyrst tókst að staðsetja flugvélarflakið með málmleitartæki Landhelgisgæslunnar og í framhaldi af
því var fengin neðansjávarmyndavél til að skoða vettvang. Í ljós kom að vélin lá á réttum kili með
nefið niður og var hún mikið brotin. Unnið var að köfun niður í flakið í gærkvöldi og átti að reyna að
hífa vélina um borð í varðskipið.

Tíu kafarar tóku þátt í leitinni á varðskipinu Ægi. Einnig var leitað með málmleitartækum,
neðansjávarmyndavélum og venjulegum dýptarmælum. Þá leitaði hjálparsveit skáta í Hafnarfirði
meðfram ströndinni.

Á vettvangi var Rannsóknanefnd flugslysa ásamt fulltrúum frá Landhelgisgæslu, lögreglu,
Flugmálastjórn, slökkviliði og björgunarsveitum.
Flugfélög mega innrita farþega og afgreiða vélar skv. EES-reglum

Stangast á við einkaleyfi Flugleiða í Keflavík

Ákvæði tilskipunarinnar eiga að taka gildi um næstu áramót

TILSKIPUN Evrópusambandsins um aðgang fyrirtækja að flugafgreiðslumarkaði mun taka gildi hér
á landi á næstu misserum samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ákvæði
tilskipunarinnar stangast samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins á við núverandi fyrirkomulag
flugafgreiðslumála á Keflavíkurflugvelli.

Flugleiðir hf. hafa nú einkaleyfi á innritun farþega og afgreiðslu allra farþegaflugvéla á
Keflavíkurflugvelli samkvæmt samningi við utanríkisráðuneytið en tilskipunin kveður á um að á
flugvöllum þar sem farþegar eru fleiri en ein milljón á ári og frakt meiri en 25.000 tonn skuli
flugfélögum vera heimilt að afgreiða sjálf eigin flugvélar. Fullt frelsi í veitingu þjónustu við flugvélar
miðast hins vegar við enn stærri flugvelli þar sem mun fleiri farþegar fara um.

Að sögn Halldórs S. Kristjánssonar, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, er tilskipunin hluti af
reglusafni því um flugmál, sem gert er ráð fyrir að verði hluti af EES-samningnum og taki gildi á
Íslandi. Miðað sé við að ákvæði tilskipunarinnar taki gildi um næstu áramót.

Sameiginlega EES-nefndin hefur hins vegar enn ekki tekið formlega ákvörðun um að tilskipunin
skuli bætast við EES-samninginn.

Núverandi samningur við Flugleiðir var gerður árið 1987. Flugleiðir höfðu í fyrstu einkarétt á innritun
farþega og þjónustu við jafnt farþega- og fraktflugvélar, en 1991 var samningurinn endurnýjaður og
var afgreiðsla fraktflugvéla þá gefin frjáls. Fraktflugfélög hafa hins vegar áfram skipt við Flugleiðir.
Um 80% af farþegaflugi og 75% af fraktflugi um völlinn eru á vegum Flugleiða.

Einkaleyfissamningurinn endurnýjaðist aftur á síðasta ári, en samkvæmt upplýsingum
Morgunblaðsins greinir samningsaðilana á um til hversu langs tíma hann hafi endurnýjazt. Verði
talið að samningurinn stangist á við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum má
búast við aðgerðum af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA, nema samningnum verði rift eða samið upp á
nýtt við Flugleiðir.

Einkaleyfið gagnrýnt
Einkaleyfi Flugleiða á flugafgreiðslunni hefur sætt gagnrýni keppinauta félagsins, til dæmis
flugfélagsins Atlanta, sem telja það skaða samkeppnisstöðu sína. Í drögum að skýrslu
Samkeppnisstofnunar um flugmarkaðinn, sem Morgunblaðið greindi frá í marz síðastliðnum, kemur
fram að gjaldskrá fyrir flugvélaafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli sé með þeim hæstu sem fyrirfinnist í
nágrannalöndunum. Samkvæmt ársskýrslu Flugleiða námu tekjur félagsins af afgreiðslu flugvéla,
innanlands og utan, um 242 milljónum króna á síðasta ári.
Vímuefni og unga fólkið

Fordæmi fullorðinna skiptir mestu máli

MOTTAHED segist vera mjög hrifinn af Íslandi en hann viti að hér á landi séu mörg dæmi um að
börn, alveg niður í ellefu ára gömul, séu háð áfengi og jafnvel enn öflugri vímuefnum. Þetta sé
uggvænlegt og hann vilji leggja hönd á plóginn við að ráða bót á vanda af þessu tagi sem þekkist
um allan heim. Mestu skipti að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og
efnunum.

­Hvernig ber að sporna við vímuefnanotkun hjá ungu fólki?

"Sérhvert samfélag ætti að grípa inn eins snemma og hægt er. Foreldrarnir þurfa að vera
þátttakendur. Ef þeir verða sjálfir gott fordæmi og nota ekki áfengi á heimilinu er miklu síður hætta
á að barnið verði áfengissjúkt síðar á ævinni. Barnið lærir jafnframt um hættuna af efninu."

­Áfengi er og hefur lengi verið hluti af vestrænni menningu. Mælirðu með vínbanni?

"Ekki banni sem stjórnvöld setja heldur banni sem menn ákveða hver fyrir sig, ákvörðunin á að vera
meðvituð.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur menning geti byggst á eitri; áfengi og fíkniefni eru vissulega
eitur. Þetta er eitur sem veldur miklu tjóni á líkamanum og andlegri heilsu, einnig efnahagslegum
skaða. Við verðum að huga vel að þessu. Það er ekki til nein hófleg neysla á áfengi eða
fíkniefnum."

­Áttu við að hófdrykkja sé ekki til?

"Mjög sjaldan. Það er til fólk sem drekkur í hófi en flestir sem segjast kunna sér hóf í þessum
efnum gera það ekki í reynd. Sumir drekka eitt eða tvö glös af léttvíni heima hjá sér en verði þetta
að daglegri venju líður þeim illa ef þeir fá ekki skammtinn sinn. Þeir fá fráhvarfseinkenni.

Þegar fólk drekkur of mikið kemur það illa niður á fjölskyldunni, vinnunni, margir lenda í bílslysum,
oft kennir fólki áfengi eða eiturlyfjum um þegar það fremur glæpi. Það er hægt að koma í veg fyrir
þetta allt með því að neyta ekki þessara efna."

­Tölulegar upplýsingar um þessi mál benda ekki til þess að meirihluti þeirra sem nota áfengi
misnoti það, er það?


"Ég fullyrði það ekki en skýrslur sýna að unga fólkið um allan heim notar í æ ríkari mæli tóbak,
áfengi og, þegar frá líður, hass, heróín og kókaín. Þótt ekki verði nema tíundi hlutinn af öllu unga
fólkinu ykkar þessum efnum að bráð er tjónið gríðarlegt. Skattgreiðendur verða að borga fyrir
aðstoðina sem þarf að veita sjúklingunum og bæta það tjón sem verður af slysum og glæpum er
tengjast notkun áfengis og eiturlyfja. Enginn getur bætt þá sem láta lífið."

­Stundum er bent á að öll misnotkun sé samfélaginu dýr, hvort sem það er ofnotkun áfengis,
sykurs eða fitu.


"Það er alveg rétt en áfengið er sérstaklega slæmt vegna þess að fólk ánetjast því og það veldur
ásamt eiturlyfjum hvers kyns glæpum, unga fólkoð stelur til að fá peninga fyrir efninu og margir
leiðast út í vændi.

Það þarf að útskýra málin, fræða unga fólkið. Mitt hlutverk er að lækna þá sem eru sjúkir.
Stjórnvöld verða að tryggja að skaðleg efni geti ekki lent í höndunum á ungu fólki og þá á ég við fólk
undir 21 árs aldri. Í allri auðmýkt fer ég fram á að opinberir aðilar banni stranglega að fíkniefni af
hvaða tagi sem er, einnig áfengi og tóbak, verði seld fólki undir 21 árs aldri.

Í stuttu máli sagt, ég mæli með fræðslu og takmörkuðum aðgangi að þessum efnum, að minnsta
kosti fyrir þá sem ekki eru enn komnir með góða dómgreind, vita ekki hvað er gott og hvað slæmt
fyrir líkamann, sálina og pyngjuna."

­Ungt fólk hér á landi kaupir nú þegar heimabrugg á svartamarkaði vegna þess að það er svo ódýrt.
Yrði hægt að framfylgja svona lögum?


"Það er hlutverk stjórnvalda, ég veit ekki hvernig þau eiga að gera það. En sölumennirnir ættu líka
að huga að því sem þeirra eigin samviska býður þeim. Ég tel að aðgerðir af þessu tagi myndu
draga mjög úr notkuninni, reynslan af þeim í Bandaríkjunum bendir eindregið til þess."

Bandaríski læknirinn dr. Iraj Mottahed hefur starfað við meðferð áfengissjúklinga og er mikill
áhugamaður um vímuefnavarnir en hann er nú í annað sinn staddur hér á landi. Liðsmenn bahá'í-
samfélagsins í Reykjanesbæ fengu hann til að ávarpa þar fund um þessi vandamál nú í vikunni þar
sem einnig átti að ræða um verkefnið Vímulaus valkostur. Hann telur mikilvægt að foreldrar séu
börnum sínum gott fordæmi þegar notkun vímuefna er á dagskrá og vill að enginn undir 21 árs aldri
fái að kaupa tóbak eða áfengi í verslunum.

Mottahed er búsettur í borginni New Bedford, skammt frá Boston í Massachusetts. Hann er 65 ára
gamall, kvæntur og á tvær dætur.
Fuglavinur í Fossvoginum

Gefur þröstunum kræsingar á hverjum degi

"ÞRESTIRNIR eru miklir sælkerar og brjálaðir í allt sem er feitt, reykt, salt eða kryddað," segir
Oddný Gestsdóttir, húsmóðir og fuglavinur í Fossvoginum, sem telur það ekki eftir sér að smyrja
og brytja niður nokkra brauðbita með smjöri og remúlaði, skera niður afgangsfitu af salt- eða
hangikjöti eða blanda saman saltkjötsfloti, brauði og mjólk og bera út í garð til fuglanna á degi
hverjum. Og sé snjórinn blautur setur hún matinn á lítinn tréhlera.

Oddný segist í samtali við Morgunblaðið gefa fuglunum alla matarafganga sem hún eigi, enda komi
ekki til greina að henda neinum leifum. "Það var venjan að gefa fuglunum þegar ég bjó í sveit sem
lítil telpa og ég tók sjálf upp á því fyrir mörgum árum," segir hún og bætir því við að hún gefi þeim
allan ársins hring yfirleitt einu sinni á dag, en stundum tvisvar ef nóg er til. "Það er misjafnt og
mismikið hvað ég gef þeim. Ég gef þeim bara það sem ég á til. Til dæmis fiskafganga,
kökumylsnur, fiskroð, sykraðan mjólkurvelling eða smurt brauð, enda eru þeir orðnir ansi vandlátir,"
segir hún. "Ég sauð til dæmis loðnu handa þeim um dagin og bar hana út, en þeir borðuðu hana
aldrei því hún var hvorki steikt né krydduð. Þeir eru því dálitlir sælkerar," segir hún.

Þá kveðst Oddný hafa prófað að gefa þröstunum venjulegt fuglafóður en þeir hafi ekki litið við því.

Þeir sömu koma aftur og aftur
Oddný segir að það séu aðallega svartþrestir og íslenskir þrestir sem sæki í matinn hennar og að
stundum komi þeir eins og skæðadrífa niður af húsþökunum og trjánum skömmu eftir að hún hafi
borið matinn út. "Þeir hafa verið á milli tuttugu til þrjátíu í einu að narta í matinn," segir hún.

Oddný segir ennfremur að sömu þrestirnir komi alltaf aftur og aftur, "enda nokkrir þeirra orðnir ansi
bústnir," segir hún. "Og ef ég er eitthvað sein fyrir setjast þeir á gluggasylluna og bíða."

Hún segir að svartþrestirnir séu mjög fælnir en þeir íslensku geti verið mjög gæfir. "Einn þeirra kom
meira að segja inn í eldhús til mín um daginn eftir að ég hafði skilið útidyrnar opnar á meðan ég fór
inn og sótti matarbakkann," segir hún að síðustu.
Fjögur fíkniefnamál á Akureyri

Maður handtekinn á hóteli með kókaín

ÞRJÚ fíkniefnamál komu til kasta rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri á laugardag og í einu
þeirra fundust 2 grömm af kókaíni við leit á hóteli í bænum. Einn maður var handtekinn á staðnum
og var honum sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Á laugardagsmorgun barst lögreglunni vitneskja um fíkniefnanotkun í húsi á Brekkunni og á
vettvangi fundust fjórar hasspípur. Við nánari leit fann hasshundurinn Jens 4 grömm af hassi sem
voru vel falin í húsinu. Einn maður var handtekinn í tengslum við málið og var honum sleppt að
lokinni yfirheyrslu.

Bindur vonir við hasshundinn
Daníel Snorrason, lögreglufulltrúi er farinn að nota hasshundinn Jens við fíkniefnaleit en hann hefur
verið að þjálfa hundinn til slíks brúks í rúmt ár. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem Jens finnur
fíkniefni í raunverulegu máli. Sagðist Daníel ánægður með frammistöððu hundsins og bindur hann
miklar vonir við hann við fíkniefnaleit í framtíðinni.

Á laugardagskvöld var lögregla kvödd að veitingahúsi í bænum en á kvennasnyrtingu hússins
fundust blóðugar sprautur og leikur grunur á að þær hafi verið notaðar í sambandi við
fíkniefnaneyslu. Málið er óupplýst en í rannsókn.

Þá var lögreglan kvödd í hús í miðbænum sl. miðvikudagskvöld, vegna hávaða og óláta. Þar fundust
sprautur og ýmislegt fleira sem benti til fíkniefnaneyslu. Við húsleit fannst töluvert af lyfjum sem
annar tveggja aðila sem komu við sögu hafði náð frá læknum. Tveir menn voru handteknir og var
þeim sleppt að loknum yfirheyrslum daginn eftir.
Kristján Björnsson tekur ekki þátt í kosningum í Garðaprestakalli

Víðar guð en í Görðum

SÉRA Kristján Björnsson, sóknarprestur á Hvammstanga, hefur ákveðið að taka ekki þátt í
prestskosningunum sem stefnt er að því að fram fari í Garðaprestakalli þann 31. maí. "Það er víðar
guð en í Görðum og ég er þannig innstilltur að mér finnst að prestur, sóknarnefnd og starfslið
kirkjunnar eigi að vera samstiga í því að efla einingu og frið," segir Kristján en hann telur að hluti
sóknarnefndar Garðasóknar berjist svo eindregið fyrir kjöri séra Arnar Bárðar Jónssonar að það geti
teflt einingu prestakallsins og starfsfriði í tvísýnu.

"Ég sætti mig út af fyrir sig við niðurstöðu kjörmannakosningar sem var um daginn og hlýt að virða
rétt kjósenda til að fara fram á almennar kosningar en það er komið í ljós í mínum huga að hluti
sóknarnefndar í Garðasókn sem var meðal kjörmanna er harðákveðinn í því að fá einn
frambjóðandann, sér Örn Bárð Jónsson, og hefur nú lýst yfir stuðningi við hann. Þetta fólk vill séra
Örn Bárð og engan annan og hefur komið fram í blöðum sem yfirlýstir stuðningsmenn hans og það
þykir mér óeðlilegt af þessum embættismönnum."

Eindreginn ásetningur
"Þetta er hluti virkustu sóknarnefndarinnar í stærstu sókninni í prestakallinu. Sóknarnefndin er,
ásamt starfsliði í kirkjunni, nánasti samstarfsaðili sóknarprestsins og það yrði lítill sigur að vinna
kosningarnar og þurfa síðan að glíma við það að ná sáttum við þá aðila sem ættu að starfa saman
af heilum huga að því verkefni að byggja upp söfnuðinn og sjálfan sig í þjónustu við guð."

Kristján segist hafa heyrt í viðtölum við þetta fólk og með skilaboðum og ábendingum sem honum
hafi verið bornar að þetta sé eindreginn ásetningur þess. "Þessi framganga tiltölulega lítils hóps
innan sóknarnefndar Garðasóknar hefur orðið til þess að nú virðist stefna í óefni innan
prestakallsins."

Í Garðaprestakalli eru þrjár sóknir. Garðasókn, sem er langstærst, Bessastaðasókn og
Kálfatjarnarsókn, sem nær yfir Voga og Vatnsleysuströnd.

Séra Gunnar Kristjánsson, prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi, sagði í samtali við Morgunblaðið að
yfirferð undirskriftarlista um prestkosningar í Garðaprestakalli væri lokið. 2.194 nöfn voru á
undirskriftarlista, þar af voru 179 nöfn ógild en til þess að fullnægja skilyrðum um þátttöku 25%
sóknarbarna þurfti 1.693 undirskriftir og er því skilyrði vel fullnægt.

Tveir aðrir dregið sig til baka
Séra Gunnar Kristjánsson sagði að kjörskrá yrði lögð fram föstudaginn 2. maí og lægi frammi í
tvær vikur en utankjörstaðakosning hefst 16. maí. Prófastur sagði að sér hefði aðeins borist formleg
afturköllun á umsókn frá séra Bjarna Karlssyni en aðrir sem vildu draga sig til baka hefðu frest til
10. maí til þess.

Auk séra Kristjáns hefur séra Yrsa Þórðardóttir á Fáskrúðsfirði lýst yfir því að hún taki ekki þátt í
prestskosningum. Aðrir umsækjendur um prestakallið eru séra Örn Bárður Jónsson, fræðslustjóri
þjóðkirkjunnar, og Hans M. Hafsteinsson guðfræðingur.

Til að prestskosning sé bindandi þarf helmingur sóknarbarna að taka þátt í kosningu og einn
frambjóðandi að hljóta helming greiddra atkvæða.
Ráðstefna um gosið í Vatnajökli

JARÐFRÆÐAFÉLAG Íslands gekkst í gær fyrir ráðstefnu um eldgosið í Vatnajökli síðastliðið haust
og var á ráðstefnunni kynnt sitthvað af rannsóknum jarðvísindamanna á eldsumbrotunum og
afleiðingum þeirra. Flutt voru 25 erindi um skjálfta, eldgos, hlaup, jarðefnafræði, landmórun og
samgöngur og sýnd veggspjöld til skýringar. Meðal þess sem fram kom á ráðstefnunni í
gærmorgun er að vísindamenn telja talsverðar líkur á því að á umbrotasvæðinu í Vatnajökli verði
næstu áratugir viðburðaríkari en þeir sem nýliðnir eru. Þá kom fram að efnasamsetning ísúrs
gjóskulagsins úr gosinu 1996 er svipuð og á tímabilinu 1885-1889 og hugsanlega 1938, en önnur
en ísúrra gjóskulaga sem talin eru ættuð frá Grímsvatnakerfinu. Því sé umhugsunarefni hvort nýr
kafli í gossögu Vatnajökuls hafi byrjað með ísúra gosinu milli 1885 og 1889 og hvort eldstöðvakerfi
milli þeirra tveggja sem virkust hafa verið sé að vakna af dvala. Á myndinni sést Helgi Björnsson
jarðeðlisfræðingur ræða við Hafstein Hafsteinsson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, í fundarhléi á
ráðstefnunni.
Hverfafundur borgarstjóra með íbúum Grafarvogs

Umferðarþunginn sífellt vaxandi vandamál

Bættar samgöngur í Grafarvogi voru íbúum Grafarvogs greinilega hugleikið málefni á hverfafundi
með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra síðastliðið mánudagskvöld. Arna Schram fylgdist
með umræðunum sem fóru fram á fjölmennum og líflegum fundi.


HVERFAFUNDURINN í Grafarvogi á mánudaginn var fyrsti af átta hverfafundum sem Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir borgarstjóri hyggst halda með Reykvíkingum á næstu vikum. Fundurinn var haldinn í
salarkynnum félagsmiðstöðvarinnar Fjörgyn í Grafarvoginum.

Í upphafi fundar fór borgarstjóri nokkrum orðum um borgarmálin almennt; um fjárhagsstöðu
borgarinnar og stefnumörkun borgarmála, en ræddi síðan sérstaklega um málefni er tengdust
Grafarvogi.

Hún byrjaði á því að segja frá hinni fyrirhuguðu hverfamiðstöð í Grafarvogi, sem samþykkt var á
fjárhagsáætlun fyrir árið 1997. Að sögn Ingibjargar er þarna um að ræða persónulega þjónustu við
íbúa Grafarvogs á sviði félags-, dagvistar-, skóla-, menningar-, tómstunda og íþróttamála. Markmið
hverfamiðstöðvarinnar séu einkum þrenn. Í fyrsta lagi að bæta og hagræða í þjónustu við íbúa
Grafarvogshverfis, í öðru lagi að auka lýðræði og veita íbúum hverfisins nokkur áhrif og völd um þá
þjónustu sem borgin veitir og þá jafnframt hvernig hún er veitt og í þriðja lagi að leitast við að
samþætta framvegis enn frekar þjónustu borgarstofnana í hverfinu og einnig að samræma eftir
föngum þjónustu borgar og ríkis við íbúa hverfisins.

Sérstök hverfisnefnd hefur verið skipuð til að fara með stjórn hverfismiðstöðvarinnar og mun hún
halda sinn fyrsta fund innan fárra daga. Hana skipa borgarfulltrúarnir Guðrún Ögmundsdóttir, sem
er formaður, Sigrún Magnúsdóttir og Hilmar Guðlaugsson, en fulltrúar íbúasamtakanna í Grafarvogi
eru Friðrik Hansen Guðmundsson og Knútur Halldórsson.

Íbúum fjölgaði um rúmlega eitt þúsund á einu ári
Ingibjörg sagði frá framkvæmdum helstu málaflokka í Grafarvoginum eins og til dæmis skóla-,
dagvistar- og íþróttamála, en fór síðan út í skipulagsmál. "Hverfið er ungt og í örum vexti," sagði
hún. "Árið 1983 hófst uppbygging norðan Grafarvogs. Segja má því nú 14 árum síðar að hverfið sé
komið á gelgjuskeiðið, en því tímabili fylgir gjarnan órói og umbrot. Íbúar eru nú orðnir 12.650 og
hafði fjölgað um 1.150 frá árinu á undan [árinu 1995] sem er nánast öll fólksfjölgun í borginni á
árinu."

Þá sagði hún að vöxtur hverfisins hefði í fyrstu verið mjög hraður en áframhaldið hefði verið nokkuð
skrykkjótt allt eftir ástandi á fasteignamarkaði á hverjum tíma. "Árið 1995 var fáum lóðum úthlutað í
hverfinu eða um 150 en á síðasta ári tók lóðaúthlutun kipp og varð tvöfalt meiri eða um 300 íbúðir."
Hún sagði ennfremur að gert væri ráð fyrir að næsta íbúðarhverfi verði á Grafarholti austan
Vesturlandsvegar, en þar væri nýlega lokið hugmyndasamkeppni um skipulag.

Ingibjörg gerði endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkur einnig að umtalsefni og útskýrði fyrirhugað
skipulag á Geldinganesi. Hún ítrekaði að ekki væri verið að tala um Geldinganesið sem hefðbundið
iðnaðarsvæði og því óþarfi að óttast að þar verði mengandi stóriðja, "heldur starfsemi sem getur
verið í sátt við umhverfið og nálæg íbúðarhverfi," sagði hún.

Tvöföldun Gullinbrúar og tengingar yfir til Kleppsvíkur
Í erindi sínu sagði Ingibjörg ljóst, að tvöföldun Gullinbrúar væri orðin tímabær og að horft væri til
tengingar yfir til Kleppsvíkur í náinni framtíð. Þar væri hafin verkfræðileg undirbúningsvinna.
"Reiknað er með að í lok þessa árs verði orðið skýrt hvaða leið og hvaða tæknileg lausn komi
sterkust til álita," sagði hún. "Þá verði jafnframt komin gleggri hugmynd um kostnað við mannvirkið.
Miðað við að tæknilegur undirbúningur og fjármögnun gangi snurðulaust fyrir sig gæti vegtenging
verið komin að 5 til 6 árum liðnum."

Ingibjörg sagði ennfremur að breikkun Gullinbrúar og bygging Sundabrautar yfir Kleppsvík væri hvor
tveggja fjármögnuð af vegaáætlun ríkisins og því hefði Reykjavíkurborg ekki forræði um
tímasetningu framkvæmda. "Við á höfuðborgarsvæðinu höfum lengi haldið því fram að fjárframlög til
þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu séu of lág," sagði hún og lagði áherslu á að líklega þyrfti að
fjármagna Kleppsvíkurtengingu með sérstökum hætti.

Ingibjörg fjallaði einnig um þá þróun sem ætti sér stað á leiðakerfi Strætisvagna Reykjavíkur (SVR)
í Grafarvoginum og sagði að gert væri ráð fyrir því að nýjar leiðir yrðu teknar upp með vorinu. "Í
tillögum sem unnið er með hjá stjórn SVR er gert ráð fyrir að þjónusta við Borgarhverfi og
Víkurhverfi muni bætast á leið 14. Hugmyndin er að leiðin aki Strandveg-Vættarborgir-Mosaveg að
Gullengi í stað Borgarvegar. Einnir er gert ráð fyrir að aka Hallsveg-Fjallkonuveg í stað Hallsvegar-
Strandvegar. Með því fær Hamrahverfið tengingu við verslulnarmiðstöð, íþróttahús og félagsmiðstöð
í báðar áttir, þar sem leið 15 gengur þá leið í hina áttina."

Ingibjörg sagði einnig að fyrirhugað væri að leið 115 aki Gullengi-Mosaveg-Víkurveg í stað
Borgarvegar til að bæta tengsl við Borgarholtsskóla og Engja- og Víkurhverfi. Þá er "ráðgert að
bæta tengsl úr skiptistöðinni við Ártún með nýrri leið sem aki á annatímum á virkum dögum. Ekið
frá Ártúnsstöð að Skútuvogi - um Vatnagarða - Dalbraut - Sundlaugaveg -Borgartún og til baka.

Í lok erindis síns fjallaði Ingibjörg stuttlega um framkvæmdir Garðyrkjustjóra og Gatnamálastjóra
Reykjavíkurborgar í Grafarvoginum. Í því sambandi sagði hún m.a. að á Aðalskipulagi
Reykjavíkurborgar hefði alltaf verið reiknað með að loka Langarima við verslunarmiðstöðina fyrir
annarri umferð en strætisvögnum.

"Meðan Borgarvegurinn var ekki kominn var almenn umferð um Langarima nauðsynleg. Erfitt hefur
reynst að hrinda þessari lokun í framkvæmd eftirá. Lokunarslár verða endurnýjaðar, þótt þær hafi
hingað til enst illa, og verða betur merktar svo minni hætta verði á ákeyrslum á þær."

Erfitt að komast út úr Grafarvoginum
Eftir að Ingibjörg Sólrún hafði flutt erindi sitt bárust fjölmargar fyrirspurnir frá fundargestum bæði
munnlegar og skriflegar. Samgöngumál hverfisins brunnu greinilega á íbúum hverfisins og var m.a.
spurt hvenær stæði til að tvöfalda Gullinbrú og hvort ekki stæði til að bæta hringtorgið við enda
Fjallkonuvegar sem væri allt of lítið til að taka við þeirri umferð sem þar færi um. Þá var mikið spurt
um lokun vegar í Langarima og vildu menn ýmist að honum yrði lokað tafarlaust eða að honum yrði
haldið opnum.

Friðrik Hansen Guðmundsson formaður íbúasamtaka Grafarvogs sagði að umferðarþungi í
Grafarvogi hefði verið sífellt vaxandi vandamál og að nú væri ástandið orðið óviðunandi. Hann sagði
að á hverjum morgni myndaðist mörg hundruð metra ef ekki kílómetra löng biðröð af bílum á leið út
úr hverfinu. Af þeim sökum væri óásættanlegt að bíða í fimm til sex ár eftir tengingu yfir í Kleppsvík
eins og borgarstjóri hafði áður minnst á. Hann taldi eina leiðina til þess að leysa þennan hnút vera
að flýta fyrrnefndum framkvæmdum með öllum tiltækum ráðum.

Þá benti hann á að ekki væri forsvaranlegt að fara út í fyrirhugaðar framkvæmdir á byggða- og
athafnasvæði á Geldinganesi án þess að koma samhliða á tengingu úr Grafarvoginum yfir í önnur
hverfi borgarinnar.

Ingibjörg sagði að tenging hverfisins yfir til Kleppsvíkur væri verkefni fjármagnað af ríkinu. Hún
viðurkenndi að það væri brýnt en of dýrt til þess að borgin gæti fjármagnað það með eigin fé. Þá
sagði hún að embættismönnum Borgarverkfræðings og Gatnamálastjóra væri ljóst að hringtorgið á
Fjallkonuvegi annaði ekki umferð á álagstíma og að lausnir þyrfti að finna á þeim vanda.

Varðandi lokun Langarima sagði hún að ýmsir hefðu keypt sér íbúð eða byggt sér hús á þessum
stað í þeirri trú að þar yrði vegurinn lokaður eins og skipulag gerði ráð fyrir. Hins vegar hefði þetta
valdið deilum þar sem dregist hefði að loka götunni.

Þá sagði Ingibjörg að gert væri ráð fyrir því í vegaáætlun að tvöföldun Gullinbrúar yrði eftir tvö ár.

Bæta aðkomu við skíðabrekkuna
Fjölmargar skriflegar spurningar komu einnig fram um önnur málefni. Til dæmis var spurt um það
hvort ekki mætti breyta skipulagi um Gufuneskirkjugarð og færa hann ofar, til dæmis nær Korpu,
þannig að hann taki ekki eins mikið pláss frá annars áhugaverðu byggingarlandi og taldi Ingibjörg
að það mætti taka til skoðunar.

Einnig var spurt hvort hægt væri að hafa 30 km hámarkshraða á fyrstu árum nýrra hverfa, því þar
væri yfirleitt mikið um lítil börn. Ingibjörg sagði þetta áhugaverða hugmynd, en það væri mat manna
hjá Borgarverkfræðingi og Borgarskipulagi að ekki þýddi að setja 30 km hámarkshraða í hverfi án
þess að samhliða sé gripið til annarra aðgerða eins og til dæmis þrenginga inn í hverfin og
upphækkun vega.

Þá kom ábending um að bæta aðkomu við skíðabrekkurnar í Grafarvogi og sagði Ingibjörg að verið
væri að skoða það mál á vegum ÍTR.

Ólöf Björnsdóttir íbúi í Fannafold lagði til að þeir göngustígar sem væru á milli hverfanna yrðu
hlykkjóttir þannig að börn sem þar færu um hjóluðu ekki beint út á umferðargötu eins og stundum
vildi verða. Ingibjörg tók vel í þessa ábendingu og vísaði henni til Borgarskipulags.

Fleiri tillögur komu frá íbúum Grafarvogs. Ein var á þann veg að láta strætisvagn ganga um hverfi
Grafarvogs og safna farþegum á sameiginlega safnstöð. Þaðan yrði svo hraðferð beint niður í
miðbæ Reykjavíkur. Þannig væri hægt að minnka bílanotkun og auðvelda fólki að komast fyrr úr
hverfinu.
Fjallað um Grettissögu á sagnaþingi á Sauðárkróki

Sauðárkróki-

Stofnun Sigurðar Nordals og heimamenn stóðu fyrir málþingi um sögu Grettis sterka
Ásmundarsonar í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki helgina 23. og 24. ágúst sl. Úlfar Bragason,
forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals, setti þingið og bauð gesti velkomna en síðan var gengið
til dagskrár.

Fyrirlesarar nálguðust Grettlu úr ýmsum áttum og skoðuðu þessa vinsælu sögu frá mörgum og
mismunandi sjónarhornum og höfðu flestir að yfirskrift meitlaðar setningar úr sögunni. Þannig
nefndi Örnólfur Thorsson erindi sitt: Enginn maður skapar sig sjálfur og fjallaði þar m.a. um þá
þætti sem mestu um það réðu að söguhetjan varð utangarðsmaður og lánleysingi sem ekki nýttist
atgervi og aðrir kostir til eðlilegs lífs.

Guðvarður Már Gunnlaugsson nefndi erindi sitt: Grettir vondum vættum, veitti hel og þreytti þar sem
hann gerði að umtalsefni hvers vegna saga útlagans hefði náð slíkum vinsældum sem raun hefur
orðið á. Kristján Eiríksson nefndi sinn fyrirlestur Kröpp eru kaup en Viðar Hreinsson nefndi sinn
þátt Vandræðaunglingar í sveit og ræddi þar um æsku og uppvaxtarár Grettis og bar saman við
nokkra aðra fyrirferðarmikla einstaklinga í sögunum sem líkt var ástatt um og Gretti.

Síðari dag ráðstefnunnar fjallaði Ögmundur Helgason um Gretti í þjóðsögum og sögnum og Helga
Kress nefndi erindi sitt Harður í haus. Grettir og gróteskan. Þá lásu Svanhildur Óskarsdóttir og
Gunnar Stefánsson ljóð um Gretti og tengd sögu hans á milli atriða.

Á eftir hverju erindi var opnuð mælendaskrá og tóku ráðstefnugestir þátt í umræðum og vörpuðu
fram fyrirspurnum til frummælenda. Meðal þeirra sem tóku til máls var Jón Eiríksson, sá af
heimamönnum sem einna best þekkir til sögu Grettis og útlegðardvalar hans í Drangey og var
spjall hans ekki síður fróðlegt og skemmtilegt en annarra, bæði frummælenda og þeirra sem til
máls tóku undir þeim lið.

Við lok fyrri ráðstefnudags var móttaka á vegum Sauðárkrókskaupstaðar en síðan var
sameiginlegur kvöldverður á Hótel Áningu. Eftir hádegi seinni dags ráðstefnunnar var fyrirhuguð ferð
til Drangeyjar en af henni gat ekki orðið þar sem ekki var fært til eyjarinnar vegna veðurs en hins
vegar var farin ferð á landi þar sem ekið var á milli sögustaða og gengið m.a. að Grettislaug á
Reykjanesi, komið við í gamla kirkjugarðinum í Fagranesi og skoðaður staðurinn þar sem talið er
að líkami Grettis hafi hlotið hinsta legstaðinn en þeir bræður Jón og Kristján Eiríkssynir hafa sett
þar upp merktan stein. Að lokum var síðan skoðaður hinn gamli þingstaður í Hegranesi en þar sést
vel til fornra mannvirkja og var ferðin farin undir fróðlegri og skemmtilegri leiðsögn þeirra Ögmundar
Helgasonar og Kristjáns Eiríkssonar.

Í viðtölum við ráðstefnugesti kom fram ánægja með ráðstefnuna og töldu allir slíka umfjöllun um
bókmenntaarfinn mjög gagnlega og ekki síður skemmtilega og mjög lofsvert framtak Stofnunar
Sigurðar Nordals að standa að og taka þátt í slíkum menningarviðburðum. Þátttakendur í
ráðstefnunni voru um 80 og ráðstefnustjóri var Úlfar Bragason.
Grænlensk ferðakynning og sýning í Perlunni

FLUGLEIÐIR innanlands, Grænlandsflug og Ferðamálaráð Grænlands ásamt samstarfsnefnd
Íslands og Grænlands í ferðamálum verða með kynningu á ferðamöguleikum á Grænlandi dagana
9.­11. maí í Perlunni. Alls munu 27 fyrirtæki, grænlensk og íslensk, kynna þjónustu sína í
ferðamálum, þar á meðal helstu ferðaskrifstofur og flugfélög.

Í tilefni af Grænlandskynningunni kemur hingað fjöldi erlends ferðaskrifstofufólks sem hefur sérhæft
sig í sölu á ferðum til Íslands og Grænlands.

Dagana 10. og 11. maí verður grænlensk framleiðsla af ýmsu tagi í sviðsljósinu, sýndur verður
selskinnsfatnaður og grænlenskur matvælaiðnaður kynntur. Grænlenskir skemmtikraftar munu
troða upp, óvenjuleg tískusýning verður haldin og sýningar á handunnum grænlenskum vörum.
Einnig verða fluttir fyrirlestrar og landkynningarmyndir sýndar af myndböndum. Sérstök athygli skal
vakin á fyrirlestri Kristjáns Friðrikssonar í fundarsal Perlunnar sunnudaginn 11. maí, en Kristján
hefur dvalið á Grænlandi meira og minna allt síðastliðið ár. Þá daga sem kynningin stendur verður
hægt að kaupa einstaklega spennandi Grænlandsferðir á ótrúlega lágu verði. Þann 11. maí kl. 15
fer fram verðlaunaafhending í ritgerðasamkeppni barna um Grænland sem efnt var til á síðasta ári.

Lars Emil Johansen, forsætisráðherra Grænlands, og Halldór Blöndal, samgönguráðherra Íslands,
opna ferðakynninguna sem verður opin almenningi laugardaginn 10. og sunnudaginn 11. maí frá kl.
10­18 og er aðgangur ókeypis.
Hagnaður af rekstri Samherja hf. var um 670 milljónir króna í fyrra

Söluverð nýs hlutafjár rúmur milljarður

Sölugengið í hlutafjárútboðinu sem hefst á föstudag er 9,0

HAGNAÐUR af rekstri Samherja hf. var 669 milljónir króna á liðnu ári, en þar er um að ræða
Samherja og dótturfélög án Hrannar hf. á Ísafirði en félögin tvö voru sameinuð í lok síðasta árs.
Þetta er betri afkoma en var árið á undan þegar hagnaður af rekstri fyrirtækisins var 558 milljónir
króna.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segist þakklátur fyrir fjárhagslega gott ár, enda hafi
menn lagt sig fram um að gera vel og þetta sé niðurstaðan. "Við höfum í gegnum árin reynt að
aðlaga okkar fiskveiðiflota þeim veiðiheimildum sem við höfum og þetta gekk upp."

Aðalfundur Samherja var haldinn í gær en þar var afkoman kynnt. Rekstrartekjur Samherja voru á
liðnu ári 5.136 milljónir króna og rekstrargjöld voru 4.027 milljónir króna, en þær tölur eru einnig
miðaðar við samstæðuna án Hrannar, en helstu kennitölur úr rekstrinum eru birtar í meðfylgjandi
töflu.

Aðspurður um framtíðina segir Þorsteinn Már að hún sé alltaf spurningamerki. "Það er þó ljóst að
við erum að hluta til að róa á ný mið, Samherji er að stækka og eigendahópurinn að breytast.
Verkefnið felst í því að við ráðum við að stjórna því fyrirtæki sem Samherji er orðið í dag. Reksturinn
fyrstu mánuði þessa árs hefur gengið vel og m.a. hafa loðnuveiðar og vinnsla, bæði frysting og
bræðsla gengið vel, þannig að árið fer vel af stað."

Hlutafé aukið um 115 milljónir króna
Einnig var væntanlegt hlutafjárútboð félagsins kynnt en stefnt er að því að auka hlutafé um 115
milljónir króna með sölu nýrra hluta. Þrír stærstu hluthafarnir í félaginu ákváðu að nýta forkaupsrétt
sinn að nafnvirði 70 milljónir króna í þeim tilgangi að framselja hann. Útboðið hefst á föstudag, 21.
mars og verða þá boðnar til sölu 45 milljónir króna á almennum markaði á genginu 9,0 sem er það
sama og til forkaupsréttarhafa. Landsbréf á Norðurlandi annast þetta fyrsta útboð á hlutafé í
Samherja og munu útboðsgögn liggja frammi hjá Landsbréfum og í útibúum Landsbanka Íslands á
föstudagsmorgun.

Þorsteinn Már sagðist hafa fundið fyrir miklum áhuga fyrir hlutafjárútboði fyrirtækisins. "Ég vona að
vel takist til og að þetta muni styrkja fyrirtækið og breikka hluthafahópinn."

Hámarkshlutur 100 þúsund að nafnverði
Fyrirkomulag útboðsins verður þannig að þeir sem óska eftir að kaupa hlutafé skrá sig fyrir hlut, en
hver og einn getur að hámarki skráð sig fyrir 100 þúsund króna hlut að nafnvirði, að sögn Sigurðar
Sigurgeirssonar, forstöðumanns Landsbréfa á Norðurlandi. Eftirspurn mun ráða hvað hver fær
mikið. Verði nægt hlutafé fá allir sem skrá sig hlutafé fyrir allt að 30 þúsund krónur að nafnvirði, en
verði eftirspurn meiri en framboð lækkar upphæðin sem hver og einn fær. Útboðið stendur frá
næsta föstudegi og fram til miðvikudagsins fyrir páska, 26. mars. "Viðbrögðin hafa verið mjög mikil.
Það hefur mikið verið hringt og spurst fyrir allt frá því að fyrst var farið að ræða þetta síðasta haust,"
sagði Sigurður.

Eftir fyrirhugaða sölu á nýju hlutafé og þegar lokið verður samrunaferli Hrannar hf. við félagið sem
og hlutabréfaskiptum við hluthafa Fiskimjöls og lýsis hf. þar sem Samherji eignast 98% hlut, verður
heildarhlutafé Samherja 1.374 milljónir króna.

Fjárfest í Bandaríkjunum
Áformað er að nýta nýtt hlutafé til lækkunar skulda sem og til nýrra fjárfestinga. Er fyrirhugað að
nýta 300 milljónir króna hins nýja hlutafjár til fjárfestinga innanlands og 300 milljónir til verkefna í
útlöndum.

Samherji hefur aukið umsvif sín umtalsvert í útlöndum og nú síðast var gengið frá kaupum á hlut í
tveimur útgerðarfyrirtækjum og einu vinnslufyrirtæki á austurströnd Bandaríkjanna. Þessi fyrirtæki
gera út fjögur skip sem einkum stunda veiðar á síld, makríl og smokkfiski. Tvö skipanna frysta
aflann um borð.

Framhaldsaðalfundur innan tveggja mánaða
Á fundinum var ákveðið að boða til framhaldsaðalfundar innan tveggja mánaða en þá verður
samrunaferli Hrannar og Samherja væntanlega lokið. Þorsteinn Már segir að tíminn fram að
framhaldsaðalfundinum verði notaður til að upplýsa hluthafa m.a. um kaupin í Bandaríkjunum og
hann vildi því ekki tjá sig frekar um það mál á þessari stundu.
Halastjarnan Hale- Bopp sést frá Íslandi

HALASTJARNAN Hale-Bopp sést núna vel frá Íslandi, en hún er nú í stjörnumerkinu Svani.
Snævarr Guðmundsson áhugamaður um stjörnufræði tók meðfylgjandi mynd nýlega og er hún
tekin á tíu mínútum í gegnum 12 tommu spegilsjónauka. Snævarr segir að hali stjörnunnar sjáist
greinilega undir myrkum himni, en verði enn skýrari með venjulegum handsjónauka. "Áhugasamir
geta hins vegar haft samband við stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness til að fá að sjá halastjörnuna
í öflugum stjörnusjónauka," segir hann.

Í grein Þorsteins Sæmundssonar stjörnufræðings í Almanaki Háskólans 1997, segir að kjarni
halastjörnu sé samsafn af ryki og ís og hefur honum verið líkt við óhreinan snjóbolta. Fyrir áhrif
ljóss og rafagna frá sólu dreifist efni úr kjarnanum og getur myndað hala sem er milljónir km á
lengd og stefnir í átt frá sólu.

Sú tilkomumesta á öldinni?
Þá segir að tveir bandarískir stjörnuáhugamenn, Thomas Bopp og Alan Hale, hafi fyrst komið auga
á halastjörnuna Hale-Bopp í júlí 1995. Strax hafi verið ljóst að halastjarnan bæri óvenju mikla birtu
og var því jafnvel spáð að hún kynni að verða sú tilkomumesta á þessari öld. Ekki vill þó Þorsteinn
fullyrða um það.

Að sögn Þorsteins sést þessi halastjarna nú frá norðurhveli jarðar og verða skilyrði til að sjá
stjörnuna frá Íslandi best í marsmánuði. Skömmu eftir myrkur að kvöldi mun hún sjást í norðvestri
og nokkru fyrir birtingu að morgni mun hún sjást í austri.
Handtökuskipun verði felld niður

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi bókun vegna beiðni bandarískra stjórnvalda um að
Donald Hanes og Connie Jean Hanes verði framseld til Bandaríkja Norður-Ameríku sem Hanes-
hjónin afhentu Rannsóknarlögreglu ríkisins í gær.

"Við undirrituð Donald Hanes, kt. 220550­2069, og Connie Jean Hanes, kt. 161145­2039, erum
reiðubúin til að fara sjálfviljug og á eigin kostnað frá Íslandi til Bandaríkja Norður-Ameríku og gefa
okkur þar fram við þann dómstól í fylkinu Arizona sem á að dæma í því máli sem er grundvöllur
framkominnar framsalsbeiðni bandarískra stjórnvalda.

Er þetta í samræmi við þá yfirlýsingu sem við gáfum íslenskum stjórnvöldum, dags. 7. 02. 97, en
íslensk stjórnvöld framlengdu fyrir tilstuðlan forsætisráðherra þau tímamörk sem tiltekin eru í
yfirlýsingunni til 1. apríl 1997.

Við teljum það hins vegar óviðunandi ef okkur er ekki gert kleift að gefa okkur beint og milliliðalaust
fram við ofangreindan dómstól í Arizona-fylki Bandaríkja Norður-Ameríku. Eins og staðan er í dag
liggur fyrir að við verðum handtekin strax við komu okkar til Bandaríkja Norður-Ameríku af
alríkisstjórn ríkisins. Yrðum við í framhaldi af því flutt sem fangar alríkisstjórnarinnar til Arizona í
fangaflutningakerfi sem er í senn mjög seinvirkt og óþægilegt. Gæti slíkur flutningur tekið langan
tíma með viðkomu okkar í fjölmörgum gæslustöðvum í fangaflutningakerfinu, sem starfar eftir
seinvirkri heildaráætlun, í mismunandi borgum og fylkjum Bandaríkja Norður-Ameríku. Slíkt
fyrirkomulag myndi auka verulega á óþægindi okkar af málinu og vera lítillækkandi fyrir okkur.
Teljum við að þetta myndi vera sérstaklega óviðunandi í ljósi þess að þetta er ónauðsynlegt, eins
og rakið verður hér á eftir.

Við vekjum í fyrsta lagi athygli á því að við höfum dvalið á Íslandi síðan 5. 02. 97 án þess að vera í
nokkurs konar farbanni eða gæslu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Allan þann tíma höfum við lýst
okkur reiðubúin til að fara sjálfviljug og á eigin kostnað frá Íslandi til Bandaríkja Norður-Ameríku eftir
að hafa fengið nægilegan tíma til að undirbúa brottför okkar héðan með tilliti til fjölskylduaðstæðna
og annarra aðstæðna okkar hérlendis. Við meðferð framsalsbeiðni Bandaríkja Norður-Ameríku er
ekki talin ástæða til að setja okkur í neins konar farbann eða gæslu.

Við vekjum í öðru lagi athygli á því að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar og lögmanns okkar í
Arizona- fylki Bandaríkja Norður-Ameríku til að fá stöðu okkar upplýsta frá ákæruvaldi fylkisins
Arizona og öðrum aðilum fengum við ekki að vita um tilvist framsalsbeiðninnar fyrr en eftir
óformlegum leiðum seint í mars 1997. Formlega var okkur tilkynnt um framsalsbeiðnina 24. 03. 97
þegar íslensk stjórnvöld tilkynntu íslenskum lögmanni okkar um hana. Gögn málsins, svo sem
ákæruna, sáum við fyrst 26. 03. 97 þrátt fyrir ítrekaðar óskir.

Við vekjum í þriðja lagi athygli á því að bandarískur lögmaður okkar hefur frá upphafi verið að vinna í
því að fá alríkishandtökuskipun á hendur okkur í Bandaríkjum Norður-Ameríku fellda niður þannig að
við gætum gefið okkur beint og milliliðalaust fram við þann dómstól í fylkinu Arizona sem á að
dæma í því máli sem er grundvöllur framkominnar framsalsbeiðni bandarískra stjórnvalda. Hefur
alríkisstjórnin fyrir sitt leyti lýst sig reiðubúna til þess að fella handtökuskipun niður enda er
fyrirsjáanlegt að við verðum ekki ákærð fyrir neinn refsiverðan verknað á grundvelli alríkislaga. Hefur
málið strandað á ákæruvaldinu í fylkinu Arizona sem virðist af einhverjum ástæðum telja það
heppilegra að við verðum flutt þangað sem fangar.

Við vekjum í fjórða lagi athygli á því að við erum reiðubúin til að samþykkja hvers konar eftirlit eða
fylgd í ferð okkar frá Íslandi til viðkomandi dómstóls í Arizona-fylki í Bandaríkjum Norður-Ameríku
að því tilskyldu að við verðum ekki handtekin áður en við gefum okkur þar fram og að farin verði
beinasta leiðin á sem skemmstum tíma.

Í ljósi þessa teljum við eðlilegt að orðið verði við þeirri kröfu okkar að alríkishandtökuskipun í
Bandaríkjum Norður-Ameríku verði felld niður og okkur gert kleift að gefa okkur beint og
milliliðalaust fram við viðkomandi dómstól í Arizona- fylki í Bandaríkjum Norður-Ameríku, eftir
atvikum í fylgd eða undir eftirliti.

Afriti af þessari bókun verður komið til sendiráðs Bandaríkja Norður-Ameríku á Íslandi í þeirri von að
það muni beita sér fyrir því að fundin verði viðunandi lausn á þessu máli í samræmi við framangreint
án þess að til framsalsmeðferðar þurfi að koma með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir alla
aðila.

Ennfremur óskum við eftir því við íslensk stjórnvöld að þau beiti sér fyrir því að slík lausn verði
fundin. Verður afrit af þessari bókun send til dómsmálaráðuneytisins á Íslandi.

Á meðan framangreind krafa okkar er til meðferðar og ekki hefur verið orðið við henni mótmælum
við framkominni beiðni Bandaríkja Norður-Ameríku um framsal á okkur og óskum eftir því að
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði um það hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi."
Heimsmyndin að loknu kalda stríðinu og samruni Evrópuríkja

Ótímabært að afskrifa þjóðríkið

Nokkrar stofnanir Háskóla Íslands efna í maí til námskeiðs þar sem dr. Jóhann Páll Árnason
prófessor mun fjalla um ólíka menningarheima og nútímann og reifa kenningar um þau efni


FRÆÐIMENN um allan heim hafa mikið velt fyrir sér heimsmyndinni sem blasir við eftir hrun
kommúnismans og endalok kalda stríðsins. Dagana 5.­9. maí gangast nokkrar stofnanir Háskóla
Íslands fyrir námskeiði sem ætlað er fræðimönnum og áhugamönnum á sviði félagsvísinda og fleiri
greina og verður yfirskriftin Menningarheimar og nútími.

Fjallað verður um kenningar Bandaríkjamannsins Samuels Huntingtons sem spáir því m.a. að
árekstrar menningarheima taki við af togstreitu kalda stríðsins, einnig svonefnda
samanburðargreiningu á siðmenningu, einkum í ljósi kenninga þýska fræðimannsins Max Webers
og annarra hugsuða sem fylgt hafa í kjölfar hans. Kennari á námskeiðinu verður dr. Jóhann Páll
Árnason sem verið hefur prófessor í félagsfræði við La Trobe-háskólann í Melbourne undanfarna tvo
áratugi og er meðal þekktustu fræðimanna í heiminum á sínu sviði.

"Huntington hefur sætt töluverðri gagnrýni," segir Jóhann, "en ég held að hann hafi beint athyglinni
að vandamálum sem maður verður að taka alvarlega þótt hans eigin greining á þeim sé nokkuð
einföld, einkum skortir félagsfræðilegan bakgrunn í riti hans. Mig langar til að bera hans greiningu á
samtímanum saman við nýleg verk félagsfræðinga sem líta allt öðrum augum á hlutina."

­Weber segir að stöðugt verði einhvers konar átök í heiminum. Geturðu lýst þessu nánar?

"Það sem mér fannst athyglisverðast hjá Weber er áhersla hans á fjölbreytileikann, áframhaldandi
spennu og átök milli þess sem hann kallar weltordnungen, mismunandi menningarheilda innan
sömu þjóðfélaga og sömu menningarheima. Hann á við að efnahagskerfið, stjórnmálakerfið,
listaheimurinn og vísindin takist á. Þessar heildir eiga sér síðan ólík lögmál, þróast hvert með
sínum hætti og hafa tilhneigingu til að samsama sig heildinni, reyna að leggja allt sviðið undir sig,
verða allsráðandi.

Mest hefur borið á þessu í efnahagsmálunum en öðru hverju hafa menn vaknað upp við vondan
draum og áttað sig á því að stjórnmál eru til líka og þar gilda lögmál sem falla ekki í sama farveg og
efnahagskerfið.

Gömlu guðirnir rísa upp
Sama er að segja um þróun nútíma vísinda og tækni, Weber segir að þar rísi gömlu guðirnir upp
aftur. Nútímamenningin hefur á vissan hátt horfið á ný til fjölgyðishyggju en guðirnir eru orðnir
ópersónulegir. Það má vel hugsa sér að fást við árekstra milli þjóðríkja og menningarheima í
framhaldi af þessum kenningum Webers."

­Hvað viltu segja um þjóðríkishugmyndina, á Ísland sér vænlega framtíð sem þjóðríki? "A.m.k. framtíð, hvort hún er vænleg er undir mörgu komið sem erfitt er að sjá fyrir. Ég held að það
sé ótímabært að tala um endanlegan ósigur þjóðríkisins. Það hefur auðvitað margt gerst sem hefur
skert vald þess á ýmsum sviðum, einkum í efnahagslífinu, möguleikar þjóðríkisins á að marka sína
eigin stefnu í þeim efnum fara dvínandi, því er ekki að neita. Það nær þó ekki í sama mæli til allra
þjóðríkja, fer talsvert eftir stærð þeirra og stöðu.

Í Evrópu hefur efnahagslegur samruni gengið miklu hraðar fyrir sig en stjórnmálalegur. Ég get ekki
hugsað mér að sú þróun sem við erum nú vitni að leiði til þess að Evrópuríkin sameinist í einhverri
pólitískri heild sem kæmi endanlega í staðinn fyrir þjóðríkin á svæðinu. Við verðum um
fyrirsjáanlega framtíð að reikna með spennu milli samrunaþróunar á efnahagssviðinu og
áframhaldandi sundurleitni í stjórnmálunum. Það sannaðist í málum Júgóslavíu að Evrópuríkin eru
ekki fær um að fylgja sameiginlegri utanríkisstefnu."

­Verða áfram hnattræn átök eins og í kalda stríðinu og hvað mun þá valda þeim, hverjir munu slást?

"Ég held ekki að við getum gert ráð fyrir því að heilir menningarheimar fari að slást sem slíkir. Það
er samt erfitt að svara þessari spurningu með ótvíræðum hætti. Við lifum á umskiptatímabili núna
og það er auðvelt að benda á eitthvað sem gæti leitt til mikilla átaka, viðskiptastríða og baráttu um
markaði. Inn í þetta kemur líka gamaldags valdabarátta um svæði, samkeppni um pólitísk og
hernaðarleg áhrifasvæði.

Það má að vísu gera ráð fyrir því að hnattræn þróun í viðskiptum og markaðsleit setji nokkur
takmörk við því hvað hægt sé að ganga langt í átökum en jafnframt verða menn að vara sig á því að
leggja of mikið upp úr því. Alþjóðleg viðskipti jukust einnig mjög síðustu áratugina fyrir fyrri
heimsstyrjöld og þeir voru ófáir sem héldu að styrjöld af þeirri tegund væri orðin óhugsandi af
efnahagslegum ástæðum. Það gerðist nú samt. Þá komu til þættir sem menn höfðu tilhneigingu til
að gleyma, þeir héldu að efnahagslegir þættir réðu öllu."

Ísland og Singapore
­Á smáþjóð eins og við að leita sér að fyrirmynd t.d. meðal Asíuþjóða þar sem uppgangurinn er svo
mikill?


"Það held ég varla, ég á erfitt með að hugsa mér Ísland sem Singapore norðursins. Ef það er til
eitthvert módel sem við ættum að halla okkur að hygg ég að það sé réttara að íhuga hvað sé enn
eftir af því skandínavíska, hvað sé hægt að gera við það. Það er verið að taka það til uppskurðar,
það er rétt en það merkir ekki að rétt sé að afskrifa það með öllu.

Það er rétt að í sumum Asíulöndum hafa menn gagnrýnt þjóðir Vesturlanda fyrir taumlaust
einstaklingsfrelsi, þeir hafa sagt að um hnignunareinkenni sé að ræða. Síðasta áratuginn hafa
margir á Vesturlöndum rætt um nýjar leiðir, nýja samfélagshyggju, þar sem reynt verði að finna
mótvægi við einhliða einstaklingshyggju nýfrjálshyggjunnar. Leitað verði að félagslegum gildum og
lausnum á vandamálum, lausnum sem ekki hefðu á sér illt orð vegna tengsla við alræðisstefnu.

Óánægja og leit að einhverju nýju kemur því að innan líka og ég held að fáir stuðningsmenn
þessarar nýju samfélagshyggju séu ginkeyptir fyrir því að fara í skóla í þessum efnum til Singapore
eða annarra landa í Suðaustur-Asíu. Það er eftirtektarvert að Singapore og Malasía, sem helst hafa
gagnrýnt Vesturlönd, eru ríki sem eru í hæsta máta afsprengi evrópskrar nýlendustefnu og eiga sér
ekki djúpar rætur í samfélagi Asíuríkja."
Hermaður dæmdur fyrir árás á konu

BANDARÍSKUR hermaður á fertugsaldri var dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar í bandarísku
herfangelsi á mánudag fyrir herdómstóli, fyrir afbrot sem hann framdi meðal annars hér á landi.

Hann var einnig lækkaður í tign, úr stöðu liðþjálfa niður í stöðu óbreytts, auk þess sem hann verður
rekinn úr herþjónustu með skömm þegar fangelsisvist hans lýkur.

Lögmaður sá sem sat í forsæti dómsins kom hingað til lands frá Bandaríkjunum en aðrir dómarar
voru tilnefndir úr röðum varnarliðsins.

Þvinguð til meinsæris
Maðurinn var fundinn sekur um að hafa þvingað íslenska konu sem kærði hann fyrir líkamsárás, til
að fremja meinsæri þegar réttað var yfir honum fyrir um ári. Þá breytti hún framburði sínum að hans
undirlagi, með þeim afleiðingum að hann var ekki sakfelldur.

Hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa hundsað skipanir yfirmanns síns um að halda sig frá
umræddri konu, að hóta henni þrívegis og ráðast á hana með líkamsmeiðingum tvívegis. Hann var
hins vegar sýknaður af fjórum öðrum kærum um árás á hendur konunni.

Maðurinn var í tygjum við íslensku konuna, sem er á þrítugsaldri, en þegar brestir komu í það
samband beitti hann hana fyrrgreindum hótunum og ofbeldi.

Dæmdur fyrir framhjáhald
Hermaðurinn var kvæntur og hlaut einnig dóm í fyrradag fyrir að hafa haldið fram hjá konu sinni.
Samkvæmt bandarískum herreglum er framhjáhald refsivert, á þeim forsendum að geti hermaður
ekki verið trúr maka sínum sé óvíst að hann geti verið trúr yfirboðurum sínum og landi.

Maðurinn var dreginn fyrir bandarískan herdómstóll samkvæmt ósk bandarískra yfirvalda, sem
óskuðu eftir lögsögu yfir honum þegar kærur konunnar komu fram í dagsljósið. Reikna má með að
dómurinn sem hann hlaut í fyrradag sé mun þyngri en hefði verið réttað yfir honum hjá íslenskum
dómstól.
Utanríkisráðherra á alþjóðlegri ráðstefnu um hvalveiðar í Reykjavík

Alþjóða hvalveiðiráðið týndi uppruna sínum

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði við setningu alþjóðlegrar ráðstefnu um hagræn og
pólitísk sjónarmið varðandi hvalveiðar í Norður-Atlantshafi, sem haldinn var í Reykjavík í gær, að
stofnun, sem hefði týnt uppruna sínum, væri í reynd dauðadæmd. Átti hann þar við Alþjóða
hvalveiðiráðið, sem Íslendingar eru ekki lengur aðilar að. Með allri virðingu fyrir ráðinu, hefði Ísland
engin áform uppi um að gerast aðili að því á ný þar sem að ráðinu hefði mistekist að fylgja eftir
eigin sáttmála.

Utanríkisráðherra vitnaði í Ríó- ráðstefnuna, sem stutt hafi eindregið rétt þjóða til nýtingar á eigin
auðlindum í samræmi við þeirra eigin umhverfis-og vaxtarmöguleika. Þar áður hefðu Sameinuðu
þjóðirnar með Hafréttarsáttmálanum viðurkennt yfirráð þjóða yfir slíkri nýtingu innan 200 mílna
landhelgi. Að sama skapi hefðu Sameinuðu þjóðirnar viðurkennt sjávarspendýr sem auðlind og lýst
því yfir að þjóðir heims skyldu vinna saman að verndun hvalategunda í gegnum viðeigandi
alþjóðlegar stofnanir. Íslendingar hafi fyllilega tekist á við sínar skuldbindingar hvað þetta snerti og
myndu halda áfram á þeirri braut.

Ráðherrann sagði að mikið verk væri óunnið í því að uppfræða þá, sem væru beggja blands í
afstöðu sinni til hvalveiða og átti hann þar við þann hóp manna, sem væri í reynd með hvalveiðum
en kallaði á frekari vísindaleg rök fyrir þeim.

Halldór sagði að uppi væru háværar raddir um verndun allra hvalategunda þótt alþjóðleg lög og
vísindi sem og nútíma viðhorf í garð sjálfbærrar þróunar séu ótvírætt hlynnt skynsamlegri nýtingu
auðlindanna.

Að skipa öllum tegundum í sama líffræðilega flokk hvað varðar nýtanleika er eitthvað sem þjóðir í
norðri, sem eiga allt sitt undir fiskveiðum, sætti sig ekki við. Engum myndi t.d. koma til hugar að
setja á bann við fiskveiðum á heimsvísu þótt þorskstofninn á afmörkuðum svæðum væri í hættu.
Nákvæmlega það sama gilti um sjávarspendýr. Engin röksemd væri fyrir því að banna hvalveiðar
alfarið þótt tilteknir hvalastofnar séu í hættu.

Fimm milljarða tekjur
Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, ræddi á ráðstefnunni möguleg áhrif hvalveiða á
íslenskan útflutning. Í máli hans kom m.a. fram að í besta falli gætu tekjur þjóðarbúsins af
hvalveiðum numið allt að fimm milljörðum króna. Meginhluti þeirra tekna stafaði einkum af auknum
þorskveiðum en beinar útflutningstekjur hvalaafurða gætu numið allt að 1,5 milljörðum, sé tekið mið
af veiðireynslu áranna 1980 til 1985.

Þórður tók skýrt fram að þessar tölur mætti ekki taka bókstaflega. Veruleg áhætta væri í því fólgin
að taka upp hvalveiðar að nýju þar sem nokkrar af stærstu viðskiptaþjóðum Íslendinga væru
andsnúnar veiðunum. Það gæti því haft veruleg áhrif á helstu atvinnugreinar þjóðarinnar,
sjávarútveginn og ferðamannaiðnaðinn.
Ferðaþjónusta á Vestfjörðum

Ísafjörður sem ráðstefnubær

Ísafirði-Hótel Ísafjörður og Vesturferðir á Ísafirði kynntu nýlega átak sem er að hefjast og miðar að
því að efla Ísafjörð sem funda- og ráðstefnubæ. Til kynningarinnar var boðið stjórnendum fyrirtækja,
stofnana og félagasamtaka í þeim tilgangi að vekja athygli á þeirri aðstöðu sem til staðar er á
Ísafirði fyrir funda- og ráðstefnuhald.

Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur hjá Vesturferðum er markmið átaksins að fjölga fundum og
ráðstefnum sem haldnar eru á Ísafirði. "Öflug ferðaþjónusta eykur fjölbreytni í atvinnulífinu og tekjur
af atvinnugreininni eru veruleg lyftistöng fyrir þjónustufyrirtæki á svæðinu og þar sem ráðstefnur og
fundir eru oftast haldin utan háannatíma þá liggur í hlutarins eðli að ef tækist að fjölga ráðstefnum
og fundum hérna myndi það lengja ferðamannatímabilið og auk þess bæta ímynd svæðisins út á
við."

Sigríður segir að funda- og ráðstefnuaðstaða sé að mörgu leyti mjög góð á Ísafirði, t.d. á Hótel
Ísafirði þar sem starfi hópur sérmenntaðs fólks sem leggi sig fram um að veita faglega þjónustu.
Hún segir jafnframt að í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði sé góð aðstaða fyrir stærri fundi sem og í
Framhaldsskóla Vestfjarða. Íþróttahúsið að Torfnesi er enn einn möguleikinn en það hentar vel fyrir
vörusýningar og mjög stóra fundi og ráðstefnur.

Vesturferðir hafa síðan 1993 annast skipulagningu og sölu skoðunarferða og þar á meðal
skoðunarferðir í tengslum við fundi og ráðstefnur. Auk skoðunarferða hafa Vesturferðir annast
skipulagningu og undirbúning fyrir fundi og séð um ýmsa þjónustu við fundargesti meðan á fundum
stendur. Sigríður segir að í upphafi sé ætlunin að kynna átakið fyrir heimamönnum því að í raun
séu þeir bestu sölumennirnir og gestgjafarnir. Fljótlega verður síðan hafist handa við kynningu
Ísafjarðar sem ráðstefnustaðar á landsvísu.
Endurbyggingarnefnd Iðnó vill fjarlægja glerskálann

Kostnaður við fullnaðarfrágang 66,5 milljónir

BORGARRÁÐ hefur samþykkt að vísa erindi endurbyggingarnefndar Iðnó, sem lagt hefur verið fram
í borgarráði, til borgarstjórnar. Þar kemur fram að samkvæmt kostnaðaráætlun byggingardeildar er
kostnaður við fullnaðarfrágang hússins 130 milljónir króna en í nýrri áætlun sem byggð er á
nýtingartillögum Páls V. Bjarnasonar arkitekts, er kostnaður áætlaður 66,5 milljónir króna. Meðal
þess sem nefndin leggur til er að glerskálinn verði tekinn niður. Í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir
árið 1997 er gert ráð fyrir 30 milljóna króna fjárveitingu til verksins.

Í greinargerð Hjörleifs Kvaran borgarlögmanns sem lögð var fram í borgarráði segir að
endurbyggingarnefnd telji brýnt að nýta fjárveitinguna sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun til að
koma húsinu í nýtanlegt ástand á þessu ári, á 100 ára afmæli hússins. Nefndin samþykkti að
fjarlægja glerhúsið en nýta sökkulinn við suðurhlið hússins og koma þar fyrir verönd í staðinn.
Aðalinngangurinn verður um vesturenda hússins en ekki norðurhlið eða frá Vonarstræti eins og
ráðgert var og hætt er við að endurnýja gólfið í salnum en þess í stað verður gamla parketið slípað
upp og lakkað.

Enginn lyftubúnaður
Að sögn Þórarins Magnússonar formanns nefndarinnar, hefur verið ákveðið að halda stiganum milli
hæða innanhúss óbreyttum og falla frá lyftum sem ráðgert var að koma fyrir í sal og á sviði. Er
þetta gert í sparnaðarskyni. Að sögn Þórarins miða allar breytingar við að koma húsinu í sem
upprunalegast form. Verið væri að endurskoða kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna en miðað
við fyrri hugmyndir væri gert ráð fyrir 130 millj. til að ljúka verkinu.

Sagði hann að þær breytingar, sem ráðgerðar væru kæmu til með að spara verulegar fjárhæðir.
"Þótt það kosti mikið að fjarlægja glerbygginguna kemur sparnaður á móti," sagði hann. "Eins og
til dæmis allar lagnir og annar búnaður sem áætlað var að setja þar upp." Í nýrri kostnaðaráætlun
Páls V. Bjarnasonar arkitekts sem lögð hefur verið fram í borgarráði er gert ráð fyrir 66,5 milljónum
til að ljúka verkinu, þar af er kostnaður vegna vatnsúðakerfis áætlaður um 2,2 milljónir.

Fyrri hönnun nýtist
Á grundvelli breytinganna hefur Páll verið ráðinn hönnuður að húsinu og sagði Þórarinn að það hafi
verið gert í fullu samráði við Ingimund Sveinsson arkitekt sem taldi eðlilegt að annar aðili tæki við
en Ingimundur hefur séð um hönnunina til þessa. "Margt af því, sem hann var búinn að hanna nýtist
áfram," sagði Þórarinn. "Það er ekki verið að varpa því fyrir róða. Hann er búinn að vinna mjög gott
verk í þessari hönnun og í raun er verið að ræða um að annar aðili sjái um að halda utan um þær
breytingar, sem nú eru gerðar og útfærslu á þeim, en stór hluti sem búið var að hanna eins og til
dæmis útlit hússins verður nýttur áfram. Það er búið að greiða fyrir þessa hönnun og þess vegna
viljum við nýta hana eins og hægt er."
Áformað er að leggja Miklubraut að hluta í jarðgöngum

Kostnaður við jarðgöng 7­800 milljónir króna
NÁNARI útfærsla á lagningu hluta Miklubrautar í jarðgöngum var kynnt borgarráði í gær. Formaður
umferðar- og skipulagsnefndar Reykjavíkur segir að göngin myndu breyta miklu til batnaðar fyrir
íbúa í Hlíðahverfi.

Samkvæmt nýju aðalskipulagi borgarinnar, sem nú er verið að kynna, er gert ráð fyrir að leggja
Miklubraut í göngum frá Reykjahlíð að Hringbraut.

Nánari útfærsla á þessari tillögu var kynnt í umferðar- og skipulagsnefnd Reykjavíkur á mánudag og
samkvæmt upplýsingum Guðrúnar Ágústsdóttur, formanns nefndarinnar, myndu göngin kosta
7­800 milljónir króna.

Gjörbreytir tengslum við Miklatún
"Þessi göng myndu gjörbreyta tengslum Hlíðahverfisbúa við Miklatúnið og bæta mjög úr loft- og
hljóðmengunarvandamálum þeirra sem mest hafa kvartað yfir þeim," sagði Guðrún.

Samkvæmt tillögunni byrjar Miklabraut að hallast niður á við þegar við Lönguhlíð til að draga úr
umferðarhávaða, eins og sést á efri myndinni.

Jarðgöngin hefjast síðan á móts við Reykjahlíð og enda skömmu áður en kemur að núverandi
gatnamótum Miklubrautar, Bústaðavegar og Snorrabrautar. Ofanjarðar verða húsagötur fyrir íbúa
Miklubrautar.

Vestast á Miklubraut verða tveir gangamunnar, eins og sést á neðri myndinni og er áætlað að
Miklabraut sveigi til suðurs undir Bústaðaveginn.

Fljótlegt því lítið þarf að sprengja
Guðrún Ágústsdóttir sagði að þessi framkvæmd þyrfti ekki að taka langan tíma því þegar
Miklabraut hefði verið lögð á sínum tíma hefði þurft að grafa djúpt niður á fast og því væri
fyrirsjáanlegt að lítið þyrfti að sprengja fyrir göngum.
Verðlaun Alþjóða jöklafræðifélagsins

Framúrskarandi framlag Íslendings til jöklarannsókna

SIGFÚS Jóhann Johnsen hlýtur í sumar Seligman kristalinn sem Alþjóðlega jöklafræðifélagið veitir.
Hér er um að ræða viðurkenningu fyrir framúrskarandi og áhrifaríkt framlag til vísindalegra
jöklarannsókna. Fáir Norðurlandabúar hafa hlotið viðurkenninguna og enginn Íslendingur áður.
Sigfús var valinn vegna víðtækrar þekkingar jafnt á fræða- og tilraunasviði og 25 ára starfs við
rannsakir á fornveðurfari og hlý- og jöklulskeiðum jarðsögunnar. Hann hefur hannað ísborana,
stjórnað borun og túlkað niðurstöður í smáatriðum.

Sigfús starfar aðallega með Dönum en hefur einnig unnið með nokkrum Íslendingum að
jöklarannsóknum á Grænlandi eins og konu sinni Pálínu M. Kristinsdóttur í kjarnagæslu, Árnýju E.
Sveinbjörnsdóttur jarðfræðingi, Þorsteini Þorsteinssyni jöklafræðingi og smiðunum Hafliða Bárði
Harðarsyni og Sverri Hilmarssyni.

-Hvað þýða þessi verðlaun?

"Þau hafa margvíslega þýðingu eins og að vera viðurkenning á ískjarnarannsóknum, opna
möguleika fyrir Íslendinga til að taka virkari þátt í rannsóknum, og e.t.v. verður auðveldara að afla
fjár til rannsókna.

Þau þýða líka að rannsóknir okkar og Dana eru góðar á þessu sviði og að þær skipta máli, en
Íslendingar leggja til nákvæmustu mælingarnar á samsætum í kjarna með massagreininum sínum,
sem er dýrasta rannsóknartæki landsins. Ég tek í raun einnig við verðlaununum fyrir hönd hópsins
sem hefur verið við boranir á Grænlandsjökli. Hins vegar er óvíst hvenær ég get tekið við þeim því
ég verð á Grænlandsjökli næsta sumar eins og síðastliðin 25 sumur.

-Hvenær og hvernig hófst starfsferill þinn?
"Eftir námið í Kaupmannahöfn 1966 starfaði ég með Willi Dansgaard við rannsóknir á sýnum úr
Grænlandsjökli sem Bandaríkjamenn höfðu borað, en þangað kom ég fyrst árið 1969. Ef ég legg
sumrin mín á jöklinum saman verða það 4-5 ár.

Fyrsta verkefnið mitt þar hét GISP sem Bandaríkjamenn, Svisslendingar og Danir voru með upp úr
1970 og fólst í því að bora 400 metra ískjarnaholu á Grænlandsjökli. Rannsóknin varð mér svo
hvatning til að hanna nýjan bor og var hann notaður við radarstöð Bandaríkjamanna sem nefnist
Dye 3 á Suður-Grænlandi árið 1979-1981, og var komist að merkilegum niðurstöðum um veðurfar í
kjölfarið. "

-Alþjóðlega jöklafræðafélagið nefnir GRIP verkefnið í valinu á þér, hvað er það?

"Það er nafn á verkefni sem hófst árið 1989 og fólst í borun á Summit eða hábungu jökulsins, sem
er heppilegur borstaður, því engin lárétt hreyfing er á ísnum og þar er engin sumarbráð sem skolar
upplýsingunum í burtu.

Borunin stóð í þrjú ár, en á sama tíma boruðu Bandaríkjamenn á öðrum stað í jöklinum og tók það
fjögur ár. Niðurstöðum bar ekki saman um síðasta hlýskeið og er því grundvallarspurningu um hvort
það hafi verið stöðugt eða óstöðugt ekki enn nægilega svarað.

Samkvæmt okkar niðurstöðum féll hiti um 4 til 5 gráður milli tímabila á hlýskeiðinu. Ef svo er raunin
getur það átt sér stað aftur og gjörbreytt lífsskilyrðum til dæmis á Íslandi á stuttum tíma. Einnar
gráðu fall breytir öllu hér.

Um þessar mundir erum við að vinna að verkefninu Norður-GRIP og verður borað 3 km undir
yfirborð, en Danir borga 60% af kostnaðinum. Ég er líka að endurhanna bor fyrir EPICA, sem er
Evrópskt verkefni sem Danir taka þátt í. Með þessum rannsóknum verður hægt að skoða
umhverfissöguna í smáatriðum 200-300 þúsund ár aftur í tímann."

-Getur þú nefnt dæmi um áhrif nútímamannsins á náttúrna?

"Við erum eins og börn í sandkassa gagnvart náttúrunni, en leikum hættulegan leik. Náttúran
kemur okkur alltaf á óvart, enda hvílir hún á flóknum kerfum; hafstraumum, loftstraumum, veðurfari
og gróðri. En þetta er allt ein heild og gagnvart óvæntum breytingum getur maðurinn lítið gert.
Hvaða áhrif mun til dæmis koltvísýringsmengun mannsins hafa? Getur hún haft áhrif á
Golfstrauminn?

Golfstraumurinn berst í rauninni um völdin við Austur-Grænlandsstrauminn. Á síðasta jökulskeiði
laut hann í lægra haldi og fór til Portúgal. Golfstraumurinn er í raun okkar lífæð og ef hann bregst er
allt búið hér."

-Hvað er það sem dregur þig árlega á Grænlandsjökul?

"Fegurð himinsins. Það er alltaf dagur og samspil sólar og náttúru er ólýsanlegt en geislarnir leika í
ískristöllum og þoku. Stundum eru fjórar sólir á lofti, Úlfur og Ýgur í vestur og austur og tvær aðrar í
norður og suður. Einnig er þetta svo skemmtileg hópvinna sem er á mörkum þess mögulega."

Sigfús J. Johnsen er fæddur í Ögri í Ísafjarðarsýslu árið 1940. Hann varð stúdent frá
Menntaskólanum á Akureyri árið 1959 og útskrifaðist sem eðlisfræðingur frá
Kaupmannahafnarháskóla árið 1966. Hann er prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og
lektor við Kaupmannahafnarháskóla. Eiginkona hans er Pálína M. Kristinsdóttir og eiga þau þrjú
börn.
Samband móður og barns metið

Íslenskar mæður kaldlyndari en bandarískar

VALGERÐUR Ólafsdóttir flytur fyrirlestur í kvöld á vegum Félags íslenskra háskólakvenna og
Kvenstúdentafélags Íslands. Fundur þeirra hefst klukkan 18 í Þingholti á Hótel Holti. Valgerður er
félagssálfræðingur og mun fjalla um samband móður og barns á Íslandi í samanburði við þetta
samband í Bandaríkjunum og Japan.

- Á hvaða rannsóknum byggist lesturinn?

"Annarsvegar rannsókn á sambandi íslenskra mæðra og tveggja ára gamalla barna þeirra.
Konurnar voru valdar af handahófi og sambandið greint með aðstoð myndbands. Ég hafði tvo
samanburðarhópa, annan með bandarískum mæðrum og börnum og hinn með japönskum. M.A.-
verkefnið mitt byggist á þessari rannsókn.

Hinsvegar reisi ég niðurstöður mínar á rannsókn sem hófst 1992 og stendur enn. Hún felst í
viðtölum við íslenskar mæður um samband sitt við mæður sínar. Hér er því um að ræða tvær ólíkar
rannsóknaraðferðir en á hinn bóginn benda rannsóknarniðurstöðurnar í sömu átt."

-Hverjar eru svo niðurstöðurnar?

"Það má merkja greinilega fjarlægð í sambandi íslenskra mæðra gagnvart börnum sínum,
samkvæmt niðurstöðum mínum. Það er eins og móðirin og barnið lifi í tveimur ólíkum heimum og
að færri snertifletir séu á milli þeirra en bandarískra og japanskra mæðra og barna."

-Hvað áttu við?

"Íslenskar mæður veigra sér við að tjá börnum sínum tilfinningar sínar og ást, samkvæmt
rannsóknunum, og börnin eru full efa og spurninga um samband sitt við þær. Það er eins og þau
skilji ekki sambandið, sem virðist einkennast af misskildum skilaboðum. Börnin eru óvissari um
sambandið en japönsku og bandarísku börnin í samanburðarhópunum.

Báðar rannsóknirnar sem ég gerði benda til að samband íslenskra mæðra og barna einkennist
meira af skilningsleysi og ráðaleysi en sama samband meðal hinna þjóðanna, þar sem sambandið
er innilegra og áberandi hlýrra, sérstaklega það japanska.

Íslenskar mæður eru tregar til að sýna hlýju, þær eru stjórnsamari en kynsystur þeirra í
samanburðarhópunum og börnin eru hlýðnari en a.m.k. japönsku börnin.

Íslensku mæðurnar sem ég tók viðtal við um mæður sínar lýsa margar hverjar vonbrigðum yfir
sambandi sínu við foreldra sína og segja að það hafi skort traust. En þegar þær ræða um samband
sitt við foreldra sína minna þær mjög á börnin á myndböndunum."

-Hver er ástæðan fyrir því að íslenskar konur eru kaldlyndari mæður en þær í
samanburðarhópunum?

"Ég leita skýringa í sögu þjóðarinnar, þegar foreldrar hikuðu vegna landlægs barnadauða við að
bindast börnum sínum of sterkum tilfinningaböndum. Þeir þurftu að sýna æðruleysi gagnvart
dauðanum vegna harðæris í landinu og slæms aðbúnaðar. Íslenskar mæður finna því ekki í sögunni
hina alltumlykjandi og hlýju móður. Fordæmið og ímyndina vantar."

-Eru þá kaldlyndar mæður íslenskur veruleiki?

"Já, samkvæmt minni rannsókn, en ég tel tíma til kominn að móðurhlutverkið verði endurskoðað því
það ætti að endurspegla íslenskt samfélag. Við erum föst í gamla veruleikanum um harðbýla
landið. Okkur er kannski orðið óhætt að opna okkur og hætta á að tjá ást okkar opinskátt. Við
erum ekki lengur að ala upp einstaklinga sem þurfa að lifa af í harðbýlu landi. Aðstæðurnar eru
breyttar og það má breyta móðurhlutverkinu og hafa um leið áhrif á allt samfélagið."

-Hvernig á að breyta því?

"Hlutverk mitt er ekki að finna lausnir, heldur að benda á með gag**
það er byrjunin á því verkefni að breyta móðurhlutverkinu til samræmis við nútíðina.

En rannsóknirnar koma hinsvegar heim og saman við rannsókn Baldurs Kristjánssonar.
Niðurstöður hans sýndu að slysatíðni meðal barna er mun hærri hér á landi en í
nágrannalöndunum, og að þau njóta minni leiðsagnar en almennt gerist í hinum vestræna heimi.

Það bendir til að ennþá eimi eftir af einhverri hættu, aftan úr grárri forneskju, í sambandi íslenskrar
móður og barns."

VALGERÐUR Ólafsdóttir er fædd árið 1951 í Reykjavík. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í
Reykjavík árið 1971 og meinatæknir frá Tækniskóla Íslands árið 1974. Eftir rannsóknarstörf á
Íslandi og í Bandaríkjunum stundaði hún nám í sálfræði við University of Chicago og lauk prófum
með M.A.-gráðu árið 1991. Rannsóknarverkefni hennar var um samband móður og barns á Íslandi.
Hún starfaði í þroskasálfræðideild háskólans í Chicago þangað til hún fluttist til Boston þar sem
hún lagði stund á nám í Client Centered Therapy og Focusing Therapy. Hún flutti heim aftur
síðastliðið haust. Eiginmaður Valgerðar er Kári Stefánsson og eiga þau þrjú börn.
Karlanefnd Jafnréttisráðs

Breyttar reglur um fæðingarorlof verði forgangsmál

KARLANEFND Jafnréttisráðs beinir þeim eindregnu tilmælum til aðila beggja vegna
samningaborðsins í yfirstandandi kjarasamningum að þeir hafi breyttar reglur um fæðingarorlof
meðal forgangsmála við gerð kjarasamninga. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi
Karlanefndar Jafnréttisráðs 19. febrúar síðastliðinn.

Í ályktuninni kemur fram að Karlanefnd vilji lengja fæðingarorlof í 12 mánuði og binda fjóra mánuði
við móður og fjóra mánuði við föður, en fjórum geti foreldrar skipt eins og þeim best hentar. Þá vill
nefndin auka sveigjanleika í töku fæðingarorlofs þannig að mánuðunum 12 megi dreifa á tvö ár, að
hvort foreldri hafi sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs og bóta, að feður fái tveggja vikna leyfi á
launum við fæðingu barns og að bætur í fæðingarorlofi séu tekjutengdar.

Karlanefnd telur að ef fæðingarorlofi yrði skipað með þeim hætti sem nefndin leggur til myndi það
styrkja fjölskylduna og á þann hátt bæta allt mannlíf, vera stuðningur við þá almennu stefnu að
draga úr launamun karla og kvenna, draga úr þeirri tilhneigingu atvinnurekenda að líta á konur á
barnseignaraldri sem sérstakan áhættuhóp við ráðningu og að það myndi auka áhuga karla á
fjölskyldulífi og þar með stuðla að því að ná vinnutíma þeirra niður og skapa aukinn þrýsting á að
menn fái mannsæmandi laun fyrir venjulegan vinnudag.
Ráðstefna um málefni karla

Karlar meta stöðuna

KARLAR KRUNKA nefnist ráðstefna sem Sólstöðuhópurinn stendur fyrir í Borgarleikhúsinu 2. maí
n.k. í samvinnu við karlanefnd Jafnréttisráðs. Þar verða ýmsum málefnum karla gerð skil í
fyrirlestrum og pallborðsumræðum. Sigurður Ragnarsson er félagi í Sólstöðuhópnum. Hann var
spurður hvers vegna þessi ráðstefna væri haldin. - Forsaga þessarar ráðstefnu er orðin nokkur. Við
höfum haldið sumarhátíðir þar sem við höfum verið með námskeið um karlhlutverkið og hafa þau
ævinlega verið fullskipuð. Einnig gengumst við fyrir fyrirlestri í fyrra vetur í Norræna húsinu um
svipað efni og fylltist salurinn þar út úr dyrum. Þannig að okkur þótti einsýnt að það væri mikil þörf
fyrir frekari umræður um þetta efni.

Eru bara karlar í Sólstöðuhópnum

- Nei, Sólstöðuhópurinn er fyrir bæði kynin og hefur sett sér það markmið að stuðla að umræðu í
þjóðfélaginu um hvaða lífsgildi við setjum hæst. Við viljum vinna á móti hraða nútímasamfélagsins
og reyna að fá fólk til að staldra við og huga að hlutum eins og tengslum milli fólks, fjölskyldunni,
uppeldi barna okkar, ástinni og svo mætti lengi telja.

Hvaða efni takið þið fyrir á ráðstefnunni í Borgarleikhúsinu?

- Við komum víða við og höfum fengið til liðs við okkur fjölda öflugra fyrirlesara, þeir eru ellefu
talsins og koma víðs vegar að úr þjóðfélaginu.

Eiga karlar í tilvistarkreppu?

- Nei, við viljum ekki halda því fram að svo sé og höfum reyndar viljað forðast það píslarvættistal
sem okkur finnst stundum hafa einkennt kynjaumræðu. Það er margt í stöðu karla sem vekur
athygli og þörf er á að skoða nánar. Ef litið er til tölfræðinnar má benda á þætti eins og að
karlmenn deyja yngri en konur, mun fleiri karlar fara í áfengismeðferð, fleiri karlmenn falla fyrir eigin
hendi, fleiri karlmenn en konur eru orðaðir við ofbeldi, drengir eiga erfiðara uppdráttar en stúlkur í
skóla og karlmenn hafa almennt lauslegri sambönd við fjölskylduna en konur. Þá má einnig nefna
að karlmenn hafa almennt hærri laun en konur, þeir eru mun fleiri í valdastöðum þjóðfélagsins, þeir
borða öðruvísi mat og þeir eru meira í íþróttum en konur.

Ég sé að einn fyrirlesturinn fjallar um kynlíf karla, er það orðið mikið vandræðamál?

- Nei, en kynlífið er auðvitað mál fyrir okkur öll. Að mínu mati er mikil þörf fyrir opna umræðu um
þennan þátt í lífi karla. Í mínu starfi rekst ég mikið á hversu oft karlmenn eru lokaðir varðandi
umræður um kynlíf. Þeirra máti að tala um kynlíf er oftast í einhverjum hálfkæringi eða tvíræðum
bröndurum. Það er ýmislegt sem verður karlmönnum vandasamt, má þar t.d. nefna þær væntingar
eða kröfur sem við gerum til sjálfra okkar, þ.e. folahlutverkið", það er að vera ávallt tilbúinn og fullur
löngunar við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Það veldur auðvitað mörgum mönnum býsna mikilli
kvöl þegar þeir uppgötva að þeir geta ekki staðið undir þessum óraunhæfu væntingum. Þá eru
ótrúlega margir karlmenn mjög fákunnandi um eðli kynlífs og fjölbreytileika þess. Þá á ég einnig
von á að það verði fjallað um ábyrgð í kynlífi en sú undarlega staða hefur verið uppi að kynlíf hefur
nær eingöngu verið á ábyrgð konunnar. Þannig er gengið út frá því að á unglingsárum sé það
hlutverk stúlknanna að segja nei og konurnar eru taldar bera fyrst og fremst ábyrgð á því að börn
verði til og hvenær.

Þið ætlið líka að fjalla um karlmenn og heimili?

- Já, þar verður lögð til grundvallar spennandi rannsókn sem Ingólfur Gíslason starfsmaður
karlanefndar hefur unnið. Þar skoðar hann stöðu karla inni á heimilinu. Það er stundum talað um
að konur rekist á ósýnilegan glervegg þegar þær sækja upp á við í metorðastiga þjóðfélagsins.
Svipað virðist vera upp á teningnum þegar karlmenn seilast til valda" innan heimilisins. Þeim er
treyst fyrir ákveðnum þáttum en ýmsir hlutir, eins og t.d. þvottavélin, hrærivélin, ábyrgðin á hverju
börnin klæðast og svo framvegis eru handan glerveggsins".

Hvaða gagn teljið þið vera að svona ráðstefnu?

­ Við teljum að umræða sem þessi þurfi stöðugt að vera í gangi, hraði nútímans er slíkur að hætta
er á að okkur beri af leið ef við reynum ekki stöðugt að meta hvar við erum stödd og hvert skal
haldið. Við vonumst til að karlar jafnt sem konur fjölmenni á ráðstefnu okkar í Borgarleikhúsinu og
við sjáum jafnvel heilu starfshópana koma þangað.

Sigurður Ragnarsson er fæddur á Akranesi árið 1944. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum
í Reykjavík árið 1964, kennaraprófi 1966 og Cand psyk.-prófi frá Oslóarháskóla árið 1974. Hann
hefur starfað við Barna- og unglingageðdeild, Félagsmálastofnun, rak meðferðarheimili að
Torfastöðum ásamt fleirum en er nú sjálfstætt starfandi við Sálfræðiþjónustuna Blæ í Reykjavík.
Hann er kvæntur Ingu Stefánsdóttur sálfræðingi og eiga þau fjögur börn
Úrskurður samkeppnisráðs um alnetsþjónustu Pósts og síma

Keppinautar njóti sambærilegra viðskiptakjara

SAMKEPPNISRÁÐ hefur úrskurðað að keppinautar samkeppnissviðs Pósts og síma hf. skuli njóta
sambærilegra viðskiptakjara og samkeppnissvið Pósts og síma hf. nýtur og sambærilegs aðgangs
að búnaði og hvers konar tæknilegri aðstöðu sem tengist einkaréttarþjónustu Pósts og síma hf.

Í úrskurði samkeppnisráðs frá 7. maí síðastliðnum segir að mismunur á kjörum í viðskiptum við
einkaréttarsviðið verði að byggjast á hlutlægum og málefnalegum ástæðum, s.s. mismunandi
kostnaði vegna umfangs viðskiptanna. Öll frávik varðandi aðgang að aðstöðu og búnaði verði að
byggjast á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum, s.s. sannanlegum tæknilegum ómöguleika.

Keppinautar töldu sig ekki sitja við sama borð
Vegna stöðu Pósts og síma, þ.e. stærðar fyrirtækisins og einkaréttar þess til að veita ýmiss konar
þjónustu, og þar sem keppinautar samkeppnissviðs fyrirtækisins töldu sig að mörgu leyti ekki sitja
við sama borð og samkeppnissviðið hóf Samkeppnisstofnun athugun á endursölu Pósts og síma á
alnetstengingum.

Póstur og sími hóf sölu á alnetstengingum til einstaklinga og fyrirtækja 7. ágúst í fyrra, en fyrir á
markaðnum voru um 19 íslensk einkafyrirtæki sem stunduðu endursölu á alnetstengingum.
Samkeppnisstofnun bárust óformlegar athugasemdir frá nokkrum þeirra og beindist gagnrýni
fyrirtækjanna einkum að því á hvern hátt viðskiptavinum Pósts og síma var gert kleift að hringja inn
á alnetið í gegnum almenna símakerfið.

Póstur og sími auglýsti þessa þjónustu sína þannig að kostnaður við að hringja inn á netið væri sá
sami alls staðar á landinu og gagnrýndu aðrir endurseljendur alnetstenginga þessa ráðstöfun
harðlega þar sem viðskiptavinir þeirra utan höfuðborgarsvæðisins þyrftu að greiða Pósti og síma
utanbæjarskref þegar þeir hringdu inn á alnetið. Töldu endurseljendur að hér væri um aðstöðumun
að ræða. Samkeppnissvið Pósts og síma nyti þarna verulegra fríðinda og hætta væri á að
niðurgreiðslur á alnetsþjónustunni ættu sér stað.

Samkeppnissvið greiði markaðsvexti
Í úrskurði samkeppnisráðs er þeim tilmælum beint til Pósts og síma hf. að til viðbótar þeim
fjárhagslega aðskilnaði sem þegar hefur farið fram á milli samkeppnissviðs Pósts og síma hf. og
annarra sviða fyrirtækisins skuli samkeppnissvið frá 1. janúar 1997 færa til gjalda og greiða
markaðsvexti, samkvæmt mati löggilts endurskoðanda, af stofnframlagi einkaréttar sem er að
upphæð 1.315.388.204 kr. Þá skuli skuldir samkeppnissviðs Pósts og síma hf. við önnur svið
fyrirtækisins bera markaðsvexti.

Frá og með gildistöku ákvörðunar samkeppnisráðs er samkeppnissviði Pósts og síma óheimilt að
nota tekjur af rekstri GSM- og NMT-fjarskiptakerfanna til að greiða niður kostnað við þjónustu eða
aðra starfsemi sem rekin er í virkri samkeppni við aðra aðila.
Kjarasamningar gerðir til allt að þriggja ára um nýtt kauptaxtakerfi

Almennar hækkanir 12­14% á samningstíma

KJARASAMNINGAR sem samkomulag náðist um hjá ríkissáttasemjara í fyrrinótt og í gærmorgun
fela að jafnaði í sér rúmlega 12­14% almenna hækkun launa á samningstímanum, ásamt
sérstökum krónutöluhækkunum lægstu taxta, auk áherslu sem lögð er á að færa launataxta nær
greiddu kaupi. Sú breyting á þó ekki að leiða til hækkunar á launum sem eru hærri en nýju
taxtarnir. Álags- og yfirgreiðslur vega þannig eftirleiðis minna í heildarlaunum en áður.

Samningarnir gilda frá undirritun, að undanskildum samningi Landssambands iðnverkafólks, sem
gildir frá 1. mars, og er samningstíminn rúmlega tvö og hálft til þrjú ár. Hlutfallslegar hækkanir
launa og samningstími er í öllum aðalatriðum sambærilegur við þá samninga sem
Verzlunarmannafélag Reykjavíkur hefur náð við fyrirtæki og samtök sem standa utan samtaka
vinnuveitenda á undanförnum dögum, en þar var samið um 14% launahækkanir að jafnaði.

Gengið var frá fjórum kjarasamningum sem eru breytilegir í ýmsum atriðum. Landssamband
iðnverkafólks staðfesti kjarasamning við VSÍ og VMS í fyrrinótt og var hann undirritaður formlega í
gærkvöldi. VR og VSÍ/VMS náðu samkomulagi um nýjan kjarasamning á sjöunda tímanum í
gærmorgun og Rafiðnaðarsambandið gerði annars vegar samning við vinnuveitendur fyrir hönd
Landssambands rafverktaka fyrir rafiðnaðarmenn á almennum markaði og hins vegar var gerður
samningur milli RSÍ og Reykjavíkurborgar í gærmorgun. Samningarnir ná til tæplega þriðjungs
félaga í ASÍ.

4,7% hækkun við undirskrift
Gildistími kjarasamnings VR og vinnuveitenda er til 15. febrúar árið 2000. Laun hækka um 4,7% við
undirskrift, um 4% 1. janúar 1998 og 3,65% 1. janúar 1999. Öll grunnlaun hækka þannig um
12,86% frá upphafi til loka samningstímans.

Auk þess var samið um sérstakar krónutöluhækkanir í upphafi á lægstu taxta og meiri hækkanir
við aukinn starfsaldur en verið hefur. Einnig var samið um að félagsmenn hefðu val um að taka upp
sveigjanlegan dagvinnutíma frá kl. 8 til 20 og lækka jafnframt yfirvinnuálag í 1% af mánaðarlaunum,
gegn því að taxtar fyrir afgreiðslustörf hækki sérstaklega. Vinnuveitendur féllust á að draga til baka
tillögu um lækkun yfirvinnuálags í 1% í almennu samningunum og er það talið kosta atvinnulífið
%­1% í auknum launaútgjöldum.

14,3% launakostnaðarauki
Samið var um aukinn orlofsrétt, sem verði 25 dagar eftir 5 ára starf og 27 dagar eftir 10 ára starf.
Rýmkaður er réttur til desember- og orlofsuppbótar og samið um heimild til að gera
fyrirtækjasamninga, með það að markmiði að auka ávinning starfsmanna og fyrirtækja. Er það
ítarlega útfært í samningum VR og RSÍ.

Að mati VR er heildarkostnaður samninganna að meðtöldum aðgerðum til hækkunar lægstu launa
14,3% á samningstímanum.

Hækka hlut dagvinnutaxta á móti álags- og aukagreiðslum
Í sameiginlegri bókun sem fylgir kjarasamningum VR og iðnverkafólks við viðsemjendur um
breytingar á launatöxtum segir að við mat á því hvort breytingar á launatöxtum gefi tilefni til
hækkunar launa, sem fyrir gerð samninga voru hærri en taxtinn, beri að nota þá aðferð að leggja
við launataxtann allar aukagreiðslur fyrir dagvinnu, aðrar en endurgjald á útlögðum kostnaði. Engu
skipti hvaða nafni aukagreiðslurnar nefnast.

"Til að færa taxtakaup nær greiddu kaupi eru aðilar sammála um að taka upp ný kerfi kauptaxta
sem komi að öllu leyti í stað eldri kauptaxta. Mikilvægur þáttur í þessari breytingu er að hækka
hlut dagvinnukauptaxta. Þetta gerist m.a. með fækkun launaflokka og starfsaldursþrepa eins og
fram kemur í kaupgjaldsákvæðum samningsins. Á móti taxtahækkunum lækka kjarasamnings-
og/eða ráðningarsamningsbundnar álags- og aukagreiðslur. Með kjarasamningsbundnum álags- og
aukagreiðslum er m.a. átt við fastar viðbætur við taxta eins og námskeiðsálag, fastlaunauppbót og
mætingaskyldugjald annars vegar og breytilegar viðbætur eins og t.d. bónus, ábata, ávinning o.þ.h.
Með ráðningarsamningsbundnum álags- og aukagreiðslum er m.a. átt við yfirborganir í formi
prósentu- eða krónutöluálags á taxta og viðbótargreiðslur í formi óunninna yfirvinnutíma.

Nýir kauptaxtar eiga ekki að leiða til meiri hækkunar á launum þeirra sem vegna álags- eða
aukagreiðslna hafa jafn hátt kaup eða hærra en skv. nýju kauptöxtunum en sem nemur almennri
launahækkun skv. samningi þessum. Þá skulu launabreytingar samkvæmt samningi þessum í
engum tilvikum leiða til minni launahækkana en sem nemur launahækkun skv. 2. gr.," segir í
samningi Landssambands iðnverkafólks.

Í samningunum segir einnig að kjósi starfsmaður sem nýtur álagsgreiðslna umfram það sem
samningar kveða á um að halda þeim aukagreiðslum óbreyttum, þannig að þær gangi ekki inn í
reglubundin dagvinnulaun hans, skal hann tilkynna það vinnuveitanda sínum skriflega innan 45
daga frá gildistöku samningsins. Tekur hann þá áfram laun skv. óbreyttum kauptölum að
viðbættum óbreyttum álags- og aukagreiðslum og laun hans hækka eingöngu um þær almennu
prósentuhækkanir sem samið var um yfir tímabilið.

Form yfirborgana skiptir engu máli við mat á því hvort nýju taxtarnir leiða til hækkunar á greiddu
kaupi. Sem dæmi um þessa aðferð má taka iðnverkamann sem hefur í dag 60.118 kr. taxtalaun og
nýtur auk þess 20% yfirborgunar eða samtals 72.142 kr. Laun hans hækka um 4,2% við undirritun
og fara í 75.172 kr., þar af er nýi kauptaxtinn sem samið var um 68.386 kr. en mismunurinn
reiknast sem ný yfirborgun á nýja kauptaxtann eða 9,923% í stað 20% yfirborgunar áður.

Lægstu laun í um 70 þús. 1. janúar 1999
Kjarasamningur Landssambands iðnverkafólks og vinnuveitenda gildir til skemmri tíma en
samningar VR og RSÍ eða til 15. október 1999. Áhersla er lögð á myndun nýs taxtakerfis, þar sem
álags- og aukagreiðslur falla inn í grunninn. Almennar grunnlaunahækkanir taka annars vegar mið
af styttri samningstíma og hins vegar meira vægi taxtabreytinga en VR samdi um. Hækka laun við
undirritun um 4,2%, 1. janúar 1998 hækka laun um 4% og 1. janúar 1999 um 3,5%. Samtals er um
að ræða 12,16% almenna grunnlaunahækkun á samningstímanum. Heildarkostnaður vegna
launabreytinga á samningstímanum er talinn aukast um 15%.

Iðnverkafólk samdi um sérstakar krónutöluhækkanir í upphafi á lægstu taxta sem hækka af þeim
sökum hlutfallslega meira en nemur almennu grunnlaunahækkununum. Lægstu laun verða komin í
um 70 þúsund kr. 1. janúar 1999. Einnig hækka laun fyrr við starfsaldur en áður var.

Lágmarkslaun RSÍ hækka um 20%
Samningur RSÍ og vinnuveitenda gildir til 15. febrúar árið 2000 en samningur RSÍ og
Reykjavíkurborgar gildir til 31. mars á sama ári. Launahækkun skv. samningi rafiðnaðarmanna á
almenna markaðinum er tæplega 14% á samningstímanum og lágmarkslaun sveina við upphaf
samningstímans hækka í 88.719 kr. Samningurinn við Reykjavíkurborg felur í sér liðlega 14%
launahækkun og lágmarkslaun hækka um 20%, skv. upplýsingum RSÍ. Margskonar sérákvæði eru
í samningnum s.s. lenging orlofs um þrjá daga. Þá er launataxtakerfi breytt og ný ákvæði eru um
hvíldartíma í samningnum.
Félagsfundur Dagsbrúnar/Framsóknar hvatti til samstöðu

Krafan er 70.000 kr. lágmarkslaun

Félagar í verkalýðsfélögunum Dagsbrún og Framsókn troðfylltu Bíóborgina á fyrsta
sameiginlega félagsfundi félaganna í gær. Mikil samstaða kom fram á fundinum um að halda fast
við kröfuna um 70 þúsund króna lágmarkslaun. Ómar Friðriksson fylgdist með fundinum.


Við upphaf baráttufundar Dagsbrúnar og Framsóknar í Bíóborginni eftir hádegi í gær var greint frá
niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna hjá Mjólkursamsölunni og Emmessís hf. um
vinnustöðvun, sem hefjast á 9. mars. Af 75 starfsmönnum á kjörskrá tóku 68 þátt í
atkvæðagreiðslunni. 60 samþykktu verkfallstillöguna, eða 88,24%, 7 sögðu nei og einn skilaði
auðu. Var úrtslitunum fagnað með langvinnu lófataki á félagsfundinum í gær.

Halldór Björnsson, formaður Dagsbrúnar, rakti í ræðu sinni undirbúning kjaraviðræðna og
samningaviðræður sem fram hafa farið um sérmál og aðalkjarasamning frá því í haust, sem hann
sagði að hefði engum árangri skilað og kjaramálin væru því í kyrrstöðu.

Halldór sagði að meginkröfur félaganna væru að lægstu laun hækkuðu í 70 þúsund kr. á mánuði,
atvinnuöryggi og kaupmáttur yrði tryggður og að samningarnir giltu frá 1. janúar 1997 í allt að 26
mánuði.

Halldór mótmælti málflutningi þeirra sem sökuðu Dagsbrún og Framsókn um að ætla að splundra
stöðugleikanum með kröfunni um 70 þúsund kr. lágmarkslaun. "Þetta er orðin meginkrafa
verkalýðshreyfingarinnar og hefur hlotið góðan meðbyr í þjóðfélaginu," sagði Halldór. "Útfærð tillaga
þeirra að breytingum á launatöxtum þýðir 10 króna hækkun á tímann. Við höfum reynt að halda
þessu smánarboði á lofti en annað boð höfum við ekki fengið. Um það snýst þessi stóra deila, sem
er í uppsiglingu að verða ein hatrömmustu stéttarátök sem hér hafa orðið frá 1955, ef allt fer fram
sem horfir," sagði Halldór.

Draga fram lífið á sultarlaunum
Í máli margra fundarmanna kom fram hörð gagnrýni á launahækkanir bankastjóra, embættismanna
og fleiri hálaunahópa. Einnig var spjótum beint gegn hagnaði útgerðarmanna af kvótaviðskiptum,
sem Dagsbrúnarmenn fullyrtu að skipti fleiri milljörðum kr. "Þetta er ekki kallað siðleysi, heldur
eðlilegur og sjálfsagður hlutur en það er siðleysi ef þið biðjið um að kaupið hækki í 70 þúsund
krónur," sagði Halldór Björnsson.

Ólafur B. Baldursson sagði að laun foreldra dygðu ekki fyrir nauðþurftum. Þjóðarauðnum væri
misskipt og honum væri úthlutað örfáum sægreifum og flokksgæðingum ríkisstjórnarflokkanna. Á
sama tíma misstu tvær fjölskyldur heimili sín á degi hverjum vegna óstjórnar í efnahagsmálum. "Við
vitum hvernig það er að draga fram lífið á sultarkjörum, greiddum af fyrirtækjum sem velta
milljörðum á ári hverju og standa uppi í árslok, með hundraða milljóna króna gróða, sem þau geta
deilt til fámennrar klíku. Ég er ekki bara þreyttur á þessu ástandi, heldur er ég öskuillur vegna
þeirrar skítlegu meðferðar íslenskra fyrirtækja og atvinnulífs á saklausu og bjargarlausu íslensku
verkafólki, sem er í raun og veru kjarni og uppistaða þjóðlífsins," sagði hann.

Ragna Bergmann, formaður Framsóknar, sagði að nánast ekkert hefði miðað í samningaviðræðum
að undanförnu. "Við getum ekki setið í tilgangslausu þjarki mánuð eftir mánuð án þess að grípa til
aðgerða. Nýr kjarasamningur átti að gilda frá áramótum. Nú höfum við setið samningslaus í tvo
mánuði og sjáum ekki fram á neinar breytingar nema með aðgerðum. Ef ekki takast samningar nú
er framundan erfitt tímabil átaka og verkfalla. Ég minnist langa verkfallsins 1955, ég var þá með
fjögur börn, og það var mjög erfitt, en fólk stóð allt saman. Reynslan kennir okkur að það reynir á
samstöðu félagsmanna. Við viljum gera allt sem við getum til að ná samningum án verkfalla, en við
þurfum að búa okkur undir átök. Við munum ekki hvika frá 70 þúsund króna lágmarkslaunum,"
sagði Ragna.

"Með hverjum deginum sem líður nálgumst við það sem virðist óumflýjanlegt, stríð á milli hins
vinnandi lýðs, sem á degi hverjum berst harðri baráttu við að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða,
og hinna sem eiga auðmagnið og atvinnutækin, og hafa með hjálp ríkisvaldsins sogað til sín allar
helstu auðlindir Íslands, sem þó eiga samkvæmt lögum að vera í eigu okkar allra," sagði Sigurður
Rúnar Magnússon.

Loforð þjóðarsáttarinnar svikið í bak og fyrir
Sigurður Bessason sagði að verkalýðshreyfingin hefði fallist á að styðja við bakið á fyrirtækjum
sem voru komin að fótum fram árið 1990 þegar þjóðarsáttin var gerð. Þá hafi verið gefið loforðið um
að síðar kæmi að því að hlutur launafólks yrði réttur við. Þetta loforð hefði verið svikið í bak og fyrir.

Kristján Árnason hvatti Dagsbrúnarmenn og Framsóknarkonur til að stíga á stokk og heita því að
standa saman þar til yfir lyki í baráttunni fyrir réttlæti. Björgvin Þorvarðarson hvatti samninganefnd
félaganna til að hækka launakröfurnar eftir að verkföll væru skollin á ef ekkert miðaði í
samkomulagsátt. "Við verðum að greiða atkvæði með verkfalli. Annars heldur VSÍ áfram að bjóða
okkur tíkall á tímann. Ég hef vissulega ekki efni á að fara í verkfall en ég hef alls ekki efni á að
reyna að lifa af þessum launum áfram, fyrir utan þá lítillækkun sem felst í því að fá 60 þúsund
krónur fyrir 100% vinnu í heilan mánuð," sagði Anna Sjöfn Jónasdóttir.

Gylfi Páll Hersir skoraði á fundarmenn að hvika í engu frá kröfunni um 70 þúsund kr. lágmarkslaun.
Nú þyrftu félögin að sýna samstöðu og atvinnurekendum klærnar.

Allir fundarmenn stóðu upp í lokinn og samþykktu ályktun fundarins með langvinnu lófataki. "Krafa
okkar um 70 þúsund króna lágmarkslaun er almenn krafa verkalýðshreyfingarinnar í dag. Hún er
grundvöllur þess að samningar takist. Engin niðurstaða hefur fengist enn í neinum sérsamningum
félaganna. Atvinnurekendur halda fast við upphaflegar tillögur um tíkall á tímann og bundna
kjarasamninga, þannig að friðarskylda hvíli á öllum sérsamningum úti í fyrirtækjunum," segir í
ályktuninni.
Kvörtun biskups vegna Spaugstofunnar

Engar aðgerðir vegna opinberrar rannsóknar

ÚTVARPSSTJÓRI og formaður útvarpsráðs telja ekki ástæðu til aðgerða vegna kvörtunarbréfs
Ólafs Skúlasonar biskups yfir þætti Spaugstofunnar laugardagskvöldið fyrir páska þar sem málið
sæti nú opinberri rannsókn sem sakamál. Biskup bar fram kvörtun vegna meints guðlasts í
þættinum og sendi hann afrit af bréfinu til ríkissaksóknara.

Í bréfi Péturs Guðfinnssonar útvarpsstjóra til biskups segir m.a. að þar sem málið sé komið í
hendur ríkissaksóknara sem fyrirskipað hafi sakamálameðferð telji hann ekki rétt að láta neitt það
frá sér fara sem gæti valdið þeim réttarspjöllum sem sakamálameðferð kunni að sæta. Í bréfi
formanns útvarpsráðs til biskups kemur fram að útvarpsráð telji ekki ástæðu til sérstakra aðgerða
eða ályktunar af hálfu ráðsins vegna málsins enda sætti það opinberri rannsókn.
Alþýðubandalagið næststærsti flokkurinn

ALÞÝÐUBANDALAGIÐ hefur fylgi 21% kjósenda og er næststærsti flokkurinn á eftir
Sjálfstæðisflokknum, samkvæmt Þjóðarpúls Gallups. Fylgi flokksins hefur aukist hægt og sígandi
síðustu mánuði.

Sjálfstæðisflokkur er með tæplega 40% fylgi og Framsóknarflokkur með 18%. Alþýðuflokkur og
Kvennalisti halda áfram að tapa fylgi, Alþýðuflokkurinn er með tæp 18% og Kvennalistinn með rösk
3%.

Styðja kaup á upplýsingum
Samkvæmt könnuninni er rösklega helmingur þjóðarinnar hlynntur því að fíkniefnalögreglan greiði
fyrir mikilvægar upplýsingar og 73% eru hlynnt því að lögreglan sé í samstarfi við aðila tengda
fíkniefnaheiminum ef það ber árangur í baráttunni gegn fíkniefnum.

Stóriðja nýtur mikil stuðnings þjóðarinnar. Þannig eru 72% hlynnt stækkun
Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga en 14% á móti og 62% hlynnt byggingu nýs álvers þar
en 27% andvíg. Loks má geta þess að 74% þeirra sem afstöðu tóku telja óeðlilegt að Landsbanki
Íslands hafi keypt helming hlutafjár í VÍS.
Mikil uppbygging íþróttamannvirkja í Borgarnesi

Landsmótið verður lyftistöng

Töluverðar hræringar hafa verið í stuttri sögu bæjarstjórnar Borgarbyggðar. Eftir sameiningu var
gerð róttæk uppstokkun í veitumálum. Meirihlutinn féll vegna deilna um endurskipulagningu á
rekstri bæjarfélagsins. Í samtali Helga Bjarnasonar við Óla Jón Gunnarsson bæjarstjóra kemur
fram að á þessu ári snýst lífið um landsmót ungmennafélaganna og uppbyggingu glæsilegs
íþróttasvæðis.


BORGARBYGGÐ var til fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar með sameiningu Borgarness,
Stafholtstungna, Norðurárdals og Hraunhrepps. "Ég tel að sameiningin hafi komið vel út fyrir íbúa
Borgarbyggðar. Það kom aukið fé inn á þetta svæði, meðal annars í framlögum Jöfnunarsjóðs
sveitarfélaga, sem við gátum lánað Vegagerð ríkisins til að bæta samgöngur í dreifbýlinu. Ég tel að
með því höfum við flýtt þróuninni í samgöngumálum um mörg ár," segir Óli Jón Gunnarsson
bæjarstjóri.

Afþökkuðu 90 milljónir
Óli Jón telur að íbúar í öllum hlutum sveitarfélagsins séu ánægðir með hlut sinn í nýja
sveitarfélaginu. Með sameiningunni fækkaði sveitarfélögunum í Mýrasýslu úr átta í fimm. Ekki var
áhugi fyrir víðtækari sameiningu á sínum tíma. Óli Jón telur að það hafi verið mistök og sér fyrir sér
að í framtíðinni verði sveitarfélögin í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar auk tveggja
syðstu hreppa Snæfellsness sameinuð í eitt. Nú eru 3.500 íbúar á þessu svæði, í tólf
sveitarfélögum sem hafa með sér samstarf á ýmsum sviðum. Þar af eru 2.100 íbúar í Borgarbyggð.
"Þetta er allt of flókið. Það væri hægt að leggja niður 20 byggðasamlög, nefndir og ráð án þess að
bæta við einum einasta fundi í stjórnkerfi sameinaðs sveitarfélags," segir Óli Jón.

Bæjarstjórinn telur að ekki sé mikil hreyfing á sameiningarmálum eins og er nema hvað sveitarfélög
í Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar hafi rætt saman. "En mér er sagt að afstaða almennra
íbúa í nágrannasveitarfélögum okkar sé að breytast, þeir séu ekki eins hræddir við sameiningu og
áður, en það hefur held ég ekki skilað sér upp til sveitarstjórnanna. Ef héraðið hefði allt verið
sameinað eins og lagt var til 1994 hefðu komið aukalega inn á þetta svæði 90 milljónir kr. úr
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Mér finnst að frammámenn í sveitarfélögunum sem beittu sér gegn
sameiningu þurfi að svara því hvað þeir geti gert svona vel hver í sínu lagi að þeir hafi efni á því að
afþakka þessar 90 milljónir kr.," segir Óli Jón.

Lækkun hitaorku
Veitukerfi Borgarfjarðar var stokkað upp á árinu 1995. Borgarbyggð seldi Rafmagnsveitum ríkisins
Rafveitu Borgarness og Akranesbæ Andakílsárvirkjun en leysti til sín sinn hluta af dreifikerfi
Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Jafnframt þessu tók Borgarbyggð þátt í að tryggja rekstur
HAB sem aðveitufyrirtækis með því að lækka skuldir þess verulega. Með þessum aðgerðum var
unnt að lækka heita vatnið til notenda í Borgarnesi um 21% í upphafi. Þeirri lækkun til viðbótar tók
Hitaveita Borgarness á sig 2,7% verðhækkun HAB í ágúst á síðasta ári án þess að til hækkunar
kæmi á töxtum og hún tók einnig á sig 1% af hækkun heita vatnsins í febrúar síðastliðinn þannig
að verð til notenda hækkaði þá um 2,5% í stað 3,5%. Telur Óli Jón að með þessum aðgerðum hafi
tekist að hafa heita vatnið í Borgarnesi á 25% lægra verði en annars hefði orðið og reiknar hann
með því að Hitaveita Borgarness hafi einnig bolmagn til að taka á sig næstu hækkanir.

Akurnesingar fóru aðra leið en Borgnesingar í orkumálunum. Þeir lögðu áherslu á að halda
yfirráðum yfir eigin rafveitu og keyptu auk þess aðra eignaraðila út úr Andakílsárvirkjun. "Ég tel að
ákvarðanir okkar í orkumálunum hafi verið réttar enda voru þær í takt við stefnu sem við höfum lengi
viljað fara. Við vorum búnir að glíma lengi við vanda HAB og hann var ekki hægt að leysa öðruvísi.
Vissulega er eftirsjá að þessum eignum en það hefði verið allt of dýru verði keypt að halda þeim,
miðað við hvaða breytingum hægt var að ná fram," segir Óli Jón.

Skylda okkar að spara og gæta aðhalds í rekstri
Rekstrarkostnaður Borgarbyggðar hefur aukist mjög á síðustu árum. Á síðasta ári var
rekstrarkostnaður án fjármagnskostnaðar kominn í 89% af skatttekjum. Unnið hefur verið að því að
minnka kostnaðinn svo meira verði eftir til framkvæmda enda unnið að stórverkefnum. Tvö mál hafa
verið mest áberandi enda umdeild í bænum, endurskipulagning vinnufyrirkomulags á leikskólanum
Klettaborg og skipulagsbreyting á áhaldahúsi. Bæjarfulltrúi Alþýðubandalags sleit
meirihlutasamstarfi við Framsóknarflokk vegna ágreinings um leikskólamálið. Við tók nýr meirihluti
Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og hefur hann fylgt þessum málum eftir.

"Launakostnaður í leikskólanum jókst miklu meira en nam launaþróun í landinu. Úttekt sem gerð
var á skólanum sýndi að þörf var á að koma þessu aftur í réttan farveg og náðist ágætis
samkomulag um það við starfsfólkið eftir að moldviðrinu lauk og nýr meirihluti tók við störfum.
Borgarbyggð var með tvö áhaldahús eftir að hún yfirtók rekstur hitaveitunnar hér. Eftir skoðun á
þessum rekstri var lagt til að áhaldahúsin yrðu sameinuð, starfsfólki fækkað og seldur hluti af bílum
og tækjum sem bærinn rak. Í staðinn yrði keypt meiri vinna af sjálfstæðum verktökum. Við teljum
að með því sé hægt að spara 6 milljónir kr. á ári. Þetta var gert en starfsmenn áhaldahúss
bæjarins sættu sig ekki við breytingarnar og fóru til annarra starfa," segir Óli Jón. Hann getur þess
einnig að samið hafi verið við Sparisjóð Mýrasýslu um að annast innheimtu fasteignagjalda og við
það hafi fækkað um hálft stöðugildi á bæjarskrifstofunum.

Telur bæjarstjóri að meðal annars vegna þessara aðgerða muni rekstrarkostnaðurinn fara niður í
um 82% af skatttekjum á þessu ári.

"Nú hefur verið tekið á þeim málum sem við höfum augljóslega getað gert betur. Þetta hefur kostað
átök en það er skylda okkar að taka hagsmuni sveitarfélagsins í heild fram yfir hagsmuni
viðkomandi einstaklinga, reyna að spara og gæta hvarvetna aðhalds í rekstri. Menn sem bera
ábyrgð á rekstri sveitarfélaga hafa ekki efni á því að stunda vinsældarkaup." Sem framkvæmdastjóri
bæjarins hefur Óli Jón þurft að framkvæma þessar umdeildu breytingar og segir það ekki alltaf hafa
verið auðvelt. "Sumir persónugera þetta og tengja minni persónu, ég hef vissulega orðið var við það.
Þetta stafar af þekkingarskorti því bæjarstjórinn framkvæmir ekkert nema fyrir því liggi meirihlutavilji
í bæjarstjórn. Hins vegar fylgja starfi bæjarstjóra alltaf ákveðin átök, ekki þýðir að láta það á sig fá,"
segir hann.

Sundlaug og íþróttavöllur
Framkvæmdir við íþróttamannvirki eru langstærstu verkefni Borgarbyggðar þessi árin.
Framkvæmdunum þarf að vera lokið í byrjun júlí þegar landsmót ungmennafélaganna verður haldið í
Borgarnesi. Í fyrra var Skallagrímsvöllur stækkaður og sett upp góð frjálsíþróttaaðstaða og nú er
verið að byggja 25 metra útisundlaug ásamt pottum, vaðlaugum og rennibrautum. Kostar
uppbyggingin um 200 milljónir kr. Öll eru þessi mannvirki við íþróttamiðstöðina, þau eru tengd við
Skallagrímsgarð og verður þarna eitt af skemmtilegri íþróttasvæðum landsins.

Í hugum margra eru íþróttamannvirkin nátengd landsmótinu. Óli Jón segir að vissulega ráðist
tímasetningin af landsmótinu en þessi mannvirkjauppbygging sé til langs tíma og muni íbúar
sveitarfélagsins og ferðafólk njóta þeirra lengi eftir landsmót. "Gerð er krafa til þess að ákveðin
íþróttamannvirki séu í byggðarlagi af þessari stærð, til dæmis útisundlaug. Bæjarstjórn
Borgarbyggðar hefur haft þann háttinn á að taka fyrir afmörkuð verkefni og ljúka þeim á skömmum
tíma. Þannig nýtast mannvirkin betur. Nú var komið að sundlaug enda ekki önnur verkefni sem
knúðu meira á," segir bæjarstjórinn.

Borgarbyggð er ágætlega í stakk búin til að ráðast í þetta stórverkefni, að sögn Óla Jóns.
Nettóskuldir bæjarins voru 45 þúsund kr. á hvern íbúa um síðustu áramót og þykir það lítið. Þessi
tala mun hækka nokkuð í ár vegna þess að langtímaskuldir Borgarbyggðar aukast vegna
framkvæmdanna, þó ekki nema um 30 milljónir. Reiknað er með að hlé verði gert á framkvæmdum
eftir þetta ár á meðan verið er að greiða skuldirnar.

Óli Jón segir að allt bendi til þess að landsmótið í sumar heppnist vel, dragi fólk í bæinn og verði
lyftistöng fyrir Borgarnes. Vonast hann til að íþróttamannvirkin muni áfram draga að íþróttahópa og
ferðafólk og að ferðafólk staldri lengur við en áður. Það sé síðan þjónustufyrirtækja í bænum að
nýta sér þá möguleika sem þetta skapar.

Möguleikar á Grundartanga
Þó ekki sé mikið atvinnuleysi í Borgarnesi hefur atvinnulífið ekki náð sér að fullu eftir lokun
mjólkursamlagsins. Óli Jón segir að Borgnesingar bindi vonir við Hvalfjarðargöng og uppbyggingu
stóriðju á Grundartanga. Bendir á að matvæla- og framleiðsluiðnaður sé uppistaðan í atvinnulífinu
og bættar samgöngubætur við Reykjavíkursvæðið hljóti að hafa jákvæð áhrif.

Þá bindur hann vonir við að Borgfirðingar fái vinnu við stækkun járnblendiverksmiðjunnar og
byggingu álvers á Grundartanga og við reksturinn í framhaldi af því. "Við höfum verið útilokaðir frá
vinnu á Grundartanga vegna úreltrar skiptingar landsins í atvinnusvæði. Nú er búið að breyta lögum,
svæðið er orðið eitt atvinnusvæði. Við því er að búast að hluti starfsfólksins búi í höfuðborginni en
ég tel þó að svæðið norðan Hvalfjarðar, Akranes og Borgarfjörður, hafi ágæta möguleika til að laða
fólkið að sér. Það gæti til dæmis verið spennandi kostur fyrir nýja starfsmenn að búa í Borgarnesi
og stunda vinnu á Grundartanga. Hér er góð þjónusta á flestum sviðum og gott umhverfi fyrir
fjölskyldufólk," segir Óli Jón Gunnarsson.
Fjármálaráðherra ræðir við fulltrúa BSRB

Ágreiningur um launakerfi og viðbótarlaun

FRIÐRIK Sophusson fjármálaráðherra átti fund með forystumönnum BSRB í gær þar sem m.a. voru
til umræðu hugmyndir ríkisins um breytingar á launakerfi ríkisins og ákvæði laga um viðbótarlaun.
Fundurinn varð árangurslaus og segir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, að þessar hugmyndir
tefji allar kjaraviðræður aðildarfélaga BSRB við ríkið. Fjármálaráðherra segir að ríkið geti ekki fallist
fyrirfram og án skoðunar á kröfur BSRB um að nota ekki ákvæði laga um viðbótarlaun, en vill gera
kjarasamning um nýtt launakerfi

Friðrik sagði að fjármálaráðuneytið myndi á næstu dögum svara formlega erindi sem BSRB lagði
fram á fundinum. "Á fundinum kom fram af minni hálfu að ríkið hefði áhuga á því að breyta
launakerfi ríkisstarfsmanna og gera það sveigjanlegra þannig að hægt væri að laga það betur að
starfsemi ríkisins á hverjum tíma. Á þessari stundu fara einstök félög innan BSRB með
samningsumboðið og við viljum freista þess að ná samkomulagi við þau um hvernig þetta nýja
launakerfi verður, hvernig því verður komið á og á hvaða forsendum það eigi að byggjast," sagði
Friðrik.

Ögmundur sagði að BSRB væri tilbúið að gera breytingar á launakerfi ríkisins og hefði alltaf verið,
en það vildi að breytingarnar yrðu gerðar á jafnræðisgrunni.

"Við buðum fjármálaráðherra upp á að gera rammasamkomulag við BSRB um á hvaða forsendum
menn nálgist þetta viðfangsefni. Við viljum að þar komi í fyrsta lagi fram að samið verði um allar
breytingar á launakerfum. Í öðru lagi viljum við að um launakjör verði almennt samið á félagslegum
grunni. Í þriðja lagi lýsum við yfir vilja til að taka upp viðræður á vegum heildarsamtakanna um
heildarendurskoðun á launakerfinu," sagði Ögmundur.

Ágreiningur um viðbótarlaun
Ágreiningur hefur verið milli BSRB og fjármálaráðuneytisins um 9. grein nýrra laga um réttindi og
skyldur opinberra starfsmanna, en hún kveður á um að fjármálaráðherra geti veitt forstöðumönnum
ríkisstofnana heimild til að umbuna starfsmönnum með viðbótarlaunum. "Við erum eindregið þeirrar
skoðunar að um framkvæmd þessarar lagagreinar eigi að semja. Það er grundvallaratriði að menn
viti að hverju þeir ganga á nýju samningstímabili hvað þetta snertir. Ef ekki næst samkomulag um
þetta leggjum við til að frestað verði framkvæmd þessar greinar," sagði Ögmundur.

"Ég mun ekki gera samkomulag fyrirfram og án könnunar um að nota ekki þessa heimildargrein,
en ég lét það koma fram á fundinum að ef samkomulag yrði í kjarasamningum opinberra
starfsmanna um að fara í launakerfisbreytingar þá kostaði það mikla vinnu sem leiddi til þess að
ekki yrði hægt að koma á viðbótarlaunum samkvæmt 9. grein starfsmannalaganna á sama tíma,"
sagði Friðrik.

Ögmundur sagði að svo virtist sem fjármálaráðherra vildi stilla opinberum starfsmönnum upp við
vegg. Annaðhvort samþykktu menn breytingar á launakerfinu eða 9. greininni yrði beitt. Ögmundur
sagði ljóst að margt væri óljóst um þessa hluti alla, ekki síður af hálfu samninganefndar ríkisins.
Það myndi kosta mikla vinnu að hrinda fyrirliggjandi hugmyndum um launakerfisbreytingar í
framkvæmd og þess vegna gæti verið skynsamlegra að ræða þær á næsta samningstímabili.
Launafólk þyrfti að fá launahækkanir strax.

Friðrik sagði að BSRB væri að reyna að knýja fram loforð frá sér, áður en eiginlegir samningar um
launakerfisbreytingarnar hæfust, um að hann myndi ekki beita 9. greininni. Hann sagðist ekki geta
fallist á að binda hendur fjármálaráðuneytisins fyrirfram með slíkum hætti. Hann sagðist hins vegar
margsinnis hafa lýst því yfir að samráð yrði haft við samtök launafólks um viðbótarlaun. Mikilvægt
væri að hafa í huga að ríkið greiddi stórum hluta opinberra starfsmanna viðbótarlaun í dag, en um
þau giltu engar reglur. Það þyrfti að setja skýrar reglur um þessa hluti.
Samningur Reykjavíkurborgar og Sumargjafar

Bætt úr þörf á leikskólum í miðbænum

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir borgarstjóri undirritaði á fimmtudag samning vegna kaupa
Reykjavíkurborgar á leikskólanum Hagaborg við Fornhaga af barnavinafélaginu Sumargjöf og hljóðar
heildarupphæð samningsins upp á um 68 milljónir króna.

Að sögn Bergs Felixsonar framkvæmdastjóra Dagvistar barna hefur borgin hingað til séð um
rekstur á leikskólanum Hagaborg, en með kaupunum mun borgin eignast húsið sem er um 800
fermetrar, lóðina, lóðarréttindin og allan þann búnað sem fylgir leikskólarekstrinum. Á efri hæð
hússins er nú rekið skóladagheimili, en á neðri hæðinni er rekinn fjögurra deilda leikskóli og segir
Bergur að ekki séu fyrirhugaðar neinar breytingar á rekstri þeirra að sinni.

Samkvæmt samningnum mun borgin greiða fyrir umræddan leikskóla á tvennan hátt. Annars vegar
með um 34 milljóna króna skuldabréfi til tíu ára og hins vegar með því að stækka leikskólann
Grænuborg við Eiríksgötu sem er í eigu Sumargjafar, en að sögn Bergs er tilgangurinn með
samningnum fyrst og fremst sá að bæta úr þeirri þörf sem er á leikskólaplássum í miðbæ
borgarinnar.

Í sumar verður hafist handa við að byggja nýtt hús á lóðinni við hliðina á Grænuborg og er gert ráð
fyrir að með því bætist við um 28 til 30 heilsdagsrými á Grænuborg næsta haust.

Ekki enn ákveðið hvað gera eigi við peningana
Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnað árið 1924 og var upphaflegt markmið þess að reka
dagheimili í Reykjavík, en árið 1978 tók Reykjavíkurborg yfir rekstur dagheimilanna, að sögn Jóns
Freys Þórarinssonar formanns Sumargjafar. "Eftir þann tíma hefur félagið aðallega unnið að því að
byggja og bæta leikskólana Grænuborg og Steinahlíð við Suðurlandsbraut, en einnig hefur félagið
m.a. styrkt ýmsa starfsemi og verkefni er tengjast börnum," segir hann. "Í dag er starfsemi
félagsins fjármögnuð með þeim peningum sem koma inn fyrir Hagaborg, Grænuborg og Steinahlíð,
en áður fyrr var hún m.a. fjármögnuð með merkjasölu á sumardaginn fyrsta."

Aðspurður um hvað félagið hyggist gera við þá peninga sem það muni fá fyrir Hagaborg, segir Jón
að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um það hjá stjórn félagsins.
Kaup á listaverkumMikilvægt að fá sérfræðiráðgjöf

LISTAVERKAFALSANIR hafa verið stundaðar frá örófi alda, dæmi eru um falsaðar papýrusrullur í
Egyptalandi tvö þúsund árum fyrir Krists burð. Ráðið sem Battie gefur fólki er að versla fyrst og
fremst við viðurkennd fyrirtæki þegar keypt eru listaverk og antikmunir. Dýra hluti á ekki að kaupa
af ókunnum eða lítt þekktum seljanda án þess að fá sérfræðing til að skoða umræddan hlut. Einnig
er mikilvægt að fá kvittun frá sölumanni og láta þar tilgreina hver bjó hlutinn til, hvenær það var gert,
úr hverju gripurinn er og í hvernig ástandi.

"Við höfum hitt hér fólk sem fór til útlanda og keypti eitthvað, vonaði hið besta en veit nú að það
gerði mistök. Svona er þetta um allan heim," segir Battie. "Til Sotheby's kemur oft fólk í von um að
það sé með dýrmæti í höndunum en þá kemur í ljós að um eftirlíkingu er að ræða."

­Hvers vegna er fólk svona hrekklaust?

"Þetta er undarlegt en oft er það svo að fólk fer í utanlandsferð og rekst á eitthvað spennandi, grip
sem það vill eiga til minja. Fólk er í leyfi og er að njóta lífsins, því líður vel og mótstöðuaflið er
minna en ella. Sölumennirnir á staðnum vefja því um fingur sér. Bretar kaupa oft teppi á Indlandi
eða í Mið-Austurlöndum á verði sem er helmingi hærra en greitt er fyrir sömu vöru í breskum
stórmörkuðum. Jafnframt er þetta mun hærra verð en það þyrfti að greiða fyrir antikteppi sem auk
þess fellur ekki í verði."

­Nú eru oft miklir fjármunir í húfi þegar fjallað er um listaverk. Er eitthvað gert á alþjóðavettvangi
gegn listaverkafölsunum?


"Það er ekkert hægt að gera. Það eru engin alþjóðalög gegn fölsunum enda ekkert rangt við það í
sjálfu sér að búa til falsað verk. Vandræðin byrja ekki fyrr en einhver reynir að telja fólki trú um að
verkið sé ósvikið, þá er um lagabrot að ræða.

Þetta er á hinn bóginn sjaldan það sem gerist. Í gær kom til mín maður með innrammað málverk
með risastórum merkimiða, á honum var nafn Renoir. Þetta var velþekkt verk eftir hann. Maðurinn
hafði keypt þetta í Danmörku fyrir sem svarar 10.000 krónur íslenskar, minnir mig, og þegar ég
skoðaði það komst ég að raun um að þetta var ekki annað en venjuleg eftirprentun.

Ég er viss að kaupmaðurinn sagði alls ekki að þetta væri málverk eftir Renoir, þetta er svo augljóst.
Hélt fólkið virkilega að það væri að kaupa ósvikið Renoir- málverk fyrir 10.000 krónur?

Vísvitandi falsanir eru afar sjaldgæfar, oftast eru það eftirlíkingar og eftirprentanir sem valda
erfiðleikum þótt ekki hafi verið ætlunin að blekkja neinn. Smíðaður er stóll í 18. aldar stíl, ofið teppi
þar sem líkt er eftir 19. aldar vefnaði, máluð mynd í anda Viktoríutímans. Sérfræðingur sér yfirleitt
hvað er um að vera eða lætur að minnsta kosti ekki blekkjast til lengdar.

Það eru gefin út alþjóðleg vottorð sem fylgja viðurkenndum listaverkum á uppboðum og þá hefur
ferill verksins verið vandlega rakinn."

­Hvað nota sérfræðingar einkum til að ganga úr skugga um að verk sé ósvikið?

"Það er mjög sjaldgæft að nota þurfi einhvers konar tæknilegar greiningar eða prófanir á efni í
listaverkum. Það eru fyrst og fremst augu sérfræðingsins og önnur skilningarvit ásamt reynslu sem
koma að gagni.

Þetta á enn frekar við þegar meta skal húsgögn. Þá er einnig mikilvægt að taka vel eftir öllum
vísbendingum og smáatriðum, t.d. öllum merkjum um slit. Tökum sem dæmi 18. aldar
hægindastól. Fólk hvílir handleggina á örmunum og þeir slitna, það á að vera hægt að sjá örlítil
merki neðst þar sem fólk hefur rekið hælana í stólinn. Það er í reynd ekki hægt að falsa þessi
ummerki."

­Getur ekki verið að sumir vilji lifa áfram í sælli fáfræði, halda áfram að trúa því að gripur sé ósvikinn
og mikils virði?


"Það er sennilega rétt en mannskepnan er svo furðuleg, hún vill vita sannleikann hvað sem það
kostar. Ég verð að viðurkenna að við gerum mikið af því að valda fólki vonbrigðum. Fjölskylda getur
staðið í þeirri trú að gripur sé allt að 200 ára gamall. Þá bendi ég á að það stendur "Made in
England" á botninum, merkingaraðferð sem var fyrst notuð 1902.

Það er huggun harmi gegn að við gleðjum stundum fólk þegar í ljós kemur að það á verðmætari
hluti en það gerði ráð fyrir."

Bretinn David Battie sótti Ísland heim í liðinni viku en hann hefur unnið í þrjá áratugi hjá
uppboðsfyrirtækinu Sotheby's og er sérfræðingur í postulínsgripum og glerlist. Hann er vel þekktur í
Bretlandi fyrir þátttöku sína í vinsælum sjónvarpsþáttum BBC þar sem fólk getur fengið sérfræðinga
til að meta antikmuni og önnur listaverk. Battie er kvæntur, á þrjár dætur og varð nýlega afi.

Aðalstarf Batties núna er að flytja fyrirlestra þar sem hann ræðir m.a. hvernig fólk geti reynt að
komast hjá því að kaupa köttinn í sekknum, einnig hefur hann ritað um þessi efni. Falsanir á
listaverkum hafa verið mjög til umræðu undanfarin ár og fullyrt hefur verið að málverk sem sögð eru
eftir þekkta, íslenska listmálara séu í reynd falsanir.
Listdansmær kærir eigendur nektardansstaðar til lögreglunnar

Sakaðir um vændi og eiturlyfjasölu

LISTDANSMÆR, fyrrum starfsmaður skemmtistaðar í Reykjavík sem staðið hefur fyrir
nektarsýningum, hefur lagt fram kæru til lögreglunnar í Reykjavík á hendur eigendum umrædds
staðar, fyrir vændisstarfsemi og fíkniefnasölu.

"Sá aðili sem kærir hefur fullyrt að vændi hafi verið stundað af þeim sem boðið hafa upp á þessar
listrænu sýningar, og jafnvel hafi svokallaðar einkasýningar verið notaðar til að féfletta þá gesti sem
hlut áttu að máli og oftar en ekki voru undir áhrifum áfengis. Þannig hafi þeim verið boðin ákveðin
þjónusta meyjanna og fólki staðið til boða að kaupa fíkniefni," segir Ómar Smári Ármannsson,
aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni í Reykjavík.

Lögreglu boðin þjónusta
Óeinkennisklæddir lögreglumenn kynntu sér starfsemi skemmtistaða sem bjóða upp á
nektarsýningar um seinustu helgi, og segir Ómar Smári að, að loknum dansi hafi stúlkur gengið á
milli gesta, gefið sig á tal við þá og m.a. boðið fram áþreifanlegri þjónustu en nektardans. Málið sé í
rannsókn.

"Vændi er ekki ólögmætt hérlendis nema það sé til framfærslu eða um sé að ræða millilið sem hafi
tekjur af því, svo sem með því að útvega húsnæði undir slík viðskipti eða hafa milligöngu um
viðskiptin. Okkar hafa borist fjölmargar ábendingar um vændi í tengslum við starfsemi þessara
staða og grunsemdir eru uppi um að sumar þessara stúlkna komi úr vændisgeiranum ytra til að
stunda listdans á Íslandi," segir hann.

Ómar segir einnig í athugun hvort færsla bókhalds á þessum stöðum sé í samræmi við lög, m.a.
varðandi meðferð aðgangseyris. Grunur leiki á, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum, að meðferð
fjármuna hafi verið frjálsleg eða henni ábótavant.

Farið í kjöl á málinu
"Einnig hafa atvinnumál dansmeyjanna verið skoðuð, þ.e. undir hvaða yfirskini þær hafi komið inn í
landið, hvernig samningum er háttað við umboðsskrifstofu þeirra erlendis og tekjutryggingu þeirra
hérna og hvernig skilum á sköttum er háttað miðað við ákveðanar forsendur. Einnig hefur verið litið
til þess að ákveðnar reglur gilda um lengd veru þeirra.

Jafnframt hefur verið horft til þess þáttar sem lýtur að sjúkdómsvörnum, því ekki þarf að koma upp
nema eitt tilvik þar sem "viðskiptavinur" smitist af sjúkdómum á borð við alnæmi eða lifrarbólgu til
að framkalla sterk viðbrögð. Við höfum ekki dæmi um slíkt, en þetta er þekkt erlendis og það er
íhugunarefni hvort menn vilji fljóta sofandi að feigðarósi.

Sagðar tengjast eiturlyfjum
Þá hefur komið fram að sumar þessara stúlkna hafi tengst meðferð og neyslu fíkniefna og einnig
hefur verið spurt um bakgrunn þeirra erlendis, þ.e. hvort þær hafi komið við sögu afbrotamála
erlendis og þá hvers konar afbrotamálum."
Samkomulag milli stjórnarflokkanna um breytingar á lögum um LÍN

Endurgreiðsluhlutfall lækkað í 4,75%

STJÓRNARFLOKKARNIR hafa náð samkomulagi um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra
námsmanna og mun menntamálaráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingarnar á Alþingi í
dag eða á morgun. Björn Bjarnason menntamálaráðherra segir fulla sátt um málið innan
stjórnarflokkanna. Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands undrast að yfirlýsingar
framsóknarmanna um samtímagreiðslur námslána séu að engu orðnar.

Með frumvarpinu er lagt til að endurgreiðsluhlutfall verði lækkað í 4,75% en samkvæmt núgildandi
lögum er það allt að 7%. Endurgreiðsluhlutfallið er afturvirkt, þannig að það gildir einnig fyrir þá sem
tóku lán frá 1992 með endurgreiðsluhlutfallinu 5-7%.

Í frumvarpinu felst einnig að námsmaður hefur rétt til mánaðarlegra greiðslna í gegnum bankakerfið
frá upphafi námstíma, án þess að hann þurfi sjálfur að greiða fjármagnskostnað. Til þess að greiða
hann verða teknir upp beinir styrkir. Þá verður samið við banka um þau skilyrði sem lántakendur
með ábyrgð frá LÍN þurfa að uppfylla.

Námsmenn ósáttir
Haraldur Guðni Eiðsson, formaður Stúdentaráðs, kveðst ánægður með lækkun
endurgreiðsluhlutfalls, þó að vissulega hefði hann viljað sjá meiri lækkun. Aftur á móti segir hann
námsmenn ósátta við hvernig verið sé að færa lánasjóðinn til bankanna. Í raun sé ekki verið að taka
upp samtímagreiðslur eins og Framsóknarflokkurinn hafi margoft lýst yfir vilja til, heldur séu
eftirágreiðslur LÍN enn í fullu gildi.

"Námslánin verða eftir sem áður borguð út tvisvar á ári. Námsmenn fá mánaðarlegar útborganir frá
bankanum en í stað þess að fá lán fyrir vöxtum eiga þeir nú að fá styrk. Þetta þýðir í raun að nú
fær bankakerfið 50-60 milljónir á ári frá ríkinu. Yfirlýsingar framsóknarmanna um samtímagreiðslur
eru foknar út í veður og vind, nú kyngja þeir öllu og menntamálaráðherra fær öllu sínu framgengt,"
segir Haraldur Guðni.

Menntamálaráðherra segir að það komi sér á óvart að menn telji það óheppilegt að lánaviðskipti fari
í gegnum banka. "Þeir eru nú einu sinni þær stofnanir sem eru best fallnar til að veita slíka
þjónustu og eru með bestu aðstöðuna til þess," segir ráðherra.

Rúmlega 200 milljóna kostnaðarauki á ári
Fjölgað verður úr sex í átta í stjórn sjóðsins. Iðnnemasamband Íslands fær aðalmann í stað
áheyrnarfulltrúa áður og menntamálaráðherra fær einn fulltrúa til viðbótar. Þá er lagt til að sett verði
sérstök heimild í lög fyrir stjórn sjóðsins til þess að geta komið til móts við námsmenn sem verða
fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla. Sú heimild hefur enn ekki verið útfærð
nánar, að sögn ráðherra.

Áætlaður kostnaður vegna breytinganna nemur um 202-226 milljónum króna á ári og er þá ekki
tekið tillit til áhrifa breyttra reglna á eftirspurn eftir lánum.
Lífsiðfræðiráð fjalli um líftækni og einræktun

HJÖRLEIFUR Guttormsson, þingmaður Alþýðubandalags, hefur lagt fram þingsályktunartillögu á
Alþingi um að komið verði á fót lífsiðfræðiráði til að fjalla um álitaefni sem tengjast erfðabreytingum
og einræktun á lífverum. Ráðinu verði ætlað að fylgjast með þróun í líftækni innnan lands og
erlendis, vera stjórnvöldum til ráðgjafar og uppfræða almenning.

Í greinargerð með ályktuninni bendir þingmaðurinn á hraða þróun í líftækni á síðustu árum og nýjar
fréttir af einræktun dýra. Hann segir nauðsynlegt að siðfræðileg gildi fái aukið vægi við mat á því
hvert skuli stefna í þessum efnum og að þar verði stofnun lífsiðfræðiráðs lóð á vogarskálarnar.
Höfuðkúpubrotinn með hleðslusteini í árás þriggja ungmenna

Óvenju hrottafengin árás í miðbænum

Maðurinn losnaði af gjörgæslu í gær og er talinn á batavegi

TÆPLEGA fjörutíu og fjögurra ára gamall karlmaður, sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á horni
Pósthússtrætis og Austurstrætis aðfaranótt sunnudags, var útskrifaður af gjörgæsludeild
Sjúkrahúss Reykjavíkur í gær. Tveir af þremur ungum mönnum sem handteknir voru í tengslum við
rannsókn málsins voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í fyrrakvöld. Þeir eru rétt rúmlega tvítugir.

Þrjú vitni gáfu sig fram við lögreglu sem var kölluð á staðinn örskömmu eftir að árásin átti sér stað,
og þykir atburðarásin nokkuð ljós.

Sleginn með hleðslusteini
Að sögn sjónarvotta virðist sem árásarmennirnir hafi vikið sér að manninum laust eftir klukkan tvö
um nóttina á fyrrgreindum stað, sparkað í hann þar sem hann stóð fyrir utan kaffihúsið Kaffi París
og síðan lamið hann með hleðslusteini í höfuðið aftanvert þannig að hann féll í götuna.

Árásarmennirnir hafi þá haldið áfram að sparka í hann liggjandi, meðal annars í andlit. Einn þeirra
hafi gengið harðast fram í árásinni, sem virðist hafa verið óvenju hrottafengin samkvæmt
upplýsingum frá lögreglu. Höfuðpaurinn hafi síðan hlaupið ásamt félögum sínum tveimur vestur
Austurstræti og veitti eitt vitnið þeim eftirför á bifreið sinni, en missti af þeim við Ingólfstorg.

Þegar lögreglan kom á staðinn lá maðurinn á gangstétt utan við kaffihúsið og hafði myndast allstór
blóðpollur við höfuð hans. Margt fólk var í kringum hinn særða en það var ekki til trafala við
aðhlynningu hans. Búið var að vefja sárabindi um höfuð hans en það var orðið gegnvott af blóði, og
lögðu lögreglumenn annað sárabindi á sárið.

Sjúkrabifreið flutti manninn skömmu síðar á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og gekkst hann
undir aðgerð á höfði síðar um nóttina. Hann komst fyrst til meðvitundar síðdegis í gær og liggur á
almennri legudeild, og virðist vera á batavegi, að sögn Ólafs Z. Ólafssonar, svæfingalæknis á
Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Maðurinn hlaut alvarlega áverka á höfði við árásina, hann
höfuðkúpubrotnaði, fékk heilahristing og blæddi inn á heilann. Steinninn virðist hafa lent hvasst á
höfðinu og gengið um tvo sentímetra inn í heilann.

Ekki vitað um tilefni
Grunur beindist fljótlega að ungum manni sem búsettur er í Kópavogi og skömmu fyrir klukkan sex
sömu nótt var hann handtekinn við bensínstöð við Stórahjalla, vegna gruns um ölvunarakstur.
Klæðnaður hans átti við lýsingu vitna á forvígismanni árásarinnar í Austurstræti og var hann færður
á lögreglustöð og tekið úr honum blóðsýni.

Hann var þá vistaður í fangageymslu og skömmu síðar voru tveir piltar aðrir handteknir vegna gruns
um aðild þeirra. Erfitt reyndist að yfirheyra þá hjá RLR vegna ölvunar fyrr en síðdegis á sunnudag,
en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa ekki komið fram tengsl á milli árásarmannanna og
þess sem varð fyrir árásinni og leikur grunur á að árásin hafi verið tilefnislaus.

Tvær líkamsmeiðingar í fyrra
Sá sem er grunaður um að hafa mest haft sig í frammi, hefur ítrekað komið við sögu lögreglu frá því
1988, þegar hann var um þrettán ára gamall. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur hann
meðal annars verið kærður fyrir þjófnað, innbrot, fölsun, ölvunarakstur og líkamsárásir, bæði einn
og í slagtogi við aðra, auk gruns um innflutning á fíkniefnum í ágúst á seinasta ári ásamt öðrum
manni, en það mál er í rannsókn hjá fíkniefnadeild lögreglu.

Hann átti tuttugu og tveggja ára afmæli þann dag sem árásin átti sér stað aðfaranótt sunnudags og
var einnig kærður fyrir líkamsárás í Lækjargötu í apríl fyrir rúmu ári. Kæra um líkamsárás í miðbæ á
hendur piltinum frá nóvember síðastliðnum var vísað til embættis ríkissaksóknara í byrjun þessa
mánaðar.

Hleðslusteinninn, sem mennirnir þrír beittu við árás sína, kom úr nálægum steinahlaða, sem þar
hefur staðið ásamt öðrum slíkum í tengslum við endurbætur á Lækjartorgi.


Lúða gleypir þorsk

Neskaupstað, Morgunblaðið

SKIPVERJAR á Barða NK, sem var að veiðum á Papagrunni nýverið, fengu 60 til 70 kg lúðu í
vörpuna sem ekki er í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þegar farið var að gera að lúðunni
kom í ljós að hún hafði gleypt plastbakka með tilbúnum fiskrétti.

Nánar tiltekið var hér um að ræða roð- og beinlausan þorsk og var lítið farið að sjást á bakkanum
og plastinu utan um hann. Hefur lúðan því trúlega verið nýlega búin að gleypa góðgætið. Það var að
sjálfsögðu framleitt á Íslandi. Þess má að lokum geta að á bakkann var stimplaður síðasti
söludagur ­ í desember 1997.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands

Aukin menntun leiðir til meiri hagvaxtar

SAMHLJÓÐA niðurstaða þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á sambandi hagvaxtar og
menntunar er að sterkt jákvætt samband ríki þar á milli. Það er að segja að aukin menntun leiði til
meiri hagvaxtar. Lauslegar tölfræðilegar rannsóknir gefa til að mynda til kynna að 1% hækkun á
meðalskólagöngu vinnuaflsins leiði til 0,3% hagvaxtar á tilteknu ári, að öðru óbreyttu.

Þetta kemur meðal annars fram í greinargerð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem Björn
Bjarnason menntamálaráðherra og Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar,
kynntu á blaðamannafundi í gær.

Í greinargerðinni sem tekin var saman að ósk menntamálaráðherra kemur fram að mannauður, sú
þekking sem einstaklingur hefur yfir að ráða, skýri að talsverðu leyti mismunandi framleiðni milli
þjóða. Áréttað er að auðlegð Íslendinga byggist að miklu leyti á náttúruauðlindum. En "til að
hagvöxtur geti verið jafn og stöðugur um ókomin ár þarf að minnka vægi náttúruauðlinda í auðlegð
Íslendinga með því að leggja meiri áherslu á mannauðinn." Í máli Tryggva kom fram að til mikils
væri að vinna til að ná þessum árangri, þó ljóst væri að það gerðist ekki á skömmum tíma.

"Stjórnvöld gætu haft áhrif á mannauðinn með því að hvetja einstaklinga til menntunar og búa
skólastarfinu gott umhverfi. Liður í þessu væri að efla rannsóknir, bæði grunnrannsóknir og
hagnýtar rannsóknir sem koma atvinnulífinu strax til góða," segir ennfremur í greinargerðinni.

Lagt til að hvetja nemendur til dáða með umbunarkerfi
Tryggvi nefndi ennfremur nokkrar leiðir sem stjórnvöld gætu farið til að auka mannauð þjóðarinnar.
Hann lagði til dæmis til að aukin áhersla verði lögð á að auka gæði menntunar en ekki fjölda
prófgráða, svo sem með lengra skólaári, bættu námsefni og betur menntuðum kennurum. En
rannsóknir sýni að fjöldi stunda á bakvið prófgráðu sé minni á Íslandi en í mörgum löndum OECD
og því gætu gæði prófgráða milli landa verið mjög mismunandi.

Þá lagði hann til að nemendur yrðu hvattir til dáða með einhvers konar umbunarkerfi en einnig að
öll skólastig og rannsóknir innan þeirra yrðu efld, þó þannig að arðsemi mismunandi tegundar
menntunar væri að einhverju leyti höfð til hliðsjónar sérstaklega á framhalds- og háskólastiginu.

Auk þess lagði Tryggvi til að rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækja almennt yrði styrkt, til dæmis
með skattaívilnunum, en ekki með sértækum aðgerðum. En í greinargerðinni segir að þó ljóst sé
að mikið átak hafi átt sér stað í rannsóknar- og þróunarstarfi á Íslandi síðastlinn aldarfjórðung, sé
framlag Íslendinga til þessa málaflokks hlutfallslega minna en annarra OECD ríkja.

Launþegum verði greitt í samræmi við menntun
Þá lagði Tryggvi til að stjórnvöld hvetji til þess að launþegum verði greitt í samræmi við menntun
sína og hæfileika þannig að menntun verði eftirsóknarverðari fyrir einstaklinginn en hún er í dag.
Máli sínu til stuðnings benti hann á rannsókn Félagsvísindastofnunar sem gerð var á árunum 1993
til 1995 en þar kemur fram að launabilið á milli menntaðra og ómenntaðara einstaklinga hefur
minnkað á undanförnum áratugum. "Sennilegt er að haldi þróunin áfram sem horfir, þ.e. ef
tekjudreifingin breytist ekki, muni skynsamir einstaklingar kjósa annað af tvennu: Að starfa erlendis
þar sem hærri laun eru greidd að námi loknu eða mennta sig ekki. Af þessu má sjá að að
hugsanleg hætta er fyrir hendi að menntunarstig Íslendinga lækki í framtíðinni að óbreyttu kerfi,"
segir í greinargerðinni.

Í máli Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra á blaðamannafundinum í gær kom fram að hann liti
á greinargerð þessa sem nauðsynlegan þátt í almennri umræðu um mennta- og skólamál, þar sem
kæmi m.a. fram rökstuðningur fyrir því að fjárfesting í skólakerfinu væri ekkert annað en fjárfesting í
auðugra þjóðfélagi. Hann tók undir þau sjónarmið Tryggva að leggja bæri áherslu á að auka gæði
menntunar en ekki prófgráða og að umbuna ætti þeim sem mennta sig með hærri launum. Þá
samsinnti hann því að mikilvægt væri að efla rannsóknir og þróunarstarf.
Margmiðlunardiskur frá Islandia

MARGMIÐLUNARDISKUR sem "Islandia er að leggja lokahönd á um þessar mundir, mun vera sá
fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Diskurinn ræsir sjálfvirkt upp feril sem leiðir notandann beint að
netinu, leysir hann því margskonar vandamál sem notandi lendir í við notkun netsins. Ásamt þessu
inniheldur diskurinn um 300 forrit sem tölvunotendur geta nýtt sér, má þar m.a. nefna tölvuleiki,
ýmis áhöld, grafísk forrit, hljóðforrit, alnetshugbúnað og kerfistól", segir í fréttatilkynningu frá
Islandia.

Diskurinn er fyrst og fremst hannaður fyrir alnetsnotendur en kemur einnig að góðum notum fyrir þá
sem ekki eru tengdir alnetinu.

Ennfremur segir: "Diskurinn hefur þá sérstöðu að gagnast bæði Macintosh­ og PC­tölvum, stækkar
þar af leiðandi markaðshópurinn til muna og má því gera ráð fyrir að diskurinn endi í flestum tölvum
landsmanna, hvort sem um er að ræða fyrirtækis­ eða einkatölvur. Disknum verður dreift án
endurgjalds í helstu tölvu­ og bókaverslunum landsins."

Diskurinn mun fara á markað í lok febrúar.
Samkomulag um að Reykjavíkurborg annist nemendur Miðskóla

Kennt áfram í sama húsnæði

REYKJAVÍKURBORG náði í gær samkomulagi við leigusala Miðskóla um að hann leigi borginni
húsnæði skólans, að því tilskildu að skólinn rifti gildandi húsaleigusamningi. Kennarar skólans
samþykktu jafnframt að hefja störf hjá Reykjavíkurborg við kennslu þeirra barna sem eru í skólanum
til vors.

Gerður Óskarsdóttir fræðslustjóri segir að henni finnist trúlegt að skólinn rifti samningnum, en þá
sé um leið ljóst að Miðskóli sé búinn að leggja upp laupana. Vinna við samningamál verði innt af
hendi um helgina og hún geri sér vonir um að kennsla hefjist að n
hætti, undir stjórn borgarinnar.

Miðskólinn liðin tíð
Þorkell Steinar Ellertsson, formaður skólastjórnar, segir að þessi ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi
ekki borist stjórninni formlega og ákvörðun um riftun leigusamnings verði ekki tekin fyrr en svo
verði.

"Skyndilega virðist vera kominn skriður á mál sem hefur lengi snúist um sjálft sig. Við munum
greiða fyrir því að skólinn geti starfað áfram með eðlilegum hætti, þ.e. að börnin fái að ljúka sínu
skólaári án þess að sæta hnjaski og umtali. Miðskólinn sem slíkur er þar með genginn á vit sinna
feðra," segir hann og kveðst gera ráð fyrir að þessi breyting verði í næstu viku. Skólinn eigi
einhverjar eignir upp í skuldir.

Kennarar skólans inntu ekki kennslu af hendi í fyrradag og mættu ekki til viðtala við foreldra í gær,
eins og gert var ráð fyrir, að sögn Braga Jósepssonar forstöðumanns Miðskóla. "Kennararnir
ákváðu að beita þessum þrýstingi því að þeir höfðu ekki fengið greidd laun að fullu, en ég ræddi
sjálfur við foreldrana og vona að þessi mál verði frágengin á mánudag," segir hann. Í skólanum eru
25 börn og hafa foreldrar greitt 12 þúsund krónur á mánuði fyrir hvert barn, en 16 þúsund fyrir börn
búsett í öðrum sveitarfélögum.

Gerður segir að Reykjavíkurborg geti ekki innheimt skólagjöld eða efniskostnað, enda sé það
andstætt lögum, en hins vegar geti borgin tekið gjald fyrir þá viðveru sem sé umfram lögboðna
kennslu eins og gert sé í sk. heilsdagsskólum.

Reykjavíkurborg ekki ábyrg
Reykjavíkurborg sagði skólanum upp húsnæði í Miðbæjarskóla í fyrravor, vegna þess að nýrri
Fræðslumiðstöð Reykjavíkur var ætlaður sá staður. Eftir nokkra leit fann Miðskóli húsnæði í
Skógahlíð sem tekið var á leigu og hefur hluti af reglubundnum styrk borgarinnar verið
eyrnarmerktur húsaleigunni, um 190 þúsund krónur á mánuði. Gera þurfti talsverðar breytingar á
húsnæðinu til að það hentaði kennslu og nam kostnaður við þær um 8 milljónum króna. Borgin
samþykkti að greiða helminginn af þeim kostnaði.

Gerður segir að Miðskóli hafi frá því borgin tók yfir umsjón grunnskóla, fengið nákvæmlega jafnháa
upphæð frá Reykjavíkurborg og ríkið greiddi honum.

"Áður fyrr styrktu ríki og borg skólann og eftir að borgin tók alveg við, hélst sú fjárveiting óbreytt að
viðbættum hlut ríkisins. Seinasta sumar fékk skólinn einnig 4 milljónir til að gera upp húsnæði sitt í
Skógarhlíð, auk þess sem borgin lét af hendi ýmis húsgögn endurgjaldslaust. Þá hefur borgin
alfarið greitt húsaleiguna og kostnað við notkun á íþróttahúsi Vals fyrir Miðskóla. Einnig hefur
borgin greitt ákveðna upphæð í rekstur og laun og nam sú upphæð tæpum þremur milljónum króna
í fyrra," segir hún.

Gerður neitar því að sú ákvörðun borgar að segja skólanum upp húsnæði í Miðbæjarskóla og
kostnaður sem af því hlaust, skýri slæma fjárhagsstöðu skólans.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram hjá Þorkatli Steinari að tíu daga dráttur á styrk frá Reykjavíkurborg
skýrði tafir á launagreiðslum, en að sögn Gerðar varð einungis tveggja daga bið á greiðslu, sem
stafað hafi af veikindum þess starfsmanns fræðslumiðstöðvar sem fer með málið. Því hafi skólinn
fengið þetta fé í seinasta lagi 2. febrúar sl.
Deilt um framtíð Miklubrautar í skipulagsnefnd

FRESTAÐ var afgreiðslu skýrslu um skipulag Miklubrautar á síðasta fundi skipulagsnefndar
Reykjavíkur og kaflanum um loft- og hávaðamengun var vísað til heilbrigðisnefndar. Í bókun
borgarfulltrúa Reykjavíkurlista segir að lagning Miklubrautar í stokk sé verulega til bóta fyrir íbúa en
í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks segir að ef gatan verði lögð í stokk myndi umferðin færast
inn í nærliggjandi íbúðahverfi.

Í bókun borgarfulltrúa Reykjavíkurlista segir meðal annars, að skylt sé að stíga fyrstu skrefin í þá
átt að sporna við óheftri aukningu einkabíla í borginni. Þess vegna sé í aðalskipulagi gert ráð fyrir
tiltölulega lítilli aukningu umferðarrýmis vestan Elliðaáa. Áhersla verði lögð á að aðalgatnakerfið
verði lagfært til muna í því skyni að fækka umferðarslysum og draga úr mengun.

Í mótsögn við eigin lausnir
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks bókuðu mótmæli gegn tillögu Reykjavíkurlista
um uppbyggingu Miklubrautar, sem sé meginumferðaræð í Reykjavík. Bent er á að fulltrúar
Reykjavíkurlista séu í sínum sérbókunum í mótsögn við þær lausnir sem þeir leggi til að fylgt verði.
Sérstaklega eigi þeir erfitt með að gera upp hug sinn um hvort gatnamót við Kringlumýrarbraut eigi
að vera ljósastýrð eða mislæg. Sjálfstæðismenn leggi til að arðbærasti kosturinn verði valinn með
þeirri breytingu þó að Miklubrautin verði ekki lögð í rör eða stokk vestast og að gatnamót við
Kringlumýrarbraut og Skeiðarvog verði mislæg. Fram kemur að lagning Miklubrautar í stokk að
Snorrabraut muni draga úr hávaða og loftmengun við götuna en aðgengi að Hlíðunum myndi versna
og umferð flytjast yfir á íbúðargötur. Leita þyrfti annarra lausna við mengunarvandanum hvort sem
þær fælu í sér kaup á íbúðum við götuna eða ekki.

Stokkur til bóta
Í bókun Reykjavíkurlista segir meðal annars að tillögur varðandi Miklubraut séu
byggðar á skýrslu og nákvæmri úttekt, sem unnin sé í samræmi við sambærilegar forsendur í
umferðarskipulagi og verið hafi. Bent er á að mislæg gatnamót í íbúðahverfi í nágrenni miðbæja séu
vandleyst hvað varðaði umhverfissjónarmið.

Lagning Miklubrautar í stokk að vestan sé veruleg bót fyrir þau hús sem búa við mestu loft- og
hávaðamengunina og bæti aðgengi að útivistarsvæðinu á Miklatúni. Samkvæmt tillögunni sé gert
ráð fyrir grænu svæði, þar sem nú sé stór og fjölfarin umferðaræð. Nánari útfærsla bíði
deiliskipulags sem unnið verði í samvinnu við íbúa.
Verslanir farnar að hamstra mjólk

Gripið verður til skammtana ef kaupmenn hamstra mjólk í miklum mæli

KAUPMENN hafa þegar brugðist við yfirvofandi verkfalli hjá starfsmönnum Mjólkursamsölunnar með
því að kaupa 100 þúsund lítrum meira af mjólk en eðlilegt má teljast í þessari viku. Þórður
Jóhannsson, dreifingarstjóri hjá Mjólkursamsölunni, segir að fyrirtækið hafi enn sem komið er
getað annað þeim pöntunum sem borist hafa en segir ljóst að gripið verði til skammtana ef þess
verður vart að kaupmenn fari að hamstra mjólk í miklum mæli.

Þórður segir að ef ekkert gerist í samningamálum megi búast við því að strax á morgun fari að
draga úr því magni mjólkur sem berist til Mjólkursamsölunnar. "Við erum að keyra út mun meiri
mjólk en við gerum venjulega. Verslanirnar eru farnar að kaupa mun meira af mjólk en venjulega,"
sagði Þórður.

"Kýrnar mjólka ekki fyrirfram"
Á virkum dögum eru keyrðir út um 80 þúsund lítrar á dag í verslanir en á fimmtudögum og
föstudögum fer magnið upp í 140 þúsund lítra á dag. Þórður segir að starfsfólk Mjólkursamsölunnar
hafi verið undir auknu álagi vegna mikillar aukningar í mjólkursölu. Ekki hafi orðið vart við að
starfsmenn hafi hægt á sér við vinnu eins og orðrómur var uppi um að þeir myndu gera seinni hluta
vikunnar.

Ekki verður hægt að auka frekar útkeyrslu mjólkur en orðið er vegna þess að vöruflæðið til
Mjólkursamsölunnar eykst ekki. "Kýrnar mjólka ekki fyrirfram og það verður að ráðast hvernig varan
berst hingað inn," sagði Þórður.

Hann sagði að með þeim ráðstöfunum sem þegar hefur verið gripið til væri hægt að auka við söluna
um 100­150 þúsund lítra á viku.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri

Moskva heimsborg innan örfárra ára

INNAN örfárra ára verður Moskva orðin ein af heimsborgunum ef þróunin heldur áfram eins og á
undanförnum árum, að mati Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra en hún var viðstödd þriggja
daga hátíðarhöld í tilefni 850 ára afmælis Moskvuborgar. Borgarstjóri átti meðal annars fund með
Yuri Luzhkov, borgarstjóra Moskvu, sem sýndi mikinn áhuga á Reykjavík sem vetrarborg og fræddi
hann um einangrun húsa sem er mikið vandamál í Moskvu.

Ingibjörg sagðist hafa skynjað sterkt sögu og menningu þjóðarinnar og um leið hvað möguleikarnir
væru miklir í framtíðinni. "Mér finnst eins og Moskva geti eftir örfá ár verið orðin ein af
heimsborgunum ef þróunin heldur áfram eins og hún hefur verið á undanförnum árum," sagði hún.
"Vandamálin eru gífuleg sem Rússar eru að glíma við og má þá nefna mengun og alla innri
uppbyggingu samfélagsins."

"Til marks um að lýðræðið er farið að skjóta rótum get ég nefnt að gefin eru út blöð, sem eru mjög
gagnrýnin á stjórnvöld. Í einu blaðanna, sem gefið er út á ensku, var því haldið fram að
heimilisleysingjarnir í Moskvu hefðu allir verið reknir út fyrir borgina í tilefni hátíðarhaldanna en engu
að síður þegar haldnir voru miklir tónleikar á háskólatorginu, voru þar saman komnar um 3,5
milljónir manns. Það fólk sem maður sá þar var ekki tötrum klætt og það sem kom mér á óvart var
að varla sá vín á nokkrum manni. Auðvitað sé ég þetta með gestsaugum og sé þetta í einhverri
sjónhendingu en fólkið sem sást á götunum hefði getað verið statt hvar sem var í heiminum. Í
verslunum var nóg af öllu en miðað við laun hafa fáir efni á þeim vörum. Mér var sagt að
millistjórnandi hjá Moskvuborg hefði 200 dollara á mánuði í laun. Það dugar skammt en auðvitað er
kominn upp stór hópur nýríkra og ábyggilega talsverður hópur sem hefur mikla kaupgetu. Það sér
maður á bílunum sem hvergi sjást flottari."

Stórtækur atvinnurekandi
Ingibjörg sagði að Moskvuborg væri mjög stórtæk í atvinnurekstri. Borgin ræki banka sem væri ein
stærsta fjármálastofnun í Rússlandi, sjónvarpsstöð, símaþjónustu og olíufyrirtæki og er allur þessi
rekstur að stórum hluta til í samkeppni við einkaaðila.

Að undanförnu hefur verið unnið við að gera upp gamlar byggingar í borginni og meðal annars hefur
Kirkja frelsarans, sem reist var til minningar um sigurinn yfir Napóleon verið endurbyggð en Stalín
lét sprengja hana í loft upp og byggja sundlaug í hennar stað. Sagði Ingibjörg að kirkjan væri tákn
um að nú hefði blaðinu verið snúið við.

Öflugur og kraftmikill
Ingibjörg sagði að Yuri Luzhkov, borgarstjóri Moskvu, hefði virkað öflugur og kraftmikill. "Sagan
segir að hann sé allt um kring og fari einu sinni í viku í yfirreið á alla þá staði, þar sem framkvæmdir
eru í gangi til að sjá hvort menn eru á áætlun og ef ekki þá fá menn bágt fyrir," sagði hún. "Hann
nýtur gífurlegra vinsælda í Moskvu. Hann var endurkjörinn árið 1996 og hlaut 90% atkvæða. Öll
þessi hátíðarhöld voru sögð vera liður í því að hann muni bjóða sig fram til forseta árið 2000."

Ingibjörg sagði að Luzhkov hefði sýnt mikinn áhuga á Reykjavík sem vetrarborg og vildi vita hvernig
við einöngruðum húsin en það væri mikið vandamál sem borgaryfirvöld í Moskvu stæðu frammi fyrir.
Hús væru þar illa einangruð og því væri leitað leiða til að draga úr hitatapi. "Hann hafði áhuga á að
vita hvernig við færum að í þessum efnum og eins hvernig nýta mætti orkuna sem best til
upphitunar," sagði Ingibjörg. "Þeir voru mjög hrifnir af að heyra hvernig við leiðum vatn 60 km frá
Nesjavöllum og töpum ekki nema tveimur gráðum í hita á leiðinni. Þessu sýndu þeir mikinn áhuga."
Starfsmenn Evrópuráðsþingsins gera tilraun hérlendis í dag

Myndfundatækni til að taka þátt í nefndarstörfum

Í DAG verður athugað hvort mögulegt er fyrir þingmenn hér á landi að taka þátt í nefndarstörfum
Evrópuráðsþingsins í Strassborg með aðstoð myndfundatækni. Tilraunin fer fram að frumkvæði
Tómasar Inga Olrich, alþingismanns, sem á sæti á Evrópuráðsþinginu ásamt fleiri
alþingismönnum, en þetta mun vera í fyrsta skipti sem þetta er reynt hjá Evrópuráðsþinginu. Ef
tilraunin tekst vel má vænta þess að Íslendingar og aðrar þjóðir sem sæti eiga á Evrópuráðsþinginu
geti tekið þátt í nefndarstörfum með þessum hætti þegar ekki er aðstaða til að sækja
nefndarfundina.

Tilraunin fer fram í húsnæði Pósts og síma og það eru starfsmenn Evrópuráðsþingsins sem ætla
að athuga hvort mögulegt er að tengja menn á fjarlægum stöðum við nefndarfundi þingsins. Tómas
Ingi sagði að búinn væri til sýndarfundur til þess að láta reyna á ýmis tæknileg atriði. Bæði væru
menn að velta fyrir sér tæknilegum lausnum og einnig þeim áhrifum sem þetta gæti haft á
fundarsköp.

Það væri ekki gert ráð fyrir því í fundarsköpum þingsins að menn geti komið inn í starf nefndanna
án þess að vera á staðnum. Auk þess væri nefndarmönnum heimilt að tjá sig á mörgum
tungumálum á nefndarfundum og það skapaði sérstök vandamál í tengslum við myndfundi.

Tungumál valið fyrirfram
Tómas Ingi sagði að þannig yrðu væntanlega þeir sem sæktu nefndarfundina fyrir tilverknað
tækninnar að vera búnir að velja fyrirfram það tungumál sem þeir hygðust nota. Þeir yrðu tengdir
inn á nefndarfundinn meðan fundarmenn töluðu það tungumál, en yrðu síðan tengdir sjálfkrafa inn á
þýðingarþjónustu þegar einhver nefndarmanna skipti yfir á annað tungumál. Þá væri líklegt að þeir
sem sætu fundina með tilverknaði tækninnar gætu ekki tekið þátt í leynilegum atkvæðagreiðslum,
þó atkvæðagreiðslur með handauppréttingum ættu ekki að vera vandamál.

Tómas Ingi sagði að ástæðan fyrir því að hann hefði haft frumkvæði að því að þetta yrði reynt væri
sú að við hefðum ekki getað setið alla fundi nefnda Evrópuráðsþingsins. Vanalega sætum við ekki
nema um helming nefndarfunda á ári.

"Það er mjög bagalegt fyrir okkur í vissum tilvikum þegar fjallað er um málefni sem snerta mikið
íslenska hagsmuni að geta ekki blandað sér í málin á meðan þau eru á umræðustigi. Það er oft
mjög erfitt að hrófla við málum eftir að þau eru komin í fastan farveg og af umræðustigi. Af þessum
sökum hef ég talið það óviðunandi að við gætum ekki með einhverjum hætti haft áhrif á svona
fundum og þess vegna vakti ég athygli forseta þingsins á því hvort ekki mætti koma til móts við
þær þjóðir sem byggju við þessar aðstæður, að geta ekki sótt fundina og opna möguleika á
myndfundum," sagði Tómas Ingi ennfremur.

Hann sagði að hann hefði hins vegar tekið það skýrt fram, að það væri ekki ætlast til þess að þetta
kæmi í staðinn fyrir fundina heldur væri um undantekningarúrræði að ræða. Hins vegar gæti þetta
úrræði gert okkur mögulegt að sækja fundi með tiltölulega litlum kostnaði í stað þess að þurfa að
fara á fund í Frakklandi, sem tæki ef til vill ekki nema 3-4 klukkutíma, en kostaði þriggja daga
vinnutap og 200 þúsund krónur.

Mikið hagsmunamál
"Þetta er okkur mikið hagsmunamál. Það er rétt að hafa í huga að þingmaður frá Frakklandi sem
mætir á slíkan fund eyðir kannski í fundinn 4-5 klukkustundum og 50 frönkum í leigubíl. Fyrir okkur
aftur á móti er þetta bæði mjög kostnaðarsamt og tímafrekt og það sama gildir að sjálfsögðu um
þessar nýju lýðræðisþjóðir í Austur-Evrópu sem eiga um langan veg að sækja fundi," sagði Tómas
Ingi að lokum.
Fræðsla frekar en bönn

ÝMIS ofbeldisverk barna og unglinga urðu kveikjan að mikilli umræðu í fyrra um áhrif myndmiðla,
bæði kvikmynda og tölvuleikja, á hegðun ungs fólks. Nefnd sem skipuð var af menntamálaráðherra
til að gera tillögur um hvernig hamla mætti áhrifum af grófu ofbeldisefni og jafnframt auka skilning á
kvikmyndum sem listgrein, skilaði áliti fyrir skömmu. Formaður hennar var Karl Jeppesen,
forstöðumaður fjarskóla Kennaraháskóla Íslands.

Hver var niðurstaða nefndarinnar?

"Við urðum fljótlega sammála um að við vildum ekki leggja til í skýrslunni að ákveðið efni eða
ákveðnar myndir yrðu bannaðar. Við viljum frekar fara fræðsluleið, að kenna börnum að lesa og
meta myndefni á gagnrýnin hátt þannig að þau geti sjálf valið og hafnað og áttað sig á hættunni
sem fylgir óheftu ofbeldisefni sem víða er sýnt. Það getur vel verið að við höfum með þessu farið
aðra leið en til var ætlast þegar þetta starf fór af stað, en við höfum einfaldlega ekki trú á að bönn
hafi áhrif í þessum efnum."

Þið leggið mikla áherslu á að kenna börnum að greina milli sýndarveruleika og raunveruleika. Er
algengt að þau geti það ekki?


"Já, oft heldur leiknum áfram eftir að komið er út úr tölvuleikjasalnum eða bíósalnum. Sérfræðingar
eru reyndar ekki sammála um hvaða áhrif þetta hefur á ofbeldi. Rannsóknir benda til þess að ef
myndefnið er mjög ólíkt þeirra eigin raunveruleika sé hættan minni. Til dæmis hafa kvikmyndir sem
fjalla um unglinga og gerast í borgarumhverfi yfirleitt meiri áhrif en kúrekamyndir."

Hvernig á fræðslan að fara fram?

"Við leggjum til stigvaxandi umfjöllun um kvikmyndir frá grunnskólastigi og upp á
framhaldsskólastig. Í fyrstu bekkjum grunnskóla yrði fjallað um efnisþætti eins og myndræna
frásögn, veruleika og og sjálfsmynd. Í 5.­7. bekk yrði farið út í einfalda handritsgerð, fjallað um
myndmál og hljóð og rætt um gagnrýna hugsun gagnvart skilaboðum og áhrifum myndmiðla og um
fyrirmyndir í kvikmyndum. Í efri bekkjum grunnskóla yrði rætt um heim kvikmyndarinnar, innlifun,
leið frásagnarinnar frá bók í gegnum handrit og til kvikmyndar. Í framhaldsskóla yrði fjallað um
félagslegan þátt kvikmynda, um kvikmyndir sem listgrein og kvikmyndatækni. Reyndar gerðum við
líka tillögur um fræðslu á háskólastigi, til dæmis fyrir verðandi kennara. Við leggjum líka áherslu á
nauðsyn þess að fræða foreldra. Það viljum við gera með bæklingi þar sem foreldrum er leiðbeint
um það hvernig þeir geti horft á myndefni með börnum sínum, rætt um það og leiðbeint þeim um
vandaðra val."

"Er einhver kennsla á þessu sviði í skólum núna?"

"Í gildandi námskrá er á nokkrum stöðum fjallað um fjölmiðlafræðslu og það er til námsefni frá
Námsgagnastofnun sem kennir blaðamennsku og greinaskrif. Ýmsir kennarar hafa stundað það að
skoða fjölmiðla og bíómyndir með nemendum sínum og ræða efni þeirra. Þetta er allt mjög
einstaklingsbundið og mismunandi eftir skólum. Það hefur ekki verið mjög þægilegt fyrir kennara
að takast á við efnið, meðal annars vantar fjölbreyttara námsefni."

Er nokkur möguleiki að koma þessu betur að? Það eru margir sem vilja bæta efni á námskrána.

"Hugsunin er ekki sú að þetta verði sérstök námsgrein, nema hugsanlega á efri stigum grunnskóla
og á fjölmiðlabrautum framhaldsskóla. Fræðslan getur farið fram til dæmis sem hluti af
íslenskukennslu, samfélagsfræði og myndmennt og á þar alls staðar vel heima. Það er full ástæða
til að byrja snemma á þessari fræðslu þannig að umræðan um það hvað sé gott myndefni og hvað
slæmt fari strax af stað. Við höfum sent tillögur okkar til nefndarinnar sem semur námskrár fyrir
grunn- og framhaldsskóla og ég vona svo sannlega að hún verði tekin til greina þar. Sjálfur ætla ég
að gera það sem ég get innan Kennaraháskólans til þess að þetta efni verði fellt inn í almennt
kennaranám."

Karl G. Jeppesen er fæddur í Reykjavík á lýðveldisárinu 1944. Hann lauk prófi í Kennaraskólanum
árið 1965 og var síðar við framhaldsnám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Meistaraprófi
lauk hann frá Wales-Háskóla í borginni Cardiff árið 1991 með fræðslusjónvarp sem sérsvið. Karl
hefur starfað sem grunnskólakennari, starfað hjá Sjónvarpinu og fræðslumyndadeild
Námsgagnastofnunar og kennt á kennaranámskeiðum hjá Háskóla Íslands og
Kennaraháskólanum. Frá árinu 1995 hefur hann starfað sem kennslutæknifræðingur við
Kennaraháskólann og sér þar um fjarskóla. Karl er giftur Sigríði Hlíðar framhaldsskólakennara og
eiga þau tvær dætur.
Algert hrun rykmýs og krabbaátu í Mývatni

Fáir sem engir ungar komust upp

MIKIL niðursveifla hefur verið í lífríki Mývatns þetta sumarið. Rykmý og krabbaáta hrundu algerlega,
með þeim afleiðingum að fáir sem engir ungar komust upp hjá kaföndum á vatninu. Eina
undantekningin er sú að toppöndin, sem lifir á hornsíli en ekki mýi og krabbadýrum eins og hinar
tegundirnar, kom upp talsverðum fjölda unga, að sögn Árna Einarssonar, forstöðumanns
Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur á Veiðimálastofnun,
sem er nýkominn frá því að skoða ástand silungs í Mývatni, segir að nokkrir árgangar hafi látið
verulega á sjá og fiski hafi fækkað. Þeir sem hafi lifað af séu þeir sem gátu nýtt sér hornsíli sem
fæðu, en nóg sé af því í vatninu.

Að sögn Árna er áframhaldandi átuleysi í Mývatni fyrir endur og bleikju. Niðri í Laxá er hinsvegar
talsvert mikil áta. "Þar lifir bitmý og þar hefur verið nokkuð góð urriðaveiði í sumar. Á Laxá hafa
húsendur og straumendur komið upp ungum og einnig hefur þar verið svolítið af skúfandar- og
duggandarungum," segir hann.

Allt annað ástand á nærliggjandi vötnum
Á Mývatni er ástandið dapurt, að sögn Árna. "Skúföndin, sem er langalgengasta tegundin, kom
upp tveimur ungum og duggöndin, sem er sú næstalgengasta, kom engum unga upp. Sömu sögu
er að segja um hrafnsönd og hávellu. Hjá þriðju algengustu tegundinni, rauðhöfðaöndinni, var
ungaframleiðslan einnig með alminnsta móti."

Ástandið er allt annað á öðrum vötnum í grenndinni, sem könnuð hafa verið til samanburðar. Á
Víkingavatni í Kelduhverfi og Svartárvatni fyrir ofan Bárðardal, er talsvert mikið af rykmýi, að sögn
Árna, og þar hefur komist upp nokkur fjöldi andarunga.

Guðni segir að niðursveiflan í ár muni koma niður á veiði í Mývatni næstu árin. "Það verður kannski
einhver reytingsveiði næsta ár en síðan gæti orðið tveggja til þriggja ára lægð."
Samningur við Mitsubishi um kaup á vélasamstæðu Nesjavallavirkjunar

Tímamót í virkjanasögu Reykjavíkurborgar

SAMNINGUR vegna kaupa á vélasamstæðu í Nesjavallavirkjun af Mitsubishi Corporation var
undirritaður í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Samningurinn hljóðar upp á 1.336 milljónir króna, sem eru
76,1% af kostnaðaráætlun. Reykjavíkurborg hefur farið fram á að kærumeðferð hjá
fjármálaráðuneytinu vegna kæru umboðsmanns Sumitomo á málsmeðferð í útboðinu verði hætt.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði eftir undirritunina að þetta væri einhver stærsti
samningur um einstök innkaup sem Reykjavíkurborg hefði gert og að með honum væru mörkuð
tímamót í virkjanasögu borgarinnar. Jafnframt væri náð mikilvægum áfanga í atvinnumálum
borgarinnar.

Raforkusala hefst 1. okt. 1998
Drög að samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar lágu fyrir í desember sl. Gert er ráð
fyrir allt að 60 MW raforkuvinnslu og stefnt að því að afhending raforku frá fyrri 30 MW
vélasamstæðunni hefjist 1. október 1998 og frá þeirri síðari 1. janúar 1999. Fyrst um sinn fer öll
orkan til stóriðju en 1. mars 2001 hefst sala til Rafmagnsveitu Reykjavíkur og frá 2008 til 2018
skiptist orkusalan til helminga milli Rafmagnsveitunnar og stóriðju. Umsókn um virkjanaleyfi er nú
til meðferðar í iðnaðarráðuneytinu og standa vonir til þess að það fáist innan tíðar. Jafnframt þessu
er unnið að stækkun varmaorkuversins á Nesjavöllum úr 150 MW í 200 MW og eru áætluð verklok
þess hluta í okt. 1997.

Tilboð í byggingu nýs stöðvarhúss að Nesjavöllum voru opnuð 2. apríl sl. og átti Ármannsfell hf.
lægsta tilboðið, 347.968.000 kr., sem er um 74% af kostnaðaráætlun. Þá voru opnuð tilboð í 132
kV rofabúnað virkjunarinnar og var lægsta tilboðið frá Elin Hoec High Voltage, 62.150.829 kr. en
kostnaðaráætlun var 105.000.000 kr. Yfirferð tilboðanna er ólokið. Að sögn Alfreðs Þorsteinssonar,
formanns stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar, hefjast framkvæmdir við stöðvarhúsið í
apríllok.

Borgarstjóri benti á að jafnt tilboðin í stöðvarhúsið sem og í vélasamstæðuna gæfu ekki tilefni til að
óttast þá þenslu sem spáð hefur verið. "Ef þensluástand væri komið værum við væntanlega að sjá
talsvert hærri tölur og þ.a.l. dýrari virkjun og ekki eins arðbæra og við getum gert okkur vonir um
nú."

Deilt um lögsögu fjármálaráðuneytisins
Eftir að fyrir lá tillaga frá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar um að taka tilboði frá Mitsubishi kærði
umboðsmaður japanska fyrirtækisins Sumitomo, sem átti lægra tilboð í vélasamstæðuna,
málsmeðferðina til fjármálaráðuneytisins og hefur kærunefnd útboðsmála málið nú til athugunar.
Deilt hefur verið um hvort fjármálaráðuneytið hafi lögsögu í málinu.

"Að því gefnu að fjármálaráðuneytið hafi yfirleitt lögsögu í málinu ­ sem við teljum raunar ekki ­ þá
hefur það lögum samkvæmt rétt til að stöðva framkvæmdir fram að þeim tíma þegar samningur er
kominn á milli bjóðanda og verkkaupa, en eingöngu fram að þeim tíma," segir borgarstjóri. "Eftir að
komið er að mati á tilboðum er það ekki ráðuneytisins að skipta sér af því, ráðuneytið getur aldrei
sagt verkkaupa að hann skuli taka einu tilboði fremur en öðru."

Á hinn bóginn segir borgarstjóri ljóst að menn eigi rétt á að sækja mál sín fyrir dómstólum, telji þeir
að á sér sé brotið, en þá eigi að fara eftir hefðbundnum dómstólaleiðum en ekki gegnum
fjármálaráðuneytið. Í versta falli gæti borgin þurft að greiða fjársektir, sem að mati borgarstjóra
næmu þeim kostnaði sem bjóðandi hefur haft af því að senda inn tilboðið.
Þrír ferðaþjónustuaðilar skipuleggja ferðir í Fjörður og á Látraströnd

Gist í neyðarskýlum SVFÍ án leyfis

SLYSAVARNAFÉLAG Íslands á þrjú neyðarskýli í Fjörðum og á Látraströnd og hefur
Björgunarsveitin Ægir á Grenivík haft umsjón með þeim. Skýlin hafa verið mikið notuð af ferðafólki
til fjölda ára, lengi vel af fólki sem ferðaðist á eigin vegum, en í seinni tíð hafa ferðaþjónustuaðilar
sem gert hafa út á svæðin verið þar fyrirferðarmiklir.

Jónas Baldursson, formaður Björgunarsveitarinnar á Grenivík, segir að á liðnum árum hafi verið
nokkuð um árekstra í húsunum og hann telur hættu á enn frekari árekstrum í sumar. "Við vitum þó
að ferðaþjónustuaðilarnir sem selja ferðir á svæðin hafa skipulagt ferðir sínar þannig að síður komi
til árekstra í húsunum. Mér er þó ekki kunnugt um að ferðaþjónustuaðilarnir hafi leyfi til að nota
húsin og því síður að selja ferðir á svæðin með gistingu í húsum SVFÍ eins og tíðkast hefur."

Ekki gistiheimili fyrir útlendinga
Esther Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SVFÍ, segir það stefnu félagsins að reka neyðarskýli og
upphaflega voru þetta skipbrotsmannaskýli fyrir sjófarendur sem lentu í erfiðleikum eða
sjávarháska. "Menn hafa verið ansi fúlir yfir því að við skulum ekki leyfa útlendingum að nota skýlin
sem gistiheimili. Hins vegar er ljóst að við þurfum að bregðast við breyttum aðstæðum og meðal
þess sem verið er að skoða, er hvort við eigum ekki að taka niður eitthvað af skýlunum okkar. Það
er verið að meta þörfina, félagið á um 70 skýli um allt land en innan félagsins eru mjög skiptar
skoðanir um hvað eigi að gera."

Esther segir að félagið geti ekki farið út í það að leigja skýlin og haft þannig tekjur af þeim, þar sem
slíkt myndi líka þýða útgjöld á móti. Hún segir að mörg skýlin séu ekki upp á marga fiska en þau
séu skjól í vondum veðrum.

Fyrstir koma fyrstir fá
Stefán Kristjánsson á Grýtubakka II í Grýtubakkahreppi hefur rekið ferðaþjónustu til fjölda ára og
hann hefur skipulagt ferðir á Látraströnd og í Fjörður. Hann segir að ekki sé hægt að leigja skýlin
út, þar sem ekki hafa verið samstaða um slíkt innan SVFÍ. "Og á meðan þetta ástand varir, eru
húsin þarna og opin og fyrstir koma fyrstir fá. Þetta er mjög bagalegt fyrir heimamenn sem eru að
reyna að byggja hér upp ferðaþjónustu. Ég hef því breytt mínum auglýsingum um ferðir á þessi
svæði og tek fram að gist verði í tjöldum. Ég get ekki lofað því sem ég get ekki staðið við. Þetta
veldur vissum erfiðleikum því göngufólk vill miklu frekar sofa í húsum en tjöldum."

Kyrrðin hverfur með fjöldanum
Fyrirtæki Stefáns, Pólarhestar, hefur starfað frá árinu 1985 og fyrstu árin var hann eini aðilinn sem
stóð fyrir skipulögðum ferðum á þessi svæði. "Þessi vandræði byrjuðu fyrir um þremur árum, um
leið og fleiri fóru að standa fyrir skipulögðum ferðum, auk þess sem fólki á eigin vegum fór einnig
fjölgandi. "Menn eru alltaf að leita að kyrrðinni, en hún hverfur þegar allir finna hana á sama stað,"
segir Stefán.

Auk Pólarhesta standa Fjörðungur á Grenivík og Höldur á Akureyri fyrir skipulögðum ferðum í
Fjörður og á Látraströnd. Þessir þrír aðilar hafa gert samkomulag sín í milli að vera ekki á svæðinu
á sama tíma.
Nýstofnuð Náttúruvernd ríkisins

Jafnvægi náttúruverndar og náttúrunýtingar

NÁTTÚRUVERND ríkisins leggur áherslu á öfgalaus viðhorf, fagleg vinnubrögð og jafnvægi milli
náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda. Þetta kom fram í máli Sigmundar Guðbjarnasonar,
prófessors og formanns stjórnar Náttúruverndar ríkisins, á blaðamannafundi nýlega, þar sem
starfsemi hennar, stefnumörkun og verkefni voru kynnt.

Lögbundið hlutverk nýstofnaðrar Náttúruverndar ríkisins, sem tók til starfa 1. janúar sl., er að gæta
hagsmuna náttúrunnar og fjalla um framkvæmdir og meðferð á náttúru Íslands. Stofnuninni er ætlað
að framfylgja efni náttúruverndarlaganna í umboði umhverfisráðherra. Náttúruverndarráð breytir um
form og hlutverk. Í því sitja nú níu manns í stað sjö áður og er hlutverk þess að stuðla að almennri
náttúruvernd og fjalla um hvaðeina er lýtur að náttúruvernd. Ráðið er umhverfisráðherra til ráðgjafar
um náttúruverndarmál og veitir Náttúruvernd ríkisins, sem er framkvæmdaaðilinn, faglega ráðgjöf.

Verkefni Náttúruverndar ríkisins eru skýrð ítarlega í lögunum en í megindráttum má segja að
hlutverk stofnunarinnar sé að framfylgja fyrstu grein laganna, þar sem markmiðum náttúruverndar er
lýst. Þar segir: "Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og náttúru, þannig að
ekki spillist að óþörfu líf eða land, né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft. Lögin eiga að tryggja eftir
föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða
sögulegt. Lögin eiga að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni."

Óhlutdrægar umsagnir á vísindalegum grunni
Kristján Geirsson, settur forstjóri Náttúruverndar ríkisins í leyfi Aðalheiðar Jóhannsdóttur, útskýrði
þessi víðtæku markmið nánar og benti á að í raun kæmu flestar stærri framkvæmdir og starfsemi í
landinu til umsagnar hjá Náttúruvernd ríkisins. Til þess væri ætlast að umsagnir stofnunarinnar
væru óhlutdrægar og byggðar á vísindalegum grunni og legði hún metnað sinn í að svo yrði.

Verkefnum stofnunarinnar má að sögn Kristjáns skipta í tvo meginflokka; afgreiðslur og
langtímaverkefni.

Meðal stærri mála sem koma til afgreiðslu Náttúruverndar ríkisins á næstu vikum og mánuðum eru
Aðalskipulag Reykjavíkur, frummat á umhverfisáhrifum magnesíumverksmiðju á Reykjanesi og
skipulag á hálendi Íslands.

Langtímaverkefnin ráðast af þörf og fjárveitingum. Umfang þeirra er breytilegt en stjórnast m.a. af
þeim tíma sem fer í afgreiðslur erinda, umsagnir og eftirlit. Meðal helstu langtímaverkefna má nefna
umsjón og rekstur þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða, friðlýsing svæða, verndaráætlanir,
skráning náttúruminja og almenn fræðsla um náttúruvernd.

Meðal verkefna sem á döfinni eru á þessu fyrsta starfsári Náttúruverndar ríkisins er átak í fræðslu
og kynningu á náttúruvernd. Sigrún Helgadóttir, líffræðingur og kennari, hefur sett upp vefsíður um
náttúruvernd í samstarfi við Gagnasmiðju KHÍ og er nú að hefjast handa við að semja
kennsluleiðbeiningar um vefsíðurnar fyrir grunnskóla.

Í tilefni þess að á hausti komanda verða liðin 30 ár frá stofnun þjóðgarðsins í Skaftafelli er
fyrirhuguð ráðstefna um náttúru og sögu Skaftafells og nágrennis í maí nk. og munu umbrotin í
Vatnajökli og á Skeiðarársandi skipa þar mikilvægan sess.
Erfiðar aðstæður við björgun Þjóðverja

Nístingskuldi og mjög hvasst

ERFIÐAR aðstæður torvelduðu björgun tveggja Þjóðverja af Vatnajökli á mánudag og þurftu þeir
ásamt björgunarmönnum sínum, starfsmönnum Jöklaferða á Höfn, meðal annars að ganga í
blindbyl og miklum kulda í á sjötta tíma.

"Frostið var svo mikið að vélsleðarnir stöðvuðust um kílómetra frá þeim stað sem við sóttum
Þjóðverjana á og við gengum ríflega tíu kílómetra í erfiðu færi. Við sukkum í snjóinn og það var
gaddgrimmdarfrost. Kuldinn var svo mikill að það ísaði framan í okkur," segir Sigursteinn
Brynjólfsson sem sótti ferðalangana ásamt félaga sínum, Þórarni Ólafssyni.

Sigursteinn segir að ekki hafi tekið langan tíma að finna mennina en þegar halda hafi átt til baka
hafi vélarnar stöðvast og meðal annars frosið í blöndungi. "Þarna var brjálað rok og skafrenningur,
þannig að skyggnið var ekki meira en um metri. Ég hugsa að vindstigin hafi verið um níu og með
vindkælingu hafi frostið verið um þrjátíu stig," segir Sigursteinn.

Þeir báru farangur Þjóðverjanna fyrir utan skíðabúnað og juku klyfjarnar á erfiðleikana. Skömmu
fyrir klukkan 21 komust þeir í skála Jöklaferða. Í sama mund hafi björgunarsveitarmenn frá Höfn í
Hornafirði komið að og aðstoðað við að koma mönnum til byggða.

Þjóðverjunum varð að eigin sögn ekki meint af volkinu fyrir utan fyrsta stigs kal á höndum. Þeir
komu hingað til lands 1. maí og hyggjast dveljast til 18. maí næstkomandi. Þeir eru 26 ára og 32
ára gamlir og hafa talsverða reynslu af fjalla- og jöklaferðum, meðal annars í austurrísku Ölpunum
þar sem sá eldri þeirra, Andreas Stark, hefur starfað sem leiðsögumaður. "Þetta var erfitt ævintýri
og ég átti ekki von á að erfiðleikarnir yrðu svona miklir í ljósi reynslu minnar. En veður breytist hér
miklu hraðar en á þeim slóðum sem ég þekki til og jökullinn var erfiður viðureignar," segir Stark.

"Á tveggja tíma fresti þurftum við að fara út úr tjaldinu til að moka snjó frá innganginum svo að hann
lokaðist ekki. Snjórinn var mikill og tjaldið var að kikna undan þunganum," segir hann. "Þetta var
hræðilegt en ég held ekki að við höfum verið í tvísýnu. En ef við hefðum hins vegar ekki óskað
aðstoðar hefðum við án efa verið að stofna öryggi okkar í voða og hjálparbeiðnin byggðist á því
mati."
Aukin tölvuskráning hjá Orðabók Háskólans

Gefur færi á margs konar úrvinnslu

TÓLF stúdentar unnu á síðasta ári á vegum Orðabókar Háskólans við innslátt á tölvu á
notkunardæmum í ritmálssafni Orðabókarinnar. Er ritmálssafnið aðalsafn stofnunarinnar en hin tvö
eru talmálssafn og textasafn. Með tölvuskráningunni gefst færi á margs konar úrvinnslu á
dæmunum.

Þessar upplýsingar koma fram í nýlegri ársskýrslu Orðabókar Háskólans fyrir síðasta ár. Alls telur
ritmálssafn Orðabókarinnar 2,2 milljónir seðla og hefur því efni verið safnað allt frá árinu 1540 fram á
þennan dag. Lengst af var orðtekið efni skrifað á seðla en í dag er það tölvuskráð jafnharðan.
Lýðveldissjóður styrkti innslátt á notkunardæmum ritmálssafnsins með 18 milljóna króna framlagi
árin 1995­97 og unnu 12 stúdentar við þann innslátt lengri eða skemmri tíma í fyrra. Höfðu verið
slegin inn rúmlega 450 þúsund dæmi, a-g, og af þeim höfðu rúmlega 60 þúsund verið tengd
ritmálsskránni í gagnasöfnum stofnunarinnar. Eru þau þar með aðgengileg öllum á tölvuneti.

Þá hefur Orðabókin leitað til Morgunblaðsins í því skyni að fá að nýta blaðið til dæmaleitar og bæta
með því söfnin. Segir í skýrslunni að komin sé góð reynsla á það og að mikill fengur sé að þessu
efni.

Annað stærsta safn Orðabókarinnar er svonefnt talmálssafn með rúmlega 250 þúsund seðlum með
umsögnum og dæmum úr mæltu máli og hefur tölvutæk yfirlitsskrá einnig verið gerð fyrir það.
Textasafn Orðabókarinnar kemur til viðbótar því efni sem seðlasöfnin hafa að geyma og hafa flestir
textanna verið fengnir frá prentsmiðjum eða forlögum.
Aldagömul tengsl enn mikilvægari

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hvatti til náinnar samvinnu Íslendinga og Norðmanna á
öðrum degi heimsóknar sinnar til Noregs og sagði hana gera aldagömul tengsl þjóðanna enn
mikilvægari. Ragnhildur Sverrisdóttir fylgdist með heimsókninni, en forsetinn byrjaði daginn á
skíðagöngu.


FORSETI Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hóf annan dag opinberrar heimsóknar sinnar til Noregs
með því að fara á gönguskíði á Holmenkollen, hinu fræga skíðasvæði Óslóarbúa.

Ólafur Ragnar fetaði í fótspor nafna síns, Ólafs V. Noregskonungs, sem oft skrapp á gönguskíði og
tók þá sporvagninn frá brautarstöðinni við Stórþingið. Þangað kom Ólafur Ragnar skömmu fyrir kl. 7
í gærmorgun, með skíðin á öxlinni. Með í för voru Magne Haugen konungsritari og Eiður Guðnason,
sendiherra Íslands í Noregi.

Mjög milt veður hefur verið í Ósló undanfarna daga og allar götur auðar. Ólafur Ragnar var spurður
hvort hann óttaðist ekki snjóleysi, en hann sagði slíkan ótta ástæðulausan enda hefðu Norðmenn
lofað sér snjó á Holmenkollen fyrir mánuði og hann efaðist ekki um að þeir stæðu við það.

Á Holmenkollen var vissulega snjór en mikið harðfenni. Nokkrir forystumenn norska
skíðasambandsins tóku á móti forsetanum og báru réttan áburð á gönguskíðin, í samræmi við
færðina. Og svo lögðu forsetinn, sendiherrann og konungsritarinn af stað.

Næst sást til hópsins tæpri klukkustund síðar þar sem hann lauk göngunni við undirstöður
skíðastökkpallsins, en þar stendur stytta af Ólafi V. konungi, föður Haraldar Noregskonungs.
Forsetinn þáði kaffisopa og lét vel af göngunni. "Útsýnið yfir Ósló og fjörðinn var stórkostlegt,"
sagði Ólafur Ragnar. "Mér var bent á staðinn þar sem jólatréð, árleg gjöf frá Óslóarbúum til
Reykvíkinga, verður höggvið næsta desember, en það var ákveðið að láta það bíða betri tíma að
velja tré."

Ólafur kvaðst vera nokkuð móður eftir gönguna og Rolf Nyhus, framkvæmdastjóri norska
skíðasambandsins benti honum á að hann hefði verið tveimur mínútum fljótari að ljúka göngunni en
áætlað hefði verið. "Ég tek þig trúanlegan, enda vil ég ekki líta svo á að þú segir þetta eingöngu í
kurteisisskyni," svaraði Ólafur Ragnar og hló við.

Íslenskir fjörusteinar
Dagskrá opinberrar heimsóknar tók við að nýju kl. 10.15, þegar forsetahjónin og norsku
konungshjónin skoðuðu Nútímalistasafnið. Á 2. hæð safnsins var þeim vísað í sal þar sem helsta
listaverkið var fjöldi steina á gólfinu. "Þetta gætu verið íslenskir steinar, það er á þeim sami grái
liturinn og í fjörunum heima," sagði Ólafur Ragnar þegar gengið var í salinn. Þar reyndist hann hafa
rétt fyrir sér, því verkið Atlantic Lava Line er eftir enska listamanninn Richard Long og efniviðurinn,
178 steinar, var sóttur til Íslands á síðasta ári.

Auk þess að skoða verk þekktra listamanna heimsóttu forsetahjónin lítið vinnuherbergi í safninu,
þar sem bekkur 8 ára barna var að skapa sína eigin list. Börnin höfðu gengið um safnið og nú
grúfðu þau sig einbeitt yfir eigin listaverk. Þau gáfu sér þó tíma til að fagna gestunum. Ólafi Ragnari
og Guðrúnu Katrínu var færð innbundin mappa frá bekknum en í henni voru myndir úr skólalífinu,
auk þess sem hvert barn hafði teiknað eina mynd. Ólafur Ragnar lýsti sérstakri ánægju sinni með
skrautlega mynd af eldgosi sem einn pilturinn í bekknum hafði teiknað.

Snjóflóð og Hvalfjarðargöng
Norges Geotekniske Institutt var næst á dagskránni. Þar voru gestirnir upplýstir um fjölbreytt starf
stofnunarinnar, sem m.a. veitir ráðgjöf við byggingu borpalla, hefur umsjón með stíflugerð og öðrum
stórmannvirkjum og sérhæfir sig í flóðavörnum, hvort sem um er að ræða snjóflóð eða aurskriður.
Um 30% verkefna stofnunarinnar eru í þágu erlendra aðila. Stofnunin hefur komið við sögu á Íslandi,
til dæmis vegna áhættumats og snjóflóðavarna eftir hamfarirnar á Súðavík og Flateyri. Þá veitir
stofnunin einnig ráðgjöf vegna jarðganganna undir Hvalfjörð. Forstjóri stofnunarinnar, Suzanne
Lacasse, sagði reynslu Norðmanna af samstarfi við Íslendinga mjög ánægjulega og að hún
vonaðist til að það góða samband héldist áfram.

Auðlindir nái að endurnýjast
Ríkisstjórnin bauð forsetahjónunum og konungshjónunum til hádegisverðar á Bristol hóteli í
miðborg Óslóar. Thorbjörn Jagland forsætisráðherra bauð gestina velkomna. Hann rakti margvíslegt
samstarf Íslands og Noregs, til dæmis innan EFTA og EES. Þá sagði hann að bæði löndin nýttu
auðlindir hafsins. Sjávarútvegurinn væri veigamikill þáttur í efnahag Íslands og hið sama mætti
segja um byggðir á strönd Noregs.

Forsætisráðherrann lagði áherslu á að nýta ætti auðlindir hafsins á þann hátt að þær næðu að
endurnýjast. Þessum auðlindum væri ógnað af þeim sem veiddu meira en endurnýjaðist. En þeim
væri einnig ógnað vegna þeirra sjónarmiða verndunarsinna að hafna eðlilegri nýtingu.

Fjögur svið samvinnu
Ólafur Ragnar Grímsson nefndi í ræðu sinni fjögur svið, þar sem hann sagðist telja að samvinna
Noregs og Íslands væri í senn "eðlilegt framhald fyrri tengsla, brýnt framlag til lausnar á
fjölþjóðlegum vandamálum og tenging okkar við þá gerjun sem einkennir mannkyn allt."

Í fyrsta lagi nefndi forseti þróun lýðræðis og mannréttinda. "Margar þjóðir munu leita liðsinnis í þeim
efnum hjá ríkjum sem ógna engum og hafa ekki annarlega hagsmuni," sagði hann.

Í öðru lagi tiltók Ólafur Ragnar nauðsyn víðtækrar alþjóðlegrar samvinnu um verndun umhverfis og
lífríkis jarðarinnar og gat sérstaklega forystuhlutverks Gro Harlem Brundtland, forvera Jaglands, á
þeim vettvangi.

Í þriðja lagi sagði forseti að staða Noregs og Íslands skapaði þeim möguleika umfram aðra til að
leggja fram hugmyndir og greiða úr ágreiningi á sviði umræðna um þróun öryggismála í Evrópu og
nýskipan friðargæslu og friðarstarfs innan Sameinuðu þjóðanna.

Í fjórða lagi nefndi Ólafur Ragnar vaxandi mikilvægi hins norræna samstarfsforms og
samfélagsgerðar fyrir fjölda þjóða í Asíu, Suður- Ameríku og Afríku. Hann sagðist sannfærður um
að álit forystumanna frá þessum heimshlutum á norrænni samvinnu gæfi henni nýtt gildi.

"Allir þessir þættir gera aldagömul tengsl landa okkar enn mikilvægari þegar nýtt árþúsund gengur í
garð," sagði Ólafur Ragnar. "Þeir knýja einnig á um að hvergi beri skugga á tengsl Íslands og
Noregs. Til að vera öðrum þjóðum fyrirmynd og nýta okkur báðum til hagsbóta þessi tækifæri til
áhrifa og ávinnings þurfum við að sýna í verki að við getum leyst okkar eigin deilumál, deilumál sem
ekki eru stórvægileg í samanburði við það sem þorri annarra þjóða glímir við."

3-400 Íslendingar í móttöku
Norska þjóðminjasafnið á Bygdöy var heimsótt að hádegisverði loknum. Þar skoðuðu gestirnir
sýningu um landkönnuðinn Fridthjof Nansen, en sýningin var sett upp í október sl. og stendur allt til
september á þessu ári. Á sýningunni er lögð áhersla á að sýna hinar ýmsu hliðar Nansens, s.s.
vísindamanninn, uppfinningamanninn og stjórnmálamanninn Nansen.

Forsetahjónin tóku á móti Íslendingum búsettum í Ósló og nágrenni síðdegis í gær og komu um
3­400 manns til móttökunnar á Grand Hotel.

Tónleikar Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Ósló hófust kl. 19.30 og voru forsetahjónin og
konungshjónin heiðursgestir þar. Frá tónleikunum var haldið í ráðhús Óslóar, þar sem Per Ditlev-
Simonsen borgarstjóri tók á móti gestunum og bauð til síðbúins kvöldverðar.

Stjórnmálafræði og kvótakerfi
Í dag er síðasti dagur hinnar opinberu heimsóknar. Árla dags er flogið frá Ósló til Björgvinjar. Þar
verður safn um tónskáldið Grieg heimsótt og stofnun um samanburðarstjórnmálafræði. Þá mun
forseti Íslands leggja blóm að styttu Snorra Sturlusonar.
Tuskubrúðan Palli á landshornaflakki

Vestmannaeyjum. Morgunblaðið

TUSKUBRÚÐAN Palli var í heimsókn í Vestmannaeyjum fyrr í vikunni en undanfarnar tvær vikur
hefur Palli flakkað milli landshluta. Ferðalag Palla um landið er til komið vegna verkefnis sem ber
heitið Landið okkar Ísland og er hópvinnuverkefni um Ísland sem fimm og sex ára börn á
leikskólanum Kjarrinu í Garðabæ eru að vinna. Að sögn Jónínu Ásgeirsdóttur, starfsmanns á
leikskólanum, kviknaði þessi hugmynd, þegar verið var að vinna að verkefninu sem miðar að því að
fræða börnin á leikskólanum um Ísland, um að senda tuskudúkku í ferðalag um landið og afla
þannig upplýsinga um hina ýmsu staði sem dúkkan kæmi á. Tuskubrúða, sem fékk nafnið Palli,
var búin ferðafötum og bakpoka sem í er dagbók og í hana átti að færa allt sem á daga Palla drifi.
Jónína sagði að mæður tveggja barna á leikskólanum væru flugmenn hjá Flugleiðum og hefðu þær
tekið að sér að sjá um að Palla yrði komið milli staða með vélum Flugleiða og hefði verið ráðgert
að hann heimsækti alla áætlunarstaði félagsins.

Jónína sagði að öll börnin á leikskólanum vissu af ferðalagi Palla, þótt einungis þau elstu ynnu að
verkefninu og allir væru spenntir að fá fréttir af honum.

Í dagbókinni sem fylgir Palla sést að hann hóf ferðalag sitt 6. febrúar sl. er hann flaug með Fokker í
áætlunarflugi til Akureyrar. Hann dvaldi fyrst á Akureyri en síðan ferðaðist hann víða þaðan. 9.
febrúar fór hann til Vopnafjarðar og Grímseyjar og í töskunni var viðurkenningarskjal til staðfestingar
á að hann hefði komið norður fyrir heimskautsbaug. Þann 11. lá leiðin til Ísafjarðar og degi seinna
var ferðast til Kópaskers og Raufarhafnar. 13. febrúar fór Palli frá Akureyri til Egilsstaða og þaðan
ferðaðist hann með rútu til Neskaupstaðar með viðkomu á Reyðarfirði og Eskifirði. Í dagbókinni
sést að ferðin frá Egilsstöðum til Neskaupstaðar tók langan tíma sökum ófærðar.

Palli staldraði lengi við á Neskaupstað og lenti í ýmsum ævintýrum. Meðal annars fór hann í
heimsókn um borð í flutningaskipið Alexöndru frá Nassau á Bahamaeyjum og heimsótti
leikskólann Sólvelli. Á þriðjudaginn kom Palli til Eyja eftir að hafa verið strandaglópur í Reykjavík
þar sem ófært var til Eyja. Farið var með hann í skoðunarferð um Eyjar og hraungrýti úr Eldfelli sett
í tösku hans til minja um skoðunarferðina. Þá var farið með hann í sundlaugina, á
Náttúrugripasafnið og í heimsókn á leikskólann Kirkjugerði. Þá var farið með hann niður að höfn til
að skoða drekkhlaðna loðnubátana. Í Eyjum gisti Palli hjá Laufeyju og Braga starfsmönnum
Flugleiða sem sáu um hann meðan á dvölinni í Eyjum stóð.

Palli hélt frá Eyjum síðdegis á miðvikudag með áætlunarvél Flugleiða. Jónína Ásgeirsdóttir,
starfsmaður leikskólans Kjarrsins, sagði að þegar Palli kæmi til Reykjavíkur yrði athugað í
dagbókinni hvort hann væri búinn að ferðast til allra áætlunarstaða Flugleiða og ef svo væri kæmi
hann á leikskólann með bakpokann sinn og farið yrði að vinna úr þeim upplýsingum sem Palli hefur
aflað.

Jónína sagði að þótt flakki Palla um Ísland væri nú að ljúka væri hann síður en svo hættur að
ferðast því framundan væru ferðalög til útlanda. Næsta verkefni sem unnið yrði að á leikskólanum
yrði verkefni sem héti Heimurinn okkar og þá yrði Palli gerður út af örkinni á ný til að afla
upplýsinga. Hann færi því í nokkurskonar heimsreisu því þá myndi hann ferðast til áætlunarstaða
Flugleiða bæði í Evrópu og Ameríku.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir úrskurð samkeppnisráðs vegna Póstdreifingar ehf.

Gildir ótvírætt um Póst og síma hf.

ÁFRÝJUNARNEFND samkeppnismála hefur í öllum meginatriðum fallist á niðurstöður og forsendur
í ákvörðun Samkeppnisstofnunar um erindi Póstdreifingar ehf. að Póst- og símamálastofnun hafi
misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni í póstdreifingu.

Póstur og sími hf. kærði ákvörðun samkeppnisráðs sem birt var í desember sl. Í kærunni var dregið
í efa að fyrirmæli samkeppnisráðs samkvæmt ákvörðuninni beindust að nýstofnuðu hlutafélagi.
Fullyrt var að megininntak allra ákvarðana, álitsgerða og tilmæla samkeppnisráðs sem vörðuðu
Póst- og símamálastofnun hafi verið virt við gerð frumvarps um póstþjónustu sem tekið hafi gildi um
áramót en þá tók hlutafélagið til starfa.

Af þeim sökum hafi hvorki verið ástæða né grundvöllur fyrir ráðið að beina fyrirmælum til eða leggja
á hlutafélagið kvaðir eins og gert hafi verið í ákvörðuninni.

Í niðurstöðum áfrýjunarnefndarinnar segir að kvaðir sem lagðar hafi verið á Póst- og
símamálastofnun með ákvörðun samkeppnisráðs teljist ótvírætt til þeirra skuldbindinga sem Póstur
og sími hf. tók á sínar herðar með gildistöku laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og
símamálastofnunar 1. september 1996. Fyrirmæli tengd ákvörðun samkeppnisráðs giltu þess
vegna tvímælalaust um hið nýja hlutafélag.

Dreifingarskylda staðfest
Áfrýjunarnefndin féllst á niðurstöður samkeppnisráðs að öllu leyti að undanskildum þeim þætti
ákvörðunarinnar sem laut að skyldu Pósts og síma hf. um að verða við ósk Póstdreifingar að dreifa
pósti á tilteknum stöðum á sömu kjörum og samkeppnishluti Pósts og síma hf. nýtur.

Nefndin telur, með vísan til grunnreglna samkeppnislaga, að Pósti og síma hf. sé skylt að
framfylgja slíkri dreifingarskyldu gagnvart hverjum þeim dreifingaraðila sem þess óskar.
Samningur um kaup Danakonungs á Reykjavík kominn til Íslands

Reykjavík seld fyrir þrjár jarðir

Kaupbréf fyrir Reykjavík er meðal þeirra íslensku handrita sem danska varðskipið Vædderen
flutti frá Árnastofnun í Kaupmannahöfn á þriðjudag. Bréfið er skráð á skinn á Bessastöðum 1615 og
birtist sjónum almennings von bráðar á sýningu stofnunar Árna Magnússonar.


STEFÁN Karlsson forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar segir að meðal þessara fornbréfa
sem stofnunin hefur nú fengið í hendur sé gríðarlegur fjöldi bréfa sem aldrei hafi verið prentuð.
Kaupsamningurinn um Reykjavík sé eitt þeirra.

Skemmtilegt bréf
"Þótt þetta bréf sé kannski ekki merkilegra en ýmis önnur, er það sérstaklega skemmtilegt vegna
innihaldsins. Þarna hafa óvenju margir staðir sem koma við sögu skipt um hlutverk, eins og
Bessastaðir sem hýsti þá danskan höfuðsmann en er nú núverandi forsetasetur og Laugarvatn sem
síðar varð skólasetur."

Stefán segir vitað að Danakonungur hafi eignast Reykjavík á þessum tíma samkvæmt fyrri
heimildum. "Kaupin fóru fram milli Herlufs Daa höfuðsmanns fyrir hönd konungs og þeirrar frómu
dáindiskvinnu Guðrúnar Magnúsdóttur með samþykki sona hennar. Guðrún var ekkja eftir Narfa
Ormsson lögréttumann.

Með kaupsamningnum selur Guðrún 50 hundruð í Reykjavík með kirkjueign sinni, en áður hafði
konungur eignast 10 hundruð í Reykjavík, sem var 60 hundraða jörð. Á móti fékk Guðrún jarðirnar
Laugarvatn í Grímsnesi, Bakka á Kjalarnesi og Kiðafell í Kjós. Fimm vottar eru nefndir, sem sagðir
eru hafa sett handskriftir sínar undir bréfið og á það trúlega við annað eintak af kaupsamningnum,
því að undir þessu eru ekki undirskriftir heldur hafa þrír menn staðfest það með hangandi innsiglum.

Annað varðveittu innsiglanna er með fangamarkinu L.R., og einn vottanna er nefndur Laures
Rasmusson en það mun vera Lauritz Rasmussen umboðsmaður," segir Stefán.

Hann segir að lög um að gera skyldi skriflega samninga um öll meiri háttar kaup hafi verið sett með
Jónsbók árið 1281. Þau átti að votta með innsiglum og tíðkaðist ekki að setja
eiginhandarundirskriftir í staðinn fyrr en um 1600. Þúsundir bréfa um kaup séu varðveitt, sum í
frumriti en önnur í uppskriftum.

Neyddur til að selja
Í grein sr. Þóris Stephensen í ritröðinni Landnám Ingólfs kemur meðal annars fram að þegar
verslunareinokun komst á árið 1602 varð Hólmskaupstaður verslunarmiðstöð stórs svæðis við
innanverðan Faxaflóa og því hafi verið eðlilegt að konungsvaldið hefði áhuga á að eignast Reykjavík
eða ítök þar.

"Lauritz Krus var höfuðsmaður á Bessastöðum um 1590. Hann mun hafa sótt þetta mál mjög fast,
en í óþökk Narfa, sem var að reyna að tryggja sér alla Reykjavík. Narfi varð þó að láta undan.
Heimildir segja, að hann hafi grátandi játað af sér 10 hundruðum úr landi Víkur, var enda hótað með
gapastokki, ef hann neitaði," segir sr. Þórir.

Ekki er talið ósennilegt að Guðrún hafi búið um tíma í Reykjavík eftir lát Narfa, í ljósi þess hversu
seint staðfesting konungs á kaupunum kom. Samkvæmt fyrirliggjandi heimildum var Narfi enn á lífi
1607, en hann hafði fengið stærstan hluta Reykjavíkur í arf eftir föður sinn, Orm Jónsson
lögréttumann og sýslumann. Bræðurnir Jón og Þórður Ásbjörnsson áttu 20 hundruð í Reykjavík
sem Munkaþverárklaustur hafði áður átt, en seldu Narfa sinn hlut 1569.

Kaupin voru hins vegar umdeild því Páll Vigfússon lögmaður á Hlíðarenda var talinn eigandi og við
skipti á búi hans 1570 kom Engey, Laugarnes og svokallaður Víkurpartur fyrir Seltjarnarnes í hlut
Önnu, systur Páls, kenndri við Stóru-Borg. Endanleg niðurstaða í málið fékkst að sögn Þóris ekki
fyrr en á Öxarárþingi árið 1602.

Stefán kveðst efast um að kaupsamningurinn hafi nokkurn tíma verið formlega ógiltur, en jörðin hafi
hins vegar komist í eigu íslenska ríkisins um leið og aðrar eignir Danakonungs.

Innréttingar á konungsjörð?
"Hafnarfjörður var meiri verslunarstaður á þessum tíma og maður hefur heyrt að ekki hafi verið
sjálfsagt mál að Innréttingar Skúla Magnússonar fógeta risu í Reykjavík. Ég hef verið að velta því
fyrir mér hvort ein ástæða þess að Innréttingarnar hafi verið settar niður í Reykjavík hafi verið sú að
konungur átti jörðina," segir hann.
Kostnaður af flutningi Reykjavíkurflugvallar talinn á milli 1,7 og 4,1 milljarður

Núverandi staðsetning talin hagkvæmari

LÍKLEGT þykir að þjóðhagslegur kostnaður af flutningi Reykjavíkurflugvallar sé umfram ábata, og er
hann talinn nema á milli 1,7 til 4,1 milljörðum króna, ef marka má niðurstöður skýrslu
Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem hún hefur unnið samkvæmt samningi við Borgarskipulag
Reykjavíkur og Flugmálastjórn. Áreiðanleiki þessarar niðurstöðu er þó ýmsum fyrirvörum háður.

Í skýrslunni er miðað við að flug myndi dragast saman um 20% ef til flutnings kæmi og tæplega
300 störf myndu flytjast frá höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við þriggja ára framkvæmdatíma við
nýjan flugvöll og starfsemi í aldarfjórðung, eða samtals 28 ár.

Flutningur dýrari
Að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar, er reynt með skýrslunni
að bera saman núverandi starfsemi á Reykjavíkurflugvelli miðað við óbreytta staðsetningu og að
hluti núverandi starfsemi, þ.e. innanlandsflug, ferju- og millilandaflug, flytjist til Keflavíkur. Einkaflug,
kennslu- og æfingaflug verði hins vegar flutt á nýjan flugvöll sem verði í nágrenni Reykjavíkur.

Í skýrslunni kemur fram að viðbótarkostnaður við uppbyggingu og rekstur mannvirkja á nýjum stað,
kæmi til flutnings, myndi nema á milli 400 og 1.800 milljónum króna. Flutningur hefði jafnframt í för
með sér lengri ferðatíma fyrir þá sem ferðast með innanlandsflugi og skiptir aukin fjarlægð til
flugvallar mestu máli í því sambandi. Viðbótarkostnaður af þeim sökum er talinn nema á milli 2,4 og
3,6 milljörðum króna.

Flutningur vallarins myndi leiða til þess að hættan samfara núverandi staðsetningu hyrfi, sem telst
til ábata. Skýrsluhöfundar telja að á 25 ára tímabili megi reikna með væntanlegum fjölda flugslysa
á höfuðborgarsvæðinu utan flugbrauta u.þ.b. 3,6 slys. Þjóðhagslegur kostnaður vegna tjóns á jörðu
niðri sé hins vegar talinn óverulegur miðað við annan kostnað.

Einnig er bent á að aukin slysahætta vegna lengri akstursvegalengdar í kjölfar flutnings
Reykjavíkurflugvallar sé talin efnahagslega miklu veigameiri en væntanlegt tjón vegna flugslysa.
Kostnaður af þeim sökum er talin geta numið á milli 600 og 800 millj. kr.

Óþægindi ekki metin
Í skýrslunni kemur fram að um 21% íbúa, eða um 11 þúsund manns, í hverfum í nágrenni
Reykjavíkurflugvallar telja sig verða fyrir einhverjum óþægindum vegna umferðar um hann.
Stofnunina hafi hins vegar skort gögn og ekki haft bolmagn til að afla nauðsynlegra gagna til að
meta kostnað vegna vegna þessara óþæginda. Ýmislegt bendi þó til að að sá kostnaður kunni að
vera umtalsverður.

Skýrsluhöfundar benda ennfremur á að unnt sé að nýta það land sem nú er undir flugvallarstarfsemi
til annarra þarfa og meta núvirði landsins á 2,0 til 3,4 milljarða króna. Þá er einkum horft til
húsbygginga og útivistarsvæða, að frádregnum kostnaði við að búa landið til byggingar. Frá þessari
fjárhæð myndi síðan dragast kostnaður vegna stofnbrautarframkvæmda og er hann talinn geta
numið á milli 800 til 1.100 milljónum króna.

Óljóst gagnvart Reykvíkingum
Tryggvi segir að miðað við neðri mörk þessa mats, virðist því óhagkvæmt að flytja
flugvallarstarfsemina en hagkvæmt miðað við efri mörk. "Vegna þessarar óvissu er ekki unnt að líta
svo á að greiningin feli í sér ótvíræða niðurstöðu um hvort flutningur flugstarfseminnar frá Reykjavík
sé hagkvæmur kostur fyrir Reykvíkinga eða ekki," segir Tryggvi.

Búið er að kynna skýrsluna í flugráði og borgarráði og segist Þorgeir Pálsson flugmálastjóri telja að
um faglegt innlegg í umræðu um hugsanlegan flutning sé að ræða, sem staðfesti þá trú hans að
núverandi staðsetning sé heppileg.
Áhersla lögð á umhverfismál í endurskoðuðu Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996­2016

Hætt við mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklubraut

Borgaryfirvöld hafa samþykkt að sækja um heimild til skipulagsstjórnar ríkisins til að auglýsa
endurskoðað Aðalskipulag Reykjavíkur 1996­2016. Tillögurnar verða kynntar fyrir borgarbúum í sex
vikur og að þeim loknum er veittur tveggja vikna frestur til að skila inn athugasemdum.


MISLÆG gatnamót á mótum Miklubrautar ­ Skeiðarvogs og Réttarholtsvegar, eru meðal helstu
umferðarmannvirkja, sem áætlað er að rísi samkvæmt tillögum að endurskoðuðu Aðalskipulagi
Reykjavíkur 1996­2016. Fram kemur að hætt er við mislæg gatnamót við Miklubraut ­
Kringlumýrarbraut. Stærsta verkefnið er brú yfir Kleppsvík, milli Sæbrautar og Gufuneshöfða. "Við
ákváðum að vera með nýjar áherslur og nýja framtíðarsýn og hafa umhverfismálin að leiðarljósi,"
segir Guðrún Ágústsdóttir, formaður skipulagsnefndar.

"Við teljum að gott umhverfi sé besta framlag okkar til komandi kynslóða," sagði Guðrún. "Við
höfum skrifað undir Ríó-samkomulagið og skuldbundið okkur til að sinna umhverfismálum, loft- og
hljóðmengun og skila landinu okkar jafngóðu og við tókum við því. Þetta er erfitt en við viljum freista
þess að setja þessa stefnu fram." Guðrún nefndi sem dæmi fyrirhugaðan stokk á Miklubraut, þar
sem mikið hefur verið kvartað undan loft- og hljóðmengun en talið er að 4% íbúða í borginni búi við
hjóðstyrk sem er fyrir ofan ásættanleg mörk. Sagði hún að á sama hátt hafi verið tekin ákvörðun
um að falla frá mislægum gatnamótum við Miklubraut og Kringlumýrarbraut.

Ekki þörf fyrir Fossvogsbraut
"Ég vil einnig nefna að í þessari framtíðarsýn leggjum við niður Hlíðarfót en það er gata sem hefur
verið inni á skipulagi á undanförnum áratugum," sagði hún. "Við viljum ekki leggja hana en með því
getum við friðað Fossvogsbakkana, sem eru náttúruperlur, auk þess sem tengslin milli
Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar verða ekki eyðilögð. Það skiptir verulegu máli að okkar mati þegar
skolpmálin verða komin í lag og Nauthólsvíkin verður aftur hæf til sjóbaða. Við höfum því ekki þörf
fyrir Fossvogsbrautina en þar sem þetta er skipulag til ársins 2016, þá er þar gert ráð fyrir
sporbundinni almenningsumferð með sporvagni eða einteinungi." Ákvörðunin um að fella niður
Hlíðarfót og Fossvogsbraut hefur í för með sér að endurskoða verður deiliskipulag
Reykjavíkurflugvallar en gert er ráð fyrir væntanlegri flugstöðvarbyggingu við Hlíðarfót.

Vegna landfræðilegra aðstæðna er talið heppilegt að gera mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar,
Skeiðarvogs og Réttarholtsvegar. Ennfremur verður gert ráð fyrir göngum fyrir hjólandi og gangandi
umferð við gatnamótin. Aðrar framkvæmdir eru breikkun Vesturlandsvegar, Miklubrautar og
Sæbrautar, undirgöng á Miklubraut við Norðurmýri, þar sem íbúðabyggð er næst götunni og að
Hringbraut við Landspítalann verði færð í átt að Umferðarmiðstöðinni. Ekki verður þrengt að
helgunarsvæðum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar vegna mögulegra umbóta á gatnamótunum í
framtíðinni. Lagt er til að mislæg gatnamót verði við Sundabraut til móts við Áburðarverksmiðjuna, á
gatnamótunum við Vesturlandsveg ­ Hallsveg, á gatnamótunum við Breiðholtsbraut ­
Suðurlandsveg, á Suðurlandsvegi við Norðlingaholt, á gatnamótunum við Selásbraut ­ Norðlingaholt
og á Suðurlandsvegi við Hólmsheiði.

Þverun við Kleppsvík
Stærsta verkefnið í aðalgatnakerfinu er þverun Kleppsvíkur milli Sæbrautar og Gufuneshöfða til að
ná betri tengslum milli Grafarvogs og Borgarholtshverfa við vesturhluta borgarinnar. Undirbúningur er
á frumstigi, það er gagnaöflun og hönnun á mögulegri veglínu en ekki hefur enn verið ákveðið hvort
um brú eða botngöng verður að ræða. Aðalóvissan er um heppilega staðsetningu fyrir tengingu við
Sæbraut en austan Kleppsvíkur verður landtaka á sorpfyllingu í Gufunesi. Áætlað er að
framkvæmdir hefjist eftir 3­4 ár.

Leirvogur friðaður
Frá Gufunesi er gert ráð fyrir tengingu yfir í Geldinganes um Eiðsvík en áhersla er lögð á að gerð
verði flutninga- og iðnaðarhöfn í Eiðsvík og hefur athafnahverfið á Geldinganesi verið stækkað miðað
við fyrri tillögur. "Við ákváðum að flytja aðalumferðina inn á Geldinganesið, svo hægt yrði að friða
Leirvoginn," sagði Guðrún. "Við höfum ákveðið að taka Geldinganesið frá til síðari nota og þá verður
hægt að taka ákvörðun um hvort þar verði atvinnu-eða íbúðasvæði en nú er meiri áhersla lögð á
atvinnusvæði. Það er gífurleg ásókn í atvinnusvæði í borginni og við erum stöðugt að úthluta en við
höfum þurft að vísa þeim sem leitað hafa eftir stórum lóðum í önnur sveitarfélög."

Borgaryfirvöld hafa samþykkt að sækja um leyfi til skipulagsstjórnar ríkisins til að auglýsa
endurskoðað Aðalskipulag Reykjavíkur 1996­2016. Skipulagið verður kynnt fyrir borgarbúum í sex
vikur. Tillögurnar verða til sýnis á skrifstofu Borgarskipulagsins við Borgartún og í Ráðhúsinu og
boðað verður til almennra funda með borgarbúum. Að sex vikum liðnum er veittur tveggja vikna
frestur til að skila inn athugasemdum.
Ásakanir gegn fíkniefnalögreglunni

Ríkissaksóknari rannsaki málið

ÞORSTEINN Pálsson dómsmálaráðherra segist ekki sjá aðra leið til að upplýsa þær ásakanir sem
komið hafa fram að undanförnu um starfsaðferðir fíkniefnalögreglunnar en að ríkissaksóknara verði
falið að rannsaka málið. Hann vill þó ekki tilkynna um endanlega ákvörðun sína fyrr en tillögur um
þetta efni hafa verið ræddar í ríkisstjórn. Þetta kom fram við utandagskrárumræðu sem fram fór að
beiði Margrétar Frímannsdóttur, Alþýðubandalagi, á Alþingi í gær um þær ásakanir sem komið
hafa fram í tímaritinu Mannlíf um meint óeðlilegt samstarf fíkniefnalögreglunnar við þekktan
fíkniefnasala.

Ráðherrann hafði það eftir lögreglustjóranum í Reykjavík að engir sérstakir samningar hafi verið
gerðir til að hlífa einstökum afbrotamönnum við refsingum í skiptum fyrir upplýsingar. Þorsteinn
sagði enga ástæðu til að vefengja lögreglustjóra í þessu efni.

Trúnaður lögreglu og almennings í hættu
Margrét Frímannsdóttir, og aðrir stjórnarandstæðingar, lýstu miklum áhyggjum vegna ásakananna
sem fram hafa komið og sögðu þær stefna trúnaði milli almennings og lögreglu í hættu. Þeir
kölluðu á það reglur yrðu settar um hvort leyfa ætti upplýsingakaup lögreglu vegna afbrotamála og
þá hvernig að þeim yrði staðið. Sérstaklega var bent á ábyrgð lögreglustjóra á hugsanlegum brotum
undirmanna sinna.

Ráðherrann sagði að árið 1983 hafi ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins veitti lögreglustjóranum
í Reykjavík munnlega heimild til að greiða uppljóstrunarmönnum fyrir upplýsingar sem leiddu til
þess að lagt væri hald á fíkniefni. Heimildin var veitt með því skilyrði að hófs yrði gætt við ákvörðun
upphæðanna og að þær færu eftir mati lögreglustjóra hverju sinni.

Samkvæmt upplýsingum ráðherra frá lögreglunni hafa greiðslurnar verið fátíðar og í samræmi við
þau fyrirmæli sem gefin voru upphaflega. Hann sagðist nú hafa falið ríkislögreglustjóra að gera
tillög

Strangari vopnalög í undirbúningi
Margrét gagnrýndi einnig það að lögreglan hefði árið 1991 selt 24 skammbyssur, sem hætt var að
nota, á almennum markaði. Dómsmálaráðherra sagði að við söluna hefði ströngum reglum verið
fylgt. Hann sagði einnig að frumvarp til vopnalaga væri til meðferðar í ríkisstjórn þar sem stefnt væri
að vopn sem þessi yrðu ekki seld á almennum markaði.
Ásdís Halla kjörin formaður SUS fyrst kvenna

"Vona að mitt framboð verði hvatning fyrir aðrar konur"

ÁSDÍS Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, var kjörin í embætti formanns
Sambands ungra sjálfstæðismanna, til næstu tveggja ára, á þingi sambandsins í Reykjanesbæ um
helgina. Hún er þar með fyrsta konan til að gegna þessu embætti í 67 ára sögu SUS. Sjálfkjörið var
í formannsembættið og það sama átti við um stjórn SUS. Hins vegar var gengið til kosninga í
varastjórn. Um 120 ungir sjálfstæðismenn tóku þátt í þingstörfum og voru fjölmargar ályktanir
samþykktar í lok þingsins. Í þeim kemur m.a. fram vilji ungra sjálfstæðismanna til að jafna
atkvæðisrétt til dæmis með einmenningskjördæmum, að háskólanemar greiði aukinn hluta af
kostnaði við nám sitt, að Háskóli Íslands verði gerður að sjálfseignarstofnun og að fjárhæð
barnabóta verði óháð tekjum framfærenda.

Í samtali við Morgunblaðið segist Ásdís Halla, aðspurð hvort kjör hennar í embætti formanns SUS
komi til með að þýða einhverjar breytingar á starfinu á næstunni, telja mikilvægt að
Sjálfstæðisflokkurinn og SUS leggi meiri áherslu á frjálslyndi heldur en íhaldssemina og vonast hún
til að SUS geti beitt sér í þá veru á næstu tveimur árum.

Ásdís Halla bendir ennfremur á að á næstu tveimur árum verði annars vegar
sveitarstjórnarkosningar og hins vegar alþingiskosningar. "Ungir sjálfstæðismenn ætla sér að koma
ferskir inn í þá umræðu sem verður fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor og gera sitt besta til
þess að stjórnmálaumræðan verði spennandi og áhugaverð, ekki síst fyrir ungt fólk," segir hún.

Ekki hlynnt kynjakvóta
Þegar Ásdís Halla er spurð að því hvort það hafi einhverja þýðingu að hún sé fyrsta konan sem sé
kjörin í formannsembætti SUS, segist hún fyrst og fremst hafa gefið kost á sér sem einstaklingur
og fengið mjög góðan stuðning, sem sannist m.a. á því að ekki hafi komið mótframboð. "Ég vona
hins vegar að mitt kjör sé hvatning fyrir aðrar konur og sérstaklega fyrir yngri stelpur til að gefa sig
meira að stjórnmálum bæði í Sjálfstæðisflokknum og í öðrum flokkum," segir hún. Ásdís Halla
segir ennfremur að ástæða þess að konur hafi ekki áður verið í formannsembætti SUS endurspegli
einfaldlega það að konur hafi ekki verið nægilega áberandi hvorki í Sjálfstæðisflokknum né öðrum
flokkum, í atvinnulífinu eða annars staðar í samfélaginu. Þá bendir Ásdís Halla á að hvorki hún né
aðrir í SUS leggi áherslu á að konur komi inn á kynjakvóta, hvað þá að konum sé ýtt út í stjórnmál.

Háskólinn verði sjálfseignarstofnun
Í ályktun þingsins um menntamál er m.a. lagt til að leggja beri áherslu á ríkari þátttöku
einstaklingsins við fjármögnun menntunar sinnar, eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu. Telja ungir
sjálfstæðismenn eðlilegt að nemendur greiði sjálfir aukinn hluta af kostnaði við nám sitt, miðað við
það sem nú sé, þar sem nemandinn sjálfur fái ábatann af námi sínu.

Þá leggja ungir sjálfstæðismenn til að Háskóli Íslands verði gerður að sjálfseignarstofnun, en með
því yrði stigið fyrsta skrefið í átt til markaðsvæðingar skólans. Þeir leggja ennfremur til að fækkað
verði í háskólaráði, æðstu yfirstjórn Háskólans, og að deildarforsetar sitji ekki í ráðinu. Þannig verði
hægt að tryggja sjálfstæða og skilvirka yfirstjórn Háskólans. Einnig er lagt til að breiðum hópi aðila
úr þjóðlífinu verði falið að tilnefna fulltrúa í háskólaráð.

Í skattamálum telja ungir sjálfstæðismenn að huga þurfi að stuðningi við barnafjölskyldur og þá
sem séu að kaupa sér húsnæði í fyrsta sinn. "Lagt er til að í stað núverandi barnabóta- og
barnabótaaukakerfis verði fjárhæð bóta látin nema fastri tölu fyrir hvert barn án tillits til tekna
framfærandans."

Í ályktun um viðskipta- og neytendamál telja ungir sjálfstæðismenn nauðsynlegt að draga úr
umsvifum hins opinbera í atvinnulífinu, til dæmis með útboðum á einstökum verkefnum eða sölu
opinberra fyrirtækja. Lagt er til að selja hlutafé ríkisins í fyrirtækjum sem þegar hefur verið breytt í
hlutafélög til dæmis Pósti og síma hf. og Viðskiptabanka ríkisins.

Veðurstofan einkavædd
Þá er talið mikilvægt að breyta hið fyrsta rekstrarformi ýmissa fyrirtækja og stofnana ríkisins sem
enn hefur ekki verið breytt í hlutafélög. Þannig eigi til dæmis að breyta Nýsköpunarsjóði
atvinnulífsins í hlutafélag og selja á almennum markaði. En ungir sjálfstæðismenn segja fulla
ástæðu til að efast um að stofnun þessa sjóðs eigi rétt á sér.

Í umhverfismálum leggja ungir sjálfstæðismenn áherslu á ábyrgð einstaklingsins og fyrirtækja í
umgengni sinni við umhverfið og telja að einkavæða beri Veðurstofu Íslands, Landmælingar og
Skógrækt ríkisins. Þá vilja þeir færa rekstur þjóðgarða til einkaaðila og afnema opinbera styrki til
skógræktar.

Í samgöngu- og fjarskiptamálum leggja ungir sjálfstæðismenn áherslu á að frelsi verði aukið og
setja sig upp á móti öllum aðgerðum stjórnvalda við hömlum á notkun alnetsins. Þá telja ungir
sjálfstæðismenn í ályktun um menningarmál að endurskoða beri útvarpslögin og að í nýjum lögum
skuli kveðið á um sameiginlegt öryggishlutverk allra ljósvakamiðla.

Aðalstjórn SUS næstu tvö árin
Eftirfarandi fulltrúar voru kjörnir í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna til næstu tveggja ára:
Frá Reykjanesi: Áslaug Hulda Jónsdóttir, Bjarni Þór Eyvindsson, Böðvar Jónsson, Jónas Þór
Guðmundsson, Már Másson, Skarphéðinn Orri Björnsson og Þórður Ólafur Þórðarson. Frá
Reykjavík: Arnar Þór Ragnarsson, Auður Finnbogadóttir, Ásta Þórarinsdóttir, Hanna Birna
Krisjánsdóttir, Haraldur Johannessen, Jóhanna María Eyjólfsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson,
Sigurjón Pálsson og Þorsteinn Davíðsson. Frá Vesturlandi: Halldór Skúlason. Frá Vestfjörðum:
Björgvin Arnar Björgvinsson. Frá Norðurlandi vestra: Gunnlaugur Ragnarsson. Frá Norðurlandi
eystra: Svanhildur Hólm Valsdóttir og Þórður Rafn Ragnarsson. Frá Austurlandi: Jens Garðar
Helgason. Frá Suðurlandi: Einar Örn Arnarsson, Kristín Ólafsdóttir og Sigmundur Sigurgeirsson.
Nýtt leiðakerfi SVR tekur gildi næstkomandi fimmtudag

Breytingar vegna óska farþega og vagnstjóra

BREYTINGAR á leiðakerfi Strætisvagna Reykjavíkur taka gildi fimmtudaginn 15. maí og er þar
aðallega um að ræða lagfæringar á leiðakerfinu sem tók gildi 15. ágúst síðastliðinn og hefur verið til
reynslu síðan. Breytingarnar eru gerðar í samræmi við óskir og ábendingar viðskiptavina SVR og í
samvinnu við vagnstjóra fyrirtækisins.

Við endurskoðun leiðakerfisins hefur þess verið gætt að stilla aksturstíma strætisvagna þannig að
kröfum um stundvísi verði náð og er gert ráð fyrir að aksturstími leiða verði lengdur í flestum
tilfellum. Þetta er fyrst og fremst gert til að bæta stundvísi vagna og auka öryggi með minni hraða
þeirra, en jafnframt er leitast við að draga úr álagi á vagnstjóra. Á löngum akstursleiðum er gert ráð
fyrir tímajöfnun á báðum endastöðvum, en það gerir það að verkum að þegar rólegt er þurfa
vagnarnir að tímajafna og þegar álag er mikið dregur úr áhrifum seinkunar.

Ný leið og breytingar á nokkrum leiðum
Akstursleiðir nokkurra leiða breytast nokkuð samkvæmt nýja leiðakerfinu, þ.e. leiða 1, 3, 5, 6, 7,
14 og 115, og ein ný leið bætist við, leið 9, sem tengir Ártún við athafnasvæði í norðurbænum.
Breytingarnar eru eftirfarandi:

Leið 1 mun aka frá Lækjartorgi austur Hverfisgötu að Hlemmtorgi. Fer þaðan Snorrabraut,
Bergþórugötu, Barónsstíg, Egilsgötu, Snorrabraut og að Loftleiðahóteli. Í bakaleiðinni verður farið
um Hringbraut, Njarðargötu og Skólavörðustíg að Lækjartorgi. Með þessum breytingum er komið á
tengingu við Hlemmtorg, frá Hlemmtorgi að Landspítala og Loftleiðahóteli og frá
Hlemmtorgi/Loftleiðahóteli að BSÍ.

Leið 3 mun hætta að þjóna Bakkahverfi, fer að Sléttuvegi og Sjúkrahúsi Reykjavíkur, hættir akstri
um Hvassaleiti, fer Bólstaðarhlíð og Stakkahlíð og fer Túngötu og Hofsvallagötu í stað Suðurgötu og
Hringbrautar.

Leið 5 mun aðeins aka Hjarðarhaga-Dunhaga-Birkimel-Hringbraut á leið sinni frá Skeljanesi. Í
bakaleiðinni verður ekið um Suðurgötu. Með þessu er komið til móts við óskir íbúa í Skerjafirði sem
vilja tryggja börnum sínum örugga ferð vestur fyrir Suðurgötu og svo þeirra sem koma úr
miðborginni og ætla í Háskóla Íslands. Leið 5 mun hætta akstri á Sléttuveg en mun þess í stað
aka Bústaðaveg-Kringlumýrarbraut-Listabraut-Háaleitisbraut- Bústaðaveg. Með þessu er komið á
beinum tengslum úr mörgum borgarhverfum við Kringlusvæðið. Aðrar breytingar á leið 5 verða þær
að vagninn mun aka Hólsveg og Engjaveg á leið sinni að Grensásstöð.

Leið 6 mun þjóna Bakkahverfi í stað leiðar 3 og mun aka Flókagötu í stað Háteigsvegar vestan
Lönguhlíðar. Einnig verður aksturstími lengdur og vagni bætt inn á leiðina. Með þessu er vonast til
að leiðinni gangi betur að halda réttum tíma, en mikið álag er á henni og hefur henni oft og tíðum
gengið illa að halda áætlun.

Leið 7 mun aka að Fossvogskapellu á leið austur.

Leið 9 er ný leið sem ætlað er að tengja Ártún við athafnasvæði í Norðurbæ. Leiðin ekur um
Skútuvog-Vatnagarða-Dalbraut-Sundlaugaveg-Borgartún og Kirkjusand. Með þessari nýju leið eiga
íbúar í Grafarvogi og Árbæ kost á mun betri leið um þetta svæði en áður. Leiðin mun ganga á
annatíma virka daga, þ.e. kl. 07­09 og 16­19.

Leið 14 mun þjóna Borgarhverfi og Víkurhverfi og aka Strandveg-Borgarveg-Melaveg-Strandveg-
Breiðuvík-Mosaveg að Gullengi. Með þessu verður íbúum í Borgarhverfi og Víkurhverfi veitt þjónusta
og einnig munu tengslin við Borgarholtsskóla batna. Einnig mun leiðin aka um Fjallkonuveg á leið
til miðborgar og þannig færa Hamrahverfi betri tengingu við verslunarmiðstöð, íþróttahús og
félagsmiðstöð.

Leið 115 mun fara Gullengi- Mosaveg-Víkurveg í stað Borgarvegar.

Eftirspurn eftir hlutabréfum í Samherja níföld á við framboð

Fyrirtækið í hópi stærstu hlutafélaga landsins

EFTIRSPURN eftir hlutabréfum í Samherja hf. á Akureyri varð níföld á við framboð. Um 6.300
einstaklingar og fyrirtæki óskuðu eftir hlutabréfum í félaginu, samtals að andvirði rúmlega 400
milljónir króna að nafnverði, eða 3,6 milljarðar króna að söluverði í hlutafjárútboði sem lauk sl.
miðvikudag. Í boði voru hlutabréf fyrir 45 milljónir króna að nafnvirði, eða 405 milljónir króna að
söluverði.

Í hlutafjárútboðinu var hægt að skrifa sig að hámarki fyrir 100 þúsund krónum að nafnvirði og að
lágmarki fyrir 1.000 krónum. Þegar hlutabréfunum verður útdeilt má hins vegar gera ráð fyrir að bréf
að nafnvirði um 7.000 krónur og söluverði um 64 þúsund krónur komi í hlut hvers aðila. Sigurður
Sigurgeirsson, forstöðumaður Landsbréfa á Norðurlandi segir stefnt að því að senda út
greiðsluseðla til tilvonandi hluthafa í lok þessarar viku.

Póstkostnaður um 1,6 milljón króna
Kostnaður Landsbréfa við að senda út greiðsluseðil í pósti til þeirra 6.300 aðila sem óskuðu eftir
hlutabréfum er um 220 þúsund krónur. Í framhaldinu eru hlutabréfin svo send til nýrra hluthafa í
ábyrgðarpósti og er kostnaðurinn við það rúmlega 1.350 þúsund krónur. Kostnaðurinn við innheimtu
hlutafjárloforða og að senda út hlutabréfin er því tæplega 1,6 milljónir króna.

Eftir hlutafjárútboðið verður Samherji með allra fjölmennustu og stærstu hlutafélögum landsins.
Fyrir útboðið voru hluthafar í Samherja 54 og fjölgar nú um 6.300. Þessu til viðbótar stendur
starfsmönnum fyrirtækisins til boða að kaupa tæplega 13 milljóna króna hlut að nafnvirði, í eigu
þeirra Samherjafrænda, Kristjáns og Þorsteins Vilhelmssona og Þorsteins Más Baldvinssonar, á
genginu 5. Meðalfjöldi starfsmanna Samherja í fyrra miðað við heilsársstörf var 340. Telja má líklegt
að flestir starfsmanna fyrirtækisins nýti sinn rétt og því má áætla að fjöldi hluthafa í Samherja verði
nálægt 6.700 innan tíðar.

Markaðsverð um 12,4 milljarðar króna
Eimskip er trúlega stærsta og fjölmennasta hlutafélag landsins. Hluthafar eru um 15.000 talsins og
markaðsverð fyrirtækisins um 16,2 milljarðar króna. Eftir hlutafjárútboð Samherja má ætla að
hluthafar verði um 6.700, markaðsverð fyrirtækisins verði um 12,4 milljarðar króna og fyrirtækið þar
með komið í hóp stærstu hlutafélaga landsins. Hluthafar í Hlutabréfasjóðnum hf. eru tæplega 7.000
og markaðsverð félagsins um 3,9 milljarðar króna. Hluthafar í Íslandsbanka eru um 5.570 og
markaðsverð félagsins um 10,3 milljarðar króna. Hluthafar í Flugleiðum eru tæplega 5.000 og
markaðsverð fyrirtækisins um 8,5 milljarðar króna.
Samningur Háskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri

Samstarf á sviði upplýsingatækni og fjarkennslu

HÁSKÓLINN á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri hafa komið á fót samstarfi til að efla
starfsemi skólanna á sviði upplýsingatækni og fjarkennslu. Samningur HA og VMA er þriðji
samstarfssamningurinn sem HA gerir á stuttum tíma en áður hafði skólinn gert samstarfssamning
við Háskóla Íslands og Tækniskóla Íslands.

Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, og Bernharð Haraldsson, skólameistari
Verkmenntaskólans á Akureyri, undirrituðu samstarfssamninginn sl. miðvikudag að viðstöddu
fjölmenni. Meðal gesta voru Björn Bjarnason menntamálaráðherra og Guðmundur Bjarnason,
umhverfis- og landbúnaðarráðherra, og flutti Björn ávarp við þetta tækifæri.

Samstarf skólanna felst einkum í eftirfarandi verkefnum; að koma á örbylgjusambandi milli
tölvukerfa skólanna, að hafa samstarf um ýmsa þætti er varða uppbyggingu og rekstur tölvukerfa
skólanna, samnýtingu á tækjum og gögnum, samnýtingu á tenginu við þriðja aðila ásamt
samræmingu netkerfa og hugbúnaðar og innkaupa á tölvubúnaði.

Háskólinn verði leiðandi
Einnig skal unnið að því að gera skólunum tæknilega mögulegt að koma upp sameiginlegum
gagnabönkum og samnýta gagnasöfn þeirra eftir því sem við á. Loks að hafa samvinnu um
uppbyggingu og framkvæmd fjarkennslu og að vinna sameiginlega að þróun á aðferðum og
tæknilegu umhverfi til stuðnings henni.

Í máli Þorsteins Gunnarssonar, rektors kom fram að Háskólinn á Akureyri stefnir að því að verða
leiðandi í notkun tölvu- og upplýsingatækni við kennslu og rannsóknir og að nýta þá tækni til
skilvirkari starfsemi stofnunarinnar. HA hefur nýverið stigið sín fyrstu skref á sviði fjarkennslu.
Heilbrigðisdeild háskólans er m.a. frumkvöðull í að bjóða upp á meistaranám í hjúkrunarfræði með
fjarkennsluformi í samvinnu við háskólann í Manchester. VMA hefur hins vegar lengri reynslu á sviði
fjarkennslu.

VMA hafi frumkvæði á landsvísu
Í máli Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra kom fram að Verkmenntaskólinn hefði fengið
formlegt leyfi til fjarkennslu þann 16. maí 1995 en slík starfsemi hefði þá þegar hafist innan
skólans. Björn sagðist hafa hug á því að skilgreina hlutverk VMA á þann veg að skólinn hefði til
frambúðar frumkvæði á landinu öllu á þessu sviði á framhaldsskólastigi.

"Það er alveg ljóst að skólarnir standa ekki aðeins frammi fyrir því að nýta sér tæknina til að byggja
upp starf og efla þjónustu heldur er alþjóðleg samkeppni á milli háskóla að færast inn á þetta svið.
Skólarnir eru því ekki að keppa sín á milli heldur að keppa á alþjóðlegum markaði um nemendur við
skólastofnanir erlendis," sagði Björn og bætti við að því væri mikilvægt að velta fyrir sér hvernig ætti
að haga stefnumörkun í háskólastarfi okkar með hliðsjón af þessari þróun.

Landfræðileg landamæri yfirunnin
Bernharð Haraldsson, skólameistari VMA, lýsti fjarkennslunni og minntist þess er Pétur
Þorsteinsson, skólastjóri á Kópaskeri, hóf á síðasta áratug að föndra við tölvuna sína, breyta henni
í fjarkennslutölvu og tengja grunnskólana. Einnig er þeir Adam Óskarsson og Haukur Ágústsson,
kennarar við VMA, hófu að kenna enska tungu með fjarkennslu fyrir um þremur árum. Í dag býður
VMA upp á yfir 20 námsgreinar, yfir 60 áfanga og hefur um 160 nemendur í fjarkennslu.

"Fjarkennslan er barn þessa tíma. Hún á eftir að vaxa úr grasi, hún á eftir að stækka og eflast og
hún gefur fólki tækifæri og vinnur á alheimsvísu. Við höfum yfirunnið hin landfræðilegu landamæri
þess að geta menntast. Nemendur okkar eru ekki bara á Akureyri eða koma til Akureyrar til að
sitja í misskemmtilegum tímum hjá misskemmtilegum og fróðleiksfúsum kennurum. Nú geta menn
setið heima hjá sér og unnið verkefni sín þegar þeim hentar best. Það skiptir ekki máli hvar
nemandinn er, hann getur verið á Sauðárkróki eða Seyðisfirði, í innstu dölum, úti við sjávarsíðuna,
eða jafnvel á togara allt norður undir Smugu," sagði Bernharð.
Hættuástandi aflýst á Siglufirði í gær og fólk flutt til síns heima

Konurnar saumuðu gluggatjöld um borð í Svalbarða

Siglufirði. Morgunblaðið.

HÆTTUÁSTANDI vegna snjóflóða á tveimur síðustu svæðunum á Siglufirði var aflýst um hádegisbil
í gær. Þar með fengu um fimmtíu íbúar að halda til síns heima. Daginn áður hafði hættuástandi
verið aflýst á nokkrum öðrum svæðum og um hundrað íbúar fengu þá að snúa aftur til híbýla sinna.

Öll þessi svæði voru rýmd á föstudagskvöld þ.e. 56 hús þar sem búa um 150 manns. Snjóalög í
fjöllunum fyrir ofan byggðina eru orðin mun traustari þar sem vindurinn hefur rifið upp snjóinn og
hann sest betur. Fólki sem gert var að yfirgefa hús sín hefur dvalið við mismunandi aðstæður
síðastliðna tvo til þrjá sólarhringa og ræddi fréttaritari Morgunblaðsins við nokkra af
"flóttamönnunum" í gær.

Allt til alls um borð í Svalbarða
"Hér er allt til alls, ljósabekkur, gufubað, leikfimisalur og hvað eina svo þetta er eins og á
lúxussnekkju", sagði Sigþóra Gústafsdóttir. Hún dvaldi í þrjá sólarhringa um borð í togaranum
Svalbarða ásamt tveimur sonum sínum, Hjalta og Gunnari, tengdaforeldrum, Júlíusi og Guðfinnu,
nágranna sínum, Sverri Júlíussyni, og fimm manna fjölskyldu af Hólaveginum, Guðna, Ósk og
börnum þeirra.

Þau eru sammála um að ekki hafi væst um þau um borð, mikið væri búið að spjalla saman, spila
og borða góðan mat, og Guðfinna kvað það mikinn kost að þarna væru þau ekki fyrir neinum.
Konurnar höfðu heldur ekki setið auðum höndum þennan tíma því þær voru búnar að sauma nýjar
gardínur fyrir eldhúsið, borðsalinn og hluta af klefunum, svo skipverjarnir munu áreiðanlega hugsa
hlýlega til þeirra er þeir sjá hversu heimilislegt er orðið um borð.

Sváfu betur er skipið ruggaði
Skipið ruggaði aðeins við bryggjuna, en að sögn Sigþóru varð það bara til þess að þau sváfu betur.
Ennfremur sagði hún að þrátt fyrir að þau hefðu ekki yfir neinu að kvarta yrði nú yndislegt að fá að
snúa aftur heim.

Svalbarði sem er í eigu Siglfirðings hf. liggur við bryggju á Siglufirði þar sem verið er að setja í hann
nýja rækjuvinnslulínu.
Fimmmenningunum, sem fluttu sig milli stöðva í janúar, boðin störf hjá Stöð 2


Sjónvarpsstjórinn hafnar framkvæmdastjórastöðu

ÞEIM fimm yfirmönnum af Stöð 2 sem fluttu sig yfir á Stöð 3 fyrir hálfum öðrum mánuði verða boðin
sambærileg störf hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. og þeir áður gegndu hjá því félagi. Magnús E.
Kristjánsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 3, hefur hafnað framkvæmdastjórastöðu hjá ÍÚ og gert
starfslokasamning við fyrri eigendur Stöðvar 3.

"Við tókumst á við þetta verkefni af því að okkur langaði að byggja upp góða sjónvarpsstöð. Það
eru okkur því mikil vonbrigði að fá ekki að spreyta okkur á því," segir Magnús.

Hjá Stöð 3 var fjöldi fyrrverandi starfsmanna Stöðvar 2. Mesta athygli vakti þegar Magnús E.
Kristjánsson og fjórir menn með honum færðu sig á milli stöðvanna 10. janúar sl. Magnús hafði
verið einn af framkvæmdastjórum Íslenska útvarpsfélagsins. Hinir eru Jón Axel Ólafsson, sem verið
hafði dagskrárstjóri Bylgjunnar, Hannes Jóhannsson tæknistjóri, Magnús Viðar Sigurðsson
framleiðslustjóri og Thor Ólafsson, deildarstjóri söludeildar ÍÚ.

Kærðir til RLR
Stjórnendur Stöðvar 2 brugðust hart við brotthvarfi þeirra félaga, töldu þá hafa brotið samkeppnislög
og hótuðu skaðabótamáli og lögbanni. Á móti hótaði Stöð 3 forsvarsmönnum Stöðvar 2 málssókn
vegna meiðyrða í garð mannanna fimm. Stöð 2 kærði suma þeirra til Rannsóknarlögreglu ríkisins
fyrir að taka með sér skjöl úr eigu félagsins en henni var vísað frá eftir að mennirnir höfðu við
yfirheyrslur afhent meginhluta þeirra gagna sem Stöð 2 saknaði. Við þetta virðist kærumálum hafa
lokið, nema hvað a.m.k. einn úr þessum hópi mun vera með kröfur á hendur Stöð 2 vegna
ógreiddra launa og orlofs.

Spurningar vakna um það hvaða tryggingar fimmmenningarnar hafi fengið þegar þeir skiptu um
starf. Magnús vill ekkert segja um samning sinn. Einar Kristinn Jónsson, sem var stjórnarformaður
Stöðvar 3 fram á laugardag, neitar því að þeir hafi fengið einhvers konar baktryggingu. "Þetta voru
venjulegir ráðningarsamningar, nema hvað þeir voru aðeins til tveggja ára," segir hann. Í þeim voru
venjuleg uppsagnarákvæði. Einar Kristinn segir að vegna þess að menn hafi átt von á látum hafi
verið um það samið að Stöð 3 sæi um að starfslokin á Stöð 2 yrðu þeim félögum að skaðlausu.

Það mun hafa verið hluti af samningum eigenda Íslenskrar margmiðlunar og Íslenska
útvarpsfélagsins að fimmmenningunum yrði gefinn kostur á sambærilegum störfum og þeir gegndu
þar áður hjá Íslenska útvarpsfélaginu. Jafnframt hafa nýir eigendur stöðvarinnar lýst því yfir að reynt
verði að finna störf fyrir sem flesta af starfsmönnum Stöðvar 3 en þeir eru um 40 talsins.

Magnús E. Kristjánsson hefur þegar hafnað boði um framkvæmdastjórastarf hjá Íslenska
útvarpsfélaginu og hefur ákveðið að láta af störfum. Hefur þegar verið gerður við hann
starfslokasamningur. Ekki er vitað um hina mennina fjóra, hvað þeim verður boðið upp á. Búist er
við að málin skýrist á starfsmannafundi sem boðið hefur verið til á Stöð 3 árdegis í dag.

Magnús E. Kristjánsson segist eiga eftir að ganga frá ákveðnum málum á Stöð 3, í samræmi við
starfslokasamning sinn, en framtíðin sé að öðru leyti óráðin.

Fjöldi fyrrverandi starfsmanna Stöðvar 2
Á annan tug fyrrverandi starfsmanna Stöðvar 2 voru í starfsmannahópi Stöðvar 3. Í kjölfar
fimmmenninganna sem fluttu sig yfir í byrjun janúar fóru Halldór Kristjánsson, sem verið hafði
innkaupastjóri á markaðssviði ÍÚ, Ólafur Jón Jónsson, þjónustustjóri ÍÚ, og Hreiðar Júlíusson
klippari. Áður höfðu komið til starfa á Stöð 3 Gunnella Jónsdóttir, kynningarstjóri fyrirtækisins,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, sölustjóri auglýsingadeildar, og Þóra Gunnarsdóttir aðstoðardagskrárstjóri,
en þær eru allar fyrrverandi starfsmenn Stöðvar 2. Ýmsir tæknimenn hafa áður unnið hjá Stöð 2,
m.a. Þórarinn Ágústsson tæknistjóri sem tengdist Stöð 2 í gegnum starf sitt hjá Eyfirska
sjónvarpsfélaginu á Akureyri.
Málefni aldraðra rædd á hádegisverðarfundi með heilbrigðisráðherra

Skattar til jöfnunar hafa snúist upp í andhverfu sína

ELDRI borgarar fjölmenntu á hádegisverðarfund á Hótel Borg í gær, þar sem Ingibjörg Pálmadóttir,
heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sat fyrir svörum um málefni eldri borgara.

Fundurinn hófst á stuttri framsögu ráðherrans, sem ræddi m.a. um áhrif jaðarskatta á kjör aldraðra
og harmaði það að skattar sem ætlaðir voru til jöfnunar hefðu snúist upp í andhverfu sína og leitt til
frekari ójafnaðar. Einnig ræddi ráðherrann um þá endurskoðun sem nú er í gangi á lögum um
almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra.

Stefnan sú að sem flestir verði heima sem lengst
Heilbrigðisráðherra benti á ýmislegt jákvætt sem nú væri á döfinni í málefnum aldraðra. Á næstunni
yrði til dæmis tekin í notkun öldrunarlækningadeild á Landakoti, sú fyrsta sinnar tegundar hér á
landi. "Þar byggist öll meðferð á því að einstaklingurinn nái heilsu og komist aftur í sitt rétta
umhverfi. Því nú er stefnan sú að sem flestir verði heima sem lengst. Við verðum þó líka að halda
áfram að byggja upp hjúkrunardeildir og nú á einmitt að fara að taka í notkun 40 ný hjúkrunarrými í
Skógarbæ og 30 á næsta ári, auk þeirrar uppbyggingar sem á sér stað víða úti um land," sagði
Ingibjörg.

Meðal þeirra spurninga sem beint var til heilbrigðisráðherra var hvort hún myndi beita sér fyrir því að
jaðarskattaáhrif á kjör aldraðra verði tekin til greina í kjarasamningum. Hún kvaðst telja nauðsynlegt
að taka á því, þar sem jaðarskattarnir hefðu jafnslæm áhrif á kjör aldraðra og hinna yngri. Einnig var
Ingibjörg spurð um afstöðu hennar til þess þegar tenging ellilífeyris og almennra launakjara í
landinu var afnumin á síðasta ári og kvaðst hún hlynnt því að slíkt samband yrði tekið upp aftur.
Hún benti ennfremur á mikilvægi þess að byggja lífeyrissjóðina upp til þess að þeir gætu alfarið
séð um greiðslur til aldraðra og almannatryggingar um greiðslur til öryrkja.

Málin of oft "í nefnd"
Spurt var hvað liði starfi nefndar sem vinnur að endurskoðun löggjafar um almannatryggingar og var
svar ráðherra á þá leið að nefndin væri alltof stór og því afar svifasein. Aðspurð hvort ekki væri
skynsamlegt að fækka í nefndinni eða skipta henni upp, sagði Ingibjörg að það væri erfitt þar sem
allir hagsmunaaðilar vildu hafa fulltrúa í henni.

Margar aðrar spurningar komu upp en í fundarlok var þó ljóst að mörgum var enn ósvarað. Fram
kom í máli nokkurra fundarmanna dbað þeim þættu hlutirnir ganga of hægt og þó að eldri borgarar
hefðu flestir rúman tíma hefðu þeir í raun ekki langan tíma til stefnu til að bíða úrlausna á brýnum
hagsmunamálum. Svörin væru alltof oft á þá leið að málin væru í skoðun, í athugun eða í nefnd.
Skattrannsóknir skiluðu 555 milljónum í fyrra

SKATTRANNSÓKNIR hafa á undanförnum fjórum árum leitt til hækkunar opinberra gjalda um 1.168
milljónir króna. Tæplega helmingur þeirrar hækkunar, eða 555 milljónir króna, varð í fyrra.
Samsvarandi tala fyrir árið 1995 var 236 milljónir króna. Árangur skattrannsókna hefur aukist hratt
frá árinu 1993 þegar skipulagsbreytingar voru gerðar í skattamálum og sérstakt embætti
skattrannsóknarstjóra var stofnað. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu
Sigurðardóttur alþingismanns.

Breytingar á opinberum gjöldum vegna skattaeftirlits, sem einkum felst í endurskoðun framtala fyrir
og eftir álagningu, hefur á sama tíma farið lækkandi. Árið 1993 voru fjárveitingar til skattaeftirlitsins
auknar og náðist þá veruleg hækkun á opinberum gjöldum, eða um 1.619 milljónir króna. Í fyrra var
talan komin niður í 685 milljónir.

Verktakastarfsemi oftast rannsökuð
Flestar rannsóknir skattrannsóknarstjóra hafa beinst að byggingar- og verktakastarfsemi, eða 61,
og eru þá ekki talin mál sem varða bein vanskil opinberra gjalda. Um verslunar-, veitinga- og
hótelrekstur var fjallað í 54 skýrslum, um iðnaðarstarfsemi í 31, þjónustustarfsemi í 27,
útgerðarfyrirtæki í ellefu og flutningastarfsemi í fimm skýrslum og er í öllum tilvikum ótalin bein
vanskil.

Rannsóknir vegna beinna vanskila á opinberum gjöldum voru 53 á tímabilinu og námu samtals 451
milljón króna. Flestar beindust þær að verktakastarfsemi, eða 14, og voru vanskilin alls 154,9
milljónir króna í þeim málum. Útgerðarfyrirtæki voru tekin til rannsóknar í 13 tilfellum og var
vanskilaupphæðin þar nokkuð hærri, eða samtals 159 milljónir króna. Veitingastarfsemi var
rannsökuð í níu tilfellum og voru vanskilin 44,2 milljónir króna.

Á tímabilinu komu 49 skattsvikamál til kasta héraðsdóms og voru refsingar dæmdar í 47 málum.
Hæstiréttur fékk tólf mál til meðferðar og dæmdi refsingar í öllum nema einu.

Í árslok 1996 var 251 mál óafgreitt hjá skattrannsóknarstjóra. Miðað við fyrri reynslu má búast við
að tvö hundruð mál leiði til gjaldabreytinga eða annarra aðgerða skattrannsóknarstjóra.
Gjaldabreytingum var um áramótin ólokið í 74 málum sem send höfðu verið ríkisskattstjóra frá
skattrannsóknarstjóra. Búast má við að þau skili um hálfum milljarði í hækkun opinberra gjalda.
Skipskaði leysir farmeigendur ekki undan ábyrgð á eigum sínum

Þurfa að greiða frakt þótt skipið farist eða strandi

Þeir sem eiga farm um borð í skipi verða að greiða flutningsgjöld þótt skipið farist, enda
gjaldfalla þau þegar vara fer um borð í skip. Sumir eigenda farms um borð í Víkartindi höfðu þegar
greitt, en aðrir eru að fá rukkanir frá Eimskip um þessar mundir.


HLYNUR Halldórsson í tjónadeild Eimskips segir að farmflutningar séu sameiginleg ábyrgð eiganda
farmsins og flytjandans og reglur Eimskips séu ekki frábrugðnar alþjóðlegum reglum skipafélaga.
"Við höfum fengið sterk viðbrögð frá fólki, sem þykir óréttlátt að fá rukkun vegna flutninganna, en
Eimskip hafði þegar greitt ýmsan kostnað, eins og leigu á skipinu og lestun vörunnar," sagði
Hlynur.

Reglur sem gilda um farmflutninga eru svipaðar eða eins um allan heim. Þær giltu m.a. um
Dísarfellið, sem fórst milli Íslands og Færeyja aðfaranótt 9. mars, að sögn Kjartans Ásmundssonar
í tjónadeild Samskipa. Hann sagði nánast alla farmeigendur hafa verið tryggða fyrir tjóni, svo þeir
bæru það ekki sjálfir.

Í siglingalögum eru almenn ákvæði um farmgjöld, en skipafélög gera farmsamninga við flytjendur
vöru. "Um leið og tekið er við vöru í lestunarhöfn gjaldfellur farmgjaldið," sagði Hlynur Halldórsson.
"Eimskip þarf að greiða ýmsan kostnað fyrirfram, til dæmis lestunina og leigu á skipinu, í tilfelli
Víkartinds er það allt þar til skipið strandaði. Þrátt fyrir að farmgjald gjaldfalli í raun við móttöku
vöru, þá er misjafnt hvort farmflytjendur greiða það strax eða við móttöku vörunnar á áfangastað.
Sumir eigendur farms í Víkartindi höfðu þegar greitt farmgjaldið, en aðrir hafa fengið rukkanir eftir á.
Allir sem semja um flutninga taka ákveðna áhættu, ekki aðeins skipafélagið. Fólk þarf að kynna
sér skilmála farmsamningsins."

Flestir kaupa tryggingu
Hlynur sagði að ef vara væri keypt samkvæmt cif-skilmálum þá greiddi sendandi vöru farmgjöld,
tryggði vöruna og greiddi kostnað við að koma henni á skipsfjöl. "Þegar sendingin er tryggð greiða
tryggingarnar þennan kostnað. Því miður eru hins vegar dæmi um að fólk hafi ekki keypt
tryggingu."

Hlynur sagði að Eimskip legði áherslu á að veita einstaklingum, sem væru að flytja búslóð milli
landa, eins mikla aðstoð og hægt væri. "Við bendum fólki á að tryggja sendinguna og langflestir
gera það. Það er hins vegar ekki skylda farmflytjandans að tryggja þá vöru sem hann flytur. Það
eru því engin rök fyrir því að fella farmgjöldin niður, þrátt fyrir að varan hafi ekki komist á áfangastað
vegna strandsins. Sjóslys eru sem betur fer fátíð og mönnum bregður eðlilega í brún ef þeir hafa
ekki kynnt sér efni farmskírteinis og vita ekki að ábyrgðin á vörunni hvílir ekki á farmflytjandanum."

Þykir innheimtan óréttlát
Hlynur sagði að ef þessi háttur væri ekki hafður á, að eigandi farms bæri ábyrgð á honum, þá
fengist ekkert skipafélag við flutninga. "Ef ábyrgð farmflytjanda væri ótakmörkuð þá væru
farmgjöldin óheyrilega há. Auðvitað hefur það komið mörgum illa að missa eigur sínar við strand
Víkartinds og þeim þykir óréttlátt að þurfa þar að auki að greiða farmgjöldin. En kostnaðurinn er
þegar fallinn á Eimskip."

Hlynur sagði erfitt að segja til um hvort eigendur vöru í Víkartindi gætu hugsanlega átt
endurkröfurétt á hendur eiganda skipsins. "Við höfum fyrst og fremst reynt að gæta hagsmuna
farmeigenda og reynt að fá skipið losað sem allra fyrst. Síðan er flókið að finna út hvenær og
hvernig má afhenda þá vöru sem næst á land. Hugsanleg ábyrgð er síðari tíma mál."

Alþjóðlegar reglur
Kjartan Ásmundsson hjá Samskipum tók mjög í sama streng og Hlynur varðandi farmsamninga og
sagði að í farmsamningum Samskipa væri ákvæði, sem heimilaði að farmgjöld væru innheimt þrátt
fyrir skipskaða. "Það leggst ýmis kostnaður á vöru áður en hún er komin um borð og við höfum
hvatt viðskiptavini okkar til að tryggja sendingar. Nánast allir þeir, sem áttu vöru um borð í
Dísarfellinu, voru tryggðir og tryggingafélög þeirra bera því tjónið. Farmsamningar okkar eru
samþykktir af alþjóðlegum samtökum, sem hafa 80% af kaupskipaflota heims innan sinna
vébanda. Þessi ákvæði eru því regla hjá skipafélögum um allan heim og hafa verið lengi."
Skiptinemar frá öllum heimshornum

Vildu kynnast Íslandi en finnst málfræðin erfið

ÍSLENSK málfræði er erfið, var nokkuð sameiginleg yfirlýsing frá níu manna hópi skiptinema frá
ýmsum löndum sem hefur dvalið hér á landi síðustu mánuði á vegum Rotaryhreyfingarinnar.
Hópurinn býr hjá fjölskyldum vítt og breitt um landið og hefur eytt síðustu dögunum saman við gagn
og gaman í höfuðborginni, m.a. heimsókn til Morgunblaðsins og fleiri fyrirtækja.

Af hverju varð Ísland fyrir valinu? Ég gat valið milli Ekvador og Íslands og vissi að það yrði alltof heitt
í Ekvador svo Ísland varð ofan á, sagði Kathleen Bailey frá Kanada og hún kvaðst geta haldið
íslenskunni eitthvað við með því að hitta heima fyrir fólk sem tali málið, m.a. í Gimli. Ég vissi lítið
um Ísland nema að það er mjög ólíkt Japan og vildi kynnast því, sagði Megumi Konno frá Japan og
sagði hún fáa Japani kynnast landinu. Má segja að svörin séu nokkuð einkennandi fyrir hópinn,
menn fýsti að vita meira um landið. Við munum halda sambandi hingað eftir að heim kemur, voru
þau sammála um en flest hafa þau dvalið hjá þremur til fimm fjölskyldum til að kynnast sem mest
ólíku fólki og viðhorfum.

Jón Ásgeir Jónsson, sem er Rotaryfélagi í Hafnarfirði, er annar umsjónarmanna hópsins en þessi
nemendaskipti eru eitt af stærstu verkefnum hreyfingarinnar. Milli 8 og 10 þúsund ungmenni hleypa
heimdraganum á ári hverju á vegum hreyfingarinnar til að kanna ný lönd og segir Jón oft erfitt að fá
íslenskar fjölskyldur til að taka að sér þá 8 til 9 gesti sem hingað sæki árlega en það gangi nú
alltaf að lokum.

Vinna og skoða sig um Hópurinn sem hér hefur dvalist hittist fljótlega eftir að hann kom til landsins
og settist saman á íslenskunámskeið. Síðan hafa þau hist aftur og nú stendur ferðalag fyrir dyrum.
Fjölskyldur sumra þeirra hafa getað tekið þau með í skoðunarferðir og sum hafa unnið í jólafríinu
eða stefna að því að vinna í nokkrar vikur áður en halda skal heim. Hvenær er Þórsmörk? spurði
Bryon Panaia frá Bandaríkjunum og hafði greinilega hugmynd um að framhaldsskólanemar hafa
síðustu árin hóað sig saman í helgarferð þangað snemma í júlí. Hafði hópurinn áhuga á að fylgjast
með hvernig verslunarmannahelgin gengur fyrir sig hjá íslenskum ungmennum, en Jón Ásgeir taldi
líkur á að þau yrðu send úr landi áður! Eftir innlit hjá Morgunblaðinu var ætlunin að líta á kaffihús í
Kringlunni og heimsækja síðan meðal annars Granda, Reykjalund og Ríkisútvarpið og á sunnudag
verður hópnum boðið í Háskólabíó.
Einstaklingar skulda 276 milljarða króna að mati Seðlabanka Íslands

"Staðan betri en talið var"

SKULDIR einstaklinga við innlánastofnanir, lífeyrissjóði, Húsnæðisstofnun, greiðslukortafyrirtæki og
Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) eru áætlaðar að hafa numið um 276 milljörðum króna í árslok
1994. Af þeirri tölu voru skuldir við banka og sparisjóði 21%, við lífeyrissjóði 13%, námslánaskuldir
14%, húsnæðisskuldir 52% og vanskil á greiðslukortum 0,2%.

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Seðlabanka Íslands um skuldir og vanskil einstaklinga í
árslok 1994, en skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í gær. Við það tækifæri sagðist Páll
Pétursson félagsmálaráðherra telja að niðurstöður skýrslunnar sýndu fram á að skuldastaða
einstaklinga væri mun betri en umræðan hefði hingað til gefið til kynna. Markús Möller og Már
Guðmundsson, hagfræðingar hjá Seðlabanka Íslands, sem unnu að skýrslunni, tóku undir þetta
sjónarmið. Þeir sögðu ennfremur að fátt hefði komið á óvart í niðurstöðum skýrslunnar, þeir hafi til
að mynda vitað fyrirfram að skuldir hér á landi væru tiltölulega háar miðað við ráðstöfunartekjur sé
miðað við alþjóðlega staðla.

Meirihlutinn virðist ráða við skuldirnar
Í skýrslunni kemur fram að vanskil sem voru þriggja mánaða eða eldri við árslok 1994 hafi verið um
2% af heildarskuldum einstaklinga við fyrrgreindar lánastofnanir eða um 7 milljarðar króna. Vanskil
sem voru þriggja mánaða eða eldri voru hlutfallslega langmest hjá bönkum eða sparisjóðum eða
62,4%. Skýringin er talin vera sú að þar eru lánin styst og greiðslur hærra hlutfall af skuldum en hjá
Húsnæðisstofnunm, LÍN eða Lífeyrissjóðum.

Þá kemur fram að meirihluti þeirra sem skulda virðist ráða við skuldirnar, því að af 86 þúsund
fjölskyldum sem skulduðu við árslok 1994 voru tæplega 71 þúsund án vanskila sem voru þriggja
mánaða eða eldri, en ríflega 15 þúsund eða 17% voru með vanskil. Í skýrslunni fékkst ekki einhlít
skýring á því meðal hvaða hópa vanskilavandinn var hvað mestur, en þar kemur hins vegar fram að
vanskil í krónum talin fara hækkandi með hækkandi tekjum en sem hlutfall af tekjum eða eignum
fara þau lækkandi með hækkandi tekjum.

Auk þess segir í skýrslunni að af alls 147.850 fjölskyldum voru rúmlega 62 þúsund skuldlausar í
árslok 1994, 11.800 skulduðu meira en 6 milljónir króna, 460 meira en 15 milljónir króna og átta
meira en meira en 40 milljónir króna og voru þar af með meira en 20 milljónir í vanskilum.
Meðalskuldir fjölskyldna voru um 1,8 milljónir króna.

Skuldir heimilanna voru í árslok 1994 að mestu í nýlegum lánum, en í skýrslunni segir að 70%
skulda í árslok hafi verið vegna lána sem voru tekin árið 1990 eða seinna.

Skuldir meiri hjá einstæðum konum
Þá kemur fram í skýrslunni að skuldir í árslok 1994 hafi verið mestar hjá fólki á aldursbilinu 30 til 50
ára og að hjón skuldi meira en einstaklingar. Skuldatoppurinn er að meðaltali minni hjá körlum en
konum, en toppurinn hjá körlum er 36% af skuldatoppi hjóna og toppurinn hjá einstæðum konum
um 50% af hjónatoppnum. Í skýrslunni er mimunurinn rakinn til húsnæðisþarfa. Stærstu heimilin
eru hjá hjónun, en einstæðar konur eru að meðaltali með stærri heimili en karlar.

Auk þess segir í skýrslunni að í stað þess að líta á skuldastöðuna beinlínis, megi líta á skuldir
sem hlutfall af tekjum og eignum. Þá kemur fram að skuldir eru hæsta hlutfall af tekjum hjá
einstæðum konum, mestar rúm 200% af tekjum á aldrinum 30 til 39 ára, en falla síðan hratt.
Greinilegt sé að háar meðaltekjur hjóna geri gott betur en bæta upp meiri skuldir, því skuldir hjóna
séu lægra hlutfall af tekjum en hjá einstæðum konum og einungis þriðjungi hærri en hjá
einstæðum körlum.

Séu vanskil, sem eru þriggja mánaða eða eldri, hins vegar skoðuð í þessu samhengi sést að
einstæðir karlar eru að meðaltali með mun meira í vanskilum en konur.

Endurskipulagning Húsnæðisstofnunar
Félagsmálaráðherra segir að ýmsar leiðir hafi verið farnar til að takast á við skuldasöfnun
einstaklinga auk þess sem verið sé að vinna að ýmsum málum. "Ráðgjafarstofa um fjármál
heimilanna hefur m.a. verið sett á laggirnar, sem hefur nú þegar þjónað um 700 manns," segir
hann. "Þá hafa verið sett lög um réttaraðstoð fyrir einstaklinga og hún er í því fólgin að einstaklingur
í vandræðum getur sótt um og fengið fjármuni, allt að 250.000 krónur, til þess að leita
nauðasamninga. Jafnframt var lögum breytt í fyrra um tekjuskatt og eignaskatt, þannig að
skattaskuldir eru orðnar umsemjanlegar, nema svokallaður vörsluskattur."

Ráðherra nefndi einnig að búið væri að skipa nefnd sem ætti að reyna að draga úr
ábyrgðalánaveitingum. Þá sé í undirbúningi endurskipulagning Húsnæðisstofnunar og breytingar á
félagslega íbúðarkerfinu sem ættu að geta orðið til þess að hið félagslega íbúðarkerfi yrði, eins og
því var ætlað í upphafi, úrræði fyrir þá tekjuminni til að komast yfir húsnæði.
Skátar fara á gönguskíðum þvert yfir landið

Frá Fonti til Táar

Vaðbrekku, Jökuldal.

FERÐALAG félaga í Hjálparsveit skáta úr Garðabæ á gönguskíðum frá Fonti á Langanesi á
Reykjanestá gengur að óskum. Göngugarparnir lögðu af stað frá Fonti laugardaginn 22. mars og
gera ráð fyrir að vera komnir á leiðarenda á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku.

Leiðangursmenn héldu af stað fimm saman en einn heltist úr lestinni vegna eymsla í hnjám. Jafnvel
er þó von á að hann sláist í hópinn aftur. Þeir draga farangurinn á eftir sér á skeljum og er ækið 40-
50 kíló hjá hverjum þeirra. Eftir fjögurra daga göngu frá Fonti var leiðangurinn staddur við brúna yfir
Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði.

Bóndinn gekk úr rúmi
Að sögn leiðangursmanna hafði ferðin gengið vel til þessa, og höfðu þeir notið frábærrar gestrisni
Þórshafnarbúa eftir átta tíma göngu utan af Fonti til Þórshafnar. Nóttina áður höfðu þau gist hjá
Ragnari Guðmundssyni á Nýhól og notið gestrisni hans með veislukosti, einnig gekk Ragnar úr
rúmi og svaf sjálfur í eldhúsinu svo leiðangursmenn gætu allir sofið í rúmi.

Nýhóll á Fjöllum er síðasta byggða bólið sem leiðangursmenn gista áður en lagt er á hálendið. Á
hálendinu verður gist í fjallaskálum, en einnig hafa leiðangursmenn með sér tjöld til að gista í.

Ætluðu yfir Langjökul í gær
Magnús Smith, félagi í Hjálparsveit skáta í Garðabæ, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að
sennilega væri þetta lengsta skíðaganga sem farið hefði verin hér á landi.

Hann var í símasambandi við ferðalangana í fyrrakvöld og voru þeir þá staddir á Hveravöllum. Í gær
voru þeir komnir í Fjallkirkjuskála við Langjökul og ætluðu að halda yfir jökulinn ef vindátt yrði
hagstæð. Næsti áfangastaður er skálinn Slunkaríki við Hlöðufell, þá Skógarhólar við Þingvelli,
Lækjarbotnar og Krísuvík. Ef allt gengur að óskum lýkur leiðangrinum á Reykjanestá á þriðjudag
eða miðvikudag í næstu viku.
Stolið af snjókarli

UNGMENNI við skál á Akureyri stóðust ekki þá freistingu aðfaranótt laugardags að príla upp 6-7
metra háan snjókarl sem reistur var á Ráðhústorginu fyrir skömmu og ræna 13 metra löngum trefli
sem hann bar um hálsinn.

Trefillinn er gerður úr grófu efni og segldúk og vöfðu ungmenninn trefilinn af karli og höfðu á brott
með sér. Lögreglumenn á eftirlitsferð um miðbæinn veittu því athygli skömmu seinna að karlinn var
kuldalegri en hann átti að sér enda helsta skjólflíkin horfin.

Margir um trefilinn
Eftir stutta leit kom þýfið í leitirnar, og höfðu sökudólgarnir og fleiri vegfarendur á
næturgöltri strengt trefilinn á milli sín. Lögreglan lagði hald á hann en þótti torvelt að draga einhvern
til ábyrgðar fyrir verknaðinn, enda margir með hönd á þýfinu. Trefillinn var vafinn um háls
snjókarlsins að nýju í gær, en tölur sem prýddu hann voru skemmdar þessa sömu nótt og var ekki
búið að sauma þær á karlinn aftur þegar krakkarnir á leikskólanum Flúðum litu á Snæfinn snjókarl í
gærmorgun.
Tyrkneskt blað Sophiu til varnar

Verst að þessi grimmd verður til í nafni íslams

SJÓNVARPSÞÁTTUR, sem sýndur var í Tyrklandi á fimmtudag um mál Sophiu Hansen og dætra
hennar, hefur vakið umtal og í grein á leiðarasíðu Sabah, þriðja stærsta dagblaðs Tyrklands, sagði
á laugardag að í þessum þætti hefði "allt Tyrkland horft á grimman föður, tvær heilaþvegnar dætur
og þjáða móður".

Í greininni, sem Can Atakli skrifar, sagði að á skjánum hefði mátt líta "grimmd og harmleik móður".
"Ég er viss um að allir foreldrar, sem horfðu á símtal Sophiu Hansen og dætra hennar, [Dagbjartar]
Vesile og [Rúnu] Aysegul í Arena-þætti Agurs Dundars [á fimmtudag] fundu til sársauka í sál sinni
og áttu erfitt með að hemja tárin," skrifaði Atakli. "Það versta er að þessi harmleikur eða grimmd
verður til í nafni íslams."

Tilefni greinarinnar var sjónvarpsþáttur þar sem Sophia Hansen og Ísak Halim Al, fyrrverandi
eiginmaður hennar og barnsfaðir, sátu fyrir svörum. Dæturnar, Dagbjört og Rúna, komu fram í síma.
Í greininni er málið rakið, sagt að Halim Al hafi breyst í strangan múslima við komuna aftur til
Tyrklands og látið dæturnar ganga með sjal. Ekki sé að furða að hann hafi fengið stuðning
einhverra róttækra samtaka við þessi umskipti. Sagði einnig að dómstólum hefði ekki tekist að
hafa nein jákvæð áhrif í vandræðum móðurinnar: "Í stað heimsóknarréttinda gat hún ekki hitt
dæturnar."

Í greininni sagði að ekki hefði verið hægt að standa kyrr og forðast undrun meðan dæturnar töluðu
við móður sína:

"Dæturnar sögðu "við viðurkennum þig ekki sem móður okkar" á mjög kaldan hátt. Ekkert barn,
sérstaklega ekki á þessum aldri, getur talað við móður sína með þessum hætti. Nema þá auðvitað
að börnin séu undir miklum þrýstingi eða hafi verið heilaþvegin. Móðir er alltaf móðir."

Sagði að Sophia hefði greinilega fyllst skelfingu við að heyra orð dætranna, en faðirinn "hlustaði á
hin "ótrúlegu orð" dætra sinna og ljómaði".

Sagt hvað þær áttu að segja
Greinarhöfundur tók sérstaklega til þess að dæturnar hefðu sagt "við ákváðum þetta af frjálsum
vilja" í fimmgang og spurði: "Er eðlilegt að heyra slíkt frá 15 og 16 ára stúlkum? Það er greinilegt
að þeim var sagt hvað þær áttu að segja eða voru jafnvel látnar hafa það skriflega."

Höfundurinn skrifaði í Sabah að Halim Al kallaði sig ef til vill múslima, en í íslam væri hvergi kveðið
á um að skilja ætti að móður og börn. Stjórnanda þáttarins hefði greinilega verið brugðið og hann
bundið enda á þáttinn eftir að heyrðist í dætrunum fremur en að leyfa föðurnum að ráðast á
móðurina að nýju. "Allt Tyrkland fylgdist með grimmum föður, tveimur heilaþvegnum dætrum og
þjáðri móður," skrifaði höfundurinn. "Allt var þetta harmleikur. Ég óska þess frá hinu dýrlega
almætti að þessi undirföruli maður eigi það líf, sem hann á skilið."
Halldór Reynisson aðstoðarprestur

Viðbrögð við Spaugstofuþætti of hörð

Allt of langt gengið að fara með málið fyrir útvarpsráð

HALLDÓR Reynisson, aðstoðarprestur í Neskirkju, sagði í útvarpsmessu á Rás 1 á sunnudag að
honum þætti að viðbrögð nokkurra fulltrúa kirkjunnar við Spaugstofuþættinum, sem sýndur var í
Sjónvarpinu laugardagskvöldið fyrir páskadag, hafi verið alltof hörð. Hann sagði ennfremur að það
hefði verið ástæðulaust og allt of langt gengið að fara með málið fyrir útvarpsráð, hvað þá til
ríkissaksóknara.

"Það hefði einfaldlega nægt að koma fram með einhvers konar yfirlýsingu eða umkvörtun um það
að þátturinn hefði kannski verið ósmekklegur," sagði hann í samtali við Morgunblaðið í gær. "Mér
finnast svona viðbrögð ekki góð. Menn eiga ekki að grípa til of sterkra úrræða þegar tilefni gefst
ekki til þess. Og þetta hefur ekki hjálpað kirkjunni," sagði hann.

Halldór sagði einnig að þessi viðbrögð hefðu vakið upp vangaveltur hjá ýmsum mönnum um það
hvort núverandi samband ríkis og kirkju væri eðlilegt. Umræðan um slíkt sé reyndar alltaf í gangi
bæði meðal manna innan þjóðkirkjunnar og þeirra sem standa utan hennar, en þetta mál hafi
kannski orðið til þess að efla þá umræðu enn frekar. "Í útvarpspredikuninni velti ég upp þessari
umræðu ekki síst í ljósi þess að nú er kirkjan á ákveðnum tímamótum. Það stendur fyrir dyrum að
velja nýjan biskup og stutt er í að haldið verður upp á þúsund ára afmæli kristnitöku í landinu. Og
þá er ástæða til að huga að þessum málum vegna þess að nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp til laga
um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar."

Aðskilnaður að borði og sæng
Halldór segir að umræðan um tengsl ríkis og kirkju snúist fyrst og fremst um það hversu sterkt
þetta samband eigi að vera. "Sjálfur tel ég að það eigi að vera aðskilnaður "að borði og sæng" á
milli ríkis og kirkju," segir hann. "Mér finnst að kirkjan eigi að vera mun sjálfstæðari en hún er núna
og kemur til með að vera samkvæmt nýja frumvarpinu. Mér þykir eðlilegt að kirkjan beri fulla ábyrgð
á sínum fjármálum, enda komi til eignaskiptasamningur milli ríkis og kirkju. Að hún verði sjálf með
sína stjórnsýslu, löggjöf og úrræði í agamálum til dæmis, en haldi eftir sem áður ákveðnu
menningarlegu sambandi við ríkið, af þeirri ástæðu að íslensk og kirkjuleg menning séu svo
samtvinnaðar."
Reglur um sprengingar voru þverbrotnar

Bannað er að nota kjarna og skylt er að byrgja sprengisvæði í námunda við mannvirki og
umferð. Hvorugt var gert þegar Völur hf. sprengdi klöpp í Klettagörðum sl. föstudag.


VERKTAKAFYRIRTÆKIÐ Völur hf. þverbraut reglur við sprengingu í Klettagörðum síðastliðinn
föstudag. Fyrirtækið notaðist við kjarnasprengiefni, sem bannað er að nota þar sem mannvirki eða
umferð er innan 300 metra fjarlægðar frá sprengisvæði og þá var heldur ekki farið að reglum um
byrgingu. Grjót þeyttist í mörg hundruð metra fjarlægð frá sprengisvæðinu og olli miklu tjóni á bílum
og húsum. Sjóvá-Almennar er tryggingafélag Valar. Guðmundur Jónsson, yfirmaður tjónadeildar,
segir að almennt gildi það að tryggingatakar beri sjálfir ábyrgð á tjóni sem þeir valda ef rekja megi
það til vítaverðs gáleysis.

Rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík er að hefja rannsókn á málinu. Samkvæmt upplýsingum
frá lögreglunni er fastlega búist við því að málið verði sent ríkissaksóknara til ákvörðunar að
rannsókn lokinni. Á þriðja tug bíla skemmdust í grjótfluginu og einnig urðu skemmdir á húsum.

Grafist fyrir um orsakir
Guðmundur Jónsson, yfirmaður tjónadeildar Sjóvár-Almenna, sagði að ekki væri búið að meta að
fullu það tjón sem orðið hefði í sprengingunni sl. föstudag. Hann segir að almennt séu
verktakafyrirtæki með frjálsa tryggingu og þess vegna spurning hvort tryggingafélagið komi yfir
höfuð eitthvað að þessu máli. "Í skilmálum allra trygginga er tekið fram að sé vítavert gáleysi orsök
tjóns beri tryggingatakar það í flestum tilfellum sjálfir. Þetta gildir í öllum almennum
tryggingaskilmálum," segir Guðmundur.

Skoðunarmenn frá tryggingafélaginu skoðuðu tjónið á föstudag en engar upplýsingar liggja fyrir um
tjónamat.

Eyjólfur Sæmundsson, forstöðumaður Vinnueftirlits ríkisins, segir rannsókn málsins enn vera í
fullum gangi. "Við erum að grafast fyrir um orsakir slyssins og hvernig staðið var að sprengingum
þarna. Það verður hreinsað mjög vel frá sprengisvæðinu og við ætlum að skoða hvernig bergið lítur
út en það skiptir máli til þess að fyrirbyggja frekari slys af þessu tagi," sagði Eyjólfur.

Hann sagði að þarna hefðu verið brotin mjög skýr og óumdeilanleg ákvæði í reglugerð um
sprengingar. "Það er alltaf skylt að hafa mottur eða annað viðlíka efni til þess að hindra grjótflug frá
sprengistað, hvar svo sem sprengt er. Það er heimild að víkja frá því á víðavangi þegar sprengistjóri
dæmir að það sé engin hætta á því að grjótflug geti valdið tjóni," sagði Eyjólfur.

Notkun kjarna bönnuð
Eyjólfur sagði að töluverður fjöldi af slíkum óhöppum hefði orðið á undanförnum árum. Vinnueftirlitið
hefði talið að menn virtu betur reglur um þessi mál og hefði sprengingin síðastliðinn föstudag komið
starfsmönnum eftirlitsins í opna skjöldu.

"Það er nýbúið að senda verktökum dreifibréf og nýja reglugerð sem dómsmálaráðuneytið samdi
um þessi mál. Hún tók gildi í fyrra. Hún kveður á um margvíslega hluti sem ekki var nákvæmlega
kveðið á um áður, þ.ám. skyldu til þess að byrgja klöpp sem sprengd er," sagði Eyjólfur.

Árið 1991 varð svipað óhöpp þegar sprengd var klöpp í námunda við leikskóla í Grafarvogi. Þá rigndi
grjóti yfir leiksvæði leikskólans og víðar. Eyjólfur segir málin skyld að nokkru leyti. Þar hafi
sprengisvæðið verið byrgt en í báðum tilvikum var notast við kjarna.

Samkvæmt tilkynningu frá 1991 er bannað að nota kjarna sem sprengiefni ef atvinnustarfsemi,
umferð eða svæði þar sem fólk dvelst eða fer um, er nær sprengisvæði en 300 metrar. Í
Klettagörðum var notaður kjarni í þremur holum. Eyjólfur segir að í flestöllum óhöppum sem hafi
orðið hafi verið notast við kjarna.

"Kjarni er ódýrt sprengiefni sem gert er úr áburði og olíu. Hann getur verið ágætur við margar
kringumstæður sem sprengiefni, sérstaklega ef rétt er staðið að blönduninni. Hann hefur hins vegar
þann galla að hann springur hægar en dínamít. Sundrunarhraði efnahvarfsins í kjarna er um 1.100
metrar á sekúndu en í dínamíti er sundrunarhraðinn um 5-6 þúsund metrar á sekúndu. Þegar kjarni
er settur í holu í mjög föstu bergi eru meiri líkur á því að bergið standi á móti þrýstingnum þegar
sprengiefnið sundrast. Þetta er hægasta sprengiefnið á markaðnum.

Sprengistjóri Valar segir að þarna hafi verið mun harðara berg en þar sem þeir sprengdu áður.
Botninn á holunum myndar það þétt aðhald að sprengiefninu að sprengingin beinist öll upp og
þeytir grjóti skáhallt í loft upp. Í slíkum sprengingum þeytast mottur allt að 50 metra upp í loftið.
Þarna er því ekki víst að mottur hefðu dugað," sagði Eyjólfur.

Mikill glannaskapur
Eyjólfur segir að það sé alfarið í hendi sýslumanns í viðkomandi sveitarfélagi hvort verktakinn verði
sviptur sprengileyfi í kjölfar slíks máls.

"En við sendum öll svona mál til viðkomandi sýslumanns og biðjum hann um að taka afstöðu til
sviptingar. Við drögum okkar ályktanir af okkar rannsóknum og tæknilegar niðurstöður hvað varðar
brot á reglum sendum við til lögreglustjóra," sagði Eyjólfur.

Hann segir að starfsmenn Valar hafi sýnt mikinn glannaskap með því að standa á klettabrún þar
sem sprengt var, eins og sjónarvottar fullyrtu í samtali við Morgunblaðið á föstudag. Grjót fari í keilu
upp á við og dreifist þannig um stórt svæði. Sá sem stendur mjög nærri sleppur því líklega við
grjótflug en hins vegar megi alltaf eiga von á því að stakur steinn skjótist á ská aðra leið.

"Það hefur verið viðloðandi dálítill glannaskapur í kringum sprengingar. Mönnum þykir eitthvað
gaman að standa í þessu en glannaskapur má ekki eiga sér stað undir nokkrum kringumstæðum,"
sagði Eyjólfur.Gert með Concordance